Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

Hápólitísk yfirlýsing gegn einkabílnum, þvingun og refsing

Til hvers höfum við samgöngukerfi? Það er til að koma fólki og vörum á milli staða. Það er ekki til þess að koma þessum járnhylkjum sem heita bílar á milli staða.

Þetta er hápólitísk yfirlýsing Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem hann leggur fram fyrir hönd borgarstjórnarmeirihlutans. Hún er einfaldlega hótun. Noti menn ekki almenningsfarartæki verður okkur gert illmögulegt að nota einkabílinn. 

Svona hótun rímar ansi vel við þær skoðanir sem meirihlutinn hefur haft á orði undanfarin ár. Og ekki nóg með það. Sambærilegar pólitískar yfirlýsingar hafa hrotið af munni lykilstarfmanna borgarskipulagsins, rétt eins og það sé þeirra að hafa opinbera skoðun á stefnumörkun borgarinnar.

Okk­ur finnst strætó ekki vera að tefja einka­bílaum­ferð. Í strætó er fullt af fólki sem gef­ur meiri mein­ingu í um­ferðar­kerf­inu en þegar einn eða tveir eru í hverj­um bíl. Þar af leiðandi finnst okk­ur rétt­læt­an­legt að strætó hægi á um­ferð endr­um og eins.

Þetta sagði Pálmi Freyr Randversson, í fjölmiðlum fyrir rúmum tveimur árum og er  einungis staðfesting á þeirri fyrirætlan núverandi borgarstjórnarmeirihluta að útrýma einkabílnum úr borginni. Hið sama endurtók Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar í gær.

Ég er algjörlega á öndverðri skoðun. Samgöngukerfið er einfaldlega til þess að koma ökutækjum á milli staða, bílum, flutningabílum og fólksflutningabílum. Hluti af því er einnig ætlað til að auðvelda gangandi, hlaupandi og hjólandi fólki ferðir þess.

Verkefni stjórnvalda er því einfaldlega fólgið í því og gera samgöngukerfið þannig að fólk komist á milli staða.

Það getur aldrei verið hlutverk borgaryfirvalda eða sveitarstjórna að þvinga fólk til að nota einn samgöngumáta umfram annan. Það getur ekki endað vel sé stefnan sú að fara gegn vilja og þörfum íbúanna, hvað þá að reka grímulausan áróður fyrir almenningssamgöngum og hindra um leið notkun á einkabílnum.

Borgarbúar geta ekki annað en staðið upp og mótmælt yfirgangi borgarstjórnarmeirihlutans. Starfshættir hans eru ótækir. Þeim finnst í lagi að tefja umferð einkabíla þegar frjálslynt fólk segir að ástæða sé til að auðvelda alla umferð.

Ætlum við að láta þetta lið stjórna borginni, segja okkur hvernig við eigum að ferðast um borgina, þvinga okkur til að láta að kröfu sinni, refsa okkur ef við gerum það ekki?

Ég segi einfaldlega nei.


Borgarstjóri er ekki samstarfshæfur

Á miðjum fundi fengu full­trú­ar minni­hlut­ans loks eitt ein­tak af­hent af til­lögu borg­ar­stjóra í mál­inu með þeim skila­boðum að hún yrði af­greidd í lok fund­ar.

Til­lag­an er fimm blaðsíður að lengd og virðist borg­ar­stjóri hafa ætl­ast til þess að full­trú­ar minni­hlut­ans læsu hana sam­hliða öðrum mála­rekstri á fund­in­um.

Ekki var orðið við ósk full­trúa minni­hlut­ans um frest­un máls­ins til næsta fund­ar og að þeir gætu þannig full­nægt lög­boðnum skil­yrðum um að kjörn­ir full­trú­ar kynni sér gögn máls áður en ákvörðun.

Þetta segir í bókun Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem eru í minnihluta í borgarstjórn. Svona fer meirihlutinn með minnihlutann í borginni.

Ástæðan er einföld. Dagur B. Eggertsson, borgarstjórinn sjálfur, hatar Sjálfstæðisflokkinn og  alla fulltrúa hans. Hann ræðir helst aldrei við borgarfulltrúa minnihlutans nema í gegnum milliliði.

Skrifstofa borgarstjóra hefur yfir að ráða fjölda starfsmanna sem vinna að almannatengslum. Þeir hafa það eitt verkefni að sýna borgarstjórann og meirihlutann í jákvæðu ljósi. Þeir eig að draga upp þá mynd að borgarstjórinn sé gæðablóð en ekki heiftúðugur náungi.

Fyrir vikið halda flestir að borgarstjórinn og meirihlutinn sé góður og málefnalegur og vinni í nánu samstarfi við minnihlutann. Því miður er það ekki svo. Samvinnan er engin.

Aldrei gerist það að borgarstjóri komi til fulltrúa í minnihlutanum að fyrra bragði og óski eftir samvinnu. Minnihlutinn hefur lært að það þýðir ekkert að ræða einslega við borgarstjóra um eitt eða neitt. Hann er ekki til viðtals.

Borgarstjórn Reykjavíkur er í tvennu lagi, hin opinbera og hin óopinbera.

Í óopinberu borgarstjórninni fara fram umræðurnar sem máli skipta og þar eru ákvarðanirnar teknar fram í „reykfylltum bakherbergjum“ ráðhússins. Þar sitja gæðingarnir, Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar og ráða ráðum sínum. Enginn veit hvað þar er rætt.

Hin opinbera borgarstjórn er er afgreiðslustofnun og hefur það leiðinda verkefni að þurfa að hlusta á minnihlutann. Meira hvað meirihlutanum leiðist þetta lýðræðislega verkefni.

Það er því eftir öðru að borgarstjóri taki ákvörðun um borgarritara án nokkur samráð við minnihlutann og láti nægja að kasta í hann pappírspésa um þann sem var ráðinn.

Ljósi punkturinn er þó sá að ekki var hægt að ganga framhjá Stefáni Eiríkssyni þegar ráðið var í starfið. En um það fjallar ekki óánægja minnihlutans. Hún er um lýðræðið.

 

 


mbl.is „Stjórnsýslulegt hneyksli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprungan meira en þriggja ára gömul

IMG_0040Valahnúkur á Reykjanesi hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Hann er ekkert sérstaklega vel byggður, ef svo má að orði komast, og rofnar því auðveldlega. Í honum er móberg að mestu ásamt bólstrabergi og túffi.

Á hnúknum var reistur vitið árið 1879 en tuttugu árum síðar hrundið undan honum og var hann þá færður lengra inn í landið, á Bæjarfell, þar sem hann stendur núna. Síðar hefur mikið hrunið úr hnúknum. Ástæðan er án ef jarðskjálftar og þar að auki titringur vegna brims sem getur verið afar mikið.

mblÞann 10. október 2013 var ég þarna á ferð og tók þá meðfylgjandi mynd. Ég tók eftir því að sprunga hafði myndast sjávarmegin efst í Valahnúki. Ætlaði nú aldeilis að muna eftir að fylgjast með henni og taka myndir næst þegar ég kæmi á staðinn.

Síðan hef ég komið þrisvar sinnum og aldrei munað eftir sprungunni, jafnvel þegar ég hef farið upp á hnúkinn.

Núna birtir mbl.is frétt og myndir af sömu sprungu sem hefur aldeilis stækkað á þessum þremur árum. Búast má við því að innan árs kunni stykkið að falla.

IMG_0084 REykjanes, Valafell, fjaraSvona er þetta bara. Landið er i stöðugri mótun. Nýtt land myndast, það eldra breytist og svo er til að hafið gleypi hluta af því.

Til samanburðar er hér mynd úr mbl.is.

Myndir:

1. Efstu myndina tók ég fyrir þremur árum

IMG_00972. Næsta mynd er úr mbl.is

4. Myndin er tekin í fjörunni undir Valahnúk og þarna sjást „undirstöðurnar“. Hafið hefur nagað úr þeim síðan ég man efir og byrjaði eflaust á því löngu fyrir mína tíð.

5. Vitinn á Bæjarfellinu.

 


mbl.is Lokað eftir að sprunga tók að stækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem sjá inn í framtíðina

Sagt er að jólasveinarnir viti hvað hver og einn fær í jólagj. Um það deilir enginn. Veðurfræðingar búa ekki til veður en þeir hafa rökstuddan grun um hvernig það verður næstu daga. Þeir sem búa yfir skyggnigáfu eða eru draumspakir teljast vita eitthvað um ókomna tíð. Þá eru upptaldar þær stéttir sem eitthvað vita um framtíðina.

Stjórnmálafræðingar segjast ekkert vita um framtíðina en engu að síður giska þeir hver um annan þveran í fjölmiðlum. Það mega þeir svo sem gera en enginn 

Nú hefur það gerst að fjölmiðill, vefritið pressan.is hefur, vitnar í einhvern sem ekki er stjórnmálafræðingur, heldur leikmann sem raunar er einn þekktasti álitsgjafi landsins. Haft er eftir Agli Helgasyni, fjölmiðlamanni, að ekkert sé að gerast í stjórnarmyndunarviðræðum. Hann segir:

Nú er staðan svo treg í stjórnarmyndunum að engar fréttir hafa verið af þeim í marga daga, engum þreifingum eða hugmyndum um hvernig eigi að leysa stjórnarkreppuna.

Þessi málsgrein er tær snilld, hugsunin bráðskýr. Mætti halda að Egill væri stjórnmálafræðingur. Furðulegt að enginn skuli hafa fattað að ekki sé búið að mynda ríkisstjórn.

Svo versnar í því því Egill sér fram í tímann rétt eins og hann sé jólasveinn, veðurfræðingur eða skyggn:

Ég skrifaði um það strax í sumar að stefndi í stjórnarkreppu eftir kosningar – ég talaði líka um að haldnar yrðu kosningar en í þeim yrði í raun enginn sigurvegari.

Egill hefði átt að leggja vekja athygli á þessum spádómi sínum í sumar, þá hefðum við getað sleppt því að efna til kosninga.

Nú þarf Egill að svara þeirri knýjandi spurningu hvort það taki því að efna aftur til kosninga eða dugar að hafa landið áfram með meirihlutalausri minnihlutastjórn?


Þrír jarðskjálftar við Hjalteyri

Hjalteyri 1Fyrstu upplýsingar af sjálfirkum vef Veðurstofunnar um jarðskjálfta í Eyjafirði bentu til þess að tveir stóri skjálftar hefðu orðið á miðri Hjalteyri. Síðar kemur í ljós að upptök þeirra eru aðeins sunnar, raunar um 12 km suðsuðvestan við Grenivík. Sjá meðfylgjandi kort

Skjálftarnir voru raunar þrír:

  1. Kl. 9:41, vægur skjálfti, 1,1 stig, 11,6 km dýpi
  2. Kl. 9:44, snarpur skjálfti 3,5 stig, 12,3 km dýpi
  3. Kl. 9:49, nokkuð vægur skjálfti, 1,6 stig, 11,8 km dýi

Hjalteyri 2

Talið er mjög ólíklegt að skjálftar í Eyjafirði eigi upptök sín vegna eldvirkni. Fyrir utan er svokallaður Eyjafjarðarall sem er sigdalur og talið fráreksbelti sem einu sinni var virkt en er nú talið að sé dvínandi. Jarðskjálftarnir gætu einfaldlega verið tengdir því að jarðlög síga.

Stærstu skjálftar á þessu svæði hafa flestir verið á hafsbotni. Skemmst er þó að minnast svokallað Dalvíkurskjálfta sem varð í byrjun júní 1934 og er talinn hafa verið rétt rúmlega 6 stig. Upptök hans voru á hafsbotni, skammt utan við Dalvík en þar hrundu mörg hús og önnur skemmdust.

Bein loftlína milli Hjalteyrar og Dalvíkur er ekki meiri en 20 km.

 


mbl.is Jörð skelfur fyrir norðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við sjáum nú til ...

Bjúgnakrækir telur líklegt að formenn stjórnmálaflokkanna gætu allir verið kallaðir til forseta Íslands og fengju þá allir eitt sameiginlegt stjórnarmyndunarumboð. Stakkjastaur telur allt eins líklegt að einn og einn formaður verði kallaður til forsetans. Kjetkrókur telur fullvíst að formenn stjórnmálaflokkanna haldi upp á jólin heima hjá sér.

Þá sagði Grýla: Hvernig í ósköpunum getið þið vitað eitthvað um það sem ekki hefur enn gerst?

Við sjáum nú til, sagði Bjúgnakrækir.

Lítil stúlka sagði síðasta sumar að jólasveinarnir kæmu til byggða fyrir jól.

Við sjáum nú til, sagði pabbi hennar. Hún reyndist sannspá.

Í sjónvarpinu sagði veðurfræðingurinn líkur á að nú fari kólnandi.

Við sjáum nú til með það.

Lítill drengur hélt því fram fyrir nokkrum árum að meiri líkur séu á því að það snjói að vetrarlagi en á sumrin.

Við sjáum nú til, sagði pabbi hans. Drengurinn hefur hingað til reynst sannspár.

Maður nokkur í kassaröðinni í Bónusinu sagði í símann sinn að nokkrar líkur væru á því að mynduð yrði ríkisstjórn fyrr eða síðar ...

Við sjáum nú til, sagði þingmaðurinn, sem ég lét vita af þessum ummælum.

Stjórnmálafræðingur við háskóla segist ekki viss um hvað forsetinn geri milli jóla og nýjárs.

Ég held að hann fari út að hlaupa ... en við sjáum nú til.


mbl.is „Sigurður Ingi gæti fengið áheyrn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skop og fyndni ...

Helgi SigMan einhver eftir skopmyndinni sem hér birtist. Í stuttu máli varð allt (hjá örfáum) brjálað. Teiknaranum, Helga Sigurðssyni, var hótað, Morgunblaðinu var hótað, ritstjórinn var baktalaður (enn og aftur) og aumingja konan sem gert var grín að fékk ómælda samúð. Má vera að hún hafi rist grunnt, þetta hafi bara verið svona pólitísk samúð. Þá er einum strokið blíðlega meðan barið er á öðrum. Annars hefði síðarnefnda tækifærið ekki gefist.

Íslensk fyndni er ekki til. Hún er mismunandi eins og gerist og gengur. Það sem einum finnst fyndið telur annar vera ómerkilegt. Þess vegna er talað um fimmaurabrandara.

Ekki má gera grín að gyðingum, aröbum, flóttamönnum, sköllóttum, ljóshærðum konum, Hafnfirðingum, lesbíum, hommum eða fólki með gervitennur svo dæmi séu tekin. Ástæðan er sú að fólki sem verður fyrir gríninu gæti liðið illa. Dæmi um slíkt eru sköllóttir karlar en þeir þjást sem kunnugt er af hárfötlun og brandarar undir því orði fyrirfinnast ekki. Þar af leiðandi er ekki hægt að hlægja að brandaranum um sköllótta rakarann sem býður lyf eða meðferð gegn hárleysi því hann er orðinn hárfatlaður.

Prófessor einn í Háskóla Íslands heitir Stefán Ólafsson og er mælskur mjök og hefur ótrúlegt skopskyn. Þó hefur hann ábyggilega kunnað illa að meta skopmyndina hér fyrir ofan, því hann er „mannlegur“ og næmur á tilfinningar annarra (nema pólitískra andstæðinga).

Stefán segir í bloggi sínu:

Gárungarnir eru búnir að skýra nýja fangelsið á Hólmsheiði.

Þeir segja að á Hverfisgötu sé „Hverfissteinninn“ og á Hólmsheiði sé „Hólmsteinninn“.

Sagt er að í nýja fangelsinu verði sérstakur frjálshyggjugangur, þar sem fjárglæframenn nýfrjálshyggjunnar verði vistaðir.

Þeir verða þá settir inn í Hólmstein – sem gæti talist viðeigandi!

Það eru því margar góðar ástæður fyrir þessari nafngift.

Sel þetta þó ekki dýrar en keypti…

Auðvitað er þetta fyndið, en um leið enn einn leikur til að niðurlægja Hannes Hólmstein Gissurarson, en þeir kollegar virðast ekki eiga skap saman þarna í Háskólanum.

Berum nú saman þetta tvennt. Annars vegar skop um ónefnda, fyrrverandi alþingiskonu, og hins vegar um nafngreindan einstakling. Niðurstaðan er einfaldlega sú að andstæðingar hins nafngreinda virðast hafa á hann ótakmarkað skotleyfi. Þess vegna má gera endalaust hrekkja hann. Ég held hins vegar að þetta hafi engin áhrif á manninn, hann er vanur hælbítum.

Hitt er svo allt annað mál að nafngift Stefáns er bara ansi fyndin.

 


Birni Bjarnasyni gerðar upp skoðanir og svo ráðist á hann fyrir þær

Þóra Kristín ÁsgeirsdóttirKarlmaður sem kom hingað í annarlegum tilgangi, og ætlaði að lifa sældarlífi á kostnað skattgreiðenda í nokkra mánuði og njóta góðs af heilbrigðiskerfinu, endaði með því að bera eld að fötum sínum í yfirfullu gistiskýli Útlendingastofnunar með þeim afleiðingum að hann beið bana af sárum sínum.

Þetta virðist vera lærdómur gamals dómsmálaráðherra af harmleiknum sem varð nýlega í Víðinesi.

Sá sem skrifar svona er beinlínis óþverri, haldinn skítlegu eðli, svo gripið sé til kunnuglegs orðalags. Ástæðan er einfaldlega sú að höfundurinn gerir fyrrverandi dómsmálaráðherra upp ljóta og andstyggilega hugsun og leggur svo út frá þeim honum til hnjóðs.

Björn Bjarnason hefur aldrei látið svona orð frá sér fara og mun ábyggilega aldrei gera. Hann er vandaður maður og skrifar af viti og hugsun.

Höfundurinn, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, hefur lengi titlað sig sem blaðamann og raunar lengi starfaða sem slíkur. Oftar en ekki hefur hún verið talin hlutdrægur fréttamaður. Núna er hún titluð fréttastjóri á Fréttatímanum. 

Grein Þóru Kristínar er skrifuð í sama dúr og flestir mannorðsmorðingjar tileinka sér. Hún niðurlægir annan og upphefur sjálfa sig í leiðinni. Svona eru hugsunin:

Nú má þessi gamli ráðherra hafa þá skoðun fyrir mér að yfirvöld eigi að loka dyrunum á alla þá innflytjendur sem hrekjast um álfuna sökum fátæktar og misskiptingar sem hefur náð slíkum hæðum að það ógnar öryggi og heimsfriði meira en flest annað.

Þannig leyfir hún sér að niðurlægja mann með því að kalla hann gamlan, rétt eins og aldur hafi eitthvað með réttar eða rangar skoðanir að gera. Þar að auki er hún í þessum tilvitnuðu orðum að rökræða um það sem hún gerir Birni upp. Slík rökræða er ónýt hringrás, byrjar í hausnum og endar milli þjóhnappa sama aðila.

Hvernig yrðu nú umræðurnar í þjóðfélaginu ef orðræðan væri almennt eins og hjá Þóru Kristínu?

Já, eitthvurt hljóð myndi nú heyrast úr horni ef skoðanir hennar væru sagðar ómerkilegar af því að hún sé  feit kelling. Má vera að það síðarnefnda sé jafn rétt og þetta með aldur Björns Bjarnasonar. Hvorugt geta þó talist rök, eða skoðunum hans og hennar til hnekkis.

Nei, svona skrifar hugsandi fólk ekki. Samt gerir Þóra Kristín það. Ástæðan er einföld, tilgangurinn helgar meðalið. Hún er að ata Björn Bjarnason auri af því að hún er á pólitískur andstæðingur hans, vinstri maður. Svo einfalt er það.

Þóra Kristín mun engan sóma hafa af þessari árás á Björn. Flestir hljóta að sjá í gegnum svona orðræðu. 


Þorvaldur Gylfason notar gleraugu og ...

ÞorvaldurMargir af helstu glæpamönnum og mannorðsmorðingjum heims notuðu og nota gleraugu. Þorvaldur Gylfason notar líka gleraugu. Af þessu má draga ákveðna ályktun sem þó er út í hött en myndi ábyggilega þjóna ákveðnum tilgangi.

Þessi Þorvaldur Gylfason sem hér er nefndur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann skrifar fastan dálk í Fréttablaðinu og er oft óvandaður í skrifum sínum og skepnuskapurinn ríður þar sjaldnast við einteyming.

Í blaði dagsins skrifar Þorvaldur grein undir fyrirsögninni „Segulbandasögur“. Þar er skrifar hann um lögbrot Richard Nixons, Bandaríkjaforseta. Hann þurfti að segja af sér embætti þegar upp komst um aðild hans að Watergat-málinu. Saga Nixons þykir sérstaklega merkileg vegna þess að hann misbeitti valdi sínu sem forseti og er eini forsetinn sem hefur verið knúinn til að segja af sér.

Denis NilsenHin sagan sem Þorvaldur rifjar upp og setur í beint samhengi við lögbrot og siðferði Nixons er af samtali Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra. Þeir tveir ræddu saman í síma þegar bankarnir hrundu þann 6. október 2008. Samtalið ku hafa verið tekið upp í símkerfi Seðlabankans og er þar varðveitt en efni þess hefur ekki verið opinberað.

Nú mega menn hafa þá skoðun sem þeir vilja á Nixon. Sömuleiðis getur Þorvaldur haft þá skoðun sem hann vill á ástæðum bankahrunsins og þeim aðgerðum sem þá var gripið til. Ljóst má þó vera að bæði forsætisráðherra og ekki síst Seðlabankastjóri unnu þá þrekvirki ásamt samstarfsfólki sínu og tryggðu að gjaldþrota bankarnir voru endurreistir og þjónuðu þjóðinni ágætlega á þessum erfiðu tímum.

Óvild Þorvaldar Gylfasonar á Sjálfstæðisflokknum er orðin svo megn að hann líkir uppbyggingarstarfi í bankahruninu við niðurrif bandarísk forseta. Hið eina sem þessar tvær sögur eiga sameiginlegt er upptökur af samtölum.

Þorvaldur Gylfason notar gleraugu. Fjöldi mannorðsmorðingja og glæpamanna nota gleraugu. Þar með er ekki sagt að maðurinn stundi glæpi né ráðist gegn æru fólks. Um hið síðarnefnda má vissulega deila. 

Önnur myndin er af fjöldamorðingjanum Denis Nilsen.

 


Innihaldslaust tal um framsýn í viðræðum

Hún seg­ir fjóra af fimm flokk­um vera mjög sam­stíga og fram­sýna í viðræðunum.

Hér er undarlega að orði komist hjá Björtu Ólafsdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, í viðtali við mbl.is. Hún á væntanlega við að sá flokkur sem er ekki samstíg í viðræðunum sé þá ekki „framsýnn“, jafnvel bölvað afturhald.

Svona talsmáti er varla boðlegur. Fyrir nokkrum árum var talað um að bæta umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum. Það hefur ekki gengið eftir vegna þess að nýir þingmenn gefast fljótt upp á rökum og taka þess í stað að stunda „blammeringar“ og leiðindi.

Björt reynir að niðurlægja annan flokk, ekki með rökum heldur sleggjudómi. Hann er ekki „framsýnn“ flokkur.

Hvað merkir það að vera framsýnn flokkur? Ekkert, að minnst kosti ekki á þessari stundu. Þetta er bara svona innihaldslaust tal sem hefur þá eina þýðingu að gera lítið úr öðrum.

Ef þú ætlar að gera lítið úr öðrum í stjórnmálum notaðu þá rök. Smá húmor saka hins vegar ekkert.


mbl.is Fjórir af fimm flokkum samstíga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband