Flóðbylgjan, flóðbylgjan, flóðbylgjan, flóðbylgjan, flóð...

170727 pressan, staglEinhver lét hafa það eftir sér fyrir alllöngu að fæstir geti skrifað læsilegan texta nema því aðeins að kunna að lesa. Þetta er dálítið furðulega staðhæfing. Allir vita að þær listgreinarnar lestur og skrift haldast í hendur og eru órjúfanlegar og vart getur neinn skrifað án þess að kunna að lesa. Maður skyldi nú halda það.

Nei, sá sem vitnað er til sagði það bráðnauðsynlegt fyrir þann sem skrifar að lesa, lesa mikið, lesa daglega frá barnæsku. Á æskuárum mótast þekking og færni og sá sem hefur vanrækt lestur á þessu mikilvægasta tímabili ævi sinnar mun ábyggilega eiga erfiðar með að semja ritgerð, sögur eða einfalda frétt fyrir fjölmiðil. 

Þetta datt mér í hug þegar ég las „frétt“ á vefritinu Pressan í dag. Hún fjallar um flóðbylgju á Grænlandi en er af sjáanlegum ástæðum hreinlega óboðleg.

Fjölmiðill er í grunninn ekkert annað en þjónustufyrirtæki, hann býður upp á fréttir rétt eins og önnur bjóða mér tilbúinn mat eða eitthvað annað. Bera má „frétt“ Pressunar saman við veitingastað sem gætir ekki hreinlætis við framreiðslu sína eða verslun sem selur gallaða vöru.

Í „fréttinni“ finnst „blaðamanninum“ sextán sinnum ástæða til að endurtaka sama orðið. Hann virðist ekki kunna að skrifa sig framhjá því, nýta sér stílbrögð til að forðast endurtekningar eða þá að honum er alveg sama. Verst er þó að á ritstjórninni les enginn yfir. Maðurinn fær að setja „fréttina“ á vefinn athugasemdalaust.

- Heyrðu þjónn, í súpunni minni eru sextán flugur, glasið er óhreint og undir disknum eru matarleifar.

TegundastaglLíklega mun heilbrigðiseftirlitið taka á þeim veitingastað sem stendur sig svona illa. Og neytendur myndu forðast hann rétt eins og verslunina sem selur gallaða vöru. Enginn tekur á slæmu málfari fjölmiðla nema „kverúlantar“ úti í bæ.

Pressan gefur út gallað vöru, sóðaskapurinn er mikill. Í þokkabót má gagnrýna annað „jórtur“ eða stagl í þessari stuttu frétt. Sögnin að veita kemur fyrir fjórum sinnum, nafnorðið berghlaup fimm sinnum, lýsingarorðið einstakur þrisvar, vísindamenn fjórum sinnum ... og þá gafst ég upp enda orðið lítið pláss fyrir annað í tuttugu og fimm lína frásögn.

Þegar sama orðið kemur tvisvar eða þrisvar fyrir í stuttum texta er oft talað um „nástöðu“ sem þykir afar slæmt. Átt er við að orðin standi svo nálægt hverju öðru að texti og stíll skaðist.

Aðrir tala um stagl og svo eru þeir til sem kalla þetta jórtur. Aðalatriðið er að þetta er ekki boðlegt, neytendur eiga annað og betra skilið en svona bull.

Myndina má stækka með því að smella á hana.

Eftirskrift

Athugull lesandi benti á aðra „frétt“ á vefritinu Pressan útbíaða í stagli. Hún er eftir sama höfund og samdi þessa um flóðbygljuna. Þarna veltir hann sér upp úr orðinu „tegund“. Öllu má nú ofgera, sagði sá athugli. Undir það er tekið og vart einleikið hvernig höfundinum tekst að leika sér með einstök orð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband