Bónus gjörbreytti matvöruverslun til hins betra

Þú gefur aldrei eftir lægsta verðið og þú skilar alltaf hluta af bættum ávinningi í innkaupum til neytenda. [...]

Ef aðeins annar aðilinn hefur eitthvað úr viðskiptunum er það ekki viðskiptasamband. Þá varir það yfirleitt stutt. Þetta þarf allt að haldast í hendur.

Opnuviðtalið í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 10 febrúar 2021, við Guðmund Marteinsson, framkvæmdastjóra Bónus, er frábært. Greinilega skýr maður, eldklár og duglegur. Fjölmargt í viðtalinu kemur á óvart. Ég hef margt lært í viðskiptum af bókum, í háskóla og á námskeiðum, en í viðtalinu er komið að kjarna málsins sem margorðir kennarar og prófessorar hafa týnt í fræðum sínum. Þeir gætu lært mikið af Guðmundi.

Jón Ásgeir Jóhannesson og faðir hans stofnuðu Bónus. Einhvers staðar las ég að ástæðan hafi verið sú að Jóhannes Jónsson hafi verið sagt upp störfum í SS verslun í Hafnarstræti. Feðgarnir ákváðu þá að stofna lágvöruverslun. Guðmundur Marteinsson tók við sem stjórnandi þegar Jón Ásgeir hvarf til annarra verkefna.

Ég man eftir því að hafa reynt að ráða ungum manni heilt sem framleiddi vörur fyrir Bónus á tíunda áratug síðustu aldar. Jón Ásgeir kvaðst vilja kaupa vöruna og selja í verslunum sínum en á ákveðnu verði sem var hrikalega lágt, miklu lægra en þurfti. Annað hvort eða ... sagði Jón Ásgeir, þurrlega. Hann var nagli í viðskiptum. Hvers vegna? Jú, hann vildi geta boðið neytendum sínum lægsta verðið. Hinar stóru verslanirnar virtust vera í einhverjum vináttusambandi við birgja sína og verðmyndunin bitnaði fyrst og síðast á neytendum.

Stefnumörkun Jóns Ásgeirs hefur verið notuð í Bónus frá því að Guðmundur Marteinsson tók við. Verslanirnar hafa frá upphafi verið með lægsta verðið og nú upp síðkastið kunna fleiri verslanir að vera með næstum því eins lág verð. Á því má sjá hversu arfleifð Jóns Ásgeirs og föður hans er mikil að jafnvel keppinautarnir feta í fótspor hans.

Guðmundur segir:

Síðan þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri árið 1998 fékk ég Herluf Clausen, hinn eina sanna, í lið með mér og hann ferðaðist um allan heim í leit að vörum á betra verði fyrir Bónus. [...]

Við horfðum upp á að innkaupsverð okkar á vörum sem við vorum að kaupa af íslenskum heildsölum var oft miklu hærra en út úr búð í löndunum í kringum okkur. Við lögðum gríðarlega hart að okkur að finna vörur, merkjavöru, á lægra verði og reyna að klippa út milliliðinn neytendum til hagsbóta.

Okkur neytendum var alltaf sagt að ástæðan fyrir hærra vöruverði á Íslandi sé flutningskostnaðurinn. Vissulega kann hann að skipta máli en fjölmargt annað. Innkaupsverðið er auðvitað aðalatriðið og Guðmundur leitaðist við að hafa það sem lægst jafnvel þó það kostaði átök við heildsala og erlenda framleiðendur.

Flottast í viðskiptum er að hafa fínar skrifstofur, einkaritara og fjölda manna sem gera eiga eitthvað sennilegt. Í Bónus er yfirbyggingin lítil, verslanir margar og hagkvæmnin mikil. Og verðið er hið sama í öllum verslunum Bónus, á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.

Við lestur viðtalsins reikaði hugur minn til þeirra ára er ég starfaði í Neytendasamtökunum með ágætum mönnum eins og Jóni Magnússyni, Jóhannesi Gunnarssyni og Guðsteini V. Guðmundssyni sem voru miklir frumkvöðlar í neytendamálum. Viðhorf alltof margra verslunareigenda á þessum tíma var að neytandinn hefði rangt fyrir sér. Megnaða kjötfarsið, ónýtu kartöflurnar og margt annað þurftu neytendur að gera sér að góðu. Engar bætur voru í boði ef fatnaður reyndist gallaður, verslunareigandinn þráaðist við. Verðmerkingar voru litlar sem engar og svo framvegis. Með tilkomu Bónus verslananna breyttist flest og allt til betri vegar. Barátta Neytendasamtakanna var oft erfið, enda við Golíat að etja.

Eitt af því athyglisverðasta í viðtalinu er hreinskilnin:

Að sögn Guðmundar hefur hann gert ótal mistök í innkaupum í gegnum tíðina og fái oft skot frá samstarfsfólki sínu þar um. Það sé eins og gengur og gerist í þessu en Jóhannes hafi alltaf talað um að gera ekki sömu mistökin of oft.

Allir gera mistök en varla viðurkenna margir stjórnendur slíkt og síst af öllu að leyfa undirmönnum að gagnrýna. 

Viðtalið við Guðmund tók Baldur Arnarsson, blaðamaður Moggans. Hann er líklega einn af þeim klárustu á blaðinu og jafnvel þó víðar væri leitað. Spyr áleitinna spurninga og Guðmundur svarar af hreinskilni. Fjöldi millifyrirsagna auðveldar lestur greinarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gallinn er bara sá að það lesa ekki nærri allir Morgunblaðið. 

Sæmundur Bjarnason, 10.2.2021 kl. 23:38

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Það er rétt Sæmundur og ekki gott.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.2.2021 kl. 10:57

3 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Bónus setti okrarana í slæma stöðu ! Jóhannes í Bónus var maður sem gerði meira fyrir Islendinga en nokkur Alþingismaður hefur gert.

Erla Magna Alexandersdóttir, 11.2.2021 kl. 20:36

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Ógleymanlegur maður hann Jóhannes. það var hann en ekki Jón Ásgeir sem setti Bónus upp. Hann vr séníið.

Halldór Jónsson, 12.2.2021 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband