Er engin gæðastjórnun á íslenskum fjölmiðlum? Má allt?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Ein- og einsdæmi

Eindæmi þýðir bæði ábyrgð og ráðríki. Sá sem gerir e-ð upp á sitt eindæmi gerir það á eigin ábyrgð – og að eigin geðþótta. „Hann treystir engum, heldur gerir allt upp á sitt eindæmi.“ 

En einsdæmi, með s-i, þýðir einstæður atburður. Þessu skyldi ekki rugla saman – þótt ótal dæmi séu um það í ritmáli!

Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 6.11.2018.

 

1.

Greind­ist bil­un í fjór­um síðustu ferðum.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Þegar sagnorð er fremst í setningu er oft verið að spyrja einhvers. Í fyrirsögninni hér að ofan vantar spurningamerkið svo áhöld eru um það hvort hún sé spurning eða fullyrðing. Hér er hallast að hinu síðarnefnda.

Afar auðvelt er að breyta fyrirsögninni vegna þess að upphaf fréttarinnar  er rétt orðuð, þar segir:

Bil­un greind­ist í hraða- og hæðarmæli í fjór­um síðustu ferðum farþegaþotu indó­nes­íska flug­fé­lags­ins Lion Air, sem hrapaði úti fyr­ir strönd Jövu í síðustu viku. 

Ekki er einleikið ef sami blaðamaðurinn og samdi textann skuli klúðra fyrirsögninni. Enn skrýtnara er að sá sem samdi fyrirsögnina skuli ekki gera sér grein fyrir orðaröðinni.

Tillaga: Bilun greind­ist í fjór­um síðustu ferðum. 

2.

Sex kosningabaráttur til að fylgjast með.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Barátta er eintöluorð og ekki til í fleirtölu, sjá hér. Þetta læra flestir sem alist hafa upp við að lesa bækur. Aðrir eiga erfiðara með að skilja þetta enda er orðaforði þeirra og skilningur á íslensku máli yfirleitt frekar lítill.

Mér er til efs að lélegri texti hafi verið skrifaður á vefmiðlinum Vísi og er þó úr mörgu slæmu að velja. Blaðamaðurinn virðist hafa afar lítinn skilning á íslensku máli. Hann þýðir beint og gagnrýnislaust úr ensku, virðist engan skilning hafa á íslensku máli.

Fréttin er stórskemmd. Sem matvæli væri hún hættuleg neytendum og búið að loka verksmiðjunni.

Hér eru dæmi sem eru gagnrýniverð, annað hvort fyrir málfar, stafsetningu eða beinlínis framsetningu. Taka skal fram að margt fleira er aðfinnsluvert:

  1. Bandaríkjamenn kjósa í 435 þingsæti …
  2. Flest sætin þykja örugg fyrir stóru flokkana tvo …
  3. … bláa bylgju sem mun ríða yfir Bandaríkin með tilheyrandi sigrum …
  4. Mest spennandi barátturnar …
  5. Repúblíkanar eru að spila varnarleik gegn blárri bylgju …
  6. … að fylgjast með mest spennandi kosningabaráttunum.
  7. … með þessum sex kosningabaráttum.
  8. … viðureign Beto O'Rourke gegn sitjandi öldungadeildarþingmanninum Ted Cruz.
  9. … að gera Texas „fjólublátt“ fylki sem sveiflast á milli stóru flokkanna tveggja.
  10. Baráttan þykir með þeim meira spennandi
  11. John McCain heitinn var öldungadeildarþingmaður ríkisins
  12. Demókratar náð sínum fyrsta Öldungadeildarþingmanni …
  13. ... og birt myndir af Sinema í bleiku tútúpilsi á mótmælum …
  14. … að vera fyrsta svarta konan í framboði fyrir annan tveggja stóru flokkanna …
  15. Ríkið hefur gjarnan hallast að Repúblíkönum …
  16. … að Georgíubúar vantreysti Trump í dag fremur en treysti
  17. … mæti í nægilega miklu mæli á kjörstað …
  18. … þar sem þeir hafi ekki fullnægjandi persónuskilríki …
  19. Hvergi eru jafn ólíkir frambjóðendur sem gefa kost á sér.
  20. … þykir með vinstri sinnaðri frambjóðendum í ár og sigraði miðjusæknari Demókrata …
  21. … en Flórída er þekkt fyrir að vera óútreiknanlegt fylki
  22. Repúblíkaninn Andy Barr hefur þjónað sem þingmaður …
  23. … og kaus til dæmis með skattalækkunum flokksins …
  24. Síðast vann hann kjördæmið með öruggu forskoti
  25. nartar í hæla Repúblikanans samkvæmt könnunum. 
  26. Þetta er eitt lykilkjördæma sem Demókratar herja á
  27. Þjónusta frambjóðanda í Bandaríkjaher …
  28. … hvort Demókratar geti náð til vinnandi stétta í riðbeltunum svokölluðu.
  29. Carol Miller, frambjóðandi Repúblikana, þjónar á ríkisþingi Vestur-Virginíu …
  30. Fylkið hallast að Repúblíkönum …
  31. … Richard Ojeda sem þjónar einnig á ríkisþinginu …
  32. … hefur vakið mikla athygli fyrir alþýðlega nálgun sína
  33. Hann þjónaði í hernum …
  34. … þegar hann studdi við launahækkanir kennara í kennaraverkfalli …
  35. … virðast kjósendur tilbúnir að kjósa bæði til vinstri og hægri eftir því hver lofar fleiri störfum

Kosið er á milli flokka um „sæti“ á þingi, aldrei er kosið „í sæti“, nær réttu væri að kjósa um sæti, (sjá lið nr. 1) Almennt er þingsæti ekki stóll í eiginlegri merkingu heldur er karl eða kona fulltrúi á þingi hvort sem hann situr eða stendur (2). 

Mikill munur er að kjósa og greiða atkvæði. Þetta skilur blaðamaðurinn ekki og segir að þingmaður hafi á þingi kosið með skattalækkunum (23).

Blaðamaðurinn veit ekki hvort hann eigi að tala um ríki eða fylki í Bandaríkjunum. Á íslensku er almennt talað um ríki (sjá 9, 11, 30). Engu að síður er talar hann um ríkisþing.

Furðulegt er að lesa um fólk sem þjónar á þingi og þjónar í hernum. Á ensku er sögnin to serve notuð um þetta en á íslensku er þetta ekki orðað þannig. Þannig er ekki tekið til orða ekki frekar en að blaðamaður þjóni á Vísi (sjá 27, 29, 31, 33). Að vísu þjóna prestar í kirkjum, en það er annað mál.

Þessi grein fær einfaldlega falleinkunn. Blaðamaðurinn verður að hugsa sinn gang sem og ritstjórn vefsins.

Tillaga: Sex athyglisverðar kosningar á kjördegi.

3.

Ryan var ekki val­mögu­leiki á kjör­seðil­in­um í 1. kjör­dæm­i Wiscons­in-rík­is, í fyrsta sinn síðan 1998.“ 

Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Yfirleitt er reglan sú að sé nafn manns ekki á kjörseðli er hann ekki í framboði. Veit blaðamaðurinn þetta? 

Til verða óþarfa málalengingar hjá blaðamanninum sem skýra ekki neitt, miklu frekar að þær flæki málið. Líklegast af öllu er hann að þýða frásögn úr bandarískum fjölmiðli og kann ekki betur til verka.

Hvað þýðir til dæmis eftirfarandi:

Demó­krat­ar geta nú komið í veg fyr­ir laga­setn­ing­ar re­públi­kana, svo sem lækk­un skatta til þess að reisa múr á landa­mær­um Mexí­kó. 

Mikilvægt er að ritstjórnin láti einhvern lesa yfir fréttir og lagfæra orðalag og stíl. Það virðist ekki vera gert á íslenskum fjölmiðlum og þar af leiðandi er neytendum sýndar skemmdar fréttir.

Tillaga: Í fyrsta sinn frá því 1998 var Ryan ekki í framboði í 1. kjördæmi í Wisconsin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband