Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Geta umbrot í Bárðabungu leitt til eldgoss í Tungnafellsjökli?

Tungnafellsj

Margir fylgjast með skjálftavirkni á landinu og hafa gert í langan tíma. Flestir vita að ekki eru skjálftar beintengdir við eldsumbrot, fjarri því. Þeir eru oftar en ekki vegna hreyfingar jarðskorpunnar. Stundum benda skjálftar til eldsumbrota og þá fyrst og fremst þegar kvika brýst upp og veldur við það titringi sem jarðfærðingar hafa náð að túlka og skýra.

Þetta er svo sem allt gott og blessað. Við lifum í þessu landi og sættum okkur við jarðskjálfta og eldgos, fylgjumst með þróun mála af barnslegri forvitni og tökum eftir hverju orði sem fræðingarnir miðla til okkar. Reyndar er það svo að tengslin milli jarðfræðinga og almennings er svo óskaplega stutt hér á landi og skilningur fólks verður því meiri og dýpri en ella.

Lengi hef ég verið afar hugsi yfir skjálftum í Tungnafellsjökli enda hafa þeir verið afar margir og stórir upp á síðkastið. Auðvitað flögrar það að leikmanninum að þarna gæti dregið til tíðinda vegna þess að hversu tengslin við Bárðarbungu virðast vera auðsæ vegna nálægðar.

Í ritgerð eftir Þórhildi Björnsdóttur,  jarðeðlisfræðing, og Pál Einarsson, jarðeðlisfræðing, í Jökli nr. 63 2013, kemur eftirfarandi fram (feitletrun og greinaskil er mín):

Könnun á jarðskjálftagögnum og InSAR-myndum leiðir í ljós þrjár skjálftahrinur eða atburði sem gætu tengst þessum nýlegu hreyfingum.

Fyrsti atburðurinn var í október 1996, meðan á Gjálpargosinu stóð, annar var í ágúst 2008 og sá þriðji í nóvember 2009. Þessir atburðir koma fram í aukinni jarðskjálftavirkni á svæðinu, bæði ef litið er til fjölda skjálfta og skjálftavægis. Allir skjálftarnir eru þó litlir.

Samanlagt skjálftavægi allra skjálfta á svæðinu samsvarar einum skjálfta af stærðinni 3,4. Vægi sprunguhreyfinganna á sama tímabili samsvarar skjálfta af stærðinni 5,0. Þetta misræmi styður eindregið þá túlkun að sprungufærslurnar tengist kvikuhreyfingum en stafi ekki einvörðungu af tektónískum hreyfingum.

141019 Skjálftar vik 42

Auðvitað heldur leikmaðurinn röksemdafærslunni áfram og freisast til að tengja þessar niðurstöður aðstæður vegna hreyfinga í Bárðarbungu. Þannig getur vel hugsast að eldgos verði í öskju Tungnafellsjökuls haldi þessir skjálftar áfram. Mögulega getur verið að Bárðarbunga hafi aldrei gosið. Fargið ofan í Bárðarbunguöskjunni kann að vera svo mikið að kvika leiti undan eldstöðinni og þar sem hún á greiðari leið upp á yfirborð. Hún hefur ferðast um fjörtíu km leið frá Bárðarbungu og í Holuhraun þar sem eldgos varð. Líkur benda til þess að það hafi hún einnig gert í lok 18. aldar er þar gaus síðast. Að minnsta kosti benda brotalínur sigdalsins, sem stundum hefur verið dreginn inn í umræðuna, til þess að hér sé um endurtekið efni að ræða. Það vill segja að Báðarbunga skjóti iðulega kviku til norðurs en gjósi ekki sjálf.

141019 landið skjálftar

Tungnafellsjökull er ekki þekkt eldstöð. Sagt er að þar hafi ekki orðið eldgos síðustu tíu þúsund árin en það bendir ekki til þess hún sé kulnuð. Þvert á móti benda orð jarðeðlisfræðinganna hér að ofan til að þarna hafi eitthvað gerst áður en Bárður tók að bæra á sér.

Svo er það annað mál hversu kyrrt er á landinu öllu meðan á ókyrrð er í Bárðarbungu, Holuhrauni og Ösku. Tíðindalaust er á öllum vígstöðum nema við norðvesturhorn Vatnajökuls eins og meðfylgjandi skjálftakort frá Veðurstofunni sýnir.

Efsta myndin er úr ritgerð Páls og Þórhildar og með því er þessi texti: „Einfaldað jarðfræðikort af svæðinu kringum Tungnafellsjökul byggt á kortum frá Guðmundi Kjartansyni (1965) og Hauki Jóhannessyni og Guðmundi Ómari Friðleifssyni (2006a). Bakgrunnur frá Landmælingum Íslands.“

Næsta kort er af skjálftum viku 42, það er síðasta vika, frá 12. til 18. október 2014. Síðasta kortið er svo yfirlitskort dagsins frá Veðurstofunni.

 


Rassbagan sem hvarf í blámóðuna frá Holueldum

Alltaf skal maður taka ofan fyrir sjálfskipuðu gáfumönnunum og undrast hæfileika og skýra hugsun. Undraskjótt er stokkið á grunnhyggna skýringu og henni tekið sem heilögum sannleika og það jafnvel þó brotalamirnar séu lítt huldar.

Seinnileikinn fær svo marga til að gleyma gagnrýnni hugsun, notfæra sér þá menntun og þekkingu sem ætti alltaf að vera til taks. Svo afar margt er sennilegt og þar af leiðandi of þreytandi að leggja það á sig að brjóta heilann um eitthvað sem gáfumennirnir hafa tekið upp á sína arma sem sjálfsögð sannindi.

Mér er oftast annt um málfar mitt, bæði í mæltu máli og rituðu. Er þó síst af öllu góður í því. Nú man ég að fyrir nokkuð löngu hversu þeim var hælt sem hættu að segja að eftirspurn væri mikil eftir ... bílum, kexi eða hvað það nú var. Þess í stað var það orðað þannig að mikil spurn væri eftir hinu og þessu. Þetta orð brúkuðum við sem þóttumst vera gáfumenni.

Má vera að ég hafi ekki tekið nógu vel eftir í íslenskutímunum hjá Ólafi Oddssyni í MR fyrir margt löngu. Hann hefur ábyggilega nefnt að þessi „spurn“ væri bölvuð rassbaga, en ekki tók ég eftir því.

Jæja, að minnsta kosti les ég daglega ördálkinn í Morgunblaðinu sem nefnist „Málið“. Af honum hef ég gagn og vonandi gaman af.

Í Máli dagsins segir eftirfarandi:

Stundum finnst fólki tvítekning á borð við eftirspurn eftir e-u vera málleysa og segir „spurn eftir e-u“. Meinið er að „spurn“ í þessari merkingu á sér ekki stoð í málinu. Líkt gildir um áhugi á e-u, aðgangur að e-u og tillit til e-s.

Er ég las þessar línur rann upp fyrir mér nýr dagur og rassbagan „spurn eftir“ leysist upp í blárri móðu frá Holueldum og hvarf í óravíddir himingeimsins.

Ekki veit ég hvort mikil eftirspurn er eftir svona dálkum eins og hafa í mörg ár birst í Mogganum mínum. Hitt er þó víst að ég myndi spyrja eftir honum hætti hann að birtast enda lærir sá er lifir.


Morgunblaðið gagnrýnir sæstrengsverkefnið

Ákafi fyrirtækisins við að vinna við svokallað „sæstrengsverkefni“ er eiginlega enn skrítnari, þótt þar fylgi hvorki hávaðamengun né fugladráp. Það mál er kynnt í óskiljanlegum sefjunarstíl, sem er þessu mikla fyrirtæki ekki sæmandi.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins fer mikinn í dag og leyfir sér að gagnrýna Landsvirkjun. Ofangreind orð eru úr þessum leiðara og eru stórmerkileg því lengi hefur fyrirtækið fengið að valsa um og vinka „sæstrengnum“ framan í landsmenn rétt eins og hann væri galdragulrót sem hægri menn hafa margir hverjir kokgleypt.

Vandinn er bara sá að engin orka er í fyrirsjáanleg í sæstrenginn nema með ótrúlegum breytingum á landslagi og meðfylgjandi náttúruskaða.

Sefjunarstíll má hiklaust kalla þessa sæstrengspólitík Landsvirkjunar. Við skulum varast að leggja trúnað á það sem þetta fyrirtæki segir um málið, mikið vantar upp á að þar séu öll kurl komin til grafar.


Var fólkið á myndinni í stórkostlegri hættu?

TiskudrottningHún vakti vissulega athygli myndin sem birtist í fjölmiðlum í gær og í dag af ungmennunum sem dönsuðu af kæti einhvers staðar við hraun sem rennur úr gíg í Holuhrauni norðan Vatnajökuls.

Sumir náðu ekki upp í nef sér fyrir vandlætingu og þeirra á meðal var formælandi almannavarna. Tróð þó enginn fjórmenninganna á hrauninu eins og ýmsir blaða- eða fréttamenn hafa gert.

Hægt er að ráða í hvar myndin var tekin. Þarna er mikill gufumökkur sem leggur upp af hraunjaðrinum. Það bendir til að Jökulsá renni þarna við jaðarinn.

Hér er önnur mynd sem sýnir stöðu hraunsins þann 30. september 2014.

jarðvísindastofnun

Samkvæmt frétta myndum rennur Jökulsá suður fyrir hraunið, kemst ekki norður fyrir það. Ég hef sett hvítan kross austan við þann hluta hraunsins sem hefur að undanförnu verið á mestri hreyfingu. Á fréttamyndum hefur mátt sjá ána renna í þröngri lænu við hraunið og gufubólstrar lagt upp frá því.

Myndin er ábyggilega tekin einhvers staðar þarna sem hvíti krossinn er. Þá hefur verið sunnan- eða suðvestanátt og miðað við efri myndina hefur hún verið talsvert ströng, ef til vill 8 til 10 m á sek.

Þarna hefur því ekki verið nokkur hætta á ferðum vegna gasmengunar, hvorki fyrir þyrluna né farþegana.

Staðurinn er rúmlega átta kílómetrum frá eldgígunum og vindinn leggur í áttina frá fólkinu. Eldgosið ógnaði því þessu fólki ekki á nokkurn hátt.

Hamagangur almannavarna er því algjörlega tilgangslaus.

Vel má vera að þyrlan hafi lent þarna í óleyfi en engin hætta virðist hafa verið á ferðum fyrir fólk, þyrluflugmaðurinn hefur auðsjáanlega verið afar aðgætinn.

Hins vegar halda yfirvöld áfram hræðsluáróðri sínum og gera að því skóna að allir á svæðinu séu í stórkostlegri hættu. Ef eitthvað er ámælisvert þá er það áróður yfirvalda.

Ég hef fylgst með gosfréttum og séð ótal myndir af gosstöðvunum. Það hefur heyrt til undantekninga að vísindamenn og fjölmiðlafólk hafi verið með gasgrímur sér til varnar. Ekki nokkur maður og síst af öllu fjölmiðlar, hafa gagnrýnt gasgrímuskortinn í ljósi áróðurs almannavarna og lögreglu.

Að sjálfsögðu geta aðstæður stundum verið hættulegar við eldgosið. Hvernig geta þær verið hættulegar fólki meira en átta kílómetrum frá gosstöðvunum í hvassri sunnan eða suðaustanátt? 

Tek það fram til að fyrirbyggja misskilning að ég þekki ekkert til þyrlufyrirtækisins eða flugmannsins. 


Landafræðin vefst fyrir Veðurstofunni

R141007 Veðurstofan gosstaðureglan er sú að maður trúir öllu sem kemur frá stjórnvöldum. Hins vegar gleymist að þar starfar fólk sem er mistækt í verkefnum sínum rétt eins og starfsfólk hjá einkafyrirtækjum. Hin reglan er sú að trúa ekki öllu sem birtist á prenti og ekki heldur á netmiðlum. Þetta datt mér í hug þegar ég góndi á meðfylgjandi kort frá Veðurstofu Íslands á Facebook síðu hennar. Fannst það heldur ólíklegt.

Kortið á að sýna hvert gasmengunin frá gosstöðvunum á að leggja í dag, miðvikudag.

Einhver hefur kastað til höndunum hjá Veðurstofunni því gosstöðvarnar eru fjarri því að vera þar sem rauði liturinn bendir til. Þær eru þar sem ég hef sett lítið X og það er um fjörtíu kílómetrum norðaustar. Síðast þegar ég athugaði var ekki enn farið að gjósa við Gæsavötn.

Einhverjum kann að þykja þetta smáatriði sem engu skiptir. Setjum það bara í samhengi við annað. Fyrst staðsetningin á gosstöðvunum er röng er gæti þá ekki fleira verið rangt, t.d. sjálf spáin?

Svo er það þetta með smáatriðin. Líklega er það bara smáatriði þó launin hjá lesandanum lækki um 1%. Enn kann það að vera smáatriði þó stafsetningarvillur séu í texta. Jafnvel landakort getur verið rangt en það má vera smáatriði. Þegar ég geri villu í Excel töflureikni fæ ég ranga útkomu, jafnvel enga. Það dugar sjaldnast.

Skipti smáatriðin litlu máli hvað þá um staðreyndir? Er nóg að ákveðin staðreynd sé 99% rétt til að standa undir nafni. Hvar endar slíkt þegar slegið er af kröfum um nákvæmni í blaðamennsku eða upplýsingagjöf til þjóðar, svo dæmi sé tekið?

Hvaða máli skiptir eiginlega þó gosstöðvar séu sagðar við Gæsavötn en ekki á flæðum Jökulsár á Fjöllum? Svari hver fyrir sig.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband