Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjóðin löðrungar öfgavinstrið en vill sömu ríkisstjórn

Þjóðin hafnaði Sósíalistum. Þeir fengu aðeins 8.174 atkvæði. Meira að segja launþegarnir í Einingu höfnuðu þeim. Aðeins öfgafyllsta liðið úr Vinstri grænum og Pírötum kusu þá en það dugði ekki til. Árangurinn var snautlegur, enn eitt gjaldþrotið hjá formanninum sem í þetta sinn klæddist gallajakka eins og hann heldur að verkalýðsleiðtogar geri.

Þjóðin hafnaði Miðflokknum, klausturflokknum. Honum var hegnt fyrir ósæmilega framkomu sína. Náði með herkjum inn tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum og einum uppbótar en verður minnsti þingflokkurinn. Gjörsamlega óviðunandi árangur fyrir flokk sem þóttist geta greitt almenningi hundruð þúsunda króna af almannafé ef ríkissjóður væri rekinn með halla. Kjósendur féllu ekki fyrir þessu bragði.

Viðreisn verður næstminnsti flokkurinn á Alþingi með aðeins fimm þingmenn, bætti þó við sig einum. Einn þeirra var eldsnöggur að finna blóraböggulinn og kvartar nú sáran undan því að Seðlabankastjóri hafi fullyrt að útilokað væri að tengja íslenska krónu við Evru. Varaformaður flokksins, sem enginn veit hvað heitir, náði eðlilega ekki kjöri. Ekki heldur Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður sem hafði þó verið ansi áberandi á síðasta þingi.

Þjóðin hafnaði Evrópusambandshugmyndum Viðreisnar og Evrutengingunum. Flokkurinn fékk færri atkvæði en bæði Píratar og Flokkur fólksins. Inga Sæland hefur greinilega mun meiri kjörþokka en Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Flokkur fólksins er sagður „senuþjófur“ kosninganna. Flokkurinn hafði rekið tvo þingmenn úr flokknum á síðasta kjörtímabili. Þeir fóru í klausturflokkinn en eru nú báðir horfnir úr stjórnmálum. Eftir voru aðeins tveir þingmenn. Í kosningunum gaf þjóðin flokknum fjóra til viðbótar og munu nú verða sex á næsta þingi. Geri aðrir betur. Inga Sæland formaður flokksins hefur það orð á sér að vera einlæg og trú skoðunum sínum og flokksins. Á næstu misserum mun koma í ljós hvort nýir þingmenn flokksins séu slíkir bógar geta aðstoðað við að koma fram breytingum á kerfinu meðal annars öldruðum til hagsbóta.

Píratar sigla lygnan sjó. Miðað við hamaganginn og lætin í þeim á síðasta þingi og í kosningabaráttunni gerist ekki neitt. Flokkurinn er vinstri flokkur, nær sósíalistum en öðrum, ef marka má rannsóknir á viðhorfum þeirra sem hann studdu í skoðanakönnunum. „Nýja stjórnarskráin“ var eitt af kosningamálum Pírata. Þjóðin var ekki sammála og telur hana ekki á dagskrá. Hún hafði ekki einu sinni áhuga á heitstrengingu flokksins að vinna ekki með Sjálfstæðisflokknum. Enda mun enginn vinna með villingunum í Pírötum.

Samfylkingin fór ansi flatt í kosningunum, er taparinn. Flokkurinn hreykti sér hátt, trúði á að úrslit kosninganna yrðu svipaðar og í skoðanakönnunum. Formaðurinn sór að hann myndi aldrei mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum og var hreykinn eins og barn sem segist loksins ætli að hætta að nota bleyju. Flokkurinn græddi ekkert á yfirlýsingunni en gerði bleyjulaust upp á bak. Hann mun einfaldlega ekki taka þátt í ríkisstjórn, hvorki með Sjálfstæðisflokknum né öðrum. Þjóðin gaf honum utanundir og skikkaði hann áfram í stjórnarandstöðu. Löðrungurinn svíður. Ólíklegt er að Logi Einarsson haldi áfram sem formaður.

Einn af þeim sem kom Samfylkingunni til hjálpar var Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar í ríkisstjórninni alræmdu 2009 til 2013. Flótti hans úr VG vakti enga athygli, dugði Samfylkingunni ekki neitt.

Staða Vinstri grænna er athyglisverð. Flokkurinn tapaði greinilega miklu fylgi. Öfgavinstrið hljóp frá borði og til Sósíalista. Því er nú vitað að 8.174 Íslendingar eru sósíalistar. Þeir koma úr VG, Samfylkingunni og Pírötum. Hefði flokkur Sósíalista ekki boðið fram hefðu þessir flokkar staðið skár og VG líklega betur en aðrir.

Sjálfstæðisflokkurinn getur vel við unað. Hann fær jafn marga þingmenn og árið 2017 þó svo að fylgi hans minnkaði um 0,8% á öllu landinu. Brynjar Níelsson náði ekki kjöri og er missir af honum. Hins vegar bætist við öflugt fólk í öllum kjördæmum.

Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Það er óumdeilt. Formaðurinn mun eflaust gera kröfu til embættis forsætisráðherra en það verður erfitt verkefni. Formaður Sjálfstæðisflokksins mun einnig gera kröfu til þess. Formaður Vinstri grænna hefur þó tögl og hagldir í sínum höndum.

Ríkisstjórnin hélt vell og vel það. Þrátt fyrir tap Vinstri grænna jók hún þingmeirihluta sinn. Ríkisstjórnin mun halda áfram sé vilji til þess hjá Vinstri grænum. Annað stjórnarmynstur er ekki í sjónmáli.

Katrín Jakobsdóttir getur krafist þess að verða áfram forsætisráðherra og án VG yrði stjórnarkreppa í landinu. Vinstri flokkarnir hafa ekki nægan þingstyrk til að mynda ríkisstjórn nema með Viðreisn og Miðflokknum. Viðreisn mun ábyggilega selja sál sína til að komast í ríkisstjórn en Píratar hafa lýst því yfir að þeir muni ekki starfa með Miðflokknum.

Þá er aðeins einn kostur eftir og það er samstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og annað hvort Flokks fólksins eða Viðreisnar. Þeir hafa samanlagt meirihluta 35 eða 34 þingmenn. Fyrrnefndu flokkunum mun ábyggilega þykja það ansi tæpur meirihluti miðað við að starfa með VG. Þar fyrir utan hafa þeir ekkert álit á Viðreisn.

Niðurstaðan er því sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu vilja starfa áfram með Vinstri grænum sem fengi forsætisráðherrann. Hins vegar mega fyrrnefndu flokkarnir vara sig á því að gefa VG ekki góð ráðuneyti annars er hætt við því að flokkurinn gangi hálfvolgur í ríkisstjórnina. Slíkt er stórhættulegt í stjórnmálum.


Litlu flokkarnir eru gagnslausir þrátt fyrir fallegar umbúðir

Stjórnmálin eru eins og Makkintosh dolla. Í henni er aragrúi af gómsætum molum. Eftir að hafa freistast til að kaupa svona nammi áttar maður sig á því að litirnir segja ekkert til um hversu gott nammið er. Og þannig er það með stjórnmálaflokkanna sem fyrir kosningar pakka loforðum sínum inn í fallegar umbúðir. 

Eftir kosningar gerist það sama og þegar við veljum fallega molann. Hann er í engu samræmi við útlitið. Bragðast illa. Óbragðið kemur fljótt fram.

Flokkur fólksins

Áferðafallegt nafn og kosningabarátta Flokks fólksins eru umbúðir. Hann mun ekki hafa nein áhrif frekar en hingað til. Hann er dæmdur til að vera smáflokkur komist hann á þing. Formaðurinn hefur hátt, það eitt hefur hann lært á síðustu fjórum árum. Rífur sig, fer rangt með og vera má að hann gráti dálítið til að fá samúð.

Hvað ætla kjósendur að gera ef þátttaka Flokks fólksins í ríkisstjórn kosti að Ísland gangi í Evrópusambandið eða að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu? Skiptir þetta engu máli?

Ekki það? Flokkurinn ætlaði að bæta kjör aldraða, öryrkja og annarra og í leiðinni kann hann að gjörbreyta stefnu landsins í utanríkismálum eða leggja Landspítalanum til 50% meira fé án þess að gera neina kröfur til hans um meðferð fjárins. Staðreyndin er sú að kjósandinn veit ekkert hvernig flokkurinn mun haga sér komist hann í ríkisstjórn.

Píratar

Píratar eru samskonar flokkur sem kostað hefur ríkið mikið fé. Aðall hans er að leggja fram ótrúlegar fyrirspurnir á þingi um hitt og þetta sem litlu skiptir. Afleiðingin er sú að stjórnvöld hafa þurft að eyða miklum tíma í að svara, tíma sem annars hefði farið í mikilvægari mál eins og að vinna fyrir almenning. Og hvað gerðu Píratar við öll svörin? Ekkert. Þökkuðu ekki einu sinni fyrir ómakið.

Atkvæði greitt Pírötum kann að leiða til þess að Ísland gangi inn í Evrópusambandið, fyrirtæki landsins verði skattpínd. Er til dæmis skynsamlegt að taka upp stórhækkað auðlindagjald ofan á tekjuskatt fyrirtækja í sjávarútvegi? Dettur fólki hug að tveggja manna bátur til dæmis á Skagaströnd geti greitt auðlindagjald? Nei, en þá eiga að koma undantekningar frá aðalreglunni og undantekningar frá undantekningunum. Ekki traustvekjandi.

Viðreisn

Viðreisn er annar flokkur sem pakkað er inn í fagrar umbúðir en er í raun ekkert annað en umbúðirnar. Hann reynir allt hvað tekur að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum þó allir forystumenn flokksins komi þaðan og líka kjósendur hans. Viðreisn vill ekki einu sinni vinna með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna tók hann saman við Samfylkinguna, Vinstri græna og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur og kyngdi ælunni. Hann leggur í herferð gegn bílaumferð, flugvellinum og öðru sem fólk þarf nauðsynlega á að halda. Óbragðið er Evrópusambandsaðildin og Evran sem er í raun það eina sem flokkurinn byggir á. 

Dettur einhverjum í hug að einhliða binding krónunnar við Evru eða upptaka gjaldmiðilsins muni ekki hafa slæm efnahagsleg áhrif þjóðina. Í stað þess að geta leiðrétt gengi krónunnar er það fest og þar með mun atvinnuleysi stóraukast. Gjaldeyrisskapandi fyrirtæki munu eiga einskis annars úrkosta en að segja upp fólki. Og önnur fylgja á eftir.

Sósíalistar

Flokkurinn sem kennir sig við sósíalismann er með áferðafalleg kosningaloforð. Óbragðið er að hann ætlar að beita aðra ofbeldi. Dæmi hæstiréttur ekki eins og flokkurinn vill ætlar hann að ryðja dóminn, bókstaflega. Henda dómurunum í burtu og skipa aðra sem dæma eftir línu flokksins. Ofbeldi er aðall sósíalista í gegnum söguna. Já, og skrifstofur Sjálfstæðisflokksins eiga að verða almenningssalerni. Þannig er nú heiftin. Og aðalsprautan í flokknum er svokölluð „afturbatapíka“, náungi sem var aðalkapítalistinn í útrásinni, setti fjölda fyrirtækja á hausinn og hafði launin af fjölda fólks.

Allt eru þetta því sem næst eins máls flokkar. Komist þeir á Alþingi mun fólki koma á óvart hvert þeir stefna að öðru leiti en helstu kosningaloforðin benda til.

Fimm eða sex flokka ríkisstjórn

Í Reykjavík ræður meirihluti fjögurra flokka. Afleiðingin eru ótal hneykslismál sem kinnroðalaust má kalla spillingu.

Kjósendur þurfa að hugsa sig vel um. Ekki greiða smáflokkum atkvæði, flokkum sem aldrei munu geta breytt einu eða neinu nema í hrossakaupum við ríkisstjórnarmyndun.

Hvað sagði ekki aðalpersónan í Forest Gump bíómyndinni:

„My mama always said, life is like a box of chocolates. You never know what you're gonna get.“

Fallegir innpakkaðir molar í Makkintosh dollunni eru ekki allir góðir. Sumir eru einfaldlega betri. Ekki eru allir stjórnmálaflokkar góðir en það vitum við ekki fyrr en eftir kosningar.

Sjálfur kýs ég Sjálfstæðisflokkinn. Ég þekki hann og treysti forystumönnum hans.


Fát grípur lögguna sem lokar gossvæðinu með hún hugsar

Screenshot 2021-09-15 at 13.56.45Mikið fát greip lögregluna á Suðurnesjum rétt fyrir hádegi miðvikudaginn 15. september. Þá tók að flæða suður úr hrauntjörn í Geldingadal skammt frá stóra gígnum. Flestir sem fylgjast að staðaldri með þróun gossins gerðu ráð fyrir því að það myndi gerast enda er það eðli hrauns að fylgja þyngdarlögmálinu, renna niður í móti. 

Lögreglan hafði ekkert spáð í það hvað yrði um hraunið. Hélt líklega að hraun í Geldingadal rynni alls ekki heldur héldi til þarna efra, kólnaði og yrði til friðs.

Þegar hrauntjörnin brast datt löggunni ekkert í hug annað en að fyrirskipa allsherjarlokun, ekki aðeins á svæðinu í þar sem hraunið rann heldur á öllu gossvæðinu. Loka Nátthagadal, Geldingadal eystri, Meradal, Langahrygg og Stóra-Hrúti. Öllu skyldi lokað meðan löggan væri að hugsa. Gott ef ekki var bannað að ganga á Esju.

Fjallið var smalað, allir reknir í burtu. Og löggan hugsar og hugsar.

Auðvitað er grín að þessu gerandi. Geir og Grani úr Spaugstofunni eru komnir til starfa hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og orðnir yfirmenn, skipa fyrir.

En grínlaust. Lögreglan á Suðurnesjum virðist ekki fylgjast með. Hún þekkir ekki landið, hefur enga reynslu í gönguferðum og kann varla að lesa landakort. Af og til þarf hún að hugsa. Það er svo sem gott.

Fát grípur lögguna þegar eitthvað gerist sem henni finnst óvænt. Engin yfirvegun, fólk er bara rekið í burtu. Jafnvel fólk sem er betur búið og með enn meiri reynslu en björgunarsveitarmenn, landverðir ... og jafnvel löggan. Jafnvel skynsamt fólk.

Björgunarsveitarforingi lætur hafa þetta eftir sér á Vísi:

„Ég skil fólk alveg, þetta er eins og flugur á skít. Það sogast að þessu en er ekki að átta sig á menguninni þegar þetta er svona heitt. Það er gríðarlegur hiti í þessu. Mínir menn eru búnir að bakka út úr hita,“ segir Bogi Adolfsson.

Göngufólki er líkt við „flugur á skít“. Hvað er eiginlega að manninum? Hann virðist halda að aðeins „mínir menn“ forðist hitann af glóandi hrauni en ekki sauðsvartur almúginn.

Yfirlögregluþjónn segir í viðtali við Ríkisútvarpið:

Gunnar segir um lokunina að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða, þar til hlutirnir skýrast nánar.

Forkólfurinn þarf að hugsa málið þó það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir. 

Hraunflæðið er bundið við fjallið vestan við Nátthagadal, þar sem áður var vinsæl gönguleið. Með ákveðnum rökum má segja að þar gæti myndast hætta taki að flæða yfir varnargarða. Langt er í það. Engin hætta er hinum megin dalsins, á Langahrygg eða Stóra-Hrúti, ekki heldur austur í Meradal. Samt er öllu lokað. Harðlokað eins og dómgreind löggunnar.

Um tveimur tímum eftir að löggan lét loka svæðinu virðist hraunrennslið hafa dvínað og glóandi hraunið er orðið svart. Breytingin sést greinilega á beinu streymi Ríkisútvarpsins og á sjálfvirkri myndavél Veðurstofunnar.

Þeim sem standa svona illa að verki eigum við að treysta fyrir öryggi okkar á öðrum sviðum. Lái mér hver sem vill en ég treysti ekki handabaksvinnubrögðum þessa fólks.

Þeir sem streitast á móti löggunni, landvörðum og björgunarsveitum eru kærðir fyrir „brot gegn valdstjórninni“. Hversu heimskulega sem valdstjórnin hagar sér hótar hún að kæra þá sem á móti henni standa. Þannig er til dæmis gert í Hvíta-Rússlandi um þessar mundir.

Myndin er af hrauntjörn vestan við gíginn. Hún er tekin úr glæsilegri hreyfimynd, sjá hér. Veit ekki hver tók hana.


Á sunnudagsmorgni er mbl.is þunnur og án frétta

Screenshot 2021-08-29 at 10.14.00Vefútgáfa Moggans virðist vera orðin að einhvers konar kjaftaútgáfu, engar fréttir því alvörublaðamennirnir fá að sofa út og krakkarnir fá að leika. Aðalfréttin er úr helgarblaðinu. Og svona eru fyrirsagnirnar um klukkan tíu á sunnudagsmorgni:

  • Er hann þá eins og Einstein
  • Slökkviliðið vill að fólk njóti dagsins í dag
  • Níu ára fékk að lita á sér hárið
  • Tvífari Cardi B gerir allt vitlaust
  • Goðafoss falinn í strikamerki skyrs ...
  • Eldhústrixið sem þig hefði aldrei grunað að virkaði
  • Útsaumaður risasófi ...
  • Veður
  • Erfir fólk í sambúð hvort annað
  • Stórstjarna í París gegn vilja sínum
  • Löggufréttin
  • Að vera í búrleskhópi snýst ekki bara um að fara úr fötunum

Sem sagt ekkert í fréttum hjá Mogganum, allir sofandi.

Screenshot 2021-08-29 at 10.14.44Á Vísi virðist ýmislegt í frásögur færandi:

  • Þúsundir flýja fellibylinn Idu sem eflist hratt
  • Icelandair hættir flugi til Vestmannaeyja
  • Telja miklar líkur á annarri hryðjuverkaárás
  • Delta tvöfaldaði líkur á sjúkrahúsinnlögnum

Screenshot 2021-08-29 at 10.39.00Á vefsíðu Ríkisútvarpsins er einnig margt í fréttum:

  • Búist við versta fellibylnum frá miðri 19. öld
  • Vara við trúverðugri hótun í Kabúl
  • Hætta flugi til Vestmannaeyja um mánaðamót
  • Dæmd til að bæta syni fyrir að henda kláfsafni hans
  • Óafturkræft óleyfilegt jarðrask segir Umhverfisstofnun
  • Lilja ætlar að óska eftir skýringum frá KSÍ
  • Aðaláherslan var ekki á bringuna

Screenshot 2021-08-29 at 10.38.11Og jafnvel á vefsíðu Fréttablaðsins er sagt frá fjölmörgu athyglisverðu:

  • Tæknideild lögreglunnar rannsakar vettvang á Egilsstöðum
  • Bretar hætta að flytja fólk frá Kabúl
  • Leghálssýni flutt til Hvidovre vegna „alvarlegra gæðavandamála“ KÍ
  • Hraðpróf framkvæmd í nýrri skimunarmiðstöð í Kringlunni
  • Alls 66 innanlandssmit ...
  • Opna áfallamiðstöð eftir atburðinn á Egilsstöðum
  • Níu ára strákar grýttir og lamdir með járnröri
  • Danir segja Covid ekki lengur ógn við samfélagið
  • átta hafa sótt um bætur í kjölfar bólusetningar

Í DV er frétt sem hvergi hefur birst annars staðar og er fyrirsögnin: „Manndráp til rannsóknar.“ Stuttu síðar virðast allir blaðamenn á vakt hafa lesið frétt DV og birt sömu fréttina nærri því orðrétt.

Ýmislegt að frétta í dag þó Mogginn standi sig illa og segi okkur að ekkert sé að gerast í heiminum nema að níu ára krakki hafi fengið að lita á sér hárið, tvífari einhverrar útlendrar stelpu sé að gera allt vitlaust og nokkur heimilisráð og sófafrétt. Þetta er auðvitað engin blaðamennska.

Svona hversdags finnst manni Mogginn vera ábyrgur og góður fréttamiðill. Um helgar breytist hann hins vegar í „Alt for damene“. Ekki misskilja, þetta er ekki sagt konum til lasts.


Nú má kjósa með blýöntum

Kosningar til Alþings fara fram 25. september 2021 og getur kosning utan kjörfundar hafist föstudaginn 13. ágúst 2021.

pencilsÞannig tilkynnir Dómsmálaráðuneytið um merkisatburð í lífi þjóðar. Á einhverjum fjölmiðlinum var viðtal við sýslumann sem sagði hann að nú væru notaðir blýantar en ekki stimplar til að merkja við þann stjórnmálaflokk sem kjósandi vill greiða atkvæði.

Þvílík tækniþróun. Mann svimar. Hvað skyldi nú gerast næst?

Ég er nú enginn spámaður en gæti sem best trúað því að á næstu árum tækju yfirvöld í notkun sjálfblekunga eða jafnvel kúlupenna.

Sko, í Bandaríkjunum eru víða notaðar vélar sem gata kjörseðilinn í stað þess að maður þurfi að brúka blýant. Vel má vera að slíkar vélar verði einhvern tímann í framtíðinni fluttar hingað til lands. Það væri nú aldeilis munur að þurfa ekki að nota blýant. 

Vel má vera að einhvern tímann í fjarlægri framtíð myndu bókstafir verða felldir niður sem tákn stjórnmálaflokka. Hugsið ykkur tæknina þegar maður getur notað bírópenna á kjörseðil og exað við nafn flokksins, ekki bókstafinn, sem þó er ekki fyrsti stafurinn í nafni hans.

Já, tæknin þróast og breytist hraðar en snigillinn ferðast.

Svo er það hitt að ég er eiginlega hættur að fara í banka. Með sömu tölvunni og ég skrifa þennan pistil get ég greitt reikninga, millifært peninga til Jóns og Gunnu, keypt vörur frá útlöndum, tekið við greiðslum héðan og þaðan. Þó getur Skatturinn skoðað bankareikninga fólks gruni hann það um eitthvað misjafnt. En, og takið eftir, starfsmennirnir þurfa ekki einu sinni að standa upp úr hægindastólum sínum. Fólk er rannsakað, ákært, dæmt og fangelsað af fólki sem situr hreyfingarlaust á rassinum.

Sú hugmynd hefur komið upp að banna peningaseðla og myntir og láta fólk nota debet- eða kreditkort í staðinn. Þá væri nú veruleg þrengt að glæpahópum.

Á meðan tekur sýslumaðurinn í notkun blýanta við utankjörstaðakosningu og kemur stimplunum fyrir í geymslunni ofan í kjallaranum. Og hann hælir sér af tækniþróuninni.

Bankarnir sjá til þess að enginn steli af bankareikningum fólks.

En ætli ég að kjósa þarf ég að fara í eitthvert hús við tiltekna götu. Bíð í röð. Sýna persónuskilríki. Fá í staðinn áprentað pappírsblað og blýant. Fara í felur með hvort tveggja. Skrifa ex við staf sem táknar stjórnmálaflokk. Koma úr felum. Horfa í augun á fimm manns sem stara á mig grunsemdaraugum. Fá að stinga blaðinu í rauf á brúnum krossviðskassa. Hundskast út. Úff ...

Löggan flytur kassann á milli húsa. Þar er innsiglið rofið, hvolft úr honum og fullt af fólki tekur blöðin, atkvæðaseðlanna, og telur þá. Aðrir raða þeim eftir því hvar exin standa og þá eru þau aftur talin. Niðurstaðan er borin saman við fjölda þeirra sem kosið hafa og allt verður að stemma. Um miðja nótt eða snemma morguns er sagt frá því hvernig atkvæði féllu. „Nýjustu tölur frá Austurbæjarskóla ...“

Á meðan er mikið stuð í heimahúsum og á veitingastöðum. Einhverjir drekka munngát og skemmta sér. Aðrir leggjast til svefns í þeirri fullvissu að úrslitin verði kunn daginn eftir.

Væri hægt væri að greiða atkvæði í tölvu gætu úrslitin verið ljós klukkan 22 er kosningu lýkur. En það má ekki því það er svo gaman að bíða eftir úrslitum, halda partí og drekka. Þetta kallast félagsleg réttlæting á partíum og skemmtunum í kosningum. Og er sagður jafn lýðræðislegur réttur og að exa með blýanti.

Svo er sagt að ekki sé hægt að tryggja að tölvugreidda atkvæðið sé frá mér komið en ekki einhverjum öðrum. Og svo geta rússneskir glæpahópar eyðilagt kosninguna. Og hvað með endurtalningu? Hver eru frumritin? Ó, þetta er allt svo flókið.

Sem sagt. Peningar eru öruggir á bankareikningum en atkvæðagreiðsla til þings, sveitarstjórnar eða forseta getur endað í tómu rugli sé tölva notuð. Ja, hérna.


Ég get svo sem svarað í stað Bjarna Benediktssonar

Forystumenn í stjórnmálum bera enga ábyrgð á því sem flokksmenn þeirra segja og skiptir engu hvaða stöðu þeir kunna að gegna. Sumir eru nefndir „leiðandi menn“ innan stjórnmálaflokks“ en þannig nafngiftir eru afar villandi og jafnvel heimskulegar.

Langar aðsendar greinar eru til mikils ama fyrir lesendur Morgunblaðsins. Því miður nenna fáir að lesa þær ekki síst ef millifyrirsagnir vantar. Einn af þeim sem reyna þannig á þolinmæði okkar, lesenda Moggans, er maður sem heitir Ole Anton Bieltvedt, mikill ESB sinni sem á þá ósk heitasta að Ísland gangi þangað inn. Meirihluti þjóðarinnar er á móti því.

Ole skrifar mikið um ESB og hann skrifar grein í Moggann í dag sem er ekkert annað en endurunnin grein úr Fréttablaðinu frá 4. ágúst 2021. Í dag krefst hann þess að formaður Sjálfstæðisflokksins svari fyrir fullyrðingar sem aðrir flokksmenn hafa látið frá sér fara um um ESB. Ekki ber ég neina ábyrgð á formanni Sjálfstæðisflokksins en greinin er nógu barnaleg til að ég ráði við hana og get svo sem svarað í stað Bjarna.

Í grein sinni segir hann:

Leiðandi menn inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa viðhaft þess­ar full­yrðing­ar um ESB og mögu­lega aðild að því hér í blaðinu:

    1. Að aðild Íslands að ESB „væri full­veld­is­framsal til yfirþjóðlegs emb­ætt­is­manna­valds og stofn­ana­veld­is í fjar­læg­um borg­um“
    2. að ESB sé „martraðar­kennt möppu­dýra­veldi“
    3. að ESB sé „ólýðræðis­leg valda­samþjöpp­un“
    4. að ESB sé „kjöt­katla­klúbb­ur afdankaðra 3. flokks stjórn­mála­manna“
    5. að ESB sé „vígi vernd­ar­stefnu og pils­faldakapítal­isma“
    6. að „stærstu rík­in, sem leggja fram mest fjár­magn, verða ráðandi í öll­um meg­in­at­riðum“.

Ja, hérna. Þetta er nú illa sagt um ESB. Maður hneykslast og finnur þörf hjá sér til að klaga.

Þeir „leiðandi menn“ sem Ole talar um eru bara tveir, ekki sex. Fyrsta atriðið er úr grein eftir Arnar Þór Jónsson, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem birtist í Morgunblaðinu 10., júlí 2021. Í henni rökræðir hann við Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og ESB sinna. Hann segir:

Það jákvæða við grein Þorsteins er að þar kristallast sú staðreynd að nú í haust gefst kjósendum í reynd færi á að tjá afstöðu sína til þessara álitaefna þar sem menn hafa þá skýran valkost milli þeirra sjónarmiða sem ég hef fært fram, annars vegar, og svo þeirrar tegundar valdasamruna, valdboðs, stjórnlyndis, einstefnu og undirlægjuháttar sem Þorsteinn Pálsson og fleiri boða undir merkjum annarra flokka.

Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú „augljóst“ að fríverslun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki. 

Þetta er afar vel skrifað hjá Arnari Þór og að mínu mati ekkert við skoðun hans að athuga þó Ole vilji klaga í formann Sjálfstæðisflokksins eins og krakki sem fengið hefur sand í augun á róluvellinum.

Staðreyndin er þessi: Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild að Evrópusambandinu. Í raun er ekkert meira um það að segja nema rökin. Þau eru á vefnum xd.is. og þar segir skýrt að Ísland standi utan við ESB. Mér finnst þetta góð stefna. Síðan er það smekkatriði hvernig hver og einn flokksmaður rökstyður andstöðu sína við ESB og eru allir frjálsir að því að velja þau orð sem þeir telja við hæfi.

Í forystugrein Morgunblaðsins þann 5. febrúar 2021 segir:

Bóluefnahneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópusamrunann ekki á óvart.
Þeir hafa um árabil varað við því að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldist í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpast sönnunargögn fyrir öllu þessu.

Fimm af ofangreindum umkvörtunarefnum Ole koma úr leiðaranum og vegna þeirra skælir Ole og klagar. Ekki get ég fullyrt hver skrifaði leiðarann og vera kann að það sé Davíð Oddsson sem ólíkt Ole Anton Bieltvedt er afar vel ritfær. Þar að auki hefur hann innsýn í ESB, nokkuð sem Ole hefur aldrei haft. Davíð þekkir pólitísku inniviði sambandsins af eigin reynslu sem forsætisráðherra, utanríkisráðherra og alþingismaður og var persónulega kunnugur mörgum þjóðarleiðtogum sem skylmdust innan ESB. Ekkert í ofangreindu er rangt þó virðist Ole bara uppsigað við stílinn, ekki efnið.

Betra hefði verið að Ole Anton Bieltvedt hefði lesið og gaumgæft allan leiðarann því hann er vel skrifaður. Í honum stendur meðal annars:

Það hefur nefnilega verið reglan undanfarin ár, að hin stóru kjölfesturíki ESB fara sínu fram gagnvart hinum minni á jaðrinum þegar það hentar. Þetta mátti sjá á Írlandi í fjármálakreppunni, enn frekar þó á Grikklandi þar sem lýðræðið mátti líka víkja fyrir Brusselvaldinu, rétt eins og á Ítalíu þar sem þessa dagana er einmitt verið að dubba upp enn einn landstjóra ESB sem forsætisráðherra og búið að fresta kosningum. Í Austur-Evrópu mega svo nýfrjálsu ríkin þar beygja sig undir hagsmuni Þjóðverja með lagningu Nord Stream-gasleiðslunnar og eins þurftu Danir, Pólverjar, Tékkar og fleiri evrulausar þjóðir að ábyrgjast stórfenglega lántöku til þess að bjarga evrunni enn eina ferðina.

Auðvitað hefur Ole Anton Bieltvedt enga hugmynd um annað en það sem á prenti stendur og því tengir hann vitlaust, dregur rangar ályktanir. Hann þekkir ekki innviðina, pólitíska leikinn, baráttuna, þvinganir og greiðasemi fyrir atkvæði innan ESB. Hann sér bara hina ljósrauðu og fögru mynd sem grunnhugmyndin að ESB var stofnuð um, en hún hefur, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir svo réttilega snúist upp í andhverfu sína. Og fyrir andhverfuna vill hann selja Ísland. Eins gott að ég verði ekki klagaður fyrir að segja svona, en þess ber þó að geta að ég er fjarri því að vera „leiðandi“ maður.


Erfitt á að vera að breyta stjórnarkránni

Við þinglok rifjuðu full­trú­ar Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Flokks fólks­ins upp breytingartil­lögu, sem lögð var fram við stjórn­ar­skrár­frum­varp Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur í vet­ur. Hún fel­ur í sér að til að breyta stjórn­ar­skrá nægi að ein­fald­ur meiri­hluti þings veiti samþykki sitt og í kjöl­farið fari fram þjóðar­at­kvæðagreiðsla þar sem hvorki verði gerð krafa um lág­marksþátt­töku né lág­marks­stuðning við breyt­ing­una.

Svo skrifar Birgir Ármannsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í fróðlegri grein í Morgunblaði dagsins. Í henni ræðir hann um stjórnarskrána okkar og vitnar til Kristrúnar Heimisdóttur og greinar hennar í Tímariti lögræðinga sem út kom fyrir skömmu.

Birgir bendir réttilega á að erfitt eigi að vera að breyta stjórnarskránni. Allir hugsandi menn vita að svo þarf að vera. Næg eru dæmin um vanhugsaðar lagasetningar og breytingar hér á landi og annars staðar. 

Að sögn Birgis eru mjög ströng skilyrði fyrir stjórnarskrárbreytingum á Norðurlöndunum. Þangað vilja margir sækja dæmi þegar það hentar en ekki þegar talað er um stjórnarskrána.

Hér er stutt upptalning úr grein Birgis.

Danmörk:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Þjóðaratkvæðagreiðsla
  • Meirihluti þeirra sem atkvæði greiðir þarf að samþykkja
  • Þátttakan sé að minnsta kosti 40% þeirra sem eru á kjörskrá

Noregur:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Við endanlega afgreiðslu þarf samþykki 60% þingmanna að styðja breytingarnar

Finnland:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Við endanlega afgreiðslu þarf 60% þingmanna að styðja breytingarnar

Svíþjóð:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Hægt að óska eftir þjóðatkvæðagreiðslu eftir fyrra samþykkið, en niðurstaða henn­ar er þó ekki end­an­leg eða bind­andi nema meiri­hluti legg­ist gegn breyt­ing­unni. Ef niðurstaðan er hins veg­ar já­kvæð kem­ur málið aft­ur til kasta þings­ins.

Ísland:

  • Samþykki tveggja þinga með kosningum á milli
  • Sé breyt­ing­in samþykkt óbreytt á nýju þingi öðlast hún gildi.

Af þessu má sjá að skilyrði fyrir stjórnarskrárbreytinum eru síst strangari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Vel má ímynda sér hvað gæti gerst ef auðvelt væri að breyta stjórnarskránni nú á þeim tímum þegar alls kyns „pópúlistahreyfingar“ vaða upp, falsfréttir í samfélagsmiðlum og víðar og ekki síst snöggsoðnar breytingar sem við fyrstu sýn virðast sanngjarnar. Afleiðingarnar gætu orðið hroðalegar fyrir lýðræðið.

Breytum ekki stjórnarskránni nema að vel grunduð ráði. Látum ekki Pírata, Flokk fólksins eða Samfylkinga ráða ferðinni.


Þessa kýs ég í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi

Ég er flóttamaður úr Reykjavík og bý í Kópavogi og kýs því í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Fjölmargir hafa komið að máli við mig og vilja vita hverja ég mun velja. Því er ekki auðsvarað. Mikið og gott mannval er í kjöri. Engu að síður mun ég kjósa tvo menn sem að mínu mati bera af; Bjarna Benediktsson og Óla Björn Kárason. Vandi minn lýtur að því að velja í hin sætin.

Eftir vandlega íhugun, og skammir frá einni systurdóttur minni sem segir að ég gæti ekki nóg að jafnrétti kynja, þá er þetta minn listi, fjórar konur og fjórir karlar:

  1. Bjarni Benediktsson
  2. Óli Björn Kárason
  3. Bryndís Haraldsdóttir
  4. Karen Elísabet Halldórsdóttir
  5. Arnar Þór Jónsson
  6. Kristín Thoroddsen
  7. Sigþrúður Ármann
  8. Bergur Þorri Benjamínsson

Svona raðast þetta niður hjá mér. Þarna er margt nýtt, glæsilegt og öflugt fólk sem kemur úr öllum áttum með reynslu í mörgum mikilvægum málaflokkum.

Prófkjörið verður 10., 11. og 12. júní 2021. Utankjörstaðakosning er þegar hafin og mun ég nýta mér hana.


Þetta er mitt fólk í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

althingishus_a01_webFjölmargir hafa spurt mig hvernig ég myndi kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kosið er laugardaginn 4. og sunnudaginn 5. júní. Kjósa skal átta manns. 

Margir góðir menn hafa boðið sig fram í prófkjörinu og mikill vandi er að velja. Líklega má kalla þetta lúxusvanda og margir kunna að fyllast hreinum og klárum valkvíða þegar taka þarf afstöðu.

Ég hef velt málunum lengi fyrir mér og hér er sá listi sem ég mæli með. Ég þori að ábyrgjast alla, þeir eru gegnheilir og traustir Sjálfstæðismenn ekki síður en þeir sem ég valdi ekki á listann minn:

  1. Guðlaugur Þór Þórðarson
  2. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
  3. Birgir Ármannsson
  4. Brynjar Níelsson
  5. Kjartan Magnússon
  6. Diljá Mist Einarsdóttir
  7. Sigríður Á. Andersen
  8. Hildur Sverrisdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn er með fimm þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná inn átta þingmönnum í haust.

 


Líkaminn þrútnaði upp, gómur og tannhold bólgnaði ...

IMGL5953 AurEldgosið í Geldingadal vekur mikla athygli innanlands og utan. Flestum þykir mikið til þess koma og fylgjast náið með því í beinu streymi hvernig það breytist og þróast. Fyrst virtist þetta stór sprunga með mörgum gosopum, man að ég taldi um átta á myndum sem birtust 24. mars, daginn eftir að það byrjaði. Svo urðu til tveir gígar sem sumir kölluðu Norðra og Suðra. Í þúsundavís gekk fólk upp að eldstöðvunum, stillti sér upp í tvö hundruð metra fjarlægð, góndi á gígana og hraunið sem úr þeim vall. Nokkru síðar sat fólk í brekkunni norðan við þá og skemmti sér við náttúruhamfarirnar en vissi þó ekki að það sat á eldsprungu sem var um sex kílómetra löng. Hún var lifandi, tifandi. Og svo gerðist það að sprungan opnaðist og á nokkrum dögum mynduðust fimm gígar á hluta hennar. Segja má að þar hafi munaði mjóu. Nú er aðeins einn gígur virkur og hann er í brekkunni sem áður var nefnd. Hann er gríðarlega stór, stækkar stöðugt. Hraunið sem úr honum vellur er um sjö rúmmetrar á sekúndu, meir en vatnsrennslið í Elliðaám sem er um fimm rúmmetrar á sekúndu.

IMGL4271 b AurOg fólk skemmtir sér og skemmtir sér. Veit ekkert skemmtilegra en að ganga þrjá til fjóra km og skoða gosið, borða nestið sitt og fara síðan heim með minningarnar í myndavél og höfði sínu. Svo er um líka um mig. Þegar þetta er skrifað hef ég sjö sinnum gengið að gosstöðvunum. Já, Við skemmtum okkur yfir gosinu. Köllum það túristagos og gróðavonin vaknar. Nú er ætlunin að malbika gönguleiðina, gróðursetja túlípana með fram henni og setja upp sjoppu, útsýnispalla, bjórbar og allt annað sem tilheyrir.

IMGL4863 AurNú reikar hugurinn tvö hundruð þrjátíu og átta ár aftur í tímann. Samtímaheimild segir svo frá atburðum dagsins:

Arið 1783 þann 8. júni, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil kom upp fyrir norðan næstu byggðarfjöll á Síðunni svart sandmistur og mokkur svo stór, að hann á stuttum tima breiddi sig út yfir alla Síðuna og nokkuð af Fljótshverfnu, svo þykkt að dimmt varð í húsum en sporrækt á jörðu. Var það dupt, sem niðurfjell, sem útbrennd steinkolaaska. En af þeirri vætu, sem úr þeim svarta mökk ýrði þann dag í Skaptártungunni, var það dupt, sem þar niðurfjell, svört bleyta, sem blek.

IMGL5107 b AurÞá hófst eldgos sem síðar var nefnt Skaftáreldar og afleiðingin urðu skelfilegar um allt land, tími móðuharðindanna. Um tuttugu og fimm km löng eldsprunga opnaðist og er þeir nú nefndir Lakagígar eftir Laka, felli sem þarna er. Allt öðru vísi eldgos heldur en í Geldingadalnum, alls ekki eins mannvænt. Þvert á móti.

Jón Steingrímsson, prestur á Kirkjubæjarklaustri en bjó á Prestbakka á Síðu. Hann skrifaði söguna sem nefnt er Eldrit og er einstaklega fróðlegt um eldgosið, skepnur, landbúnað, fólk og stjórnvöld. Hægt er að sækja það í pdf formati hér.

IMGL5179 LumAIJón segir hér frá því hvernig náttúruhamfarirnar léku skepnurnar:

Pestarverkunin af eldinum útljek þannig og deyddi hesta, sauðfje og kúpening; hestarnir misstu allt hold, skinnið fúnaði á allri hrvgglengjunni á sumum, tagl og fax rotnaði og datt af, ef hart var í það tekið. Hnútar runnu á liðamót, sjerdeilis um hófskegg. Höfuð þrútnaði fram úr lagi, kom svo máttleysi í kjálkana, svo þeir gátu ei bitið gras nje jetið, því það þeir gátu tuggið, datt út úr þeim aptur. Inníflin urðu morkin, beinin visnuðu aldeilis merglaus. Nokkrir lifðu af með því móti, að þeir voru í tíma hankaðir í höfuðið allt um kring og aptur fyrir bóga.

IMGL5376 AurSauðfje varð enn hörmulegar útleikið: á því var varla sá limur, að ekki hnýtti, sjerdeilis kjálkar, svo hnútarnir fóru út úr skinninu við bein, bringuteinarnir, mjaðmir og fótleggir, þar uxu á stör beinæxli, sem sveigðu leggina, eða þau urðu á víxl á þeim. Bein og hnútur svo meyr sem brudd væru. Lúngu, lifur og hjarta hjá sumu þrútið, sumu visin; inníflin, morkin og meyr með sandi og ormum; holdtóran fór eptir þessu.

Það, sem kjöt átti að heita, var bæði lyktarslæmt og rammt með mikilli ólyfjan, hvar fyrir þess át varð margri manneskju að bana; reyndu þó menn til að verka það, hreinsa og salta það, sem kunnátta og efni voru til.

IMGL5426 AurNautpeningur varð sömu plágu undirorpinn: á hann kom stórar hnýtingar á kjálkum og viðbeinum, sumir fótleggir klofnuðu í sundur, sumir hnýttu á víxl með greiparspenningar stórum hnútum. Svo var um mjaðmir og önnur liðamót, þau bríxluðu og hlupu svo saman, og varð svo á engin svikkan. Róan datt af með halanum, stundum hálf, stundum minna. Klaufirnar leystu fram af, sumar duttu sundur í miðju (þar formerktist fyrst pestin, ef skepnan fjekk fótaverk). Rifin bríxluðu eptir endilangri síðunni, duttu svo í miðju sundur, þá ei þoldu þunga skepnunnar, þá hún hlaut að liggja á hliðarnar. Engin hnúta var svo hörð, að ei mætti auðveldlega upptálga.

IMGL5495 copy 2Hárið af skinninu datt af með blettum, innvortis partar voru meyrir, sem segir um sauðfje, og í margan máta afskaplegir. Fáeinum kúm, sem ei voru ofurbæklaðar, varð það til lífs, að ofan í þær var aptur hellt mjólkinni, sem úr þeim var toguð. 

Þetta er hrikaleg lýsing og þó er ekki greint frá kvölum dýranna. Jón segir frá því hvernig hamfarirnar léku heilsu fólks og það er grátleg frásögn:

Þeir menn, sem ei höfðu nóg af gömlum og heilnæmum mat pestartíð þessa af til enda, liðu og stórar harmkvælingar, á þeirra bringuteina, rif, handarbök, ristar, fótleggi og liðamót komu þrimlar, hnútar og bris.

IMGL5593 copyLíkaminn þrútnaði upp, gómur og tannhold bólgnaði og sundursprakk með kvalræðisverkjum og tannpínu. Sinar krepptust sjerdeilis í hnjesbótum, hvert sjúkdómstilfelli kallast scorbutus, skyr- eða vatnsbjúgur á hæstu tröppum. Að þessi pestarfulli sjúkdómur hafi svo nærri nokkrum manni gengið, að tungan hefði moltnað burt eða gengið út af, veit jeg ei hjer nje annarstaðar dæmi til, nema ef sögn þar til væri sönn um einn sóknarmann minn, sem dó á Suðurnesjum, en hann kvaldist opt áður af kverkameinum; innvortis kraptar og partar liðu hjer við, máttleysi, brjóstmæði, hjartslátt, of mikið þvagrennsli og vanmátt um þá parta, hvar af orsakaðist lífsýki, blóðsótt og ormar í lífi, vond kýli á háls og læri, sjerdeilis hárrotnan af mörgum ungum og gömlum.

IMGL5663 AurOg Jón greinir frá því hversu stjórnvöld stóðu sig illa:

Þá gjörði og mikið til húngursneyðarinnar og mannfellisins hjer, að stiptamtmaður var svo seinn að gjöra tilskipanir um kornvörur úr kaupstöðum handa fólkinu hjer, sem þá mátti heldur vera minna með stærsta treiningi, og gjörði sá betur, sem veik út af þeim orðum, því það gaf mörgum manni líf, sem dæmi eru nóg í Rangárvallasýslu. 

Jón gagnrýnir fólk, sérstaklega þó þá sem áttu sér einhvern auð:

IMGL5717 AurHversu þeir komust af, sem hjer eptir voru, vil jeg fátt áminnast: hjer voru sjerdeilis fjórir svo efnugir menn af mat fyrirliggjandi, að meining manna var, að þeir hefðu af komizt, þó litla aðdrætti hefðu fengið í 2 ár eða jafnvel 3, og þar með svo peningaríkir, að þeir gátu ánægjanlega keypt sjer gripi, ef þá hefðu brúkað til þess.

En hversu miskunarlausir þeir voru við aðra nauðlíðandi var, eins og dæmi sýna sig hjá öðrum fjárpúkum þeirra líkum. Aðrir fundust, sem gjörðu gott af sjer, svo mikið þeir gátu, og liðu sjálfir jafnvel skort þar fyrir, og komust þó lífs af, sem hinir.

IMGL6230 b AurÉg helda að okkur sé hollt að minnsta Skaftárelda og Móðuharðindanna. Náttúra landsins er í eðli sínu óvægin gagnvart öllu; mönnum, dýrum og gróðri. Hún eirir engu, er ekkert vinsamleg. Ef hægt væri myndum við banna náttúruna með lögum, svo hættuleg er hún. Lífið er gott á Íslandi í dag en það getur hæglega breyst. Jarðeldar geta breytt öllu rétt eins og þeir gerðu árið 1783. Hamfarirnar voru hræðilegar og fólk þjáðist. Margir dóu. Tíminn læknar öll sár er tíðum sagt, en það er rangt. Eftirlifendur mundu Móðuharðindin þó nýjar kynslóðir hafi ekki fundið til sama sársauka og foreldrar eða afar og ömmur. Smám saman fyrndist yfir allt. Þegar dauðinn sækir verður sársaukinn að engu. Sem betur fer erfist hann ekki. Þetta er nú allt of sumt sem tíminn gerir; sem sagt ekkert.

Tvö hundruð þrjátíu og átta árum síðar hlægjum við og skemmtum okkur á gónhæðinni, horfum ofan í tröllslegan gíginn og kvikuna sem spýtist upp úr honum. Við köllum þetta sjónarspil og finnum ekki til ógnar frekar en af regnboganum.

Einhverra hluta vegna verður mér litið út um gluggann og sé ég að guðdómleg kvöldsólin gyllir Bláfjöll og Heiðmörk. Stórkostlegt.

Og ég velti því fyrir mér hvort þjóðin sé undirbúin fyrir önnur harðindi hvort sem þau verða afleiðing af eldgosi eða „bara“ stökkbreyttri veiru utan úr heimi. Sjáum við einhverja ógn?

IMGL6300 Aur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband