Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Sameining Bjartar framtíðar og Samfylkingar

Eina skynsama leiðin fyrir Samfylkinguna er að óska eftir sameiningu hennar og Bjartrar framtíðar, það er að höfuðbólið sameinist hjáleigunni.

Í sannleika sagt er ekki auðvelt fyrir þriggja manna flokk að sinna störfum sínum á Alþingi. Samfylkingin var stór flokkur og þar innan dyra er mikil þekking og reynsla í löggjafarvinnu og á stjórnkerfinu.

Samfylkingin getur ekki farið að dæmi Pírata og setið hjá í atkvæðagreiðslum með það að yfirskini að hafa ekki mannskap til að fylgjast með.

Björt framtíð er klofningur úr Samfylkingunni, báðir flokkar eru jafnaðarmannaflokkar og hægur leikur fyrir þessa flokka að sameinast. Þá yrði þingflokkur þeirra sjö manns og mun auðveldara fyrir báða aðila að sinna störfum sínum. Út á það ganga þingstörfin, að fólk leggi sig fram um að vinna landi og þjóð gagn. 

Óbreytt ástand er píratismi.


mbl.is Oddný hættir sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BF og Viðreisn óttast Sjálfstæðisflokkinn

Úrslit þingkosninganna voru gríðarleg vonbrigði fyrir vinstri flokkana og nú er bersýnilegt að enginn vill vinna undir forsæti Sjálfstæðisflokksins, allir óttast hann og stærð hans, jafnvel Viðreisn skelfur.

Hugmyndir voru uppi um að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Alls myndu 32 þingmenn mynda meirihlutann. Eins manns meirihluti er alltof lítill og gengur ekki af ástæðum sem öllum ætti að vera ljósar.

Vinstri grænir, Píratar og Samfylkingin vilja ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum. Raunar er það líka þannig með BF sem endurspeglast í andstöðu Óttars Proppé gegn því að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, getur ekki heldur hugsað sér að Bjarni Benediktsson verið forsætisráðherra.

Greinilegt er að nú er runnin upp tíð hrossakaupa og yfirskriftin er „Allt er betra en íhaldið“. Skítt með þjóðina.

Fjölmiðlar geta í gúrkutíð sinni fjallað endalaust um mögulegar stjórnarmyndanir. Eitt er þó greinilegt öllum sem á annað borð hafa einhverja ályktunarhæfni: Kollin er á pattstaða. Flestir stjórnmálaflokkar neita að koma út úr skápnum nema Sjálfstæðisflokkurinn sé í hæfilegri fjarlægð frá stjórnarráðinu.

Hægt er að mynda minnihlutaríkisstjórn, t.d. VG, BF og Viðreisnar með hlutleysi Pírata og Samfylkingarinnar. Þá þurfa stjórnmálamenn að gera það upp við sig hvort þeir geti treyst á stuðning Pírata.

Birgitta Jónsdóttir hefur reynst vera ólíkindatól sem jafnvel samstarfsmenn hennar í þremur flokkum átt verulega erfitt með samstarfið án þjónustu sálfræðings. Því til viðbótar eru nú eru komnir ellefu Píratar á þing, gjörsamlega óþekkt fólk, og enginn þeirra hefur reynslu eða þekkingu á stjórnsýslu eða þingstörfum.

Eflaust kann að vera að flokkarnir velji frekar að vinna með Sjálfstæðisflokknum en Pírötum því stuðningur þeirra kann að vera æði dýr, svona eins og frá segir af mafíunni í amrískum bíómyndum: Hún gerir mönnum tilboð sem ekki er hægt að hafna.


mbl.is Benedikt fái umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formaðurinn á að segja af sér formennsku og þingmennsku

Af hverju er Oddný ekki búin að axla ábyrgð og segja af sér? Formaður, sem missir 2/3 þingmanna sinna, á að segja af sér. Hún á líka að segja af sér þingmennsku og láta varamann taka sæti sitt. Hefur ekkert með Oddnýju að gera sem einstakling, heldur eingöngu að hún er formaður.

Þetta segir Marinó G. Njálsson á Facebook-síðu sinni. Mikið er til í þessu en fáir ræða stöðu Samfylkingarinnar, líklega vegna vorkunnar.

Einn skrifar athugasemd og nefnir að Samfylkingin gæti hreinlega sameinast Vinstri grænum.

Auðvitað er það möguleiki, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess sem Píratar hafa sagt að þriggja manna þingflokkur sé varla starfshæfur á þingi. Það kom berlega í ljós hjá þeim enda sátu þeir ýmist hjá eða voru sammála fráfarandi ríkisstjórn allt síðasta kjörtímabil.

Hins vegar er það jafnan svo að tal vinstri manna um ábyrgð á fyrst og fremst við andstæðinga þeirra, ekki þá sjálfa. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms sagði til dæmis ekki af sér eftir hrakfarir í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave.

Sagt er að Samfylkingin ætli að halda landsfund í lok vikunnar og hefur hún látið taka frá hornborð á Hótel Borg undir fundinn.


Gyllt lambaspörð eru og verða lambaspörð

Mikil óskapleg náfnykur er nú af stjórnarandstöðunni eftir úrslit kosninganna í gær. Samfylkingin er nánast komin í gröfina. Formaðurinn rís upp við dogg og gefur út þá hálfggrátandi út þá yfirlýsingu að ekki komi til greina að Samfylkingin fari í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Fullyrða má að það sé yfirlýsing aldarinnar. Fyrir hönd Sjálfstæðismanna um allt land leyfi ég mér að fullyrða að við munum reyna að fara að vilja formannsins.

Katrín Jakobsdóttir og fleiri eigendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa verið með sambærilega yfirlýsingar um Sjálfstæðisflokkinn. í viðtali við mbl.is segir Katrín:

Mér finnst þetta vera ákall um fjöl­breytt­ari radd­ir; nú eru komn­ir sjö flokk­ar inn á þing þannig að við erum með fjöl­breytt­ara lit­róf en áður. Það væri mik­il­vægt að ný rík­is­stjórn end­ur­speglaði það með ein­hverj­um hætti og auðvitað störf okk­ar á þing­inu.

Skilur einhver þessi orð? Nei, auðvitað ekki. Þetta er bara innantómt tal, ætlað að réttlæta þá nöturlegu stöðu að ekkert verður úr Lækjarbrekkuríkisstjórn. Eflaust er hægt að gylla lambaspörð en þau verða hins vegar aldrei neitt annað en lambaspörð.

Píratar ætla ekki að vinna með Sjálfstæðisflokknum og það er gagnkvæmt.

Niðurstaðan er því einhvers konar nástaða. Standi flokkar við yfirlýsingar sínar eru möguleikar á ríkisstjórn einungis ef Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn, Björt framtíð og/eða Framsóknarflokkurinn vinni saman.

Minna má á að Theódóra Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, náði kjör sem þingmaður BF. Hún er fulltrúi í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og BF í Kópavogi og það hefur gengið frábærlega vel.

Forðum var sagt að enginn borgarmúr væri svo hár að asni klyfjaður gulli kæmist ekki inn. Á sama hátt má telja að allar yfirlýsingar Vinstri grænna um að starfa ekki með Sjálfstæðisflokknum fjúki út í veður og vind ef tilboð kemur frá Bjarna. Jafnvel er líklegt að Samfylkingin rísi úr gröf sinni berist flokknum álíka tilboð.

 


mbl.is Útilokar eingöngu Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin niðurlægð

Merkustu tíðindi kosninganna eru þau að Samfylkingin þurrkast nær út, fær 5,7% atkvæða. Fær þrjá menn kjörna, tapar sex þingmönnum. Formaður flokksins hangir inni ásamt tveimur mönnum, hvorugur þeirra er þekktur utan flokksins.

Þungavigtin

Árni Páll Árna­son, Helgi Hjörv­ar, Sig­ríður Ingi­björg Inga­dótt­ir, Val­gerður Bjarna­dótt­ir og Össur Skarp­héðins­son falla út af þingi. Snautlegur árangur eftir átján ára tilvist þessa flokks sem átti að sameina vinstri menn, vera hinn turninn á móti Sjálfstæðisflokknum. Þungavigtarfólkið hrasaði út af þingi, þetta sama fólk og var svo áberandi í ríkisstjórn Samfylkingar og VG.

Krataflokkur langt til vinstri

Hver er skýringin? Ekkert eitt getur skýrt allar þessar hörmungar flokksins. Þó verður að nefna að hann hvarf meðvitað frá því að vera vinstri sinnaður miðjuflokkur í að vera algjör vinstri flokkur. Hægri kratar fengu hæli hjá Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Vinstri kratar sem ekki hugnaðist lengur að vera í Samfylkingunni fóru yfir í Vinstri græna og þar líður þeim ábyggilega betur. 

Innanbúðarerjur

Stríðsástand innan flokksins hefur veikt hann gríðarlega. Árni Páll Árnason náði sér aldrei eftir ódrengilega árás Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem ætlaði sér að verða formaður en tapaði með aðeins einu atkvæði. Sjálfsímynd manna getur laskast af minni ástæðum. Árni Páll bar ekki sitt barr eftir þetta. Nú eru þau bæði fallin af þingi, formaðurinn og tilræðismaðurinn.

Vinstri stjórn Jóhönnu

Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms reyndist ekki vinsæl. Upphaflegt verk hennar var að hreinsa til eftir hrunið en ætlaði að gera svo miklu meira. Henni tókst í raun og veru ekkert.

Allt varð henni til trafala, ESB málið, Icesave, stjórnarskrármálið, dómar hæstaréttar um gjaldmiðlatengingu skulda, verðtryggingin, staða heimilanna og fleira og fleira. Meðan þessi ríkisstjórn sem kenndi sig við norræna velferð og skjaldborg um heimilin þóttist gera allt gerði hún ekki neitt. Á meðan sáu embættismenn um að stjórna landinu. Ríkisstjórnin var dauð af innanmeinum eftir tvö ár en eins og Brésnev forðum vissi hún ekki af því.

Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var rasskellt í kosningunum 2013. Samfylkingin hélt síðan áfram á sinni feigðarbraut meðan VG hafði vit á því að fela Steingrím og aðra forystumenn sína sem voru svo áberandi í vinstri stjórninni og sækja síðan nýtt fólk. Það dugði þeim.

Björt framtíð

Kratar eru þó ekki allir fallnir af þingi. Í Bjartri framtíð eru einn fjórir þingmenn. Hjáleigan er nú orðin stærri en höfuðbólið.

Sannast sagna er þetta snautlegur árangur Samfylkingarinnar. Hún er orðin minni en Alþýðuflokkurinn var nokkru sinni. Jafnaðarstefnan er greinilega í andaslitrunum. Kratar hafa fengið pólitískt hæli í öðrum flokkum og kunna hugsanlega að bíða eftir því að einhver hreinlyndur jafnaðarmaður vilji sameina vinstri menn enn einu sinni.


Umbótaríkisstjórn um hrossakaup

Katrín

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vill mynda umbótastjórn samkvæmt frétt á visir.is.

Alltaf er orðfærið skrýtið hjá þessum vinstri mönnum. Í mínu orðasafni er það tvímælalaust umbótastjórn sem afrekar þetta:

  • Kemur verðbólgunni niður í 1%
  • Eykur kaupmátt um 8,5%
  • Fátækt sú fjórða lægsta í OECD
  • Atvinnuleysi sé það 3% fjórða lægsta í OECD
  • Jafnrétti það mesta í heimi, 7. árið í röð
  • Aukið lánshæfi ríkisins á alþjóðavettvang
  • og fleira og fleira

Niðurstaðan er einfaldlega sú að orðfæri vinstri manna er skrýtið. Af markaðslegum ástæðum eru þeir hættir að kenna flokka sína við alþýðu og brátt hætta þeir að kenna þá við samstöðu eða samfylkingu. Þannig nafngiftir draga ekki að. 

Nú heitir það umbótastjórn þegar fjórir eða fimm flokkar eiga að koma saman til að mynda ríkisstjórn og freista þess að gera enn betur en núverandi ríkisstjórn hefur gert.

Flestir myndu kenna slíka ríkisstjórn við eitthvað annað. Mér dettur í hug hið gamla og góða íslenska orð hrossakaup.

 


Hinn eldklári stjórnmálafræðingur tjáir sig spaklega

Kosningar eru uppgripatíð fyrir stjórnmálafræðinga. Eftir að hafa kosið kom ég heim og viti menn, enn einn stjórnmálafræðingurinn var þá að tjá sig um allt og ekkert í aukafréttatíma Stöðvar2.

Hann var spurður álits á lélegri kjörsókn í morgun. Hinn spaki og alltsjáandi stjórnmálafræðingurinn svaraði þá með þeim orðum sem uppi munu verða meðan land byggist og verður framvegis vitnað í hann í skólum, vinnustöðvum, bókum og fréttaskýringaþáttum hér á landi og ábyggilega erlendis. Hann sagði:

Þetta gefur auðvitað þær vísbendingar að fólk er seinna á ferðinni ...

Manni verður hreinlega orðfall. Þvílíkt innsæi, þekking, menntun, speki og hnyttni sem viðstöðulaust kemur frá þessum gjörvilega fræðingi. Ég tók blauta húfuna ofan fyrir honum og hneigði mig fyrir framan flatskjáinn.

Sumir hefðu ábyggilega hagað sér eins og kjánar og sagst ekki geta svarað spurningu um hvað valdi lélegri kjörsókn. Aðrir hefðu bent á að verðrið sé leiðinglegt. Enn aðrir hefðu ábyggilega tjáð sig á allt annan hátt og gert sig að kjána. En ekki stjórnmálafræðingurinn, hann er flottastur. Honum er aldrei orðs vant. Þvílíkt rennerí orða.


Ósamstæðir og ósamvinnuþýðir vinstri flokkar

VinstriÞetta gæfulega fólk sem er á mynd úr frétt Morgunblaðsins hefur fundað undanfarna daga og ætlað að búa til ríkisstjórn fyrir kosningar. 

Þessir vinstri flokkar virðast ekki ætla að ná meirihluta í þetta skiptið. 

Samkomulagið í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili var hörmulegt. Fjöldi þingmanna hrökklaðist áburt undan ofríki Steingríms og Jóhönnu.

Píratar eru óskrifað blað en ekki var samkomulagið gott í litla flokknum á þessu kjörtímabili. Sálfræðing þurfti til að ganga á milli þeirra.

Áður hét flokkurinn Borgarahreyfingin og þá gekk samstarfið ekki heldur vel. Þrír þingmenn rægðu þann fjórða svo illa að hann hrökklaðist helsærður úr flokknum Eftir það kallaðist flokkurinn Hreyfingin sem er líklega réttnefni. Sálfræðingar munu ábyggilega hafa nóg að gera hjá Pírötum á næsta kjörtímabili.

Vilji svo óheppilega til að þessir fjórir flokkar nái að mynda ríkisstjórn með meirihlutafylgi á Alþingi verður fróðlegt að sjá hvernig þeim gengur að vinna saman.

Varla vilja kjósendur taka áhættuna á því að fá þessa fjóra flokka í eina ríkisstjórn til þess eins að gera tilraunir með hagsmuni þjóðarinnar.


Vörumst Viðreisn, Iceave-hákarlinn

IcesaveStundum grípa menn til hræðsluáróðurs og þá helst þeir sem hafa vondan málstað að verja. Fyrir fimm árum var sett nýtt met í lágkúru í þeim efnum þegar Icesave hákarlinn var kynntur til sögunnar. Á bak við hann stóð Áfram hópurinn sem auglýsti grimmt og eyddi milljónum og aftur milljónum í að berjast gegn málstað Íslands.

Þetta segir Haraldur Hansson, á bloggi sínu. Hann varar fólk við Viðreisn, fólkinu sem barðist gegn málstað Íslands. 

Og Haraldur segir og vísar til hákarlsins á myndinni:

Að Icesave hákarlinum stóðu m.a. Benedikt Jóhannesson, Hanna Katrín Friðriksson og Dóra Sif Tynes, sem nú eru öll í framboði fyrir hákarlinn Viðreisn.

Þeim þótti sanngjarnt verð fyrir farmiða til Brussel að dæma þjóðina til fátæktar í nokkrar áratugi. Þeirra stóri draumur er enn að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Gerum eins og Haraldur, vörumst Viðreisn. Fólkið sem ætlaði okkur að kyngja Icesave samningunum. Benedikt og fleiri reyndust hafa rangt fyrir sér. Íslendingar greiddu ekki skuldir vanskilamanna og þeirri ákvörðum tókst ekki að hnekkja fyrir Evrópudómstólnum.

Þjóðin rasskellti flokkana Icesave flokkana í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og einum þingkosningum. Þannig virðist það ætla að verða núna. Viðreisn, Samfylkingin og Björt framtíð eru með svipað fylgi. Allir þessir flokkar eru á mörkum þess að ná kjöri í kosningunum á morgun.

Þjóðin vill ekki ganga í Evrópusambandið. Haraldur Hansson orðar þetta á einstaklega spaugilegan hátt:

Það er eitthvað svo táknrænt fyrir vantrú Viðreisnar á þjóðinni að velja listabókstafinn C, sem er ekki notaður í íslensku.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur

Sjálfstæðisflokkurinn verður sigurvegari kosninganna á morgunn. Skoðanakönnunum Gallup sem Ríkisútvarpið kynnti í dag, og könnun 365 miðla, virðast bera nokkuð vel saman.

Samkvæmt Gallup verður niðurstaðan þessi (niðurstöður 365 miðla innan sviga):

  1. Sjálfstæðisflokkurinn 27% (27,3%)
  2. Píratar 17,9% (18,4%)
  3. Vinstri græn 16,5% (16,4%)
  4. Framsóknarflokkurinn 9,3% (9,9%)
  5. Viðreisn 8,8% (10,5%)
  6. Samfylkingin 7,4% (5,7%)
  7. Björt Framtíð 6,8% (6,3%)

Greinilegt er að Píratar hirða fylgið af Samfylkingunni og jafnvel Bjartri framtíð. 

Píratar hafa aftur á móti ekki geta haldið fylginu sem fyrri skoðanakannanir virtust sýna að þeir hefðu frá Vinstri grænum.

Merkustu tíðindin eru án efa þau að kratar í Samfylkingunni og Bjartri framtíð hafa í sautján ár talað um breytingar á íslensku þjóðfélagi. Þær breytingar hafa einkum orðið þær að Alþýðuflokkurinn er ekki lengur til og Samfylkingin og Björt framtíð eru við það að falla út af þingi.

Þjóðin er greinilega ekki sammála þessum tveimur flokkum sem virðast vera að deyja innan frá Samfylkingin færði sig of langt til vinstri og munurinn á henni og Vinstri grænum var orðinn heldur lítill. 

Kratar hafa líklega fengið nóg af innanbúðarvandræðum Samfylkingarinnar og láta sig hverfa, þegjandi og hljóðalaust.

Vinstri kratar eru aftur komnir til Vinstri grænna þar sem þeir eiga heima. Miðjukratar og hægri kratar eru sumir hverjir komnir yfir í Viðreisn og bíða það upprisu ESB, Evru og annarra stefnumála krata.

Og ... fjölmargir hægri kratar eru komnir yfir í Sjálfstæðisflokkinn sem og fjöldi miðjumanna úr Framsóknarflokknum. Sjálfstæðisflokknum er greinilega treyst. 

Spá mín er að Sjálfstæðisflokkurinn fari yfir 30% í kosningunum á morgun. 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband