Bloggfærslur mánaðarins, október 2017
Þúsundir hlaupa hlaup og barn gengur á græna kallinum
31.10.2017 | 17:18
Nokkrar athugasemdir um málfar og málnotkun í fjölmiðlum, sumar léttvægar en aðrar verri.
1.
Lawrence sem er ein áhrifamesta kona heims í dag hélt nýlega ræðu í fögnuði fyrir konur í Hollywood sem haldin var af Elle, þar tjáir hún sig um þessa reynslu.
Frétt á pressan.is.
Athugasemd: Ætli blaðamaðurinn hafi ekki óvart skrifað fögnuði í stað fagnaði frekar en að hann hafi ekki vitað betur? Góð regla að láta einhvern annan lesa yfir fyrir birtingu.
Fagnaður merkir veisla, jafnvel partí og visslega kann að vera fögnuður í fagnaði.
Fögnuður er gleði sem er persónubundin. Í veislu getur ríkt fögnuður sem þó er ekki alltaf reyndin.
Greinilegt er að þessi orð eru af sama uppruna og sami maður getur verið feginn að hafa tilefni til að fagna.
Tillaga: Lawrence sem er ein áhrifamesta kona heims í dag hélt nýlega ræðu í fagnaði fyrir konur í Hollywood sem haldin var af Elle, þar tjáir hún sig um þessa reynslu.
2.
Þannig hefst frétt Los Angeles Times í gærkvöldi en Campos er sá sem árásarmaðurinn skaut á hótelinu í Las Vegas áður en hann skaut 58 manns til bana og særði tugi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nástaða er leiðinleg og pirrandi. Hér hefði auðveldlega verið hægt að losna við hana, aðeins að lesa yfir og vera gagnrýninn á eigin skrif.
Tillaga: Þannig hefst frétt Los Angeles Times í gærkvöldi en Campos er sá sem árásarmaðurinn skaut á hótelinu í Las Vegas áður en hann myrti 58 manns og særði tugi annarra.
3.
70.000 hlaupa skemmtihlaup.
Frétt á baksíðu viðskipablaðs Morgunblaðsins 19. október 2017.
Athugasemd: Kjánalegt er að orða það þannig að einhver hlaupi hlaup, skiptir engu hvað hlaupið er kallað.
Tillaga: 70.000 taka þátt í skemmtihlaupi.
4.
Salurinn sprakk, mamman grét og dómararnir misstu það.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Skemmileg fyrirsögn en hvað skyldu dómararnir hafa misst? Þetta er raunar ein furðulegasta fyrirsögn sem um getur og erfitt að skýra skringilegt orðalag.
Tillaga: Salurinn sprakk, mamman grét og dómararnir misstu ... lystina/vatnið/áhugann/lífið/sig (hef ekki hugmynd).
5.
Láti hann verða af því gæti það orðið til að skvetta olíu á eldinn.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er afar undarleg málsgrein og vart skiljanleg. Blaðamenn ættu ekki að skreyta skrif sín með orðatiltækjum, málsháttum eða orðalengingum sem bæta engu við efni frétta. Þess í stað er betra að skrifa nákvæmlega það sem um er að ræða.
Tillaga: Láti hann verða af því gæti hann aukið enn á óróann.
6.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að mennirnir ættu rétt á miskabótum vegna ærumeiðandi aðdróttana sem fælust í ummælunum sem hafa nú verið ómerkt.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Frekar ljótt þegar tvö tilvísunarfornöfn eru í sömu málsgrein, sem fælust og sem hafa . Afskaplega auðvelt er að snúa sig út úr svona bóndabeygju með snyrtilegum punkti.
Tillaga: Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að mennirnir ættu rétt á miskabótum vegna ærumeiðandi aðdróttana sem felast í ummælunum. Þau hafa nú verið ómerkt.
7.
Með sívaxandi fjölda gesta hafði myndast ákveðið spor í spírallaga sneiðing upp hólinn. Fór sporið bæði breikkandi og seig niður.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Spor er far á jörðu eftir fót manna eða dýra. Þar sem sjást mörg fótspor er talað um slóð og það á við í þessu tilviki. Spor er eins í eintölu og fleirtölu en breytist með greini. Af þessu má sjá að málsgreinarnar eru ekki rétt orðaðar. Þetta er þó ekki algilt.
Í norðurlandamálum er spor til sem slóð. Nefna má skispor, skíðaslóð sem er troðin leið fyrir gönguskíðafólk. Búin eru til tvö spor, fyrir sitt hvort skíðið. Í íslensku er sagt að járbrautalest aki eftir spori sínu. Við óhapp kann hún að fara út af sporinu. Sporgöngumaður er sá sem gengur í sömu spor og sá sem leiðir. Hér er bókstaflega átt við spor, ekki slóð. Spor er yfirleitt aldrei notað um göngustíga eða gönguslóð og engin ástæða til.
Spírallaga er tökuorð sem skilst en betra er að nota orðið skáhallt.
Tillaga: Göngufólk hafði myndað slóð skáhallt upp hólinn. Hún seig og breikkaði eftir því sem fleiri gengu þarna um.
8.
Ný og glæsileg Hagkaupsverslun hefur opnað í Kringlunni.
Fyrirsögn í auglýsingu á bls 21 í Morgunblaðinu 28. október 2017
Athugasemd: Hér er spurning til lesandans: Hvað opnaði Hagkaupsverslunin?
Svör skulu send til Finns Árnasonar, forstjóra Haga, en fyrirtækið á og rekur Hagkaupsverslanirnar. Netfangið hjá Finnir er fa@hagar.is. Verðlaun fyrir rétt svar eru ókeypis vöruúttekt í Hagkaupi í heilan mánuð ... nei, heilt ár!
Tillaga: Ný og glæsileg Hagkaupsverslun opnuð í Kringlunni..
9.
Þáttaröðin gerist í djúpri sjöu þegar hugtakið fjöldamorðingi er óþekkt og almennt er gert ráð fyrir því að morðingjar, fjöldamorðingjar og nauðgarar séu einfaldlega fæddir brenglaðir.
Úr dálkinum Ljósvaki á bls.64 í Morgunblaðinu, 28. október 2017.
Athugasemd: Hér er vísað í þátt á Netflix sem höfundur pistilsins segir að gerist í djúpri sjöu Það skilst alls ekki. Sé verið að vísa til tímabils þá stenst það ekki því þáttaröðin á að hafa gerst á níunda áratug síðustu aldar.
Síðar í pistlinum segir:
Heilt á litið er þáttaröðin frábær og Ljósvaki mælir hiklaust með binge-áhorfi fyrir þá sem ekki nenna að fylgjast með kosningunum um eina ferðina enn.
Hvað er þetta binge-áhorf? Er höfundurinn að slá um sig með tæknilegri tilvísun eða áttar hann sig ekki á því hvað hann er að skrifa og fyrir hverja. Grundvallarregla blaðamanns er að skrifa skiljanlega, upplýsa lesandann. Um þetta má svo sem deila því til hvers að einfalda hlutina þegar svo auðvelt er að flækja þá.
Tillaga: [Engin tillaga]
10.
En sannleikurinn er hann var að ganga yfir á græna kallinum. Hún sá hann ekki og það varð til þess að þegar hún beygði inn á gangbrautina klessti hún á Kára.
Úr frétt á pressan.is.
Athugasemd: Í skelfilega illa skrifaðri frétt er þessa tilvitnun að finna. Á umferðaljósi við gangbraut er mynd af manni. Börn tala um græna eða rauða kallinn. Þannig læra þau hvenær megi ganga yfir.
Fullorðnir mega svo sem tala barnamál. Hins vegar þurfa blaðamenn að laga og leiðrétta málvillur viðmælandans þegar fréttin er skrifuð. Ekki er öllum gefið að vera blaðamaður og kunna að skrifa frétt.
Ökumaðurinn klessti á Kára. Svona orðalag er ekki bjóðandi. Bíl er ekki klesst á gangandi vegfaranda. Má vera að hægt sé að klessa flugu en ekki fólk ... að minnsta kosti er þetta afar óviðeigandi orðalag. Blaðamaður sem áttar sig ekki á þessu er í röngu starfi.
Tillaga: Sannleikurinn er sá að hann gekk yfir á grænu ljósi. Hún sá hann ekki og ók á því Kára á gangbrautinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áhugaverðar ekki-fréttir úr íslenskri pólitík matreiddara sem naglasúpa
30.10.2017 | 21:11
Að gefnu tilefni flögrar stundum sú hugsun að þeim sem hér hamrar á lyklaborð hvort ritstjórnir fjölmiðla haldi að við, neytendur þeirra, séum kjánar. Aftur á móti kunna dæmin að sanna þá einföldu staðreynd að við lesendur séum síst af öllu kjánar en þeir sem starfa á ritstjórnunum sé það miklu frekar. Að minnsta kost þarf að krefjast meiri hugsunar af þeirra hálfu.
Leikskólinn
Rétt upp hönd sem telur sig geta starfað með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, kallaði annar stjórnanda umræðuþáttar með formönnum flokkanna kvöldið fyrir kjördag.
Þetta gerðist í upphafi þáttarins. Fleiri en ég fengu gæsahúð, grænar bólur og kjánahroll, allt í einum pakka.
Þvílík steypa og rugl. Engin virðing fyrir flokksformönnunum heldur er bókstaflega komið fram við þá eins og börn. Og síst af öllu er okkur, áhorfendum sýnd tilhlýðileg virðing.
Stjórnmálafræðingurinn
Hvað sérðu í stöðunni eftir þessar niðurstöður í kosningunum, Eiríkur Bergmann, spyr blaðamaður og/eða fréttamaður stjórnmálafræðinginn, og horfir bláeygur á hann eins og sá Bergmann sé véfréttin, spádómskall sem rýnir í kristalskúlu, spil eða kaffibolla og sér þar framtíðina skráða með orðum eða í myndum.
Bergmann svarar eins og hann er spurður, ekkert gáfulegar heldur en ég hefði gert í sporum hans, leikskólakennari, hjúkrunarfræðingur, bílstjóri, sundlaugarvörður, blaðamaður eða einhver annar sem fylgist með fréttum. Svarið kemur alls ekkert á óvart því stjórnmálafræðingurinn kann að giska eins og við hin.
Stjórnmálafræðingar sjá ekki fram í tímann. Þeir vita ekkert meira heldur en blaðamenn eða -fréttamenn og alls ekkert meira en ég eða þú, ágæti lesandi. Samt eru stjórnmálafræðingar spurðir um hið óorðna og allir vita hvað þeir vita ekki.
Ekki er svo ýkja langt síðan blaðamenn eða fréttamenn settu sjálfir saman það sem þeir vilja núna hafa eftir einhverjum öðrum. Fyrir vikið lengjast fréttir í fjölmiðlum en innihaldið verður því miður ekkert merkilegra, meiri líkur eru á því að innihaldið verði álíka rýrt og þurrkuð marglitta.
Íhugum flesta er ekki hægt að sívinna sömu fréttina. Innihaldið tæmist fljótar en margir blaða- eða fréttamenn halda. Í kjölfarið er ekki sagt frá öðrum og merkilegri atburðum, til dæmis úti í heimi.
Eftir kosningar
Raunar er takmörkuð hugsun margra fjölmiðlamanna slík að maður veltir því fyrir sér hvers vegna atburðurinn þegar þeir urðu fyrir höfuðhögginu hafi ekki komið í fréttum.
Í langflestum tilvikum er ekki hægt að spyrja formann stjórnmálaflokks hvernig ríkisstjórn hann vilji mynda vegna þess að þeir hafa af praktískum ástæðum ekki leitt hugann að því, geta það ekki. Þar að auki eða kannski þess vegna fara menn varlega í yfirlýsingum.
Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að blaðamaðurinn spyrji hvort stjórnmálamaðurinn hafi átt fund með einhverjum úr öðrum flokkum í því skyni að mynda ríkisstjórn.
Á meðan fylgist enginn með því hvað óbreyttir þingmenn eru að gera. Þeir gætu verið í miklum stjórnarmyndunarviðræðum meðan formaðurinn segist ekkert vita. Og hugsanlega veit hann ekkert hvað samflokksmenn hans eru að bralla. Fjöldi dæma eru um þingmenn sem hafi unnið að myndun ríkisstjórnar í felum og loks þegar rétti tíminn er kominn á flokksformaður auðveldar með að láta hendur standa fram úr ermum.
Ríkissjónvarpið
Hversu leiðinlegt er ekki að horfa á ríkissjónvarpið eyða fimmtán mínútum í að fylgjast með hverjum flokksformanninum á fætur öðrum ganga á fund forsetans og spjalla um hvern þeirra rétt eins og einhver tíðindi hafa verið að gerast. Ég hefði getað sagt þessu fólki að ekkert fréttnæmt hafi gerst á þessum fundi formanna með forsetanum. Þar var allt fyrirsjáanlegt. Svo kom það líka á daginn að allir flokksformennirnir gátu engu svarað öðru en með loðnum yfirlýsingum, næstum því út í bláinn.
Samt stóð skeggjaður fréttamaðurinn út í myrkrinu á Bessastöðum, nokkrum klukkustundum að tjaldið hafði verið dregið fyrir, sýningar á einþáttungum dagsins lauk. Hann endurtók allt, sagði ekkert og var eiginlega frekar andlaus. Hins vegar vantaði ekki að hann var afar áheyrilegur og sagði frá engu á einstaklega eftirtektarverðan máta.
Ágæti lesandi. Svona er naglasúpa matreidd. Fréttamenn á Ríkissjónvarpinu og Stöð2 eru að verða afar duglegir í svokölluðum stand-upp sem skila engu annað en að sýna skeggvöxt eða fatnað ungmennanna.
Er ekki kominn tími til að fjölmiðlarnir skoði fréttastefnu sína með gagnrýnum augum og reyni að segja fréttir af einhverju í stað þess að tuða um ekkert?
Á meðan á þessu öllu stóð gerðist ýmislegt í erlendum fréttum. Carles Puigdemont hefur flúið Katalóníu vegna ákæru um landráð, Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump, og viðskiptafélagi hans hafa verið ákærðir vegna samskipta við Rússa, snælduvitlaust veður var í dag í Evrópu og Kim Jong-un og Ri Sol-ju, hinn stórkostlegi leiðtogi Norður-Kóreu og kona hans, skoðuðu snyrtivörumarkað í Norður-Kóreu við dynjandi lófaklapp og hvatningahróp alþýðu manna.
Sko, það er nóg að frétta. Rétt upp hönd sem nennir ekki að fylgjast með engum fréttum úr íslenskri pólitík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einsmálsörflokkar eiga ekkert erindi í pólitík
27.10.2017 | 22:05
Satt að segja er kominn tími til að kjósendur víki þessum litlu, einsmálsflokkum til hliðar. Þeir hafa ekkert fram að færa nema eitt mál og láta sem það skipti öllu fyrir samfélagið.
Viðreisn er svona dæmigerður einsmálsflokkur. Gamlir sjálfstæðismenn í honum halda því fram að hann sé jafnaðarmannaflokkur sem í sjálfu sér skiptir litlu. Aðalatriðið er að þeir vilja koma Íslandi inn í ESB. Halda því fram að allt sem miður hefur farið á Íslandi muni þar með lagast sjálfkrafa. Þetta er tóm vitleysa. Hið eins sem þessi flokkur hefur áorkað er að draga úr fylgi Sjálfstæðisflokksins.
Björt framtíð var hjáleiga Samfylkingarinnar, nokkurs konar banki sem geymdi í eitt ár atkvæði fyrir hákotið. Nú heimtar flokkurinn atkvæðin til baka og fagnar, heldur að hann stefni í kosningasigur.
Píratar eru óþægir vinstri sósíalistar sem nenna ekki að vera með Vinstri grænum sem eru orðnir hálfkapítalistar, ganga í hvítri skyrtu og bindi dags daglega, og konurnar klæðast fallegum fötum og mála sig eins og píur í Heimdalli. Nú hefur helmingur Pírata fengið nóg og fer heim í sósíalið, setur upp bindi og kellurnar mála sig. VG heldur að flokkurinn stefni í kosningasigur.
Fyrir alla muni. Leggjum niður Bjarta framtíð, Pírata, Viðreisn og Flokk fólksins, þessa flokka sem eiga ekkert erindi í íslenska pólitík og hafa ekkert lagt til annað en upplausn og leiðindi.
Kjósendur geta lagt niður þessa flokka með því að kjósa aðra flokka. Fjórflokkurinn hefur reynst ágætlega.
Beygði af í beinni útsendingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Allir eiga rétt samkvæmt lögum, líka skíthælar
18.10.2017 | 13:36
Harlem Désir, fulltrúi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Öse, hefur fengið rangar upplýsingar frá vinum sínum hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa ekki lagt neinar hömlur á umfjöllun fjölmiðla um viðskipti forsætisráðherra í aðdraganda efnahagshrunsins.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu mat það svo að ástæða sé að leggja lögbann á birtingu upplýsinga sem koma úr þrotabúi Glitnis. Menn geta deilt um það og gera. Hins vegar geta önnur stjórnvöld ekki gripið fram fyrir hendurnar á embætti sýslumannsins. Sem betur fer.
Lögbann er vissulega ákveðið inngrip í daglegt líf en það virkar á báða vegu. Grundvallaratriðið er að ósk um það sé rökstutt með tilvísun í lög. Teljist rökin sannfærandi er eðlilega orðið við því.
Hins vegar má líka deila um það hvort þrotabú Glitnis geti verið formlegur aðili málsins. Lögbrot hefur ekki enn verið framið. Þegar það hefur gerst er spurningin sú hvort Glitnir geti þá verið lögformlegur aðili að málinu umfram aðra. Veigamikil rök benda til þess að svo sé ekki. Aðalatriðið eru þeir sem eru nafngreindir í umfjöllun fjölmiðilsins sem birtir þau.
Forsætisráðherra hefur tjáð sig mjög skýrt um stöðu sína. Hann leggst gegn lögbanninu.
Hvaða stjórnvöld eiga síðan að fara að vilja fulltrúans hjá ÖSE? Á Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu að afturkalla lögbannið? Nei, það getur hann ekki, málið er bókað og frágengið, því verður ekki breytt eftir á.
Á ríkisstjórnin að skerast í leikinn og banna lögbannið? Nei, það getur hún sem betur fer ekki, til þess eru ekki lögformlegar leiðir jafnvel þó hún vilji.
Fulltrúi ÖSE verður að gera sér grein fyrir því að nú er komið í gang formlegt ferli sem krefst þess að þrotabú Glitnis þarf að höfða mál innan viku til að fá lögbannið staðfest. Þetta er hin lýðræðislega leið sem er farin hér á landi sem og í þeim löndum sem við köllum vestræn.
Vissulega er málfrelsi og frelsi einstaklinga hornsteinn lýðræðisins. Þar með geta einstaklingar og fyrirtæki þeirra varið sig gegn fjölmiðlum rétt eins og fjölmiðlar geta varið sig gegn þeim sem að þeim sækja. Takmarkanir á lögbanni í því skyni að upphefja einn á kostnað annarra getur aldrei gengið upp. Fjölmiðill hefur engan rétt umfram einhvern einstakling í þjóðfélaginu
Jafnvel skíthælar eiga sinn rétt og hann er nákvæmlega jafn mikilvægur og réttur góða fólksins. Þess vegna getur fyrirbæri eins og Stundin þrifist því enginn lög banna skítlegt eðli.
Vill að stjórnvöld afturkalli lögbannið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þegar kjósendur voru afvegaleiddir
18.10.2017 | 10:06
Ég hef nú sannreynt að fyrir kosningarnar vorið 2009 hafi verið ákveðið í þröngum hópi forystu VG og Samfylkingarinnar, næðu flokkarnir þingmeirihluta, að sækja um aðild að ESB og samþykkja Icesave, skilgetið afkvæmi ESBumsóknarinnar.
Sannleikanum var haldið frá mér og ótal fleirum í aðdraganda kosninganna. Ég var afvegaleiddur og afvegaleiddi kjósendur í Suðurkjördæmi. Ég harma það og biðst afsökunar.
Þetta sagði Atli Gíslason, þáverandi þingmaður, í viðtali við DV fyrir rétt tæpum sex árum, sjá hér.
Atli sá hvað gerðist, uppgötvaði baktjaldamakkið hjá Vinstri grænum og Samfylkingunni. Hann áttaði sig á því að tilgangurinn varað afvegaleiða kjósendur.
Vinstri grænir eru með nokkurn veginn sömu leiðsögumennina á þingi. Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir og fleiri sáu um reyna að leiða þjóðina inn í ESB.
Þjóðin refsaði Samfylkingunni fyrir gerðir hennar á ríkisstjórnarárunum 2009 til 2013 og felldu helstu forystumenn hennar af þingi. Þeir eru þó enn í bakherbergjum og stunda sitt baktjaldamakk.
Atli Gíslason hætti í Vinstri grænum, hann baðst afsökunar á gerðum sínum í VG. Ekki einn einasti þingmaður Samfylkingarinnar hefur beðist afsökunar og eru þó nægar ástæður til.
Vill styrkja félagslegu stoðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar Katrín Jakobsdóttir seldi stefnu VG fyrir ráðherrrasæti
16.10.2017 | 09:52
Okkar niðurstaða í VG hefur verið sú að þegar vegnir eru saman kostir og gallar, þær fórnir sem færðar væru í þágu aðildar að Evrópusambandinu og það framsal á lýðræðislegu ákvarðanavaldi sem færi þar með úr landinu, væri sú takmörkun fullveldis og samnings- og sjálfsákvörðunarréttar of dýru verði keypt
Þetta sögðu Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir, í grein í Morgunblaðinu 28. júlí 2009 um hugsanlega aðild að ESB. Ári síðar stóðu þau tvö ásamt hluta af þingflokki VG að því að samþykkja þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í sambandið. Vinstri grænir seldu skoðanir sínar í Evrópumálum fyrir ráðherrasæti.
Fyrir vikið klofnaði flokkurinn illilega en merkilegast er þó hvernig forystumenn hans reyndu að réttlæta stefnubreytinguna. Þá birtist hjá þeim yfirgangur og hroki sem lýst er afar vel í bók Jóns Torfasonar, Villikettirnir og vegferð VG.
Steingrímur á MÓTI aðild að ESB
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 24. apríl 2009, kvöldið fyrir þingkosningarnar 2008, sagði Steingrímur um ESB aðild:
Við erum andvíg aðild að Evrópusambandinu. [ ] Við höfum nú frekar fengið orð fyrir að vera stefnufastur flokkur og ekki hringla mikið með okkar áherslur.
Steingrímur MEÐ aðild að ESB
Þann 16. júlí 2009 greiddi Steingrímur J. Sigfússon atkvæði þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvað varð um hinn stefnufasta flokk? Formaðurinn ákvað að hafa stefnu flokks síns að engu, ráðherrasætið skipti hann öllu.
Katrín Á MÓTI þjóðaratkvæði um ESB
Í umræðum um aðild að Evrópusambandinu á þingi sagði Katrín Jakobsdóttir þetta:
... komi samningur sem hægt verði að vísa til íslensku þjóðarinnar þannig að hún komi að þessu máli, þannig að hún fái það á hreint hvað felst í þessari aðild.
Katrín vissi greinilega ekkert hvað felst í aðildarumsókn að ESB. Hún átti að vita að einungis er boðið upp á aðlögunarviðræður á grundvelli Lissabonsáttmálans.
Katrín MEÐ þjóðaratkvæði um ESB
Í viðtali við Stundina 3.-13. mars 2016 hefur Katrín komist að allt annarri skoðun um þjóðaratkvæði um inngöngu í ESB. Í því segir hún:
Við hefðum átt að leita eftir stuðningi þjóðarinnar áður en lagt var upp í þennan leiðangur.
Tæpum sjö árum eftir að Katrín samþykkti aðildarumsókn að ESB ásamt meirihluta þingmanna VG fær hún bakþanka og telur nú að ákvörðun sín og Vinstri grænna hafi verið röng.
Steingrímur MEÐ þjóðaratkvæði um ESB
Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands að ESB. Um hálfu ári áður, á flokksráðsfundi Vinstri grænna 7. desember 2008, var Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagði þetta í viðtali við Fréttablaðið daginn eftir fundinn:
Ég er bjartsýnn á það að þjóðin muni þá strax hafna því að ganga í Evrópusambandið.
Steingrímur Á MÓTI þjóðaratkvæði um ESB
Í umræðum um tillögu Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB þann 16. júlí 2009 sagði Steingrímur:
Þessi tillaga sjálfstæðismanna og röksemdafærsla hefur tvo stórfellda ágalla. að það kæmi í veg fyrir það að þjóðin léti strax sitt álit í ljós eftir að aðildarsamningi hefði verið landað að undangenginni kynningu og umræðu og tefði það að þjóðin gæti sagt sitt orð ...
Steingrímur fór vísvitandi með rangt mál enda ráðherrastóll í húfi. ESB semur ekki við umsóknarríki nema um tímabundnar undanþágur frá Lissabonsáttmálanum.
Átta árum síðar
Rúmlega átta ár eru nú síðan Alþingi samþykkti aðild að Evrópusambandinu án þess að spyrja þjóðina álits. Þáverandi ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðust af offorsi gegn því að leggja umsóknina í þjóðaratkvæði.
Í óútskýranlegum hrossakaupum keypti flokkurinn sér ráðherrastóla í reykfylltum bakherbergjum, samkvæmt því sem fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, segir.
VG vonar að allt sé gleymt
Strax eftir kosningarnar 2013 hljóp Steingrími J. Sigfússyni úr formannssætinu. Hann þótti ekki með góðan kjörþokka. Nýr formaður, Katrín Jakobsdóttir, þykir laglegri, brosir út í bæði og talar í mildilegum fyrirsögnum. Hún virðist græskulaus stjórnmálamaður, en ekki er allt sem sýnist eins og berlega kemur fram í þessari grein. Hún seldi skoðanir sínar fyrir ráherrastól.
Þrátt fyrir nýjan formann eru Vinstri grænir sami flokkurinn og áður. Steingrímur vofir enn yfir eins og afturganga í þjóðsögunum. Hann andar Garún, Garún í hnakka formannsins sem lætur sér vel líka. Á prikum eru hinir haukarnir, Svandís Svavarsdóttir, Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og fleiri og fleiri sem þekkt eru fyrir að brosa aldrei nema þegar einhverjum verður það á að meiða sig.
Hefur þjóðin gleymt svikum VG?
Vill þjóðin færa þessum sama flokki stjórn landsmála aðeins fjórum árum eftir að hann hrökklaðist frá völdum eftir hrakfarir í Icesave, ESB, skuldamálum heimilanna og ótal fleiri málum?
Ekki nokkur maður getur treyst því að Vinstri grænir ætli sér að standa við stefnuskrá sína.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 16. október 2017.
Kyrkislanga barðist við mann og afgreiðslukassinn sem frosnaði
12.10.2017 | 14:41
Hér eru nokkrar athugsemdir við málfar í fjölmiðlum og víðar upp á síðkastið.
1.
Árangurslaust fjárnám var síðast gert í Pressunni og DV 17. ágúst síðastliðinn.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Orðaröð í setningu skiptir miklu. Í ofangreindu segir máltilfinningi atviksorðið síðast ætti eigi að fylgja dagsetningunni. Svo er það álitamál hvort fjárnám sé gert hjá einhverju fyrirtæki eða í því.
Tillaga: Árangurslaust fjárnám hjá Pressunni og DV var síðast gert 17. ágúst síðastliðinn.
2.
Stjórnvöld eyjaklasans segjast ekki vilja taka neina áhættu og hafa því farið fram á að allir 11 þúsund íbúar eyjunnar Ambae flýi við fyrsta tækifæri. Stjórnvöld munu leggja til báta við björgunina en búist er við að aðgerðirnar gætu staðið yfir til 6. október.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Nástaða er æpandi sérstaklega þegar auðvelt er að skrifa framhjá henni. Vanuatu er sjálfstætt ríki, þar er lýðræðislega kjörið þing og ríkisstjórn sem væntanlega er hluti af stjórnvöldum.
Tillaga: Ríkisstjórn eyjanna segjast ekki vilja taka neina áhættu og hafa því farið fram á að allir ellefnu þúsund íbúar eyjunnar Ambae flýi við fyrsta tækifæri. Stjórnvöld munu leggja til báta við björgunina en búist er við að aðgerðirnar gætu staðið yfir til 6. október.
3.
Búið er að hækka viðvörunarstigið á eyjunni sem stendur nú í fjórum stigum af fimm. Hæsta stigið gerir ráð fyrir meiriháttar eldhræringum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hér er birt orðið eldhræringar sem er alls ekki neitt nýyrði, ekki ólíkt orðinu jarðhræringar. Orðið hræra þýðir að hreyfa, nefna má hræra í potti og hrærivél. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri, segir í fögru ljóði Einars Sigurðssonar frá Heydölum, sem nefnist Nóttin var sú ágæt ein og er sungið um hver jól við lag Sigvalda Kaldalóns.
Af samhenginu má ráða að enginn hrærir í eldi á Ambae eyju í Vanatu eyjaklasanum. Ekki frekar en að jarðhræringar eru af mannavöldum. Þessi tvö orð eru lík og eiga við um jarðfræðileg fyrirbrigði, skjálfa og eldgos.
Tillaga: Engin tillaga, góður texti.
4.
Því miður, afgreiðslukassinn frosnaði.
Afgreiðslustúlka í ónefndri verslun.
Athugasemd: Ég var úti í búð og stúlkan sem ætlaði að taka við greiðslunni sagði þetta. Til hliðar var annar afgreiðslukassi og ég benti henni á að við gætum flutt okkur að honum og klárað viðskiptin. Nei, sagði stúlkan kurteislega og brosti fallega: Þegar einn kassi frosnar þá frosna allir hinir líka.
Í hvert skipti sem hún sagði frosnaði, frosnar eða frosna, sagði ég fraus, frýs og frjósa í réttu samhengi, en brosti bara og flissaði yfir framhleypni minni. Og loks hrökk upp úr henni við síðustu leiðréttinguna: Já, eða það
Raunar fraus afgreiðslukassinn ekki heldur forritið í honum eða tengingin við móðurtölvuna. Engu að síður er það ábyggilega ekki rangt að segja kassann hafa frosið - sérstaklega ef fallegt bros fylgir.
Tillaga: ... en sú andskotans óheppni, kassinn fraus.
5.
komst ég á þá skoðun að sú hegðun sem Mark viðhafði hjá Bristol City
Frétt á bls. 4 í íþróttablaði Morgunblaðsins 4. október 2017.
Athugasemd: Varla getur verið rétt að segja að einhver viðhafi ákveðna hegðun. Hér þarf að umorða tilvitnaða setningu. Auðsjáanlega er þetta þýddur texti sem ekki hefur verið unninn nægilega vel.
Tillaga: komst ég á þá skoðun að hegðun Marks hafi ekki verið
6.
Kvika væntanlega falið að selja Lyfju aftur.
Fyrirsögn á bls. 2 í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 5. október 2017.
Athugasemd: Helst dettur manni í hug að mistök hafi orðið og nafnið Kvika óvart sett í nefnifall í stað þágufalls. Hins vegar vita fæstir dauðlegir hvaða reglum nöfn í íslensku viðskiptalífi lúta.
Kvika kvenkynsnafnorð og fallbeygist svona í eintölu: Kvika, kviku, kviku, kviku.
Merking orðins er hreyfing eða iða, getur þýtt bráðið berg, ókyrrð í lofti og öldugangur eða iða í sjó og jafnvel meira.
Tillaga: Kviku væntanlega falið að selja Lyfju aftur.
6.
Tæplega átta metra löng kyrkislanga sem barðist við mann á dögunum
Frétt á pressan.is.
Athugasemd: Pressan fer oft illa með íslenskuna. Fréttin um kyrkislönguna er furðuleg, í henni segir: Maðurinn sem sigraði slönguna í bardaga slasaðist illa og Þegar þorpsbúarnir voru búnir að bera slönguna augum .
Venjulegast er það þannig að menn berjast við dýr, ekki öfugt. Þau ráðast á fólk ekki til að verða sér út um góða snerru heldur eru þetta annað hvort varnarviðbrögð dýra eða þau telja fólk vera vænlegan málsverð. Algengt er að menn berjist hvorir við aðra en sjaldgæfara að þeir reyni sig við dýr.
Blaðamanni verður það á að tala um að bera einhvern augu en á eflaust við að berja einhvern augum.
Tillaga: Maður berst við átta metra langa kyrkislöngu
7.
Rannsakendur Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hittu breskan fyrrverandi leyniþjónustumann sem samdi skýrslu um tengsl Rússa og Donalds Trump í sumar.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Af hverju að orða málin á einfaldan hátt þegar svo auðvelt er að flækja þau? Þetta er grundvallarspurning í blaðamennsku. Held ég.
Rannsakendur rannsakandans Hvað er eiginlega að gerast? Er er verið að rannsaka þennan Mueller eða eru fyrrnefndu rannsakendurnir starfsmenn síðarnefnda rannsakandans?
Þetta minnir á brandarann um njósnara KBG í gömlu Sovétríkjunum og ótta Stalíns um að þeir stæðu sig ekki nógu vel og því þyrfti að njósna um þá. Á kaldsstríðsárunum var sagt að í Ungverjalandi gengu lögreglumenn alltaf þrír saman. Einn sem kunni að lesa, annar sem kunni að skrifa og sá þriðji þurfti að hafa auga með þessum andskotans menntamönnum.
Tillaga: Starfsmenn Roberts Muellers, saksóknara dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna
8.
KR-ingar áttu ás upp í erm(ól)inni.
Fyrirsögn á bls. 2 í Íþróttablaði Morgunblaðsins 6. október 2017.
Athugasemd: Einn leikmanna KR í körfubolta heitir Pavel Ermolinskij og var lykilmaður þegar spilað var við Njarðvíkinga.
Fátt er hallærislegra en lélegir orðaleikjabrandarar í fjölmiðlum ekki síst í fyrirsögnum. Þessi geigar algjörlega enda svo langsóttur og barnalegur að fæstir nenna að lesa. Góð regla í blaðamennsku er að skrifa hreint mál, sleppa skrúði og flækjum.
Tillaga: Pavel var frábær á móti Njarðvíkingum.
9.
Finnskur ísbrjótur mættur.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Dauðir hlutir rata ekki án íhlutunar manna og því afar lélegt að segja að ísbrjótur hafi mætt á einhvern stað. Hann kom til hafnar, sigldi þangað, lagðist að bryggju, eins og raunar kemur fram í fréttinni.
Tillaga: Finnskur ísbrjótur kominn.
10.
Jóhannes gerði góða hluti með HK á leiktíðinni og hafnaði liðið í 4. sæti í 1. deildinni.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hafi Jóhannes gert góða hluti má þá gerta ráð fyrir að hann hafi staðið sig vel? Sé svo er ekkert að því að segja það þannig. Maðurinn stóð sig vel sem þjálfari.
Rétt er að segja að liðið hafnaði í þessu sæti. Hins vegar er sagnorðið að hafna frekar ofnotað og ekkert að því að segja og skrifa að liðið hafi lent í fjórða sæti. Mikilvægt er að breyta til, tjá sig á allan mögulegan hátt.
Tillaga: Jóhannes stóð sig vel hjá HK á Íslandsmótinu og lenti liðið í 4. sæti í fyrstu deildinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.10.2017 kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er réttlát reiði frétt en lygafrétt ekki?
11.10.2017 | 14:37
Hvað er að því þótt menn fyllist réttlátri reiði? Ekkert, alls ekkert.
Trúnaður á ritstjórn Fréttablaðsins er svo slakur að þar inni lúta sumir svo lágt að leka frétt til keppinautarins um atburð innandyra.
DV, Pressan og Eyjan reka harðan áróður gegn Sjálfstæðisflokknum. Þar þykist menn hafa himinn höndum tekið þegar einhver fullyrti í eyru fréttabarnanna þar að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hafi reiðst blaðamanni á ritstjórn Fréttablaðsins fyrir rangan fréttaflutning á vefnum visir.is.
Nú telst það frétt að Bjarni hafi reiðst, en reynt er að sneiða framhjá því að visir.is hafi farið með rangt mál. Hér eru endaskipti höfð á hlutunum.
Róginn sem rekja má til ritstjórnar Fréttablaðsins og visir.is og birtur er á dv.is er pólitísk árás. Ekkert annað. Tilgangurinn er að gera lítið úr Bjarna Benediktssyni i þeirri von að æ færri kjósi Sjálfstæðisflokkinn.
Allt skynsamt fólk hlýtur að sjá í gegnum svona áróður. Hann byggist á því sama og var lætt svo ísmeygilega að fólki fyrir nokkrum vikum, að Sjálfstæðisflokkurinn verndaði barnaníðinga. Um leið var talað um leyndarhyggju og ólýðræðislegar aðgerðir til að hrekkja almenna borgara.
Hin blákalda staðreynd er sú að enginn væri að bera bull á borð landsmanna nema vegna þess að sumir eiga það til að falla fyrir honum. Þá er hinum pólitíska tilgangi náð og það vita rógberarnir. Þetta eru almannatengsl með skítlegum formerkjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Áróður gegn Bjarna Benediktssyni vegna kosninganna
10.10.2017 | 11:20
Stundin og breska blaðin The Guardian birtu fyrir viku ávirðingar á forsætisráðherra sem reyndust tóm vitleysa og rugl. Því var haldið fram að Bjarni Benediktsson hafi haft innherjaupplýsingar úr Glitni og getað þar af leiðandi komið fé sínu í skjól. Annað hvort voru þetta ekki innherjaupplýsingar eða Bjarni Benediktsson sé svo skyni skroppinn að hann nýtti ekki tækifærið og flutti fé sitt úr bankanum. Þess í stað hafði komið í ljós að hann flutti féð úr einum sjóði í annan í bankanum. Og bankinn fór á hausinn.
Afar auðvelt er að gera þetta tortryggilega sem og hversu mikið fé Bjarni hafi umleikis og það hefur verið miskunarlaust gert, teygt, togað og sett á hvolf.
Menn geta reynt að sverja af sér einhverjar annarlegar hvatir vegna birtingarinnar. Staðreyndin er einfaldlega sú að búið var að efna til kosninga og birtingin olli Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum vandamálum. Það sést best á skoðanakönnunum.
Auðveldara er að setja fram ásakanir en að verjast þeim, sérstaklega í pólitísku umhverfi.
Þetta veit ritstjórn Stundarinnar og blaðamaður The Guardian.
Þetta lið fer fram eins og Richard Nixon forðum daga þegar hann notaði ruddalegar yfirlýsingar til að berja á pólitískum andstæðingum sínum. Hann sagði einfaldlega: Let the bastard deny it, láttum helvítis manninn neita þessu. Ertu hættur að berja konuna þína? er dæmi um gildishlaðna spurningu sem útilokað er að svara án þess að eyðileggja mannorð sitt.
Mörgum þótti Nixon ekki merkilegur forseti og þeir spurðu: Would you buy a used car from this man. Svona er auðvelt að berja á fólki með því að fara frá rökum og gera eins og virkir í athugasemdum, kasta einhverju fram sem enginn fótur er fyrir. Þannig verða til falsfréttir og afleiðingin er sú að enginn sér sannleikann, sjá bara það sem þeir vilja.
Þegar efnt hefur verið til kosninga hafa skipta allar fréttir um frambjóðendur máli.
Segir ummæli Bjarna kolröng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ísland er best, hlustum ekki á úrtöluliðið, gleðjumst
9.10.2017 | 21:33
Ísland er best, áfram Ísland, hrópum við með stolti og fögnum góðum árangri. Og við hlægjum og þurrkum eitthvað úr augnkrókum og syngjum.
Svo eru alltaf einhverjir úrtölumenn, liðið sem er virkt í athugasemdum og segja að Ísland sé ekki best, allt ónýtt hér á landi og þannig er malbikað út og suður. Þetta er fólkið sem alltaf er á móti, brosir aldrei nema þegar einhver lendir í óhappi, meiðir sig.
Nei, segi ég. Ísland er best. Hvað annað á maður að segja. Eigum við að sætta okkur við eitthvað annað? Allflestar þjóðir segja þetta sama um sitt land, sína þjóð. Eigum við að rífast um hver hefur rétt fyrir sér?
Þannig gerist það ekki. Við erum best af því að við stöndum okkur vel. Vel má vera að aðrar þjóðir séu jafngóðar og jafnvel betri í fótbolta, handbolta eða öðru því sem við miðum okkur við. Um það snýst hins vegar ekki fullyrðingin.
Upphrópunin, Ísland er best, er tjáning, fullyrðing um að okkur líði vel í fallegu landi með góðum samlöndum. Við niðurlægjum enga með þessu, alls ekki. Við erum það sem við erum.
Hlustum á þjóðsönginn, syngjum Ég er kominn heim ..., sýnum gleði, leyfum okkur að tárast af saman af einskærri hamingju.
Hlustum ekki á úrtöluliðið sem segir að allt sé ónýtt, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og annað sem því dettur í hug. Áfram Ísland, bætum það sem þarf að laga en gerum hvorki lítið úr okkur sjálfum né þjóðinni.
Gleðjumst af því að íslenska karlalandsliðið er komið á HM, gleðjumst með árangri kvennalandsliðsins, styðjum íþróttastarfið.
Sýnum gleði og samtstöðu þegar vel gengur, bætum okkur þegar við höfum ekki náð þeim árangri sem við ætluðum. Alltaf, alls staðar. Veljum ekki úrtöluliðið.