Jarðskjálftarnir sem ekki hafa orðið austan Kleifarvatns

Skjálftar 21.1.20Jarðskjálftar eru vissulega áhugaverðir en ekki síður fyrirbrigðið „engir jarðskjálftar“. Á því síðarnefnda hef ég áhuga á um þessar mundir.

Sko, ég á við svæðið austan við Kleifarvatn, í Brennisteinsfjöllum, Bláfjöllum og sunnan þeirra. Það veldur mér áhyggjum.

Rétt eftir áramótin skall á mikil jarðskjálftahrina í og við Grindavík á Reykjanesi.

Hérna eru nokkur kort af Reykjanesi til skýringar á vangaveltum mínum. Efsta kortið er sýnir skjálfta þann 21. janúar 2020. Allt með ró og spekt. Engan grunaði neitt misjafnt, ekki frekar en þetta með kórónavírusinn sem stöku gáfumenn voru að velta fyrir sér um þetta leyti.

Skjálftar 22.1.20Næsta kort sýnir skjálfta daginn eftir, 22. janúar. Þá verður eiginlega fjandinn laus, dýrið sloppið, þó svo að enginn hafi gert ráð fyrir því hvað myndi gerast næstu mánuði.

Þetta virtust frekar saklausir skjálftar austan við Þorbjarnarfell (fjallið er ekki eldfjall). Þar sem skjálftarnir byrjuðu heitir Hagafell og norður frá því er eldsprunga sem gaus fyrir um 2000 árum. Þá rann svokallað Sundahnúkshraun sem Grindavík stendur á, að hluta að minnsta kosti.

Enginn vissi hvers vegna skjálftarnir byrjuðu og enn síður hvers vegna þeir urðu að rosalegri hrinu. Síðar kom í ljós að ástæðan var „lítilsháttar“ landlyfting vestan við Þorbjarnarfell vegna kvikuinnskots á miklu dýpi, að minnsta kosti tvær lyftingar ef ekki fleiri. Landlyftingar ekki andlitslyftingar. Lesa rétt.

Screenshot 2020-07-29 at 15.45.20Nú, nú, eins og kallinn sagði. Frá og með þessum degi varð allt varð vitlaust. Þar til nú hafa mælst á Reykjanesi hvorki meira né minna en 13.244 skjálftar.

Þar af sextíu og sjö sem eru yfir þrjú stig og af þeim fimm yfir fjögur stig.

Þetta er rosalegt. Ósköpin sjást á þriðja kortinu.

Fjórða kortið sýnir fjölda skjálfta í dag, 29. júlí. Allt fallið í ljúfa löð ... í bili. Það héldu nú líka flestir með kórónavírusinn.

En víkjum nú aðeins að skjálftunum sem ekki hafa orðið enda eru þeir efni pistilsins.

Skjálfta 29.7.20Þekking mín í jarðfræði, og ég er ekki að grínast, er fátækleg. Ég veit þó það að Reykjanes er mikið sprungið.

Landskorpan þar eins og víða annars staðar á landinu brotnar, sprungur myndast og land færist til. Við það myndast spenna, rétt eins og þegar strekkt er á teygju. Þetta eru kölluð misgengi eða jarðskjálftamisgengi.

Talað er um siggengi þegar annar barmur sprungu sígur en hinn situr eftir á sama stað.

Samgengi verður til þegar sprunga myndast og annar flöturinn gengur yfir hinn.

Sniðgengi verður til þegar sprunga myndast og barmar hennar nuddast saman, þá verður ýmist til vinstra eða hægra misgengi eftir því hvor barmurinn hreyfist. Stærstu skjálftarnir verða hér á landi við sniðgengi.

Allt eru þetta voða fín og fagleg orð en því miður er enginn annar tilgangur fyrir þeim hér í pistlinum annar en sá gera höfundinn örlítið gáfulegri, að minnsta kosti í augum þeirra örfáu sem vita minna en hann.

Sprungurnar á Reykjanesi eru að mestu leiti í norður-suðurstefnu. Spennan veldur því að allt leitar í óreiðu. Við þetta má bæta að þegar land lyftist vegna kvikuinnskots brestur landsvæðið, þó ekki nákvæmlega þar sem landið lyftist heldur jafnvel fjarri því. Vestan Þorbjarnarfells lyftist landið og afleiðingarnar urðu skjálftar talsvert fyrir austan fjallið, við Hagafell eins og ég nefndi.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, líkti þessu við bækur í bókahillu. Þegar ein bókin skellist til hliðar eiga hinar það til að skellast í sömu átt, hver á eftir annarri. Þannig eru skjálftarnir á Reykjanesi og víðar. Þeir koma í röðum, til frá vestri til austurs eða öfugt.

Aðalatriðið hlýtur þó að vera spennan sem myndast við jarðskjálfta og sérstaklega þegar hrinur verða eins og á þessu ári. Og skjálftar dreifast. Hvernig stendur þá á því að skjálftarnir eru bundnir við landið vestan Kleifarvatns en sáralítið austan þess? Þar hafa vægir skjálftar dreifst „óskipulega“ út út um allar jarðir eins og sést á þriðja kortinu. Kleifarvatn er enginn skjálftadempari.

Sitt hvorum megin við Geitafell sunnan Bláfjalla er mikill sprungusveimur og þar hafa orðið skarpir jarðskjálftar í gengum tíðina. Jarðvísindamenn hafa hingað til álitið að þar geti orðið stórir skjálftar sem geti jafnvel valdið skaða á húfuborgarsvæðinu.

Ungum var mér sagt að hugsa ekki of mikið, sérstakleg um það sem ég veit ekkert um og það var og er margt. En ég get ekki að því gert að brjóta heilann um jarðskjálftana (og kórónuveiruna, og ástandið fyrir Miðjarðarhafsbotni, og Trump, og ESB og annað sem plagar mannkynið) sem ekki hafa orðið austan Kleifarvatns, í Brennisteinsfjöllum, Bláfjöllum og sunnan þeirra.

Ég er dálítið smeykur af því að þá vantar. Svo finnst mér alveg ferlega skrýtið hvernig skjálftahrinan og kóvítið „ganga eiginlega saman hönd í hönd“. En það er nú allt annað mál. Vera má að annar pistill fylgi þessum fái hann ekki vonda dóma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband