Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Borgarstjórinn ekki til viðtals þegar skolpið flæðir um fjörur
7.7.2017 | 11:10
Sjósundsfólk, hundaeigendur og leikskólastjórar eru æfir yfir sinnuleysi borgaryfirvalda um að vara ekki við klóakmengun í fjörunni vegna bilunar í skólpdælustöð við Faxaskjól í Reykjavík. Búið er að gera við dælustöðina til bráðabrigða en óvíst er hvenær varanlegri viðgerð lýkur. Enn er mikið skólp í fjörunni.
Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi og endurtekið á vef stofnunarinnar.
Skolphreinsistöð sem bilar er stórmál enda hafa fjölmiðlar rætt við heilbrigðiseftirlit og Orkuveituna sem ber ábyrgð á fráveitumálum. Enginn veit hins vegar hvar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri er. Hann er eins og hinir Samfylkingarmennirnir sem hverfa þegar eitthvað bjátar á. Sama er að segja með aðra í meirihluta borgarstjórnar, þeir eru týndir.
Ég ætla sko ekki að verja bilaða dælustöð, mætti halda að Dagur, borgarstjóri, segi. Hann lokar símanum og í frí til útlands.
Fyrir einhverjar stórfurðulegar raðtilviljanir ratar borgarstjórinn alltaf inn á fréttasíður fjölmiðla og í mynd sjónvarpsstöðva þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast.
- Þegar dælustöð bilar og milljónir lítra af úrgangi dreifast um Fossvog forðar borgarstjóri sér út um bakdyrnar.
- Þegar framkvæmdir við Miklubraut valda því að gatan er hálflokuð eru embættismenn settir í að útskýra málið.
- Þegar loka á Geirsgötu og umferðin úr og í Vesturbæ er send um hálflokaða Miklubraut er borgarstjóri eins og aðrir huldumenn, hvergi sjáanlegur.
- Þegar upp kemur að gúmmíkurl á fótboltavöllum getur verið skaðlegt íþróttafólki er borgarstjóri í fríi.
- Þegar Reykvíkingar kvarta hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt bíla eru embættismenn sendir til að bera í bætiflákann, borgarstjóri er ekki til viðtals.
- Fleira má nefna, af nógu er að taka.
Út af fyrir sig er það sniðugt PR stunt að vera bara í góðu málunum, setja embættismenn í þau vondu. Það gerði Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson fylgir sömu stefnu. Á meðan gróa njólar á umferðagötu, saur og dömubindi nema land í Nauthólsvík.
Stjórnandi borgarinnar er ekki við stjórnvölinn, hann lætur ekki til sín taka og þar af leiðandi segir hann ekki: Nú er komið nóg, þið hafið tvo daga til að gera við dælustöðina.
Nei, nei, nei, nei. Hann lætur embættismann segja að viðgerðin gæti tekið langan, langan, langan, langan, langan ... tíma.
Sýnist að tími borgarstjórnarmeirihlutans sé að renna út.
Steggurinn styggi og brostnir draumar
6.7.2017 | 15:20
Vordag einn fyrir mörgum árum sá ég að álftapar var komið í mýrina við veginn. Þau voru eflaust þreytt eftir langt flug til landsins og hugsanlega hefur ferðin ekki verið jafngóð og loftferðalög álfta gera ráð fyrir. Í það minnsta var steggurinn styggur mjög og taldi sig ekki fá þá hvíld þarna við þjóðveginn sem honum fannst þau eiga rétt á. Og svo mikil var þreytan að honum hugkvæmdist ekki að flytja sig spölkorn í burtu, það hefði nefnilega öll breytt um alla framtíð. Má vegar að maki hans hafi verið þreyttari enda lá hún fyrir fyrstu dagana eftir heimkomuna og hann gætti öryggis hennar.
Af og til óku bílar hjá, úr austri eða vestri. Steggurinn styggi réðst að þeim öllum, baðaði út vængjunum og gerði sig eins stóran og hann gat og hrósaði sigri í hvert skipti. Öll flykkin hurfu á braut og hann var bara nokkuð stoltur af árangri sínum en til vonar og vara hélt hann uppteknum hætti, formælti hástöfum á óþýða málinu sínu og ógnaði öllum bílum, gerði engan greinarmun á stærð þeirra, lit eða vélarhljóði. Þessi flykki voru í augum hans öll eins.
Stundum gerði ég mér það að leik að aka hægt framhjá steggnum stygga, þá tiplaði hann áfram á ofurhraða, lóðréttur með útbreidda vængi og reyndi að berja bílinn að utan. Ég flúði virðulega og steggur rak flóttann nokkra metra en snéri svo stoltur við og hélt til spúsu sinnar. Hún hvíslaði því að honum að hann hann væri hugrakkur og hún elskaði hann út af lífinu og brátt myndu þau svo eignast litla fjölskyldu. Gleði hans var taumlaus og hann teygði úr hálsinum eins og hann gat og fylgdist með aðvífandi flykkjum og gerði sig líklegan til árásar. Hann ætlaði að standa undir því að vera hetjan hennar.
Þennan sama dag ók ég til baka og tók eftir því að umferðin var talsvert meiri en áður. Steggurinn styggi hélt samt uppteknum hætti þó liðin væri vika frá heimkomunni. Að öllu jöfnu hefði hann átt að róast og reyna að njóta hvíldar eins og venjulegar álftir gera en má vera að skapið hafi farið illa með hann, stressið eftir flugið og pressan vegna stækkunar fjölskyldunnar hafi ruglað hann í ríminu, í það minnsta skildi hann ekkert í öllum þessum flykkjum sem komu og fóru og létu aldrei ná í sig. Má vera að hann hafi haldið að þau væru öll eitt og hið sama, andstæðingur sem ætlaði að þreyta hann og ráðast til atlögu þegar síst skyldi. Það skal aldrei verða, hugsaði steggurinn styggi, og hljóp í hurðina á bílnum sem var á undan mér og gerði svo atlögu að mínum.
Morguninn eftir fór ég þessa sömu leið og það rigndi, rúðuþurrkurnar slógu hefðbundinn letilegan takt, og landslagið tónaði í dumbungnum, dökkgræn mýrin og ljósi mosakletturinn fyrir ofan. Ég bjóst við meintum andstæðingi mínum en hann lét ekki sjá sig. Makinn hafði flutt sig, sat úti í mýrinni og hengdi haus. Ekki velti ég þessu neitt fyrir mér en þegar ég ók til baka um kvöldið sá ég hvers kyns var. Steggurinn styggi hvíti lá ofan í djúpgrænu, blautu grasinu og hún sat enn við hlið hans. Hann hafði án efa mætt ofjarli sínum er hann réðst til atlögu við flykkið, óvin sinn. Blóð var á hvítum fjöðrum hans, annar vængurinn var útbreiddur og hálsinn snúinn. Greinilegt var að honum hafði verið fleygt af veginum eftir örlagaríka atlögu við einhvert flykkið.
Ég stöðvaði bílinn við vegarkantinn og horfði á ekkjuna sem sat ein með brostna drauma sína. Hún leit upp eitt augnablik og horfði í áttina til mín. Síðan hef ég ekki séð hana en minnist hennar og steggsins stygga þegar ég sé til álfta og þá má vel vera að ég minnist kvæðisins um Svaninn eftir Einar Benediktsson. Í því er þetta erindi:
En svaninn sjálfan dreymir lífsins draum,
hans dáð og ósk í brögum saman streyma.
Frá náttúrunnar hjartarót þeir hljóma
með hreim af brimi, stormi og fossaglaum.
Hann dúðar sig í dagsins innsta ljóma,
hann drekkur morgunandans fyrsta straum.
Hann loftsins skáld, á hjá sér sjálfum heima
af heilli sál hann kveður hvern sinn óð
- sem bergmál hjartna og hamra á að geyma,
uns heimar gleyma að elska fögur ljóð.
Geta barið til bana með vængjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lúpínan, vörn gegn gróðureyðingu af mannavöldum
5.7.2017 | 17:32
Melar og auðnir eru aðeins vitnisburður um sögu eyðileggingar þurrlendisvistkerfa sem rekja má frá landnámi og til vorra daga.
Þær eru ekki ósnortin víðerni sem okkur ber skylda til að vernda, lofsama, tigna og hampa í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendingum. Þær eru þjóðarskömm. Þær eru okkur til leiðinda og ama.
Þetta segir Aðalsteinn Sigurgeirsson,skógfræðingur, á fésbókinni í dag. Hann er að ræða um afar góða grein eftir Ágúst H. Bjarnason sem sá síðarnefndi birti á vefsíðu sinni í desember 2015 undir fyrirsögninni Grær allt sem girt er - Hugleiðing um græðslu mela.
Ágúst segir svo í einföldu máli (greinaskil eru mín):
Bágt er að trúa því, að nokkrum heilvita manni sé annt um gróðurlausa láglendis-mela. Í raun og veru hvílir sú skylda á okkur að rækta þá til nytja. Mér er ekki kunnugt um neina þjóð, sem nytjar ekki land sitt af fremsta megni en þó af skynsemd.
Því miður er það borin von, að melar grói upp af sjálfsdáðum nema á óralöngum tíma, þó að þeir njóti algerrar friðunar. Margsinnis hefur verið sáð í mela og borinn á tilbúinn áburður. Ekki hefur það gefið góða raun.
Venjulega hafa graskenndar plöntur koðnað niður á öðru eða þriðja ári, nema borið sé á reglulega. Það kostar ekki lítið og er álíka raunhæft og mála hús sitt með vatnslitum. Myndun jarðvegs þar er mjög hæg eða nær engin, nema ausið sé áburði. (Ef til vill mætti ná árangri með því að aka mykju á mela, en þá þyrfti 30-40 tonn á hektara.)
Í annan stað má velta því fyrir sér, hvort dreifing tilbúins áburðar sé í raun í sátt við þá stefnu í umhverfismálum, sem við viljum fylkja okkur um. Auk þess er fullyrt, að innan fárra ára verði mikill skortur á fosfór-áburði og vita menn ekki enn, hvernig bregðast skuli við því.
Einfaldast og ódýrast er að rækta mel með lúpínu. Innan fárra ára er unnt að planta í melinn með góðum árangri. Á þennan auðvelda og ódýra hátt er unnt að breyta ónýtum flákum í verðmætt land, sem gefur ríkulegan ávöxt. Á 20-40 árum byggist
upp frjósamt jarðvegslag í lúpínu-breiðu, sem tæki innlendar tegundir árhundruð.
Hjörleifs þáttur Guttormssonar
Fyrrum þingmaður og ráðherra, Hjörleifur Guttormsson, ritar grein í Morgunblað dagsins og finnur lúpínunni allt til foráttu en fátt til gildis. Hann er einn af þeim sem lofsama, tigna og hampa víðernunum ... og gróðurleysinu
Ágúst hefur áður brugðist við hatrömmum áróðri Hjörleifs gegn lúpínunni. Ágúst segir í áðurnefndri grein sinni:
Hjörleifur er einn fárra Íslendinga alinn upp í skógi. Því mætti ætla, að hann hefði betri skilning á jarðargróða en flestir aðrir. Því miður sýndi það sig ekki í þá tíð hann sat á þingi (1978-1999) og í náttúruverndarráði (1972-1978), því að þá átti gróður í landinu undir högg að sækja.
- Uppblástur var í algleymingi og sauðfjárbeit líklega aldrei meiri.
- Tilbúnum áburði var dreift úr flugvél yfir gróin heiðalönd (kallað hagabætur) og eðlilegri tegundasamsetningu raskað stórlega.
- Eiturefni (sams konar og í Vietnam) var notað til þess að eyða kvistgróðri og auka sprettu grasa (sjá meðal annars: http://ahb.is/tofralausnir/).
- Ómældu, lítt hreinsuðu fræi erlendra grastegunda var dreift um landið.
- Votlendi var raskað með skurðgreftri.
- Mólendi var spillt í stórum stíl og lagt undir túnrækt.
Ekki er vitað til þess, að Hjörleifur hafi beitt sér í þessum málum, þegar hann hugsanleg gat haft einhver áhrif. En nú telur Hjörleifur loks, að tími sé kominn til að hefjast handa og leggur hann til sjálfgræðslu lands en umfram allt beri að uppræta lúpínu, sem er í þann mund að leggja íslenzkt gróðurríki í rúst. Sannast sagna hljóma þessar tillögur Hjörleifs ekki viturlegar. Það eru til aðrir og hnýsilegri kostir.
Eiginlega er ekkert við þetta að bæta nema það að Guttormslundur á Hallormsstað er nefndur eftir föður Hjörleifs. Þar voru þar gróðursettar 5000 útlenskar lerkiplöntur.
Sumir halda því fram að lúpínan ekki íslensk en gleyma því eða vita ekki að fjölmargar plöntur það líka. Og hvað er eiginlega íslensk planta?
Skógrækt
Ágúst H. Bjarnason dáir ekki lúpínuna vegna litarins eða hversu útbreidd hún er. Hann hampar henni vegna niturframleiðslunnar, efnisins sem skortir svo bagalega í íslenskri jörð að gróður á mjög erfitt uppdráttar. Lúpína framleiðir nitur eða köfnunarefni og þess vegna þrífst annar gróður betur þar sem hún hefur vaxið. Og það er rangt sem margir halda, að hún víki ekki. Rannsóknir hafa sýnt það mjög skýrlega.
Vörn gegn lúpínu liggur í augum uppi og hún er fólgin í skógrækt. Lúpínan kann ekki við sig í skugga hærri plantna og hörfar því. Kostnaður við skógrækt er margfalt minni en við slátt lúpínu, eitrun eða upprif hennar. Þar að auki verður landið allt miklu fegurra þegar skógrækt er sinnt í lúpínubreiðum.
Gott er að ljúka þessum pistli á annarri tilvitnun í manninn sem vitnað er til hér í upphafi, Aðalstein Sigurgeirsson. Hann lét hafa á eftir sér á fésbókinni:
... að helsta umhverfisógn sem steðjar að Íslandi sé hvorki framandi, ágengar plöntur né fiskeldi í fjörðum Austfjarða eða Vestfjarða. Versta ógnin er landhnignun af mannavöldum. Þeirri landhnignun hefur hins vegar tekist að ávinna sér traustan hefðarrétt í landinu.
Sárgrátlegt að að hugsa sér hversu margir telja auðnir landsins vera hið upprunalegra útlit þess og ekki megi snerta við þeim heldur eigi þau að gróa upp af sjálfu sér á næstu hundruðum ára. Hversu fjarstæðukennd er ekki þessi skoðun?
Myndirnar:
1. Efsta myndin er tekin við Gíslalæk í Kjós
2. Sunnan við Grímsstaði á Fjöllum.
3. Í Langadal á Möðrudalsheiði.
4. Skógræktin við Silfrastaði í Skagafirði.
5. Óuppgræðanlegt Mælifell og illa farið land þar fyrir vestan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jón Þór Ólafsson, pírati, ertu fífl ...?
5.7.2017 | 09:06
Þann 1. desember 2016 fékkstu launahækkun sem kjararáð hafði úthlutað þér. Þú mótmæltir hástöfum og sagðir ekki þörf á að hækka launin. Samt þáðir þú þau.
- Þú skrifaðir blaðagrein, hótaðir að kæra launahækkunina til forseta Íslands, kjararáðs og formanna þingflokkanna. Þú kærðir engann.
- Þú sagðist vera búinn að ráða lögfræðing og ætlaðir að kæra ákvörðun kjararráðs til dómstóla. Það hefurðu ekki enn gert.
Frá því að þú mótmæltir launahækkuninni hefurðu fengið á mánuði um 340 þúsund krónur aukalega í laun. Þessi viðbót sem kjararáð skaffaði þér er hærri en fjölmargir kennarar, leikskólakennarar, verslunar og fleiri hafa á mánuði.
Á þeim átta mánuðum sem liðnir eru fra því að launahækkunin tók gildi hefurði hirt rúmar 2,7 milljónir aukalega í laun.
Nú spyr ég: Ertu fífl eða stjórnmálamaður með viti?
Forseti Íslands mótmælti launahækkuninni en hefur mánaðarlega síðan gefið sömu fjárhæð og laun hans hækkuðu um til góðgerðamála, þegjandi og hljóðalaust.
Fyrir alla muni leiðréttu ef þú mögulega getur. Annars ertu bara einn af þessum kjánum sem koma inn í stjórnmálin, gasprar, ruglar og hverfur svo út í algleymi tímans án þess að marka nein spor sem skipta máli.
Og hvað er fífl? Það er til dæmis sá sem rífur kjaft út af launahækkun kjararáðs, hótar og inni á Alþingi og utan, hirðir svo launahækkunina og reynir að gleyma öllu saman. Má vera að þetta sé röng skilgreining, hin rétta sé maður sem er falskur, fyrirlitlegur, skíthæll, svindlari ...
Fjölmargir í þjóðfélaginu eru með laun í kringum 338.254 krónur á mánuði, sem launahækkunin þín. Dettur þér virkilega í hug að fólk sé fífl og gleymi þessu?
Til að fyrirbyggja allan misskilning á maðurinn á myndinni ekki að vera Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, né heldur er myndbirtingin til að gera lítið úr manninum. Hann sér um slíkt sjálfur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
VG tapar fylgi nema þingmennirnir séu stöðugt í fjölmiðlum
4.7.2017 | 14:33
Þegar Alþingi er í hléi tapa Vinstri grænir fylgi í skoðanakönnunum. Ástæðan er einföld. Þingmenn flokksins eru í fríi og eru ekki í fjölmiðlum eins og þegar þingi stendur yfir.
Allan veturinn líður yfirleitt ekki einn einasti dagur öðru vísi en að þingmenn vinstri grænna nái ekki að troða sér inn í fréttatíma og er það skiljanlegt. Þeir tala í fyrirsögnum en fréttamenn spyrja ekki djúpt um stefnumálin því þau eru svokölluð réttlætismál sem Vinstri grænum smjatta einna helsst á (nema þegar þeir eru í ríkisstjórn).
Þetta á nú eftir að lagast í haust og Vinstri grænir munu þá án efa ná nýjum hæðum í könnunum, rétt eins og Píratar sem í lok mars í fyrra fengu 36% fylgi í skoðanakönnunum en eru nú með aðeins 14%. Skýringin er án efa klofningur í flokknum sem sálfræðingar eru að vinna í að laga. Svo koma kosningar og allt fer lóðbeint niður hjá þessum stórmerkilegu flokkum.
Gallup birtir nýja skoðanakönnun í dag og það vekur einna helst athygli hversu lítil þátttaka er í henni aðeins tæp 57% úrtaksins svara. Kjósendur eru í sumarfríi.
Meintar villur í íslenskum fréttamiðlum
2.7.2017 | 14:32
Hér eru nokkrar athugasemdir sem ég hef við örfáar fréttir í fjölmiðlum í rétt rúma viku. Ég er ekki málfræðingur en hef stundað skriftir nokkuð lengi og fallið í margan pyttinn og fengið aðstoð góðs fólks við að komast upp úr. Segi og skrifa, prófarkalesarar eru þyngdar sinnar virði í gulli ...
Því miður virðist enginn prófarkalestur vera á íslenskum fréttamiðlum og ekki einu sinni þannig að samstarfsmenn lesi yfir hver fyrir hvern annan (leiðrétt samkvæmt prófarkalestri Ómars Ragnarssonar). Hið seinna ætti þó að vera algjört lágmark.
Athugasemdir eru hér skráðar sem vafamál, veit að íslenskufræðingar myndu í sumum tilfellum einfaldlega skrifa rangt mál. Þar á eftir skrifa ég athugasemd og legg síðan til orðalag sem mér þykir betra.
Vafamál
Lögreglan hefur framkvæmt yfir hundrað handtökur á þessu tímabili. Mbl, 25.júní 2017.
Athugasemd
Ekki fallegt orðalag, né heldur að framkvæma leit, framkvæma skemmtun eða framkvæma skrif. Betra er að leita, skemmt eða skrifa.
Skárra:
Lögreglan hefur tekið meira en eitt hundrað manns höndum (á þessum tíma).
Vafamál
Fjölbreytt úrval af ilmum. Auglýsing í sjónvarpi 25. júní 2017.
Athugasemd
Ilmur er karlkynsorð í eintölu. Það er ekki til í fleirtölu, ekki frekar en lykt (kvk), þefur (kk) eða
Skárra:
Verslunin ilmar af ótrúlegri angan enda úrvalið fjölbreytt
Vafamál
Ég átti mjög áhugaverðan fund með Þýskalandi eftir að við drógumst með þeim í HM-riðilinn. Þar skinu hortugheitin í gegn og hvernig er litið niður á Ísland. Ég sagði þá við þau: Þið skuluð aðeins fara að haga ykkur. mbl.is 23.6.2017.
Athugasemd:
Orðasambandið að hag sér skilst ekki eitt og sér nema eftir fylgi atvikisorð eða lýsingarorð. Jón hagar sér vel/illa/sæmilega Enska sagnorðið to behave getur hins vegar staðið sér. Jafnvel Google Translate veit muninn.
Skárra:
Ég sagði þá við þau: Þið ættuð að haga ykkur betur.
Vafamál
Einn þeirra sem AFP-fréttastofan ræddi við reyndi í tvígang að sleppa úr haldi en náðist í bæði skiptin og var barinn til óbóta að launum. mbl.is 27.6.2017.
Athugasemd
Betra hefði verið að sleppa niðurlaginu, setningin hefði verið skiljanlegri fyrir vikið.
Skárra
var í staðinn barinn til óbóta. Eða var að launum barinn til óbóta.
Vafamál
Hann hefur nú sagt að heilbrigðisfrumvarpið sé illkvittið. visir.is 27.6.2017.
Athugasemd
Líklega er þetta þýðing á enska orðinu mean sem getur þýtt vondur, illur eða illkvittinn. Hér er frumvarpið persónugert, því llkvittinn er sá sem kemur illum orðrómi af stað. Hér hefði mátt vanda til þýðingarinnar.
Skárra
Hann hefur nú sagt að heilbrigðisfrumvarpið sé vont.
Vafamál
Freista mætti þess að lýsa valkostunum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum: Arnar Jónsson, lögmaður, í grein í Morgunblaðinu 29.6.2017.
Athugasemd
Valkostur er vont mál vegna þess að það er samsett með tveimur orðum sem þýða nokkurn veginn það sama, þó blæbrigðamunur sé á. Við eigum við við eigum kost á því að fara í Hagkaup eða Bónus, eigum val um þessar tvær verslanir (og fleiri). Hvers vegna ætti það að vera valkostur að fara í Hagkaup eða Bónus?
Skárra
Freista mætti þess að lýsa aðstæðum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum. Eða: að við þurfum að velja milli tveggja vondra/slæmra kosta.
Vafamál
Eins og að hafa gott skopskyn og kyssast góða nótt á hverju kvöldi. Pressan 29.6.2017.
Athugasemd
Er varla rökrétt frekar en að segja: heilsast góðan dag, kveðjast góða nótt.
Skárra
Bjóða góða nótt með kossi.
Vafamál
Hann ætlar sér að halda til Bandaríkjanna og hitta þar syni sína tvo sem voru að fæðast í gegnum staðgöngumóðir. Pressan 29.6.2017.
Athugasemd
Frekar illa orða rétt eins og staðgöngumóðir sé eins og hús, farið inn á einum stað og út á öðrum.
Skárra
sem fæddust hjá staðgöngumóður.
Vafamál
Reynslan hefur kennt mér að ef maður endurleitar heysátuna finnur maður hina nálina. Guðjón E. Hreinberg, heimspekingur í grein í Morgunblaðinu 30. júní 2017.
Athugasemd
Skrýtið orðalag. Hér vantar forsetninguna 'í'.
Skárra:
Reynslan hefur kennt mér að ef leitað er aftur í heysátunni finnst hin nálin.
Vafamál
Það er ljóst hvar ég spila á næsta tímabili en ég get ekki uppljóstrað það, sagði Sánchez í samtali við Sky Sports. visir.is 30. júní 2017.
Athugasemd
Skrýtið orðalag, eiginlega dálítið rembingslegt. Varala talar nokkur maður svona.
Skárra
Ég veit hvað ég mun spila á næsta tímabili en ég get ekki ljóstrað því upp (eða sagt frá því), sagði Sánchez í samtali við Sky Sports.
Vafamál
Hægt sé að fá góð gæði fyrir peninga í löndum eins og Kanada, Noregi og Írlandi. visir.is 2.júlí 2017.
Athugasemd
Gæði er nafnorð í hvorugkyni, ekki til í eintölu. Dregið af orðinu góður. Góð gæði eru því tvítekning, rétt eins og slæm vonska sem er auðvitað bull.
Skárra
Hæg sé að fá mikil/meiri gæði fyrir peninga í löndum eins og Kanada, Noregi og Írlandi.
Sé það núna að bloggkerfi mbl.is gefur ekki merkilega möguleika á skilmerkilegri uppsetningu á texta eins og hér fyrir ofan. Helst af öllu þyrfi að finna aðra lausn fyrir svona umfjöllun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þegar kaupa skal tjald ...
30.6.2017 | 11:04
Stundum finnst mér leiðbeiningar um kaup á útvistarbúnaði hálfbjánalegar. Svona yfirlýsing, sem vissulega er ansi hrokafull, byggist þó á þeirri staðreynd að ég fer aldrei í útilegu til að líkja eftir þeirri aðstöðunni heima.
Tek til dæmis aldrei með mér glymskratta, sjónvarp eða álíka sem sumir geta ekki verið án. Ástæðan er einföld, þetta er allt svo andsk... þungt þegar maður hefur bara einn bakpoka og enga burðarmenn.
Auðvitað skiptir máli hvernig ferðir fólk fer í, hvort tjaldað sé á einum stað allan tímann, hvort börn séu með í för og svo framvegis.
Jæja, nóg um það. Hins vegar rakst ég á ansi skemmtilega teikningu á bandarískri vefsíðu sem kynnir útvistarvörur og nefnist GearJunky eða Græjufíkill. Þar fáum við fíklarnir ansi margar hugmyndir og margt fæst hér á landi.
Að vísu er þetta allt á ensku en lesandinn tekur vonandi viljann fyrir verkið.
Þetta er ansi skemmtilega uppsett fyrir þá sem ætla að kaupa sér tjald.
Held að flestir sem ég þekki myndu velja sér það sem á myndinni er kallað 3-season eða 4-season. Hið seinna er fyrir allar árstíðir en hitt fyrir þrjár ... sem varla á við hér á landi.
Skyldu svona tjöld fást í Costco?
Gott er að tvísmella á teikninga, þá birtist hún stærri og skýrari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nei, ekki lögvernda starf leiðsögumanna
29.6.2017 | 10:25
Þá segir hún vert að hafa í huga að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugalanga reynslu í leiðsögn, þyrftu leyfi frá stjórnvöldum til að geta titlað sig leiðsögumenn.
Þetta er haft eftir ferðamálaráðherra á mbl.is í dag. Ég er sammála henni.
Í þrjátíu ár hið minnsta hef ég stundað ferðalög og reglulega farið með hópa fólks um landið. Gerði þetta lengi með ferðafélaginu Útivist, og þar að auki á eigin vegum, ýmist í launuðu starfi eða ólaunuðu, hér á landi og erlendis.
Hef ágæta þekkingu á landinu, gengið yfir hálendið, skíðað yfir jökla, klifið fjöll, verið á ferðinni sumar og vetur. Hef mikla reynslu í jeppaferðum, vélsleðaferðum og svo má lengi telja. Þar að auki hef ég skrifað mikið um útiveru og ferðalög í marga fjölmiðla og vefsíður.
Mikið dj... myndi ég fornemast ef ríkisvaldið héldi því fram að ég mætti ekki vera leiðsögumaður nema hafa til þess annað nám en ég hef fengið á lærdómsríkum ferðum mínum um landið.
Ég þekki vissulega menntaða leiðsögumenn sem eru í hágæðaflokki, hörku ferðamenn og sumir félagar mínir í ferðum um landið. Sumir þeirra eru jafnvel langtum hæfari en ég en það ekki ekki vegna námsins heldur reynslunnar. Ég þekki líka leiðsögumenn sem ættu ekki að vera í starfanum.
Staðreyndin er einfaldlega sú að reynslan er mikilvægasta námið og er ég þó ekki að gera lítið úr leiðsögumönnum með útskriftarskírteini.
Nú kunna einhverjir að spyrja hvort að það sé ekki ráð fyrir mig að fara og afla mér þessara menntunar, fara í leiðsögumannanámið ... og málið dautt.
Má vera að lesandanum finnist ég hrokafullur en til hvers ætti ég að taka próf? Ég hef það sem þarf til að geta farið með fólk í ferðir, fjölbreyttar ferðir.
Myndir:
Sú efri er tekin í Landmannalaugum í helgarferð bekkjar í Melaskóla.
Neðri myndin er tekin á Eyjafjallajökli 1986.
Lögverndun leiðsögumanna ekki tímabær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Slæmt ef þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setja reglur
29.6.2017 | 09:43
Freista mætti þess að lýsa valkostunum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum: Annars vegar tæknilegt mat og hins vegar huglægt mat.
Fyrri kosturinn hefur á sér yfirbragð faglegrar úttektar og jafnvel hlutlægni, en gallinn er sá að þessi aðferð dugar skammt til að meta atriði sem eru ekki síður mikilvæg svo sem t.d. það sem hestamenn myndu kalla geðslag og vilja.
Góðir verkmenn geta m.ö.o. vænst þess að raðast mun neðar á slíkum kvarða en þeir sem hafa skarað fram úr í kennilegri lögfræði. Síðari valkosturinn, þ.e. hinn huglægi, hefur þann ókost að bjóða heim hættu á pólitískum geðþótta og spillingu.
Hvar millivegurinn liggur er erfitt að meta. Ég treysti mér þó til að fullyrða að lausnin er ekki í því fólgin að þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setji skýrari reglur eins og það var orðað í þinginu um daginn, né heldur að slíkar reglur yrðu samdar með það fyrir augum að þvinga ráðherra til að fylgja eðlilegri málsmeðferð.
Hér er vel skrifað og yfirvegað. Höfundurinn er Arnar Þór Jónsson, hrl og lektor við Háskólann í Reykjavík (greinaskil eru mín). Tek það fram að ég þekki manninn ekkert. Hins vegar hef ég tekið eftir að hann skrifar stundum greinar í fjölmiðla og er afar málefnalegur og málflutningurinn hófsamur en rökfastur. Slíkt kann ég vel að meta.
Arnar Þór er að ræða um skipun dómara í Landsrétt. Hann varar við upphlaupi og vanstillingu og kemst vel að orði að ekki sé gott að þingmenn í tilfinningalegu uppnámi setji skýrar reglur. Hér vísar hann án efa til hins geðþekka þingmanns Jóns Þórs Ólafssonar, Pírata, sem fékk ákúrur frá forseta fyrir munnsöfnuð og hávaða í ræðustól Alþingis.
Sá fræðilegi og verkmaðurinn
Mér finnst áhugavert að Arnar Þór gerir greinarmun á kennilegri lögfræði og verklegri. Hér er ábyggilega átt við það sem oft er nefnt fræðileg nálgun og svo hins vegar praktísk, hugsanlega hagnýt nálgun. Orðalagið rímar ágætlega við það sem fjallað er um í öðrum fræðigreinum.
Í fréttum síðustu daga hefur verið fjallað um útlending sem synjað var um íslenskan vegna þess að hann hefur verið sektaður fyrir of hraðan aksturríkisborgararétt. Þó hafði hann verið búsettur hér í ellefu ár, giftur hérlendri og á með hennibörn. Líklega myndum við segja að hann verði fyrir barðinu á fræðilegri lögfræði. Verkmaðurinn myndi hins vegar greina málið og þá kæmi í ljós að sektirnar fyrir of hraðan akstur eru ekki allar hans, þó hann eigi bílinn. En hvað koma hraðasektir málinu við ... er það ekki fræðileg nálgun?
Lög sem þvingunartæki?
Arnar Þór segir ennfremur (feitletrun og greinaskil eru mín því höfundurinn er óþarflega spar á þau):
Sem lögfræðingur vil ég vara við því að rætt sé um lög með þessum hætti. Lög geta ekki mælt fyrir um alla hluti. Lög eiga ekki heldur að freista þess. Slík viðleitni er til þess fallin að njörva veruleika okkar niður með of stífum viðmiðum og vega þannig ekki aðeins að frelsi okkar heldur einnig að persónulegri ábyrgð, sem er hin hliðin á frelsinu.
Ef við freistum þess að takmarka frelsið er einnig vegið að ábyrgðinni. Hvort tveggja er þó undirstaða daglegra ákvarðana, stjórnmála, löggjafar og dómstarfa.
Í þessu ljósi ættu þingmenn að fara varlega í að daðra við alræðishyggju þar sem löggjafinn ætlar sér um of og freistar þess að setja reglur um allt, bæði stórt og smátt.
Við skulum hafa hugfast að slík nálgun horfir fram hjá grundvallarstaðreynd um okkur mennina, þ.e. hversu alvarlega við getum misreiknað okkur og klúðrað málum. Lögin eru mannanna verk og þ.a.l. líkleg til að vera jafnmisheppnuð og höfundar þeirra. Með hliðsjón af öllu framangreindu tel ég mjög varhugavert að umgangast lögin með því hugarfari að þau séu þvingunartæki.
Þetta er vel orðað og skynsamlega að mínu mati. Ástæðan er einfaldlega sú að það er ekki hægt að setja lög eða reglur yfir alla mannlega hegðan. Freistingin yrði kannski sú að láta tölvu dæma í málum því hún hefur ekki mannlegar tilfinningar og færi algjörlega eftir bókstafnum.
Traust
Í niðurlagi greinarinnar segir Arnar Þór og er ástæða til að lesa vandlega það sem hann segir enda fjallar hann hér um samfélagið í hnotskurn:
Frammi fyrir þessu er ekki að undra þótt meginviðfangsefni laga nú á tímum sé frelsið.
Hlutverk laganna er að setja frelsinu skorður þannig að menn misnoti það ekki öðrum til skaða. Rétturinn þarf að leita jafnvægis milli einstaklinga innbyrðis, milli launþega og vinnuveitenda, milli borgara og ríkisvalds.
Búa þarf svo um hnúta að menn virði hver annan og njóti virðingar, að lögin sem verja réttindi manna séu skýr og skiljanleg og að menn eigi aðgang að dómstólum.
Í stuttu máli er viðfangsefnið að skapa skilyrði til þess að fólk geti búið í frjálsu samfélagi. Í því felst ekki síst að menn svari sjálfir til ábyrgðar fyrir gerðir sínar.
Til að þetta megi takast verður löggjafinn að treysta almenningi og valdhöfum til að velja og hafna og forgangsraða.
Lögin eru þannig í reynd forsenda frelsis, því þau veita okkur vernd og fyrirsjáanleika, sem í daglegu tali eru oft nefnt réttaröryggi.
Hann sagði ekki einu sinni bless ...
25.6.2017 | 23:41
Vinur minn einn er nær óþolandi, létt spjall er ekki til í huga hans. Allt hefur einhvern tilgang, merkingu og jafnvel fleiri en eina. Svona menn eru frekar þreytandi á tímum þar sem sjónvarpið tæmir huga manns, Netflix, iTunes og aðrar menningarveitur og maður þarf ekkert að hugsa um tvíræðni eða eitthvað þaðan af dýpra. Eftir því sem maður er meira mataður, hverfur sjálfstæði hugsun og afleiðing er innantómt bergmál þess sem mann rekur minni til að hafa heyrt aðra segja eða vörpulegur leikari hefur látið sér um munn fara.
Jæja ... Þessi æskuvinur minn eða öllu heldur kunningi, bauð mér í heimsókn dag einn er norðaustanáttin gerði því fésbókarfólki grikk sem hélt að nú ætti að vera eilíft mæjorkasumar.
Við spjölluðum um daginn og veginn og þar sem við höfðum ekki sést lengi þurfti ég endilega að leita í reynslusögubankann og þá var tilvalið að segja af svaðilförum og hrakningum. Ég hef til dæmis ótal sinnum vaðið yfir læki, ár og jafnvel fljót og alltaf lifað þær hörmungar af.
Þá varð mér á að segja frá gamla smíðahamrinum hans pabba sem hann erfði frá föður sínum og sá frá sínum. Og gamli sumarbústaðurinn frænku minnar stendur enn og er þó orðinn eitthundrað ára gamall og ég nefndi hann svona í framhjáhlaupi er ég minntist á fjallaskála.
Af minni hálfur var nú fáu logið en vinur minn, svo leiðinlega nákvæmur sem hann er, dró í efa að ég hafi oft vaðið sömu læki, stundum í leysingum, og straumharðar ár. Aha ... hrópaði ég æstur og nefndi hraðmæltur til sögunnar Krossá, Reykjarfjarðarósinn og hugsanlega einhvurjar fleiri sprænur.
Nei, sagði vinurinn. Sko, þú veður hverja á bara einu sinni vegna þess að vatnið rennur í burtu og kemur aldrei til baka ... áfram streymir áin endalaust!
Svo benti hann mér á að gamli hamarinn hans langafa sé með þrjátíu ára gömlu skafti og tíu ára gömlum haus og ábyggilega ekki í fyrsta sinn sem þessir hlutir hans voru endurnýjaðir. Þetta sé nú ekki sá ættargripur sem ég hef gumað af. Síður en svo.
Sumarbústaður frænku minnar er nú ekki allur sem hann sýnist, þó fornfálegur sé. Hann benti á að hver einasta spýta í honum hefur verið endurnýjuð þó vera megi að í honum sé eitt og annað sem teljist 100 ára en búið að sandblása og hefur fengið nýtt hlutverk. Gólfið er vissulega meira en eitthundrað ára en það er sannarlega komið úr húsi við reykvísku Hverfisgötuna sem var talið ónýtt og rifið fyrir mörgum árum þó svo að endurnýta mætti nokkur gólfborð.
Við þessu gat ég ekkert sagt, fannst raunar dálítið niðurlægin felast í afhjúpuninni, óþarfa aðfinnslur sem drepa hefðbundnar samræður. Við þögðum. Ég mundi eftir því að svona var hann líka í gamla daga. Í barnaskóla gat hann aldrei unnt nokkrum öðrum neinnar frásögu. Hann toppaði allt eða dró í efa.
Þá lét ég einfaldlega krók koma á móti bragði, ef þannig má að orði komast. Uppi á vegg í hékk innrömmuð mynd, plakat. We never walk alone, stóð þar með stríðsletri og kennitákn fræga enska fótboltafélagins Liverpool.
Ég hallaði mér aftur í stólnum og lét fara vel um mig áður en að ég skaut á hann því sem ég hafði upphugsað í skyndingu.
Já, má vera að þetta sé allt rétt hjá þér, kæri minn. Þannig er þetta líka með fótboltafélagið þitt. Á hverjum tíma er það ekkert annað en þeir leikmenn sem sparka í tuðruna í samkeppni við önnur. Þó klúbburinn sé 125 ára er hefur hann reglulega verið endurnýjaður eins og fjalirnar í húsinu hennar frænku minnar. Raunar er hann eins og Krossá, alltaf rennur nýtt vatn um vaðið - og kemur aldrei til baka. Á hverju ári bætast nýir leikmenn í liðið og aðrir hverfa á braut. They never stay for long ... Ég reyndi að endurbæta slagorð Liverpool.
Liverpool er ekkert annað en lógóið, sagði ég og sveiflaði hendinni með leikrænum tilburðum og benti á plakatið.
Þú ert nú meiri asninn, sagði þessi vinur ... kunningi minn. Hann þurfti ekki að hugsa sig um. Þú getur ekki snúið kenningum Forn-Grikkjans Herkakleitosar upp á menn. Þetta á við dauða hluti, drengur minn. Ætlarðu kannski að halda því fram að lýðveldið Ísland sé ekki það sama og það var við stofnun, árið 1944?
Ég reyndi að leiða þetta hjá mér og benti á að félög væru ekkert efnislega óáþreifanleg væru þau þó til vegna þess að þau væru formuð á sama hátt og hlutir.
Ég endurtek, þú ert asni, sagði kunninginn. Þú ert ekki heimspekingur en það er ég. Sé það rétt sem þú segir værirðu ekki sá hinn sami og þú varst þegar þú fæddist vegna þess að árlega endurnýjast líkaminn að hluta til og smám saman breytist hann. Þú ert ennþá sami asninn og þú varst þegar við vorum í barnaskóla.
Skyndilega rann upp fyrir mér hvernig hann var í gamla daga. Hann hafði einstakt lag á að gera lítið úr öðrum, ekki bara mér. Hann var þessi leiðinda náungi sem skipti sér af öllu. Ef einhverjir hlógu og skemmtu sér hrinti hann einhverjum. Þegar hann beið lægri hlut í fótbolta átti hann það til að stela fótboltanum og skera gat á hann. Á dansiböllum kippti hann stólunum undan stelpunum og reif í hárið á þeim. Hann var hávær og frekur. Á örskotsstundu mundi ég þetta allt, leiðindin, sárindin út af fótboltanum, stríðninni og ... það sem mestu máli skipti þeim tíma sem hafði farið til spillis en hefði getað orðið eftirminnilegur.
Jæja, sagði ég, stóð upp og kýldi hann á kjaftinn svo hann steinlá á stofugólfinu.
Þú hefur rétt fyrir þér, sagði ég, og nuddaði sáran hnefa hægri handar. Við breytumst ekki, þó hef ég ekki slegið nokkurn mann fyrr en núna.
Svo kvaddi ég en hann svaraði aungvu, sagði ekki einu sinni bless.
Þessi saga getur verið sönn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.6.2017 kl. 07:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)