Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sturluð stoðsending, endilangt þvert og keppni sem vann

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Eignarréttur eyjunnar hefur verið þrætuepli milli landanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar þegar Rússar tóku Shikotan af Japönum.“ 

Frétt á bls. 6 í Morgunblaðinu 11.06.2018.        

Athugasemd: Hér er orðalagið ekki rétt. Af samhenginu má ráða að Rússar og Japanir deila um yfirráð yfir eyjunni, eignaréttinn. Nú er ekki er svo að eyjan sjálf sé með einhvern eignarétt eins og segir þarna.

Þarna vantar forsetningu og rétt fall. Hins vegar er þetta ekki vel orðuð málsgrein en það er annað mál.

Tillaga: Eignarréttur á eyjunni hefur verið þrætuepli milli landanna frá lokum seinni heimsstyrjaldar þegar Rússar tóku Shikotan af Japönum

 

2.

Hjóla þvert yfir Bretland.“ 

Fyrirsögn á bls 28 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11.08.2018        

Athugasemd: Í viðtalinu er rætt við fólk sem hjólaði frá suðurhluta Englands til norðurstrandar Skotlands, sem sagt eftir endilöngu Bretlandi. Þetta gerðist í júlí en samt er sögnin að hjóla í fyrirsögninni í nútíð rétt eins og fólkið sé enn á ferð.

Hefði fólkið hjólað þvert yfir Bretland hefði það hjólað frá vestri til austurs eða öfugt, þverað eyjuna.

Í flestum sundlaugum syndir fólk eftir endilangri lauginni, ekki þvert yfir. Gangbraut liggur venjulega þvert yfir veg.

Orðskilningur blaðamannsins er þvert á rétta íslensku. Varla er hann þver, þá má búast við að hann þverskallist eða þvargi.

Tillaga: Hjóluðu um endilangt Bretland

3.

Sjáðu sturlaða stoðsendingu Wayne Rooney.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Orðfæri íþróttablaðamanna um fótbolta vekja oft furðu. Rooney átti ekki frábæra, magnaða, góða, ágæta eða vel heppnaða stoðsendingu. Nei, hún var sturluð. Hér er auðvitað verið að hefja efsta stig hefðbundinna lýsingarorða upp í eitthvað annað og heimssmíða veldi.

Mér finnst ekki fara vel á þessu, því gengisfelling veldisupphafningar hófst eiginlega strax og þetta varð vinsælt. Jafnvel aumustu sendingar eru sturlaðar eða geggjaðar. Leikmaður KA potaði boltanum frá vítateig og í gegnum hjörð andstæðinga og inn í markið. Þulur á sjónvarpsstöð kallaði þetta geggjað mark.

Nú má spyrja hvort útlokað sé að snúa aftur til eðlilegs máls í lýsingum á fótboltaleikjum eða hvort íþróttablaðamenn finni næst upp á þriðju veldisaukningu í lýsingum. Þá verði sendingar Rooneys og mörk hér á landi ekki lengur kend við veiki á geði heldur hugsanlega matreiðslu.Þá sjáum við líklega steiktar sendingar frá Rooney, grillaðar og jafnvel gufusoðnar.

Svo er það þessi árátta að ávarpa lesandann í fyrirsögn. Sjáðu, skoðaðu og svo framvegis. Þetta er bara gert í gulu pressunni, lélegum fréttamiðlum þar sem ritstjórnin kann ekki að búa til fyrirsagnir.

Tillaga: Frábær stoðsending Rooney skipti sköpum.

4.

Lokanir á umferðaræðum Suðurlands.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Skrauthvörf eru fyrirbrigði í flestum tungumálum, kallast líka veigrunarorð, fegrunarheiti, skrautyrði. 

Í fjölmiðlum er svona annars vegar til að ekki sé alltaf verið að tuða með sömu orðin og hins vegar til að gera lesturinn þægilegri fyrir lesandann eða hlustandann. Dæmi er að í stað þess að skíta ganga menn örna sinna eða hægja sér. Í vissu tilvikum æla menn eða gubba. Oft fer betur á því að segja að einhver hafi kastað upp.

Skrauthvörf ber að nota varlega, þau verða leiðinleg. Óþarfi er að kalla vegi umferðaræðar. Þetta eru bara vegir sem í sumum tilvikum má líkja við æðakerfi líkamans en er fyrir löngu orðið úrelt og þreytt samlíking.

Byrjendur í blaðamennsku og skrifum eiga ábyggilega eftir fara í beina útsendingu og segja: „[í svokölluðum „standupum“ byrja allir fréttamenn á því að segja já], við erum hér á umferðaræðinni Suðurlandsvegi og hér er verið að malbika. 

Einfalt mál er best.

Tillaga: Lokanir á vegum á Suðurlandi.

5.

Ungur starfsmaður setur öryggið greinilega á oddinn og notar eyrnaskjól og augnhlífar til þess að koma í veg fyrir skaða sem orsakast gæti vegna notkunar á hreinsitækinu.“ 

Texti með mynd á bls. í Morgunblaðinu 14.08.2018.       

Athugasemd: Myndatextar gegna mikilvægu hlutverki í dagblöðum. Alltof margir nota hann til að segja eitthvað sem þarf ekki að orða vegna þess að „mynd segir meira en þúsund orð“. Í stað þess að lýsa útbúnaði mannsins á myndinni hefði blaðamaðurinn getað sagt frá vélinni sem hann notar. Ekki er alveg skýrt hvað hún gerir og hvernig hún vinnur.

Svo er það orðalagið sem er fyrir neðan allar hellur. Þvílík steypa er þetta:

… að koma í veg fyrir skaða sem orsakast gæti vegna notkunar á hreinsitækinu.

Þetta er innihaldslaus langlokutexti sem hefur sáralitla þýðingu og er í sjálfu sér tímaeyðsla að lesa. Skynsamlegast hefði verið að setja punkt á eftir orðinu skaða. Hitt liggur í augum uppi.

Tillaga: Sleppa þessar málsgrein, hún segir ekkert.

6.

Elías sigraði leikritasamkeppni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1989.“ 

Frétt á dv.is.        

Athugasemd: Óvitaskapur er líklega orðið sem flestum dettur í hug þegar blaðamaður heldur því fram að einhver hafi sigrað keppni. Enginn sigrar keppni vegna þess að keppnin er ekki þátttakandi. Fólk sigrar í keppni. 

Í fréttinni er sagt frá Elíasi Snæland Jónssyni sem lengi var blaðamaður og aðstoðarritstjóri á Vísi. Hann tók við fréttum og greinum meðal annars frá óreyndum blaðamanni eins og undirrituðum og gerði athugasemdir, lét endurskrifa og hjálpaði mönnum til frekari þroska í faginu. 

Ansi er ég hræddur um að Elías væri orðinn uppiskroppa með rauða pennann væri hann stjórnandi á DV í dag. Hitt er pottþétt að undir góðri handleiðslu gæti meðal annarra fréttabarnið, sem heldur því fram að einhver sigri keppni, hugsanlega orðið góður blaðamaður þegar fram líða stundir.

Tillaga: Elías sigraði í leikritasamkeppni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1989.


Látið hvalina vera

Fyrir leikmann er óskiljanlegt hvers vegna verið sé að reyna að reka grindhvalavöðu út úr Kolgrafarfirði. Í fyrsta lagi eru hvalir viðkvæmar skepnur og svona aðfarir hræða þá fyrst og fremst. Í öðru lagi eru hvalir ekki vanir því að láta reka sig. Miklu skynsamlegar er að leyfa þeim að eiga sig, þeir finna ábyggilega leiðina út af sjálfsdáðum.

Enginn veit hvers vegna hvalirnir leita inn í firði og jafnvel upp í fjörur. Hugsanlega finna þeir lykt sem þeir renna á. Má vera að enn séu síldin að rotna sem strandaði í Kolgrafarfirði fyrir tveimur árum.

Mér fannst hrikalegt að sjá myndbandið sem birt var á mbl.is. Tveir björgunarsveitarbátar reyndu að hræða hvalina og reka út fyrir brúna. Þetta var ójafn leikur, skemmtun fyrir björgunarsveitarmenn en ábyggilega ferlega illt fyrir hvalina.

Best af öllu er að láta náttúruna hafa sinn gang. Maðurinn á ekki að reyna að stjórna henni, við þekkjum afleiðingarnar af slíkri afskiptasemi og þær eru ekki allar fagrar.


mbl.is Líklega komnir aftur inn fjörðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rigning inni í húsi, sá verðlaunaðasti og með Evrópuleiki á bakinu

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

1.

Síðar átti Jobs eft­ir að biðjast af­sök­un­ar á því hvernig hann kom fram við mæðgurn­ar og þrátt fyr­ir fyrri yf­ir­lýs­ing­ar erfði hann dótt­ur sína að millj­ón­um banda­ríkja­dala.“ 

Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Nei, nei, nei. Steve Jobs erfði ekki dóttur sína enda lifði hún hann. Hins vegar arfleiddi hann hana að þessum auðæfum.

Í Málfarsbankanum segir: 

Athuga að rugla ekki saman sögnunum arfleiða og erfa. Rétt er að tala um að arfleiða einhvern að einhverju og erfa eitthvað. 

Hún arfleiddi son sinn að öllum eigum sínum. Sonurinn erfði allar eigur móður sinnar.

Fólk með þokkalegan orðaforða gerir ekki þessi mistök. Þeir sem hafa aldrei haft áhuga á lestri bóka gera ótal mistök vegna þess að skilningur er ekki fyrir hendi. Út af fyrir sig er ekkert að því að blaðamaður geri mistök. Verra er ef ritstjórnin meti meira magn en gæði og enginn lesi yfir það sem byrjendur skrifa. Jú, nema því aðeins að stjórnendur séu engu skárri.

 Tillaga: Síðar átti Jobs eft­ir að biðjast af­sök­un­ar á framkomu sinni. Þrátt fyr­ir fyrri yf­ir­lýs­ing­ar arfleiddi hann dótt­ur sína að millj­ón­um banda­ríkja­dala..

2.

Margir Þjóðhátíðargestir leituðu skjóls frá regninu inni í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum í nótt …“ 

Frétt á ruv.is.          

Athugasemd: Margt ungt fólk á í erfiðleikum með forsetningar íslensku máli. Hér er eitt dæmi um slíkt. Að vísu er ekki rangt að segja að einhverjir hafi leitað skjóls frá regni. Betur fer þó á því að segja að þeir hafi leitað skjóls undan regninu, burt frá því, inn í íþróttahúsið.

Svo er hér ævintýralega vitleysa. Af tilvitnuninni má ráða að það hafi rignt inni í íþróttahúsinu. Fréttamaðurinn ruglar saman tveimur atkviksorðum, inn og inni. Í Málfarsbankanum segir:

Atviksorðið inn er notað um hreyfingu: Fara inn í húsið. Atviksorðið inni er notað um dvöl á stað: Vera inni í húsinu.

Ekki þarf að fjölyrða um þessi tvö orð. Þó þau séu lík er merkingin þeirra ekki hin sama og er niðurstaðan sú að blaðamaðurinn klúðraði fréttinni.

Tillaga: Margir Þjóðhátíðargestir leituðu skjóls undan regninu og inn í íþróttahúsið í Vestmannaeyjum í nótt ….

3.

Verðlaunaðasti kokkur veraldar látinn.“ 

Fyrirsögn á ruv.is.          

Athugasemd: Mörgum er tíðrætt um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins en af ofangreindu má ráða að það klúðrast oft þegar kemur að tungumálinu.

Í fréttinni kemur það eitt fram að kokkurinn sem um er rætt fékk fyrir hönd veitingastaða í eigu sinni fleiri Michelin-stjörnur en nokkur annar. Ekkert kemur hins vegar fram að hann hafi hlotið fleiri verðlaun en aðrir heimsins kokkar, aðeins þetta með Michelin stjörnurnar, sem er að vísu talsvert.

Sá sem hlýtur verðlaun er verðlaunaður. Hið síðarnefnda er sagnorð: verðlauna, verðlaunaði, verðlaunað.

Í Málfarsbankanum segir: 

Ekki tíðkast að stigbreyta orðið launaður (lýsingarháttur þátíðar) frekar en samsetningar á borð við: hálaunaður, oflaunaður, ólaunaður, verðlaunaður. 

Hann er hæst launaði (ekki: „hæst launaðasti“) starfsmaðurinn og mun betur launaður (ekki: „betur launaðri“) en aðrir starfsmenn.

Fólk með sæmilegan orðaforða á að vita þetta. Börn læra þetta smám saman sé þeim haldið að lestri bóka.

Tillaga: Kokkurinn sem hlaut flestar Michelin stjörnur er látinn.

4.

Mikil rigning verður á landinu á Austurlandi.“ 

Þulur í niðurlagi kvöldfrétta Ríkissjónvarpsins 06.08.2018.         

Athugasemd: Tvítekningar eru algengar meðal blaða- og fréttamanna, sérstaklega þeirra yngri. Svo virðist sem að þeir eldri og reyndari leiðrétti ekki. Þarna spáir þulurinn rigningu á landinu á Austurlandi. Margir eru til dæmis sagðir hlaupa Vatnsneshlaup, aðrir leika fótboltaleiki, nokkrir stökkva hástökk, tína ber í berjamó (hvar annars staðar) og loks má nefna bílstjóra sem aka bílaleigubílum (margtekning). 

Þetta er svo sem ekki rangt er klingjandi stíllaust. Nefna má að svo lengi sem ég man eftir hafa syngjandi kórar sungið söngva úr söngbókum og enginn agnúast út í það.

Hvers vegna er á verið að tuða um þetta hér. Jú, allt sem sagt er og skrifað er stíll (ekki tíska, „style“ eins og sagt er á ensku) heldur málfar. 

Blaðamönnum er ekki í sjálfsvald sett hvernig málfar þeirra er, hvorki þeirra sem starfa hjá Ríkisútvarpinu, Stöð2 eða dv.is svo dæmi séu tekin. Þeim ber að skrifa á íslensku svo að skiljist og gæta um leið að því hvernig frá er sagt. Þessi er skylda þeirra gagnvart lesendum. Skemmdar fréttir eru alltof algengar. 

Raunar er það þannig að illt er að skrifa nema búa yfir nokkuð drjúgum orðaforða. Blaðamaður þarf helst geyma og lesa svo aftur yfir og framar öllu fá einhvern annan til að lesa yfir. Enginn fæðist sem rithöfundur, blaðamaður eða góður skríbent. Góð skynsemi, ástundun og iðjusemi er vænlegt til árangurs í þessu eins og svo mörgu öðru. 

Tillaga: Rigna mun á Austurlandi.

5.

Markmiðið að allar komi heim með Evrópuleik á bakinu.“ 

Fyrirsögn á íþróttasíðu Morgunblaðsins 07.08.2018         

Athugasemd: Orðasambandið að hafa eitthvað á bakinu merkir oftast byrði, eitthvað sem íþyngir. Sumir eru með dóm á bakinu, öðrum er erfið lífsreynsla þung byrði. Sem sagt, við berum eitthvað sem er þungt (bókstaflega þungbært) eða erfitt.

Útilokað er að segja um sigurvegara að hann sé með gullverðlaun á bakinu. Íslandsmeistaratitill Valsmanna í fótbolta frá því í fyrra íþyngir þeim ekki, þvert á móti.

Furðufyrirsagnir íþróttablaðamanna Morgunblaðsins eru sumar hlægilegar, rétt eins og þessi. Fyrirsögnin er höfð eftir viðmælanda, þjálfara kvennaliðs sem er í útlöndum og ætlar þar að standa sig svo vel að það komi heim með Evrópuleik á bakinu. Þetta er furðulegt orðalag. Ekki einungis liðið heldur einstaklingarnir í liðinu eiga að koma heim með Evrópuleik, líklega ellefu eða fleiri sé tillit tekið til varamanna. Er hér til of mikils mælst eða er maðurinn að rugla?

Svo meðvitundarlaus eða fáfróður er blaðamaður Moggans að hann sér ekki fáránleikann í þessu, skrifar vitleysuna eftir manninum og þykist hafa unnið fyrir laununum sínum. Frammistaðan er hins vegar ótrúlega léleg og verðskuldar að minnsta kosti gula spjaldið.

Annars staðar í sama íþróttablaði segir í fyrirsögn:

Ragnhildur vann með 15 ára millibili

Þetta er svo barnaleg fyrirsögn að engu tali tekur. Konan vann ekki með millibili. Hún sigraði í golfkeppni og það gerðist síðast fyrir fimmtán árum. Betur færi á því að orða þetta þannig: Ragnheiður sigrar aftur fimmtán árum síðar.

Raunar ætti þetta að vera nóg úr sama íþróttablaðinu en hér er eitt „gullkorn“ í viðbót.

Í fyrirsögn stendur:

Sara vongóð um að geta leikið „úrslitaleikina“.

Sem sagt, fótboltakonan vill leika leikina. Fyndið ... Ekki er ljóst hvers vegna síðasta orðið í fyrirsögninni er innan gæsalappa.

Tillaga: Einn eða fleiri Evrópuleikir eru markmið allra í liðinu.


Óhúsnæðisleysi, hitametasláttur, stara og óvitaður fjöldi

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Ó sem á að umbreyta merkingu orða.

Menn kölluðu eftir ýmsum óhefðbundnum lausnum eins og „óhagnaðartengdu leiguhúsnæði“. Þetta er skemmtilegt nýyrði þar sem forskeytinu ó er ætlað að umbreyta merkingu orðsins. Óhagnaður er þó ekki skilgreindur sem tap heldur sem enginn gróði. 

Óhúsnæðislaus maður væri á sama hátt einstaklingur með húsnæði. Þessi gagnmerki og óþýðingarlausi fundur borgarstjórnar einkenndist því af ólausnum þar sem menn sýndu óskilning á eðli vandans. Það er huggun fyrir útigangsmenn að menn hafa fullan vilja til að ræða málin og smíða glæsilegt athvarf úr orðaflaumnum.

Skoðun í Fréttablaðinu. Tilefnið er fundur borgarstjórnar um heimilislausa. Höfundur Óttar Guðmundsson (greinaskil og feitletrun eru á ábyrgð SS) og skrifar af leiftrandi umhyggju fyrir íslensku máli.

 

1.

Hitamet hafa víða verið slegin í sumar.“ 

Frétt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 31.07.2018.        

Athugasemd: Hver sló hitametið? Enginn. Metin féllu hins vegar víða. Ekki fer vel á því að orða fréttir alltaf á þann hátt að náttúran hafi vilja eins og mannfólk. Vel má vera að það sé stundum skemmtilegt stílbragð. Betra er þó að skrifa ekki alltaf sama stíl, sömu tugguna, sömu orðasamböndin ...

 Tillaga: Hitamet hafa víða fallið í sumar.

2.

Leyfi veitt fyrir vindmöstur í Dölunum. 

Fyrirsögn á visir.is.         

Athugasemd: Forsetningin fyrir stjórnar þágufalli. Hvorugkynsnafnorðið mastur beygist svona í eintölu: mastur, mastur, mastri, masturs. Í fleirtölu: möstur, möstur, möstrum, mastra.

Af þessu má sjá að orðið vindmastur er rangt beygt í fyrirsögninni. Allar líkur benda til að veitt hafi verið leyfi fyrir fleiri en einu og því er hér að neðan gerð þannig tillaga.

Mér finnst ekki rétt að setja ákveðinn greini við örnefni og einnig mörg byggðaheiti. Við förum til Akureyrar, ekki Akureyrarinnar (nema hugsanlega ef það er nafn á skipi), ekki Búðardalsins, Egilsstaðarins, Laxárdalsins, Kjósarinnar og svo framvegis. Auðvitað kunna að vera undantekningar frá þessu en þetta ætti að vera almenn regla.. 

Stundum virðist ungt fólk ekki kunna fallbeygingu, þetta á ekki síður við blaðamenn. Vera kann að þegar málsgrein er orðin löng gleymist að fallbeygja.

Til dæmis: Skjálftinn í Bárðarbungu, þar sem jörð hefur lengi skolfið og valdið jarðfræðingum áhyggjum, sérstaklega það sem af er þessu ári, er talinn vera hluti af kvikuinnskot.

Þetta er skáldað dæmi og byggir á  málsgrein með mörgum aukasetningum sem alls ekki er til fyrirmyndar. 

 Tillaga: Leyfi veitt fyrir vindmöstrum í Dölum.

3.

„Starað á hafið við Gróttuvita. 

Fyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu 01.08.2018.         

Athugasemd: Fyrirsögnin er ofan í mynd af konu með barn í fanginu og langt fyrir utan er farþegaskip. Þetta er nokkurs konar stemningsmynd, þokkalega vel tekin.

Athugasemdin er vegna sagnorðsins. Fólkið horfir út á hafið en blaðamaður segir það stara. Um það veit lesandinn ekkert þar sem aðeins sést í bakhlutann.

Sögnin að stara merkir samkvæmt orðabók að einblína, horfa lengi og fast á. Ekkert af þessu á við, jafnvel þó konan og barnið hafi staðið þarna lengi. Orðið er í daglegu tali frekar neikvætt, sumir stara af einskærum dónaskap eða hefndarhug. Þeir sem glápa eru ekki eins aðgangsharðir. Hvorugt er talin kurteisi.

Leiðinlegt er til þess að vita að blaðamaðurinn hafi ekki í sér skáldlegri hlið en þetta. Engin stemning er í störu. 

 Tillaga: Horfa á hafið við Gróttuvita.

4.

„Þakklát fyrir að hafa lent í þessu áfalli á þessum tímapunkti.“ 

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Þetta er hræðilega illa samin fyrirsögn. Skiptir engu þótt orðalagið sé viðmælandans. Blaðamanni ber skylda til að laga orðfæri hans til betri vegar. Þarna er tönglast á ábendingarfornafninu þessu og búin til nástaða sem eyðileggur fyrirsögnina. 

Í raun og veru er staðan þessi: Ung íþróttakona meiddist og átti lengi í meiðslunum en náði sér fullkomlega og varð heimsmeistari í sinni grein. Hins vegar kemur ekkert fram hvers vegna konan er þakklát. Og hvað er tímapunktur? Hvers vegna þarf að bæta orðinu punktur við tíma? Það hjálpar ekkert.

Blaðamaður vitnar til bloggsíðu konunnar og eru teknar upp beinar tilvitnanir úr henni. Því miður er margt aðfinnsluvert í skrifum konunnar. Þess vegna hefði farið betur á því að blaðamaðurinn hefði endursagt efni bloggsins í óbeinni ræðu. Í sannleika sagt er þetta engin frétt, aðeins endaleysa, byggt á sjálfshjálparhugleiðingu og á lítið erindi við almenning.

 Tillaga: Varla er hægt að bæta fyrirsögnina

5.

„Í til­kynn­ingu frá Lands­björgu kem­ur fram að ann­ar hóp­ur­inn sé fimm manna en að stærð hins sé ekki vituð.“ 

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ritstjórn mbl.is er í léleg. Þessi fullyrðingu má sanna með því að fréttin sem þessi fáránlega málsgrein er í, var birt kl. 17:35 og kl. 18:50 var fréttin óbreytt. Enginn las yfir og lét blaðamanninn breyta.

Niðurstaðan er þessi. Til eru illa skrifandi blaðamenn á mbl.is og ritstjórnin meðvitundarlaus. Engum er kennt, engum er bent. Góðir blaðamenn verða ekki til nema ritstjórnin sé góð.

Og svo segir blaðamaður Moggans:

… um stærð hins er ekki vituð.

Þvílík steypa. Koma blaðamennirnir beint úr leikskóla?

Sama frétt birtist á visir.is. Þar segir:

Annar gönguhópanna sem vitað er um á svæðinu er fimm manna en ekki er vitað um stærð hins. 

Þetta er miklu betur orðað hjá Vísi sem þó hefur ekki alltaf verið beinlínis verið þekktur fyrir góða meðhöndlun á móðurmálinu.

Tillaga: Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að fimm manns séu í öðrum hópnum en ekki vitað um fjöldann í hinum.

 

Leirskáldin

Í Vísnahorni Morgunblaðsins 02.08.2018 er þessi frábæra örsaga og vísa:

Skömmu eftir lát Einars Benediktssonar mætti maður nokkur Tómasi Guðmundssyni og spurði: „Ertu búinn að yrkja eftir Einar? Ég er búinn að því!“

Tómas svaraði:

Þegar strengir stærsta skáldsins brustu 
sem stoltast kvað og söng af mestum krafti
öllum nema landsins lélegustu leirskáldum fannst rétt að halda kjafti!

 

Eftirskrift

Lesandi sem kallar sig „Húsara“ segir vísuna eiga að vera svona:

Þegar strengir stærsta skáldsins brustu,
er stoltast kvað og söng af mestum krafti,
öllum nema landsins lélegustu
leirskáldum fannst best að halda kjafti.

 

 


Fólkið sem mengar sundlaugarnar

Morgunblaðið var svo vinsamlegt að birta þessa grein mína þriðjudaginn 1. ágúst 2018:

SturtaÍ reglu­gerð um holl­ustu­hætti á sund- og baðstöðum seg­ir að gest­ir skuli þvo sér án sundfata áður en þeir ganga til laug­ar. Á eng­um sund­stöðum sem ég þekki til er fylgst með því að gest­ir geri það. Yf­ir­leitt þvo Íslend­ing­ar sér en stór hluti út­lend­inga ger­ir það ekki.

Viðbjóður­inn

Mjög al­gengt er í Sund­laug­inni í Laug­ar­dal og Sund­laug Vest­ur­bæj­ar að út­lend­ir ferðamenn þvoi sér ekki. Þetta hef­ur ágerst eft­ir því sem ferðamönn­um hef­ur fjölgað og er nú komið út í viðbjóðslega vit­leysu.

Ég þekki best til í Laug­ar­dals­laug­inni, kem þar mjög oft. Fjöl­marg­ir út­lend­ir karl­ar klæðast sund­skýlu í bún­ings­klefa og fara bein­ustu leið út í laug, stund­um með ör­stuttu stoppi í sturt­un­um, svona rétt til að sýn­ast. Kon­ur segja að þetta sé afar al­engt í kvenna­klef­an­um. Aldrei hef ég séð starfs­menn gera at­huga­semd­ir við þetta hátta­lag. Þetta vita fjöl­marg­ir og fara aldrei í laug­arn­ar, þeim hugn­ast ekki sóðaskap­ur­inn.

Eng­ar und­anþágur

Örfá­ir gest­ir benda út­lend­ing­un­um á að laug­in sé ekki til þvotta, til þess séu sturt­urn­ar. Viðbrögðin eru þá skrýt­in og engu lík­ara en sum­ir hafi ekki gert sér grein fyr­ir til­gang­in­um með sturt­un­um og snúa til baka og þvo sér. Aðrir snúa upp á sig og fara út í.

Þetta ástand er al­ger­lega óviðun­andi. Regl­an er sú að annað hvort þvær fólk sér áður en það fer ofan út í laug eða það fer ekki út í. Hér er eng­inn milli­veg­ur. Eng­inn gest­ur á að vera und­anþeg­inn regl­um. Punkt­ur.

Annaðhvort eða!

Vissu­lega er menn­ing þjóða og þjóðar­brota mis­mun­andi. Má vera að hingað komi fólk sem geti ekki hugsað sér að af­hjúpa nekt sína, jafn­vel í sturt­un­um. Fyr­ir þetta fólk eru til hálflokaðir sturtu­klef­ar, að minnsta kosti í Laug­ar­dals­laug­inni. Sé það ekki nóg á fólk ekki að fara í sund­laug­ar á Íslandi. Eng­an af­slátt á að gefa á hrein­læti sund­laug­ar­gesta. Upp­runi, menn­ing, siðir eða annað er ekki gild af­sök­un. Hér gild­ir ein­fald­lega annað hvort eða.

Sagt upp störf­um

Við sem stund­um sund­laug­arn­ar velt­um því oft fyr­ir okk­ur hvers vegna starfs­fólk í búningsklef­um hafi ekki eft­ir­lit með því að gest­ir þvoi sér. Fyr­ir nokkr­um árum sagði einn sturtu­vörður­inn, eldri maður sem nú er hætt­ur störf­um, að það þýddi ekki neitt að fylgj­ast með gest­um, þá kæm­ust starfs­menn ekki í önn­ur brýn störf. Sem sagt, eft­ir­lit með hrein­læti sund­laug­ar­gesta er fullt starf. Öðrum eldri manni var sagt upp störf­um fyr­ir að fram­fylgja regl­um, krefjast þess með smá offorsi að gest­ir færu í sturtu.

Þurra fólkið

Eitt sinn sat ég í ágæt­um hópi í heita pott­in­um og var þar spjallað um heima og geima. Þá kem­ur einn Íslend­ing­ur askvaðandi beint úr bún­ings­klefa, skraufþurr. Ein­hver spurði hvort hann hefði farið í sturtu áður en hann kom út. Land­inn sagðist ekki hafa gert það, hann væri að fara í pott. Hon­um var þá sagt að hann skyldi and­skotast til baka og þvo sér og þá fengi hann að koma ofan í pott­inn, fyrr ekki. Eft­ir tíu mín­út­ur kem­ur skratta­koll­ur til baka og seg­ist hafa þvegið sér og hvort við vær­um nú ánægð. Sem sagt, hann þvoði sér fyr­ir okk­ur, ekki af þörf eða vegna þess að regl­ur laug­ar­inn­ar krefðust þess.

Nær dag­lega sér maður fólk af báðum kynj­um koma úr bún­ings­klef­um, skraufþurrt, og fer beint í sund­laug eða potta. Þetta er auðvitað al­gjör viðbjóður og ekki sæm­andi rekstraraðilan­um að öðrum gest­um sé boðið upp á slíkt.

Mann­rétt­ind­in

Borg­inni virðist vera al­gjör­lega sama um þessi mál. Að þeirra mati eru mann­rétt­ind­in fólgin í því að sleppa kynja­merk­ing­um á sal­ern­um sem í eigu og um­sjón Reykja­vík­ur­borg­ar.

Ég held að ég tali fyr­ir munn flestra sem sækja sund­laug­ar þegar ég full­yrði að það er rétt­ur hvers sund­laug­ar­gests að geta farið ofan í sund­laug vit­andi það með vissu að all­ir gest­ir hafi þvegið sér áður en þeir fari ofan í.

Upp­lýs­ing og eft­ir­lit

Hægt er að grípa til tveggja ráða. Annað er að starfs­menn hafi bein­lín­is eft­ir­lit með því að gest­ir fari í sturtu og þvoi sér. Hitt er að all­ir út­lend­ir gest­ir sem kaupi sig í laug fái af­hent spjald með ein­föld­um regl­um og mynd­ræn­um leiðbein­ing­um. Á því standi meðal annars að annað hvort sé farið að regl­um eða gest­in­um verði meinað að fara ofan í laug­ina.

Við þetta ástand verður ekki unað leng­ur, borg­ar­yf­ir­völd þurfa að taka á þessu. Strax.


Kinnhestur, snoppungur og fallturn sem opnar eitthvað

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

165, af þeim 180 sem skráðir voru, luku keppni en […] seg­ir Guðmund­ur. 102 kon­ur voru skráðar í sundið að þessu sinni og 74 karl­ar.“ Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Ég fullyrði að sá blaðamaður sem byrjar setningu á tölustöfum hefur ekki vald á starfi sínu. Enginn á Mogganum bendir blaðamanninum á mistök sín og hann heldur ábyggilega að hann sé ofboðslega klár. Enginn segir blaðamanninum að afar óheppilegt er að byrja setningu á tölum, frekar að umorða, sjá tillöguna hér fyrir neðan.

Grundvallaratriðið í útgáfustarfi, hvaða nafni sem það nefnist, er að lesa yfir tvisvar eða oftar. Í fréttamennsku er brýnt að blaðamenn hafi eftirlit hver með öðrum.

Hvaða fjölmiðill vill dreifa skemmdum fréttum? Ég er nokkuð viss um að það er ekki hlut af stefnu Morgunblaðsins. Í raun og veru ættum við áskrifendur að fá afslátt af áskrift hvers mánaðar í hlutfalli við skemmdar fréttir.

Fann þetta á ruv.is:

102 konur og 74 karlar syntu í 15 gráðu heitu vatninu við Egilsstaði í dag

Þetta er sem sagt fréttatilkynning. Því miður er það þannig að margir blaðamenn moka fréttatilkynningum inn í fréttamiðla án nokkurrar hugsunar eða, sem verra er, hafa ekki skilning á réttu máli.

Sjá nánar hér um tölustafi í upphafi setninga. Auðvelt er að „gúgla“ svona fyrirbrigði. Hvergi um hinn vestræna heim byrja setningar á tölustöfum, aðeins hjá byrjendum eða illa skrifandi fólki.

 Tillaga: Af þeim 180 sem skráðir voru, luku 165 keppni en […] seg­ir Guðmund­ur. Að þessu sinni voru 102 kon­ur skráðar í sundið og 74 karl­ar.

2.

Áfram er verið að drepa Langreyðar núna í kringum Ísland. Við biðjum ykkur um að vera með okkur og krefjast fullrar verndar á þessum mögnuðu dýrum sem færa hundruði þúsunda manna gleði og hrifningu á hverju ári. Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Sá blaðamaður er vanhæfur sem birtir orðrétt hræðilega illa samda fréttatilkynningu og lætur fylgja villur. Lágmarkið er að lagfæra. Betra er að segja frá efni fréttatilkynningarinnar í óbeinni ræðu, lakara að vitna orðrétt í svona rugl.

Ofangreind tilvitnun úr frétt Visis og kemur frá „Samtökum grænmetisæta á Íslandi“. Engu líkar er að hún hafi upprunalega verið á öðru tungumáli og Google-Translate hafi verið notað til að þýða hana, og gert það illa.

Tillaga: Enn eru Langreyðar drepnar við Ísland. Stöndum saman og krefjumst fullrar friðunar á þessum mögnuðu dýrum sem árlega gleðja hundruð þúsunda manna.

3.

Palestínska unglingsstúlkan Ahed Tamimi var leyst úr haldi í morgun, eftir afplánun átta mánaða fangelsisdóms sem hún fékk fyrir að löðrunga tvo ísrelska hermenn á Vesturbakkanum um miðjan desember á síðasta ári. 

Frétt á ruv.is.

Athugasemd: Nú langar mig til að hrósa. Ég gladdist þegar ég heyrði þessa frétt lesna í tíu fréttum Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgni. Ekki vegna efnis fréttarinnar heldur hvernig fréttamaðurinn skrifar hana. Hún er vel samin og ekkert verður honum að fótakefli nema að herinn er ísraelskur.

Það sem gerðist er að ungri stúlku tókst að slá tvo ísraelskra hermenn utan undir. Látum vera andvaraleysi hermannanna að láta berja sig. Minnir á Eyrbyggju og Gísla sögu Súrssonar. Það sem stúlkan gerði er í fréttinni kallað löðrungur, síðan kinnhestur og loks snoppungur. Þetta er algjörlega til fyrirmyndar. Fréttamaðurinn er vel skrifandi og hefur orðaforða sem dugar honum frábærlega.

 Tillaga: Engin gerð.

4.

Mik­ill snjór á göngu­leið Lauga­veg­ar hef­ur ekki haft telj­andi áhrif á sum­arið, að sögn staðar­hald­ara í Land­manna­laug­um. Frétt á mbl.is

Athugasemd: Seint telst þessi málsgrein til gullkorna í blaðamennsku og þaðan af síður fréttin. Efnislegar er fréttin hún tóm vitleysa. Snjór í fjöllum hefur engin áhrif á árstíðir, ekki heldur á veður. Þó ég sé ekki veðurfræðingur tel ég þetta nær fullvíst.

Hitt má vera að snjósþyngsli á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur, þeirri sem daglega er nefnd Laugavegurinn, hafi ekki dregið úr aðsókn göngufólks að henni. Í flestum tilvikum veit enginn um snjóinn fyrr en að honum er komið, fæstir spyrjast fyrir.

Í fréttinni segir:

Daniel Demaime er einn skála­varða í skál­an­um í Hrafntinnu­skeri, sem er vin­sæll viðkomu­staður þeirra sem ganga Lauga­veg­inn. Seg­ir hann í Morg­un­blaðinu í dag, að snjór­inn hafi ekki horfið fyrr en ný­lega

„Hér hef­ur rignt mikið und­an­farn­ar vik­ur og því er snjó­tíma­bil­inu að ljúka núna. Í ár var óvana­lega mikið magn af snjó. Það má líkleg­ast skrifa á vet­ur­inn sem var óvenju harður og lágt hita­stig í sum­ar.“

Hér hefur næstum öll fréttin verið birt. Þvílík steypa er hún. Ég hef undirstrikað það sem er aðfinnsluvert. Taka ber hér fram að Á öllum Laugaveginum er hvergi snjór nema ofarlega á hálendinu sunnan við Landmannalaugar, það er alla jafna kennt við Hrafntinnusker, með réttu eða röngu. 

Gönguleiðin liggur framhjá Skerinu, þar skáli FÍ, vinsældir hans byggjast á þessari staðreynd. Hann er heitinn eftir Höskuldi Jónssyni sem var lengi formaður félagsins. 

Blaðamaðurinn hefur líklega ekki heyrt um að snjó taki upp og þess í stað skrifar hann langloku. 

Hvað er „snjótímabil“? Hvers konar bull er þetta? Hafntinnusker er hæst í um 1143 m hæð. Þar og víðast umhverfis liggur snjór allan ársins hring, eðlilega. Á hálendinu er meiri snjór að vetrarlagi en á sumrum vegna þess að snjóa leysir. Orðið „snjótímabil“ er ekki til í íslensku. 

Ekki er hægt að tala um magn af snjó nema vigta hann eða mæla dýpt eða eitthvað álíka. Oftast er talað um mikil eða lítil snjóalög. Fábjánalegt er að taka svona til orða.

Nær undantekningalaust snjóar meira eða minna að vetrarlagi, þetta vita allir. Sé sumarið kalt þá er ekki óalgengt að í Hrafntinnuskeri snjói rétt eins og annars staðar á fjöllum. Harður vetur segir ekkert til um snjó, aðeins að veðurlagi hafi verið erfitt. Hvernig er vitað að veturinn hafi verið harður við Hrafntinnusker? 

Tillaga: Engin gerð enda er fréttin tómt bull, eiginlega það vitlausasta sem sést hefur lengi.

5.

Hann segir að margt af því sem komið hafi upp í Bandaríkjunum sé nokkuð sem komi upp í ríkjum sem Bandaríkjamenn líti á sem vandamálaríki. Úr leiðara Morgunblaðsins mánudaginn 30.07.2018.

Athugasemd: Fyrir utan að ofangreind málgrein er sýkt af nástöðu þeirra orða sem eru feitletruð þá er hún illskiljanleg. Óákveðna fornafnið nokkuð er þarna líka eins og skrattinn í sauðaleggnum, á hugsanlega að gegna einhverju hlutverki en illt að átta sig á því hvað það er.

Hér fyrir neðan er gerð tilraun til að búa til annan kost (ekki „valkost“, það orð er ekki til) en það er jafnan erfitt þegar hugsunin er jafn óskýr og í málsgreininni. Erfitt er að koma í veg fyrir tvö tilvísunarfornöfn í sömu málsgreininni, slíkt er frekar ljótt og stíllaust.

Og að lokum, hvað eru vandamálaríki? Ekki er hægt að ráða neitt af samhenginu.

Tillaga: Hann segir að margt af því sem komið hafi upp í Bandaríkjunum sé kunnuglegt í ríkjum sem Bandaríkjamenn líti á sem vandamálaríki.

6.

Nýi fallt­urn­inn í Fjöl­skyldug­arðinum opn­ar brátt. Fyrirsögn á mbl.is

Athugasemd: Bráðsniðugt að byggja fallturn í Fjölskyldugarðinum, en hvað á hann að opna? Getur hann annars opnað eitthvað? Jú, í fyrirsögninni segir að hann muni opna brátt. Blaðamaðurinn hefur ábyggilega gleymt að nefna það í fyrirsögninni sem fallturninn á að opna og ekkert segir heldur um það í fréttinni. 

Blaðamenn ættu að vita að hús og mannvirki opna ekki neitt. Steinsteypa, timbur, gler og járn hefur engan vilja. Fólk opnar hús og önnur mannvirki eða tekur þau í notkun.

 Tillaga: Nýi fallt­urn­inn í Fjöl­skyldug­arðinum verður brátt opnaður

 


Hrakspár bankastjórans og gæfa Breta

Mikið ansi gleðst ég yfir því þegar ég les góða bók eða grein jafnvel bara nokkrar línur sem geisla af skýrri hugsun. Tilvitnunin hér að neðan finnst mér mjög áhugaverð og vel saman sett.

Til þess að spilla ekki fyrir þeim örfáu sem kunn að lesa þennan pistil læt ég þess ógetið hver samdi og hvar línurnar birtust. Bið ég lesandann að virða það til betri vegar. Við erum nefnilega mörg þannig full af fordómum og leiðindum og getum aldrei séð sólargeisla í rigningartíð jafnvel þó hann skíni í augun á okkur. 

Hér er tilvitnunin (greinskil eru mín):

Ógleymanlegt er hvernig hinn kanadíski seðlabankastjóri Breta minnti í aðdraganda Brexit mest á skrítnu kallana með spjöldin að boða endalok mannkynsins.

Hann má þó eiga það að hafa komist mun nær því en hinir íslensku „fagmenn“ að viðurkenna að hrakspár og jafnvel hótanir hafi ekki verið heppilegar.

Hann á þó sennilega einkum við að það hafi verið óheppilegt fyrir hann hversu illa spádómarnir stóðust. Það var hins gæfa bresku þjóðarinnar, en gáfumönnum þykir það aukaatriði í svo stóru máli.

 


Barði, barði og flúði eventið

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Barði konu sína á Vestfjörðum, dró hana á hárinu og barði í andlitið – Lagði á flótta með barn sitt.“ Fyrirsögn á dv.is.      

Athugasemd: Illa samin fyrirsögn, alltof löng og án markmiðs. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að maður var dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir að beina konu sína ofbeldi. Mér finnst óþarfi að taka það fram í fyrirsögn hvar atburðurinn átti sér stað. Það kemur fram í fréttinni.

Takið svo eftir bullinu sem býr til nástöðu. Barði konu sína og barði í andlitið. Blaðamaðurinn kann ekki að semja fyrirsögn, það er ljóst. 

Hver lagði á flótta með barnið. Af fyrirsögninni má ráða að sá sem barði konuna hafi flúið með barnið. Svo er þó ekki.

Þetta er ekki nóg. Hvað þýðir þetta sem segir í fréttinni:

Mat dómari það svo að maðurinn hefði játaði brot sitt og hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot.

Þetta er illskiljanlegt. Var það dómarinn eða „maðurinn“ sem hefur ekki áður verið fundinn sekur um ofbeldisbrot? Málsgreinin er kjánalega samansett.

Og hér er enn einn sveppurinn. Skilur einhver þetta?

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að áður en brot mannsins átti sér stað hafði hann sýnt af sér óeðlilega hegðun í garð konunnar um lengri tíma.

Eða þetta?

… en sakaferill mannsins hafði ekki áhrif við ákvörðun refsingarinnar.

Enginn les yfir hjá dv.is og allir fá að leika sér sem blaðamenn án nokkurrar tilsagnar. Svona frétt er ekki boðleg, hún er stórskemmd.

Tillaga: Dæmdur fyrir að beita konu sína alvarlegu ofbeldi.

2.

„Börn og ung­ling­ar und­ir 18 ára voru að vinna á gáma­svæðinu og hafði 15 ára starfsmaður verið að vinna við pressugám og lent í hon­um og orðið fyr­ir vinnu­slysi.“  Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Þetta er ekki góð málsgrein. Hún er of löng og þar að auki er  hún illa orðuð. Auðvelt að stytta hana. Reglan er sú að nota punkt sem oftast, ekki hlaða inn setningum. Um að gera að hafa textann eins stuttorðan og skýran og hægt er. Slíkt næst ekki nema með því að lesa hann vandlega yfir eða fá einhvern annan til þess. Fersk augu sjá oftast það sem er þarf að laga.

Á íslensku verður enginn fyrir vinnuslysi í vinnunni. Hins vegar slasast sumir í vinnunni. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Í ofangreindri tilvitnun er hamrað á nafnorði en í tillögunni hér fyrir neðan fær sagnorðið að njóta sín, þannig nýtur íslenskan sín.

Hin tilvitnaða málsgrein er tekin orðrétt úr vef Vinnueftirlitsins og gerir blaðamaður Moggans enga tilraun til að lagfæra augljósar misfærslur. Nákvæmlega eins gerir blaðamaður dv.is en á þeim vef er sagt frá því sama. Er kannski sami rassinn undir öllum íslenskum fjölmiðlum?

Vinnueftirlitið ber af í stofnanamállýsku, kansellístíl (þetta á ekki að vera hrós).

Eftirskrift: Ítarlegri og mjög vel skrifuð frétt um sama mál birtist á blaðsíðu tvö í Morgunblaðinu. Hún er algjörlega til fyrirmyndar og án efa skrifuð af eldklárum blaðamanni ekki þeim sem á fréttina á mbl.is. 

 Tillaga: Börn og ung­ling­ar und­ir 18 ára unnu á gáma­svæðinu. Starfsmaður sem var aðeins 15 ára féll í pressugám sem hann vann við og slasaðist.

3.

„Hundrað kílóa hnullungur hafnaði næstum á konu við Grátmúrinn.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Hver skyldi nú vera munurinn á sögninni að hafna og sögninni að lenda. Mig grunar að grjótið hafi næstum því lent á konunni. 

Einhvern veginn finnst mér að það sem hafnar einhvers staðar hafi verið sent með vilja. Til dæmis ef bolti hafnar í markinu, lið hafnar í fyrsta, öðru eða þriðja sæti eða álíka.

Grjót sem hrynur úr fjallshlíð lendir á húsinu, það hafnar ekki á húsinu. Hvort tveggja getur þó verið rétt.

Þetta getur þó verið smekksatriði. Að minnsta kosti myndi ég skrifa þannig og draga úr notkun á sögninni að hafna. Finnst hún dálítið tilgerðarlega svo oft sem hún sést í fjölmiðlum.

Tillaga: Hundrað kílóa hnullungur lenti næstum því á konu við Grátmúrinn.

4.

„Þetta er alvöru event.“ Fréttamaður í kvöldfréttum Bylgjunnar 24.07.2018.

Athugasemd: Event er enska og getur þýtt atburður, uppákoma og álíka. Þarna var fréttamaðurinn að segja frá tónleikum Guns N´ Roses á Laugardalsvelli en gat ekki gubbað út úr sér setningunni á hreinni íslensku, hann þurfti að sletta, má vera svona til að sýnast.

Að hugsa sér ef fréttamaðurinn hefði sagt að þetta væri stórkostlegur atburður, alvöru tónleikar eða bara magnaður viðburður. Svoleiðis hefðum við, almenningur, varla skilið. Þetta var event, ííívent, magnað að svona fjölfróður og klár einstaklingur skuli starfa á Bylgjunni/Stöð2. Ég myndi mæla með því að Bylgjan borgaði honum laun, en má vera að börn fái ekki laun þar á bæ.

Tillaga: Engin gerð.

5.

„28 bandarískir þingmenn eru eftirlýstir af lögreglunni ef marka má niðurstöður úr nýju forriti frá tæknirisanum Amazon.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Fyrir alla muni, ekki byrja setningu á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert á byggðu bóli. 

Hér er ágæt skýring á fyrirbrigðinu:

A number is an abstract concept while a numeral is a symbol used to express that number. “Three,” “3” and “III” are all symbols used to express the same number (or the concept of “threeness”). One could say that the difference between a number and its numerals is like the difference between a person and her name.

Ég hef áður nefnt þetta en núna ákvað ég að koma með erlendar tilvísanir til að sýna að þetta á ekki aðeins við íslensku. Hér er önnur tilvísun valin af handahófi í orðasafni Google frænda.

You should avoid beginning a sentence with a number that is not written out. If a sentence begins with a year, write 'The year' before writing out the year in numbers.

Aðalatriðið er að vera vakandi yfir skrifum sínum, ekki láta vaða án þess að lesa yfir. Í stað þess að skrifa tölur má líka endurorða setninguna.

Tillaga: Tuttugu og átta bandarískir þingmenn eru eftirlýstir af lögreglunni ef marka má niðurstöður úr nýju forriti frá tæknirisanum Amazon.


Lögverndun starfsheitis leiðsögumanna tryggir ekki gæði

Alltof algengt er að leiðsögumenn og fararstjóra hér landi skorti undirbúning og þjálfun til þess að fara fyrir skipulögðum ferðum, segir Indriði H. Þorláksson, formaður Leiðsagnar, félags leiðsögumanna. Hann segir að ítrekað komi upp atvik sem skrifa megi á þekkingarleysi leiðsögumanna en að lítið sé hægt að gera þar sem starfsheitið sé ekki lögverndað. Stjórnvöld sýni þessum málum lítinn áhuga.

Svo segir í frétt á visir.is. Vandi ferðaþjónustunnar lagast ekki þó starfsheiti leiðsögumanna sé lögverndað. Hann mun þvert á móti aukast vegna þess að hún ekki geta nýtt sér reynda fjallamenn sem í langan tíma hafa ferðast um fjöll og jökla á eigin vegum og ferðafélaga en ekki haft áhuga á að fara á námskeið til að læra það sem þeir hafa þegar lært. Í þessum hópi er fjöldi fólks sem ég þekki og er ég sjálfur ekki undanskilinn.

Staðreyndin er sú að til dæmis hjá ferðafélögunum Útivist og Ferðafélagi Íslands verður til mikil þekking í fjallaferðum sem og reynsla í leiðsögn sem að vísu er þar kölluð fararstjórn. Við, þessir „ómenntuðu“ leiðsögumenn höfum farið um mest allt landið, gengið á skíðum um hálendið að vetrarlagi, skíða yfir jökla, gengið á hæstu tinda, kunnum að fara með ísexi og brodda og margir eru góðir í ísklifri. Vissulega til reynslumikið fólk sem hefur réttindi til að titla sig leiðsögumenn. Hins vegar hef ég fylgst með leiðsögumönnum draga fólk upp á Hvannadalshnúk, fólk sem kann ekkert að fara með ísöxi eða ísbrodda. Ég sá efstu menn falla í hlíðum hnúksins niður á næstu menn sem auðvitað misstu jafnvægið og féllu, og svo koll af kolli uns öll hrúgan var komin í fangið á þeim neðsta, líklega leiðsögumanni. Þetta er auðvitað stórhættulegt, ísaxir og broddar hjá fólki sem er nærri því í frjálsu falli og getur stórskaðað næsta mann.

Ég held að það sé gott að geta leitað til reynslumikill manna og kvenna sem ekki hafa farið í leiðsögumannaskóla heldur en að nota algjöra viðvaninga í fjallaferðum, þó þeir titli sig sem leiðsögumenn með „menntun“. Finna má tugi slíkra fjallamanna í og utan ferðafélaganna. Þar að auki eru tugir ef ekki hundruð manna sem hafa margvíslega þekkingu og reynslu af annars konar ferðalögum um landið og geta með léttu tekið að sér stóra og litla hópa og verið ekki síðri en „menntaðir“ leiðsögumenn.

Tilgangurinn með svokallaðri lögverndun á starfsheiti leiðsögumanns er ekkert annað en einbeittur vilji til að einoka leiðsögn í ferðaþjónustunni, útiloka fólk sem hefur þekkingu og reynslu í þessari atvinnugrein. Ég get ekki ímyndað mér að fyrirtæki í ferðaþjónustu vilji takmarka á þennan hátt möguleika sína.

Vinnuveitendur geta í raun og veru ráðið því hvaða menn þeir ráða til starfa. Þannig að því miður er það alltof algengt að það séu einhverjir ráðnir til starfsins sem hafa ekki til þess undirbúning, reynslu og þekkingu sem þarf til að sinna því vel.

Þetta segir Indriði í fréttinni. Í þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem ég þekki best til vita stjórnendur þeirra nákvæmlega hvernig ferðir þeir eru að bjóða upp á og hvernig fólk þarf í leiðsögn. Margir kunna að vera innan Leiðsögumannafélagsins en fjölmargir eru utan þess. Indriði er trúr sínum uppruna og vill einoka réttindi sem má aldrei verða því slíkt er stórhættulegt öryggi ferðamanna.

Hvers vegna er Indriði eiginlega að agnúast út í Íslendinga sem ekki hafa farið á námskeið fyrir leiðsögumenn og þjónusta samt ferðamenn? Misjafn sauður er vissulega í mörgu fé, það á við „menntaða“ og „ómenntaða“ leiðsögumenn. Má vera að menntunin hafi vissa kosti en sé hægt að benda á frábæran leiðsögumann með menntun er minnsta málið að benda á annan jafngóðan sem aldrei hefur stigið fæti inn í leiðsögumannaskóla.

Ég er sammála ferðamálaráðherra sem segir að löggildin leiðsöguréttinda sé ekki leiðin til að tryggja öryggi ferðamanna. Vandamálið er miklu frekar að sumir ferðamenn eiga ekki að fara í krefjandi fjalla- eða jöklaferðir, jafnvel þó þá langi til þess. Þeir hafa ekki þann bakgrunn sem þarf.

Nefna má hér fjarlægt dæmi og það er sá ótrúlegi fjöldi fólks sem vill ganga á Everest, hæsta fjall í heimi. Stór hluti þeirra hefur ekki neina þekkingu á fjallamennsku, vill aðeins geta hakað við eitthvað stórkostlegt. Sambærilegt við þetta eru ferðamenn á Íslandi sem vilja sjá jökul og geta snert ísinn. Ekki eiga allir erindi inn á hann, jafnvel þó þeir vilji.

Mér er enn minnisstæð hollenska konan sem var í ferð með mér á vegum Útivistar fyrir mörgum árum. Hún sagði mér síðar að hún væri algjörlega óreynd í gönguferðum enda snéri hún á sér ökklann um klukkutíma eftir að hún steig út úr rútunni í Skaftafelli. Auðvitað hefði þetta aldrei gerst hjá „menntuðum“ leiðsögumanni. Eða hvað, Indriði?

 


Vök Baths, bleikjan að gefa sig og Cliff clifftur út

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Mikil fækkun Íslendinga í danska fótboltanum.“ Fyrirsögn á bls. 1 í íþróttablaði Morgunblaðsins 17.07.2018.      

Athugasemd: Íslenska byggist á sagnorðum, ekki nafnorðum.

Í upphafi fréttarinnar stendur svo þetta:

Aðeins þrír Íslendingar leika með liðunum fjórtán í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu …

Þetta er einfaldlega rangt því leikmennirnir geta ekki leikið með fjórtán liðum, hámarkið er þrjú lið.

 Tillaga: Íslendingum fækkar í danska fótboltanum.

2.

„En Steingrímur óð með bróður sínum yfir Meyjará sem var í miklum vöxtum vegna úrhellis rigningar til að sækja aðstoð.“ Fréttá visir.is.       

Athugasemd: Ár eru stundum í vexti, peningar geta legið í banka á vöxtum, flest börn vaxa, vöxtur þeirra er oftast góður, svo eru þeir til sem eru vel vaxnir og maður getur líka verið mikið mikill vöxtum.

Um eina, tvær eða fleiri ár sem vaxa vegna þess að í þeim er meira vatn en endranær er sagt að þær séu í vexti. Þetta er venjan, held þó að ekki sé rangt að segja ár í miklu vöxtum. Þó heyrist aldrei að ár séu í litlum vöxtum.

Höldum okkur bara við að segja að ár séu í vexti

Tillaga: En Steingrímur óð með bróður sínum yfir Meyjará sem var í miklum vexti vegna úrhellis rigningar til að sækja aðstoð.

3.

„Vök Baths.“ Nafn á fyrirtæki í Fellabæ.       

Athugasemd: Ég bið lesendur forláts en ég held því fram að fólkið sem nefnir fyrirtækið sitt „Vök Baths“ séu haldin alvarlegum skorti á heilbrigðri skynsemi.

Á vefnum austurland.is segir: 

Heitið er sótt í vakir sem mynduðust á Urriðavatni sem urðu tilefni í þjóðsögur og síðar þess að látið var á það reyna að bora þar eftir heitu vatni á svæði sem áður var talið kalt með góðum árangri.

Ekki er nóg að tilgangurinn sé góður, íslensk mál er misnotað og sóðað út eins af algjörri óvirðingu. Furðulegt er að blanda svona saman íslensku og ensku. Útkoman verður þar af leiðandi hvorki fugl né fiskur, „bastarður“. Miklu nær er að mynda heiti fyrirtækis á íslensku og hafa ensk heiti neðanmáls. Svo má velta því fyrir sér hvort Vök Baths sé nafnið á eigandanum, þorir einhver í'ana. Hver veit hvort Bath ættin sé til á Austurlandi og hafi tórt þar frá landnámi?

Má vera að eigendurnir séu að hugsa um markaðsmál en um leið missa þeir sjónar á þeirri virðingu sem eigendur fyrirtækja eiga að sýna íslensku máli, þjóðinni og ekki síður útlendingum sem heimsækja landið. Enginn útlendingur ætlast til að heiti fyrirtæki, örnefni, vara, vegvísar eða annað sé á ensku. Sá sem heimsækir annað land gerir einfaldlega ráð fyrir því að þar sé tungumál innfæddra ráðandi. Þetta er að minnsta kosti það sem ég hugsa þegar ég ferðast um Grikkland, Spán, Ítalíu, Þýskaland og Frakkland svo dæmi séu tekin.

Síðast en ekki síst varðar þetta sóma þeirra sem reka fyrirtæki hér á landi. Við getum einfaldlega ekki fylgt í kjölfar þess sóðalega fyrirtækis sem nú heitir Air Iceland Connect en hét áður Flugfélag Íslands, eða Fontana, og álíka fyrirtækja með skrípaheiti í íslensku samfélagi.

Síst af öllu er þetta spurning um markaðsmál. Bláa lónið lifir góðu lífi, einnig Eimskip, Samskip og fjöldi annarra fyrirtækja sem sýna tungu þjóðarinnar tilhlýðilega virðingu.

Tillaga: Tuskuvakir

4.

„Græn­lands­bleikj­an gef­ur sig.“ Fyrirsögn á mbl.is        

Athugasemd: Slæmar fréttir, hrun í grænlenska bleikjustofninum … Eða hvað? Í orðabók segir um merkinguna að gefa sig: 

Láta undan, bresta, bila. Gamla brúin gaf sig undan vörubílnum. Vatnsrör gaf sig í frostinu. Þessir skór eru farnir að gefa sig.

Sem sagt, grænlandsbleikja er ekki að hruni komin, hún lætur veiða sig. Hvoru tveggja má fagna, held ég.

Sumir halda að málið þróist á þann hátt að orð sem hingað til hafi haft ákveðna merkingu fái nýja og gjörólíka. Slíkt er ekki þróun heldur afleiðing vanþekkingar á íslensku máli. Þannig klúður er nær daglegur viðburður í íslenskum fjölmiðlum. Sorglegt.

 Tillaga: Græn­lands­bleikj­an veiðist vel.

5.

Framherji Watford að taka við Gylfa sem dýrasti leikmaður í sögu Everton? Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Þetta gengur ekki upp. Blaðamaðurinn skilur ekki einfald orðasamband og niðurstaðan verður bull.

Framherji tekur við Gylfa. Það þýðir að hann tekur á móti Gylfa, einhver afhendir Gylfa og hinn tekur á móti.

Má vera að blaðamaðurinn hafi ætlað að skrifa að enginn taki við af Gylfa. Sé svo bendir það til að enginn lesi yfir, enginn bendir fréttabarninu á mistök. Fyrir vikið er fréttin skemmd.

Blaðamaðurinn þykist samt hafa gert vel, er aldeilis karl í krapinu, hefur skrifað frétt. Hann veit bara ekkert um vitleysuna sem hann gerði.

Tillaga: Nýi framherjinn hjá Watford dýrari en Gylfi.

6.

Clifft­ir út. Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Svo bregðast krosstré … Einn af betri blaðamönnum Moggans skrifar skýra og góða frétt um mál söngvarans Cliff Richards gegn BBC. Alls ekkert út á hana að setja nema fyrirsögnina. Ég hreinlega skil hana ekki. Hér er greinilega um einhvern orðaleik að ræða, einhverjir eru í málaferlinum „klipptir úr“.

Sú staðreynd er skýr að aldrei fer vel á því að blanda saman tveimur tungumálum í frétt, hvorki í fyrirsögn né meginmáli nema að setja hið erlenda í gæsalappir. Allt annað truflar lesendur sem í ofanálag eru margir hverjir ekki með næga tungumálaþekkingu til að skilja. Í ofanálag eru ekki allir lesendur með jafngóðan húmor hvað þá að við séum allir jafnfljótir að kveikja á skopinu.

Tillaga: Cliff Richard vinnur dómsmál gegn BBC

6.

Ef áfram heldur að kreppa að er víst að Ortega mun missa stuðning efnahagslífsins. Úr leiðara Morgunblaðsins 21.07.2018.         

Athugasemd: Yfirleitt eru leiðarar Moggans ágætlega skrifaði og afar sjaldgæft að sjá stafsetninga- eða málvillur. Hvorugt er í ofangreindri tilviljun en hún er samt illskiljanleg.

Efnahagslífið er svona eins og veðrið, frekar svona sjálfráða þó hvort tveggja sé mælanlegt á ýmsan máta.

Útilokað er að halda því fram að efnahagslíf hafa sjálfstæða hugsun eða styðji einhvern ákveðinn stjórnmálamann. Ekki frekar er hægt að fullyrða að veðráttan hér á landi haldi með ljósmæðrum eins og einn gáfumaðurinn fullyrti á fundi um daginn.

Líklegast er að leiðarhöfundur hafi ætlað að skrifa um stuðning atvinnulífsins en orðið fótaskortur á lyklaborðinu.

TillagaEf áfram heldur að kreppa að er víst að Ortega mun missa stuðning atvinnulífsins.

7.

Í mars var Reykjavík Konsúlat Hótel opnað í Hafnarstræti 17- 19, en í sama húsnæði var áður rekið Thomsens magasín allt frá árinu 1837. Umfjöllun á bls. 21 í Morgunblaðinu 21.07.2018.         

Athugasemd: Orðalagið er til fyrirmyndar. Hótelið var opnað. Skussar orða það þannig að hótelið hafi opnað. Hús eða fyrirtæki geta ekki opnað neitt, aðeins fólk.

Hins vegar verður að hnýta í ofangreinda tilvitnun  Húsið sem um ræðir, oft kallað straujárnið vegna lögunar þess, er nýbygging og því útilokað að Ditlev Thomsen hafi gengið þar um gólf. Þó gæti verið að nýbyggingin sé tengd við eldra húsið við hliðina og þar hafi Thomsen konsúll spígsporað.

Tillaga: Engin gerð.

8.

Claude Puel, stjóri Leicester … Cluel Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Í fótboltaleik er heimilt að skipta um þrjá leikmenn á meðan á leik stendur. Ekkert er við því að segja. Í blaðamennsku er það hins vegar óskráð en mikilvæg regla að skipta ekki um menn í miðri frétt.

Í Vísi er þýdd frétt um framkvæmdastjóra fótboltaliðsins Leicester. Í upphafi fréttar heitir hann Puel en um miðbik fréttarinnar er einhver Cluel kominn inn á. Enskir myndu ekkert skilja í svona fréttaflutningi (e. do not have a clue (cluel)).

Má vera að hér sé um samlögun að ræða, Claude Puel verður Cluel. Þetta er bara enn eitt dæmið  hroðvirkni og sannar það sem margir segja, á Vísi er enginn prófarakalestur. Magn er meira metið en gæði.

Tillaga: Engin gerð.

9.

„Hinn handtekni heitir Getayawkal Ayele sem hefur stefnt að því að verða spámaður.“ Frétt á visir.is.          

Athugasemd: Nei, fjöldi frétta er endilega ávísun á góðar fréttir. Vísir hrúgar inn ómerkilegum „fréttum“ og framreiðir þær með hangandi hendi, hroðvirknislega. Þannig verður til léleg frétt og oftar en ekki illa skrifuð.

Þetta á tvímælalaust við fréttina sem ofangreind tilvitnun er úr. Ég lét glepjast vegna fyrirsagnarinnar sem hefði þó mátt vera styttri.

Málsgreinin er ruglandi og þá sérstaklega samtengingin sem en henni er ábyggilega ofaukið.

Annars er stórmerkilegt að maðurinn ætli að verða spámaður. Ekkert er sagt frá námi mannsins, en hann hefur líklega fallið á prófinu í að reisa upp frá dauðum. Vonandi fær hann að taka það aftur eftir að hafa náð sér eftir barsmíðarnar.

Tillaga: Hinn handtekni, Getayawkal Ayele, hefur stefnt að því að verða spámaður.

10.

„Sigraði anor­ex­í­una.“ Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Gott er til þess að vita að ung kona hafi unnið bug á sjúkdómi sem hefur hrjáð hana. Hins vegar er varla hægt að segja að konan hafi sigrað sjúkdóminn. Við sigrum í keppni, vinnum andstæðinga, berum sigur úr býtum, leggjum keppinautanna og svo framvegis. 

Í Málfarsbankanum segir:

Talað er um að sigra andstæðing og sigra í leik en ekki „sigra leik“. Hins vegar er talað um að vinna leik.

Rétt er með farið að segja fara með sigur af hólmi og bera sigur úr býtum en ekki „bera sigur af hólmi“.

Sjúkdómur er ekki eins og keppninautur, hann hefur enga sjálfstæða hugsun, er einungis þannig gerður að hann ræðst þar á sem líkaminn er veikastur. Engu að síður má orða fyrirsögnina þannig að konan hafi sigrast á átröskuninni.

 Tillaga: Sigraðist á átröskuninni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband