Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Ohmæ gawd, líkamsleifar á Faxaflóa og menn hólkast upp

1.

„Kominn tími til þess að það taki allir af­stöðu til þess hvort þeir treysti dóms­mála­ráð­herra eða ekki.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Blaðamenn á visir.is og Fréttablaðinu eru frekar slakir í gerð fyrirsagna. Þær eru oft alltof langar og efnislega rýrar. Þessi fyrirsögn fer varla í úrvalsflokk því hún er of löng og stirð.

Orðin eru höfð eftir viðmælanda vefsins. Mjög einfalt er að laga hana, fækka orðum og þar með flækjustiginu. Þá myndi hún vera eitthvað á þessa leið: Kominn tími til að kanna hvort þingmenn treysti dómsmálaráðherra? Þessi tillaga er ekki nógu góð og hægt að gera hana mun betri jog jafnvel hafa hana innan gæsalappa því efnislega er þetta það sem viðmælandinn segir.

Tillaga: Treysta þingmenn dómsmálaráðherra? 

 

2.

„Kis­urn­ar trekkja að á kaffi­húsið.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Einhvern veginn er fyrirsögnin frekar stirðbusaleg, má þó vera að hún sé málfræðilega rétt. Þó má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að nota annað orð en þessa mislyndu sögn „að trekkja“. Hún 

Tillaga: Kisurnar laða gesti að kaffihúsinu.

 

3.

„Ragnarök Fram.“ 

Fyrirsögn á bls. 4 í Íþróttablaði Morgunblaðsins 12. mars 2018    

Athugasemd: Íþróttablaðamenn Moggans eru ekki allir jafngóðir að semja fyrirsagnir. Nú bregður svo við að þegar Fram tapar í illa í handbolta gegn ÍBV er samin ágætis fyrirsögn. Líklega má jafna átta marka tap í úrslitaleik við ragnarök. Af mikilli hugarleikfimi fellir blaðamaðurinn nafn eins leikmans, Agnars, inn í orðið „ragnarök“ og ritar það með rauðu. Þar bregst honum bogalistin. 

Doldið fyndið, það verður að viðurkennast en blaðamaðurinn skilur ekki orðið ragnarök né hvernig það er myndað. Orðið er tvískipt, annars vegar er það „regin“ og hins vegar „rök“. Merkingin er dauði guðanna í ásatrú, heimsendir, sem lýsir vel niðurlægjandi tapi Frammara. Kosturinn við fyrirsögnina er að blaðamaðurinn getur endurnýtt hana þegar einhver Ragnar stendur sig vel. Þegar hluti orðisins er ritaður með rauðu verða afgangarnir tóm vitleysa, eitt R og svo ök sem má leggja saman, en þannig leik á ekki að stunda á fjölmiðlum. Hlutverk þeirra er að segja fréttir á einfaldan og skýran hátt. Sú er bogalistin.

Mesta slysahættan á ritstjórnarskrifstofum er í fyrirsögnum. Fyrirsagnagerð krefst langrar þjálfunar og mikillar málþekkingar. Svo fá orð eru í fyrirsögnum, að þau geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar. Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri.

Margir munu ábyggilega halda því fram að rauða innskotið með nafni leikmannsins ekki eiga heima þarna. Sá sem þetta ritar var lengi að átta sig á beyglunni, las „rök Fram“ og skildi ekkert. Þar með sannast það sem Jónas segir í tilvitnunni hér að ofan að fá orð í fyrirsögn geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar.

Tillaga: Ragnarök Frammara [svart á hvítu].

 

4.

„Brian Cox vinnur að þætti um Mars á Ísland. “ 

Fyrirsögn visir.is.   

Athugasemd: Orðaröð skiptir gríðarlega miklu máli í töluðu og rituðu máli. Í ofangreindri fyrirsögn mætti halda að Mars væri fyrirtæki á Íslandi og það sé verkefnið.

Fyrir nokkrum árum birtist þessi fyrirsögn í einhverjum fjölmiðli: 

Jón Gnarr breytir nafni sínu í Huston.

Allir vita hver Jón Gnarr er og hafði hann fram að þessu borið nafn sitt með stolti. Mér fannst þó hálfskrýtið að hann vildi framvegis heita Huston. Auðvitað kom í ljós við lestur fréttarinnar að maðurinn ætlaði ekki að heita Huston heldur væri hann að breyta nafni sínu í borginni Huston í Texas. Óneitanlega má skilja fyrirsögnina á tvo vegu.

Tillaga: Brian Cox gerir þætti á Ísland um Mars.

 

5.

„Fyrir 4 klukkutímum síðan: Þakklátur að geta borgað allar skuldirnar “ 

Fyrirsögn forsíðu dv.is.     

Athugasemd: Vefsíðan dv.is hefur fengið nýtt útlit og því fylgir að í yfirfyrirsögn með hverri frétt er sagt hversu langt er síðan fréttin var birt. Þar klikkar ritstjórnin á málfræðinni. Vefsíðan hefur raunar aldrei verið þekkt fyrir að rita fréttir sínar á góðri íslensku.

Síðan“ er atviksorð og er hér vegna þekkingaskorts.Tökum hér lítið dæmi um notkun atviksorðsins.

Þegar tveir hittast sem hafa ekki sést lengi segir annar: Mikið er langt síðan ég hef séð þig. 

Hinn svarar: Já, nú eru ábyggilega tvö ár síðan.

Sá fyrri bætir við: Fyrir tveimur árum hittumst við á Akureyri [Takið eftir að hér er ekkert „síðan“].

Berum þetta saman og síðan við fyrirsögnina. Þá kemur berlega í ljóst að atviksorðinu „síðan“ er ofaukið. Hjálpar ekkert, er bara óþarfi. Engu að síður afar mikið notað, misnotað.

Tillaga: Fyrir 4 klukktímum: Þakkátur að geta borgað allar skuldirnar.

 

6.

„Ekki þarf að bregða sér lengra en inn á Twitter til að sjá að íslenskir íþróttaáhuga- menn hólkast upp við endurkomu Tigers Woods og eyða nú kvöldunum fyrir framan skjáinn.“ 

Úr dálkinum Ljósvakinn á bls. 30 í Morgunblaðinu 19. mars 2018.     

Athugasemd: Ljósvakinn í Mogganum er oft skemmtilegur og fróðlegur. Blaðamenn Morgunblaðsins skiptast á að skrifa í hann hugleiðingar um Sjónvarp. Oft er farið víða um völl í stuttu máli og sitt sýnist hverjum.

Ekki veit ég hvað orðasambandið að hólkast upp þýðir í þessu sambandi og því fletti ég í vefsíðunni malid.is. Þar er er þetta sagt: „vera óklæðilega víður (um flík)“. Þar af leiðandi er ég engu nær um hvað blaðamaðurinn á við, er hann þó yfirleitt ágætlega máli farinn. Þetta virkar samt einhvern veginn sem déskoti töff talsmáti …

Tillaga: Ekki þarf að bregða sér lengra en inn á Twitter til að sjá að íslenskir íþróttaáhugamenn eru fullir eftivæntingar vegna endurkomu Tigers Woods og eyða nú kvöldunum fyrir framan skjáinn.

 

7.

„Heils­ustaður­inn Yoga­food hef­ur lokað á Grens­ás­vegi.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd:  Þetta er hrikalega ljót villa vegna þess að heilsustaðurinn hefur ekki lokað neinu, hann getur það ekki. Þess í stað hefur honum verið lokað, líklega hefur eigandinn gert það.

Blaða- og fréttamenn eiga óskaplega erfitt með að átta sig á því að almennt framkvæma dauðir hlutir ekki neitt, lifandi fólk gerir það hins vegar. Hús geta ekki opnað eða lokað, hreyft við dyrum eða lagt niður rekstur.

Víða opnast dyr þegar skynjari verður var við hreyfingu í nánd. Ofmælt er að segja að húsið hafi opnað. Þegar rekstri hefur verið hætt er húsnæðinu lokað þar sem hann var starfræktur.

Tillaga: Heilsustaðnum Yogafood á Grensásvegi hefur verið lokað.

 

8.

„Bylgja Guðjónsdóttir hafði ekki hreyft sig í að ganga þrjú ár, vegna taugaáfalls sem hún varð fyrir.“ 

Frétt á vefritinu bleikt.pressan.is.       

Athugasemd: Þvílíkt bull sem er hér birt. Vonandi er tilvitnunin lélegum prófarkalestri að kenna frekar en að blaðamaðurinn sé svona hræðilega illa skrifandi. 

Síðar í sömu grein segir: 

Bylgja segir að upphafið á hreyfingu hennar hafi byrjað á Yoga námskeiði sem hún var í í 6 vikur.

Takið eftir tveimur forsetningum hlið við hlið í lok málsgreinarinnar; „… sem hún var í í 6 vikur.“ Svona gerir enginn sem er vanur skriftum. Og svo þetta: „upphafið á hreyfngu hennar“. Ekki stendur steinn yfir steini hjá blessuðum blaðamanninum. Trúir einhver því að Bylgja hafi ekki hreyft sig í þrjú ár? Blaðamaðurinn bullar.

Tillaga: Bylgja Guðjónsdóttir hafði ekki hreyft sig né gengið í þrjú ár vegna taugaáfalls sem hún varð fyrir.

 

9.

„Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur til rann­sókn­ar lík­ams­leif­ar sem fund­ust á Faxa­flóa ný­verið …“ 

Úr frétt á mbl.is.        

Athugasemd: Faxaflói er hafsvæði og hvort sem eitthvað finnst fljótandi eða sokkið í sjó þá er jafnan notuð forsetningin „í“, ekki „á“. Í fréttinni sjálfri er hvort tveggja notað. Í myndatextanum er sagt „í Faxaflóa“.

Í annarri frétt á sömu vefsíðu er sagt að líkamsleifar hafi fundist „við Snæfellsnes“ jafnvel þó fram komi að þær hafi fundist á 120 metra dýpi í Faxaflóa.

Varla er til nein regla um þetta. Hins vegar eru skip oft á siglingu eða veiðum við Snæfellsnes. Kafbátar kunna að vera á ferðinni í Faxaflóa og skipsflök og ýmislegt annað kann að finnast á botni Faxaflóa. Mogginn þarf endilega að samræma fréttaflutning. 

Flóabardagi er sagður hafa verið háður árið 1244. Viðbúið er að einhverjir hafi þá hrokkið útbyrðis og drukknað. Sokkið í Húnaflóa. Hvíli nú í votri gröf í Húnaflóa.

Í gamla daga sagði íslenskukennarinn að það væri illskárra að gera alltaf sömu villuna heldur en að vera svona ýmist eða.

Tillaga: Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur til rann­sókn­ar líkams­leif­ar sem fund­ust í Faxa­flóa ný­verið …

 

10.

„Vísir greindi frá viðbrögðum Páls vegna pistilsins, og í gærkvöldi tjáði svo Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, um fúkyrðaflaum sem dunið hefur á Stundinni, meðal annars á vegg Páls.“ 

Úr frétt á visir.is.       

Athugasemd: Prófarkalesturinn á visir.is er ekki lagi, líklega er hann enginn. Reyndur blaðamaður sem skrifar fréttina las ekki lesið yfir eða honum hefur yfirsést.

Í stuttu máli vantar afturbeygða fornafnið í þessa löngu málsgrein. Fyrir vikið er málsgreinin hálf hölt. Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri, hvetur blaðamenn til að skrifa stuttar málsgreinar, setja punkt sem oftast. 

Blaðamanni liggur svo mikið á að hann virðist engu skeyta um stíl. Punkt notar hann sparlega. Hann setur inn leiðinlegan hortitt, atviksorðið „svo“ sem þarna á ekkert erindi. Ótrúleg nástaða verður til, nafn fjölmiðilsins er tvítekið sem er óþarfi.

Blaðamenn eiga að vanda sig, lesa yfir og vera gagnrýnir á eigin skrif. Halda mætti að þessi blaðamaður sé vanur en orðalagið bendir ekki til þess. Og enginn les yfir.

Tillaga: Vísir greindi frá viðbrögðm Páls vegna pistilsins. Í gærkvöldi tjáði Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, sig um fúkyrðaflauminn sem dunið hefur á fjölmiðlinum, meðal annars á vegg Páls.

 

11.

„Þau eiga meðal ann­ars tvö af­kvæmi sam­an en Hild­ur átti eitt fyr­ir þegar þau hnutu um hvort annað en hjóna­leys­in búa sam­an í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athuasemd: Afkvæmi fólks eru nefnd börn. Oft er sagt að fólk eigi krakka saman eða jafnvel gríslinga. Afkvæmi annarra spendýra bera ólík nöfn, kálfar, folöld, hvolpar og svo framvegis.

Afar sjaldgæft er tala aðeins um afkvæmi. Þegar um fólk er að ræða þykir það dálítið niðurlægjandi eða … bara svolítið „töff“ eins og í þessu tilviki. Þetta er þó ekki til eftirbreytni í frétt jafnvel þó blaðamaðurinn kunni að vera vinur þeirra sem um er rætt.

Annars er það dálítið skondið hvernig blaðamaðurinn orðar upphaf samdráttar hjónaleysanna. Þau „hnutu“ um hvort annað. Dálaglega orðað, það verður að viðurkennast. Hins vegar batna allar fréttir ef þegar punktur er notaður ósparlega af mikilli kunnáttu.

Tillaga: Þau eiga meðal ann­ars tvö börn sam­an, Hild­ur átti eitt fyr­ir þegar þau hnutu um hvort annað. Hjóna­leys­in búa sam­an í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur.

 

12.

„Mbl.is greindi frá því vik­unni að Trump hefði ákveðið að reka McMa­ster en ætlað sér að taka sér tíma í að fram­kvæma ákvörðun­ina.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athuasemd: Furðulegur talsmáti, „… að taka sér tíma í að framkvæma ákvörðunina“. Greinilega geld þýðing úr ensku eftir einhvern sem ekki hefur lesið yfir og hefur þar að auki ekki góða máltilfinningu.

Í endursögn hefur forsetinn líklega ekki ætla að reka hann strax. Af hverju er ekki hægt að segja það? Eða þá að McMaster myndi ekki hætta strax? Ákvörðunin var tekin, maðurinn var rekinn en vann áfram svo lengi sem forsetanum þóknaðist.

Tillaga: Mbl.is greindi frá því vik­unni að Trump hefði ákveðið að reka McMa­ster en þó ekki strax.

 

13.

Að Landsnet hafi ekki sýnt fram á að jarðstreng­ur sé raun­hæf­ur í sam­an­b­urði við loftlínu er veiga­mik­il ástæða þess að Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála felldi í gær úr gildi fram­kvæmda­leyfi Hafn­ar­fjarðarbæj­ar fyr­ir svo­nefndri Lykla­fells­línu.“ 

Úr aðalfrétt á forsíðu á mbl.is.       

Athuasemd: Ofangreind tilvitnun er alltof löng. Punktur hefði verið til bóta.

Algjört stílleysi að byrja setningu á nafnháttarmerkinu „að“. Má vera að það sé ekki málfræðilega rangt en málgreinin verður afar undarleg fyrir vikið. 

Hið þriðja sem verður að finna að er orðalagið „… er veigamikil ástæða þess …“ Þetta þykir ekki heldur góður stíll.

Tillaga: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir svonefndri Lyklafellslínu. Í ákvörðuninni vó þung að Landsnet hafi ekki sýnt fram á að jarðstrengur sé raunhæfur í samanburði við loftlínu.

 

 

 

 

Vinsæl gæluorð blaðamanna

  • Bíllinn hafnaði út af

Jafngilt eða betra: Lenti, endasentist, endaði, valt, rann …

  • Jón hafnaði í fyrsta sæti

Jafngott eða betra: Sigraði, lenti, náði

  • Stína hafnaði tilboðinu

Þetta er gott. Stína hefði líka getað neitað að samþykkja, synjað um samþykki vegna þess að hún var orðin afhuga því.

Klessa:

  • Hún klessti á bíllinn

Jafngilt eða betra: Ók á, rakst á …

  • Báturinn klessti á brúnna

Jafngilt eða betra: Sigldi á, rakst á, hann rak stjórnlaust á brúnna …

  • Hún barði eiginmann sinn í klessu:

Gott hjá henni, hafi hann átt það skilið.

 

Málið

Örlítill dálkur í Morgunblaðinu grípur daglega athygli þess sem hér ritar enda er þar fjallað af mikilli fagmennsku um tungumálið enda nefnist hann Málið. Hér er dæmi (greinaskilum hefur verið bætt við):

Hálf- er aumt að sjá þýtt svona bókstaflega: „enda ekki úr karakter“ (um mann grunaðan um misferli) í stað t.d. enda ekki ólíkt honum. 

In character (with sth) / out of character þýðir í þessu sambandi í samræmi / ósamræmi við eðli – þess sem um ræðir. Þ.e.a.s.: þetta var svo sem eftir manninum.

 

Nokkuð sem bragð er er að

Nú er til dæmis aflagt að segja Hamingjan sanna og Hægan hægan, sem einu sinni var vinsælt í leikritaþýðingum og vel mátti missa sig, en líka: Ég á ekki orð!, Ég er alveg bit!, Þú segir ekki!?!, Guð hjálpi mér, og ein tuttugu önnur orðatiltæki, jafnvel bara gamla góða: Ja, hérna! 

Nei, það sem unglingarnir hrópa upp í tíma og ótíma er Ohmæ gawd. Það er sem sagt nauðsynlegt að ávarpa Guð á ensku, þegar mikið liggur við. Um áhrifamátt þess skal ég ekki fjölyrða, því að ég hef aldrei prófað það.

Úr greininni „Ohmæ gawd“ eftir Svein Einarsson, leikhússtjóra, birt á bls. 19 í Morgunblaðinu 6. mars 2018. (Geinaskil og feitletranir eru á ábyrgð SS)

 

 

 


Slakur skilningur á íslensku er vandamál á dv.is

DVÍ sígildu ævintýrunum hefjast sögur ósjaldan á þennan hátt: Fyrir langa löngu var ... og svo heldur sagan áfram.

Fengi ritstjórn DV að ráða myndi sagan hefjast þannig: „Fyrir langa löngu síðan ...“.

Á þessu tvennu er mikill munur. Hið fyrra er rétt en það síðara er rangt.

Þegar tengt er við tíma er einfaldalega sagt: Hann kom fyrir löngu. Algjör ofrausn er að bæta við atviksorðinu „síðan“, það hjálpar ekkert. Allir með þokkalegan skilning á íslensku vita að verið er að tala um liðna tíð.

Hins vegar er allt í lagi að segja: „Langt er síðan ég sá þig fyrst.“

Fólk sem er ekki mjög vel lesið áttar sig ekki á þessu og ruglar saman svo úr verður rassbagan „Fyrir löngu síðan“. Þetta er sagt vegna þess að lestur bókmennta er grundvallaratriði í skilningi á tungumáli, ekki aðeins íslensku heldur allra. 

Þetta skilur vefmiðillinn dv.is ekki þetta og ekki heldur Facebook. Villan grasserar á báðum miðlum.

bækurNú hefur dv.is breytt forsíðu sinni. Kostir og gallar fylgja breytingunum. Gallarnir eru tveir. Í fyrsta lagi blasir villan, rassbagan, við öllum í hverri einustu frétt sem birt er þann daginn sem síðan er skoðuð. Í öðru lagi setur vefmiðillinn niður þegar dagur líður án þess að ný frétt birtist. Hvort tveggja er svona frekar neyðarlegt.

Hér áður fyrr var eldklárt fólk starfandi á ritstjórn DV sem lagði mikið á sig til að fara rétt með íslenskt mál. Skyldi nú starfa á dv.is eldklárt fólk sem hefur slakan skilningi á íslensku?


Almennir flokksmenn semja drög að ályktunum fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins

Nei, kommon Bjarni.
Skynsamir flokksmenn felldu út „flokkseigendatillöguna” um að byggja nýja Landspítalann við Hringbraut og reisa um leið einkaspítala annars staðar.
Í staðinn kom skýr og rökrétt stefna um að fara strax í staðarvalsgreiningu þar sem m.a. yrði hugað að betri samgönguleiðum.

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra, á Fésbókarsíðu sinni. Hann telur sig þar með hafa komið höggi á formann Sjálfstæðisflokksins og „flokkseigendafélagið“.

Þetta er auðvitað tóm vitleysa hjá manninum því hann veit ekki hvernig Sjálfstæðismenn vinna tillögur fyrir landsfund. Það er ekki þannig að einn maður eða örfáir flokksmenn semji það sem lagt er fyrir fundinn. Í öllum tilvikum eru málefnanefndir flokksins opnir. Allir flokksmenn hafa rétt til þáttöku og fundirnir eru auglýstir opinberlega og fjöldi fólks tekur átt.

Þar af leiðandi er það engin „flokkseigendatillaga“ sem lögð er fyrir landsfund. Ég man ekki til þess að forysta flokksins sæki þessa málefnafundi, en það getur þó verið í einstaka nefndum.

Á landsfundi eru málefnafundirnir afar fjölmennir, miklu fleiri taka þátt í umræðum um drög að ályktunum en þeir sem sömdu þau. Í lýðræðislegum flokki ræður meirihlutinn.

Vel má vera að Sigmundur Davíð hripi niður á servéttu drög að ályktun Miðflokksins og hún sé svo samþykkt án mótatkvæða á aðalfundi flokksins. Þannig er það bara ekki í Sjálfstæðisflokkunum þar sem almennum flokksmanni er treyst og hann hvattur til að hafa áhrif.

Svo get ég ekki orða bundist um hegðun margra stjórnmálamanna, til dæmis Sigmundar Davíðs. Í þrjú ár sat hann með Sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og það án nokkurra vandkvæða. Hvað rekur hann til þess að stunda persónulegar árásir á fyrrum samstarfsmenn? Kynntust hann engum í ríkisstjórn sinni eða var allt svona ömurlegt og leiðinlegt og ástæða til að hefna með með skítkasti í stað þess að ræða málefnalega um staðreyndir?

Hins vegar er það mín skoðun og fjölda annarra Sjálfstæðismanna að byggja eigi nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut.


Ofbeldi meirihluta borgarstjórnar

Við ætlum að taka 25.000 manns úr bílum og setja í strætó,“ sagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og væntanlega forystumaður flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Hún nefndi ekki hvernig ætti að gera það. Hins vegar er alveg ljóst hvaða aðferðir vera notaðar en ætla má að fjölskyldufólki á einkabílum verði gert miklu erfiðara fyri en nú. Þetta er helst á dagskránni:

  1. Götur verða þrengdar rétt eins og gerðist með Grensásveg, Borgartún og Hofsvallagötu
  2. Strætó verður látinn hafa forgang umfram einkabílinn, þetta var gert í Borgartúni
  3. Tafið verður fyrir einkabílnum með því að lækka hámarkshraða eins og rætt hefur verið um að gera á Miklubraut og Hringbraut
  4. Lokað verður fyrir umferð einkabíla og honum kennt um mengun.
  5. Strætó fær forgang umfram aðra bíla og jafnvel umfram núgildandi umferðalög

Þetta heitir að berja fólk til hlýðni. Svo viss er meirihluti borgarstjórnar um ágæti almenningsfarartækja að hann er tilbúinn til að gera allt til að fá fólk inn í vagnanna. Frjáls vilji skiptir engu.

Aðeins um 4% borgarbúa taka strætó og þeim hefur ekki fjölgað neitt á undanförnum árum. Engu að síður skal sósíalískt boðvald borgarstjórnar stýra eftirspurn eftir strætó hvað svo sem almenningur vill. 

Líf Magneudóttir er trú sínum sósíalístíska uppruna og ætlar með berja fólk inn í strætó.

Fyrir nokkrum árum gerði ég tilraun í eitt ár og fór allra minna ferða á reiðhjóli. Það var skemmtileg upplifun. Hins vegar gengur ekki að setja alla á hjól. Þar að auki hefur meirihlutinn lítið gert í að auðvelda hjólafólki ferðir um borgina. Ekki heldur gert mikið í því að lagfæra strætó og gera hann að hvetjandi samgöngumáta. 

Stjórnmálamenn þurfa að vinna heimavinnuna áður en þeir setja fram yfirlýsingar. Ég ber enga ábyrgð á Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa VG. Hún hótar ofbeldi.


mbl.is „Ber ekki ábyrgð á Sigríði Andersen“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úbbs ... er ekki skráður á landsfund Sjálfstæðisflokksins

LandsfundurinnLandsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn um helgina. Ég gekk í flokkinn um leið og ég hafði aldur til og hef síðan sótt alla landsfundi hans nema einn (minnir mig), var þá í útlöndum við einhverja ómerkilega iðju, nám eða álíka vitleysu.

Nú er ég upptekinn við eitthvað sem er ábyggilegra enn ómerkilegra og því verður þetta í annað skiptið sem ég sæki ekki þennan stórskemmtilega og fróðlega allsherjarfund Sjálfstæðisflokksins.

Einhver kann að spyrja hvers vegna ég mæti ekki. Svarið er einfalt. Hvorki hefur Sjálfstæðisflokkurinn yfirgefið mig né ég hann. Ég er bara svo önnum kafinn í pólitískum vangaveltum að ég gleymdi að skrá mig.

Því miður hefur enginn tekið eftir því að nafnið mitt er ekki meðal 2.000 skráðra fulltrúa og það sem verra er, enginn hefur á mig skorað að mæta. 

Eftir því sem tímar hafa liðið hafa landsfundir Sjálfstæðisflokksins orðið æ fróðlegri og skemmtilegri. Hér áður fyrr fannst manni svo margir „gamlir kallar“ þar og svo fátt af konum og yngra fólk. Nú er meirihlutinn ungt fólk, konur og karlar, glæsilegir fulltrúar sinna kynslóða. Allir taka þátt í nefndafundum og leggja ýmislegt til málanna. 

Svo stórir eru nefndafundirnir orðnir að fyrir fjórum árum voru á fjórða hundrað manns að ræða um verðtryggingu og fjármál heimilanna. Fyrir tveimur árum voru rúmlega eitthundrað manns á nefndafundi um umhverfis- og skipulagsmál. Sem sagt, fleiri á nefndarfundi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en voru á síðasta landsþingi Viðreisnar eða landsfund Samfylkingarinnar.

Væri ég landsfundarfulltrúi myndi ég leggja áherslu á að miðhálendi Íslands verði gert að þjóðgarði. Á þetta lagði ég áherslu á síðasta fundi, rökræddi við fjölda fólks um málið en þurfti því miður að lúta í lægra haldi.

Á fyrsta landsfundinum sem ég tók þátt í, vildi ég takmarka sauðfjárbeit á hálendinu. Tillaga var kolfelld í nefnd, þótti tóm vitleysa og flutningsmaðurinn óskynsamur strákur. Enn í dag er sauðfé beitt á takmarkaðan gróður á gosbelti landsins Kominn tími til að hætta þessu rugli.


Hefur ráðherra flutt lík í ráðherrabíl?

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er ekki nógu klár í hausnum. Hann spyr ítarlegra spörninga um greiðslur til ráðherra en gleymir samt fjölmörgu sem brýnt er að fá svar við.

Hér eru dæmi:

  1. Hversu oft hefur sprungið á ráðherrabílum?
  2. Hafa ráðherrar aðstoðað við að skipta um dekk þegar sprungið hefur á ráðherrabílum?
  3. Eru ráðherrabílar á nöglum, heilsársdekkjum eða harðskeljadekkjum?
  4. Hver er loftþrýstingurinn í dekkjum ráðherrabíla? Að aftan, að framan?
  5. Hversu oft hefur ráðherra sofið í ráðherrabíl í stað þess að fara heim til sín eða gista á hóteli?
  6. Hafa ráðherrar drukkið áfengi í ráðherrabílum? Er bar í ráðherrabílum?
  7. Hefur ráðherra skutlað einhverjum öðrum lengri eða skemmri leið án þess að taka greiðslu fyrir? Sé svo var gefinn út reikningur? Var reiknaður útskattur á reikningnum?
  8. Hefur einhverjum ráðherra flogið íhuga að nota hesta, reiðhjól eða mótorhjól í stað ráðherrabíls?
  9. Nota ráðherra farangursrými í ferðum sínum? Hafa þeir sett lík í farangursrými?
  10. Er ráðherrabílstjóri vopnaður? Sé svo hefur ráðherra fengið að skjóta?

Mjög brýnt er að fá svar við þessum spörningum svo hægt sé að finna upp á einhverjum nýjum spörningum til að spörja.


mbl.is Vill upplýsingar um greiðslur til ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feigir smáflokkar

Viðreist telur sig stjórnmálaflokk. Um sextíu manns sóttu landsþing flokksins. Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins tók ég þátt í nefndarfundi um umhverfismál og hann var fjölmennari en landsþing Viðreisnar.

Fólkið sem er í Viðreisn telur sig klofning úr Sjálfstæðisflokknum og hélt landsþing þar sem saman voru kominn fjöldi fólks sem þó var ekki nema 5% af þeim sem sóttu síðasta landsfund Sjálfstæðisflokksins. Var þó reynt að smala saman ættingjum og vinum eins og hægt var.

Miklar líkur benda til þess að Viðreisn fari sömu leið og Björt framtíð sem getur ekki einu sinni smalað saman skyldfólki til að búa til framboðslista í Reykjavík. Það hefur þó hingað til verið nauðvörn smáflokka.

Þessir tveir flokkar, Viðreisn og Björt framtíð, bjóða saman í Kópavogi, þó með erfiðismunum.

Það hlýtur að vera niðurlægjandi að ættingjar frambjóðenda smáflokka neita að kjósa frændur sína og frænkur. Sumir flokkar bera feigðina í sér.


mbl.is Þorgerður hlaut 61 atkvæði af 64
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarklasinn, iða mannlífs, hugsana og framkvæmda

180307 Sjávarklasinn 1Eitt af merkilegustu fyrirbærum í Reykjavík er starfsemi Íslenska sjávarklasans á Grandagarði 16. Eftir að hafa hætt sem framkvæmdastjóri Sýslumannaráðs varð ég svo heppinn að fá inni í húsinu í samstarfi við Grétar Sigfinn, son minn sem hefur haft þar aðstöðu í nokkurn tíma.

Sjaldan hef ég verið eins hissa og um leið hrifinn af nokkurri starfsemi eins og Sjávarklasanum. Þarna starfa meira en sextíu fyrirtæki, einstaklingar og fjölmargir frumkvöðlar, beint eða óbeint að verkefnum sem tengjast hafinu, útgerð, vinnslu eða rannsóknum. Ábyggilega á annað hundrað manns eru með hugann við fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og fjölmörgu öðru.

180307 Sjávarklasinn 2Sjávarklasinn er stórt samfélag. Iða mannlífs, hugsunar og framkvæmda sem hlúð er að og fær aðstoð við að gera gott enn betra. Um leið hittist fólk frá ólíkum fyrirtækjum, spjallar, ber saman bækur sínar og þá kvikna óhjákvæmilega hugmyndir, samstarf verður til og jafnvel spretta upp ný fyrirtæki.

Þarna er einstaklingsframtakið ljóslifandi í stórkostlegri kviku eldmóðs, frjórra hugsana og hugmyndasmíði. Þetta er leikvöllur framtíðarinnar.

Nei, ég er ekki að gera of mikið úr starfsemi Sjávarklasans. Ég hef hreinlega aldrei áður kynnst öðru eins samfélagi.

Húsnæðið sem slíkt er afar vel heppnað. Það er allt á lengdina, nær eiginlega frá nútíð til framtíðar. Tveir langir gangar. Skrifstofur af ýmsum stærðum við glugga og fundaraðstaða í miðjunni. Veggir eru úr gleri, hvergi eru hulin rými, eiginlega allt fyrir opnum tjöldum.

180307 Sjávarklasinn 3Oft á dag má sjá hávaxinn og spengilegan mann spígspora um ganga. þar fer hann Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnandi Sjávarklasans. Öndvegis maður í viðkynningu og mikill húmoristi, alltaf tilbúinn til að aðstoða, hjálpa til og auðvelda fólki að sinna starfi sínu.

Vikulega er sameiginlegur morgunmatur og þar hittist fólk og blandar geði. Og í morgun var þess látið getið að boðið væri upp á hugleiðslu sem jógakennari hefur umsjón með. Þvílíkt og annað eins.

Matsölustaðurinn Bergson er í Sjávarklasanum og óvíða hægt að fá betur framreiddan fisk en þar.

180307 Sjávarklasinn 4Um daginn kom forsetinn í heimsókn og við dauðlegir máttum taka í höndina á honum. Við brottför hafði hann um að hugsa og enda var hann afar hrifinn af því sem hann sá hérna.

Framtíðin er björt fyrir Íslenska sjávarklasann. Nú er verið að undirbúa svipað starfsemi með matarfrumkvöðla með það að markmiði að auka nýjungar og vöruþróun. Sú starfsemi verður á neðri hæðinni.

 

 


Stjórnarandstaðan stundar tilraunir í markaðsmálum

Alþingismenn stunda margir hverjir merkilegar tilraunir í markaðsmálum, já þeir eru flestir markaðslega sinnaðir. Skiptir engu í hvaða flokkum þeir eru. Dæmi um slíkt eru ótal fyrirspurnir til ráðherra um hitt og þetta sem raunar skiptir engu máli, hvorki fyrir þjóð eða þing.

Hið eina sem eftir stendur er að þingmaðurinn sem spyr kemst örstutta stund í kastljós fjölmiðla og það er honum nóg. Honum er nákvæmlega sama þótt margir opinberir starfsmenn eyði tíma sínum í að afla þeirra upplýsinga sem um er beðið, stundum í marga daga, og ekki heldur hvað svarið kostar í raun og veru.

Síst af öllu leiðir þingmaðurinn hugann að því að þeir starfsmenn sem eru uppteknir við að svara tilgangslausum spurningum gætu verið að gera eitthvað allt annað og gagnlegra.

Vantrauststillaga minnihluta er álíka heimskulegt athæfi því vitað er að meirihlutinn mun ekki samþykkja hana. Þarna er verið að stunda ómerkilega markaðsstarfsemi, búa til ávirðingar á dómsmálaráðherrann, ata hann auri vitandi það sem getur verið að því meir sem tönglast er á lyginni því meiri líkur eru á því að ístöðulaust fólk trúi henni. Nóg virðist vera að „virkir í athugasemdum“ séu virkjaðir í skítkastið.

Ekki er furða þó álit fólks á Alþingi fari stöðugt minnkandi þegar svona vinnubrögð eru stunduð.


mbl.is Ræða van­traust­s­til­lögu á dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náungi sem spilar handbolta í fyrirsögnum hlýtur að vera fjölhæfur

1.

„Tíu valkostir sem KSÍ gæti skoðað ef Heimir ákveður að hætta.“ 

Fyrirsögn á fótboltavefsíðunni 433.pressan.is.     

Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa fyrirsögn átti um tvennt að velja. Annars vegar að nota nafnorðið „val“ eða nafnorðið „kostur“. Þessi tvö orð merkja næstum því það sama, á þeim er þó blæbrigðamunur.

KSÍ gæti átt tíu kosta völ, það er valið um tíu þjálfara í stað Heimis. Hins vegar er alveg ómögulegt að steypa saman þessu tveimur orðum, útkoman er slæm, „valkostur“ er ljótt orð og það er órökrétt.

Eitthvað myndi nú íþróttablaðamaðurinn segja ef einhvern væri titlaður „sóknarframlínumaður“ í fótboltaliði. Sóknarmaður er sá sem sækir og á að skora, hann er venjulegast í framlínu liðsins. Tvítekningar á borð við þessa á auðvitað ekki að nota.

Í stað þess að nota „valkostur“ í fyrirsögninni hefði verið miklu betra að nota nafnorðið „þjálfarar“. 

Tillaga: Tíu kostir fyrir KSÍ hætti Heimir. 

2.

„Óðinn spilar handbolta í fyrirsögnum.“ 

Fyrirsögn bls. 2 íþróttablaði Morgunblaðsins 20. febrúar 2018.     

Athugasemd: Þessi fyrirsögn hún skilst ekki jafnvel meðal þeirra sem eru verulega vel að sér í handbolta. Verst er þó að blaðamennirnir sem skrifuðu fréttina skýra fyrirsögnina ekki í sjálfu meginmáli fréttarinnar.

Má vera að Óðinn þessi hafi átt skilið að fá nafn sitt í fyrirsögn í Mogganum vegna þess að markið hans réði úrslitum og það á síðustu sekúndu leiksins. Það réttlætir hins vegar ekki kjánalega fyrirsögn.

Tillaga: Óðinn skorði sigurmark FH á síðustu sekúndu leiksins.

3.

Brjáluð hjón kæra brúðkaupsljósmyndarann.“ 

Fyrirsögn á vísir.is.     

Athugasemd: Hjónin sem um ræðir í fréttinni voru reið út í ljósmyndarann vegna þess að hann tók lélegar myndir í brúðkaupinu. Þau voru sem sagt ekki trufluð á geði eins og ráða má af fyrirsögninni.

Fréttin er þýðing úr enskri vefsíðu. Þetta er ekki frétt, frásögnin hefur ekkert gildi og er einfaldlega ómerkileg. Tilgangurinn er að búa til uppfyllingarefni. 

Tillaga: Reið hjón kæra ljósmyndara vegna vinnusvika.

4.

Good Night er náttúrulegt svefnbætiefni sem hjálpar fólki að sofna og ná samfelldari svefni.“ 

Undirfyrirsögn í „Fólk kynningarblað„ Fréttablaðsins 20. febrúar 2018.     

Athugasemd: Í einni málsgrein, fjórtán orðum, tekst höfundi þrisvar sinnum að nota sama eða svipað orð. Þetta telst stagl, nástaða, sem síst af öllu er til eftirbreytni.

Svo er það nýyrðið „svefnbætiefni“. Dálítið skrýtið orð og ekki gegnsætt.

Tillaga: Reið hjón kæra ljósmyndara vegna vinnusvika.

5.

… og þurftum að sofa í ullarsokkum, buxum og rúllukragabol til að frjósa ekki bara. 

Úr forsíðugrein í Íþróttablaði Morgunblaðsins 24. febrúar 2018.    

Athugasemd: Blaðamenn hafa fulla heimild til að lagfæra orðalag viðmælenda, breyta kjánalegum talsmáta í þokkalegt ritmál. Auðvitað eru undantekningar frá þessu en almennt séð er það ekki hlutverk fjölmiðla að dreifa slæmu máli.

Þetta gerir sá sem skrifaði viðtalið á forsíðu Íþróttablaðs Moggans ekki. Þar af leiðandi endar málsgreinin á „bara“ sem er bara furðulegt.

… til að frjósa ekki bara.“ Hvernig er hægt að skrifa svona og birta? Atviksorðinu „bara“ er algjörlega ofauki, ekki aðeins í ritmáli heldur líka í talmáli. Það held ég nú ...

Tillaga: … og þurftum að sofa í ullarsokkum, buxum og rúllukragabol til að frjósa ekki.

6.

„Hvalaskoðunarfyrirtæki vill aðeins konu sem stöðvarstjóra: „Förum ekki í dulbúning með hvað við erum að leita að. 

Stríðsfyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Enn skal ítrekað að blaðamaður hefur fulla heimild til að lagfæra orðalag viðmælanda síns, breyta kjánalegum talsmáta í skárra ritmál. 

Þetta orðalag „að fara í dulbúning með hvað við erum að leita að“ gengur alls ekki upp. Líklegast hefur viðmælandi ætlað að segja að hann fari ekki dult með ætlan sína. Má vera að hann hafi sagt rétt en blaðamaðurinn klúðrað, ekki skilið. Hins vegar ber blaðamanni að lagfæra orðalagið því það er rangt. Má þó vera að hann viti ekki betur sem er eiginlega verst.

Langar og klúðurslegar fyrirsagnir einkenna dv.is. Þar þekki enginn aðalfyrirsögn og undirfyrirsögn (eða yfirfyrirsögn). Hjá ritstjórninni skiptir mestu máli að vekja forvitni á borð við þessa, sem þó er skáldskapur en er lýsir fyrirsagnablætinu: 

„Ryksuga skilin eftir úti á götu og það sem gerðist næst er er veruleg óhugnanlegt meðal örvhentra karla í B blóðflokki undir þrítugu sem lokið hafa stúdentsprófi frá Laugarvatni fyrir 1996.“ 

Tillaga: Förum ekki dult með tilganginn.

7.

Konur tóku sér pláss á Eddunni. 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Blaðamaðurinn hefur eflaust ætlað sér að segja frá samstöðu kvenna á verðlaunahátíðinni Eddan. Honum mistekst hrapalega enda fyrirsögnin með endemum rislág. Halda mætti að fullt hús hafi verið á hátíðinni og konur hafi troðið sér þar sem pláss var að fá.

Blaðamaðurinn hefði átt að nota orðasambandið „að taka sér stöðu“, sem hann raunar gerir í meginmálinu. Óskiljanlegt að nota kjánalegt orðasamband sem gengur ekki upp. Slæmt hins vegar ekki notað sama orðasambandi tvisvar, það kallast nástaða. Þar af leiðandi þarf að koma því skýrt fram í fyrirsögn að konurnar hafi staðist fast á málflutningi sínum á hátíðinni. 

Tillaga: Konur fylltu sviðið á Eddunni og segja stopp.

8.

Heyrðu, þetta hefur nú bara gengið vel. 

Algengt svar í viðtölum í fjölmiðlum.      

Athugasemd: Þegar fréttamaður spyr hvernig gangi er algengt að viðmælendur svarið á þennan hátt: „Heyrðu?“ Og svo kemur spjallið“ 

Hvaðan kemur þessi upphrópun eða spurning „heyrðu“? Er verið að hvetja fyrirspyrjanda til að hlusta nú vel eða er ástæða til að halda að hann hlusti alls ekki.

Sannast sagna er svona orðalag með „heyrðu“ tómt rugl og vitleysa enda ekki í neinni tengingu við við svar. Þetta er nú álíka eins og að nota „sko“ eða „þannig“ í tíma og ótía.

Tillaga: Í sannleika sagt hefur bara allt gengið vel.

9.

Er ítalska mafían að fara koma til Íslands og slátra okkur? 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Tvær villur skera í augun og særa máltilfinninguna. Hið fyrra er að nafnháttarmerkið „að“ vantar með sögninni að koma. Fyrra nafnháttarmerkið dugar ekki fyrir báðar sagnirnar. Í talmáli getur orðasambandið „að fara að koma“ runnið saman og af þekkingarleysi skrifa sumir „að fara koma“ sem er auðvitað kolrangt.

Seinni villan og sú sem er sýnu alvarlegri er að nota nafnhátt þegar eðlilegra er að nota aðra tíð. Þetta telst barnamál, einföldun á tungumálinu sem oft er haft fyrir börnum. Stundum þroskast þau ekki upp úr þessari einföldun, yfirleitt vegna þess að þau eru ekki vanin við lestur. Þar af leiðir að þau safna ekki eðlilegum orðaforða sem bitnar á þeim sem leggja fyrir sig skriftir á fullorðinsárum.

Oft er sagt: „Ertu ekki að fara að koma?“. Dálítil þversögn í því fólgin að fara og koma á sama tíma. Þetta orðasamband hefur líklega unnið sér þegnrétt í málinu og lítið hægt að amast við því. Glöggur vinur minn snéri út úr fyrir mér og sagði „ég er að koma að fara“, og hló við.

Tillaga: Kemur ítalska mafían til Íslands og slátrar okkur?

10.

Fundu óvænt fald­ar mörgæsa­byggðir. 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Þetta er rangt vegna þess að enginn hafði falið svæði mörgæsanna. Blaðamaðurinn skortir orðaforða og hann finnur ekki viðeigandi lýsingarorð og fer því með vitleysu. „Óþekktar“ hefði alveg dugað, jafnvel „ókunnar“.

Yfirleitt er nafnorðið „byggð“ notað um þar sem fólk býr. Mjög sjaldgæft er að tala um byggðir fugla eða dýra, til dæmis gæsabyggðir eða hreindýrabyggðir. Þó er talað um lundabyggðir og þar af leiðandi ekki hægt að gagnrýna „mörgæsabyggð“.

Tillaga: Fundu óvænt ókunnar mörgæsabyggðir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband