Þannig er nú lífið bara nokkuð indælt ...

DSC_0365 Hornvík, Hvanndalur, Hælavíkurbjarg, vetu - Version 2Þú getur ekki vaðið tvisvar í sömu ánni. Það er alltaf nýtt vatn sem leikur um fætur þér.

Svo mun vera um vatnið eins og Heraklítus sagði í Grikklandi fyrir um 2500 árum. Og eins er það með vatnið og tímann, hvort tveggja er alltaf nýtt sé rétt talið.

Ári að ljúka og nýtt að byrja. Þetta nefnast oft tímamót og æði margir upphefjast rétt eins og að áramót hafi í för með sér náttúrulegar breytingar. Svo er nú ekki. Hinn 1. janúar er litlu frábrugðinn 31. desember. Eini munurinn er talning tímans. Rétt eins og þegar sekúnda verður að annarri, mínúta mætir þeirri næstu, klukkustundir raðast í tímanna safn og svo gerist með daga, vikur, mánuði og endanlega hvert ár.

Þrátt fyrir óteljandi slík mót gerist ekkert í náttúrunni, að minnsta kosti ekkert sem við leikmenn greinum. Hún heldur ekki upp á neitt. Enn mun til dæmis leka hraun upp úr gatinu á flæðunum norðan Vatnajökuls, ekkert hlé né aukning verður í tilefni dagsins. Engin uppstytta verður í tilefni áramóta, himinninn mun ekki skjóta eldingum og þeyta þrumum. Sólin mun ekki gægjast óvænt fram úr skýjunum eða hitastig dagsins breytast. Ekkert tekur tillit til tímans þó svo að hann sé alls staðar allt um vefjandi. Náttúran er einfaldlega blind, miskunnarlaus og ópersónuleg. Allt fram streymir endalaust. Jafnvel dýrin skynja ekki nokkra breytingu nema hugsanlega fyrir tilstilli manna. Kýrnar tala ekki mannamál um áramót. Hvorki hundur né köttur tárast og óska hvorum öðrum gleðilegs árs.

Jafnvel klettarnir opnast ekki og huldufólkið syngur ekki messu í Tungustöpum landsins og óskasteinninn er týndur. 

Svona er þetta nú gjörsamlega gerilsneytt og leiðinlegt þegar litast er um með gagnaugunum. 

Samfélag manna er hins vegar með allt öðrum brag og þar er lífið miklu bjartara en kuldaleg náttúran gefur tilefni til. Við njótum tímans, teljum hann, söfnum honum og geymum til upprifjunar. Dagsmótin eru raunveruleg. Við leggjumst til svefns að kvöldi dags og vöknum að morgni annars. Fyrr en varir fögnum við vikulokum og þannig eru vikumótin nær áþreifanleg. Svo er um mánaðamótin, árstíðirnar og áramót.

Af tilefninu eru ávörpin eru lík og af tilfinningu veitt. Góðan dag, góða helgi, til hamingju með afmæðið, gleðileg jól, gleðilegt sumar ... og gleðilegt ár. Allt beinist þetta að því sama, að við og allir aðrir getum glaðst. Þannig er lífið bara  okkuð indælt hvort sem við erum búsett hér á landi eða annars staðar enda eiga flestir þá ósk æðsta að njóta lífsins með sínu fólki. Eða eins og Tómas Guðmundsson, skáld orðaði það í ljóðinu „Ljóð um unga konu frá Súdan“:

Samt dáðist ég enn meir að hinu, 
hve hjörtum mannanna svipar saman
í Súdan og Grímsnesinu.

Skrýtilegt er það nú samt hversu fáir virðast gera sér grein fyrir einföldum sannindum.

Í takti við annað fólk er ekki úr vegi að ég snýti mér, þurrki tárin af hvörmum og manna mig upp í að óska lesendum mínum gleðilegs og ekki síst gæfuríks komandi árs. Svo held ég til þess fólks sem ég unni mest. En fyrst þetta:

Lítill drengur spurði föður sinn hvort Neró hefði ekki verið slæmur maður.

„Gerspilltur,“ svaraði faðir hans ...

Löngu síðar spurði annar drengur föður sinn hins sama.

„Ég veit ekki hvort hægt er að segja það,“ svaraði faðirinn. „Maður má ekki dæma of hart. en því verður ekki neitað að hann fór oft miður heppilega að ráði sínu.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband