Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Enn vantar Reykjavíkurbréfið í sunnudagsmogggann

Stundum er Mogginn hundleiðinlegur. Sérstaklega þegar hann Davíð Oddsson gleymir að skila Reykjavíkurbréfinu í sunnudagsblaðið, rétt eins og núna. Hvernig er hægt að byrja nýja viku án Reykjavíkurbréfsins? Jafnvel þó Davíð sé að mæra Trump og atyrða nýja forseta Bandaríkjanna sem ég man aldrei hvað heitir.

Þessi pistill er um slæmt minni, gleymsku.

Uppáhalds fyrrverandi sjónvarpsmaður þjóðarinnar skrifar pistil í sunnudagsblaðið, hann þarna ... Logi eitthvað. Hann skrifar stundum ansi vel, góður stílisti. Gerir sig stundum vitlausari en ég held að hann sé. Nú skrifar hann um blaðburðarbörn. Í gamla daga bar hann út blöð og minningin um iðjuna er ljúf og fögur í huga hans. Hann segir frá því að hafa þröngvað dóttur sinni til að bera út blöð og safna þannig peningum til að kaupa hross. Logi þessi er auðvitað orðinn að afgömlu hrossi. Skil ekki í honum eða öðrum sem lesa pappírsdagblöð. Hef ábyggilega verið áskrifandi að Mogganum í fimmtán ár án þess að fá pappírseintak. Les hann á netinu. Hreinlegra og einfaldara.

Í gamla daga bar ég út Vísi. Það var ágætt en hundleiðinlegt að rukka. Ég gekk í Hlíðaskóla eftir að hafa útskrifast með láði úr Ísaksskóla. Strákarnir í bekknum mínum voru stundum óþekkir. Ekki ég. Var gæðablóð, hlýðinn og kurteis. Minnir mig. Einu sinni voru hinir strákarnir óþekkir í smíðatíma hjá honum Birni, ekki ég. Í refsingarskyni vorum við allir látnir sitja eftir, í marga klukkutíma. Minnir mig. Þá komst ég ekki í að bera út Vísi á réttum tíma. Það var í eina skiptið sem ég fékk kvartanir frá blaðinu. Lesendur vildu fá blaðið strax eftir hádegi. Eftir þetta var ég alltaf fúll út í Björn smíðakennara, er það jafnvel enn þann dag í dag, og er hann samt löngu hættur kennslu og farinn yfir móðuna miklu.

Óboj, sögðum við í gamla daga og var tónninn mæðulegur. Þetta varð mér ósjálfrátt að orði er ég sá að aðalviðtal sunnudagsblaðs Moggans var við Björgvin þarna hvað hann nú heitir Halldórsson, söngvara. Þetta fjölmiðlalið er alltaf samt við sig. Þúsund sinnum hafa verið tekin viðtöl við Bjögga og við lesendur vitum eiginlega allt um manninn. Miklu meira en hollt er. Hvað er eiginlega ósagt um hann? Ekkert. Ég lét augun hvarfla yfir viðtalið. Þau staðnæmdumst við þetta og athyglin vaknaði:

Annars átti það nám vel við mig; ég hef alltaf verið mikill græju- og tölvukarl. Macintosh-maður frá upphafi. Svo því sé til haga haldið. Ég hef alltaf fylgst vel með í tækninni og mönnum á borð við Steve Jobs og Elon Musk sem gert hafa mikið fyrir okkur með þekkingu sinni, dirfsku og framsýni.

Sko, hann Bjöggi er bara helv... góður söngvari. Ég er líka forfallinn Makka-kall, frá upphafi. Og núna gaf ég mér tíma til að lesa allt viðtalið við Bo. Sá þá að einn ritfærasti blaðamaður landsins hafði tekið það. Man aldrei hvað hann heitir, þarf ekki að vita það, ég þekki stílinn. Nöfn skipta litlu en hann heitir Orri eitthvað. Minnir mig (sérstaklega þetta „eitthvað“). Maðurinn skrifar næstum því hálft sunnudagsblaðið og heldur því eiginlega á floti þó ýmislegur hégómi eins og stjörnuspár og grein um föt dragi það niður.

Sá ágæti blaðamaður Andrés Magnússon heldur sínum vana og skrifar algjörlega óþarfan pistil um atburði vikunnar. Skil ekki þörfina á svona upprifjun, ekki frekar en „fréttaannál ársins“ og álíka. Þó ég muni aldrei neitt finnst mér dálkurinn skrýtinn. Hér eru dæmi:

  • Mikill fjöldi afbókaði dvöl í orlofshúsum um páskana, án vafa vegna hertra sóttvarna. 
  • Fjórir hafa gefið kost á sér til þess að gegna embætti umboðsmanns Alþingis ...
  • Þriðja þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið til landsins ...
  • Risastór landfylling er fyrirhuguð í Elliðaárvogi undir stækkun Bryggjuhverfis.

Þetta er svo hrikalega óskemmtilegt að það truflar mig. Er það virkilega svo að ekki væri hægt að nota plássið til að tala við enn einn heimsfrægan Íslendinginn, Ladda, Kristján stórsöngvara, landsliðsmann í fótbolta, snoppufrítt andlit úr sjónvarpi, álitsgjafa með ofurþykkar bótox-varir og barm í stíl, og önnur undur í þjóðfélaginu?

En þetta er nú allt aukaatriði. Sem áskrifandi spyr ég einfaldrar spurningar og vil frá svar: Hvar er Reykjavíkurbréfið? Mér finnst ég svikinn og krefst endurgreiðslu.


Hvað er list og lærdómsþvaður ef lærirðu ekki að vera maður.

Morgunblaðið er góður fjölmiðill og ég hef mikla ánægju af honum. Les með áhuga marga fasta pistla eins og Tungutak sem fjallar um um íslenskt mál sem margir íslenskufræðingar skiptast á skrifa, Umræðan sem Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra og alþingismaður skrifar og Fróðleiksmola eftir Hannes H. Gissurarson. Allir þessir pistlar birtast í laugardagsblaðinu og eru á sömu blaðsíðunni og þar dvelst manni drjúga stund. 

Í sunnudagsblaðinu birtist Reykjavíkurbréf og það hefur verið fastur dálkur allt frá því að Bjarni Benediktsson var ritstjóri frá 1956 til 1959. Ekki hafði ég aldur til að njóta skrifa hans en löngu síðar las ég bréfin frá ritstjórunum  Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni. Og nú skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri, Reykjavíkurbréf. Hann hefur leikandi léttan stíl, prýðilegt skopskyn og segir frá reynslu sinni og skýrir stjórnmálaviðhorfið. Oftast er ég sammála Davíð, þó ekki alltaf.

Einn er sá dálkur sem ég hef mikla ánægju af og það er Vísnahornið sem birtist daglega og er í umsjón Halldórs Blöndal, fyrrum ráðherra og alþingismanns. Ekki þekki ég Halldór persónulega en hann hefur einstakan skilning á vísum og kann urmul af þeim. Áhugaverðast er þó að hann birtir vísur eftir marga og fer ekki í manngreinarálit.

Stundum skrifa ég hjá mér skemmtilegar og fróðlegar vísur sem ég les í Vísnahorninu. Hér eru nokkrar skondnar.

Ingveldur Einarsdóttir orti þetta þegar Kvæðakver Halldórs Laxness kom út og hrifningin leynir sér:

Þitt hef ég lesið, Kiljan, kver; 
um kvæðin lítt ég hirði,
en eyðurnar ég þakka þér; 
þær eru nokkurs virði.

Hjálmar Jónsson sendi Halldóri Blöndal póst og segir:

Það var á lokadögum þingsins eitt vorið að við sátum saman nokkrir þingmenn í hádegismat. Svínakjöt var í matinn, en það var ólseigt og óspennandi. Hafandi tuggið um hríð ýtti Páll Pétursson frá sér diskinum og kvaðst sjaldan hafa lagt sér til munns lakari málsverð. Þá varð til vísa:

Meðan lifa málin brýn
mæti ég þingraun hverri.
Ég hef borðað betra svín
og borðað með þeim verri.

Í Vísnahorninu birtist þessi vísa eftir Örn Arnarson og er úr bókinni Illgresi:

Dýrt er landið, drottinn minn,
dugi ekki minna
en vera allan aldur sinn
fyrir einni gröf að vinna.

Arnór Árnason frá Garði orti:

Lítið mína léttúð græt,
lífinu er þannig varið.
Ennþá finnst mér syndin sæt,
sækir í gamla farið.

Og núna í dag, skírdag 1. apríl 2021, birti Halldór þetta eftir Matthías Jochumsson:

Hér verða kaflaskil í kvæðinu og heldur áfram með grískri tilvitnun sem útleggst „þekktu sjálfan þig“:

„Gnóþi sauton“ Grikkinn kvað;
gott er að læra og meira en það;
en hvað er list og lærdómsþvaður
ef lærirðu ekki að vera maður.

Þessi síðasta vísa er gull, sérstaklega síðustu tvö vísuorðin. Ætla að reyna að muna þau þegar ég verð stór.

Oft hef ég óskað þess að vera ljóðskáld. Í staðinn er ég frábært leirskáld. Og illa gengur mér að muna vísur en það er list.

Móðir mín kunni ótal ljóð og vísur, og þurfti aðeins að heyra einu sinni til að muna. Hún var alin upp á ljóðelsku heimili þar sem bókmenntir skiptu nærri því meira máli en bústörfin. Því miður lærði ég lítið í ljóðagerð af henni eða hún gleymdi að kenna mér. Hún gleymdi líka að kenna mér að drekka kaffi. Þetta tvennt, kunnáttuleysi í ljóðum og getuleysi í kaffidrykkju, hefur háð mér einna mest í lífinu. Og stendur ekki til bóta.

Annan hæfileikamann í ljóðum og vísum þekki ég dálítið og það er Ómar Ragnarsson. Hann man vísur og ljóð í tonnatali ef svo má segja. Einu sinni fékk ég hann til að vera á vísnakvöldi í bæjarfélagi úti á landi. Mesta skemmtunin var áður en dagskráin byrjaði er Ómar þuldi upp vísur sem hann hafði lært á langri æfi. Ein vísa leiddi til annarrar og eiginlega máttum við varla vera að því að fara á vísnakvöldið.

 

 


Ríkislögreglustjóraleiðin, stikaður vitleysisgangur

Screenshot 2021-03-30 at 11.03.04Talsverður munur er á tveimur gönguleiðum að gosstöðvunum í Geldingadal. Sú sem flestir fara er ríkislögreglustjóraleiðin, ómöguleg gönguleið, brött og torfarin að hluta. Svo er það hin, um Nátthagadal, örlitlu vestar. Einkar þægileg leið, enginn kaðall, ekki snarbrött brekka og sárafáir á ferð.

Hægra megin er mynd af visir.is. Hún sýnir glögglega hversu andstyggilega leiðinleg ríkislögreglustjóraleiðin er. 

Kaðallinn í brattanum hefur verið tilefni til ótal frétta vegna smithættu. Göngumenn geta borið smit í hann og næsti maður tekur á kaðlinum og kóvit-19 veiran á greiða leið í fólk. Vinstra megin á myndinni sést ofan í Nátthagadal.

Til samanburðar er hér mynd sem Helena Káradóttir tók í fyrradag.

NátthagadalurMyndin er tekin ofarlega í Nátthagadal sem breiðir úr sér fyrir neðan. Um hann er besta leiðin að gosstöðvunum, hvorki leiðinleg né erfið eins og ríkislögreglustjóraleiðin, og alls ekki brött. Svo er það stór kostur að sárafáir hafa enn sem komið er uppgötvað þessa frábæru leið. Þó geta þúsundir farið þarna um án vandræða.

Þarna má auðvitað að gera smávægilegar breytingar á gildraginu sem er fremst á myndinni. Þar mætti auðveldalega útbúa tvo stíga, einn fyrir þá sem eru á uppleið og aðra fyrir þá sem eru að fara til baka. Líklegast mun þetta gerast sjálfkrafa ef fleiri fara þarna um.

Þar að auki mætti búa til mörg þúsund bílastæði í dalnum með lítilsháttar lagfæringum á veginum þangað.

En, nei. Markmið Ríkislögreglustjóraembættisins, almannavarna landsins, er að gera fólki erfitt fyrir. Tefja fólk, koma í veg fyrir að það fái notið eldgossins nema með því að fara stórhættulega gönguleið. Slíkt kallast vitleysisgangur.

Hér er mynd af forsíðu Fréttablaðsins í dag og segir hún alla söguna.

Screenshot 2021-03-30 at 12.31.04


Nátthagadalur, besta leiðin að gosstöðvunum og nóg af bílastæðum

210329 Gönguleið gos Athuganir á gervitunglagögnum benda til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum.

Svo segir í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands frá 26.3.21.

Í upphafi goss var ekki talið ráðlegt að búa til gönguleið að gosstöðvunum með því að fara um dalinn sem kenndur er við Nátthaga, Nátthagadal. Ástæðan var sú að gangurinn er talinn vera undir dalnum og þar gæti gosið. Ekki er lengur talin hætta á þessu.

Um Nátthagadal er langbesta aðgengið að gosstöðvunum. Engin hætta á ferðum. Engin þörf á að göngufólk sé með brodda, ísöxi eða annan álíka útbúnað.

Nátthagadalur er rétt rúmlega einn km að lengd, því sem næst rennisléttur. Hann þrengist innst og endar í víðu gildragi sem er afar auðvelt yfirferðar, hvort heldur er upp eða niður. Fyrir ofan er dalverpi sem kalla má Geldingadal eystri. Úr honum er auðvelt að ganga á fellið vestan þess og af því norðanverðu er gott útsýni yfir Geldingadal, eldstöðvarnar og hraunið.

Besta gönguleiðin

Þetta er besta gönguleiðin að gosstöðvunum og miklu minni hætta á óhöppum og slysum í bröttum gönguleiðu sem nú hafa verið stikaðar. Sagt er að um síðir muni hraunið renna ofan í Nátthagadal, það er að segja dragist gosið á langinn eins og spáð er.

IMGL4108 copy10.000 bílastæði

Nátthagadalur er geysistór, líklega nærri 250.000 fermetrar og er þá aðeins sléttlendið talið. Hæglega mætti koma þar fyrir fjölda bílastæða. Með góðri skipulagningu nærri tíu þúsund og er þó æði rúmt um alla.

Gjaldtaka

Landeigendur ættu að taka sér það fyrir hendur að útbúa bílastæði og rukka um 500 krónur fyrir stæðið, jafnvel 1000 krónur. Tekjurnar ættu að duga fyrir skipulagningu dalsins og gerð gönguleið upp gildragið sem áður var nefnt. Jafnvel tvo göngustíga, einn til uppferðar og annan niður. Og hagnaður ætti að vera nógur.

IMGL4148 copyLandspjöll

Einhver kann að spyrja hvort landspjöll fylgi ekki svona bílastæðum. Því er til að svara að dalurinn er algjörlega ógróinn. Renni hraun niður í dalinn þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af raskinu.

Renni hraun ekki í dalinn er einfalt mál að slóðadraga hann og útmá þannig öll merki um akandi umferð. Að því loknu má einfaldlega sá og rækta þar gras eða byrja á trjárækt. Lúpínan er góður grunnur fyrir annan gróður.

Lögreglan

Hingað til hefur lögreglan verið sofandi. Ekkert vitað hvað eigi að gera eða hvernig og virðist ekki taka ábendingum. Ávirðingarnar eru fjölmargar:

  1. Almenningur er látinn leggja bílum sínum á annarri akrein þjóðvegarins.
  2. Einstefna er tekin upp.
  3. Bílastæði eru svo fágæt að fólk gengur jafnvel frá Grindavík sem er óboðlegt.
  4. Lokun þjóðvegarins við Krýsuvíkurafleggjarann eru til mikils óhagræðis fyrir fólk.
  5. Gerð er gönguleið um illfært land.
  6. Ekkert er hugað að gönguleið um Nátthagadal.
  7. Fólki er smalað frá gosstöðvunum vegna þess að björgunarsveitarmenn eru sagði þurfa að sofa.
  8. Landeigendur loka landi sínu og lögreglan tekur að sér að gæta þess.
  9. Í stað þess að auðvelda fólki aðgengi að gosstöðvunum er það torveldað.
  10. Vegna gaseitrunar var sett upp varagönguleið enn fjarri Geldingadal en sú fyrri.

Fleira mætti telja. Nú er eiginlega nóg komið.

Hingað til hefur allt komið lögreglunni á óvart. Hún þekkir ekki landið, hefur enga reynslu af gönguferðum í óbyggðum og tekur yfirleitt rangar ákvarðanir eins og glögglega má sjá af handarbaksvinnubrögðum hennar í upphafi goss.

Er ekki kominn tími til að velviljað fólk taki lögregluyfirvöld tali og leiði þeim fyrir sjónir hagsmuni almennings?

Myndir

  1. Efsta myndin er kort af dalnum og gönguleiðinum upp að gosstöðvunum. Punktalínurnar eru gönguleiðirnar sem yfirvöld létu gera. Gulu línurnar eru annars vegar hugsanleg bílastæði í Nátthagadal og svo gönguleiðin upp úr honum.
  2. Nátthagi eða Nátthagadalur. Stór og mikil dalur. Innst má sjá gildragið sem auðvelt er að ganga upp að gosstöðvunum.
  3. Síðasta myndin er tekin í gildraginu. Þá var farið að snjóa en greinilega má sjá að þarna er tiltölulega aðvelt að ganga og brattinn lítill. Hentar öllu göngufólki.

 

 

 


Hálfur gígurinn í Geldingadal hrundi í nótt

GígurEinhvern tímann um miðja nótt hrundi gígurinn í Geldingadal. Þetta má greinilega sjá á beinu vefstreymi Ríkisútvarpsins.

Enginn hefur enn tekið eftir þessu enda snjóar núna þegar þetta er skrifað. Kosturinn við streymið er sá að hægt er að skoða síðustu klukkustundir en ég get samt ekki séð hvenær í nott hann hrundi.

Streymið hjá Mogganum liggur niðri en upplausnin þar hefur verið mjög mikil þar og gaman að horfa á gosið á stórum skjá og ekki síður að heyra drunurnar.

Hér er mynd sem ég tók af gígnum í síðustu viku og sést nokkuð vel hvað gerst hefur.

IMGL4267 copy AurGígurinn er núna opin til norðurs eða norðvesturs. Helmingur hans hrundi en gosið er óbreytt. Þetta hafði engin áhrif á það. Líklega mun þetta þýða að hraunið heldur næstu daga áfram að renna í dalinn en ekki úr honum í Geldingadal eystri.

Nú er gígurinn ekki ósvipaður gígnum á Fimmvörðuhálsi. Sá er lokaður til suðvesturs, er hálfur eins og þessi. Svo kann ýmislegt að breyst þegar dagar líða.


Alls ekkert útivistarveður Ríkisútvarpsins

RúvEinhvern tímann kemur að því að fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins verður rétt. Undanfarna daga hefur hún ekki verið það. Stofnunin kallar sig „útvarp í almannaþágu“ og álíka en stendur ekki alltaf undir nafni, ekki frekar en aðrir fjölmiðlar. Allir þykjast vera í þágu lesenda, hlustenda og áhorfenda en svo er ekki alltaf. Því miður.

Gallinn er sá að Ríkisútvarpið er með beint streymi frá gosstöðvunum í Geldingadal. Í útsendingunni má glögglega sjá að ágætt útivistarveður hefur verið flesta daga síðan gosið byrjaði.

En hvað er gott veður til útvistar? Sumir segja að veðrið skipti engu máli, bara klæðnaður fólks og annar útbúnaður til göngu. 

Aðrir hafa fundið upp orðið „gluggaveður“. Það notar „of-fólkið“ og sparar það ekki. Úti er of kalt, of hvasst (of mikill vindur á fjölmiðlamáli), of mikil rigning (eða bara rigning), of lítil sól. Viðbárurnar eru margar og aumar.

Ríkisútvarpið hefur hins vegar tekið að sér það verkefni að segja fólki til um útivist en hefur því miður nær alltaf rangt fyrir sér. Sífelldur áróður gegn útvist er lítt hvetjandi. Byggir upp bölvaðan aumingjaskap sem endar með því að fólk leggur upp laupanna heima í stofu horfandi og étandi sykurvörur. Þá væri nú meiri mannsbragur á því að berjast á móti vindi á „Kaldadal“: 

Ég vildi óska, það yrði nú regn
eða þá bylur á Kaldadal,
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
ofan úr háreistum jöklasal.

Þurfum á stað, þar sem stormur hvín
og steypiregn gerir hörund vott.
Þeir geta þá skolfið og skammast sín,
sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

Undir Kaldadal heitir þetta ljóð eftir Hannes Hafstein, tvö erindi af fimm. 

Ég þreytist ekki að vitna í bók Guðmundar Einarssonar listamanns frá Miðdal:

„Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll.

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.“ (Fjallamenn, blaðsíða 161)

Í stað þess að letja fólk til útiveru eiga fjölmiðlar eða hvetja. Ekki láta fréttirnar fjalla um örfáa göngumenn sem eru illa búnir á ferð sinni að gosstöðvunum heldur lífsreynslu þeirra sem farið hafa.

Alamannavarnardeild Ríkislögreglustjóra vildi í upphafi goss að fólk gengi í Geldingadal frá Bláa lóninu eða Grindavík. Ég þekki fólk sem það gerði og komst til baka nær örmagna eftir nær ófæra leið yfir hraun og hlíðar. Og ekki hefur Ríkislögreglustjóri beðist afsökunar á frumhlaupi sínu. Líklegast stunda engir starfsmenn þar útivist. Þekkingarleysi er alvarlegur galli hjá valdstjórninni.

En um síðir verður fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins rétt, einhvern tímann kann að vera að veður til útivistar verði vont og jafnvel kann sú stund að renna upp að einhver útivistarmaður taki að sér ritstjórn vefsins.

Ruv 2Eftirskrift

Pistillinn birtist klukkan 08:25 og ég tók eftir því um nú hádegið að fyrirsögninni hefur loks verið breytt. Það er gott. Sjá meðfylgjandi mynd. 

 


Firn að sjá og heyra í Geldingadal

IMGL4156 1 AurNáttúra landsins er blind og miskunnarlaus. Hún getur verið fögur og heillandi en vissara er að halda vöku sinni, vera vel klæddur og fylgjast með umhverfinu. Við félaganir lentum í suðvestan útsynningi, hríð, snjókomu og frosti þegar við gengum upp að gosstöðvunum í Geldingadal. En á milli hryðja var ekki hægt að kvarta yfir veðrinu. Sá sem er vel klæddur og veit hvert hann er að fara, þekkir áttirnar, kemst þó hægt fari. 

Af meðfæddri óhlýðni gat ég ómögulega farið stikaða gönguleið að gosstöðvunum. Sé enga ánægju í að hanga í óslitinni fimm km halarófu, troða drullu og renna til í flughálli brekku.

IMGL4195 AurorMeð erfiðismunum gat ég talið ferðafélaga mína á að fylgja mér. Þeir sáu ekki eftir því þó hlýðnin við valdstjórnina væri í fyrstu að drepa þá. Nú mæla þeir óspart með þessari leið og gefa lítið fyrir yfirvöld.

Eftir að hafa skoðað aðstæður valdi ég dalinn þar sem Nátthagi er, Nátthagadalur er réttnefni. Rennislétt er inn eftir dalnum og innst þrengist hann í aflíðandi brekku eða gilnefnu. Þá er komið í Geldingadal eystri og þaðan er örskammt að gígnum og hvergi hægt að komast nær honum. Við gengum rólega og voru um einn og hálfan tíma á leiðinni.

IMGL4184 1 AuroGígurinn, sem óðum er að breytast í tvo gíga, er vart fagur, ekki frekar en byssuhlaup. Og þó. Að sunnanverðu má segja að hann sé formfagur, eldborg í mótun sem hugsanlega verður síðar eins og aðrar sem fyrirfinnast á Reykjanesskaganum. Nema því aðeins að þarna verði með tímanum til dyngja sem kaffæri öll dalverpi; Fagradalsfjall og Grindavík að auki.

Eldborgin og hraunið setur svip á landslagið og það gerðu björgunarsveitarmenn líka. Væntanlega þykir almenningi gott að geta treyst á aðstoð ef óhapp hendir. Við mættum nokkrum harðsnúnum sem báru óheppinn göngumann í börum. Einn á undan, einn á eftir og fjórir báru. Austan við gíginn beið björgunarsveitarbíll á fjörutíu og fjögra tommu dekkjum, kemst allt nema yfir glóandi hraun.

IMGL4299 AurEldfjallið er ekki alveg hljóðlaust en lítið er um drunur. Af og til þeytast kvikuslettur í öllum stærðum í loft upp og sumar lenda aftur ofan í gígnum en aðrar í hlíðar hans. Þá heyrist undarlegt hljóð, rétt eins og gler brotni. Kvikan kólnar í loftinu og mynda þunna glerkennda skán sem brotnar með þessum hljóðum.

Um kvöldið þegar dimmt var orðið sáust drónar með rauðum og hvítum ljósum þeysa yfir hrauni og gígum. Þeir gáfu frá sér sérkennilegt ýlfur. Í fyrstu var eins og það kæmi frá fólki, manni datt fyrst í hug sálum fordæmdra í helvíti.

Langt niðri í svelgnum drundi fljótið dökkva
á djúpsins grunni, orgi trylltra hranna.
Ég skyggndist niður, inn í móðu og mökkva.

En angist slegin, ógnir þær að kanna,
ég undan leit, — hver firn að sjá og heyra:
Helvítiseldur, grátur, gnístran tanna ... 

IMGL4345 1 AuroSegir Flóensskáldið Dante Alighieri (1265-1325) um hið dýpsta víti (í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar). Verkið heitir Hinn guðdómlegi gleðileikur og lýsir ferð hans um  víti (inferno), hreinsunareldinn (purgatorio) og loks Paradís (Paradiso).

