Þegar Katrín Jakobsdóttir seldi stefnu VG fyrir ráðherrrasæti

Katrín VG 2„Okkar niðurstaða í VG hefur verið sú að þegar vegnir eru saman kostir og gallar, þær fórnir sem færðar væru í þágu aðildar að Evrópusambandinu og það framsal á lýðræðislegu ákvarðanavaldi sem færi þar með úr landinu, væri sú takmörkun fullveldis og samnings- og sjálfsákvörðunarréttar of dýru verði keypt …“

Þetta sögðu Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir, í grein í Morgunblaðinu 28. júlí 2009 um hugsanlega aðild að ESB. Ári síðar stóðu þau tvö ásamt hluta af þingflokki VG að því að samþykkja þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í sambandið. Vinstri grænir seldu skoðanir sínar í Evrópumálum fyrir ráðherrasæti. 

Fyrir vikið klofnaði flokkurinn illilega en merkilegast er þó hvernig forystumenn hans reyndu að réttlæta stefnubreytinguna. Þá birtist hjá þeim yfirgangur og hroki sem lýst er afar vel í bók Jóns Torfasonar, „Villikettirnir og vegferð VG“.

Steingrímur á MÓTI aðild að ESB

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 24. apríl 2009, kvöldið fyrir þingkosningarnar 2008, sagði Steingrímur um ESB aðild:

„Við erum andvíg aðild að Evrópusambandinu. […] Við höfum nú frekar fengið orð fyrir að vera stefnufastur flokkur og ekki hringla mikið með okkar áherslur.“

Steingrímur MEÐ aðild að ESB

Þann 16. júlí 2009 greiddi Steingrímur J. Sigfússon atkvæði þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvað varð um hinn „stefnufasta flokk“? Formaðurinn ákvað að hafa stefnu flokks síns að engu, ráðherrasætið skipti hann öllu.

Katrín Á MÓTI þjóðaratkvæði um ESB

Í umræðum um aðild að Evrópusambandinu á þingi sagði Katrín Jakobsdóttir þetta:

„... komi samningur sem hægt verði að vísa til íslensku þjóðarinnar þannig að hún komi að þessu máli, þannig að hún fái það á hreint hvað felst í þessari aðild.“

Katrín vissi greinilega ekkert hvað felst í aðildarumsókn að ESB. Hún átti að vita að einungis er boðið upp á aðlögunarviðræður á grundvelli Lissabonsáttmálans.

Katrín MEÐ þjóðaratkvæði um ESB

Í viðtali við Stundina 3.-13. mars 2016 hefur Katrín komist að allt annarri skoðun um þjóðaratkvæði um inngöngu í ESB. Í því segir hún:

„Við hefðum átt að leita eftir stuðningi þjóðarinnar áður en lagt var upp í þennan leiðangur.“

Tæpum sjö árum eftir að Katrín samþykkti aðildarumsókn að ESB ásamt meirihluta þingmanna VG fær hún bakþanka og telur nú að ákvörðun sín og Vinstri grænna hafi verið röng. 

Steingrímur MEÐ þjóðaratkvæði um ESB

Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands að ESB. Um hálfu ári áður, á flokksráðsfundi Vinstri grænna 7. desember 2008, var Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann sagði þetta í viðtali við Fréttablaðið daginn eftir fundinn:

„Ég er bjartsýnn á það að þjóðin muni þá strax hafna því að ganga í Evrópusambandið.“

Steingrímur Á MÓTI þjóðaratkvæði um ESB

Í umræðum um tillögu Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB þann 16. júlí 2009 sagði Steingrímur:

„Þessi tillaga sjálfstæðismanna og röksemdafærsla hefur tvo stórfellda ágalla. … að það kæmi í veg fyrir það að þjóðin léti strax sitt álit í ljós eftir að aðildarsamningi hefði verið landað að undangenginni kynningu og umræðu og tefði það að þjóðin gæti sagt sitt orð ...“

Steingrímur fór vísvitandi með rangt mál enda ráðherrastóll í húfi. ESB semur ekki við umsóknarríki nema um tímabundnar undanþágur frá Lissabonsáttmálanum.

Átta árum síðar

Rúmlega átta ár eru nú síðan Alþingi samþykkti aðild að Evrópusambandinu án þess að spyrja þjóðina álits. Þáverandi ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðust af offorsi gegn því að leggja umsóknina í þjóðaratkvæði.

Í óútskýranlegum hrossakaupum keypti flokkurinn sér ráðherrastóla í reykfylltum bakherbergjum, samkvæmt því sem fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, segir.

VG vonar að allt sé gleymt

Strax eftir kosningarnar 2013 hljóp Steingrími J. Sigfússyni úr formannssætinu. Hann þótti ekki með góðan kjörþokka. Nýr formaður, Katrín Jakobsdóttir, þykir laglegri, brosir út í bæði og talar í mildilegum fyrirsögnum. Hún virðist græskulaus stjórnmálamaður, en ekki er allt sem sýnist eins og berlega kemur fram í þessari grein. Hún seldi skoðanir sínar fyrir ráherrastól.

Þrátt fyrir nýjan formann eru Vinstri grænir sami flokkurinn og áður. Steingrímur vofir enn yfir eins og afturganga í þjóðsögunum. Hann andar Garún, Garún í hnakka formannsins sem lætur sér vel líka. Á prikum eru hinir haukarnir, Svandís Svavarsdóttir, Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og fleiri og fleiri sem þekkt eru fyrir að brosa aldrei nema þegar einhverjum verður það á að meiða sig.

Hefur þjóðin gleymt svikum VG?

Vill þjóðin færa þessum sama flokki stjórn landsmála aðeins fjórum árum eftir að hann hrökklaðist frá völdum eftir hrakfarir í Icesave, ESB, skuldamálum heimilanna og ótal fleiri málum?

Ekki nokkur maður getur treyst því að Vinstri grænir ætli sér að standa við stefnuskrá sína.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 16. október 2017.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Samkvæmt nýustu fréttum sem ég las fyrir augnabliki, þá er VG formlega orðinn ESB flokkur. Því samkvæmt einhverri könnun þá er meirihluti kjósenda þeirra meðmæltur inngöngu í ESB.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2017 kl. 11:20

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Sigurður, Katrín Jakobsdóttir keypti sér þægilegan ráðherrastól með því að svíkja yfirlýsingar sínar og flokksins um Evrópusambandið með fullri þátttöku hennar í "umsóknarferlinu"!

Ennfremur tók hún fullan þátt í aðför Steingríms og Jóhönnu, Össurar, Oddnýjar Harðardóttur og félaga að þjóðarhagsmunum og lagalegum réttindum okkar í Icesave-málinu, eins og ég minnist hér í þessum vísum:


Oft er flagð undir fögru skinni,
en flestir neita að trúa
að nokkuð hjá Kötu sætu sinni
sýni´ að hún sé að ljúga.

Vikalipur var sú slynga
við sinn Allaballann,
er herjaði´hann fyrir Hollendinga
og hábölvaðan Tjallann.

Vann sér þá inn hans vinsemd mestu,
Vinstri-græn varð drottning,
samt ekki þó með samvizku beztu,
og seint fær hún þjóðar-lotning.

Já, Steingrímur J. Sigfússon sveikst aftan að þjóðinni með kosningaloforði sínu í Sjónvarpi kvöldið fyrir kjördag 2009 -- þetta myndband afhjúpar hann:

https://www.youtube.com/watch?v=AIBuEnFQ6ac

Jón Valur Jensson, 16.10.2017 kl. 12:50

3 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Kórinn hér má velta sér upp úr fortíðinni, aftur og aftur.

Flestir, meir að segja frambjóðandi Miðflokksins hér í borg er farinn að líta fram á veginn, hætt að líta í baksýnisspegilinn [Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir]. Hvers vegna höfundur hér og hann meðreiðarsveinar kjósa að lifa í því sem gerðist fyrir 8-10 árum er mér ráðgáta en þeir um það.

Munurinn á þessum stjórnmálamönnum sem veist er hér að og t.d Geir H Haarde er að bæði SJS og KJ hafa sýnt það í verki og í orðum að þau geta séð að sér, beðist velvirðing og jafnvel skipt um skoðun. Svo virðist að það sé bara einn flokkur sem megi skipta um skoðun og það sé Sjálfsstæðisflokkurinn. Munum öll eftir frægri grein Illuga og BB um þá leið að ganga í ESB. EN þeir máttu skipta um skoðun.

Eins hafa þá KJ og nú góður frambjóðandi Samfylkingarinnar hér í borg látið það í ljós að það verði ekki farið af stað með frekari aðgerðir um aðild/inngöngu/samning við ESB nema að þjóðin verði spurð fyrst. Nokkuð viss um að það verði samþykkt , þó svo að samningurinn kunni að verða hafnað en við það eru mestu haturzmenn ESB, svo sem guðfræðingurinn og undirskriftasafnarinn sem párar hér að ofan, eru ofsahræddir við.

Ég nefndi Geir H Haarde hér á fyrr í þessum skrifum mínum. Sá dæmdi hefur ekki einu sinni getað beðið þjóð sína afsökunar á sinni aðild að hruninu og aðdraganda þess , þá ekki nema ef menn og konur vilji það.

Það að aldeildis auðmýktin þar. 

Handónýtir ráðamenn Valhallargenginsins, BB, Hanna Birna, Sigríður Andersen, Áslaug Arna og væri hægt að halda úti löngum lista. Þessir nefndu ráðamenn hafa einmitt farið fram, oft gegn vilja þjóðar, sýnt af sér valdníðslu og beitt hroka sem sínum förunaut, að mínu mati

Kannski fílar sá sem hér upphefur umræðuna, vöndinn. Ekki ég, svo mikið er víst. 

Sigfús Ómar Höskuldsson, 16.10.2017 kl. 14:00

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vinstrimennskugauðið Sigfús reynir hér að draga athyglina frá kosningasvikum Katrínar og Steingríms -- engar nýjar fréttir úr þeim ranni.

Jón Valur Jensson, 16.10.2017 kl. 14:18

5 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Sko, mætir ekki undirskriftasafnarinn sem sama gamla sönginn, þeir sem syngja ekki í hans tóntegund....syngja falskt.

Enda guðfærðingurinn líklega ekki með tóneyra.

Guðfræðingurinn virðist vera fastur í gamaldagsstjórnmálum, tja ef hann hefur e-ð vit á stjórnmálum yfir höfuð. Það ætti hann að vita fari fleiri en einn flokkur í ríkisstjórn, þarf að miðla málum. Meir að segja eitt af hans skurðgoðum, lögbrjóturinn SDG hefur lýst því yfir.

EN þá man ég, flokkur guðfræðingsins og málfrelsishetjunnar (þessi sem lokar á þá sem eru honum ósammála, getur líklega farið að stofna nýjan flokk, Blokkflokkinn) hefur lokið keppni.

Lengra kemst guðfræðingurinn ekki nær löggjafarsamkundunni þetta árið, sem betur fer kannski ?

 

Aðalmálið er að þessir ágætu en um leið umdeildu stjórnmálamenn hafa séð að sér og áttað sig á því sem þarf að gera betur. Á meðan situr guðfræðingurinn í gamla farinu.

 

Fari þeir sem fara vilja, sitji þeir sem vilja sitja.

Sigfús Ómar Höskuldsson, 16.10.2017 kl. 14:54

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bla bla bla, sama gamla platan þín, Samfylkingargauð.

Jón Valur Jensson, 16.10.2017 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband