Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018
Hverjum er ekki sama um þennan Gunnar Smára?
23.2.2018 | 17:03
Hæ, þetta er Gunnar Smári Egilsson, aðalsósíalisti Íslands. Ég þarf að tjá mig dálítið um lista Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Ætlar þú að skrifa niður það ég segi eða hentar ykkur betur að taka það sem ég skrifa á Facebook?
Einhvern veginn byrjar samtal þessa nafngreinda manns við blaðamann á Fréttablaðinu, visir.is, dv.is, pressan.is eða eyjan.is. Og allir á þessum miðlum bugta sig og beygja og skrifa samviskusamlega það sem Gunnar Smári hefur að segja. Þessu næst er búin til fyrirsögn, skrifin kölluð frétt og birt á vefnum eða í blaðinu.
Hver er svo þessi Gunnar Smári Egilsson? Ég hef ekki hugmynd um það, sé hins vegar að hann hefur greiðan aðgang inn í ofangreinda miðla, skiptir engu hvað hann hefur að segja eða hvort eitthvað sé varið í það. Yfirleitt segir hann ekkert af viti.
Hið eins sem ég veit er að hann er uppgjafarkapítalisti. Efnaðist mikið á störfum sínum fyrir Baugsveldið, hann á mikið fé, hús í Skerjafirði sem er til sölu á annað hundrað milljónir króna. Ég hef einnig lesið að hann hefur farið á hausinn með útgáfufyrirtæki og fjöldi fólks stórtapað á viðskiptum við manninn og einnig hafa launþegar hrakist frá gjaldþrotum fyrirtækja í eigu hans.
Ef ég myndi hringja í fjölmiðla og segjast vilja tjá mig um mál líðandi stundar myndu sömu fréttamenn og beygðu sig í duftið fyrir Gunnari Smára hreinlega hlægja að mér og vísa mér til fjandans (og þá kann vel að vera að ég hitti þennan Gunnar Smára).
Jakob Bjarnar heitir blaðamaður á visir.is og Fréttablaðinu. Hann skrifar fréttir þann hátt sem virkir í athugasemdum skrifa í athugasemdadálka lélegu miðlanna. Hann skrifar ekki fréttir heldur tjáir sig frá eigin brjósti og kemst upp með það. Hann bugtar sig ekki fyrir Gunnari Smára Egilssyni, nei nei. Hann leggst flatur fyrir honum. Meiri aumingjaskapur þekkist vart í blaðamennsku hér á landi.
Myndinn sýnir frétt á visir.is sem Gunnar Smári Egilsson pantaði og Jakob Bjarnar, blaðamaður framreiddi samkvæmt forskrift hins fyrrnefnda á Facebook. Í sannleika sagt er ekkert vit í Gunnari Smára, nema hvað að fyrirsögnin er skemmtileg. Hið eina sem maðurinn hefur úr á borgarstjórnarlista Sjálfstæðisflokksins að setja er aldursmunur á frambjóðendum, ofgnótt af konum eða skortur. Það telur Jakob Bjarnar vera frétt.
Furðuleg þetta allt með Gunnar Smára og hvernig hann nær að troða sér inn í flesta fjölmiðla og jafnvel umræðuþætti. Hversu oft hefur hann ekki sést í Silfri Ríkisútvarpsins?
Hvað kemur Gunnar Smári okkur almenning við? Rétt'upp hönd sem vill tjá sig um hann ...
Mælar á Sprengisandi nema óróann við Grímsey
20.2.2018 | 15:08
Fyrir leikmann er sú staðreynd einna merkilegust að áhrifa skjálftanna norðaustan við Grímsey gætir allt suður að Vatnajökli og jafnvel sunnar.
Stórmerkilegt er að óróamælar á Skrokköldu á miðjum Sprengisandi nema óhljóðin í misgengjum við Grímsey.
Fyrir þá sem ekki þekkja þá hefur Veðurstofa Íslands hefur sett upp tæki víða um land til að mæla hljóð sem koma úr jarðskorpunni en þau eru á tíðni sem mannlegt eyra getur ekki greint.
Hljóðin eru nefnd órói og er mæld í mælieiningunni Hz (Hertz). Óróinn verður til þegar til dæmis kvika þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna eða þegar jarðskjálftar verða og jafnvel kunna að vera fleiri ástæður.
Blái liturinn sýnir mjög lága tíðni og getur myndast vegna rennslis kviku.
Þessi hljóð berast hratt og mælast víða. Efsta myndin er frá óróamælunum í Grímsey. Samkvæmt þeim byrja skjálftarnir þann 14. febrúar og halda áfram fram á þennan dag. Ljóst er þó að úr óhljóðunum dregur enda fækkar skjálftunum.
Næsta mynd er af óróamælingunum við Skrokköldu á Sprengisandi. Mælingarnar eru nákvæmlega þær sömu og í Grímsey að því undanskildu að tíðnin er lægri, eflaust vegna fjarlægðar.
Næsta mynd er af óróanum sem mælarnir við Svartárkot í Bárðardal námu. Teikningin er því sem næst hin sama og á hinum tveimur.
Fleiri myndir úr óróamælum mætti birta en án efa eru jarðeðlisfræðingar mun betri að greina óróann en fávís leikmaður. Hitt er þó víst að jarðskjálftahrinan við Grímsey mælist víða. Þá hlýtur leikmaðurinn að velta því fyrir sér hvort skjálftarnir norðaustan við Grímsey geti raskað jafnvægi í sprungum fjarri upptökunum og jafnvel valdið kvikuhreyfingum.
Er til dæmis mögulegt að Kröflueldar taki að bæra á sér á ný eða aftur verði gos í Holuhrauni vegna þess að sjávarbotninn skelfur eitthundrað til tvöhundruð km í burtu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jarðskjálftasvæðið NA Grímseyjar
19.2.2018 | 12:02
Hér eru tvær mikilvægar staðreyndir sem áhugamenn um jarðfræði þurfa að vita:
- Jarðskjálftar eru sjaldnast fyrirboðar eldgosa
- Kvikuhreyfingar í jarðskorpunni valda jarðskjálftum sem leiða þó ekki alltaf til eldgosa.
Gríðarlegir jarðskjálftar hafa verið norðaustan við Grímsey frá því í byrjun febrúar 2018. Enn hafa þeir ekki leitt til eldgosa. Þetta gerðist ekki heldur þegar mikil jarðskjálftahrina varð á sömu slóðum frá 31. mars til 4 apríl 2013.
Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt er eldvirkni á flekaskilunum afar algeng. Staðreyndin er nefnilega sú að Ísland er á slíkum skilum og myndaðist vegna eldsumbrota sem enn standa yfir og því færist vestuhlut landins til vestur og hinn hlutinn til austurs.
Jarðfræðingar hafa greint eldstöðvakerfin fyrir norðan land og eru þau merkt með rauðu á efstu myndinni. Svokallað Grímseyjarbelti er efri blá línan en Húsavíkurmisgengið sú neðri. Bæði eru þau hluti af flekaskilunum og á þeim tveimur eru jarðskjálftar tíðastir eins og glögglega sést á neðstu myndinni.
Sé efsta myndin stækkuð sjást nöfnin á eldstöðvakerfunum. Jarðskjálftarnir eru nú við Nafir, vestan og sunnan í því kerfi. Árið 2013 voru skjálftarnir nokkru sunnar, næstum á milli Nafa og Mánáreyjakerfisins.
Eldgos varð á Mánareyjakerfinu árið 1867 en náði ekki upp á yfirborð. Engu að síður er sjávardýptin ekki mjög mikil þarna, líklega um 50 til 400 metrar.
Næsta mynd er af jarðskjálftasvæðinu norðaustan við Grímsey. Athugið að norður er til hægri.
Þetta er heillandi mynd af landslagi á sjávarbotninum. Þarna eru fell og fjöll, sum ansi brött og há, líklega um tvö til þrjúhundruð metrar. Sé myndin stækkuð og rýnt aðeins í hana, sjást bláir deplar á fjórum stöðum. Þetta eru eldgígar. Svörtu línurnar eru misgengi á hafsbotninum.
Neðsta myndin er nokkuð merkilegt. Hún sýnir jarðskjálfta á tímabilinu 1994 til 2006. Sjá má nokkur ártöl sem sýna upptök stórra skjálfta í gegnum tíðina.
Skjálftarnir raðast eftir flekaskilunum, það er Grímseyjarbeltinu og Húsavíkurmisgenginu. Rauðu örvarnar sýna rekstefnuna. Hægra megin rekur flekanna í suðaustur, en vinstra megin í norðvestur. Loks sjást sprungusveimarnir á landi en þeir hafa norður-suður stefnu á þessum slóðum. Myndina fékk égfyrir nokkrum árum á jarðfræðinámskeiði hjá Páli Einarssyni, jarðeðlisfræðingi, sem haldið var hjá Endurmenntun.
Myndir og upplýsingar í þessari stuttu samantekt eru að öðru leyti frá Isor, mjög áhugaverð og vel skrifuð grein hér.
Lýsa yfir óvissustigi vegna skjálfta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óvissustig virkjað og góðar, betri eða bestu læknishendurnar
18.2.2018 | 12:47
1.
Tíu valkostir sem KSÍ gæti skoðað ef Heimir ákveður að hætta.
Fyrirsögn á fótboltavefsíðunni 433.pressan.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa fyrirsögn átti um tvennt að velja. Annars vegar að nota nafnorðið val eða nafnorðið kostur. Þessi tvö orð merkja næstum því það sama, á þeim er þó blæbrigðamunur.
KSÍ gæti átt tíu kosta völ, það er valið um tíu þjálfara í stað Heimis. Hins vegar er alveg ómögulegt að steypa saman þessu tveimur orðum, útkoman er slæm, valkostur er ljótt orð og það er órökrétt.
Eitthvað myndi nú blaðamaðurinn segja ef einhvern væri titlaður sóknarframlínumaður í fótboltaliði. Sóknarmaður er sá sem sækir og á að skora, hann er venjulegast í framlínu liðsins. Tvítekningar á borð við þessa á auðvitað ekki að nota.
Í stað þess að nota valkostur í fyrirsögninni hefði verið miklu betra að nota nafnorðið þjálfarar.
Raunar er fyrirsögnin léleg, of löng og barnsleg.
Tillaga: Tíu kostir fyrir KSÍ hætti Heimir.
2.
Í ákærunni er að finna eina lengstu setningu sem sést hefur á prenti í langan tíma.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hver skyldi nú vera munurinn á setningu og málsgrein? Í stuttu og einfölduðu máli mynda setningar málsgrein. Langa setningin er í raun löng málsgrein. Mjög algengt er að rugla þessu saman, sem er slæmt. Álíka eins og átta sig ekki á muninum á sentimetra og millimetra.
Raunar er fyrirsögnin ekki góð.
Tillaga: Í ákærunni er að finna eina lengstu málsgrein sem sést hefur á prenti í langan tíma.
3.
Endurtekið undir áhrifum fíkniefna á rúntinum með dóttur sína.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þetta er hörmulega léleg fyrirsögn, er þó blaðamaðurinn mjög reyndur og ætti ekki að gera sig sekan um svona klúðuyr. Hvað er eiginlega endurtekið? Maðurinn hafði áður verið undir áhrifum fíkniefna og gerist aftur sekur um óhæfuna, í bæði skiptin var hann með dóttur sína í bílnum.
Í þessu tilviki bera að nota atviksorðið aftur. Lögreglan tók bílstjórann aftur fyrir akstur undir áhrifum. Hugnist blaðamanninum ekki þetta getur hann svon sem notað orðasambandið enn á ný. Enn á ný tekinn ...
Tillaga: Tekinn aftur undir áhrifum fíkniefna á rútuntinum með dóttur sína.
4.
Óvissustig virkjað á Hellisheiði og Þrengslum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Útilokað er að virkja óvissustig? Þetta er slík endaleysa að maður spyr sig hvort það sé búið að útvista fréttaskrifum til Nígeríu. Stundum berast þaðan fjárpógsbréf á betra máli en þessu.
Hvað er óvissustig? Þetta er svona loðið og teygjanlegt orð, komið úr ranni Vegagerðarinnar og merkir líklega að aðstæður séu ótryggar. Þar af leiðandi er óvissustig ekki virkjað heldur er lýst yfir að slíkt ástand sé komið á. Þetta getur verið vegna náttúrulegra ástæðna, til dæmis ofankomu, skafrennings, sandfoks, hugsanlegs eldgoss og svo framvegis.
Alveg ómögulegt er að binda sig svo í tæknilga hugsun að skynsemi komist ekki að. Orðalagið verður einhvers konar nýkanselístíll, gáfulegt tal án gáfna.
Tillaga: Óvissustigi lýst yfir á Hellisheiði og Þrengslu vegna veðurs.
5.
Hellisheiðin, Þrengsli, Sandskeið, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru lokaðar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Tvennt er aðfinnsluvert í þessari litlu tilvitnun úr frétt af vefsíðu Morgunblaðsins. Annars vegar er það skortur á samhengi og hins vegar ákveðinn greinir á örnefni.
Mikilvægt er að hafa gott samhengi í skrifum. Ljótt er að sjá að eitt örnefnið hér að ofan er með ákveðnum greini en hin ekki. Best væri ef engin væri greinirinn.
Mjög fátítt er að örnefni og sérnöfn beri greini nema í sérstökum tilvikum. Ekið er yfir Hellisheiði og um Þrengsli. Þetta á fyrst og fremst við um ritmál. Í talmáli er ekki beinlínis rangt að segja að margar vörður séu á Hellisheiðinni þó betur færi á því að sleppa greininum.
Fáir kaup inn í Hagkaupinu/Hagkaupunum, Bónusinu, Nettóinu, þó er það til að eldra fólk leggi leið sína í Bónusið. Engu að síður versla margir í Krónunni, Melabúðinni eða Sunnubúðinni. Líklegast veltur notkun greinis á sérnöfnum fyrirtækja á hefð eða þá að sum taka auðveldara við honum en önnur.
Frekar óviðkunnanlegt er að taka svo til orða að einhver hafi gengið á Hekluna, Hvannadalshnúkinn, Syðstusúluna, Eyjafjallajökulinn, Herðubreiðina eða Vífilsfellið svo dæmi séu tekin. Einhvern veginn er það þó svo að sum örnefni taka betur við ákveðnum greini en önnur, nefna má Esjuna eða Hengilinn.
Þrátt fyrir það sem hér er sagt er sá sem þetta ritar er engu að síður hlyntari því að nota ekki ákveðinn greini í örnefnum eða sérnöfnum, en ekkert er þó án undantekninga. Enginn myndi þó bæta ákveðnum greini við mannanöfn, nema ef til vill í hálfkæringi.
Tillaga: Hellisheiði, Þrengsli, Sandskeið, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru lokaðar.
6.
Það eru engin rök fyrir því að færa hana ekki undir betri læknishendur.
Úr frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu, föstudaginn 16. febrúar 2018.
Athugasemd: Forðastu klisjur, segir Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri og blaðamaður, á vef sínum.
Ekki er með nokkrum hætti hægt að stigbreyta orðtök. Að flytja einhvern undir lænishendur er skýrt og greinilegt. Varla er hægt að tala um að flytja einhvern undir betri læknishendur. Við það verða hendurnar einhvers konar tæki, eins og sturtuhaus, sem sjúklingur er fluttur undir í von um einhverjar bót á ástandi
Vitleysan felst í því að skilja ekki hvernig orðtök eru mynduð og notuð, og halda að klisjur séu lesendum skiljanlegar.
Fái einhver ekki rétta meðferð hjá lækni er ráðið að leita til annars læknis.
Tillaga: Þetta eru engin rök gegn því að flytja hana til sérfræðinga/annarra lækna/annars sjúkrahúss.
7.
WOW-þota úr leik að sinni.
Fyrirsögn á bls. 4 í Fréttablaðinu, föstudaginn 16. febrúar 2018.
Athugasemd: Skilningur á málinu er grundvöllur á notkun þess. Þegar einhver er úr leik að sinni skilja flestir það svo að sá hinn sami sé ekki væntanlegur fyrr en talsvert síðar. Að minnsta kosti ekki nokkrum dögum.
Fótboltamaðurinn sem meiðist er ekki úr leik að sinni ef hann kemur aftur inn á völlinn. Ekki heldur ef varamaður kemur í stað hans en svo birtist hann í næsta leik. Hafi hann fótbrotnað, slitið hásinn eða álíka má fullyrða að maðurinn sér úr leik að sinni.
Í fréttinni kemur fram að þessi þota sé biluð og verði aftur komin í notkun eftir fjóra daga. Ekki er það nú langur tími. Máltilfinningin segir manni að fyrirsögnin sé ekki alveg rétt.
Tillaga: Biluð Wow-þota kemst fljótlega í loftið.
8.
Lægra hlutfall 17 ára tekur bílpróf.
Fyrirsögn á bls. 40 í Mannlífi, föstudaginn 16. febrúar 2018.
Athugasemd: Í fréttinni er ljóst að æ færri 17 ára ungmenni taka bílpróf. Þau voru 86,5% árið 1994 en 72,1% á síðasta ári. Lesandinn skilur þessar tölur þannig að sífellt færri þeirra sem eru 17 ára taka bílpróf.
Spurningin er því þessi: Af hverju má ekki segja það berum orðum. Hvað kemur hlutfallið þessu við?
Greinilegt er að æ færri lesa skynsamlegar leiðbeiningar Jónasar Kristjánssonar, fyrrum ritstjóra og blaðamanns, sjá jonas.is:
- Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
- Stuttur stíll er skýr og skýr stíll er spennandi.
Tillaga: Þeim fækkar sífellt sem taka bílpróf 17 ára.
9.
Frakkinn Olivier Giroud skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea sem fór auðveldlega í gegnum Hull í 5. umferð enska bikarsins í knattspyrnu í kvöld þar sem lokatölur urðu 4:0.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvergi blómstra klisjur meira en á íþróttasíðum. Góðir blaðamenn á því sviði sanna þó, að svo þarf ekki að vera. En hinir veiklunduðu hrynja hópum saman fyrir handhægri flatneskju. Það er óafsakanlegt, en hefur ákveðnar skýringar. Þetta segir Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri og blaðamaður á vef sínum.
Því miður er ofangreind tilvitnun úr vef Moggans með afar léleg. Chelsea vann Hull með yfirburðum. Nei, blaðamaðurinn þurfti að finna einhverja klisju eða umorða sannleikann svo hann líti betur út, það er að hans mati. Chelsea fór auðveldlega í gegnum Hull. Þvílík della. Af hverjur lengir hann skrifin? Jú, það er vegna þess að hann kann ekki þá gullvægu reglu að skrifa stutt og skiljanlega og sleppa öllum klisjum. Líklega hefur enginn sagt honum til, eru þó margir framúrskarandi blaðamenn á Mogganum.
Tillaga: Frakkin Oliver Giroud skoraði sitt fyrsta mark fyrir Chelsea sem vann Hull 4:0 í 5. umferð enska bikarsins.
10.
Keflavíkur- liðið lagði allt undir og skildi allt eftir á gólfinu í Vesturbænum og uppskar eftir því á meðan KR-ingar voru ískaldir fyrir utan 3ja stiga línuna.
Úr frétt á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 17. febrúar 2018.
Athugasemd: Hvað þýðir orðalagið að skilja allt eftir á gólfinu. Veðja á að þetta sé heimatilbúið hjá íþróttafréttamanni og hann sé frekar óvanur skrifum og jafnframt illa lesinn.
Hvernig stendur svo á nástöðunni lagði allt undir og skildi allt eftir ? Þetta er einfaldlega ljótt að sjá.
Er sá sem heldur ró sinni talinn vera ískaldur? Oft tala íþróttafréttamenn um að sá sem er á vítapunktunum sé ískaldur, það er síst af öllu taugaóstyrkur. Í ofangreindri tilvitnun er merkingin hins vegar þveröfug. KR-ingarnir skoruðu fáar þriggja stiga körfur af því að þeir voru ískaldir, að sögn blaðamannsins.
Tillaga: Keflavíkur- liðið lagði allt undir og uppskar eftir því á meðan KR-ingar voru slappir fyrir utan 3ja stiga línuna.
Jarðskjálftar við Grímsey boða ekki eldgos ... og þó
16.2.2018 | 15:58
Gríðarleg skjálftavirkni hefur verið norðaustan við Grímsey. Á þremur dögum hafa mælst á annað þúsund skjálftar.
Einhverjir kunna að hafa áhyggjur af þessu, en það er engin hætta á að þarna fari að gjósa (held ég ...). Þarna hafa á síðustu árum orðið ógnarmiklar jarðskjálftahryðjur og ekkert gerst.
Skjálftarnir á þessum slóðum tengjast aðallega flekahreyfingu, er svokallað þvergengissvæði, það er að sprungubarmar hreyfast sitt í hvora áttina. Flekaskilin eru aðallega tvö, Grímseyjarbeltið og Húsavíkurmisgengin. Sunnan við þau er Dalvíkurbeltið. Öll eru þau samsíða og hafa stefnuna norðvestur, suðaustur.
Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt er talsverð eldvirkni tali vera á Grímseyjarbeltinu. Það líkist um margt Reykjanesskaga. Grímsey myndaðist við eldgos á ísöld, það er fyrir um einni milljón ára. Sagt er að það sem einu sinni hafi gerst geti einfaldlega endurtekið sig svo ekki er ólíklegt að þarna verði eldgos.
Myndin sem er frá Veðurstofunni sýnir upptök skjálfta síðustu þrjá daga.
Er farið að blása upp? Haraldur
1.2.2018 | 11:48
1.
Fraus í hel á skíðasvæði.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Dýr drepast en fólk deyr. Hver skyldi nú vera ástæðan fyrir því að frá aldaöðli hafa tvær ólíkar sagnir verið notaðar um lokastundina? Jú, án efa vegna þess að það er mannlegra að segja að fólk deyi, andist eða láti lífið svo eitthvað sé nefnt.
Á sama hátt er yfirleitt talað um að fólk verði úti, slokkni lífsljósið vegna ástæðna utan dyra. Skiptir þá litlu hvernig banastundin var.
Tillaga: Varð úti á skíðasvæði.
2.
Ísland tapaði fyrir gestgjöfum Króatíu.
Úr yfirliti hádegisfrétta 15. janúar 2018.
Athugasemd: Þetta er rangt, Ísland tapaði ekki fyrir gestgjöfum Króatíu af þeirri einföldu ástæðu að landsliðið lék ekki við þá. Á Evrópumótinu í Króatíu eru heimamenn gestgjafar. Þeir eru gestgjafar Íslenska landsliðsins. Á þessu móti eru engir gestgjafar Króata af því að þeir eru það sjálfir.
Þetta skilst hjá öllum nema einstaka íþróttafréttamönnum.
Tillaga: Íslendingar töpuðu fyrir Króötum, gestgjöfunum.
3.
Brönsinn í Þrastalundi á milli tannanna á fólki.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Sumir blaðamenn nota orðatiltæki sem þeir þeir halda að þeir skilji. Sé veitingastaðurinn á milli tannanna á fólki þá er verið að tala illa um staðinn, ekki vel eins og raunar er gert í greininni.
Blaðamaðurinn heldur að orðatiltækið merki að fyrirtækið sé umtalað á jákvæðan máta.
Bröns er samruni á ensku orðunum breakfast og lunch og merkir eiginlega morgunverður í seinni kantinum eða hádegisverður í fyrra fallinu. Þó orðið sé stundum notað í talmáli telst það ekki eiga heima í ritmáli.
Tillaga: Brönsinn í Þrastalundi er talinn afar góður.
4.
Hún kom heim úr fríi og opnaði útidyrnar Varð orðlaus yfir sjóninni sem mætti henni.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Spurningin er hvort sjón mætti henni eða hún hafi séð eitthvað sem gerði hana orðlausa.
Sjálfur er ég oft orðlaus yfir málfari í vefritinu dv.is. Þetta er slakt fréttarit, metnaðurinn er enginn, áhugaleysið algjört. Hið eina sem kemst að eru svokallaður tabloid stíll sem síst af öllu er til fyrirmyndar.
Tillaga: Hún kom heim úr fríi en varð gapandi hissa þegar hún gekk inn.
5.
Viðar Örn var þarna að skora fljótasta markið í sögu Maccabi Tel Aviv og sló um leið 56 ára gamalt met.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Mörk hreyfa sig ekki, þau eru nær því jarðföst. Sá sem kemur boltanum í markið skorar mark eða gerir mark. Sé mark skorað fyrr í leik en áður þekkist er ekki hægt að tala um fljótasta markið. Allir með sæmilega tilfinningu fyrir málinu hljóta að átta sig á þessu.
Hins vegar segja enskir: Fastest goal . Óþarfi er að þýða þetta beint og misbjóða þannig tungunni. Í frjálsum íþróttum er ekki talað um lengsta spjótið eða lengstu kúluna
Tillaga: Viðar örn skoraði mark eftir aðeins 13 sekúndur felldi 56 ára gamalt met hjá Maccabi Tel Aviv.
6.
Blindaðist af sólinni og klessti á.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Út af fyrir sig mega börn hjá mbl.is reyna að gera fyrirsagnir. Hitt er alvarlegra að stjórnendur Moggans skuli ekki vera starfi sínu vaxnir og leiðbeini ekki byrjendum.
Börn segja oft að einhver klessi á annan. Svo eldast þau og leggja af ungæðingslegt hjal. Önnur eldast en læra ekkert, fá enga tilsögn og þau halda þau standi sig bara býsna vel.
Hver á eiginlega að gæta gæslumannanna. Reynslumiklir starfsmenn Moggans eru að eldast, því miður virðast þeir sem koma í þeirra stað sé ráðnir af einhverjum öðrum forsendum en nefi fyrir blaðamennsku eða lipurð í skrifum.
Tillaga: Blindaðist af sólinni og ók aftan á næsta bíl.
7.
Ísland er ein af tíu einstökum knattspyrnuþjóðum heims.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Einstakur er lýsingarorð sem getur merkt eitthvað sem er sérstakt. Í þessu tilviki fer betur á því að nota ekki þetta orð heldur til dæmis óvenjulegur eða álíka enda er það líklega tilgangurinn.
Svo verður að taka fram að Ísland er ekki þjóð heldur land. Íslendingar eru þjóð.
Blaðamenn verða að tileinka sér nákvæmni
Tillaga: Ísland er eitt að tíu óvenjulegustu knattspyrnulöndum heims.
8.
Er farið að blása upp? Haraldur.
Fréttaþulur í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 21 janúar 2018.
Athugasemd: Veðurfræðingurinn sem var í símaviðtali svaraði á skiljanlegri íslensku; Jú, það er farið að hvessa.
Gera verður þær kröfur til fréttamanna að þeir tali rétt mál. Vilji þeir búa til ný orðatiltæki þarf að fylgja einhver hugsun.
Tillaga: Er farið að hvessa, Haraldur?
9.
Hann þjónaði í Kóreustríðinu og starfaði seinna á sjúkrahúsum í Boston og Salt Lake City.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Bandaríkjamenn reyna að fegra hernað sinn og í því skyni er sagt að menn hafi served in Korean war. Blaðamaðurinn þýðir þetta blint og segir að maðurinn hafi þjónað í Kóreustríðinu. Bein þýðing á ekki við. Engin ástæða er til að yfirfæra bandaríska málnotkun yfir á íslensku.
Tillaga: Hann tók þátt í Kóreustríðinu og starfaði seinna á sjúkrahúsum í Boston og Salt Lake City.
10.
Mark Eriksen er það þriðja fljótasta í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en metið
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Sumir nei margir íþróttamenn eru illa skrifandi á íslensku og með afbrigðum órökvísir eins og þessi hluti úr frétt á Vísi bendir til.
Mark getur hvorki verið fljótt né hægt, jafnvel þó maðurinn sem skorar heiti Mark. Hins vegar skora boltamenn sífellt fyrr mark í fótboltaleik. Hann er varla byrjaður og þá potar sprækur framherji boltanum inn.
Nefndur Mark var vissulega snöggur að skora mark, en hann skoraði ekki þriðja fljótasta markið í sögu úrvalsdeildarinnar. Fastest goal, segja enskir og íslenskir íþróttablaðamenn halda að þeim leyfist bein þýðing sem fyrr eða síðar mun koma þeim í álíka og jafnvel verri bobba en þetta með markið hans Marks.
Hvernig á þá að orða þetta? spyr lesandinn. Má ef til vill segja fljótasti boltinn? Nei, það er maður sem skorar markið, ekki boltinn. Svona verður að umorða í þýðingu. Þeir sem gera mark á fyrstu mínútu fótboltaleiks eru snöggir að skora.
Tillaga: Mark Eriksen er sá þriðji sneggsti til að skora mark í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en metið
11.
... svo er komin snjókoma ...
Fréttakona á Ríkissjónvarpinu í beinni útsendingu frá vettvangi.
Athugasemd: Sumir fréttamenn hafa oftrú á sjálfum sér og halda að þeir geti verið í beinni útsendingu án undirbúnings. Staðreyndin er þó sú að fæstir geta sagt meira en eina setningu skammlaust. Geri þeir það er tilgangurinn með beinni útsendingu í fréttatíma gagnslaus. Fæstir fara í fótspor Ómars Ragnarssonar, jafnvel þegar veðrið er skaplegt.
Tillaga: Best er ef fréttamenn hætti að vera í beinni útsendingu, yfirleitt er þetta hællærisleg leiðindi hjá flestum.
12.
Er hálkan veðrinu að kenna eða einhverju öðru?
Fréttaþulur í Ríkissjónvarpinu við veðurfræðing.
Athugasemd: Má vera að hægt sé að kenna dómsmálaráðherra um hálkuna en líklegast sjá flestir í gegnum slíkt. Venjulegast klúðra fréttaþulir gamnitalinu ef þeir eru ekki undirbúnir. Aðrir halda sig við sömu setningarnar í hverjum fréttum eftir aðrar, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár:
Þú ferð nánar yfir þetta á eftir, segir sami fréttaþulur sí og æ við veðurfræðinginn og áhorfandinn spyr sig jafnan hvort einhver þörf sé að árétta það. Er ekki veðurfræðingurinn kominn til að fara nánar yfir veðurfréttirnar þegar röðin er komin að honum.
Tillaga: Fréttaþulir ættu að hætta þessum innskotum, gamnitali eða öðru. Þeir ráða ekki við þau.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.5.2020 kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)