Mynd af jarðskjálftasvæðinu suðvestan við Keili

DSC_0077 Keilir, toppur, S b

Jarðfræðingar segja að „betri“ staður fyrir eldgos á Reykjanesi sé vandfundinn en suðvestan við Keili. Þetta mun vera rétt. Þarna er afar fáfarið en víða ægifagurt og þarf ekki annað en að skoða loftmyndir.

Suðvestan við Keili eiga flestir jarðskjálftar undanfarinna daga upptök sín. Sagt er að þar í iðrum jarðar sé kvika að þrengja sér upp á við. Slíkt gerist jafnan þegar landrekið skilur eftir sprungur, kvikan fyllir þær. Óvíst er að hún komi nokkru sinni upp á yfirborð jarðar.

Myndin hér til hliðar er tekin af Keili. Hún er gerð úr þremur myndum og því er horft frá suðri til vesturs. Þarna er Þráinsskjöldur, dyngja sem varð til fyrir um 7.000 árum.

Á myndina hef ég sett nokkur örnefni og að auki tvær línur. Milli þeirra eru upptök langflestra jarðskjálfta sem skekið hafa Reykjanes og að auki höfuðborgarsvæðið. Ráðlegg lesendum að smella á myndina til að stækka hana og verður hún þá skýrari. 

Lengst til vinstri er Vesturháls sem líka nefnist Núpshlíðarháls. Handan hans er Móhálsadalur og einnig Austurháls sem nefnist líka Sveifluháls. Þessir tveir hálsar eru með stefnuna suðvestur-norðaustur. Og hvað er svo merkilegt við það? Jú, skjálftarnir umræddu hafa sömu stefnu. Verði eldgos verður það ábygglega á sprungu sem hefur þá stefnu. 

Munum samt að Vesturháls og Austurháls eru úr móbergi og urðu til við gos undir jökli á síðustu ísöld, svona í stuttu máli sagt.

Efst á Þráinsskildi eru „vatnaskil“ ef svo má að orði komast um nær vatnslaust svæði. Þetta þýðir að öllu skiptir hvar hugsanleg eldsprunga myndast. Sé hún norðarlega rennur hraun í áttina að Reykjanesbraut og byggðum þar. Sé hún aðeins sunnar rennur hraunið í áttina að Vesturhálsi og hugsanlega niður að Suðurstrandarvegi. Þarna má litlu skeika.

Myndist eldsprungan nálægt fjallinu sem nefnist Litli-Hrútur mun hraun renna inn í dalinn sem sést á myndinni og safnast þar saman þangað til það finni halla til suðurs eða vesturs.

Af þessu öllum má sjá að suðvestan við Keili er „góður“ staður fyrir eldgos. 

Svona í lokin er ekki úr vegi að nefna þann draumspaka kunningja minn sem ég hitti um daginn. Hann heldur því fram að annað hvort gjósi í sjó eða hraun renni í sjó fram. Segist ekki vita hvort verði raunin. Tek þessu mátulega trúanlegu, veðja þó frekar á jarðfræðinga um þessi efni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband