Ísland er best, hlustum ekki á úrtöluliðið, gleðjumst

Ísland er best, áfram Ísland, hrópum við með stolti og fögnum góðum árangri. Og við hlægjum og þurrkum eitthvað úr augnkrókum og syngjum.

Svo eru alltaf einhverjir úrtölumenn, liðið sem er „virkt í athugasemdum“ og segja að Ísland sé ekki best, allt ónýtt hér á landi og þannig er malbikað út og suður. Þetta er fólkið sem alltaf er á móti, brosir aldrei nema þegar einhver lendir í óhappi, meiðir sig.

Nei, segi ég. Ísland er best. Hvað annað á maður að segja. Eigum við að sætta okkur við eitthvað annað? Allflestar þjóðir segja þetta sama um sitt land, sína þjóð. Eigum við að rífast um hver hefur rétt fyrir sér?

Þannig gerist það ekki. Við erum best af því að við stöndum okkur vel. Vel má vera að aðrar þjóðir séu jafngóðar og jafnvel betri í fótbolta, handbolta eða öðru því sem við miðum okkur við. Um það snýst hins vegar ekki fullyrðingin.

Upphrópunin, Ísland er best, er tjáning, fullyrðing um að okkur líði vel í fallegu landi með góðum samlöndum. Við niðurlægjum enga með þessu, alls ekki. Við erum það sem við erum.

Hlustum á þjóðsönginn, syngjum „Ég er kominn heim ...“, sýnum gleði, leyfum okkur að tárast af saman af einskærri hamingju.

Hlustum ekki á úrtöluliðið sem segir að allt sé ónýtt, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og annað sem því dettur í hug. Áfram Ísland, bætum það sem þarf að laga en gerum hvorki lítið úr okkur sjálfum né þjóðinni.

Gleðjumst af því að íslenska karlalandsliðið er komið á HM, gleðjumst með árangri kvennalandsliðsins, styðjum íþróttastarfið.

Sýnum gleði og samtstöðu þegar vel gengur, bætum okkur þegar við höfum ekki náð þeim árangri sem við ætluðum. Alltaf, alls staðar. Veljum ekki úrtöluliðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband