Þriðji orkupakkinn og vantraustið á ESB

Umhyggja sendiherrans fyrir neytendum á Íslandi er vissulega aðdáunarverð, en hann getur verið þess fullviss að Alþingi og önnur stjórnvöld á Íslandi eru fullfær um að tryggja hagsmuni neytenda og ef eitthvað vantar þar upp á geta íbúar landsins kosið sér nýtt Alþingi. Það er kallað lýðræði og virkar betur en sú aðferð að fela ókjörnum aðilum í útlöndum völdin.

Þetta skrifar Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og formaður Heimssýnar, í Morgunblað dagsins. Greinin er andsvar við grein sendiherra ESB á Íslandi. Haraldur skrifar listilega og lætur fylgja nokkur gullkorn sem eru ómetanleg, rétt eins og tilvitnunin hér fyrir ofan.

Umræðuefnið er þriðji orkupakkinn sem svo hefur verið nefndur. Sendiherrann telur lítinn vanda fyrir Íslendinga að samþykkja hann óbreyttan. Engu að síður leggjast margir gegn honum og var við stórveldinu sem setji lög og reglur og geti breytti forsendum síðar meir, jafnvel þessum títtnefnda orkupakka. 

Haraldur segir:

Sendiherrann fullyrðir að orkulöggjöf Evrópusambandsins muni vart gilda um sæstreng milli Íslands og Bretlands. Það kann að vera, en það er ekki augljóst, því enginn veit hvernig sambandi Breta og Evrópusambandsins verður háttað í orkumálum í framtíðinni.

Og í framhaldinu segir Haraldur:

Reyndar segir sendiherrann að enginn í Brussel velti fyrir sér sæstreng. Sjálfsagt eru margar vistarverur í höll Evrópusambandsins og skiljanlegt að sendiherrann hafi ekki heimsótt þær allar. Hann hefur greinilega ekki verið mættur þar sem sæstrengur til Íslands var dreginn á kort og ákveðið að hann væri forgangsverkefni í innviðaáætlun sambandsins. Það kort var teiknað og stimplað í Brussel, líklega daginn sem sendiherrann var fjarverandi.

Mörgum er mikið niðri fyrir um Evrópusambandið og þennan orkupakka. Eftir Icesave og hina misheppnuðu tilraun til að þvinga Íslandi inn í sambandið er ljóst að ekki margir treysta forystu þess, jafnvel þó málstaðurinn líti út fyrir að vera góður.

Í kosningunum 2013 hafnaði þjóðin flokkunum sem vildu að landið færi inn í ESB, þeir voru beinlínis rassskelltir. Kosningabaráttan var hörð og rökin gegn ESB er kjósendum enn í fersku minni.

Ólíklegt er því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi, fólk er einfaldlega á móti hinu yfirþjóðlega valdi og treystir ekki ESB því sambandið getur einhliða breytt leikreglunum. Hver yrði þá staða þjóðarinnar?

Má vera að fæstir sem tekið hafa afstöðu gegn þriðja orkupakkanum hafi ekki lesið hann né séu kunnugir efni hans. Í sjálfu sér er það ekki aðalatriðið því það sem öllu skiptir er að stór hluti þjóðarinnar treystir ekki ESB og kærir sig ekki um að sambandi skipti sér af innanríkismálum Íslands.

Þar af leiðandi hefði það alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir þann stjórnmálaflokk sem samþykkir þriðja orkupakkann, jafnvel þó einstaka þingmenn gangi gegn meirihluta þingflokks og samþykki þá kann það einnig hafa slæm áhrif á kjósendur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Við Íslendingar þurfum sjálfir að stýra okkar auðlindum, m.ö.o. við þurfum okkar eigin auðlindastýringu. Samþætting og samvinna vatnsaflsvirkjana (og reyndar einnig jarðvarmavirkjana) er grunnforsenda fyrir skynsamlegri nýtingu þessara orkuauðlinda okkar. Slíkt yrði hins vegar andstætt reglum ESB um frjálsa samkeppni á orkumarkaði. 3. orkupakki ESB gæti því rústað orkuöryggi landsins. Hvaða heilvita Íslendingi dettur því í hug að hleypa framkvæmdavaldi erlends ríkjasambands, Landsreglara ESB og ACER inn í stjórn orkuauðlinda landsins? 

Auðlindir Íslands eiga að vera í þjóðareign. 

Íslenska þjóðin á að ráða þeim og stjórna þeim sjálf.

Júlíus Valsson, 23.11.2018 kl. 09:58

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Lestu grein eftir Elías Elíasson á bls. 52 í Morgunblaði dagsins. Hún er ágæt. Í niðurlagi hennar segir Elías eftir að hafa rökstutt sitt mál alveg ágætlega:

Auðlind­ir Íslands eru und­an­skild­ar EES-samn­ing­un­um og ekki var litið svo á, að fyrsti orkupakk­inn eða sá ann­ar breyttu því. Uppskipt­ing fyr­ir­tækja og ákvæði um jafna stöðu þegna ESB-ríkja til stofn­un­ar og rekst­urs fyr­ir­tækja hér var ekki held­ur talið koma auðlind­inni við. En þegar orka auðlind­ar­inn­ar er sett und­ir stjórn lands­regl­ara sem er háður fram­kvæmda­valdi ESB, en óháður ís­lensk­um stjórn­völd­um þannig að þau hafa ekki leng­ur aðkomu að auðlinda­vinnsl­unni, þá er of langt gengið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.11.2018 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband