Minnsti rasistinn, barn nr. 2 og þéttriðin klíka

Orðlof

Ástríða

Ástríða er í hugum margra tengd ástinni enda er þetta tvennt oft nefnt í sömu andránni. 

Sjálf orðin, ást og ástríða, eru þó af ólíkum toga. 

Ástríða er samsett úr forsetningunni á og sögninni stríða en nafnorðið ást kemur þar hvergi nærri. 

Ástríða er sem sagt það sem stríðir á huga manns og hann kemst ekki undan – það er svo önnur saga að þetta á gjarnan við um ástina.

Málsgreinar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Á tímabili varð greinileg sprengja þar sem virtist eins og allir og amma þeirra væru að keppast við að verða áhrifavaldar.“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 19.10.20.                                 

Athugasemd: Hér er skemmtilega að orði komist og frekar óvænt. Ekki nóg með að allir vilji verða „áhrifavaldar“ heldur bætist amman í hópinn sem getur eiginlega tvöfaldað hann. Þá eru þeir orðnir margir.

Þá víkur sögunni að orðinu „áhrifavaldur“. Nær eingöngu á það nú við um fólk sem hvetur annað til ákveðinna lífshátta, til dæmis með kaupum á tiltekinni vörur.

Í ensku orðabókinni Lexico segir:

Influencer: A person with the ability to influence potential buyers of a product or service by promoting or recommending the items on social media.

Ég hef það á tilfinningunni að enska orðið „influencer“ sé ekki eins tilkomumikið og „áhrifavaldur“

Friðrik Agni segir í grein á visir.is: 

En ég er farinn að fá smá nóg af þessu hugtaki „áhrifavaldur“ og notkun þess hér heima og kannski almennt. Því yfirleitt ef það er frétt um einhvern áhrifavald þá er það einhver á Instagram sem allavega ég veit ekkert hver er eða hvar hún/hann er þekktur fyrir. […] 

Oftast þegar ég skoða áhrifavaldinn nánar þá eru það partýmyndir, hálfnektarmyndir, lúxusferðalög o.fl. o.fl. Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þessi manneskja er að hafa raunverulega og hvern er hún að hafa áhrif á? Er hún að stuðla að aukinni neysluhyggju (og er það gott?) eða einhverskonar hugmynd um kynlíf/kynóra? Ég hreinlega veit það ekki.

Nokkuð góð skrif.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Smit­sjúk­dóma­læknir setur spurningar­merki við að hundruð barna fari í sótt­kví ef eitt barn greinist.“

Fyrirsögn á visir.is.                                  

Athugasemd: Orðalagið „að setja spurningarmerki við eitthvað“ er orðið mjög útbreitt og er ekki átt við að setja táknið á eftir spurningu. Mér finnst þetta ósköp flatt í ritmáli vegna þess að hægt er að orða þetta á svo fjölbreytilegan máta ef þekkingu skortir ekki.

Hér eru nokkur dæmi um notkunina sem fundust við leit á Google. Þess skal getið að rita skal spurningarmerki, það er með ’r’ í enda fyrri hluta orðsins:

  1. Setja spurningamerki við ríkisábyrgðina til Icelandair
  2. Setja spurningamerki við játningar dæmds morðingja
  3. Setja spurningamerki við Boeng flugflotaann
  4. Ástæða til að setja spurningamerki við öra fjölgun hótelrýma
  5. Ekki setja spurningamerki við kyntjáningu barnssins
  6. Að setja setja spurningamerki um heiðarleika hans á þessu augnabliki

Þarna er betra og skýrara að segja vekja athygli á, draga í efa, benda á og svo framvegis. 

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Hátt í 140 jarðskjálftar yfir 2 að stærð hafa mælst á Reykjanesskaga frá því að jarðskjálfti upp á 5,6 varð þar rétt fyrir klukkan tvö í gær.“

Fyrirsögn á ruv.is.                                  

Athugasemd: Fjölmiðlafólk tiplar á tánum og forðast að segja að skjálfti hafi verið tveggja stiga, tvö stig og svo framvegis. Í staðinn kemur útjaskaða orðalagið „2 að stærð“ og „upp á 5,6“.

Jarðskjálftar mælast í kvörðum. Óhætt er að tala um stig. Jarðskjálftinn sem varð á Vesturhálsi á Reykjanesi 20. september 2020 var 5,6 stig. Ekki er rangt að segja að hann hafi verið 5,6 að stærð þó hitt sé óneitanlega betra.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Ég er minnsti ras­ist­inn í þessu herbergi.“

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: Fréttin fjallar um rökræður Trumps og Bieden vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum og er vitnað í orð hins fyrrnefnda. Bókstaflega er verið að leggja honum þau orð í munn að hann sé lágvaxnasti rasistinn þarna.

Lýsingarorðið lítill stigbeygist svona: Lítill, minni, minnstur. Sá sem er minnstur er lægstur í loftinu. 

En hvað sagði forsetinn? Á vef Global News er getið um hvað forsetinn sagði á ensku:

Instead, claimed he was “the least racist person in this room.”

Greinilegt er að hann sagðist ekki vera minnstur, þá hefði hann sagst vera „smallest racist person“. 

Hvað merkir enska orðið „least“. Orðið er líka lýsingarorð („adjective“ á ensku) og er eins á íslensku efsta stigið af lítill, „little“ („little, less, least“).

Engu að síður getum við ekki sagt að Trump sé „minnsti rasistinn“. Hann á við allt annað. Miklu frekar, eins og sagt er á ensku: „not in the smallest degree“ eða „not at all“. Það er ’alls ekki’.

„Room“ á ensku getur á  íslensku þýtt herbergi, til dæmis svefnherbergi eða aðrar vistarverur í íbúð, jafnvel salur. Ég horfði á rökræður forsetaframbjóðendanna og þeir voru ekki í herbergi heldur í stórum sal.

Tillaga: Ég er síst af öllu rasistinn í þessu sal.

5.

„Rakel og Auðunn Blön­dal eiga von á barni nr. 2.“

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: Þetta er einfaldlega bjálfaleg setning. Enginn talar svona. Fólk kaupir sér annan kexpakka en ekki „kexpakka nr. 2“. Sum heimili eiga tvo bíla, ekki „bíl númer 1 og 2“. 

Í hausnum á flestum eru tvö heilahvel. Sumir blaðamenn þurfa að virkja heilahvel „nr. 2“ sem er oft steinsofandi.

Tillaga: Rakel og Auðunn Blöndal eiga von á öðru barni.

6.

„Verður þú á nýjum Honda e-bíl í desember?“

Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 24.10.20.                                 

Athugasemd: Í skóla var mér kennt að ávarpa ekki lesandann í annarri persónu, þú. Kennarinn sagði réttilega að höfundurinn gæti ekki verið viss um að „þú“ læsir textann. Þegar ég ávarpa einhvern í rituðu máli er útilokað að nota aðra persónu nema því aðeins að ég sé að tala við einhvern ákveðinn mann, einn eða fleiri.

Hvað er e-bíll? Held að ’e-ið’ standi fyrir enska orðið „electric“ sem þýðir rafmagn.

Í Málfarsbankanum er þetta ágætlega skýrt:

Ekki er talið vandað málfar að nota orðið þú sem svokallað óákveðið fornafn þegar átt er við fólk almennt en ekki er verið að ávarpa einn tiltekinn viðmælanda. Það er t.a.m. ekki talið gott mál að segja: „þegar þú kaupir í matinn áttu margra kosta völ“.

Í ensku er hefð fyrir því að ávarpa lesendur og nota „you“ enda hefur orðið víðtækari merkingu en ’þú’ í íslensku. Hér eru dæmi:

  • This leaflet tells you what general line you should take.
  • It's programmed so that you walk, talk and generally behave just as a human being would.
  • The whole idea of the monarchy, and titles in general, is that you do not pick and choose.

Betra er að umorða en að nota ’þú’ í almennri merkingu eða þýða beint úr ensku. 

Tillaga: Hver verður á nýjum Honda rafmagnsbíl í desember?

7.

„Alríkislögreglan undir stjórn Comeys forstjóra og þéttriðinnar klíku hans innan FBI leiddi öryggisfulltrúa hins nýja forseta í gildru.“

Reykjavíkurbréf á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 24.10.20.                                

Athugasemd: Maður þorir varla að spyrja en læt það nú samt vaða: Hvað merkir „þéttriðin klíka“? Ég giska ekki, gæti velsæmis.

Í Reykjavíkurbréfinu segir:

Seinustu kappræðu vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum lauk á fimmtudagskvöld. 

Frekar finnst mér þetta kjánaleg setning. Ástæðan er einfaldlega sú að kappræðurnar hófust á sama degi og þeim lauk, held að þær hafi staðið í um þrjár klukkustundir. Þar að auki var þetta seinni kappræða frambjóðendanna.

Einnig segir:

Trump gefur þessi færi á sér, réttilega sannfærður um að hann þurfi að kveikja eldmóð í sínu liði. 

Ég held að almennt sé talað um að vekja eldmóð frekar en að „kveikja hann“. Jafnvel þó eldur komi fyrir í orðinu. Hið fyrrnefnda fer óneitanlega betur.

Mikið saknar maður Davíðs Oddssonar þegar einhver annar tekur að sér að skrifa Reykjavíkurbréfið.

Í lokin er hér lítil spurning um myndina sem fylgir Reykjavíkurbréfinu. Hvað heitir fjallið sem sést í fjarska lengst til vinstri?

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband