Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Algleðilegt, maður staðfestur og aðhlynning
20.12.2018 | 11:28
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Leita læknis
Þótt þau á höfuðbólinu tali um að seek medical help þurfum við hér á hjáleigunni ekki að verða svo hástemmd að leita læknisfræðilegrar aðstoðar. Það nægir að leita læknis eða læknishjálpar. Þýðandi má ekki láta frummálið svífa um of á sig.
Málið á bls. 38 í Morgunblaðinu 15.12.2018.
1.
Fimm hlýjustu ár frá því mælingar hófust hafa öll átt sér stað á þessum áratug
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Í nokkuð góðri grein um loftslagsbreytingar á jörðinni er ofangreind tilvitnun. Fimm sinnum er þetta ofnotað orðalag að eiga sér stað en því er alltof oft er þvælt inn í ritað mál í stað þess að nota sögnina að vera.
Höfundurinn hefði mátt lesa greinina yfir og breyta á nokkrum stöðum til hins betra. Sumt orkar tvímælis eins og þetta:
Vísindamenn vara við því að slíkri hlýnun fylgdi hækkun yfirborðs sjávar,
Mér hefði fundist fara betur á því að segja: Vísindamenn benda á að hlýnuninni fylgi hækkun yfirborðs sjávar og svo framvegis. Viðvörunin er innifalin í orðunum.
Blaðamaðurinn notar orðið vefengja í stað véfengja. Það er gott enda segir í malid.is:
Bæði hefur tíðkast að rita véfengja og vefengja en mælt er með síðari rithættinum skv. uppruna orðsins.
Ég hef hins vegar vanist því að véfengja svo ótalmargt og þarf líklega að breyta rithættinum.
Tillaga: Fimm hlýjustu ár frá því mælingar hófust voru öll á þessum áratug
2.
Tilefnið var þó ekki algleðilegt
Frétt í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins 16.12.2018.
Athugasemd: Því miður gleymdi ég að skrifa hjá mér um hvað fréttin fjallaði. Það er þó ekki höfuðatriðið. Hef aldrei heyrt orðið áður.
Veit ekki heldur til þess að til sé orðið hálfgleðilegt né heldur vangleðilegt. Hins vegar kann sumum að þykja málfræði hálfleiðinleg og athugasemdir á borð við þessa jafnvel alleiðinlegar. Þó mun enginn telja málfræði hálfskemmtilega og varla alskemmtilega Hér er nú án efa komið fullmikið af hinu góða. Eða ætti ég að segja fullgott eða vangott?
Svona má nú skemmta skrattanum með því að snúa út úr eða kroppa í orð. Rýr orðaforði er vandamál sem einna helst hrjáir hrjáir yngri kynslóðir. Við sem eldri erum gleymdum að kenna þeim að lesa bækur.
Tillaga: Tilefni var þó ekki eintóm gleði
3.
Börn sendi nektarmyndir á lokaða hópa á Snapchat.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þessi fyrirsögn er út í hött. Hún er höfð í viðtengingarhætti sem gengur ekki upp jafnvel þó hún geti verið réttlætanleg. Í fréttinni segir:
Dæmi eru um að börn allt niður í tólf ára taki þátt í leik þar sem þau eru mönuð til að senda af sér nektarmyndir á lokaða hópa á samskiptaforritinu Snapchat.
Eftir að hafa lesið fréttina má skilja fyrirsögnina á þann veg að hún segi frá því að börn sendi nektarmyndir. Fyllri frásögn er að þau senda myndirnar.
Tillaga: Börn senda nektarmyndir í lokuðum hópum á Snapchat.
4.
Ole Gunnar Solskjær var í dag staðfestur sem næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Skyldi vera jafnsárt að vera staðfestur og krossfestur? Veit að sá sem er staðfastur er fastur fyrir, stöðugur, óhvikull. Þetta eru því ólík orð.
Sögnin staðfesta er til og í málid.is segir eftirfarandi:
segja að e-ð sé rétt, segja að e-u sé svona háttað
hún staðfesti að þetta væri sannleikanum samkvæmt
þetta staðfestir grun yfirvalda um fjársvik
Í tilvitnuninni hér í upphafi er staðfestur lýsingarorð og merkir svipað og sögnin staðfesta. Ekkert að þessu orðavali sem slíku.
Hins vegar er tilvitnunin algjör steypa vegna þess að því fer fjarri að svona sé talað.
Miklu betra hefði verið að blaðamaðurinn hefði hugað að stíl. Jónas Kristjánsson (1940-2018), fyrrum ritstjóri, segir á vef sínum:
Texti er hafður einfaldur til að verða spennandi. Fréttatexti á að vera stuttur, skýr og spennandi. Stuttur texti er skýr. Skýr texti er spennandi. Fréttastíll er bestur stuttaralegur. Þú þarft að vera góður í íslensku og skilja málfræði og setningafræði.
Mikið óskaplega væri nú gaman ef blaðamenn hefðu ráð Jónasar í huga. Þau eru svo einföld og auðskiljanleg.
Tillaga: Í dag var staðfest að Ole Gunnar Solskjær verður næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United.
5.
Tveir voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir alvarlegt umferðaslys
Frétt Ríkisútvarpinu 19.12.2018.
Athugasemd: Sá sem fær aðhlynningu getur varla verið alvarlega slasaður, það liggur í orðanna hljóðan. Eflaust má færa rök fyrir því að aðhlynning sé þegar meðhöndlunin er skurðaðgerð, rannsóknir, blóðgjöf, viðgerð á brotnum beinum, meðhöndlun brunasára, hjartaþræðing, líffæraskipti og álíka læknismeðferðir.
Verður ekki að vera eitthvað samhengi í fréttunum? Í æsku minni skar ég mig í fingur og fékk aðhlynningu heima, plástur á bágtið. Mér finnst aðhlynning vera minni háttar umönnun.
Slysið reyndist mjög alvarlegt eftir því sem að ítarlegri fréttir bárust.
Tillaga: Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir alvarlegt umferðarslys
Er skjálftahrinan við Herðubreið fyrirboði um eldgos?
19.12.2018 | 10:48
Ekkert hefur dregið út skjálftahrinunni við Herðubreið. Þegar þetta er skrifað hafa um 190 skjálftar mælst suðvestan við fjallið. Hvað er eiginlega að gerast þarna? Best er að vísa til pistils sem ég skrifaði birtist hér 7. janúar 2018, linkur á hann er hér.
Skjálftarnir núna eru flestir á um fjögurra til sjö km dýpi, sumir miklu grynnri, 0,1 km og 0,5 km, einn hefur mælst á 8,2 km dýpi.
Langflestir hafa mælst innan við 1 stig eða 119. Alls hafa mælst 66 skjálftar sem hafa verið frá einu til tveggja stiga.
Sagt er að mikill fjöldi lítilla skjálfta geti bent til að eldgos sé í aðsigi. Rökin eru þau að þessir litlu skjálftar verða til þegar kvikan þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna og við það springur hún, sprungur opnast og aðrar víka.
Síðustu misserin hefur verið talsvert um skjálftahrinur í kringum Herðubreið. Fyrr eða síðar mun kvikan ná upp og þá verður eldgos á þessu svæði þar sem hraun hafa runnið í árþúsundir.
Hvergi hefur gosið á þessu svæði fyrir utan Holuhraunsgosið 2014 og í Öskju. Á Vísindavefnum segir um eldgos í Öskju:
Askja í Ódáðahrauni hefur ekkert gosið á þessari öld, en á 20. öld gaus hún alls átta sinnum. Síðasta gos varð árið 1961, en öll hin gosin urðu á þriðja áratugnum: 1921, 1922 (tvö gos), 1923, 1924, 1927 og 1929. Þessi gos voru öll frekar smávægileg, en 28. mars 1875 hófst aftur á móti mikið öskugos í Öskju sem hrakti fólk úr nærliggjandi sveitum.
Norðan Vatnajökuls eru svokallað Norðurgosbelti, í því eru fimm eldstöðvakerfi: Kverkfjöll, Askja, Fremri-Námar, Krafla og Þeistareykir. Eldgosahrina varð í Kröflukerfinu á árunum 1724 til 1729 og svo 1975 til 1974. Hin þrjú kerfin hafa verið til friðs frá því að land byggðist.
Kortið er fengið af vefnum map.is.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Grímulausa hagsmunagæslan og innanlandsflugið
18.12.2018 | 11:10
Það fyrirtæki sem undirritaður stjórnar greiddi á síðustu 16 mánuðum 600 milljónir í veiðileyfagjald sem er hálfvirði af nýsmíði fiskiskips. Með þeim gjöldum var slökkt á getu fyrirtækisins til að halda áfram þeirri tæknivæðingu sem við höfum verið svo stoltir af og teljum vera eina svarið við samkeppni frá ríkisstyrktum láglaunalöndum.
Ofangreind tilvitnun eru eftir Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, sem skrifar afburðagóðri grein í Morgunblaði dagsins. Hann tengir þessi orð ansi snyrtilega við niðurlagið í grein sinni og hefur þar eftir sjávarútvegsráðherra þegar hann er spurður að því hvað verði um fyrirtæki sem ekki fylgja tækniþróuninni:
Þau bara deyja, það er ekkert flókið. Þau verða að gjöra svo vel að standa sig í samkeppninni, fylgjast með því sem er að gerast, öðruvísi geta þau ekki keppt, hvorki um starfsfólk né verð á erlendum mörkuðum.
Stutt og laggott. Hreinskilið svar, bitur sannleikurinn.
Þorsteinn kallar lægri veiðigjöld grímulausa hagsmunagæslu. Að hans mati má sækja nær óendalega fjármuni til sjávarútvegsins.
Ekkert hlægilegt er við orð Þorsteins og hér kemur brandarinn. Þegar hann reynir að vera alveg grjótharður í stjórnarandstöðu og velur ríkisstjórninni öll hinn verstu orð sendur félagi hans upp í grímulausri hagsmunagæslu.
Benedikt Jóhannesson heitir maður sem er fyrrum formaður Viðreisnar, fyrrum þingmaður, fyrrum fjármálaráðherra og fyrrum frambjóðandi: Hann er maðurinn sem kjósendur höfnuðu eftir aðeins eitt ár. Snautlegri gerist nú ekki stjórnmálaferill nokkurs manns.
Þessi margfyrrum skrifar líka grein í Morgunblað dagsins og býsnast yfir verði á flugfarmiðum innanlands og hann vill að flugið verði niðurgreitt:
Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Jú, við viljum að ákveðinn hluti aflaheimilda verði seldur á markaði og söluverðið sett í sjóð til þess að byggja upp innviði á því landsvæði sem aflaheimildirnar voru áður á.
Með aukinni eftirspurn verður innanlandsflugið ódýrara, ekki bara fyrir landsbyggðarfólk heldur alla landsmenn, ferðum mun fjölga og flugið verður eftirsóknarverðari ferðamáti. Þá græða allir.
Já, allir græða. Mikið óskaplega væri samfélagið gott ef tunguliprir Viðreisnungar eins og Þorsteinn Víglundsson og Benedikt Jóhannesson fengju ráðið. Þá væri ekki stunduð grímulaus hagsmunagæsla. Niðurgreiðsla á flugfarmiðum er sko alls ekki nein hagsmunagæsla.
Sleppum nú allri kaldhæðni og spyrjum hvort það sé ekki þannig að allt óvarkárt tal stjórnmálamanna komi í bakið á þeim. Hugsanlega kemst Viðreisn einhvern tímann í ríkisstjórn og mun þá án efa reyna að tóna niður talsmátann.
Alltaf er það þannig að stjórnarandstöðuþingmaður sem kemst í ríkisstjórnarmeirihluta leggur af kjaftbrúk sitt og verður þá nærri því málefnalegur og kurteis. Dæmin eru ótalmörg en nærtækast að bera saman Þorstein Víglundsson, félagsmálaráðherra, og Þorstein Víglundsson, stjórnarandstöðuþingmann. Halda mætti að þeir væru óskyldir.
Eiga annars ekki allir hagsmuna að gæta? Vel færi á því að þeir Þosteinn og Benedikt svöruðu þessari spurningu þannig að þversögnin í málflutningi þeirra væri ekki eins æpandi.
Neysla kæstrar skötu veldur verðbólgu, jarðskjálftum og getuleysi
17.12.2018 | 15:13
Síðustu daga hef ég sem endranær ekið framhjá fiskbúð nokkurri og af fnyknum sem frá henni leggur er víst að verið er að selja Þorláksmessuskötu, dauðkæsta og baneitraða. Jafnvel bíllinn minn tók að hiksta þegar ég ók framhjá fiskbúðinni og má það beinlínis rekja til lyktarinnar enda ljóst að fátt er verra fyrir bílvél en andrúmsloft mengað skötufnyk.
Heimildarmyndin um Matthías Johannessen skáld og ritstjóra
16.12.2018 | 21:53
Í bókinni um Stein Steinar er mikið vitnaði í þig Matthías, nærri því á annarri hverri síðu, sagði blaðamaðurinn nokkuð hrifinn við ritstjóra sinn.
Nú, hvað var þá á hinum síðunum, voru þær tómar, gall í ritstjóranum sem glotti.
Matthías Johannessen, skáld og fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, var og er stórmerkur maður, það vissi ég jafnvel þó ég þekki ekki manninn persónulega. Jú, annars ... Ég þekki hann ágætlega en hann veit ekkert kvur ég er. Þannig einhliða kynni eru algengar á fjölmiðla og tækniöld. Hef frá barnæsku lesið Moggann og nokkuð margar bækur eftir hann voru til á æskuheimili mínu. Hann hefur skrifað ljóðabækur, skáldsögur, fræðibækur og margt fleira.
Í dag fékk ég að mæta á frumsýningu heimildarmyndar um Matthías og þá í fyrsta sinn kynnist ég persónunni að baki skáldinu og ritstjóranum.
Ofangreind tilvitnun (rituð eftir minni) úr myndinni vakti ósvikinn hlátur meðal frumsýningargesta, enda sögðust sumir þarna þekkja manninn sem sagður er með afbrigðum orðheppinn og skjótur til svara, svona spontant eins og við segjum á útlenskunni.
Heimildarmyndin nefnist Þvert á tímann og höfundar hennar eru kvikmyndagerðarmennirnir Sigurður Sverri Pálsson og Erlendur Sveinsson. Hún fjallar um dag í lífi Matthíasar árið 2000 og til viðbótar er skotið inn klippum frá árinu 2012.
Í stuttu máli hafði myndin sterk áhrif á mig. Eftir að hafa horft á hana var maður að velta fyrir sér agnúum í kvikmyndatökunni, á kafla dálítið uppskrúfuðum þulartexta, ljóðum sem birtust á tjaldinu í örstutta stund svo varla var tími til að lesa þau til enda, lengd myndarinnar og svona álíka smáatriðum. Allir þessir gallar hafa horfið úr huga mínum og eftir stendur skýr og hrein mynd af djúpvitrum manni sem án nokkurs vafa er skáld, en um leið mildilegur ritstjóri, brosmildur, með ágætt skopskyn og stjórnaði blaði sínu með kurteisi og ágætri samvinnu við alla starfsmenn.
Myndin hefst á nærgöngulegum atriðum, draumi sem enginn ráðning fæst á, hugarflugi og vangaveltum um ljóð sem smám saman tekur á sig mynd. Sagt er frá Hönnu Ingólfsdóttur, eiginkonu hans og hversu miklu máli hún skipti. Svo er hún fallin frá. Matthías er orðinn tólf árum eldri, tekinn í andliti, og leggur rauðar rósir á leiði konu sinnar. Sársaukinn skín úr andlitsdráttum, hann saknar henar greinilega en lærir að lifa þrátt fyrir missinn. Hann er hættur á Mogganum, og öllum gleymdur ... eða hvað? Áhorfandinn er eiginlega sem steini lostinn og spyr sjálfan sig hvar þau eru, synir þeirra Hönnu og Mattíasar og barnabörnin. Framhjá þeim skauta framleiðendur heimildarmyndarinnar að öllu leyti nema rétt í stöku andrá sjást myndir á borði skáldsins og af þeim má ráða að hann er ekki einn. Guði sé lof fyrir það, hugsar áhorfandinn.
Myndin er óður til skáldskaparins og hins ritaða máls. Þar er Matthías Johannessen einn af þeim sem fremst standa, hann er andans maður.
Heimildarmyndin er óvenjulega gerð. Í henni eru skáldlegir tónar sem hæfa vel, fögur klassísk tónlist sem Matthías unnir og þulurinn segir af og til frá en að öðru leyti virðist myndin flæða stjórnlaust með áhugaverðum snúningum.
Leitt að hafa aldrei kynnst þessum merka manni sem fæddur var árið 1930.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vanburðugur, að láta gott heita og berjast við súkkulaði
15.12.2018 | 19:18
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Þegar frummálið svífur á mann
Þótt þau á höfuðbólinu tali um að seek medical help þurfum við hér á hjáleigunni ekki að verða svo hástemmd að leita læknisfræðilegrar aðstoðar. Það nægir að leita læknis eða læknishjálpar. Þýðandi má ekki láta frummálið svífa um of á sig.
Málið á bls. 38 í Morgunblaðinu 15.12.2018.
Lesandinn má ekki láta kaldhæðnina í ofangreindum orðum fara framhjá sér.
1.
Vanburðugur markaður
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Er ekki sjálfsagt að þróa íslenskuna og mynda ný orð þegar þeirra er þörf? Orðið vanburðugur finnst ekki í orðabókum en það þekkist engu að síður og elsta heimildin sem ég fann í fljótheitum er úr Morgunblaðinu 16. febrúar 1930, blaðsíðu 8. Þar segir Jón Þorláksson í ræðu á Alþingi um Íslandsbanka:
Finst mjer ekki von á því, að banki, sem í augum ríkisstjórnarinnar er jafn vanburðugur og ríkisstjórnin heldur fram, hafi getað gert betur.
Lýsingarorðið burðugur getur merkt sá sem ber sig vel, til dæmis fyrirtæki sem er rekstrarhæft, það er burðugt, enda er orðið dregið af því að bera. Andstæðan er óburðugur og er það vel þekkt og getur merkt þann sem er kraftlítill, óburðugt fyrirtæki er hugsanlega komið í þrot.
Er sá vanburðugur sem hvorki er burðugur né óburðugur? Eða er ekkert þarna á milli? Fyrirtæki sem er burðugt stendur vel en það sem er óburðugt er hugsanlega mjög illa statt, jafnvel gjaldþrota. Þarf einhvern meðalveg?
Í fréttinni er sagt að markaðurinn sé vanburðugur, það er fjárfestar virðast hálfvegis forðast markaðinn, eins og segir í fréttinni og er líklega haft úr Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem er fréttin fjallar alfarið um. Í Hvítbókinni segir:
Til að tryggja samkeppni og virkni millibankamarkaðar þurfa burðugar innlánsstofnanir hér á landi að vera að lágmarki þrjár.
Á hraðleit í skýrslunni fann ég ekki orðið vanburðugur.
Þó vekur athygli að 88 árum eftir áðurnefnd orð Jóns Þorlákssonar er enn verið að velta fyrir sér hvort banki sé burðugur eða vanburðugur og í bæði skiptin er umræðuefnið banki sem heitir Íslandsbanki.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
2.
Kjósa um vantrauststillögu gegn May.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Talsverður munur er á því að kjósa og greiða atkvæði. Um það skrifaði Eiður heitinn Guðnason á bloggsíðu sína sem enn er opin, áhugamönnum um gott íslenskt mál til glöggvunar:
Ótrúlega margir fréttaskrifarar virðast ekki skilja hvenær er verið að kjósa og hvenær er verið að greiða atkvæði um eitthvað, til synjunar eða samþykktar. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum.
Fyrirsögn af mbl.is: Seðlabankinn kaus gegn bónusum.
Fulltrúi Seðlabankans greiddi atkvæði gegn bónusgreiðslum. Það er út í hött og rangt að tala um að kosið hafi verið um bónusgreiðslur. Það stríðir gegn gróinni málvenju, en mörg fréttabörn virðast ekki vita betur og enginn les yfir.
Þingmenn og aðrir trúnaðarmenn Íhaldsflokksins ætla að greiða atkvæði um tillögum um vantraust á formann flokksins og forsætisráðherra, Theresu May.
Tillaga: Greiða atkvæði um vantraust á May.
3.
Félagið var skráð á heimili foreldra Ármanns og voru þau bæði skráð í stjórn þess.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Ótrúlegt að blaðamaðurinn skuli ekki hafa séð tvítekninguna, nástöðuna, skráð ... skráð. Má vera að hann sjái ekkert athugunarvert við nástöðu og hafi engan áhuga á stíl. Þá er hann í röngu starfi.
Auðvelt er að laga svona eftir fyrsta yfirlestur, iðki blaðamaðurinn að lesa yfir það sem hann hefur skrifað.
Tillaga: Félagið var skráð á heimili foreldra Ármanns og voru bæði í stjórn þess.
4.
Einn sá besti lætur gott heita.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er ómöguleg fyrirsögn. Í fréttinni kemur fram að einn besti skíðagöngumaður Noregs er hættur keppni. Af hverju er það þá ekki sagt í fyrirsögninni? Hvað er betra við að nota þessa margtuggðu klisju, að láta gott heita?
Hvað á barni að heita, spurði presturinn. Tja , látum það gott heita, sagði pabbinn.
Þessi gamli brandari er líklega ekkert fyndinn lengur og má vera að hann hafi aldrei verið það. Klisjur eru sjaldnast skemmtilegar og síst af öllu upplýsandi í fréttum. Blaðamaðurinn segir í fréttinni:
Auk þess státar hann af átján sigrum á heimsbikarmótum.
Er eitthvað óskýrara að segja að maðurinn hafi sigrað átján sinnum á heimsbikarmótum? Oftast merkir sögnin að státa að monta sig, hreykja sér, en óvíst er hvort skíðamaðurinn hafi verið þannig innrættur að hann monti sig. Sé ekkert annað vitað er óþarfi að segja neitt annað en að hann hafi sigrað átján sinnum á heimsbikarmótum.
Þar á ofan er maðurinn kallaður Íslandsvinur af því að hann keppti einu sinni hér á landi. Er ekki nóg komið af þessu auma viðurnefni?
Tillaga: Einn besti skíðagöngumaður Noregs er hættur.
5.
25 slökkviliðsmenn börðust við tonn af súkkulaði.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Nei, nei, nei ... Þeir börðust ekki við súkkulaði, það kemur beinlínis fram í fréttinni. Þeir þurftu hins vegar að hreinsa það upp og það gekk ekki átakalaust.
Fréttin er skrifuð af blaðamanni sem ekki virðist hafa neina tilfinningu fyrir íslensku. Hann segir til dæmis:
Tonn af fljótandi súkkulaði hafði sloppið úr súkkulaðitank með þeim afleiðingum að það flæddi yfir nærliggjandi götu.
Súkkulaðið hefur ábyggilega runnið úr þessum súkkulaðitanki, ... það slapp ekki.
Og með þeim afleiðingum, segir blaðamaðurinn í hugsunarleysi sínu. Svo segir hann að súkkulaðið hafi flætt yfir nærliggjandi götu. Þvílíkt stílleysi.
Hefði ekki má skrifa þetta svona: Eitt tonn af súkkulaði rann úr súkkulaðitanki (!) og yfir götu.
Frekar illa skrifuð frétt þó tilefnið hefði ábyggilega nægt til skemmtilegri umfjöllunar fyrir lesendur. Nei, hroðvirknin og fljótfærnin ræður för.
Tillaga: Súkkulaði veldur slökkviliðsmönnum vandræðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2018 kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hrikalegt þetta með Mýrdalsjökul ...
11.12.2018 | 14:36
Hvað er eiginlega að gerast í Mýrdalsjökli? Hefur enginn áhyggjur? Nei, það er ekkert að gerast, Katla sefur vært og um þessar mundir mælast þar varla skjálftar. Kortið hér við hliðina sýnir skjálfta síðustu þrjá daga. Þarna mælis einn skjálfti fyrir framan sporð Tungnakvíslajökuls og er hann 1,6 sig og varð á 700 m dýpi.
Nei, það er eiginlega ekkert hrikalegt að gerast í Mýrdalsjökli. Hvað hefur þá orðið um alla þá spöku og fróðu menn sem spáðu dómsdagseldsumbrotum í Kötlu strax á eftir gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010?
Því er fljótsvarað. Þeir eru að bora í nefið einhvers staðar þar sem þeim líður vel. Sama á við þann draumspaka sem oft hefur verið að benda mér á komandi hamfarir. Hamfaraspár hans hafa ekki ræst ennþá. Staðreyndin er nefnilega sú að snúnara að spá um framtíðina en fortíðina (ég sá gosið í Eyjafjallajökli fyrir, segja sumir eftir á).
Á þessu ári hafa tiltölulega fáir jarðskjálftar mælst í Mýrdalsjökli nema hugsanlega í byrjun ágúst. Þá varð hrina þar og tveir skjálftar mældust yfir þrjú stig. Kortið hægra megin sýnir skjálfta frá 6. til 12. ágúst. Síðan hefur eiginlega ekkert gerst og varla verið rætt um Mýrdalsjökul og Kötlu nema í einni heimildarmynd og tali um gasleka úr jöklinum.
Þó eitt hundrað ár séu nú frá síðasta gosi í Kötlu bærir hún ekkert á sér. Mörgum finnst það stórskrýtið en þess ber þó að gæta að tímatal okkar hefur sáralítið forspárgildi. Það sem einu sinni hefur gerst getur auðvitað gerst einhvern tímann aftur. Áherslan hér er á einhvern tímann.
Frá miðju ári 2016 og fram eftir ári 2017 fjölgaði jarðskjálftum stórlega á mælum Veðurstofunnar og töldu margir að gos væri í aðsig. Katla lætur ekki að sér hæða því síðan þá virðist skjálftum hafa farið fækkandi og líða nú vikur og mánuðir án umtalsverðrar skjálftavirkni.
Á meðan er Vatnajökull í miklum ham. Öræfajökull sýnir áköf merki um að þar verði hugsanlega gos í náinni framtíð. Grímsvötn eru á góðri sveiflu sem og Bárðarbunga. Hraungangurinn sem olli gosinu í Holuhrauni er enn virkur og í honum verður fjöldi skjálfta í hverri viku sem bendir til að þar streymi enn glóandi hraun. Þrýstingurinn er engu að síður svo lítill að enn verður ekki vart við gosóróa.
Við Herðubreið er stöðugur órói á talsverðu dýpi og bendir hann til þess að þar sé kvika sem leitar til yfirborðs. Þó er berggrunnurinn þarna talsvert sprunginn og kvikan nær ekki að komast upp á yfirborð eða að þrýstingurinn er ekki nægur.
Jafnvel á Reykjanesi verða fjöldi skjálfta út um öll rekbelti, sérstaklega við suðurenda Kleifarvatns og jafnvel í botni þess.
Nei, Katla gamla hefur það náðugt. Vísindamenn fylgjast engu að síður stöðugt með, vakta jökulinn með fjölbreyttum tækjum dag og nótt. Eftirfarandi segir á vef Veðurstofu Íslands, sjá hér:
Ef skjálftavirkni eykst í Kötlu hljómar sjálfvirk viðvörun í eftirlitssal Veðurstofunnar í Reykjavík. Þar er vakt allan sólarhringinn, alla daga ársins. Þessi viðvörun er hluti af kerfi sem nær yfir allt landið.
Mælakerfi náttúrvárvöktunar Veðurstofunnar er mjög umfangsmikið. Það byggir á jarðskjálftamælingum, aflögunarmælingum (GPS, þenslumælingum og gervitunglamyndum), vatnamælingum, gasmælingum, drunumælingum, vefmyndavélum og sértækum mælingum t.a.m. eftirliti með yfirborði jökulsins og þróun jarðhitakatla meðal annars til að fylgjast með jarðhitabreytingum og hugsanlegri söfnun bræðsluvatns í jöklum. Ennfremur er sérstakt eftirlit haft með öskudreifingu á meðan á eldgosi stendur. Sjálfvirk úrvinnslukerfi taka við mælingum og eru niðurstöður yfirfarnar af sérfræðingum jafn óðum og þær berast.
Afar áhugavert er að lesa hversu víðtækt eftirlitið er með Mýrdalsjökli og ljóst er að jarðvísindamennirnir sem sinna því eru afar færir.
Hreinsar fólk hendur á sér? Er hægt að þröngva manni fram af kletti?
11.12.2018 | 10:35
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Snjó gæti leyst hratt fyrir norðan með hlýindakafla.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þegar snjór hverfur vegna hita í lofti og rigninga er stundum sagt að hann taki upp. Leysingar eru jafnan á vorin en geta vissulega orðið að vetrarlagi. Snjóa leysir í hlýindum, það er gömul saga og ný.
Í mörgum tilfellum getur hentað að nota orðið hlýindakafli. Annars dugar ágætlega að nota hlýindi.
Af þessu má ráða að það er ekki rangt að nota orðið hlýindakafli. Gott er þó að forðast nástöðu og nota fjölbreyttara orðfæri. Í stuttri frétt kallast það nástaða þegar orð eins og hlýindakafli er notað oftar en einu sinni.
En er rétt að segja með hlýindakafla? Sjálfur hefði ég sagt í hlýindum. Athugið að stundum er ekki til neitt eitt sem er rétt, þá veltur allt á stíl. Stílleysa í fréttum er sorlega algeng.
Í fréttinni segir:
Hlýna á í veðri strax annað kvöld og á hlýindakaflinn að vara fram á miðvikudag.
Þetta er klúðurslega orðuð málsgrein. Miklu betra að segja að hlýtt verði fram á miðvikudag.
Athugið að hlýindi er fleirtöluorð og tæknilega útlokað að misnotað það sem eintöluorð.
Tillaga: Snjóa gæti tekið upp í hlýindum fyrir norðan.
2.
Hægt að auka öryggi sjúklinga með því að heilbrigðisstarfsfólk hreinsi hendurnar á sér rétt og vel.
Fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins 10.12.2018.
Athugasemd: Ertu búinn að þvo þér um hendurnar? spurðu pabbi og mamma þegar ég settist við matarborðið í æsku minni. Þetta skipti máli, fyrir barnið og aðra. Aldrei var ég þó spurður hvort ég hefði þvegið mér um hendurnar á mér. Held að það sé raunar aldrei gert.
Vissulega er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hreinsi hendur sínar, ekki nægir í dag að þvo þær. Í þessu fylgir að fólkið hreinsi rétt og vel, varla þarf að taka það fram að kattarþvottur dugar ekki.
Fólk þvær sér, hreinsar líkama sinn. Í sundlauginni er þess krafist að gestir þvo sér og sérstaklega er bent á handarkrika og milli fóta.
Tillaga: Auka má öryggi sjúklinga hreinsi heilbrigðisstarfsfólk hendurnar sínar.
3.
Amber áfram fast í Hornafjarðarhöfn.
Fyrirsögn á bls. 8 í Morgunblaðinu 10.12.2018.
Athugasemd: Nokkur munur er á atviksorðunum áfram og enn. Máltilfinningin segir að merking fyrirsagnarinnar með ao. áfram sé miðuð til framtíðar. Sé orðið enn notuð virðist merkingin vera sú að skipið sé á strandstað en það kunni að breytast fljótlega.
Um þetta má að sjálfsögðu deila. Máltilfinning fólks er eflaust mismunandi. Sumir hafa enga tilfinningu fyrir málinu en skrifa þó. Það er aðdáunarvert.
Ég hefði haft fyrirsögnina eins og segir hér fyrir neðan.
Tillaga: Amber enn fast í Hornafjarðarhöfn.
4.
Há fjárhæð í boði fyrir upplýsingar um 30 ára hatursglæp þar sem manni var þröngvað fram af klettum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta er skrýtið orðalag. Ég hef reynt að ímynda mér hvernig einhverjum sé þröngvað fram af klettum. Fæ það ekki til að koma heim og saman. Þá leitaði ég að heimildinni, sjá hér. Þar stendur:
Almost 30 years to the day after a gay mathematician from the United States was forced off a Sydney cliff in a hate crime
Vissulega getur enska orðið to force þýtt að þröngva einhverjum til einhvers. Þýðingin getur þó verið ítarlegri en þetta. Makkanum mínum fylgir orðabók (e. dictionary) sem ég fletti iðulega upp í til að glöggva mig á enskum merkingum orða. Þar sendur meðal annars í samheitum með orðinu to force:
he was forced to pay: compel, coerce, make, constrain, oblige, impel, drive, pressurize, pressure, press, push, press-gang, bully, dragoon, bludgeon; informal put the screws on, lean on, twist someone's arm.
Enginn lætur þröngva sér fram af klettum, illmennið þarf að kasta manninum fyrir björgin. Með því að þröngva virðis að fórnarlambið hafi átt eins eða fleiri kosta völ. Eftir því sem næst verður komist var ekki svo. Manninum var hent, kastað eða ýtt Oft notum við orðasambandið að kasta fyrir björg.
Í tíu ára gamalli frétt á visir.is segir eftirfarandi:
Hæstiréttur Írans hefur staðfest að tveir dauðadæmdir menn skuli teknir af lífi með því að kasta þeim fyrir björg. Þeir voru dæmdir fyrir að nauðga öðrum karlmönnum.
Ég er nokkuð viss um að þeir aumingjans menn sem dæmdir voru hafi ekki verið þröngvað fram af bjargbrúninni. Svo ber þess að geta að sá sem skrifaði þessa frétt var enginn viðvaningur. Hann hét Óli Tynes (1944-2011) og var einn af bestu blaðamönnum landsins. Í dag eru fáir jafningjar hans.
Tillaga: Há fjárhæð í boði fyrir upplýsingar um 30 ára hatursglæp er manni var kastað fram af klettum.
5.
Snjóstormur.
Orð í kvöldfréttum Stöðvar2 10.12.2012.
Athugasemd: Ekki er rétt að tala um snjóstorm, orðið er ekki íslensk málvenja þótt það sé rétt myndað. Þegar erlendir fréttamiðlar tala um enska orðið snowstorm freistast íslenskir blaðamenn í þýðingum sínum til að skrifa snjóstormur. Sumir vita hreinlega ekki að hægt er að nota orð eins og snjókoma, kafald, bylur eða hríð.
Á útlenskunni sem allir þykjast kunna er talað um rainstorm, hailstorm, windstorm og snowstorm. Svo einhæf er amrískan.
Á íslensku úr fjölda orða að velja. Aðeins þeir sem þekkja íslenskt mál, hafa vanist lestri bóka frá barnæsku kunna skil á þessu enda þjást þeir manna síst af orðfátækt.
Lesendum til fróðleiks eru hér örfá orð um snjókomu, man ekki lengur hver heimildin er, gleymdi að skrifa hana hjá mér:
- áfreða
- bleytukafald
- bleytuslag
- blotahríð
- blotasnjó
- brota
- drift
- él
- fastalæsing
- fjúk
- fjúkburður
- fukt
- fýlingur
- hagl
- hjaldur
- hjarn
- hláka
- hundslappadrífa
- ísskel
- kafald
- kafaldi
- kafaldsbylur
- kafaldshjastur
- kafaldshríð
- kafaldsmyglingur
- kafsnjór
- kaskahríð
- klessing
- kóf
- krap
- logndrífa
- lognkafald
- mjöll
- moldbylur
- moldél
- neðanbylur
- nýsnævi
- ofanhríð
- ofankoma
- ryk
- skæðadrífa
- skafald
- skafbylur
- skafhríð
- skafkafald
- skafmold
- skafningur
- slydda
- slytting
- snær
- snjóbörlingur
- snjódrif
- snjódríf
- snjófok
- snjógangur
- snjóhraglandi
- snjór
- sviðringsbylur
Tillaga: Hægt að velja um eitt að hinum fimmtíu og átta orðum hér fyrir ofan í staðin fyrir snjóstormur.
Orðræða, tímapunktur og sitjandi ... eða standandi þingmaður
8.12.2018 | 22:54
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Mikil aukning á slysum vegna lyfjaaksturs.
Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 3. desember 2018.
Athugasemd: Varð aukning á slysum eða fjölgaði þeim? Stundum mætti halda að blaðamenn gerðu það að leik sínum að lengja mál sitt frekar en að stytta og einfalda.
Á íslensku leggjum við áherslu á sagnorð, ekki nafnorð.
Berum saman fyrirsögnina og tillöguna hér fyrir neðan. Rétt um hönd sem finnst fyrirsögnin betri?
Tillaga: Slysum fjölgar vegna lyfjaaksturs.
2.
Slík orðræða er í senn óverjandi og óafsakanleg
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Orðafátækt mun ábyggilega gera útaf við íslenskt mál ef ekki kæmu til aðrar að hraðvirkari aðferðir. Ofangreint tilvitnun er höfð eftir forsætisráðherra.
Orðræða er nokkurs konar samheiti yfir margvíslegt tal og jafnvel skrif. Á malid.is segir:
Orðræða er samfellt talað mál sem inniheldur margar setningar. Orðræða getur verið í samtal, viðtal, brandari, frásögn, ræða, predikun o.fl.
Orðræða er samfellt talað mál sem inniheldur fleiri en eina setningu, í texta eða tali.
Niðurstaðan er þá þessi: Í stað orðins orðræða getum við sagt tal, talsmáti, orðaval, umræða, frásögn og raunar allt sem á við talað mál og ritað.
Í þessari sömu frétt talar forseti Alþingis um orðbragð sem merkir orðaval eða orðafar en þetta eru falleg orð sem þarflegt er að nota. Orðbragð er gegnsætt og þarf ekki að merkja eitthvað slæmt nema það komi sérstaklega fram. Hins vegar þekkum við það einkum í samhenginu ljótt orðbragð. Til dæmis finnst mér orðbragð Þórarins Eldjárns oftast fallegt og vel saman sett. Ekki var orðbragðið á Klausturbar fallegt né til eftirbreytni.
Tillaga: Slíkt tal er í senn óverjandi og óafsakanlegt
3.
Snertimark er það kallað sem er afskaplega máttlaus þýðing. Væri ekki nær að nota orðið niðursetningur um gjörninginn?
Ljósvaki á bls. 50 í Morgunblaðinu 7.12.2018
Athugasemd: Hér er verið að agnúast út í málfar í fjölmiðlum en þó er vert að geta snilldarinnar, þá sjaldan hún sést. Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Mogganum skrifar í Ljósvakann og leggur fram orð til þýðingar í bandarískum fótbolta.
Orðið niðursetningur var haft um sveitaómaga, fátækt fólk, stundum fatlað, en einnig börn og gamalmenni, sem komið var fyrir á heimilum óskyldra. Þetta er samsett orð og merkir bókstaflega að setja niður. Ekki má rugla því saman við það þegar einhver hefur sett niður vegna einhvers, það er orðið sér til minnkunar.
Mér finnst fótboltinn þarna vestra nokkuð flókinn og hef ekki mikinn áhuga á honum. Hins vegar þekkja margir orðið touchdown sem hingað til hefur verið kallað snertimark á íslensku. Niðursetningur er snilldarorð en í það vantar þó markið þannig að ég geri varla ráð fyrir að það nái útbreiðslu, bandarískur fótbolti hefur hvort eð er ekki náð neinum vinsældum hér á landi.
Þrátt fyrir snilldina hefði málsgreinin sem hér er vitnað til mátt vera hnitmiðaðri. Snilldin er oft óþægilega takmörkuð.
Orri Páll segir í Ljósvakapistli sínum:
Annað sem mér finnst undarlegt í íþróttalýsingum í sjónvarpi er þegar leikmenn á EM kvenna í handbolta, sem nú stendur yfir, eru kallaðir Danir, Serbar og Þjóðverjar. Allt eru það karlkyns orð. Hvers vegna ekki Dönur, Serbur og Þjóðverjur? Er það ekki í takt við breytta tíma? Veit að vísu ekki alveg með Þjóðverjur; það hljómar meira eins og nafn á smokkum sem íslenska ríkið hefði einkaleyfi á.
Eftir að hafa lesið þetta hló ég upphátt.
Tillaga: Snertimark er afskaplega máttlaus þýðing. Væri ekki nær að nota orðið niðursetningur um fyrirbrigðið?
4.
Á einum tímapunkti lét Helga hann Kjartan vita af því að stuðningsmenn Bröndby vory byrjaðir að banka og væflast um í garðinum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað í ósköpunum kemur orðið tímapunktur málinu við? Ekkert. Þetta er eitt af þessum vita gagnslausu orðum sem einhverjir krakkar sem villst hafa í blaðamennsku finnst flott af því að það virðist svo útlenskt.
Jafnvel í ensku er orðið ofnotað, sjá vefsíðuna Grammarist en þar stendur:
The common phrase point in time could usually be shortened to just point or time. If neither of those words sounds right, there are other alternatives such as moment, second, and instant, which get across that we are talking about time.
Sama er með íslensku. Önnur orð eða umritun getur verið vænlegri kostur en að nota hið klisjukennda, ofnotaða orð.
Berum nú saman tilvitnaða textann og tillöguna hér fyrir neðan. Merkingin hefur ekkert breyst þó tímapunkturinn hafi verið fjarlægður.
Tillaga: Helga lét Kjartan vita af því þegar stuðningsmenn Bröndby voru byrjaðir að banka og væflast um í garðinum.
5.
Latifa lagði af stað á sjóskíðum frá Óman ásamt finnskri vinkonu sinni
Frétt/fréttaskýring á bls. 6 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8.12.2018
Athugasemd: Líklega hefði verið trúlegra orðalag að Latifa hefði lagt af stað frá Oman á gönguskíðum. Að vísu fellur aldrei snjór í ríkinu sem er við mynni Persaflóa og á landamæri að Saudi-Arabíu og Jemen en það er nú bara smáatriði (!).
Sjóskíði eiga það sameiginlegt með svigskíðum að þau eru ekki notuð til ferðalaga. Ekki er hægt að komast áfram á þeim nema vera dreginn eða fara niður brekku. Sem sagt, enginn ferðast á sjóskíðum nema bátur dragi ferðalanginn. Annars er fer hann hvorki lönd né strönd eins og sagt er.
Í þeim erlendu fréttamiðlum sem ég hef lesið til að skilja frétt Moggans eru sjóskíði ekki nefnd heldur að Latifa hafi farið á snekkju (e.yacht) frá Óman. Má vera að í einhverjum útlendum fréttamiðlum sé sagt frá ferðalagi á sjóskíðum.
Tillaga: Latifa fór frá Óman á snekkju ásamt finnskri vinkonu sinni.
6.
Aðeins einn sitjandi þingmaður telur að þingmennirnir ...
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað er sitjandi þingmaður? Er það þingmaður sem situr á þingfundi? Er það þingmaður sem situr yfirleitt? Þingmaður í bíl?
Á útlenskunni sem blaðamenn dá svo mikið segir af sitting president í Bandaríkjunum. Þá er átt við núverandi forseta. Og svo mikið kunna þeir í íslensku að þeir halda að þingmaður sem kjörinn er á Alþingi Íslendinga sé sitjandi þingmaður. Þetta er alrangt. Sá einn er þingmaður sem kosinn hefur verið þingmaður og svarið eið að stjórnarskrá. Aðrir geta ýmist verið fyrrverandi þingmenn eða ekki þingmenn.
Hér er gáta. Ef sitjandi þingmaður er núverandi þingmaður, hvað er þá standandi þingmaður? En liggjandi þingmaður?
Tillaga: Aðeins einn þingmaður telur að þingmennirnir ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar ofbeldið var barið úr Jónsa
7.12.2018 | 14:44
Þegar ég var í Ísaksskóla sparkaði strákur í stelpu og hún fór að grenja eins og allir á þessum aldri gera þegar þannig hendir. Þetta var sosum ekkert óalgengt, en þarna gerðist eitthvað nýtt. Sko, maður mátti henda snjóbolta í stelpur, stríða þeim dálítið en aldrei mátti meiða þær. Það þótti ljótt. Hins vegar var aldrei neitt sagt í þau fáu skipti sem stelpur meiddu stráka. Man til dæmis eftir því að hún Kiddí tuskaði Steina fyrir eitthvað ljótt og hann lét það sér að kenningu verða.
En það var þetta með strákinn sem sparkaði í stelpuna í Ísaksskóla. Mig minnir að hann hafi heitið Arinbjörn Egill en alltaf kallaður Jónsi því flestum þótti svo erfitt að bera bera fram fyrra nafnið, hvað þá að fallbeygja það. Allir gátu sagt Anna og fallbeygt rétt og þar að auki var hún voðalega sæt, eiginlega uppáhald allra.
Fáir sáu þegar Anna fékk sparkið en hún hrein svo hátt af sársauka að það fór ekki framhjá kennurunum sem sátu inni við huggulega kaffidrykkju. Tveir þeirra þustu út til að hugga Önnu. Jónsi gerð´etta, Jónsi gerð´etta, hrópuðu allir, bæði þeir fáu sem urðu vitni að verknaðinum og sem og allir hinir sem vildu hafa séð hann.
Ég gerð´etta ekki, ég gerð´etta ekki, vældi Jónsi.
Sá kennaranna sem ekki var að huga að báttinu á Önnu dró Jónsa gegn vilja sínum til skólastjórans, kannski að það hafi verið hann Ísak sjálfur, man það ekki. Þar var hann ábyggilega skrifaður upp í ljótu tossabókina og vafalaust rassskelltur, en eldri krakkarnir sögðu að það væri alvanalegt þegar þyrfti að siða þyrfti vonda krakka. Engu skipti þó Jónsi klagaði Önnu fyrir að hafa áður hrekkt sig og ekkert var hlustað þó hann segðist hafa séð svo ótalmarga aðra sparka í stelpur.
Jónsi kom grátbólginn í bekkinn sinn og var nú allt kyrrt um sinn. Ég gerð´etta ekki, sagði Jónsi áður en hann settist. Hún byrjaði, bætti hann svo við og benti á Önnu. Hún tók eplið mitt og henti því í moldina.
Nei, þú ert að ljúga, sagði Anna, og fór svo að gráta.
Þegar skóla lauk yfirgáfu allir krakkarnir skólalóðina en eftir sat Jónsi greyið í mölinni, var með blóðnasir og skólaus á hægri fæti. Hann grenjaði heil ósköp. Kennari kom honum til hjálpar. Þegar hann hafði grenjað nóg leitaði hann snöktandi að skónum sínum, fann hann og gekk svo heim.
Ég man ekki hvenær það var en nokkru síðar vorum við Pési, besti vinur minn, úti í frímínútum. Ertu búinn að sparka í hann Jónsa? spurði hann þá. Ég hváði, ha, nei, það hafði ég ekki gert. Hvað er´etta, þú veist aldrei neitt. Hefurðu ekkert fylgst með því sem hefur verið að gerast í skólanum. Ég var ekki alveg viss.
Sko, þú verður að sparka í Jónsa, allir gera það af því að hann sparkaði í Önnu. Hefði ég verið nokkrum árum eldri hefði ég sagt ókei en ég sagði bara staðinn allt í lagi.
Mundu, að ef þú sparkar ekki í Jónsa þá verður sparkað í þig. Viltu kannski að Atli hrekkjusvín eða Gunni litli sparki í þig? Neheeeiiii ... það vildi ég sko alls ekki og sætti því færis að sparka í Jónsa. Það reyndist hreint ekki svo auðvelt því það var rétt sem Pétur sagði, allur skólinn, strákar og stelpur, voru á eftir honum og allir reyndu að sparka í hann, ekki bara í legginn á honum heldur líka rassinn og magann. Finnbogi ferlegi náði víst að sparka í andlitið á honum og fékk mikið hól fyrir frækni sína en Jónsi fór auðvitað að grenja.
Stína læddist við það tækifæri aftan að Jónsa og togaði svo kröftuglega í hárið á honum að hann skall aftur fyrir sig og fékk gat á hausinn. Og þar sem hann lá flatur á jörðinni náðu fullt af krökkum að sparka í hann. Þá grenjaði Jón en sárar en áður. Nokkrir kennarar voru í glugganum á kennarastofunni en enginn kom út.
Grímsi sagði að Jónsi ætti ekki að grenja heldur sýna auðmýkt og viðurkenna að hann væri ofbeldismaður. Svo sparkaði hann í punginn á Jónsa en það hafði skiljanlega minni áhrif á sjö ára strák en hefði hann verið helmingi eldri.
Atli Sigursteins sagðist hafa sparkað þrisvar í Jónsa þar sem hann lá eftir að Stína skellti honum. Það þótti stelpunum flott hann var samstundis uppáhaldsstrákurinn meðal stelpnanna í bekknum. Það var mikil upphefð því áður hafði Atli bara verið hrekkjusvín.
Gunnar litli í sama bekk þorði ekki að nálgast Jónsa því hann var frekar stór, og lét nægja að kasta í hann grjóti og var eftir það aldrei kallaður annað en Gunni grjótkastari og loddi viðurnefnið við hann alla æfi. Um þrjátíu árum síðar dó hann blessaður á Litla-Hrauni þar sem hann var vistaður eins og sagt er, fyrir að hafa gengið heldur frjálslega í skrokk á manni í Grafarvogi vegna fíkniefnaskuldar sonarsonar hans.
Nú, Friðborg sæta sem þekkti hvorki Jónsa né Önnu náði samtals þremur spörkum í Jónsa sem þó var uppistandandi og fögnuðu vinkonur hennar óspart og hvöttu hana áfram í þessu þjóðþrifamáli.
Ég þoli ekki stráka sem beita ofbeldi, sagði svo Friðborg eftir þriðja sparkið, dálítið móð. Þú ert ógeðslegur, argaði hún þegar hún var komin í örugga fjarlægð, en hún var frekar spretthörð.
Jáhá ..., sagði vinkona hennar á innsoginu. Ég þoli ekki svona fíbbl.
Gvöð hvað hann Jónsi er mikill obbeldisstrákur, sagði önnur, sem hafði bara náð einu sparki og langaði sárlega í fleiri
Sko, það þarf að taka á svona ofbeldismönnum, sagði Stína við Friðborgu, sem var fyllilega sammála. Strákar sem beita obbbeldi eru svín og það þarf að berja þá oft og lengi í einu.
Nákvæmlega það sem ég var að hugsa, sagði Atli Sigursteins, sem þarna bættist í stækkandi hópinn. Sko, ég hef sparkað þrisvar í Jónsa og ég ætla að sparka í hann sjö sinnum í viðbót. Þá verð ég búinn að sparka níu sinnum í hann og það er skólamet sem verður aldrei slegið. Atli hafði aldrei verið góður í reikningi þó hann yrði síðar endurskoðandi hjá Landsbankanum sem fór auðvitað á hausinn.
Vaaaaááá ..., andvarpaði hópurinn í einróma aðdáun.
Ég fatta eitt, hrópaði Gunni grjótkastari. Það er ekki nóg að sparka níu sinnum í svona ofbeldismenn. Þeir verða að læra að ofbeldi borgar sig ekki. Sko, vitiði hvað ég ætla að gera ...? Gunni þagnaði og horfði á okkur krakkana sem höfðum safnast í kring um þau Atla og Stínu. Eftirvæntingin var hrikaleg. Greinilegt að nú ætlaði hann að toppa Atla eftirminnilega. Eftir nokkur augnablik í þrúgandi spennu æpti hann: Sko, ég ætla alltaf að snúa bakinu í Jónsa, hann getur horft á rassgatið á mér en ég ætla aldrei að horfa framan í svona pöddu og þegar ég mæti honum ætla ég að segja prump. Og hann bjó til rosalega flott prumphljóð með því að blása í lófan á sér.
Við fögnuðum eins og Gunni hefði skorað mark í fótboltalandsleik.
Bíddu, bíddu ..., hrópaði Atli. Þú veist nú ekkert hvað ég ætla að gera fyrir utan þessi átta spörk. Ég er sko með eina æðislega hugmynd. Og aftur horfðum við krakkarnir með eftirvæntingu á þessa stórkostlegu krossferðariddara sem voru í óða önn að skipuleggja byltingu götunnar gegn ofbeldi.
Ég ... ég, þaddna ..., ég ..., stamaði Atli, og það var rétt eins og hann hefði gleymt því sem hann ætlaði að segja. Svo kviknaði á perunni og hann ljómaði í framan: Sko, ég ætla aldrei að vera í sama herbergi og Jónsi og ef Jónsi ætlar að segja eitthvað ætla ég að segja langt búúúú og ganga út.
Við fögnuðum ákaft. Þetta var stórkostleg hugmynd.
Pési vinur minn fagnaði ekki því hann var alltaf snöggur að hugsa. Heyrðu Atli, þú ert í sama bekk og Jónsi, ætlarðu aldrei að fara í tíma með honum og ætlarðu alltaf að segja búúúúú og ganga út þegar Jónsi á að lesa upphátt? Ha ...? Hvað heldurðu að kennarinn segi?
Atli þagði og horfði ráðleysislega til skiptis á Pétur og Gunna. Sko, ég ...
Hvers konar asni ert þú, þarna Pétur sem ekkert getur? öskraði Gunni grjótkastari. Ertu kannski kominn í lið með ofbeldismönnum eins og Jónsa? Ertu hættur að vera friðarsinni og orðinn ófriðarsinni? Eða er kominn tími til að sparka einhverju viti í þig? Ha?
Þú þarna ... þarna ... hræsnari dauðans ætlar þú að halda áfram að kjafta þig lengra út í forað sem þú kemst ekki upp úr? æpti Sveinn Hans, og gekk ógnandi að Pétri, sem ósjálfrátt hörfaði undan.
Þú er haldinn meðvirkni og siðblindu, hrópaði Óli Thor, í öruggri fjarlægð úr krakkahópnum.
Þú ert mest mesta fífl í heimi og haldinn bullandi meðvirkni, sagði Jón Kristjánsson.
Pétur þagði, stundum hafði hann vit á því. Ég sagði auðvitað ekkert en færði mig samt svona til vonar og vara frá Pétri ef ske kynni að einhver ætlaði að lemja hann. Það var sko ekki þess virði að láta sparka í sig eða lemja fyrir það eitt að vera vinur Péturs sem ekki kann að ganga í takti við meirihlutann.
Af Jónsa það að segja að stuttu síðar hætti hann í skólanum. Sagt varð hann væri í Hvassaleitisskóla, þar var hann kallaður Addi. Þótti góður strákur, en hlédrægur og feiminn.
Í nokkra daga eftir að Jónsi hætti var ekkert fjör í frímínútum í Ísaksskóla. Stelpurnar byrjuðu að fara aftur í snú-snú og hoppa í parís. Strákar spörkuðu bolta. Svo kom í ljós að gluggi í kjallarageymslu í skólanum hafði brotnað. Einhver kenndi Gunna grjótkastara um en ekkert var hægt að sanna. Hann neitaði öllu, en glotti þó.
Mánuði síðar gerðist það að einhver stal peningum úr úlpunni hennar Gullu Antons. Böndin bárust furðu fljótt að Binni litla Guðmunds. Í næstu frímínútum leituðu Gunni grjótkastari og Atli Sigursteins Binna litla uppi. Þeir byrjuðu á að sparka í hann. Svo hrintu þeir honum í drullupoll og þá fagnaði allur skólinn nema ef til vill Pési vinur minn. Hann var og er friðarsinni nema á rjúpu- eða gæsaveiðum.
Svo kom í ljós að engum peningum hafði verið stolið, Anna hafði bara gleymt þeim heima. Þá var Binni kominn með blóðnasir og gekk haltur.
Skiptir engu máli, sagði Gunni grjótkastari. Hann hefði alveg getað hafa stolið þessum peningum, hann er svoleiðis týpa. Og þeir Atli héldu áfram að berja á Binna það sem eftir var vetrar. Þess vegna var hann alltaf eftir það kallaður Binni þjófur. Enn þann dag í dag veit enginn hver Binni er fyrr en viðurnefninu er bætt við.
Nöfnum allra í sögunni hefur verið breytt nema Péturs. Að öðru leyti er sagan sennileg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.12.2018 kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)