Maður með annmörkum, hún stígur til hliðar og sigra kapphlaup

Orðlof

Eftir einhverja daga

Óákveðna fornafnið einhver stendur oft með nafnorði og merkir þá ’ótiltekinn’, t.d. þegar sagt er „Það kom einhver maður og sótti böggulinn“. 

Nú eru sumir farnir að nota þetta orð á nýstárlegan hátt og segja t.d.

„Ég kem eftir einhverja fimm daga“

eða

„Launin hækkuðu um einhver þrjú prósent“.

Í dæmum af þessu tagi merkir einhver því ’um það bil, hér um bil’. 

Enn virðist þessi notkun einskorðast við talmál og fornafnið kemur undarlega fyrir sjónir í þessu samhengi. Mætti láta sér detta í hug að þarna gætti áhrifa frá ensku því þar getur fornafnið some ’einhver’ staðið í svipuðu umhverfi. 

[Þess ber hér að geta að orðið er fyrir löngu komið inn í ritmál, sérstaklega í fjölmiðlum. SS.]

Málfar. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

burður k. ’það að bera; byrði; fæðing; fóstur, afkvæmi; ætterni,…’; sbr. fær. burður, nno. bur(d), . börd, d. byrd, fe. gebyrd, fhþ. giburt, ne. birth, nhþ. geburt, gotn. gabaurþs ’fæðing, ætterni’. Sbr. fi. *bhrÌ¥tí- ’það að bera’, fír. breth, brith ’burður, fæðing’. Sk. byrði (1) og so. bera; burður ’fæðing, afkvæmi, ætterni’ af bera ’fæða, ala afkvæmi’ < *ga-beran.

Íslensk orðsifjabók.                                 

Athugasemd: Þetta er nú meiri grauturinn og varla fyrir aðra en innvígða að skilja. Við hin hrökklumst á brott. Má vera að þeir sem eru þráir og með einhvern bakgrunn gætu lagt í að lesa og jafnvel skilja.

Málfræðilegar skýringar hafa lengst af verið skrifaðar með fjölda skammstafana. Á tölvuöld eru þær jafnslæmar ef ekki verri en slettur sem margir bregða fyrir sig í ræðu og riti á íslensku sér til upphafningar. 

Fyrir tölvuöld voru skammstafanir mikið notaðar í prentuðu máli; þær spöruðu pláss, auðveldara var að jafna línur til hægri. Nú á tímum þurfum við ekki að spara pláss, nóg er af því.

Vissulega eru skammstafanir ekki alltaf slæmar. Nefna má fjölmargar sem komin er hefð á. Til dæmis hf. (hlutafélag), ehf (einkahlutafélag), kl. (klukkan), kr. (króna) og álíka.

En öllu má nú ofgera. Eftirfarandi gátu geta lesendur reynt að leysa sér til gamans í faraldrinum.

Umr. í stj. vkf. Framsóknar var þssá.p. í ritstj. tímarits rslm. njósnaði um vmf. í Rvk. og á Vl. Þetta voru nk. persónuofsóknir, möo. ólýðræðislegar aðgerðir sem hrl. staðfesti og sagðist kavs. eftir að keypt hljv. fh. annars. Var þetta fskj. sönnun. Vkf. samþ. að efoar. að kæra hrl. fyrir aths. í nmgr. á fksj. fyrn. hrl. sem hrópaði líkt og Hos. gsl. að þetta var ekki kgsúrsk. með ls. heldur 

Hægt er að ráða í bullið með því að nýta sér skammstöfunarlykla hér. Athygli vekur þó að þetta er lítt læsilegra en textinn sem vitnað er í.

Samkvæmt orðabókinni merkir íðorð orð sem tilheyrir ákveðnu sérsviði, fræðiorð, fagorð. Mikið og vel hefur verið unnið að íðorðum og söfn þeirra eru orðin mikil að vöxtum. Skyldi vera kominn tími til að málfræðingar tækju sig til að byggðu sitt eigið íðorðasafn svo við hin getum skilið þá?

Ég bið lesendur afsökunar á því að hafa enga tillögu fram að færa sem sé skárri en tilvitnunin. Vissulega reyndi ég mig við þýðinguna en gafst upp.

TillagaEngin tillaga.

2.

Þar er Corbyn sakaður um „alvarlega annmarka“ í leiðtogastóli og …

Fréttaskýring á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 30.10.20.                                 

Athugasemd: Hvað er annmarki? Í orðabókinni er sagt að orðið merki fyrirstaða, galli. Í lögfræði er annmarki sagður galli á málatilbúnaði og getur hann verið þess eðlis að dómari vísi því frá eða að minnsta kosti þeim hluta rökfærslunnar. 

Næst er sjálfsagt að spyrja hvort maður getur verið haldinn annmörkum. Dæmi eru um að  fötlun sé sögð annmarki, einnig andleg veikindi og annað sem tengist heilsufari. Draga má þó stórlega í efa að það sé rétt notkun á orðinu.

Í Mogganum er talað um annmarka Corbyns. Ekki er ljóst hvaða orð höfundurinn er að reyna að segja, hugsanlega er hann að þýða ensku orðin „flaw“ eða „fault“.

Betra hefði verið að tala um dómgreindarbrest eða annað sem bendir til að maðurinn hafi ekki staðið sig sem skyldi.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Elísa­bet Eng­lands­drottn­ing mun stíga til hliðar inn­an sex mánaða og

Frétt á mbl.is.                                 

Athugasemd: Blaðamaðurinn áttar sig ekki alveg á því hvað Englandsdrottning muni gera. Hann segir réttilega í megintexta að hún muni afsala sér krúnunni. Það fer ekki saman við það að  „stíga til hliðar“. Hvað hún á að gera þarna til hliðar er ekki ljóst.

Á vef Express segir í fyrirsögn:

Queen abdication: Monarch ’to STEP DOWN’ next year …

Enska orðið „abdiction“ er þarna konungleg afsögn. Express segir að konan muni „step down“ sem þýðir að hætta. Blaðamaður Moggans þýðir „step down“ með „stíga til hliðar“. Þetta er eins og dans. 

Börn í barnaskóla læra og syngja þessa vísu:

Tvö skref til hægri
og tvö skref til vinstri.
Beygja arma, rétta arma,
klappi, klappi, klapp.

Þarna stíga börnin tvö skref til beggja hliða og enda á sama stað. Vera má að konan í hásætinu stígi niður og svo aftur upp og klappi síðan höndum. Hver veit? Ekki ég. Og varla blaðamaðurinn.

Tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu að sá sem stígi niður, til dæmis úr tröppu, stígi jafnframt til hliðar, það er við tröppuna.

En þetta skiptir engu máli. Blaðmaðurinn hefði bara getað sagt að drottningin muni hætta. Allir skila hvað þá átt er við.

Tillaga: Elísa­bet Eng­lands­drottn­ing mun hætta inn­an sex mánaða og

4.

„Að sama skapi á Biden 90 prósent séns á að verða forseti.“

Frétt á ruv.is.                                  

Athugasemd: Gaman er að sletta ensku. Hef þá trú að allir haldi þá að ég sé afar vitur og klár, vel að mér í ensku. Guð hjálpi mér ef allir vissu hið sanna um gáfur mínar. 

„Séns“ er afskaplega góð og falleg sletta. Á ensku er orðið skrifa „chance“. Miklu betra en íslensku orðskrípin líkur, möguleiki, kostur, horfur og álíka. 

Slettustefna Ríkisútvarpsins er ábyggilega með vitund og vilja málfarsráðgjafa þess. Aðrir fjölmiðlar njóta ekki samskonar ráðgjafar sem þó veitti ekki af enda er þar slett og sullað gjörsamlega stefnulaust. Slíkt er ógæfusamlegt og lítt til farsældar fallið.

Tillaga: Að sama skapi eru níutíu prósent horfur á að Biden verði forseti.

5.

„Enn er óljóst hver sigrar kapphlaupið að Hvíta húsinu …“

Frétt á visir.is.                                 

Athugasemd: Enginn sigrar kapphlaup. Aftur á móti geta allir reynt að sigra í kapphlaupi. Á þessu er grundvallarmunur. 

Hlauparinn Hlynur Andrésson hljóp í mars síðastliðnum tíu km á 29:49 mínútum og er það Íslandsmet. Margir vilja sigra Hlyn og jafnvel bæta Íslandsmetið. Engum er þó mögulegt að sigra 10 km hlaupið vegna þess að hlaupið tekur ekki þátt.

Mér finnast klisjur í fréttum ansi leiðinlegar og sjaldnast gera þær fréttirnar auðskiljanlegri. Blaðamaðurinn fer ekki einu sinni rétt með klisjuna. Ætti að vera kapphlaupið um Hvíta húsið vegna þess að þetta er sagt í óeiginlegri merkingu. Betra hefði verið að tala einfalt mál og segja:

Úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eru enn óljós 

Allir skilja einfalt mál.

Tillaga: Enn er óljóst hver sigrar í kapphlaupinu um Hvíta húsinu …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband