Skjálftar, spenna og spennulosun í Fagradalsfjalli

Skjálftar, v Grindavík cJarðskjálftarnir í og við Fagradalsfjall austan við Grindavík eru varla fyrirboðar eldgoss. Staðreyndin er einfaldlega sú að á hverju ári verða líklega nærri þrjátíu þúsund skjálftar, flestir frekar litlir. Í fyrra varð ekkert eldgos þó svo að þeir væru þetta margir. Og tíðindalítið hefur verið á þessu ári þó jörðin hafi skolfið ótæpilega víða um land.

Á meðfylgjandi mynd frá Loftmyndum ehf. eru nokkur hundruð jarðskjálftar merktir. Af forvitni skoðaði ég stóru skjálftana sem urðu í gær og í dag, það er þeir sem eru stærri en 3 stig.

Sem leikmanni finnst mér dálítið forvitnilegt að sjá hvernig skjálftar haga sér, hvort mynstur sé sjáanlegt. Í raun er það ekki svo, að minnsta kosti ekki í augum leikmannsins. Hins vegar greina jarðfræðingar mynstur, ekki beinlínis hvar þeir verða, heldur hvernig þeir færast frá einu svæðinu til annars.

Skjálftar, v GrindavíkByrjum á myndinni. Inn á hana hef ég merkt með hvítu letri hvenær jarðskjálftinn varð og gula línan bendir á næsta skjálfta.

Þetta byrjaði allt klukkan tæplega hálf átta í gærmorgun að skjálfti upp á 3 stig varð og tæpum hálftíma síðar varð annar jafnstór norðvestan við þann fyrri. Sem sagt, þarna skalf jörðin fram yfir hádegi. 

Um tvö leytið varð einn stór skjálfti suðvestan við það svæði sem flestir urðu. Sá skjálfti og þeir litlu þýddu einfaldlega að skjálftahrinan var að færst til vesturs, upp á vestanvert Fagradalsfjall. Þar staðnæmdist hrinan, hugsanlega í bili.

Á Reykjanesi eru sex eldstöðvakerfi, eitt þeirra er kennt við Fagradalsfjall. Um miðjan skagann er mjótt belti og þar eru langar sprungur sem hafa norður-suður stefnu. Skjálftar á verða á þessum sprungum og það sem meira er þeir smitast yfir í næstu sprungur og færast þannig til þegar spenna myndast vegna þeirra. Þetta er svona eins og þegar barið er á gler sem liggur flatt á borði. Þar sem hamarinn kemur niður verður brestur og hann losar um þrýsting annars staðar og þar með koma brestir víðar í glerinu.

ReykjanesMunurinn á dæminu er hins vegar sá að barmar sprungna á Reykjanesi færast til við skjálfta, annar barmurinn færist til norðurs en hinn til suðurs.

Þegar miklir skjálftar verða á hryggnum getur virkjast svokölluð „bókahillutektónik“ eins og Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, kallaði fyrirbrigðið. Hann líkir þessu við bæru í bókahillu. Þegar ein bókin hallast rekst hún að aðra og svo koll af kolli þangað til allar bækurnar hafa skekkst.

Sem sagt, á Reykjanesi verður til spenna vegna jarðskjálfta og það þýðir að aftur skelfur jörð annars staðar, spennan losnar en nokkrum kílómetrum austar verður til spenna í jörðu.

Páll hefur látið hafa eftir sér að ólíklegt sé að hugsanlegur stóriskjálfti á Reykjanes sé fyrirboði eldgoss. Líkur benda þó til að gos á þessu svæði verði frekar lítil og standi stutt yfir og séu frekar meinlaus, veltur þó á staðsetningu þeirra.

Á árunum 900 til 1240 urðu mörg lítil hraungos á Reykjanesi. Síðan hefur Reykjanesskagi verið í eldgosafríi.

Stóriskjálfti gæti hins vegar orðið svipaður á stærð og skjálftinn 1968. Margir muna hann sem skell með undirliggjandi drunum. Upptök hans voru í svokölluðu Hvalhnúksmisgengi en Hvalhnúkur er skammt sunnan við Grindaskörð. Þar gæti nýr skjálfti orðið til og jafnvel í misgenginu sem er nokkuð norðar og kennt er við Hrossahrygg.

Það liggur frá því sem næst Geitafelli í suðaustri og norðvestur yfir Bláfjallahrygg. Þar gæti orðið ógnarstór skjálfti sem myndi finnast greinilega á höfuðborgarsvæðinu. Jarðfræðinga hafa raunar þennan stað sérstaklega grunaðan um græsku.

Myndir:

  • Efsta myndin sýnir hreyfingu stóru skjálftanna.
  • Miðmyndin er frá Veðurstofunni og sýnir hvar skjálftarnir eru og hvernig þeir hafa hreyfst til vesturs.
  • Neðsta myndin er frá íslenskum orkurannsóknum og sýnir eldstöðvakerfin á Reykjanesi

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband