Hvernig hefur þeim vegnað sem fengið hafa uppreist æru?

Líklega er stórhættulegt að blanda sér inn í umræðum um „uppreist æru“, og síst af öllu þá að nefna kenningar um fyrirgefningu, jafnt synda sem yfirsjóna. Vert af öllu er þó að ræða þá sem framið hafa ónefnanlega ljóta glæpi og þá sem hlotið hafa dóm fyrir.

Hins vegar hefur komið fram í mjög svo tilfinningaþrunginni umræðu undanfarinna vikna að þetta sem nefnt hefur verið „uppreist æru“ hefur verið tíðkað í áratugi.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að kanna hvernig til hefur tekist bæði fyrir þá sem hlotið æruna til baka sem og samfélagið.

Í stað þess að reyna að reyna að snapa pólitískt sólaljós í umræðunni er farsælla að hallast að málefnalegri hliðinni.

Yfirleitt er „uppreist æru“ veitt í kyrrþey, almenningur er ekki spurður og síst af öllu dómstólar götunnar eða „virkir í athugasemdum“. Í flestum tilfellum er það bara gott. Varla getur það verið neinum hollt að lenda í síku, ekki frekar en þegar fólki er hleypt aftur út í samfélagið eftir afplánun fangelsisdóms.

Hvernig skyldi nú fólki hafa vegnað eftir að hafa fengið „uppreist æru“ undanfarna áratugi?

  • Hefur það snúið af villu síns vegar eða haldið áfram, betrunin náð árangri?
  • Hvernig hefur samfélagið tekið við þessu fólki?
  • Hefur það verið látið í friði eða er það stöðugt minnt á yfirsjónir sínar eða glæpi?
  • Hefur það tekið upp störf í fyrri atvinnugrein eða farið í nýjar?

Mér finnst þetta dálítið forvitnilegt, mun áhugaverðara sjónarhorn heldur en viðhorf hins tilfinninganæma manns sem af meintri heift sinni helst vill drepa eða berja þann sem hefur orðið sekur um hinn ónefnanlega glæp.

Ábyggilega mun gagnlegra er að íhuga ofangreint sjónarhorn en að þykjast vera pólitíkus og reyna að vekja athygli á sjálfum sér í samfélaginu fyrir meinta umhyggju sem virðist þó ekkert annað en skinhelgin ein.


mbl.is Ferlið sagt vera allt of vélrænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ein stór spurning sem þarf að fá svarað:

Hvernig geta þeir sem hafa orðið gjaldþrota fengið sambærilegt úrræði við uppreist æru svo þeir geti aftur orðið gjaldgengir til lögmanns- og eftir atvikum dómarastarfa?

Það er nefninlega ekki glæpur að fara á hausinn.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.7.2017 kl. 14:12

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Guðmundur. Segir ekki í lögum að dómarar megi ekki hafa misst forræði á búi sínu? Man þetta ekki, en sé svo eiga lögfræðingar sem lent hafa í gjaldþroti ekki möguleika á dómarastörfum.

Um hæfi manna til að öðlast lögmannsréttindi á nýjan leik gildir annað, minnir að það sá geti sótt um að fá þau aftur þremur árum eftir að hafa skilað þeim inn vegna gjaldþrots.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.7.2017 kl. 14:23

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jú það er einmitt það sem ég á við.

Tökum tvö dæmi, af mönnum A og B.

Maður A sem er lögmaður fremur kynferðisbrot gegn tilteknum fjölda barna og er dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir þau brot. Átta árum seinna sækir hann um og fær uppreist æru. Hann höfðar í kjölfarið mál og fær sviptingu lögmannréttinda sinna fellda úr gildi. Hann fær þannig lögmannsréttindi sín að nýju og er sem slíkur gjaldgengur þegar kemur að skipan dómara enda hefur hann óflekkað mannorð.

Maður B sem er lögfræðingur og hefur hug á að afla sér lögmannréttinda. Áður en að því kemur lendir hann í því að verða gjaldþrota, sem er ekki refsivert en leiðir þó til skerðingar á fjárræði og athafnafrelsi. Fyrir vikið getur hann ekki fengið lögmannsréttindi. Gjaldþrotaskipti geta tekið misjafnlega langan tíma en að liðnum fimm árum frá lokum þeirra getur hann óskað eftir því að Lögmannafélag Íslands veiti sér meðmæli til að víkja frá því skilyrði að hann megi ekki hafa orðið gjaldþrota. Nú veit ég ekki hversu erfiðara það er heldur en að fá uppreist æru (sem virðist vera nánast sjálfvirkt) en gefum okkur hér að hann fái slík meðmæli frá lögmannafélaginu og geti þannig fengið lögmannsréttindi. Síðar er auglýst eftir umsækjendum um lausa stöðu dómara og maður B ákveður að sækja um. Honum er strax synjað á grundvelli þess að hafa orðið gjaldþrota en frá því skilyrði er engin undanþága.

Útkoman er sú að báðir hafa getað fengið lögmannsréttindin að vissum tíma liðnum og að því gefnu að þeir hafi fengið meðmæli og eftir atvikum uppreist æru og eða undanþágu frá skilyrðum lögmannalaga. Þegar kemur að dómarastörfum er annað uppi á teningnum því þá er maður A sem var sekur um kynferðisbrot gegn börnum, gjaldgengur sem umsækjandi um dómarastarf. Maður B sem hefur aldrei verið fundinn sekur um neitt refsivert, er það hins vegar ekki.

Þannig er réttarstaða níðingsins orðin betri en þess sem engan glæp hefur framið, vegna lögbundinnar mismununar. Þess vegna þarf að breyta þessum lögum, þannig að þeir sem hafa lent í gjaldþroti geti sótt um að fá það afmáð af sínum ferli, rétt eins og þeir sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi geta sótt um uppreist æru.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.7.2017 kl. 14:56

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sé þetta skoðað í hnotskurn, þá áttu við að refsing og ábyrgð sé í samræmi við hversu alvarlegt brotið er. Ég er sammála því. Vandinn er oft sá að lífið er flókið, samfélagið jafnvel enn flóknara og þar af leiðandi er oft erfitt að gæta samræmis í viðurlögum vegna brota sem eru tiltölulega sjaldgæf.

Í stað þess að skoða hvað hugsanlega gæti gerst ef ... þá held ég að betra sé að líta til þess sem hefur gerst undanfarna áratug með „uppreist æru“ og draga af því ályktanir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.7.2017 kl. 15:11

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei ég á einmitt ekki við að "refsing og ábyrgð sé í samræmi við hversu alvarlegt brotið er". Ég er annars vegar að tala um refsivert athæfi, sem hægt er að fá afmáð af ferilsskránni, og hins vegar atvik þar sem enginn refsiverður verknaður hefur verið framinn en er samt ekki hægt að fá afmáð af ferilsskránni.

Á meðan ekki er hægt að fá "uppreist æru" eða sambærilegt úrræði eftir gjaldþrot, felur það í sér mismunun að menn sem hafa framið alvarlega refsiverða glæpi skuli geta fengið slíkt úrræði og komist þannig í betri stöðu en þeir sem ekkert hafa brotið af sér.

Sem betur fer hefur Sigríður Andersen dómsmálaráðherra boðað frumvarp um breytingar á þessum lögum, sem hlýtur að fela það í sér að þeirri mismunun sem hér um ræðir verði útrýmt. Ég er að minnsta kosti tilbúinn að láta hana njóta vafans um að svo muni verða, á meðan annað kemur ekki í ljós.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.7.2017 kl. 16:05

6 identicon

Ég er alveg sammála því, að menn eigi að fá uppreisn æru.  Hafi þeir greitt skuld sína til samfélagsins, þá á það að standa ... einnig hvað varðar gjaldþrot.  Gjaldþrot, á fyrst og fremst (að mínu mati) að vera gert til að koma í veg fyrir að viðkomandi komist í meira skuldafen ... því að skuldafen geta átt sér margar orsakir, ein helsta er að menn verða fyrir blekkingum í viðskiptum, fyrirtækið farið á hausinn, eða á annan hátt ekki verið orsökin til gjaldþrotana.

Síðan kemur hitt, og það er "dómstólar götunnar". Athugasemdir eru bara af hinu góða, skoðanir einnig ... alltaf á að líta á allar hliðar mála, jafnvel fáránlegu hliðarnar. En hvernig á að veita saklausum manni uppreisn æru, sem hefur orðið fyrir dómi "dómstóla götunnar"?

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.7.2017 kl. 18:35

7 Smámynd: Már Elíson

Það er ótrúlegt að sjá fullorðna einstaklinga sem telja sig vera "orðna menn" skauta af pólitískum ástæðum í kringum alvarleika þessa máls, "uppreisn/t æru", til handa ótíndum, dæmdum þjófum og barnaníðingum án þess að koma að kjarna málsins eða rökfæra á annan hátt. Og þá sérstaklega vegna sjálfstæðismannanna Árna Johnsen og Róberts Árna, þá virðist vera reynt að setja þetta mál upp sem "heimspekilega umræðu". Ja hérna, Sigurður...Fyrstu spurningu þinni í miðri grein þinni út í loftið er hægt að svara : NEI  - En allt eru þetta lúmsk leiðandi spurningar (hugleiðingar ?) sem eru ótrúlega ein -og sjálfhverfar, eins og það sé verið að spyrja spegilinn. Síðan koma hinir fylgispöku í röð á eftir. Sigurður...Hvernig datt þér þetta í hug ?

Már Elíson, 19.7.2017 kl. 22:38

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Það er eins og ekki sé hægt að fjalla málefnalega um einstök mál fyrir draugum sem vaða yfir allt og alla, skíta út og vanhelga alla umræðu.

Þess vegna byrjaði ég pistilinn eins og ég gerði. Grunaði að fuglar eins og Már myndu dragast að og vera með leiðindi. 

Þetta er auðvitað háttur þeirra sem spilla heilbrigðri umræðu, reyna að þagga allt niður sem þeim er þóknanlegt vegna þess að þeir kunna hvorki rökræður né almenna kurteisi. Svo tala þeir fjálglega um lýðræði og réttlæti.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.7.2017 kl. 00:28

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Guðmundur, við erum í rauninni sammála. Orðalagið er aðeins mismunandi. Gjaldþrot í dag er útskúfun úr mannlegu samfélagi, alsjáandi tölvur muna allt, jafnvel þó þær séu starfandi í bönkum sem fóru á hvínandi kúbuna fyrir tíu árum, urðu gjaldþrota og eigendum sínum og mörgum starfsmönnum til háborinnar skammar og alþjóðlegrar hneisu.

Gjaldþrot skráist ekki á sakavottorð en slíkt vottorð er minna virði heldur en plaggið sem bankinn fær um þig í Creditinfo. Þar er engin miskunn nema því aðeins að „skuldareigandi“ samþykkt og hann getur haldið einstaklingi í samfélagslegri spennitreyju alla æfi. Ástæðan er einfaldlega sú að bankar og fjölmargar fjármálastofnanir eru haldnar skítlegu eðli. Þetta er staðreynd og auðvelt að sanna.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.7.2017 kl. 00:33

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Bankar eru ekki haldnir skítlegu eðli. Það er líklegra að einstaklingar sem stjórna í bönkum séu haldnir þess konar eðli, sem veldur því að menn virða ekki lög og reglur og sem í græðginni gefa sjálfum sér undanþágur og bitlinga en ekki öðrum.

Hins vegar held ég að það sé rangt að ræða "uppreist æru" og blanda þar saman bankaglæponum og kynferðisglæpamönnum, sér í lagi kynferðisglæpamönnum sem misnotuðu aðstöðu sína og embætti gróflega til að leggjast á ungviðið.  Peningar eru eitt - líf annað (þó svo að það fyrra sé orðið að því mikilvægasta í lífi flest fólks). En hafi kynferðisbrotamaður fengið uppreisn æru, ber að virða þá ákvörðun - nema ef hann/hún haldi áfram uppteknum hætti.

Vitaskuld á að setja menn sem valda gjaldþroti á sakaskrá. En þrátt fyrir þá ósk tel ég persónulega Sigurða Einarssyni og Ólafa Ólafssyni þjóðarinnar eiga rétt á uppreist æru. Fyrirgefning syndanna, þegar menn hafa greitt fyrir hana í steininum, er fallegt hugtak sem kristnin hefur fært okkur, en sem hefur aldrei sameinast mannlegu eðli að fullu, heldur ekki þeirra sem vinna fyrir Guð almáttugan í kirkjunum og sér í lega þeim sem oft veljast til að stjórna. Illmenni veljast oftar og oftar í það hlutverk að stjórna og sækjast eftir því að álíka græðgi og bankaglæponar sækjast í meiri auð.

En fái menn uppreisn á löglegan hátt, eftir að hafa setið inni, er málum þeirra lokið. Þeir eiga að hafa sama rétt og áður. Skítlegt eðli margra í samfélaginu sem tekur aftur á móti mönnum úti í hinu "heilbrigða" samfélagi er bara svo líkt skítlegu eðli "bankanna" að ekkert batnar fyrir manninn sem fær æruna aftur. Bankar og samfélag verða ekki betri en það fólk sem þar starfa og ferðast. Maðurinn kann enn ekki að fyrirgefa og sumir vilja alls ekki fyrirgefa og eru svo siðlegir (líkt og píratar, öfgakapítalistar í BNA eða öfgamúslímar) að þeir vilja heldur skjóta fólk og taka það af lífi. Slíkt fólk er vitanlega sjúkt af allri illsku heimsins. Alltaf verður því miður til fólk sem tilbúið er að taka aðra "af lífi" á einn og annan hátt. Þeir eru oftast með hreina sakaskrá - en samviskan er ljótari en gengur og gerist.

Ég biðst auðmjúklega afsökunar á þessari skoðun minni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.7.2017 kl. 05:24

11 identicon

non bis in idem

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 20.7.2017 kl. 05:38

12 identicon

Það eru bara villimenn, sem ekki virða þetta ... og þá er spurninginn, eru Íslendingar allir villimenn?

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 20.7.2017 kl. 05:39

13 Smámynd: FORNLEIFUR

Bankar eru ekki haldnir skítlegu eðli. Það er líklegra að einstaklingar sem stjórna í bönkum séu haldnir þess konar eðli, sem veldur því að menn virða ekki lög og reglur og sem í græðginni gefa sjálfum sér undanþágur og bitlinga en ekki öðrum.

Hins vegar held ég að það sé rangt að ræða "uppreist æru" og blanda þar saman bankaglæponum og kynferðisglæpamönnum, sér í lagi kynferðisglæpamönnum sem misnotuðu aðstöðu sína og embætti gróflega til að leggjast á ungviðið.  Peningar eru eitt - líf annað (þó svo að það fyrra sé orðið að því mikilvægasta í lífi flest fólks). En hafi kynferðisbrotamaður fengið uppreisn æru, ber að virða þá ákvörðun - nema ef hann/hún haldi áfram uppteknum hætti.

Vitaskuld á að setja menn sem valda gjaldþroti á sakaskrá. En þrátt fyrir þá ósk tel ég persónulega Sigurða Einarssyni og Ólafa Ólafssyni þjóðarinnar eiga rétt á uppreist æru. Fyrirgefning syndanna, þegar menn hafa greitt fyrir hana í steininum, er fallegt hugtak sem kristnin hefur fært okkur, en sem hefur aldrei sameinast mannlegu eðli að fullu, heldur ekki þeirra sem vinna fyrir Guð almáttugan í kirkjunum og sér í lega þeim sem oft veljast til að stjórna. Illmenni veljast oftar og oftar í það hlutverk að stjórna og sækjast eftir því að álíka græðgi og bankaglæponar sækjast í meiri auð.

En fái menn uppreisn á löglegan hátt, eftir að hafa setið inni, er málum þeirra lokið. Þeir eiga að hafa sama rétt og áður. Skítlegt eðli margra í samfélaginu sem tekur aftur á móti mönnum úti í hinu "heilbrigða" samfélagi er bara svo líkt skítlegu eðli "bankanna" að ekkert batnar fyrir manninn sem fær æruna aftur. Bankar og samfélag verða ekki betri en það fólk sem þar starfa og ferðast. Maðurinn kann enn ekki að fyrirgefa og sumir vilja alls ekki fyrirgefa og eru svo siðlegir (líkt og píratar, öfgakapítalistar í BNA eða öfgamúslímar) að þeir vilja heldur skjóta fólk og taka það af lífi. Slíkt fólk er vitanlega sjúkt af allri illsku heimsins. Alltaf verður því miður til fólk sem tilbúið er að taka aðra "af lífi" á einn og annan hátt. Þeir eru oftast með hreina sakaskrá - en samviskan er ljótari en gengur og gerist.

Ég biðst auðmjúklega afsökunar á þessari skoðun minni.

FORNLEIFUR, 21.7.2017 kl. 08:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband