Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Ofbeldi á golfvellinum á Akranesi
26.7.2017 | 10:16
Hann hitti aldrei neitt, kúlan lent yfirleitt utan brautar, upphafshöggin voru slæm, brautarhöggin enn verri og púttin ömurleg. Á átján brautum náði hann að setja tvö persónuleg met, að exa fimm brautir og slá kúlu í mig. Hið fyrra þýðir að hann var kominn með meira en tíu högg á braut og því tilgangslaust að halda áfram. Hið síðara er efni þessa pistils.
Ég ætla ekki að nefna opinberlega nafn mannsins sem klúðraði rækilega golfleiknum á Leynisvellinum á Akranesi í gær og beitti mig ofbeldi, veit þó að hann mun lesa þennan pistil ... og lesa mér pistilinn á eftir (vonandi skilja aðrir lesendur hvað orðtakið að lesa einhverjum pistilinn þýðir). Í þokkabót er maðurinn náskyldur mér.
Sagan gerist á sautjándu braut að frændi er sem áður í bölvuðu klúðri, týnir bolta, finnur bolta og veit ekki hvað snýr upp eða niður á þeim. Ég, aftur á móti, er í þokkalegum málum, næ á fjórða höggi inn á flöt og enda á sex höggum (hefði átt að fara á pari). Og þar sem ég stend um eitthundrað metrum frá frænda, örskammt frá gríninu, og er að velta fyrir mér uppruna heimsins, tilgangi lífsins og framhaldi þess heyri ég frænda æpa af lífs og sálar kröftum.
Varð mér sem snöggvast hugsað til Þorgeirs Hávarssonar sem heyrði til fóstbróður síns æpa uppi á Hornbjargi við leit að sér. Bað hann Þormóð vinsamlegast að hætta að styggja fogla en sjálf hetjan hékk þá í hvönn og átti líf sitt undir því að hún drægist ekki upp. Væntanlega þekkja allir framhaldið í Gerplu.
Nú, nú. Þarna æpir frændi minn eitthvað sem hverfur út í rokið (rok þýðir talsverður vindur). Ósjálfrátt stíg ég eitt skref aftur á bak og bregð vinstri hönd fyrir augu til ég sjái til hans sem styggir fugla, golfara og saklausa borgara á Akranesi með ópum sínum. Þá veit ég ekki fyrr til en að ég fæ eitt ofsalegt bylmingshögg ofarlega í kvið mér vinstra megin og golfkúla endurkastast af belg mínum, rúllar mjúklega nokkra metra eftir gríninu og hverfur ofan í holuna.
Auðvitað fannst mér mikið til höggsins koma og réði því tvennt. Annars vegar að kúlan skyldi hafa endað í holunni og hins vegar sársaukinn enda hringsnérist veröldin og varð að dimmum göngum og við enda þeirra var hvítt ljós og þar stóðu áar mínir og annað skyldfólk sem horfið hefur yfir móðuna miklu og fagnaði nú komu minni. Sannarleg bjóst líka við því að ég væri að fara yfir um. Þetta var næstum náðarhögg eftir sársaukanum að dæma.
Svo náði ég að rétta út kútnum (bókstaflega) og með ofurmannlegu átaki lét ég á engu bera. Atvikið olli samt miklu uppnámi. Nærstaddir vildu blása lofti í mig, gefa mér rafmagn með einhverju stuðtæki eða fá mig til að leggjast og hnoðast á brjóstkassanum. Íðilfögur kona baust jafnvel til að kyssa á báttið sem mér fannst alls ekki fjarri því að vera skynsamlegt til lækningar.
Þar sem kúlan var ekki sjáanleg héldu menn að hún væri komin inn í magann og spunnust þá miklar umræðum um hvað skyldi gera. Sumir héldu því fram að frændi ætti að taka víti en aðrir sögðu að kúlan væri á braut og vildu að hann slægi hana þar sem hún væri (það er inni í mér).
Þegar fólk áttaði sig á því að ég var lifandi missti það fljótlega áhugann á mér og hvarf hver til sinnar brautar og gleymdi atvikinu. Frændi kom hins vegar náfölur og baðst afsökunar. Vissi ég þó ekki yfir hvoru hann var leiðari, að hafa slegið kúlu í mig eða ég væri enn uppistandandi. Hann gladdist þó yfir því að kúlan hefði endað í holunni og reyndist þetta skásta skorið hans á vellinum, níu högg á par fjórum, ekkert pútt.
Hér færi vel á því að enda pistilinn. Hins vegar gæti verið að lesendur vilji vita eitthvað um líðan mína, af einskærri forvitni eða af meðaumkun. Því er til að svara að aðbúnaður hér á sjúkrahúsinu á Akranesi er einstaklega góður, maturinn fínn, rúmið gott og skurðlæknarnir góðir og lífslíkurnar eru bara talsverðar ...
Nei þetta var nú bara spaug. Ég er nokkurn veginn heill heilsu en ber samt áverka eftir ofbeldi frænda míns. Það má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd af vöðvastæltum maga mínum.
Þetta ósjálfráða skref aftur á bak bjargaði miklu annars hefði golfkúlan líklega skollið á höfði mér, frænda til mikillar ógleði, og kúlan aldrei endað í holunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svikamylla í nafni Símans
24.7.2017 | 09:24
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lestur frétta í útvarpi og sjónvarpi
23.7.2017 | 12:53
Því er haldið fram að fréttatímar á Bylgjunni séu hundleiðinlegir. Ástæðan er einfaldlega sú að mörgum finnst raddir lesara (fréttamanna) einstaklega óáheyrilegir og þeir lesi auk þess illa.
Undir þetta má vissulega taka og um leið spyrja, hvort þeim sé lesa sé ekki leiðbeint og jafnvel hvort ekki sé til nein samræmd stefna um lestur frétta. Svo virðist því miður ekki vera.
Sami vandi virðist ekki til hjá Ríkisútvarpinu. Lesarar i fréttatímum á ábyrgð ríkisins eru flestir (ekki allir) vanda sínum vaxnir. Þeir lesa röggsamlega og tiltölulega rétt. Gríðarlegur munur er á fréttatímum þessara útvarpsstöðva, ríkisútvarpinu í hag svo miklu munar.
Ekki er nóg að skýrmæltur heldur er afar mikilvægt að lesarinn tali við hlustandann. Hann má ekki bara þylja upp staðreyndir af blaði heldur reyna að miðla þeim til hlustenda eins og hann sé ljóslifandi við hlið þeirra.
Afi minn heitinn var frekar heyrnardaufur og sagði alltaf þegar vinsæll, dimmraddaður fréttaþulur Ríkisútvarpsins kynnti sig og hóf lestur: Kemur þú, helvískur .... Ástæðan var sú að röddin mannsins rann saman í einhæfa belg og biðu, varð dimm suða, og afi náði ekki alltaf að greina á milli orða. Þess vegna bölvaði hann og taldi sig svikinn um fréttir þegar sá dimmraddaði flutti þær.
Staðreyndin er sá að lestur í heyrenda hljóði krefst æfingar. Mér er minnisstætt ráð sem tæknimaður hjá Ríkisútvarinu gaf mér fyrir ævalöngu er ég var með vikulega útvarpsþætti í nokkur misseri. Þeir voru sjaldnast í beinni útsendingu heldur teknir upp fyrirfram. Ég átti það til að reka í vörðurnar, stundum var ég að flýta mér og gaf mér ekki nægan tíma til lestursins.
Ráð þessa ágæta tæknimanns var stutt og stutt: Lestu upphátt í um fimm mínútur á hverjum degi.
Ég var ungur og tók ekki alltaf ráðum en í þetta sinn gerði ég það. Viti menn innan mánaðar var lesturinn orðinn svo léttur og leikandi hjá mér að þessi sami tæknimaður hafði það á orði að framfarirnar væru miklar. Ég sagði eins og var og þakkaði honum en hann sagði að ég væri ekki sá fyrsti til að nota þetta ráð og nefndi marga þekkta úrvarpsmenn og ræðumenn sem gerðu þetta.
Staðreyndin er einföld. Æfingin skapar meistarann. Enginn getur orðið góður lesari nema því aðeins að hann æfi sig reglulega.
Þetta er hins vegar ekki allt. Lesarinn þarf að læra á rödd sína, nota mismunandi tónhæð og sveiflur. Hann þarf að hlusta á rödd sína í upplestrinum, taka hana upp og hlusta á hana á eftir, gleyma því að hann eigi röddina og gagnrýna lesturinn og laga.
Í lokin er ekki úr vegi að nefna einn alvarlegan galla sem margir fréttalesarar eiga við að etja en gera sér ekki allir grein fyrir honum. Hann er sá að gera örstutt hlé eftir hvert orð eða setningu í stað þess að lesa í óslitnu samhengi. Dæmi:
Nú ... er runninn upp ... lokadagur ... Íslandsmótsins ... í golfi. Eins og fram kom í gær ... er mikil spenna ... í báðum flokkum, ... en þrír kylfingar ... eru jafnir í kvennaflokki. Axel Bóasson ... hefur þriggja ... högga ... forystu á næstu menn, ... en einnig er ... mjótt á munum ... hjá körlunum.
Margir góðir og áheyrilegir fréttamenn og jafnvel dagskrárgerðarmenn hafa tileinkað sér þennan leiðinlega lestrarstíl.
Og síðast en ekki síst er bráðfyndið að minnst þeirra sem í gegnum tíðina hafa lesið veðurfréttir í Ríkisútvarpinu. Margir þeirra voru stórkostlegir upplesarar sem maður minnist með brosi vegna þess að þeir lásu með sínu nefi eins og sagt er, en ekki í samkvæmt samræmdri ríkisupplestrarstefnu. '
Sumir byrjuðu afar hátt og runnu síðan í gegnum málgreinina og enduðu nær loftlausir ...skyggne fjégur steg, hiteee sjööö gráðöööööör..
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvernig hefur þeim vegnað sem fengið hafa uppreist æru?
19.7.2017 | 09:32
Líklega er stórhættulegt að blanda sér inn í umræðum um uppreist æru, og síst af öllu þá að nefna kenningar um fyrirgefningu, jafnt synda sem yfirsjóna. Vert af öllu er þó að ræða þá sem framið hafa ónefnanlega ljóta glæpi og þá sem hlotið hafa dóm fyrir.
Hins vegar hefur komið fram í mjög svo tilfinningaþrunginni umræðu undanfarinna vikna að þetta sem nefnt hefur verið uppreist æru hefur verið tíðkað í áratugi.
Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að kanna hvernig til hefur tekist bæði fyrir þá sem hlotið æruna til baka sem og samfélagið.
Í stað þess að reyna að reyna að snapa pólitískt sólaljós í umræðunni er farsælla að hallast að málefnalegri hliðinni.
Yfirleitt er uppreist æru veitt í kyrrþey, almenningur er ekki spurður og síst af öllu dómstólar götunnar eða virkir í athugasemdum. Í flestum tilfellum er það bara gott. Varla getur það verið neinum hollt að lenda í síku, ekki frekar en þegar fólki er hleypt aftur út í samfélagið eftir afplánun fangelsisdóms.
Hvernig skyldi nú fólki hafa vegnað eftir að hafa fengið uppreist æru undanfarna áratugi?
- Hefur það snúið af villu síns vegar eða haldið áfram, betrunin náð árangri?
- Hvernig hefur samfélagið tekið við þessu fólki?
- Hefur það verið látið í friði eða er það stöðugt minnt á yfirsjónir sínar eða glæpi?
- Hefur það tekið upp störf í fyrri atvinnugrein eða farið í nýjar?
Mér finnst þetta dálítið forvitnilegt, mun áhugaverðara sjónarhorn heldur en viðhorf hins tilfinninganæma manns sem af meintri heift sinni helst vill drepa eða berja þann sem hefur orðið sekur um hinn ónefnanlega glæp.
Ábyggilega mun gagnlegra er að íhuga ofangreint sjónarhorn en að þykjast vera pólitíkus og reyna að vekja athygli á sjálfum sér í samfélaginu fyrir meinta umhyggju sem virðist þó ekkert annað en skinhelgin ein.
Ferlið sagt vera allt of vélrænt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Suðaustanáttin varhugaverð á Fimvörðuhálsi
18.7.2017 | 23:34
Ferðalangar sem ætla á Fimmvörðuháls ættu að hafa eina þumalputtareglu í huga. Ekki fara á Hálsinn er spáð er hvassri suðaustanátt. Þá verða yfirleitt hrikaleg veður þarna uppi, þetta er byggt reynsla okkar, nokkurra félaga sem höfum um þrjátíu ára reynslu á ferðalögum þarna, á öllum árstíðum.
Hvöss suðaustanátt magnast einhverra hluta vegna þarna uppi. Það er eins og að vindurinn ná sér á strik þegar upp á Skógaheiði er komið og þar magnist hann margfalt. Oftast fylgir rigning svo úr verður meinlegt slagveður, nærri því lárétt vindstefna, eða eins og oft er sagt, vindurinn stefnir upp í móti og á því greiða leið upp buxnaskálmarnar. Þetta síðasta er auðvitað spaug en öllu gamni fylgir nokkur alvara.
Alvarlegast í þessu er hvassviðrið, úrkoman og þokan. Reyndustu ferðamenn geta villst í svona veðri. Best af öllu er að halda kyrru fyrir og bíða. Þeir þolinmóðu eru sigurvegararnir.
Allar þessar upplýsingar er að finna í bókinni um Fimmvörðuháls sem undirritaður skrifaði og hægt er að panta hana hér; 5vh@simnet.is.
Fá sér kaldan á krana inni í hlýjunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
16.7.2017 | 18:27
1.
Vafamál: Væntir samdráttar hjá bílaleigum. Fyrirsögn í viðskiptablaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017.
Athugasemd: Sé sögnin að vænta komin af nafnorðinu von hefði mátt sleppa þessari fyrirsögn vegna þess að viðmælandinn er ekki að vonast eftir samdrætti, hann frekar óttast hann. Hins vegar eru til margar útgáfu af þessu orði: Ólétt kona væntir sín, við væntum mikils af kvennalandsliðinu, ég vænti þess að vinna í happdrætti, ég vonast ekki til að bíllinn bili, er frekar hræddur um það.
Tillaga: Býst við samdrætti hjá bílaleigum.
2.
Vafamál: Hættur við endurreisn alþjóðahagkerfisins. Fyrirsögn í viðskiptablaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017.
Athugasemd: Fyrirsögnina má hæglega misskilja enda ekki ljóst hvort fyrsta orðið sé sögn eða nafnorð. Svo bætist næsta orð við. Sé einhver hættur við, heldur hann ekki áfram. Sé fyrsta orðið nafnorð þá er merking fyrirsagnarinnar sú sem höfundurinn hennar á við. Bent er á þetta til að sýna fjölbreytni íslenskunnar og hversu miklu skiptir að velja rétt orð til að fyrirbyggja misskilning.
Tillaga: Þetta er fín fyrirsögn þrátt fyrir annmarka hennar.
3.
Vafamál: Björgunarsveitir á Ítalíu hafa fundið lík átta einstaklinga sem var saknað eftir að fjölbýlishús hrundi til jarðar skammt frá borginni Napólí í gær. mbl.is
Athugasemd: Hús hrynja lóðrétt niður, til jarðar, að hluta eða öllu leyti. Óþarfi að bæta þessu við til jarðar. Þar að auki fundust lík átta manna. Menn eru einstaklingar, hvort heldur að það séu konur eða karlar.
Tillaga: Björgunarsveitir hafa fundið lík átta manna sem saknað var eftir að fjölbýlishús hrundi skammt frá borginni Napólí í gær.
4.
Vafamál: Í júní voru framboðnar gistinætur Icelandair Hotels rúmlega 40 þúsund samanborið við rúmlega 36 þúsund í júní á síðasta ári. Morgunblaðið 8. júlí 2017, bls 20.
Athugasemd: Illskiljanleg málsgrein, of löng og tilgerðarleg. Hvað eru framboðnar gistinætur? Ef átt er við gistinætur í boði af hverju er það ekki sagt?
Tillaga: Í júní voru í boði 40 þúsund gistinætur hjá Icelandair Hotels en 36 þúsund í fyrra.
5.
Vafamál: Ekki fleiri arnarnarpör lengi. Fyrirsögn í Morgunblaðinu 12. júlí 2017, bls 4.
Athugasemd: Lengi er atviksorð og getur illa staðið aftast í málsgrein, hún verður hálfkjánaleg fyrir vikið. Átt er við að arnarpör hafi sjaldan verið fleiri en nú.
Tillaga: Sjaldan fleiri arnarpör eða arnarpör hafa sjaldan verið fleiri.
6.
Vafamál: Bankarnir stíga á bremsuna í lánveitingum til hótelverkefna. Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin er óþarflega löng. Átt er við að dregið hafi úr áhuga banka að lána til bygginga á hótelum. Óskiljanlegt hvers vegna byggingar á hótelum eru kölluð hótelverkefni.
Tillaga: Bankarnir lána minna til bygginga hótela, eða bankarnir draga úr lánum til hótelbygginga.
7.
Vafamál: Forsætisráðherrann er staddur í París til að taka þátt í minningarathöfn um fórnarlömb fjöldahandtöku sem nasistar framkvæmdu í Frakklandi árið 1942. Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er afleitt orðalag, að framkvæma fjöldahandtöku. Minningarathöfnin var um þá sem nasistar handtóku. Af hverju er það þá ekki sagt beinum orðum í stað þess að flækja setninguna í ljótu nafnorðastagli?
Tillaga: um þá sem nasistar handtóku í Frakklandi árið 1942.
8.
Vafamál: Það er mjög blómleg afgönsk pressa, sem var ekki til undir talíbönum. Það er fullt af sjálfstæðum fjölmiðlum þarna og mikill metnaður í því. Það er mjög jákvæð og góð þróun í lýðræðisátt enda fjölmiðlar ein af grunnstoðunum. Viðtal við Unu Sighvatsdóttur í Fréttablaðinu.
Athugasemd: Viðtalið er langt og blaðamaðurinn virðist ekki alveg ráða við það, kastar stundum til höndunum. Þegar viðmælandi talar rangt mál, á blaðamaðurinn að laga það, ekki gera honum þann óleik að skrifa hugsunarlaust upp eftir honum. Sama er um annað í viðtali, blaðamanni ber að gera það læsilegra. Persónufornafnið það er ofnotað og verður við það merkingasnauður leppur, barnalegur og leiðinlegur. Í slíkum tilfellum kallast persónufornafnið aukafrumlag sem flestir reyna að forðast.
Tillaga: Hér hefði blaðamaðurinn átt að nota hugmyndaflugið og skrifa framhjá aukafrumlaginu.
9.
Vafamál: Bátur til sölu ásamt kerru sem er í smíðum, verð Smáauglýsing í Fréttablaðinu 16. júní 2017.
Athugasemd: Allt bendir til að kerran sé í smíðum en samkvæmt myndinni er virðist báturinn vera í smíðum. Mikilvægt er að sem, tilvísunarfornafnið, vísi alltaf til þess sem verið er að útskýra.
Tillaga: Bátur í smíðum til sölu Eða: Bátur til sölu, kerra í smíðum fylgir
10.
Vafamál: Rafdrifnir upphitaðir útispeglar, 2x afturhurðir að aftan. Auglýsing um Ford Transit bíla í Fréttablaðinu 16. júní 2017.
Athugasemd: Flestir skilja samstundis að afturhurð er aftan á Ford Transit, séu þar dyr. Hurð notuð til að loka dyrum. Flókið er að hafa hurðir að aftan án dyra. Um leið er sárt að ganga um hurðir. Aldrei er talað um gleðinnar hurðir heldur um gleðinnar dyr..
Tillaga: tvær hurðir á afturdyrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.7.2017 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Falsfréttir og lygi sem mengar lýðræðið
12.7.2017 | 11:11
Bilun í dælustöð fráveitu Veitna við Faxaskjól hefur vakið athygli á borgarstjóranum og starfsaðferðum hans og vinstri meirihlutans. Nú blasir við að hann leggur mikið upp úr því að vera sjáanlegur þegar allt gengur vel. Þegar eitthvað bjátar á er hann ósýnilegur og embættismenn þurfa að svara fjölmiðlum.
Dælustöð bilaði og óhreinsuðu skolpi var í þrjár vikur dælt í Fossvog og þá gerði borgarstjóri eins og hann var vanur, hann faldi sig. Á meðan fórum við almenningur í sjósund, sulluðum með börnunum í fjörunni af því að við treystum því að allt væri í lagi.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hreinlega dró Dag B. Eggertsson á eyrunum fram í dagsljósið og hann þurfti að svara fyrir skolphneykslið.
Auðvitað gat hann ekkert sagt annað en það sem embættismenn höfðu þegar sagt. Hann reiddist hins vegar af því að PR-deildin hafði ekki undirbúið hann eða komið í veg fyrir viðtalið.
Þetta þarfnast skýringar. Á vegum skrifstofu borgarstjóra er fjöldi manns sem hefur það verkefni eitt að láta borgarstjórann og meirihlutann líta vel út. Þetta er PR-deildin sem á að koma í veg fyrir að hægt sé að tengja borgarstjórann eða meirihlutann við svona hneykslismál.
PR-deildin lætur fjölmiðla vita um ferðir borgarstjórans, hvar hann sé, býður upp á myndatökur viðtöl við hin og þessi tækifæri. Sem sagt sinnir almannatengslum ... og áróðri. Gleymum ekki því síðara.
Eftir hrakfarir borgarstjóra vegna skolplekans er nú þeirri sögu markvisst dreift á athugasemdakerfum fjölmiðla og í samfélagsmiðlum að hreinsun strandlengju Reykjavíkur hafi byrjað með R-listanum en meirihluti Sjálfstæðiflokksins í borgarstjórn aldrei látið sig þetta mál sig neinu skipta, jafnvel verið á móti hreinsuninni.
Nú eru komnar nýjar kynslóðir sem ganga að því vísu að strandlengjan eigi að vera hrein og fólk er í raun ekkert að velta því fyrir sér hver eigi heiðurinn að þessum framkvæmdum, svo sjálfsagt þykir þetta. Þar af leiðandi er auðveldara fyrir áróðursliðið á skrifstofu borgarstjóra að dreifa falsfréttum og hælbítarnir í athugasemdakerfum fjölmiðla taka svo undir, dreifir lyginni eins og þeim sé borgað fyrir það.
Staðreyndir um fráveituna og hreinsun strandlengju Reykjavíkur má til dæmis lesa í frétt í Morgunblaðinu þann 22. maí 1990 sem og í Dv 25. janúar sama ár. Hér eru myndir af þessum fréttum og til að lesa er best að tvísmella á þær.
Skipulag fráveitunnar var unnið undir forystu meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og þá var Davíð Oddsson borgarstjóri. Raunar ber þess að geta að enginn stjórnmálaflokkur lagðist gegn málinu, allir voru sammála um að þetta væri bókstaflega þjóðþrifamál. PR-deildin vill hins vegar eigna R-listanum heiðurinn og því er falsfréttum dreift.
Rétt skal vera rétt og með öllum ráðum á að berjast gegn falsfréttum. Athygli vekur þó hversu áróðurinn í dag er umfangsmikill og skipulagður en ekki síst hversu óforskammaður hann í raun og veru er. Fjórtán manns starfa í PR-deildinni fyrir meirihlutann í borgarstjórn. Auðvitað eru starfsheitin mismunandi og reynt að fela þetta eins og hægt er. Kostnaðurinn er á annað hundrað milljónir króna á ári.
PR-deildin hringir ekki í aðra en þá sem hún getur treyst og kjafta ekki frá. Fólk er hins vegar ekki fífl, ekki heldur blaðamenn. Sumir blaða- og fréttamenn eru meira í málefnum sem snerta borgina og margir eiga sér sögu úr starfi þeirra flokka sem mynda meirihluta borgarstjórnar.
Svo eru það samfélagsmiðlarnir og þeir sem skrifa í athugasemdadálka fjölmiðla. Þar er sveit vaskra manna sem hefur það markmið að dreifa óhróðri um minnihlutann. Til að auka slagkraftinn eru sumir með aukaskráningu á Facebook, það er koma fram undir fölsku nafni.
Eitt falsnafnið er Guðmund Einarsson og skráningin hans á Facebook er hér. Nafnið hans var skráð 12. október 2016 og síðan hefur hann haft sig mikið í frammi á athugasemdakerfum visir.is, dv.is og eyjunnar.is. Falsarinn sem stendur á bak við nafnið tekur engum rökum, hamrar stöðugt á falsi og óhróðri.
Fleiri svona svindlarar eru á netinu. Einkenni þeirra eru hin sömu en stundum er meira í lagt og búinn til bakgrunnur til að viðkomandi sé trúverðugri.
Svo eru það hinir sem láta sér í léttu rúmi liggja þó nafn þeirra tengist óhróðri, svívirðingum og lygi. Þeir eru ótrúlega margir og láta sér ekki segjast þó staðreyndir mála blasi við þeim. Þeir halda áfram að dreifa falsfréttum eins og þeir eru ráðnir til að gera.
Almenningur er gjörsamlega varnarlaus gegn falsfréttum og þær eru hvað hættulegastar fyrir lýðræðið og frjáls skoðanaskipti. Falsfréttir eru eins og hryðjuverk, enginn veit hvenær þær bitna á manni sjálfum.
Vart er til óhugnanlegri tilfinning en sú að maður hafi myndað sér skoðun sem meira eða minna er byggð á falsfréttum, fölsuðum upplýsingum um málefni eða einstaklinga. Jú, raunar er ein tilfinning verri og hún er sú að hafa ekki hugmynd um að logið hafi verið að manni. Hver er þá vörnin, til hvaða ráða getur maður gripið?
Þannig mengar lygin lýðræðið. Hún er eins og skolpið sem flæðir um strandlengjuna, enginn sér það og við höldum að allt sé í svo óskaplega góðu lagi og við sullum með börnunum í fjörunni.
Borgarstjórinn heldur sig hins vegar fjarri og því verður seint hægt að finna hann í fjöru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blaðamaður spinnur frétt úr eigin skoðunum
11.7.2017 | 13:55
Embættismenn og kjörnir fulltrúar gleyma því stundum að þeir eru þjónar almennings. Fólk sem starfar fyrir sveitarfélög hefur fyrst og fremst skyldum að gegna gagnvart íbúum sveitarfélagsins. Að þegja um saurmengun skammt frá vinsælum baðstað Reykvíkinga eru algjörlega óforsvaranleg vinnubrögð.
Skyldi einhver telja þetta mælt í einhverri ómálefnaleg umfjöllum sem stefnt er gegn stjórnendum Reykjavíkurborgar eða fyrirtækjum hennar? Varla.
En þetta:
Formaður borgarráðs Reykjavíkur tjáði sig seint og illa um viðbjóðinn sem bíað hafði út strandlengjur höfuðborgarinnar vikum saman, án þess að fólkið, borgarbúarnir, væri látið vita og gæti gætt sín og barna sinna. Fjöldi starfsmanna borgarinnar á veitusviði og heilbrigðissviði vissi um vandræðin og um ógnina sem af þeim stafaði.
Varla telst þetta heift eða illa mælt. Engu að síður er síðasta tilvitnunin notuð gegn fjölmiðlinum sem hún birtist í.
Fyrri tilvitnunin er úr leiðara Fréttablaðsins en hin síðari úr leiðara Morgunblaðsins, hvort tveggja í blöðum dagsins.
Leiðarinn er undir yfirskriftinni Brugðust borgarbúum. Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar á visir.is segir í frétt á miðli sínum um leiðarann:
Leiðarinn er óvenju heiftúðugur, en hann er undir yfirskriftinni Brugðust borgarbúum ...
Ég hef lesið leiðarann í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Í báðum er tekið nokkuð hart til orða en hvorugur er heiftúðugur, þvert á móti málefnalega rætt um hneykslið. Þannig er þetta bara og það veit blaðamaðurinn, Jakob Bjarnar, sem reynir ekki einu sinni að færa rök fyrir hinu arma orðalagi sínu.
Raunar kemur það æ oftar fyrir að Jakob Bjarnar skrifi fréttir og blandi inn í þær skoðunum sínum. Það er óþolandi og alls ekki góð blaðamennska, þvert á móti má flokka slíkt sem áróður og ekki sæmandi fjölmiðli.
Auðvitað er ástæðan sú að Jakob Bjarnar vill að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi skrifað leiðarann, sem vel getur verið rétt. Fjölmargir óttast Davíð og geta ekki brugðist við rökum hans nema með því að túlka orð hans og í óbeinni ræðu og geta þannig búið til einhvern ljótan hálfsannleik.
Vel saminn leiðari er því orðinn heiftúðugur af því að borgaryfirvöld og stofnanir borgarinnar hafa staðið sig hörmulega illa. Þetta er ekki bara skoðun í leiðara Morgunblaðsins, Þorbjörn Þórðarson, leiðarhöfundur Fréttablaðsins, er á sömu skoðun, en nei, Þorbjörn er ekki talinn heiftúðugur, bara helv... hann Davíð.
Svo má búast við því að hælbítar í athugasemdum skríði upp úr holum sínum og haldi áfram naginu þar sem Jakob Bjarnar hætti.
Myndina leitaði Google að en ekki hefur verið sótt um leyfi til birtingar enda ekki vitað hver tók hana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vandi erfingja Halldórs Laxness er þeirra vandi, ekki þjóðarinnar
11.7.2017 | 09:46
Þegar ég var ungur voru gefnar einkunnir fyrir ritgerðir. Þá þótti sú ritgerð góð sem var læsilega handskrifuð, snyrtileg í frágangi, fáar eða engar stafsetningavillur og málfarið gott. Flestum var þó ljóst að ritgerðir án merkilegs innihalds voru leiðinlegar enda verður léleg ritgerð aldrei betri þótt hún væri rétt stafsett en efnislega vel skrifuð ritgerð varð sjaldan léleg þrátt fyrir hörmulega stafsetningu þó slíkar villur væru vissulega lýti.
Þetta datt mér í hug þegar ég las læsilega og snyrtilega grein eftir Gunnar Haraldsson, hagfræðing í Morgunblaði dagsins. Hún hefði fengið háa einkun í gamla daga, er afar sennileg eins og oft er sagt. Gallinn er bara innihaldið sem er svo rýrt miðað við umræðuefnið.
Gunnar ritar um raunir erfingja Halldórs Laxness en þeim hefur nú verið gert að greiða erfðafjárskatt af hugverkum hans. Þeir vilja skiljanlega ekki greiða krónu nema af þeim tekjum sem skila sér. Yfirskattanefnd var ekki sammála og þannig standa mál núna og ætla erfingjarnir í mál vegna úrskurða hennar.
Hér mjög mikilvægt að gera greinarmun á hugverkum Halldórs Laxnes og erfingjum hans. Ég hef til dæmis engan áhuga á erfingjunum, þekki þá ekki eða tengist. Hins vegar les ég reglulega mér til ánægju þær bækur Nóbelskáldsins sem eru í uppáhaldi án þess að leiða hugann að erfðamálunum. Íslandsklukkan stendur fyrir sínu þó eitthvað bjáti á í heimilislífi afkomenda höfundarins.
Ástæðan fyrir því að mér finnst grein Gunnars innihaldsrýr er að hann reynir af miklum klókindum að blanda saman ást og virðingu þjóðarinnar á Halldóri Laxnes og erfðamálunum. Hann gerir mikið úr því að ríkinu hafi verið gefnar flestar eigur Auðar, ekkju Halldórs eins og það skipti einhverju skattamáli. Gunnar segir orðrétt:
Þessar eignir ásamt Gljúfrasteini sjálfum mynda nú eins og kunnugt er hornstein mikillar þjóðargersemar sem auk stórbrotinna listaverka skáldsins verður þjóðinni kær um aldir og órjúfanlegur hluti þess sem best og fegurst er til í íslenskri menningu.
Áður hafði skáldið falið Seðlabanka Íslands til varðveislu verðlaunagrip Nóbels, gullpeninginn sjálfan.
Eftir hélt Auður höfundarétti Halldórs.
Ég geri mér grein fyrir þessu þó dálítið skrautlega sé í lagt hjá höfundinum. Hitt skil ég ekki hvað þetta kemur erfðamálunum við nema auðvitað að gefi listamaður til ríkisins eigi lög og reglur ekki að gilda um hann, til dæmis um erfðir. Með þessu er ég ekki að taka afstöðu heldur benda á hversu langt er til seilst í rökfærslu fyrir erfingjanna.
Greinin er öll með þessu yfirbragði en hvergi tekið á lögfræðilegum álitamálum, rök yfirskattanefnda ekki nefnd. Höfundurinn kórónar síðan vitleysuna og hvetur til að listamenn komi erfingjunum til aðstoðar og mótmæli og hann grípur til þess að eggja listamenn lögeggjan út af fjölskylduvandamálum erfingjanna. Sem er furðulegt.
Í lokinn segir Gunnar:
Ég er þess viss að verði nú brugðist við af afli muni dómstólar komast að farsælli niðurstöðu í þessu máli svipað og gerðist í aðför ríkisvaldsins að prentfrelsi í landinu þar sem Halldór Laxness fór fyrir hópi manna er buðu valdinu birginn. Við Íslendingar njótum alla tíð þótt ef til vill öllum sé ekki í minni nú.
Þarna heldur höfundurinn því fram að hávaði og læti utan dómsala muni hafa áhrif á dómendur sem muni þá sleppa því að fletta í íslenskum lögum og dæma þess í stað eftir desibelum á götunni.
Hvers konar bull er nú þetta? Trúir maðurinn því að með áróðri megi knýja dómastóla til að dæma samkvæmt þeim sem hæst hrópa? Sé svo er illa komið fyrir íslensku samfélagi, verr en sem nemur vanda örfárra erfingja sem með réttu eða röngu gert er að borga erfðafjárskatt.
Íslendingar dá arfleið Halldórs Laxness og henni hefur verið sýndur margvíslegur sómi og hvergi nokkurs staðar er sneitt að höfundinum með einum eða neinum hætti jafnvel þó erfingjar og Gunnar Haraldsson reyni að halda því fram. Halldór var þó fjarri því óumdeildur í lifanda lífi en sá tími er löngu liðinn.
Niðurstaða mín er einfaldlega sú að erfingjar Halldórs Laxness þurfa ekki á stuðningi almennings að halda. Lagarökin eiga að duga þeim fullkomnlega enda ekki annað tekið gilt í dómsal. Ritgerðin hans Gunnars Haraldssonar er samt laus við stafsetninga- og málfræðivillur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Borgarstjóri stjórnar ekki borginni, talar bara
8.7.2017 | 22:30
Borgarstjóri fullyrðir að hann hafi ekki vitað af mengunarslysinu í Fossvogi, las bara um það í fjölmiðum að skolp hafi streymt í sjóinn í tíu daga án þess að nokkur vissi nema einhverjir starfsmenn Veitna eða heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Enginn dregur orð borgarstjóra í efa, en þau stækka hreinlega þann vanda sem borgarstjórinn á við að etja. Nú er ljóst að hann virðist ekki hafa neina stjórn á starfsemi borgarinnar.
Eðli máls vegna eiga embættismenn að tilkynna borgarstjóra um atvik eins og þetta mengunarslys. Hafi þeir ekki gert það er ljóst að borgarstjóri kann ekki eða getur ekki stýrt borginni. Í fræðunum er þetta kallaður stjórnunarvandi.
Sá sem stýrir byggir á því að dreifa valdinu skynsamlega. Engu að síður liggja allir þræðir til borgarstjóra en geri þeir það ekki er hann í vanda, hefur ekki því ekki yfirsýn yfir stöðu borgarmála.
Undanfarin ár hefur borgarskipulaginu margoft verið breytt og í öllum tilfellum var ætlunin að einfalda það eða spara.
Í skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu sem kynnt var árið 2015 segir:
Á undanförnum áratug hefur fjöldi íslenskra fyrirtækja og stofnana gjörbreytt um viðmót og menningu innan sinna veggja og farið úr að vera þunglamalegar afgreiðslustofnanir yfir í fyrirmyndarþjónustufyrirtæki. Önnur hafa hafið þessa vegferð en ekki lokið henni eða gefist upp á miðri leið líkt og hugsanlega má segja að gerst hafi hjá Reykjavíkurborg.
Sem sagt, lítið gerst hjá Reykjavíkurborg. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, svaraði gagnrýni borgarbúa á lélega þjónustu borgarinnar á þennan hátt í viðtal við Ríkisútvarpið í febrúar 2015:
Alveg hárrétt, og ég held að Reykvíkingar sé þess vegna bara kröfuharðari og svona gagnrýnni og þannig viljum við hafa það. Við viljum vera gott sveitarfélag, veita góða þjónustu, en við tökum líka ábendingum alvarlega og vinnum með þær og erum þannig alltaf að reyna að verða betri og betri.
Svona er nú talið, aldrei farið beint í málin, heldur hringsólað í kringum þau með sennilegum orðum. Degi mælist oftast vel en þegar upp er staðið veit enginn hvað hann er að tala um.
Og þegar skoðanakannanir um þjónustumál sýna slaka útkomu fyrirskipar borgarstjóri að hætt verði að taka þátt í þeim. Þetta er svipað og ef sjúklingur er mældur og í ljós kemur að hann er með hita þá krefst læknirinn að hitinn verið ekki mældur aftur (sko, Dagur B. Eggertsson er læknir að mennt).
Ekki er að furða þó lekandinn í dælustöðinni haldi áfram þegar aginn hjá embættismönnum er lítill og virðingin fyrir embætti borgarstjóra er í lágmarki. Málið er að borgarstjóra, hver sá sem sinnir því, ber að stjórna. Annars er hann óhæfur.
Munið hvernig fór í landsmálunum árið 2013. Samfylkingin var flengd fyrir starf sitt í ríkisstjórn, almenningur varð einfaldlega þreyttur á kjaftavaðlinum sem einkenndi flokkinn svo ekki sé talaðum verkleysið.
Þá tók við önnur ríkisstjórn og í síðustu kosningum var Samfylkingin aftur flengd. Ekki vegna þess að hún hefði átt aðild að stjórninni heldur vegna þess að hún var ekki einu sinni traustsins verð í stjórnarandstöðu. Kjósendur völdu frekar hugsjónalausa Pírata eða gamaldags sósíalista fram yfir tilgerðalega jafnaðarmenn. Þvílík niðurlæging.
Ég þori að veðja að Samfylkingin verði flengd í borgarstjórnarkosningunum eftir tæpt ár. Það er gengur nefnilega ekki að tala sennilega, tala mikið og kjafta sig frá málunum. Væri það hægt væru Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Oddný Harðardóttir og Helgi Hjörvar enn á þingi. Sömu örlög bíða Dags B. Eggertssonar, Hjálmars Sveinssonar og annarra borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sem enginn veit hvað heita eða hvað þeir yfirleitt eru að gera.