Fólk var kátt, leiddi vart hugann að víti eða hreinsunareldi. Hér ríkti þjóðhátíðarstemning. Mikil gleði eftir gönguna og allir í adrennalínrúsi. IMGL4435 1 AurMikið hlegið og talað hátt, skeggrætt, handapat og bendingar. Sumir sungu, aðrir kveiktu á skotblysum og allir lýstu upp umhverfið með höfuðljósum og myndavélum. Við hrifumst með. Sáum konurnar sem sátu í mosanum, drukku kampavín og átu flatkökur með hangikjöti en kveiktu sér í sígrettu á eftir ...

Og ljósadýrðin stafaði ekki aðeins frá eldgígunum og hrauninu heldur líka frá höfuðljósunum. Strollan gat verið bílaumferð á Miklubraut.

Og auðvitað gerðist það sem síst skyldi að ég tapaði sjónar af ferðafélögum mínum í myrkrinu sem þýðir að þeir týndust. Aftur á móti halda þeir því fram að ég hafi týnst en það er bölvuð vitleysa.

IMGL4498 AuroDrjúga stund beið ég eftir þeim þarna sunnan við gíginn. Þar hugsaði ég, sem raunar gerist ekki oft, og fann það út að besta sjónarhornið á gígana væri því sem næst undir mekkinum sem lagði í norðaustur. Og ég arkaði upp á hæðirnar en viðurkenni að ég var doldið áhyggjufullur út af eiturgufunum og hélt að ég gæti hreinlega smitast þar af kóvit-19 eða drepist úr einhverju álíka. 

Uppi var hvorki meira né minna en björgunarsveitarbíll og nokkrir sveitarpiltar. Þóttist ég nú öruggur um að ekkert yrði mér að skaða og tók myndir.

IMGL4536Stuttu síðar heyrði ég skerandi hljóð frá piltunum rétt eins og glóandi kvika hefði fallið á þá. Annar þeirra blótaði og sagði að nú væri gasmælirinn kominn í gang og vissara að setja á sig gasgrímurnar. Mér brá auðvitað enda grímulaus. Þótti skynsamlegast að hverfa undan mekkinum og hætta kvöldröltinu, halda að bílnum. Eflaust myndi ég hitta félaga mína þar sem reyndist rétt.

Ég gekk í myrkrinu um Geldingadal eystri og niður í Nátthagadal og hugsaði með mér hversu heppinn ég væri að hafa valið þessa leið. Að vísu var einn galli á henni. Hann var sá að þarna undir hafði berggangurinn mælst og ef til vill gæti kvika komið upp í dalnum eða Borgarfjalli vestan við hann. En ferðin gekk áfallalaust og ég get hiklaust mælt með Nátthagadalsleiðinni. Þeir sem vilja forsjá valdstjórnarinnar, sem fátt veit, geta arkað stikuðu leiðina.


Löggan, Vegagerðin, almannavarnir og fjölmiðlar bregðast almenningi

GönguleiðÁbyrgð lögreglu og almannavarna var mikil þegar hún ákvað að loka Suðurstrandarvegi. Fyrir vikið þarf göngufólk sem vill skoða eldgosið í Geldingadal að ganga um tíu km að gosstöðvunum í stað rétt rúmlega fjögurra. Mörgum kann að þykja það nóg að ganga tólf km lengra en þarf.

Lögreglan, almannavarnir, Vegagerðin og líklega björgunarsveitarmenn í Grindavík eru algjörlega meðvitundarlausir um gönguleiðir að gosstöðvunum. Vegagerðin tók þá heimskulegu ákvörðun að loka Suðurstrandarvegi vegna þess vegkantur hafði sigið skammt frá Grindavík. Engin skýring var gefin á því að loka þyrfti veginum frá Krýsuvíkurafleggjaranum og til Grindavíkur, um tuttugu km leið. Vér einir vitum, virtist Vegagerðin segja.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði í viðtali við vef Ríkisútvarpsins:

Þetta er náttúrulega farið aðeins að síga og við vitum ekki nákvæmlega hvað er að gerast þarna því það eru sprungur á svæðinu út um allt.

Sprungur út um allt. Var þetta ekki dálítið orðum aukið? En enginn mælti þessu í mót, ekki lögreglan, almannavarnir eða björgunarsveitin í Grindavík. Þó vissu allir að þúsundir manna vildu skoða eldgosið.

Nei, enginn hugsaði um almenning. Kerfið er stillt á það sem hin opinbera stofnun Vegagerðin vill, ákvörðun hennar var óumdeilanleg, ekki áfrýjanleg. Vér einir vitum. Og kallarnir í löggunni, almannavörnum og björgunarsveitinni veita þegjandi samþykki sitt. Enginn virðist hugsa sjálfstætt. Hver apar upp eftir öðrum.

Sá eini sem hafði sjálfstæða skoðun var jarðeðlisfræðingurinn Magnús Tumi Guðmundsson, fjallamaður með meiru. Hann sagði í viðtali við Vísi:

Það verður að fara varlega þarna og nálgast þetta af virðingu. Að sama skapi er þetta fallegt og ég skil vel, og fólk á að hafa möguleika á að komast þarna. Ég held það eigi frekar að auðvelda fólki að fara þarna frekar en að það sé að sprengja sig á löngum göngutúrum.

Þetta er kjarni málsins. Að vísu kom þetta tveimur dögum of seint fram enda allt komið í óefni. En samt var eins og löggan vaknaði af djúpsvefni sínum. Yfirlögregluþjónninn á Suðurnesjum sagði í viðtali við mbl.is:

Með því að hafa bíla­stæðið aust­ar við Festar­fjall, aust­an við háls­inn, stytt­ir það til dæm­is göngu­leiðina og við erum með jafn­vel í und­ir­bún­ingi að stika leiðina þegar þar að kem­ur,“ seg­ir Gunn­ar.

Þúsundir manna hafa skoðað eldstöðvarnar, flestir í leiðindaveðri. Allt í einu fær löggan móral og nefnir það ráð sem hefði átt að grípa til snemma á laugardeginum. Auðvitað átti ekki að loka Suðurstrandarvegi öllum. Það var heimskuleg ákvörðun og illa ígrunduð og svo fór Vegagerðin í helgarfrí.

Þessi ákvörðun sannar að löggan, Vegagerðin og almannavarnir eru ekki fyrir fólkið í landinu heldur stofnanir sem hafa það markmið að viðhalda sjálfum sér frekar en að stuðla að velferð almennings.

Besta gönguleiðin, sú greiðasta og þægilegasta er við vesturenda fjallsins Slögu. Rétt rúmlega fjögurra km löng, flestir ganga hana á um klukkustund eða rúmlega það. Frá þjóðveginum liggur jeppavegur inn í Nátthagadal. Hann hafa jeppamenn og mótorhjólamenn þjösnast á í langan tíma. Sáralítil hækkun er á leiðinni, aðeins aflíðandi, og engar hindranir. Eftir það er gengið inn dalinn og upp úr honum innst. Þegar upp er komið er afar stutt í gosstöðvarnar og getur fólk þá valið að fara upp á fjallið fyrir sunnan Geldingadal eða upp á Fagradalsfjall. Veltur á vindátt hvaða leið er best því enginn vill lenda í mekkinum frá eldgosinu. 

Auðvitað hefði átt að stika þessa leið á laugardeginum og nota til þess björgunarsveitina í Grindavík. Félagar í henni hljóta að gjörþekkja svæðið og þeir hefðu betur nýst í verkefnið heldur en að tuða við fjölmiðla um illa útbúið göngufólk.

Þess má geta að verði Suðurstrandarvegurinn ekki opnaður má alltaf aka að kirkjunni við Bæjarfell sem er sunnan við Krýsuvík og þaðan vestur eftir gamla þjóðveginum. Ég veit ekki betur en að hann sé opinn. 

Nú er bara að vona að löggan og almannavarnir láti af fjandskap sínum við göngufólk og auðveldi þeim för frekar en að tálma. Það endar sjaldnast vel þegar stofnanir þjóðfélagsins vilja taka völdin af almenningi.

Hér hefur ekki verið nefndur hlutur fjölmiðla sem virðist hafa þá einu ritstjórnarstefnu að hneykslast á göngufólki, útbúnaði þess og hegðun. Enginn fjölmiðill hefur nefnt þá staðreynd að gönguleiðin að gosstöðvunum er ómöguleg og raunar hættuleg. Þó hefur fólk bent á ofangreinda gönguleið á samfélagsmiðlum og víðar. Eiginlega má segja að fjölmiðlar séu engu skárri en þær stofnanir sem ég hef hér með réttu atyrt fyrir verkleysi sitt.

Ríkislögreglustjóri

Viðbót sett inn kl. 11:45:

Hér er mynd af skjali frá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra sem er að etja fólki út í fjögurra til sex stunda gönguferðir frá Bláa lóninu (af öllum stöðum) og Grindavík.

Afsakið orðbragðið: Hvers konar bjánaskapur er að segja fólki að ganga frá Blá lóninu. Af hverju ekki frá Þorlákshöfn eða Keflavík? Kann þetta sófalið ekki á landakort og hefur það aldrei stundað gönguferðir á fjöllum?


Góða ferð á gosstöðvarnar

Gosstaður 100Eldgosið í Geldingadal er ekki merkilegt. Það er miklu minna en gosið á Fimmvörðuhálsi og alls ekki eins tilkomumikið. Engu að síður væri gaman að skoða það.

Æsingurinn í fjölmiðlum í gærkvöldi var mikill og þá sérstaklega í Ríkisútvarpinu. Þar voru allir reyndustu fréttamennirnir dregnir út og látnir vera í beinum útsendingum hér og þar. Fátt af því var athyglisvert enda höfðu fæstir viðmælendur neitt að segja. 

Einna merkilegast var að hlusta á viðtöl við jarðvísindamenn og upp úr stóð þegar einn þeirra Magnús Tumi Guðmundsson ráðlagði fólki að fara að sofa. Ekkert nýtt myndi sjást fyrr en birti. Ég fór að ráðum hans.

Eftir að birti kom í ljós að gosið var afar lítið. Fyrstu myndir sýna það glögglega. 

Æsingurinn í fjölmiðlunum var smitandi og ég var þar engin undantekning. Birti hér á blogginu nákvæma staðsetningu á gosinu og tilgátu um hraunrennsli sem var glettilega nálægt korti sem lögnu síðar birtist í fjölmiðlum.

Efst er ein af þeim frábæru myndum sem í dag hafa birtist í fjölmiðlum og er af vef Jarðvísindastofnunar. Hún sýnir svo ekki verður um villst hversu lítið gosið er. Einnig má af henni vera ljóst að ekki var ofmælt sem vísindamenn fullyrtu að staðurinn er einn sá afskekktasti á Reykjanesi og mikil heppni að þar gaus, fyrst einhvers staða átti að gjósa.

220320 kortHer er kortið sem birtist um klukkan þrjú á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Það er glettilega líkt mínu korti sem ég dró upp eftir að hafa athugað myndir sem teknar voru fyrir miðnætti í nótt, í myrkrinu. Gossprungan var að minnsta kosti rétt staðsett í litla fellinu í Geldingadal þó ég hefði átt að snúa henni í norðaustur-suðvestur eins og allar gossprungur hafa verið á Reykjanesskaga síðustu árþúsundir. Slæm villa.

GossprunganHvað sem öllu líður veit ég að göngufólk hefur áhug á því að skoða eldstöðvarnar. Ekkert er að því. Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi gengu hundruð manna upp á Hálsinn, um tuttugu km leið, til að skoða gosið og síðan sömu leið til baka. Samtals fjörutíu km. Líklega hafa þúsundir manna ekið upp á Mýrdalsjökul og þaðan yfir á Fimmvörðuháls til að skoða gosið.

Ég trúi því ekki að lögregla ætli að banna göngufólki ferðir á gosstöðvarnar.  Vera má að löggan verði aðhlátursefni ef dreginn verður upp guli plastborðinn eins og hún notaði á Fimmvörðuhálsi til að koma í veg fyrir að fólk „fari sér að voða“. Slitrur af plastborðanum eru enn að finnast við hraunið á Hálsinum.

Fólk fer sér ekki að voða því það er skynsamt og úrræðagott á fjöllum. Miklu betra er að líta til með göngufólki við gosstöðvarnar, svona til vonar og vara. Verstu slysin verða í umferðinni. Flestir deyja í rúminu heima.

Sjá neðsta kortið:

  1. Um tíu km eru frá hverasvæðinu við Krýsuvík i Geldingadal, lengsta leiðin
  2. Best er að ganga frá Suðurstrandarvegi vestan við Borgarfjall. Þaðan eru aðeins fjórir km í Geldingadal.
  3. Einnig er hægt að gagna frá veginum í sunnanverðum Móhálsadal en vegurinn er aðeins fyrir fjórhjóladrifsbíla. Þaðan eru um sex km í Geldingadal.

Grundvallaratriðið er góður fatnaður, traustir skór og nesti, drykkir og aukaföt í litlum dagpoka. Og muna eftir myndavél. Þetta er bara „túristagos“, Eða hvað?

Góða ferð á gosstöðvarnar. Ekki láta lögguna stoppa góða göngu á laugardegi eða sunnudegi.

Gönguleiðir


Hér er gosstaðurinn við Fagradalsfjall

GosstaðurinnGosið við Fagradalsfjall er í Geldingadal. Hann er lokaður. Fell og hæðir eru allt í kring um dalinn og varla að hraun renni í bráð út úr honum. Safnast bara saman þarna. Nema því aðeins að sprungan sé í hlíðum.

Samkvæmt því sem jarðfræðingar segja er þetta afar lítið gos, smáskita.

Fjarlægðin frá Grindavík er um níu km í beinni loftlínu.

Útilokað er að sjá gosið nema af nálægum fjöllum eða úr lofti. Það er því ótrúlega vanhugsað af fólki að aka um Reykjanesbraut eða aðra vegi til þess eins að sjá bjarmann af gosinu.

Mjög ólíklegt er að gas berist í hættulegu magni til nálægra staða vegna rigningar og hvassviðris.

Gosstaður 2Af hreyfimyndum í sjónvarpi að dæma rennur hraun í suður niður halla. Vestara hraunrennslið er mun hægara og þar safnast hraunið saman. Vonlítið að átta sig á nákvæmlega á hvar sprungan er í dalnum. En í fréttum kom fram að gossprungan kunni að vera allt að 500 m löng. Eftir því sem vísindamenn segja er sprungan austan megin í Geldingadal, hugsanlega í austurhlíðunum, nærri Merardal sem líka er frekar lokaður.

Dalbotninn er í 180 m hæð og Fagradalsfjall sem er vestan við dalinn er þarna í kringum 300 m. Austan dalsins eru lægri fell. 

Þegar hreyfimyndin er skoðuð nánar sést að á sprungunni eru sjö til átta strókar, gosop. Að öllum líkindum mun smám saman draga úr kraftinum á öllum gosopunum nema einu. Þetta er háttur sprungugosa víða og þannig hafa jarðvísindamenn spáð um hegðun goss á Reykjanesskaga. Þannig var þetta á Fimmvörðuhálsi og í Holuhrauni. 

Neðstu myndina hef ég birt áður. Hún er tekin af Keili. Á henni sést Fagradalsfjall og er eldgosið í Geldingadal sem þó sést ekki á myndinni.

Best er að smella á myndirnar og þá stækka þær mjög og skiljast betur.

GossprunganKl. 00:47: Eins og áður sagði er erfitt er að gera sér grein fyrir því hvar gossprungan nákvæmlega er. Eftir að hafa skoðað nákvæmlega hreyfimyndir og ljósmyndir er hugsanlegt að meðfylgjandi mynd sýni nokkurn veginn staðinn. Rauða línan er gossprungan en gulu flekkirnir eru hraunin.

 

 

Hér verður bætt við einhverjum fróðleik eftir því sem umsjónarmaður hefur nennu til.

DSC_0080 Keilir, útsýni SV, flott copy


mbl.is Eldgos hafið við Fagradalsfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband