Málefnaleg umræða á hröðu undanhaldi

Það er svo fremur pirrandi að ætlast skuli vera til þess af okkur að við hlaupum upp til handa og fóta og svörum allri þeirri vitleysu sem stöðugt vellur upp úr fordómafullum kjánum þessa lands.

Þetta skrifar Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, í Morgunblað dagsins. Í stuttri grein svarar hann einni af mörgum spurningum sem Gústaf Níelsson lagði fyrir hann í blaðinu í gær.

Vissulega kann svo að vera að það fari í taugarnar á einstaka manni að þurfa starfs síns eða stöðu vegna að svara spurningum, jafnvel þó þær séu heimskulegar. Besta vopnið gegn vitleysu og fordómum er auðvitað kurteisi og ekki síður þolinmæði. Sá sem ekki kann að stilla sig í þessum efnum er á rangri hillu. Svo einfalt er þetta.

Vel má vera að Gústaf Níelsson sé annað hvort fordómafullur og vitlaus. Annað hvort er eiginlega nægileg ávirðing í einni skvettu. Ég dreg það þó hvort tveggja í efa. Gústaf hefur hins vegar ákveðnar skoðanir sem hann ódeigur viðrar. Svo er það allt annað mál hvort hann hafi alla tíð rétt fyrir sér. Því deila andskotar hans á hann eins og þeim sé borgað fyrir það.

Þegar öllu er á botninn hvolft dugar svar Sverris alls ekki. Þrátt fyrir stöðu sína sem formaður félags missir hann stjórn á sér og hreytir ónotum í þann sem leyfir sér að gagnrýna hann og félagið stendur fyrir. Þannig hefst jafnan langvarandi ófriður. Einum er misboðið, annar svarar og svo koll af kolli uns allt fer úr böndunum. Þetta þekkjum við af einstaklingum, sögu þjóðarinnar og annarra landa.

Eftir hrunið var kallað eftir því að umræðuhefð landans þyrfti að breytast. Það hefur alls ekki gerst, hvorki í stjórnmálum né dægurmálum. Ef eitthvað er hefur hún versnað. Fáir kunna sér hófs, allir kunna hins vegar að skvetta út hlandkoppum sínum og skiptir litlu hverjir verða fyrir. Skvettan virðist vera aðalatriðið. Málefnaleg umræða er á hröðu undanhaldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég er farinn að hallast að því að það sé best að leyfa Sverri og Tamimi að tjá sig sem allra mest, því þá verður stuðningur við Íslam fljótlega kominn nálægt frostmarki. Ef það gerist ekki í kjölfarið, verð ég sennilega að éta ofan í mig að Sverrir hafi eftir allt saman haft rétt fyrir śér í þessari einkunnagjöf sinni um landa sína.

Theódór Norðkvist, 3.12.2014 kl. 18:31

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Mikið er ég sammála þér Sigurður, og hafðu þökk fyrir þessi orð.

"Að ætlast til af okkur að við hlaupum upp til handa og fóta og við svörum allri þeirri vitleysu sem stöðugt vellur upp úr fordómafullum kjánum þessa Lands"...

Formaður Múslima á Íslandi eitthvað pirraður greyið...

Það er ekki furða að miðausturríkin eru eins og þau eru ef þetta er þroski manna þar.

Málefnaleg umræða verður að fara að eiga sér stað varðandi framtíð okkar Íslendinga tel ég,Framtíð okkar varðandi eigin Þjóðkjörna trú og hversu langt við eigum að ganga í frelsi til þeirra sem við ákveðum að taka að okkur...

Kv.góð

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 3.12.2014 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband