Í fréttum er þetta helst: Eldgos á Reykjanesi

Ég kveikti á sjónvarpinu. Fréttir voru að byrja og geðþekk fréttakona las upp það helsta sem var í fréttum:

  1. Gos á Reykjanesi
  2. Gos á Reykjanesi
  3. Gos á Reykjanesi
  4. Gos á Reykjanesi
  5. Gos á Reykjanesi
  6. Gos á Reykjanesi
  7. Gos á Reykjanesi

Gott kvöld, sagði svo fréttakonan geðþekka, brosti fallega og sagði: „Þó svo að gosóróinn hafi dvínað er enn búist við gosi suðvestan við Keili. Stína Jóns fréttamaður er stödd á Núpshlíðarhálsi og við skiptum yfir til hennar.“

„Já“, segir Stína Jóns og spyrnir með hægra fæti og hallaði sér upp 30 gráður í vindinn. Og að loknu jáinu segir hún: „Enn bólar ekkert á gosinu. Héddna þrjátíu og átta kílómetrum fyrir aftan mig er Keilir og skammt frá honum er Fagradalsfjall. Við sjáum auðvitað ekki þessi fjöll því annað fjall skyggir á þau og svo er næstum því komið myrkur. Ekki er enn farið að gjósa. Við segjum þessu lokið frá Núpshlíðarhálsi.

„Þakka þér fyrir Stína Jóns, segir fréttþulurinn. „Þetta var flott, næstum því eins og þegar Ómar Ragnarsson var hérna. Farðu nú varlega að bílnum. Margur hefur hrasað á skemmri vegalengd en tíu metrum. Í stjórnstöð Almannavarna er Gunni Jóns, fréttamaður og hann ætlar að tala við Albertínu Guðmundsdóttir jarðeðlissamtíningafræðing um nýafstaðinn fund gosstjórnenda.“

Á skjánum birtist vörpuleg kona.

„Já,“ sagði Gunni Jóns og hnyklar brýrnar. Og heldur svo áfram að loknu jáinu: „Albertína, er von á gosi á Reykjensskaga.“

„Tja, sko, það er nú það,“ segir Albertína. „Ef ekki gýs í kvöld, þá gæti gosið á morgun, hinn daginn, daginn þar á eftir eða síðar. Jafnvel eftir mánuð, ár eða aldir. Við vitum ekkert um hvað gerist fyrr en eftir að gosið hefur byrjað. Hafðu þá samband.“

„Já,“ sagði Gunni Jóns, fréttamaðurinn, og mislyfti brúnum. „En hvað kom fram á þessum fundi í stjórnstöð Almannavarna?“

„Afar fátt nema að ef ekki mundi hafa næstum því gosið í kvöld þá getur næstum því gosið á morgun ...“

„En hvaða líkur eru á gosi?“

„Í raun eru engar líkur á gosi nema eftir að gos hefur hafist,“ segir Albertína, alvarleg í bragði.

„Verður þetta hamfaragos?“

„Nei, varla. Ekki nema það verði afar stórt og mikið og hraun renni yfir fólk og bíla.“

„Verður þetta hættulegt gos?“

„Eldgos eru alltaf hættuleg nema þau sem eru lítil. Þess vegna verður maður að fara varlega. Nema gosið sé lítið.“

„Er Jesú Kristur væntanlegur?“

„Já, hann kemur og með honum englaher og hann mun ræsa eldgosið með viðhöfn á þeim stað þar sem fólki og mannvirkjum mun minnst hætta stafa af. Og þar mun hann í leiðinni dæma okkur öll hvort sem við erum lifandi eða ekki.“

„Hvernig dæmir hann Jesú?“

„Góða fólkinu í Samfylkingunni, Viðraunum og Pí Rötum mun verða fyrirgefnar allar stórkostlegu misgjörðir þeirra og þeir fá að koma í ESB, afsakið Himnaríki. Öðrum mun verða kastað í tólf km langa eldsprunguna enda var hún hönnuð til að taka á móti vondafólkinu og því þannig refsað fyrir syndir sínar og spillingu.

„Var einhvern tímann fólk á Mars, gróður, vegir, sundlaugar og soleiis?“

„Hvers konar asnaspurning er þetta. Þú veist að ég get bara tjáð mig um jarðeðlisfræði og trúmál ...“

Þarna slökkti ég á sjónvarpinu enda ekkert í fréttum nema ekkieldgos á Reykjanesi. Og ég veit ekki einu sinni hvar þetta Reykjanes er.

Athugið að nafni sjónvarpsstöðvarinnar er hér haldið leyndu svo og nöfnum þeirra sem koma við söguna sem byggir í stórum dráttum á sönnum atburðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á öllum landakortum er Reykjanes yst á Reykjanesskaga, um það bil 4-5 kílómeta stórt ferkantað nes.

Í fréttum að undanförn hefur ýmsum ítrekað tekist að klína sem allra flestu á þetta litla nes, svo sem Keili, sem er í 30 km fjarlægð, Vogaum, sem eru í 20 km fjarlægð, og í deilu um málið á bloggsíðu minni er svo að sjá sem þingmennirnir Jón Skaftason og Axel Jónsson hafi verið "þingmenn á Reykjanesi."

Ómar Ragnarsson, 5.3.2021 kl. 20:11

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll félagi,

Hef lengi tekið eftir þessu. En eins og svo margt annað í landafræði fjölmiðla og málfari þeirra er erfitt að amast við. Og fyrr en varir er maður orðinn samdauna og kann ekki lengur að leiðrétta sjálfan sig. Þá er illt í efni eins og dæmin sýna.

Ég hef nokkrum sinnum sent Svavari Sigmundssyni hjá Árnastofnun erindi um örnefni og lesið greinar eftir hann. Má vera að það sé ráð að hafa samband við hann og spyrja um Reykjanes og Reykjanesskaga. 

Í svari við fyrirspurn á vef Árnastofnunar segir Svavar á einum stað:

Varðandi örnefnið Kast þá er eitt slíkt hluti af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga, þetta er fjallbunga sem gengur út úr meginfjallinu og heitir Kast.

Finnst nokkuð merkilegt að örnefnafræðingurinn tali um Fagradalsfjall á Reykjanesskaga, ekki Reykjanesi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.3.2021 kl. 23:57

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eins og Ómar og örnefnafræðingurinn segja þá er allt þetta að gerast á Reykjanesskaga. Þar mun gjósa og allt lokast einmitt þegar nýbúið verður að galopna landið fyrir túristum.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.3.2021 kl. 12:48

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Emil. Hér má alveg rifja upp það sem þú skrifaði á bloggið þitt í júní 2012 um hugsanlegt eldgos í Heiðmörk og líklega rennslisleiðir hraunsins sem þar gæti komið upp. Þó þetta hafi bara verið vangaveltur liggur að baki sú pæling að hraun geta runnið mjög víða og við því þurfi að bregðast. Kortið sem þú gerðir er mjög athyglisvert.

Hér er linkur á pistilinn: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1243092/

Ég fjallaði lítillega um hann hér: https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1242233/

Ómar Ragnarsson hefur líka skrifað um þessi mál á bloggsíðu sinni og fleiri má telja.

Ég veit ekki til þess að í gangi séu neinn undirbúningur fyrir hugsanlegt eldgos eða hraunrennsli við eða á höfuðborgarsvæðinu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.3.2021 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband