Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Vafamál: „Væntir samdráttar hjá bílaleigum.“ Fyrirsögn í viðskiptablaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017. 

Athugasemd: Sé sögnin að vænta komin af nafnorðinu von hefði mátt sleppa þessari fyrirsögn vegna þess að viðmælandinn er ekki að vonast eftir samdrætti, hann frekar óttast hann. Hins vegar eru til margar útgáfu af þessu orði: Ólétt kona væntir sín, við væntum mikils af kvennalandsliðinu, ég vænti þess að vinna í happdrætti, ég vonast ekki til að bíllinn bili, er frekar hræddur um það.

Tillaga: Býst við samdrætti hjá bílaleigum.

 

2.

Vafamál: „Hættur við endurreisn alþjóðahagkerfisins.“ Fyrirsögn í viðskiptablaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017. 

Athugasemd: Fyrirsögnina má hæglega misskilja enda ekki ljóst hvort fyrsta orðið sé sögn eða nafnorð. Svo bætist næsta orð við. Sé einhver hættur við, heldur hann ekki áfram. Sé fyrsta orðið nafnorð þá er merking fyrirsagnarinnar sú sem höfundurinn hennar á við. Bent er á þetta til að sýna fjölbreytni íslenskunnar og hversu miklu skiptir að velja rétt orð til að fyrirbyggja misskilning.

Tillaga: Þetta er fín fyrirsögn þrátt fyrir annmarka hennar.

 

3.

Vafamál: „Björg­un­ar­sveit­ir á Ítal­íu hafa fundið lík átta ein­stak­linga sem var saknað eft­ir að fjöl­býl­is­hús hrundi til jarðar skammt frá borg­inni Napólí í gær.“ mbl.is 

Athugasemd: Hús hrynja lóðrétt niður, til jarðar, að hluta eða öllu leyti. Óþarfi að bæta þessu við ‚til jarðar‘. Þar að auki fundust lík átta manna. Menn eru einstaklingar, hvort heldur að það séu konur eða karlar.

Tillaga: Björgunarsveitir hafa fundið lík átta manna sem saknað var eftir að fjölbýlishús hrundi skammt frá borginni Napólí í gær.

4.

Vafamál: „Í júní voru framboðnar gistinætur Icelandair Hotels rúmlega 40 þúsund samanborið við rúmlega 36 þúsund í júní á síðasta ári.“ Morgunblaðið 8. júlí 2017, bls 20.

Athugasemd: Illskiljanleg málsgrein, of löng og tilgerðarleg. Hvað eru framboðnar gistinætur? Ef átt er við gistinætur í boði af hverju er það ekki sagt? 

Tillaga: Í júní voru í boði 40 þúsund gistinætur hjá Icelandair Hotels en 36 þúsund í fyrra.

 

5.

Vafamál: „Ekki fleiri arnarnarpör lengi.“ Fyrirsögn í Morgunblaðinu 12. júlí 2017, bls 4.

Athugasemd: ‚Lengi‘ er atviksorð og getur illa staðið aftast í málsgrein, hún verður hálfkjánaleg fyrir vikið. Átt er við að arnarpör hafi sjaldan verið fleiri en nú.

Tillaga: Sjaldan fleiri arnarpör eða arnarpör hafa sjaldan verið fleiri.

 

6.

 

Vafamál: „Bankarnir stíga á bremsuna í lánveitingum til hótelverkefna.“ Fyrirsögn á visir.is.

Athugasemd: Fyrirsögnin er óþarflega löng. Átt er við að dregið hafi úr áhuga banka að lána til bygginga á hótelum. Óskiljanlegt hvers vegna byggingar á hótelum eru kölluð hótelverkefni.

Tillaga: Bankarnir lána minna til bygginga hótela, eða bankarnir draga úr lánum til hótelbygginga.

 

7.

Vafamál: „For­sæt­is­ráðherr­ann er stadd­ur í Par­ís til að taka þátt í minn­ing­ar­at­höfn um fórn­ar­lömb fjölda­hand­töku sem nas­ist­ar fram­kvæmdu í Frakklandi árið 1942.“ Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Þetta er afleitt orðalag, að ‚framkvæma fjöldahandtöku‘. Minningarathöfnin var um þá sem nasistar handtóku. Af hverju er það þá ekki sagt beinum orðum í stað þess að flækja setninguna í ljótu nafnorðastagli?

Tillaga: … um þá sem nasistar handtóku í Frakklandi árið 1942.

 

8.

Vafamál: Það er mjög blómleg afgönsk pressa, sem var ekki til undir talíbönum. Það er fullt af sjálfstæðum fjölmiðlum þarna og mikill metnaður í því. Það er mjög jákvæð og góð þróun í lýðræðisátt enda fjölmiðlar ein af grunnstoðunum.“ Viðtal við Unu Sighvatsdóttur í Fréttablaðinu.

Athugasemd: Viðtalið er langt og blaðamaðurinn virðist ekki alveg ráða við það, kastar stundum til höndunum. Þegar viðmælandi talar rangt mál, á blaðamaðurinn að laga það, ekki gera honum þann óleik að skrifa hugsunarlaust upp eftir honum. Sama er um annað í viðtali, blaðamanni ber að gera það læsilegra. Persónufornafnið ‚það‘ er ofnotað og verður við það merkingasnauður leppur, barnalegur og leiðinlegur. Í slíkum tilfellum kallast persónufornafnið aukafrumlag sem flestir reyna að forðast.

Tillaga: Hér hefði blaðamaðurinn átt að nota hugmyndaflugið og skrifa framhjá aukafrumlaginu.

9.

Vafamál: „Bátur til sölu ásamt kerru sem er í smíðum, verð …“ Smáauglýsing í Fréttablaðinu 16. júní 2017.

Athugasemd: Allt bendir til að kerran sé í smíðum en samkvæmt myndinni er  virðist báturinn vera í smíðum. Mikilvægt er að ‚sem‘, tilvísunarfornafnið, vísi alltaf til þess sem verið er að útskýra.

Tillaga: Bátur í smíðum til sölu … Eða: Bátur til sölu, kerra í smíðum fylgir …

10.

Vafamál: „… Rafdrifnir upphitaðir útispeglar, 2x afturhurðir að aftan.“ Auglýsing um Ford Transit bíla í Fréttablaðinu 16. júní 2017.

Athugasemd: Flestir skilja samstundis að afturhurð er aftan á Ford Transit, séu þar dyr. Hurð notuð til að loka dyrum. Flókið er að hafa hurðir að aftan án dyra. Um leið er sárt að ganga um hurðir. Aldrei er talað um ‚gleðinnar hurðir‘ heldur um ‚gleðinnar dyr‘..

Tillaga: … tvær hurðir á afturdyrum.

 


Falsfréttir og lygi sem mengar lýðræðið

900522 Mbl FráveitanBilun í dælustöð fráveitu Veitna við Faxaskjól hefur vakið athygli á borgarstjóranum og starfsaðferðum hans og vinstri meirihlutans. Nú blasir við að hann leggur mikið upp úr því að vera sjáanlegur þegar allt gengur vel. Þegar eitthvað bjátar á er hann ósýnilegur og embættismenn þurfa að svara fjölmiðlum.

Dælustöð bilaði og óhreinsuðu skolpi var í þrjár vikur dælt í Fossvog og þá gerði borgarstjóri eins og hann var vanur, hann faldi sig. Á meðan fórum við almenningur í sjósund, sulluðum með börnunum í fjörunni af því að við treystum því að allt væri í lagi.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hreinlega dró Dag B. Eggertsson á eyrunum fram í dagsljósið og hann þurfti að svara fyrir skolphneykslið.

Auðvitað gat hann ekkert sagt annað en það sem embættismenn höfðu þegar sagt. Hann reiddist hins vegar af því að PR-deildin hafði ekki undirbúið hann eða komið í veg fyrir viðtalið.

Þetta þarfnast skýringar. Á vegum skrifstofu borgarstjóra er fjöldi manns sem hefur það verkefni eitt að láta borgarstjórann og meirihlutann líta vel út. Þetta er PR-deildin sem á að koma í veg fyrir að hægt sé að tengja borgarstjórann eða meirihlutann við svona hneykslismál.

PR-deildin lætur fjölmiðla vita um ferðir borgarstjórans, hvar hann sé, býður upp á myndatökur viðtöl við hin og þessi tækifæri. Sem sagt sinnir almannatengslum ... og áróðri. Gleymum ekki því síðara.

DV 1990Eftir hrakfarir borgarstjóra vegna skolplekans er nú þeirri sögu markvisst dreift á athugasemdakerfum fjölmiðla og í samfélagsmiðlum að hreinsun strandlengju Reykjavíkur hafi byrjað með R-listanum en meirihluti Sjálfstæðiflokksins í borgarstjórn aldrei látið sig þetta mál sig neinu skipta, jafnvel verið á móti hreinsuninni.

Nú eru komnar nýjar kynslóðir sem ganga að því vísu að strandlengjan eigi að vera hrein og fólk er í raun ekkert að velta því fyrir sér hver eigi heiðurinn að þessum framkvæmdum, svo sjálfsagt þykir þetta. Þar af leiðandi er auðveldara fyrir áróðursliðið á skrifstofu borgarstjóra að dreifa falsfréttum og hælbítarnir í athugasemdakerfum fjölmiðla taka svo undir, dreifir lyginni eins og þeim sé borgað fyrir það.

Staðreyndir um fráveituna og hreinsun strandlengju Reykjavíkur má til dæmis lesa í frétt í Morgunblaðinu þann 22. maí 1990 sem og í Dv 25. janúar sama ár. Hér eru myndir af þessum fréttum og til að lesa er best að tvísmella á þær.

Skipulag fráveitunnar var unnið undir forystu meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og þá var Davíð Oddsson borgarstjóri. Raunar ber þess að geta að enginn stjórnmálaflokkur lagðist gegn málinu, allir voru sammála um að þetta væri bókstaflega þjóðþrifamál. PR-deildin vill hins vegar eigna R-listanum heiðurinn og því er falsfréttum dreift.

Rétt skal vera rétt og með öllum ráðum á að berjast gegn falsfréttum. Athygli vekur þó hversu áróðurinn í dag er umfangsmikill og skipulagður en ekki síst hversu óforskammaður hann í raun og veru er. Fjórtán manns starfa í PR-deildinni fyrir meirihlutann í borgarstjórn. Auðvitað eru starfsheitin mismunandi og reynt að fela þetta eins og hægt er. Kostnaðurinn er á annað hundrað milljónir króna á ári.

PR-deildin hringir ekki í aðra en þá sem hún getur treyst og kjafta ekki frá. Fólk er hins vegar ekki fífl, ekki heldur blaðamenn. Sumir blaða- og fréttamenn eru meira í málefnum sem snerta borgina og margir eiga sér sögu úr starfi þeirra flokka sem mynda meirihluta borgarstjórnar. 

Svo eru það samfélagsmiðlarnir og þeir sem skrifa í athugasemdadálka fjölmiðla. Þar er sveit vaskra manna sem hefur það markmið að dreifa óhróðri um minnihlutann. Til að auka slagkraftinn eru sumir með „aukaskráningu“ á Facebook, það er koma fram undir fölsku nafni.

Eitt falsnafnið er „Guðmund Einarsson“ og skráningin hans á Facebook er hér. Nafnið hans var skráð 12. október 2016 og síðan hefur hann haft sig mikið í frammi á athugasemdakerfum visir.is, dv.is og eyjunnar.is. Falsarinn sem stendur á bak við nafnið tekur engum rökum, hamrar stöðugt á falsi og óhróðri.

Fleiri svona svindlarar eru á netinu. Einkenni þeirra eru hin sömu en stundum er meira í lagt og búinn til „bakgrunnur“ til að viðkomandi sé trúverðugri.

Svo eru það hinir sem láta sér í léttu rúmi liggja þó nafn þeirra tengist óhróðri, svívirðingum og lygi. Þeir eru ótrúlega margir og láta sér ekki segjast þó staðreyndir mála blasi við þeim. Þeir halda áfram að dreifa falsfréttum eins og þeir eru ráðnir til að gera.

Almenningur er gjörsamlega varnarlaus gegn falsfréttum og þær eru hvað hættulegastar fyrir lýðræðið og frjáls skoðanaskipti. Falsfréttir eru eins og hryðjuverk, enginn veit hvenær þær bitna á manni sjálfum.

Vart er til óhugnanlegri tilfinning  en sú að maður hafi myndað sér skoðun sem meira eða minna er byggð á falsfréttum, fölsuðum upplýsingum um málefni eða einstaklinga. Jú, raunar er ein tilfinning verri og hún er sú að hafa ekki hugmynd um að logið hafi verið að manni. Hver er þá vörnin, til hvaða ráða getur maður gripið?

Þannig mengar lygin lýðræðið. Hún er eins og skolpið sem flæðir um strandlengjuna, enginn sér það og við höldum að allt sé í svo óskaplega góðu lagi og við sullum með börnunum í fjörunni.

Borgarstjórinn heldur sig hins vegar fjarri og því verður seint hægt að finna hann í fjöru.

 

 

 


Blaðamaður spinnur frétt úr eigin skoðunum

Embættismenn og kjörnir fulltrúar gleyma því stundum að þeir eru þjónar almennings. Fólk sem starfar fyrir sveitarfélög hefur fyrst og fremst skyldum að gegna gagnvart íbúum sveitarfélagsins. Að þegja um saurmengun skammt frá vinsælum baðstað Reykvíkinga eru algjörlega óforsvaranleg vinnubrögð.

Skyldi einhver telja þetta mælt í einhverri ómálefnaleg umfjöllum sem stefnt er gegn stjórnendum Reykjavíkurborgar eða fyrirtækjum hennar? Varla.

En þetta:

Formaður borgarráðs Reykjavíkur tjáði sig seint og illa um viðbjóðinn sem bíað hafði út strandlengjur höfuðborgarinnar vikum saman, án þess að fólkið, borgarbúarnir, væri látið vita og gæti gætt sín og barna sinna. Fjöldi starfsmanna borgarinnar á veitusviði og heilbrigðissviði vissi um vandræðin og um ógnina sem af þeim stafaði.

Varla telst þetta heift eða illa mælt. Engu að síður er síðasta tilvitnunin notuð gegn fjölmiðlinum sem hún birtist í.

Fyrri tilvitnunin er úr leiðara Fréttablaðsins en hin síðari úr leiðara Morgunblaðsins, hvort tveggja í blöðum dagsins.

Leiðarinn er undir yfirskriftinni „Brugðust borgarbúum“. jakob BjarnarBlaðamaðurinn Jakob Bjarnar á visir.is segir í frétt á miðli sínum um leiðarann:  

Leiðarinn er óvenju heiftúðugur, en hann er undir yfirskriftinni „Brugðust borgarbúum“ ...

Ég hef lesið leiðarann í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Í báðum er tekið nokkuð hart til orða en hvorugur er „heiftúðugur“, þvert á móti málefnalega rætt um hneykslið. Þannig er þetta bara og það veit blaðamaðurinn, Jakob Bjarnar, sem reynir ekki einu sinni að færa rök fyrir hinu arma orðalagi sínu.

Raunar kemur það æ oftar fyrir að Jakob Bjarnar skrifi fréttir og blandi inn í þær skoðunum sínum. Það er óþolandi og alls ekki góð blaðamennska, þvert á móti má flokka slíkt sem áróður og ekki sæmandi fjölmiðli.

Auðvitað er ástæðan sú að Jakob Bjarnar vill að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi skrifað leiðarann, sem vel getur verið rétt. Fjölmargir óttast Davíð og geta ekki brugðist við rökum hans nema með því að túlka orð hans og í óbeinni ræðu og geta þannig búið til einhvern ljótan hálfsannleik.

Vel saminn leiðari er því orðinn „heiftúðugur“ af því að borgaryfirvöld og stofnanir borgarinnar hafa staðið sig hörmulega illa. Þetta er ekki bara skoðun í leiðara Morgunblaðsins, Þorbjörn Þórðarson, leiðarhöfundur Fréttablaðsins, er á sömu skoðun, en nei, Þorbjörn er ekki talinn „heiftúðugur“, bara helv... hann Davíð.

Svo má búast við því að hælbítar í athugasemdum skríði upp úr holum sínum og haldi áfram naginu þar sem Jakob Bjarnar hætti.

Myndina leitaði Google að en ekki hefur verið sótt um leyfi til birtingar enda ekki vitað hver tók hana.


Vandi erfingja Halldórs Laxness er þeirra vandi, ekki þjóðarinnar

Halldór LaxnesÞegar ég var ungur voru gefnar einkunnir fyrir ritgerðir. Þá þótti sú ritgerð góð sem var læsilega handskrifuð, snyrtileg í frágangi, fáar eða engar stafsetningavillur og málfarið gott. Flestum var þó ljóst að ritgerðir án merkilegs innihalds voru leiðinlegar enda verður léleg ritgerð aldrei betri þótt hún væri rétt stafsett en efnislega vel skrifuð ritgerð varð sjaldan léleg þrátt fyrir hörmulega stafsetningu þó slíkar villur væru vissulega lýti.

Þetta datt mér í hug þegar ég las læsilega og snyrtilega grein eftir Gunnar Haraldsson, hagfræðing í Morgunblaði dagsins. Hún hefði fengið háa einkun í gamla daga, er afar sennileg eins og oft er sagt. Gallinn er bara innihaldið sem er svo rýrt miðað við umræðuefnið.

Gunnar ritar um raunir erfingja Halldórs Laxness en þeim hefur nú verið gert að greiða erfðafjárskatt af hugverkum hans. Þeir vilja skiljanlega ekki greiða krónu nema af þeim tekjum sem skila sér. Yfirskattanefnd var ekki sammála og þannig standa mál núna og ætla erfingjarnir í mál vegna úrskurða hennar.

Hér mjög mikilvægt að gera greinarmun á hugverkum Halldórs Laxnes og erfingjum hans. Ég hef til dæmis engan áhuga á erfingjunum, þekki þá ekki eða tengist. Hins vegar les ég reglulega mér til ánægju þær bækur Nóbelskáldsins sem eru í uppáhaldi án þess að leiða hugann að erfðamálunum. Íslandsklukkan stendur fyrir sínu þó eitthvað bjáti á í heimilislífi afkomenda höfundarins.

Ástæðan fyrir því að mér finnst grein Gunnars innihaldsrýr er að hann reynir af miklum klókindum að blanda saman ást og virðingu þjóðarinnar á Halldóri Laxnes og erfðamálunum. Hann gerir mikið úr því að ríkinu hafi verið gefnar flestar eigur Auðar, ekkju Halldórs eins og það skipti einhverju skattamáli. Gunnar segir orðrétt:

Þessar eignir ásamt Gljúfrasteini sjálfum mynda nú eins og kunnugt er hornstein mikillar þjóðargersemar sem auk stórbrotinna listaverka skáldsins verður þjóðinni kær um aldir og órjúfanlegur hluti þess sem best og fegurst er til í íslenskri menningu.

Áður hafði skáldið falið Seðlabanka Íslands til varðveislu verðlaunagrip Nóbels, gullpeninginn sjálfan.

Eftir hélt Auður höfundarétti Halldórs.

Ég geri mér grein fyrir þessu þó dálítið skrautlega sé í lagt hjá höfundinum. Hitt skil ég ekki hvað þetta kemur erfðamálunum við nema auðvitað að gefi listamaður til ríkisins eigi lög og reglur ekki að gilda um hann, til dæmis um erfðir. Með þessu er ég ekki að taka afstöðu heldur benda á hversu langt er til seilst í rökfærslu fyrir erfingjanna.

Greinin er öll með þessu yfirbragði en hvergi tekið á lögfræðilegum álitamálum, rök yfirskattanefnda ekki nefnd. Höfundurinn kórónar síðan vitleysuna og hvetur til að listamenn komi erfingjunum til aðstoðar og mótmæli og hann grípur til þess að „eggja listamenn lögeggjan“ út af fjölskylduvandamálum erfingjanna. Sem er furðulegt.

Í lokinn segir Gunnar:

Ég er þess viss að verði nú brugðist við af afli muni dómstólar komast að farsælli niðurstöðu í þessu máli svipað og gerðist í aðför ríkisvaldsins að prentfrelsi í landinu þar sem Halldór Laxness fór fyrir hópi manna er buðu valdinu birginn. Við Íslendingar njótum alla tíð þótt ef til vill öllum sé ekki í minni nú.

Þarna heldur höfundurinn því fram að hávaði og læti utan dómsala muni hafa áhrif á dómendur sem muni þá sleppa því að fletta í íslenskum lögum og dæma þess í stað eftir desibelum á götunni.

Hvers konar bull er nú þetta? Trúir maðurinn því að með áróðri megi knýja dómastóla til að dæma samkvæmt þeim sem hæst hrópa? Sé svo er illa komið fyrir íslensku samfélagi, verr en sem nemur vanda örfárra erfingja sem með réttu eða röngu gert er að borga erfðafjárskatt.

Íslendingar dá arfleið Halldórs Laxness og henni hefur verið sýndur margvíslegur sómi og hvergi nokkurs staðar er sneitt að höfundinum með einum eða neinum hætti jafnvel þó erfingjar og Gunnar Haraldsson reyni að halda því fram. Halldór var þó fjarri því óumdeildur í lifanda lífi en sá tími er löngu liðinn. 

Niðurstaða mín er einfaldlega sú að erfingjar Halldórs Laxness þurfa ekki á stuðningi almennings að halda. Lagarökin eiga að duga þeim fullkomnlega enda ekki annað tekið gilt í dómsal. Ritgerðin hans Gunnars Haraldssonar er samt laus við stafsetninga- og málfræðivillur.


Borgarstjóri stjórnar ekki borginni, talar bara

Borgarstjóri fullyrðir að hann hafi ekki vitað af mengunarslysinu í Fossvogi, las bara um það í fjölmiðum að skolp hafi streymt í sjóinn í tíu daga án þess að nokkur vissi nema einhverjir starfsmenn Veitna eða heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Enginn dregur orð borgarstjóra í efa, en þau stækka hreinlega þann vanda sem borgarstjórinn á við að etja. Nú er ljóst að hann virðist ekki hafa neina stjórn á starfsemi borgarinnar. 

Eðli máls vegna eiga embættismenn að tilkynna borgarstjóra um atvik eins og þetta mengunarslys. Hafi þeir ekki gert það er ljóst að borgarstjóri kann ekki eða getur ekki stýrt borginni. Í fræðunum er þetta kallaður stjórnunarvandi.

Sá sem stýrir byggir á því að dreifa valdinu skynsamlega. Engu að síður liggja allir þræðir til borgarstjóra en geri þeir það ekki er hann í vanda, hefur ekki því ekki yfirsýn yfir stöðu borgarmála.

Undanfarin ár hefur borgarskipulaginu margoft verið breytt og í öllum tilfellum var ætlunin að einfalda það eða spara.

Í skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu sem kynnt var árið 2015 segir:

Á undanförnum áratug hefur fjöldi íslenskra fyrirtækja og stofnana gjörbreytt um viðmót og menningu innan sinna veggja og farið úr að vera þunglamalegar afgreiðslustofnanir yfir í fyrirmyndarþjónustufyrirtæki. Önnur hafa hafið þessa vegferð en ekki lokið henni eða gefist upp á miðri leið – líkt og hugsanlega má segja að gerst hafi hjá Reykjavíkurborg.

Sem sagt, lítið gerst hjá Reykjavíkurborg. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, svaraði gagnrýni borgarbúa á lélega þjónustu borgarinnar á þennan hátt í viðtal við Ríkisútvarpið í febrúar 2015:

Alveg hárrétt, og ég held að Reykvíkingar sé þess vegna bara kröfuharðari og svona gagnrýnni og þannig viljum við hafa það. Við viljum vera gott sveitarfélag, veita góða þjónustu, en við tökum líka ábendingum alvarlega og vinnum með þær og erum þannig alltaf að reyna að verða betri og betri.

Svona er nú talið, aldrei farið beint í málin, heldur hringsólað í kringum þau með sennilegum orðum. Degi mælist oftast vel en þegar upp er staðið veit enginn hvað hann er að tala um.

Og þegar skoðanakannanir um þjónustumál sýna slaka útkomu fyrirskipar borgarstjóri að hætt verði að taka þátt í þeim. Þetta er svipað og ef sjúklingur er mældur og í ljós kemur að hann er með hita þá krefst læknirinn að hitinn verið ekki mældur aftur (sko, Dagur B. Eggertsson er læknir að mennt).

Ekki er að furða þó lekandinn í dælustöðinni haldi áfram þegar aginn hjá embættismönnum er lítill og virðingin fyrir embætti borgarstjóra er í lágmarki. Málið er að borgarstjóra, hver sá sem sinnir því, ber að stjórna. Annars er hann óhæfur.

Munið hvernig fór í landsmálunum árið 2013. Samfylkingin var flengd fyrir starf sitt í ríkisstjórn, almenningur varð einfaldlega þreyttur á kjaftavaðlinum sem einkenndi flokkinn svo ekki sé talaðum verkleysið.

Þá tók við önnur ríkisstjórn og í síðustu kosningum var Samfylkingin aftur flengd. Ekki vegna þess að hún hefði átt aðild að stjórninni heldur vegna þess að hún var ekki einu sinni traustsins verð í stjórnarandstöðu. Kjósendur völdu frekar hugsjónalausa Pírata eða gamaldags sósíalista fram yfir tilgerðalega jafnaðarmenn. Þvílík niðurlæging.

Ég þori að veðja að Samfylkingin verði flengd í borgarstjórnarkosningunum eftir tæpt ár. Það er gengur nefnilega ekki að tala sennilega, tala mikið og kjafta sig frá málunum. Væri það hægt væru Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Oddný Harðardóttir og Helgi Hjörvar enn á þingi. Sömu örlög bíða Dags B. Eggertssonar, Hjálmars Sveinssonar og annarra borgarfulltrúa Samfylkingarinnar sem enginn veit hvað heita eða hvað þeir yfirleitt eru að gera.

 

 

 

 

 


Borgarstjórinn ekki til viðtals þegar skolpið flæðir um fjörur

Sjósundsfólk, hundaeigendur og leikskólastjórar eru æfir yfir sinnuleysi borgaryfirvalda um að vara ekki við klóakmengun í fjörunni vegna bilunar í skólpdælustöð við Faxaskjól í Reykjavík. Búið er að gera við dælustöðina til bráðabrigða en óvíst er hvenær varanlegri viðgerð lýkur. Enn er mikið skólp í fjörunni.

piraro-12-30-07Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi og endurtekið á vef stofnunarinnar.

Skolphreinsistöð sem bilar er stórmál enda hafa fjölmiðlar rætt við heilbrigðiseftirlit og Orkuveituna sem ber ábyrgð á fráveitumálum. Enginn veit hins vegar hvar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri er. Hann er eins og hinir Samfylkingarmennirnir sem hverfa þegar eitthvað bjátar á. Sama er að segja með aðra í meirihluta borgarstjórnar, þeir eru týndir.

Ég ætla sko ekki að verja bilaða dælustöð, mætti halda að Dagur, borgarstjóri, segi. Hann lokar símanum og í frí til útlands.

Fyrir einhverjar stórfurðulegar raðtilviljanir ratar borgarstjórinn alltaf inn á fréttasíður fjölmiðla og í mynd sjónvarpsstöðva þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast. 

  • Þegar dælustöð bilar og milljónir lítra af úrgangi dreifast um Fossvog forðar borgarstjóri sér út um bakdyrnar.
  • Þegar framkvæmdir við Miklubraut valda því að gatan er hálflokuð eru embættismenn settir í að útskýra málið.
  • Þegar loka á Geirsgötu og umferðin úr og í Vesturbæ er send um hálflokaða Miklubraut er borgarstjóri eins og aðrir huldumenn, hvergi sjáanlegur. 
  • Þegar upp kemur að gúmmíkurl á fótboltavöllum getur verið skaðlegt íþróttafólki er borgarstjóri í fríi.
  • Þegar Reykvíkingar kvarta hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt bíla eru embættismenn sendir til að bera í bætiflákann, borgarstjóri er ekki til viðtals.
  • Fleira má nefna, af nógu er að taka.

Út af fyrir sig er það sniðugt „PR stunt“ að vera bara í góðu málunum, setja embættismenn í þau vondu. Það gerði Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson fylgir sömu stefnu. Á meðan gróa njólar á umferðagötu, saur og dömubindi nema land í Nauthólsvík.

IMG_9407 - Version 2Stjórnandi borgarinnar er ekki við stjórnvölinn, hann lætur ekki til sín taka og þar af leiðandi segir hann ekki: Nú er komið nóg, þið hafið tvo daga til að gera við dælustöðina.

Nei, nei, nei, nei. Hann lætur embættismann segja að viðgerðin gæti tekið langan, langan, langan, langan, langan ... tíma.

Sýnist að tími borgarstjórnarmeirihlutans sé að renna út.


Steggurinn styggi og brostnir draumar

0J2B0087Vordag einn fyrir mörgum árum sá ég að álftapar var komið í mýrina við veginn. Þau voru eflaust þreytt eftir langt flug til landsins og hugsanlega hefur ferðin ekki verið jafngóð og loftferðalög álfta gera ráð fyrir. Í það minnsta var steggurinn styggur mjög og taldi sig ekki fá þá hvíld þarna við þjóðveginn sem honum fannst þau eiga rétt á. Og svo mikil var þreytan að honum hugkvæmdist ekki að flytja sig spölkorn í burtu, það hefði nefnilega öll breytt um alla framtíð. Má vegar að maki hans hafi verið þreyttari enda lá hún fyrir fyrstu dagana eftir heimkomuna og hann gætti öryggis hennar.

Af og til óku bílar hjá, úr austri eða vestri. Steggurinn styggi réðst að þeim öllum, baðaði út vængjunum og gerði sig eins stóran og hann gat og hrósaði sigri í hvert skipti. Öll flykkin hurfu á braut og hann var bara nokkuð stoltur af árangri sínum en til vonar og vara hélt hann uppteknum hætti, formælti hástöfum á óþýða málinu sínu og ógnaði öllum bílum, gerði engan greinarmun á stærð þeirra, lit eða vélarhljóði. Þessi flykki voru í augum hans öll eins.

Stundum gerði ég mér það að leik að aka hægt framhjá steggnum stygga, þá tiplaði hann áfram á ofurhraða, lóðréttur með útbreidda vængi og reyndi að berja bílinn að utan. Ég flúði virðulega og steggur rak flóttann nokkra metra en snéri svo stoltur við og hélt til spúsu sinnar. Hún hvíslaði því að honum að hann hann væri hugrakkur og hún elskaði hann út af lífinu og brátt myndu þau svo eignast litla fjölskyldu. Gleði hans var taumlaus og hann teygði úr hálsinum eins og hann gat og fylgdist með aðvífandi flykkjum og gerði sig líklegan til árásar. Hann ætlaði að standa undir því að vera hetjan hennar.

Þennan sama dag ók ég til baka og tók eftir því að umferðin var talsvert meiri en áður. Steggurinn styggi hélt samt uppteknum hætti þó liðin væri vika frá heimkomunni. Að öllu jöfnu hefði hann átt að róast og reyna að njóta hvíldar eins og venjulegar álftir gera en má vera að skapið hafi farið illa með hann, stressið eftir flugið og pressan vegna stækkunar fjölskyldunnar hafi ruglað hann í ríminu, í það minnsta skildi hann ekkert í öllum þessum flykkjum sem komu og fóru og létu aldrei ná í sig. Má vera að hann hafi haldið að þau væru öll eitt og hið sama, andstæðingur sem ætlaði að þreyta hann og ráðast til atlögu þegar síst skyldi. Það skal aldrei verða, hugsaði steggurinn styggi, og hljóp í hurðina á bílnum sem var á undan mér og gerði svo atlögu að mínum.

Morguninn eftir fór ég þessa sömu leið og það rigndi, rúðuþurrkurnar slógu hefðbundinn letilegan takt, og landslagið tónaði í dumbungnum, dökkgræn mýrin og ljósi mosakletturinn fyrir ofan. Ég bjóst við meintum andstæðingi mínum en hann lét ekki sjá sig. Makinn hafði flutt sig, sat úti í mýrinni og hengdi haus. Ekki velti ég þessu neitt fyrir mér en þegar ég ók til baka um kvöldið sá ég hvers kyns var. Steggurinn styggi hvíti lá ofan í djúpgrænu, blautu grasinu og hún sat enn við hlið hans. Hann hafði án efa mætt ofjarli sínum er hann réðst til atlögu við flykkið, óvin sinn. Blóð var á hvítum fjöðrum hans, annar vængurinn var útbreiddur og hálsinn snúinn. Greinilegt var að honum hafði verið fleygt af veginum eftir örlagaríka atlögu við einhvert flykkið.

Ég stöðvaði bílinn við vegarkantinn og horfði á ekkjuna sem sat ein með brostna drauma sína. Hún leit upp eitt augnablik og horfði í áttina til mín. Síðan hef ég ekki séð hana en minnist hennar og steggsins stygga þegar ég sé til álfta og þá má vel vera að ég minnist kvæðisins um Svaninn eftir Einar Benediktsson. Í því er þetta erindi:

– En svaninn sjálfan dreymir lífsins draum,
hans dáð og ósk í brögum saman streyma.
Frá náttúrunnar hjartarót þeir hljóma
með hreim af brimi, stormi og fossaglaum.
Hann dúðar sig í dagsins innsta ljóma,
hann drekkur morgunandans fyrsta straum.
Hann loftsins skáld, á hjá sér sjálfum heima
af heilli sál hann kveður hvern sinn óð
- sem bergmál hjartna og hamra á að geyma,
uns heimar gleyma að elska fögur ljóð.


mbl.is Geta barið til bana með vængjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúpínan, vörn gegn gróðureyðingu af mannavöldum

Melar og auðnir eru aðeins vitnisburður um sögu eyðileggingar þurrlendisvistkerfa sem rekja má frá landnámi og til vorra daga.

Þær eru ekki „ósnortin víðerni“ sem okkur ber skylda til að vernda, lofsama, tigna og hampa í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendingum. Þær eru þjóðarskömm. Þær eru okkur til leiðinda og ama.

Þetta segir Aðalsteinn Sigurgeirsson,skógfræðingur, á fésbókinni í dag. Hann er að ræða um afar góða grein eftir Ágúst H. Bjarnason sem sá síðarnefndi birti á vefsíðu sinni í desember 2015 undir fyrirsögninni „Grær allt sem girt er - Hugleiðing um græðslu mela.

Ágúst segir svo í einföldu máli (greinaskil eru mín):

Bágt er að trúa því, að nokkrum heilvita manni sé annt um gróðurlausa láglendis-mela. Í raun og veru hvílir sú skylda á okkur að rækta þá til nytja. Mér er ekki kunnugt um neina þjóð, sem nytjar ekki land sitt af fremsta megni en þó af skynsemd.  

Því miður er það borin von, að melar grói upp af sjálfsdáðum nema á óralöngum tíma, þó að þeir njóti algerrar friðunar. Margsinnis hefur verið sáð í mela og borinn á tilbúinn áburður. Ekki hefur það gefið góða raun.

0J2B9688 - Version 2Venjulega hafa graskenndar plöntur koðnað niður á öðru eða þriðja ári, nema borið sé á reglulega. Það kostar ekki lítið og er álíka raunhæft og mála hús sitt með vatnslitum. Myndun jarðvegs þar er mjög hæg eða nær engin, nema ausið sé áburði. (Ef til vill mætti ná árangri með því að aka mykju á mela, en þá þyrfti 30-40 tonn á hektara.)  

Í annan stað má velta því fyrir sér, hvort dreifing tilbúins áburðar sé í raun í sátt við þá stefnu í umhverfismálum, sem við viljum fylkja okkur um. Auk þess er fullyrt, að innan fárra ára verði mikill skortur á fosfór-áburði og vita menn ekki enn, hvernig bregðast skuli við því.  

0J2B9868Einfaldast og ódýrast er að rækta mel með lúpínu. Innan fárra ára er unnt að planta í melinn með góðum árangri. Á þennan auðvelda og ódýra hátt er unnt að breyta ónýtum flákum í verðmætt land, sem gefur ríkulegan ávöxt. Á 20-40 árum byggist

upp frjósamt jarðvegslag í lúpínu-breiðu, sem tæki innlendar tegundir árhundruð.

 

Hjörleifs þáttur Guttormssonar

Fyrrum þingmaður og ráðherra, Hjörleifur Guttormsson, ritar grein í Morgunblað dagsins og finnur lúpínunni allt til foráttu en fátt til gildis. Hann er einn af þeim sem lofsama, tigna og hampa víðernunum ... og gróðurleysinu

Ágúst hefur áður brugðist við hatrömmum áróðri Hjörleifs gegn lúpínunni. Ágúst segir í áðurnefndri grein sinni: 

Hjörleifur er einn fárra Íslendinga alinn upp í skógi. Því mætti ætla, að hann hefði betri skilning á jarðargróða en flestir aðrir. Því miður sýndi það sig ekki í þá tíð hann sat á þingi (1978-1999) og í náttúruverndarráði (1972-1978), því að þá átti gróður í landinu undir högg að sækja.

0J2B9888Minna má á nokkur atriði:

    1. Uppblástur var í algleymingi og sauðfjárbeit líklega aldrei meiri.
    2. Tilbúnum áburði var dreift úr flugvél yfir gróin heiðalönd (kallað „hagabætur“) og eðlilegri tegundasamsetningu raskað stórlega.
    3. Eiturefni (sams konar og í Vietnam) var notað til þess að eyða kvistgróðri og auka sprettu grasa (sjá meðal annars: http://ahb.is/tofralausnir/).
    4. Ómældu, lítt hreinsuðu fræi erlendra grastegunda var dreift um landið.
    5. Votlendi var raskað með skurðgreftri.
    6. Mólendi var spillt í stórum stíl og lagt undir túnrækt.

Ekki er vitað til þess, að Hjörleifur hafi beitt sér í þessum málum, þegar hann hugsanleg gat haft einhver áhrif. En nú telur Hjörleifur loks, að tími sé kominn til að hefjast handa og leggur hann til „sjálfgræðslu lands“ en umfram allt beri að uppræta lúpínu, sem er í þann  mund að leggja íslenzkt gróðurríki í rúst. – Sannast sagna hljóma þessar tillögur Hjörleifs ekki viturlegar. Það eru til aðrir og hnýsilegri kostir.

Eiginlega er ekkert við þetta að bæta nema það að Guttormslundur á Hallormsstað er nefndur eftir föður Hjörleifs. Þar voru þar gróðursettar 5000 útlenskar lerkiplöntur.

Sumir halda því fram að lúpínan ekki „íslensk“ en gleyma því eða vita ekki að fjölmargar plöntur það líka. Og hvað er eiginlega íslensk planta?

 

0J2B9777

Skógrækt

Ágúst H. Bjarnason dáir ekki lúpínuna vegna litarins eða hversu útbreidd hún er. Hann hampar henni vegna niturframleiðslunnar, efnisins sem skortir svo bagalega í íslenskri jörð að gróður á mjög erfitt uppdráttar. Lúpína framleiðir nitur eða köfnunarefni  og þess vegna þrífst annar gróður betur þar sem hún hefur vaxið. Og það er rangt sem margir halda, að hún víki ekki. Rannsóknir hafa sýnt það mjög skýrlega.

„Vörn“ gegn lúpínu liggur í augum uppi og hún er fólgin í skógrækt. Lúpínan kann ekki við sig í skugga hærri plantna og hörfar því. Kostnaður við skógrækt er margfalt minni en við slátt lúpínu, eitrun eða upprif hennar. Þar að auki verður landið allt miklu fegurra þegar skógrækt er sinnt í lúpínubreiðum.

Gott er að ljúka þessum pistli á annarri tilvitnun í manninn sem vitnað er til hér í upphafi, Aðalstein Sigurgeirsson. Hann lét hafa á eftir sér á fésbókinni:

... að helsta umhverfisógn sem steðjar að Íslandi sé hvorki „framandi, ágengar“ plöntur né fiskeldi í fjörðum Austfjarða eða Vestfjarða. Versta ógnin er landhnignun af mannavöldum. Þeirri landhnignun hefur hins vegar tekist að ávinna sér traustan hefðarrétt í landinu.

Sárgrátlegt að að hugsa sér hversu margir telja auðnir DSC_2146landsins vera hið upprunalegra útlit þess og ekki megi snerta við þeim heldur eigi þau að gróa upp af sjálfu sér á næstu hundruðum ára. Hversu fjarstæðukennd er ekki þessi skoðun?

Myndirnar:

1. Efsta myndin er tekin við Gíslalæk í Kjós

2. Sunnan við Grímsstaði á Fjöllum.

3. Í Langadal á Möðrudalsheiði.

4. Skógræktin við Silfrastaði í Skagafirði.

5. Óuppgræðanlegt Mælifell og illa farið land þar fyrir vestan.

 


Jón Þór Ólafsson, pírati, ertu fífl ...?

FíflÞann 1. desember 2016 fékkstu launahækkun sem kjararáð hafði úthlutað þér. Þú mótmæltir hástöfum og sagðir ekki þörf á að hækka launin. Samt þáðir þú þau.

  • Þú skrifaðir blaðagrein, hótaðir að kæra launahækkunina til forseta Íslands, kjararáðs og formanna þingflokkanna. Þú kærðir engann.
  • Þú sagðist vera búinn að ráða lögfræðing og ætlaðir að kæra ákvörðun kjararráðs til dómstóla. Það hefurðu ekki enn gert.

Frá því að þú mótmæltir launahækkuninni hefurðu fengið á mánuði um 340 þúsund krónur aukalega í laun. Þessi viðbót sem kjararáð skaffaði þér er hærri en fjölmargir kennarar, leikskólakennarar, verslunar og fleiri hafa á mánuði.

Á þeim átta mánuðum sem liðnir eru fra því að launahækkunin tók gildi hefurði hirt rúmar 2,7 milljónir aukalega í laun.

Nú spyr ég: Ertu fífl eða stjórnmálamaður með viti? 

Forseti Íslands mótmælti launahækkuninni en hefur mánaðarlega síðan gefið sömu fjárhæð og laun hans hækkuðu um til góðgerðamála, þegjandi og hljóðalaust.

Fyrir alla muni leiðréttu ef þú mögulega getur. Annars ertu bara einn af þessum kjánum sem koma inn í stjórnmálin, gasprar, ruglar og hverfur svo út í algleymi tímans án þess að marka nein spor sem skipta máli. 

Og hvað er fífl? Það er til dæmis sá sem rífur kjaft út af launahækkun kjararáðs, hótar og inni á Alþingi og utan, hirðir svo launahækkunina og reynir að gleyma öllu saman. Má vera að þetta sé röng skilgreining, hin rétta sé maður sem er falskur, fyrirlitlegur, skíthæll, svindlari ...

Fjölmargir í þjóðfélaginu eru með laun í kringum 338.254 krónur á mánuði, sem launahækkunin þín. Dettur þér virkilega í hug að fólk sé fífl og gleymi þessu?

Til að fyrirbyggja allan misskilning á maðurinn á myndinni ekki að vera Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, né heldur er myndbirtingin til að gera lítið úr manninum. Hann sér um slíkt sjálfur.


VG tapar fylgi nema þingmennirnir séu stöðugt í fjölmiðlum

Þegar Alþingi er í hléi tapa Vinstri grænir fylgi í skoðanakönnunum. Ástæðan er einföld. Þingmenn flokksins eru í fríi og eru ekki í fjölmiðlum eins og þegar þingi stendur yfir.

Allan veturinn líður yfirleitt ekki einn einasti dagur öðru vísi en að þingmenn vinstri grænna nái ekki að troða sér inn í fréttatíma og er það skiljanlegt. Þeir tala í fyrirsögnum en fréttamenn spyrja ekki djúpt um stefnumálin því þau eru svokölluð „réttlætismál“ sem Vinstri grænum smjatta einna helsst á (nema þegar þeir eru í ríkisstjórn).

Þetta á nú eftir að lagast í haust og Vinstri grænir munu þá án efa ná nýjum hæðum í könnunum, rétt eins og Píratar sem í lok mars í fyrra fengu 36% fylgi í skoðanakönnunum en eru nú með „aðeins“ 14%. Skýringin er án efa klofningur í flokknum sem sálfræðingar eru að vinna í að laga. Svo koma kosningar og allt fer lóðbeint niður hjá þessum stórmerkilegu flokkum.

Gallup birtir nýja skoðanakönnun í dag og það vekur einna helst athygli hversu lítil þátttaka er í henni aðeins tæp 57% úrtaksins svara. Kjósendur eru í sumarfríi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband