Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Hverjir eiga eiginlega að móta þjóðfélagsumræðuna?

Mér finnst stundum gaman að lesa skrif Egils Helgasonar á Pressunni og fyrir kom að ég horfði á þætti hans í sjónvarpinu. Stundum kemur fyrir að hann leggur gott til málanna, það gerist líka að hann bryddar upp á áhugverðum málum en oftar en ekki er hann bara eins og við hinir, jafnvitlaust og lítt áhugaverður.

Það verður þó að segjast eins og er að mér mislíkar mikið þegar fólk er umtalsillt og rökstyður ekki skoðanir sínar eins og Egill í eftirfarandi pistli sem nefnist „Út á sprengjusvæðinu“, og er hér í heild sinni:

Er Brynjar Níelsson búinn að taka að sér að vera allsherjar nettröll eða er hlutverk hans kannski að prófa hugmyndir sem virka öfgafullar og athuga hvernig þær falla í kramið? 

Því framganga Brynjars – og að nokkru leyti Vigdísar Hauksdóttur – virðast aðallega til þess fallin að drepa þjóðfélagsumræðunni á dreif, senda hana í óvæntar og skrítnar áttir. 

En svo er náttúrlega hugsanlegt að þeim takist að færa mörk þess sem telst eðlilegt – að þau taki að sér að fara út á sprengjusvæðin, og svo má athuga hvort þau snúi aftur í heilu lagi, eða hvort vanti kannski hönd, fót eða höfuð?

Egill finnst það sök Brynjars Níelssonar, alþingismanns, að ræða um það sem einhverjir óskilgreindir gáfumenn í þjóðfélaginu vilja ekki ræða um.

Ekki má tala um Ríkisútvarpið og hversu mikið þetta ríkisbákn er orðið. Og alls ekki má gagnrýna þvingunaráskriftir þess. Einhverjir hafa fundið það út að 18.800 krónurnar sem ríkið hirðir af okkur með skattinum sé alls ekki mikill peningur og síst af öllu sé honum deilt í mánuði ársins eða daga, hvað þá klukkustundir. Skiptir þá engu hvort ég eða aðrir almúgamenn vilji spara, segja upp áskriftum og öðru því sem við teljum okkur geta verið án. Vilji einstaklingsins er virtur að vettugi vegna þess að gáfumennirnir hafa fundið það út að Ríkisútvarpið er eitthvað félagslegt sem enginn má ekki vera án.

Brynjar leyfir sér að hafa aðra skoðun á þessu og liggur ekki á henni. Þá verður allt vitlaust. Rétt eins og þegar hann viðrar skoðanir sínar á skattheimtu ríkisins, kvótakerfinu og öðrum málum. Þá rís Egill Helgason upp og kallar manninn nátttröll og hugmyndir hans öfgafullar. Og það sem verst er að hann er að hann er að „drepa þjóðfélagsumræðunni á dreif í óvæntar og skrýtnar áttir“. 

Hver er eiginlega sá sem ákveður hver þjóðfélagsumræðan á að vera? Og hvaða áttir eru óvæntar og skrýtnar? Hér á landi er málfrelsi og það er síður en svo að Brynjar Níelsson sé einn um að vilja ræða um Ríkisútvarpið. Á Egill að móta þjóðfélagsumræðuna? 

Annars eru viðbrögð Egils Helgasonar hreinn barnaleikur miðað við hvernig sumir rita í athugasemdakerfið sem fylgir jafnan öllum pistlum hans. Þvílíkur óhróður og skítkast sem þar á sér stað, raunar á báða bóga, af þeim sem eru á móti skoðunum Brynjar og einnig þeim sem eru hlynntir þeim. Þar er viðbjóðurinn mikill og vanstilltum höfundum til mikillar vansæmdar.

 


Er hætt að gera greinarmun á Goðalandi og Þórsmörk?

Foldir

Blaðamaður Morgunblaðsins fellur í sömu gryfju og svo margir aðrir í hans stétt. Í grein á blaðsíðu sextán kemur fram að 60 þúsund manns komi árlega í Þórsmörk. Svo virðist sem að blaðamaðurinn geri ekki greinarmun á Þórsmörk og Goðalandi sem í raun er ófyrirgefanlegt.

Þórsmörk er landið norðan Krossár og sunnan Þröngár. Ekkert annað. Þar, í Landadal er Ferðafélagið með aðstöðu og aðrir aðilar sjá um rekstur ferðaþjónustu í Húsadal.

Goðaland er að hluta til það land sem er sunnan Krossár. Þar, í Básum, er Útivist með aðstöðu.

Mikilvægt er að gera greinarmun á landsvæðum og halda í heiðri örnefni. Sé það ekki gert munu sömu örlög bíða þeim eins og tungumáli sem ekki er sinnt, hvoru tveggja hnignar og fellur um síðir í gleymskunnar dá.

Enginn heldur því fram að Reykjavík og Kópavogur væri sama sveitarfélagið. Verður einhvern tímann ekki gerður greinarmunur á Landmannalaugum og Hrafntinnuskeri eða Heklu og öðrum fjöllum?

Ég hef enga trú á því að sextíu þúsund manns komi árlega í Þórsmörk. Hér er áreiðanlega átt við samanlagðan fjöldi þeirra sem sækja Þórsmörk og Bása. Krossá er gríðarlegur farartálmi og það hefur valdið því að á undanförnum tuttugu árum hafa miklu fleiri farið í Bása en í Langadal og Húsadal. Þetta er eðlilegt og sem betur fer reyna fáir sig við Krossá. Þeir sem fara oft á sumri á þessar slóðir hafa séð að mikill munur er á fjölda t.d. tjalda í Langadal og Básum. Af þeirri staðreynd má draga einfalda ályktun.

Tilefni greinarinnar í Morgunblaðinu er að nú eru áttatíu ár frá því fyrsta skipulagða hópferðin var farin á vegum Ferðafélags Íslands inn í Þórsmörk. Löngu síðar hóf ég að ferðast með Ferðafélaginu og á því mikið að þakka. Þar fékk ég að hluta þann brennandi áhuga fyrir ferðalögum og grunn í fjallamennsku sem ég hef lengst af stuðst við. Þar af leiðandi hefur mér alltaf þótt vænt um félagið þó að ég hafi um tíma unnið mest með Útivist, meðal annars í fararstjórn. Núorðið skipti ég mér ekkert af þessum félögum, ferðast á eigin vegum.

Myndin er tekin á svokölluðum Foldum sem eru ofan við Strákagil og neðan Heiðarhorns og þarna liggur m.a. um gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls. Horft er til norðvesturs. Fyrir ofan þessa ágætu menn sjást tvö fjöll. Vinstra megin er Réttarfell á Goðalandi og hægra megin er Valahnúkur í Þórsmörk. Á milli eru Krossáraurar og þar rennur samnefnt fljót og greina má það ef vel er að gáð. Sumir nefna dalinn sem Krossá rennur um einfaldlega Krossárdal en það nafn hefur ekki náð vinsældum enda gengur uppgjafartónninn út á að kalla þetta allt Þórsmörk, ekki að fjölga örnefnum. Vonandi er þó Þórólfsfell undanskilið en það er fjallið efst fyrir miðri mynd og er nokkuð slétt að ofan. Reyndar er það handan Markarfjóts og er ekki það sama og Krossá ...


mbl.is Tuttugu ferðir á ári í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hitbylgju á Kistufelli í Esju

Kistufellsleid

Í gær, laugardag, brá ég undir mig betri fætinum og skokkaði upp á austurhorn Kistufells í Esju. Þetta er ein af skemmtilegustu gönguleiðunum. Ég fer eiginlega ekki núorðið á Þverfellshorn vegna þess að þar er alltof mikill ágangur fólks og að auki lítur leiðin skelfilega út.

Ég ók á Toyota Yaris upp á Esjumela og þaðan austur eftir malarvegi milli Esju og Mosfells. Enginn vandi að aka þarna, fór bara varlega. Ökuleiðin sést á meðfylgjandi korti og punktaleiðin sýnir gönguleiðina upp.

Veðrið í gær var það besta sem komið hefur á höfuðborgarsvæðinu og ég hafði eiginlega mestar áhyggjur af því að hitinn væri of mikill. Sem betur fer var golan vestanstæð og kom í bakið á mér á leiðinni upp, magnaðist aðeins á uppleiðinni og kældi mann passlega.

Gönguleid

Ég mæli með því að gengið sé upp með gilinu sem sést vinstra megin á myndinni. Þar er leiðin eins auðveld og hún getur orðið. Gilið er lítið og snoturt. Í því eru um sjö litlir fossar og gaman að skoða umhverfi þeirra.

Upp á Kistufell má ætla fjóra áfanga eða fleiri ef vill. Stallar eru í hlíðinni sem ágætt er að miða við. Og ekki má gleyma að snúa sér við og skoða útsýnið eftir því sem hærra er komið.  Sérstaklega er fallegt að fylgjast með breytingum til austurs. Þar er Grafardalurinn, djúpur og fallegur, Hátindafjallið og svo Móskarðshnúkar.

Móskardshnukar

Hérna er mynd af Móskarðshnúkum sem ég tók með talsverðum aðdrætti. Tindarnir njóta sín vel, stórkostlegir í litadýrð sinni. Ef vel er að gáð má greina gönguleið sunnan í hlíð Móskarðshnúks, en svo held ég að austasti hnúkurinn sé kallaður.

Mér finnst nokkuð miður að þarna skuli vera komin stígur. Aðal uppgönguleiðin er upp eftir hryggnum en fólk gengur yfirleitt niður hlíðarstíginn. Hryggurinn ætti að duga fyrir upp- og niðurleið. 

Hnúkarnir eru fjórir og sá austasti er hæstur, 807 m hár. Fjórði hnúkurinn er eiginlega ekki neitt neitt en er þó nægilega greinilegur til að vera talinn með.

Kistufell er í rúmlega 800 m hæð og er nokkuð slétt að ofan. Þar er mikill mosi. Í gær var ábyggilega yfir tuttugu gráðu hiti uppi og hlýr andvari af vestri.

Oft hef ég gengið mér til skemmtunar með suðurbrún Kistufells og allt að Gunnlaugsskarði og síðan til baka. Nokkrum sinnum hef ég gengið yfir á Hátind og þaðan niður. Þegar ég rifja göngur mína á Esju upp held ég að ég hafi gengið um hana mestalla. Í þetta sinn var ég latur, mátti það alveg. Lagðist bara í mjúkan mosann við vörðuna, drakk sódavatn og maulaði prins póló og horfði á veröldina. Þotur flugu hátt yfir, eins hreyfils rellur flugu langt fyrir neðan og þyrla heimsótti svæðið í útsýnisflugi með ferðamenn.

Austur2b

Neðsta myndin er tekin við vörðuna á austurhorni Kistufells og er horft í austur. Strikin sem ég hef sett inn á myndina tákna gönguleiðir niður frá Hátindi og ofan í Grafardal. Ég þekki þær allar, þær eru mjög brattar og vissara að fara afar varlega á niðurleið. 

Ég er nokkuð ánægður með þessar myndir. Best er að smella á þær og þá er hægt að stækka þær nokkrum sinnum. Hvet lesendur mína til að fara á Kistufell, hætta að troða á Þverfellshorni.


Maður er fastur með skylduáskrift að Ríkisútvarpinu

Nýlega var haft eftir fréttamanninum Boga Ágústssyni að hann hafi brugðist við gagnrýni á RÚV frá ritstjóra Morgunblaðsins með því að segja upp áskrift að Morgunblaðinu. Bogi skrifar af þessu tilefni: »Ég borga fólki ekki fyrir að skrifa lygaþvætting, óhróður og níð um mig, vinnufélaga og vinnustað.«

Bogi velur að stinga höfðinu í sandinn og lýsa vandlætingu sinni með því að segja upp áskrift að blaði sem hann getur hvort eð er lesið ókeypis í vinnunni.

Þessi viðbrögð Boga vekja spurninguna, hvað með okkur hin sem erum ósátt við vinnubrögð fréttastofu RÚV? Við viljum ekki frekar en Bogi borga fyrir »óhróður og níð« að ógleymdu bullinu og gildishlöðnum frásögnum frá svokölluðum »fréttaritara« RÚV í London.

Bogi Ágústsson getur sagt upp áskrift að Morgunblaðinu af því honum líkar ekki skoðanir blaðsins en þegar RÚV á í hlut erum við hin neydd með lögum til að greiða.

Gunnlaugur Sigmundsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann gagnrýnir Ríkisútvarpið nokkuð harkalega. Ofangreind tilvitnun er úr grein Gunnlaugs (aukin greinaskil og feitletranir eru mínar). Mér finnst hann orða hugsun sína snilldarvel.

Staðreyndin er einfaldlega sú að það er siðferðilega rangt að krefjast þess að allir séu áskrifendur að Ríkisútvarpinu, jafnt þeir sem vilja nota það sem og hinir. Fólk á ekki einu sinni þess kost að spara og sleppa því að kaupa áskriftir að öllum fjölmiðlum. Maður er einfaldlega fastur í skylduáskrift að Ríkisútvarpinu, svona svipað eins og eigandi fyrirtækis í myndinni um Guðföðurinn. Í henni gerði Mafían manni nokkrum tilboð sem mátti ekki hafna.


Þvingunaráskriftin að Ríkisútvarpinu gengur ekki

Ríkisútvarpið er enn og aftur í umræðunni og núna vegna skorts á hlutleysi. Einhverra hluta vegna er það talið sjálfsagt og eðlilegt að fá Hallgrím Helgason, rithöfund og samfylkingarmann, til að vera með reglulega pistla í útvarpi »allra landsmanna« og gefa honum tækifæri til að tjá skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar. Hallgrímur á að sjálfsögðu rétt á því að tjá sig eins og aðrir, en ef Ríkisútvarpið á að vera vettvangur fyrir pólitískan áróður er eðlilegt og sanngjarnt að öll sjónarmið fái aðgang að hljóðnemanum í Efstaleiti. Það virðist hins vegar ekki vera raunin eða það er mín tilfinning að sum sjónarmið virðast eiga betri aðgang að stofnuninni en önnur.

Þannig skrifar Vilhjálmur Andri Kjartansson, blaðamaður á Morgunblaðinu, í Pistli dagsins á bls. í blaði sínu. Ég er einfaldlega sammála Vilhjálmi. Skil raunar ekkert í því hvers vegna ég fæ ekki að tjá skoðanir mínar í Ríkisútvarpinu á sama hátt og Hallgrímur Helgason. Hann er hlutdrægur og ég verð það líka en á öndverðum meiði við Hallgrím. 

Vilhjálmur ræðir um skylduáskrift að Ríkisútvarpinu og hann er ósáttur við hana, vill eðlilega velja hvaða sjónvarp hann horfir á. Hann segir:

Ég kaupi ekki áskrift af Stöð 2 þar sem kostnaðurinn vegur ekki upp á móti dagskrárefninu sem ég myndi hugsanlega gefa mér tíma til að horfa á. Hins vegar kaupi ég áskrift af Stöð 2 Sport í þeim tilgangi einum að horfa á umfjöllun um íslenska knattspyrnu, þannig virkar frjáls markaður. Um Ríkisútvarpið gilda hins vegar einhver allt önnur lögmál á óljósum forsendum um sérstakt hlutverk stofnunarinnar.

Þetta snýst allt um val einstaklingsins, hvað honum fellur í geð og hvað ekki. Ríkisútvarpinu er hins vegar þröngvað upp á fólk, hvort sem það vill eða ekki. 

Ég trúi því ekki að fólk myndi sætta sig við að þjóðinni yrði gert að greiða áskrift að Morgunblaðinu og hún innheimt í formi skatta. Vilhjálmur orðar þessa hugsun svo ákaflega vel er hann segir þetta í niðurlagi Pistilsins:

Ég furða mig á siðferði þess fólk sem gerir þá kröfu til mín að greiða niður dagskrárefni Ríkisútvarpsins á sama tíma og það lofar sig fyrir að lesa ekki né kaupa Morgunblaðið því þar gætu mögulega leynst sjónarmið sem því hugnast ekki. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að skattgreiðendur ráði hvort þeir greiði í Ríkisútvarpið eða eitthvað annað eins og t.d. til björgunarsveita landsins.


Viðbrögð við framandi og andstyggilegum lífsviðhorfum

B RusselHér á landi eru margar góðar netsíður og blogg og á meðal þeirra er Lemúrinn. Á honum er oft að finna margar forvitnilegar greinar og ekki síður myndir frá gömlum tíma.

Fyrir stuttu birtist þar grein undir fyrirsögninn „Bertrand Russel neitaði að rökræða við enska fasistann Sir Oswald Mosley“ og er höfundur samantektarinnar Sveinbjörn Þórðarson.

Þegar ég las greinina varð ég hugsi ekki síst eftir að hafa lesið bréf heimspekingsins Bertrand Russels til Osvalds Mosley.

Hvernig talar nútímamaðurinn við þann sem er pólitískur andstæðingur? Hann liggur sjaldnast á skoðunum sínum og lætur venjulegast allt vaða.

Við getum litið á fjölmargar bloggsíður, innlendar og erlendar, og ekki síður athugasemdir sem birtar eru með fréttum og greinum í vefritum, bloggsíðum og fréttakerfum dagblaða. Þar veður oft uppi ókurteisi og ruddaskapur enda búa fáir yfir stillingu og gáfum að geta rökrætt og tjáð sig af hógværð um það sem þeir jafnvel fyrirlíta.

Þetta gat Bertrand Russel. Í ofangreindri grein er birt þýðing á bréfi hans til Mosleys þar sem hann hafnar því að rökræða við þann síðarnefnda. Hér er þýðing bréfsins eins og það er birt í grein Sveinbjörns Þórðarsonar og mynd af bréfinu er hér til hliðar. 

Kæri Sir Oswald,

Takk fyrir bréf þitt og með­fylgj­andi skjöl. Ég hef nú hug­leitt nýleg bréfa­skipti okkar. Það er ávallt erfitt að ákveða hvernig maður á að bregð­ast við fólki sem býr yfir lífs­skoð­unum sem eru manni fram­andi og í raun and­styggi­legar. Það er ekki það að mér sárni yfir almennum ummælum þínum, heldur hafa allir mínir kraftar farið í virka bar­áttu gegn þeim grimmi­legu for­dómum, ofbeld­is­áráttu og hrotta­legu ofsóknum sem ein­kenna fas­is­mann í orði og á borði.

Ég finn mig knú­inn til þess að segja að til­finn­inga­heim­arnir sem við þríf­umst í séu svo ræki­lega aðskildir og gjör­sam­lega and­snúnir hverjum öðrum, að ekk­ert gagn­legt eða heið­ar­legt gæti nokk­urn tím­ann komið af sam­skiptum okkar á milli.

Ég myndi vilja að þú gerðir þér grein fyrir kraft­inum að baki þess­ari sann­fær­ingu minni. Ég segi þetta ekki til þess að vera dóna­legur, heldur sökum alls sem mér er kært í mann­legri reynslu og afrekum.

Bestu kveðjur,

Bertrand Russell 

Auðvitað hefði þýðingin mátt vera betri, hún nær varla tilfinningalegum þunga bréfritarans, en það er nú aukaatriði hér. Þýðingin nær hugsuninni. Bertrand Russel ritar bréfið á afskaplega hógværan máta en lesandinn fer ekki í neinar grafgötur um skoðanir hans. Það hefur eiginlega verið hrikalegt kjaftshögg fyrir Mosley að fá svona trakteringu.

Nútímamaðurinn hefði eflaust ritað svona bréf á allt annan máta og látið stundarhitann stjórna málfari og ávarpi og „skreytt“ bréfið með einhverjum viðbjóði og ruddaskap.

Í sannleika sagt er í bréfinu fólginn lærdómur fyrir þann sem ann hógværð og kurteisi.


Klár kollur er góð vöggugjöf

Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, ritar Pistil í blað dagsins. Hann ræðir um nýútkomna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð og telur, eins og svo margir aðrir, að „mikið beri í millum skýrsluhöfunda og andmælenda þeirra og munurinn er raunar í stjarnfræðilegum tölum“.

Og svo segir Sigurður:

Hins vegar vekur athygli að þegar leitað er skýringa á þessum hrakförum skuli rannsakendur fleyta kerlingar með ódýrum frösum um hverskonar amlóðar hafi verið við stjórnvölinn. Þeir hafi margir hverjir verið með litla menntun en ein alvarlegasta feilnótan í ferilskrá þeirra er sögð sú að margir hafi á fyrri stigum haft afskipti af stjórnmálum. 

Og hann er ekki sammála skýrsluhöfundum og hefur ágæt rök fyrir skoðun sinni þegar hann segir: 

Ekkert vantaði uppá að þjóðargæðingar þeir sem stýrðu bönkunum fyrir hrun höfðu háskólamenntun af hæstu gráðu. Höfðu numið fjármálafræði í flottum skólum, urðu þannig gjaldgengir í allskonar fínimannafélög og flestir vegir færir. Eða svo töldum við. Lukkuriddarar þessir voru líka með tiltölulega hreina áru og höfðu lítið gefið sig að stjórnmálum sem þótti óneitanlega mikill kostur. Og rétt eins og Ólafur Liljurós riðu stertimennin með björgum fram, brimandi af sjálftrausti, spenntu bogann í botn og húrruðu svo fram af hengifluginu svo úr urðu einhver stærstu gjaldþrot heimssögunnar. Skýringarnar á því eru í sjálfu sér margar, en í meginatriðum að bankastjórnendurna skorti kannski skynsemi, hógværð og búhyggindi sem ég veit ekki til að sé kennd í háskólum. Græðgin fór alveg með þessa gauka og marga fleiri, sem þó áttu langa skólagöngu að baki.

Í niðurlagi Pistilsins orðar Sigurður Bogi hugsun sína svo einstaklega vel er hann segir:

Gleymum samt ekki að klár kollur, góð félagsfærni, umhverfislæsi, tilfinningagreind og styrkur til að halda vel á sínum spilum er góð vöggugjöf. Þá hæfileika skortir marga sem komast hafa langt í krafti prófgráða. Fyrir vikið finnst mér umræða um skóla- og menntamál Íslendinga að sumu leyti á hálfgerðum villigötum. 

Vissulega er þetta rétt og nefna má að til dæmis vinnumiðlanir eins og Capacent, Hagavangur og fleiri gera ekkert í því að kynnast umsækjendum um störf. Þær byggja alfarið á prófgráðum. Því fleiri og fínni því betra að þeirra mati. Þessi fyrirtæki líta alfarið framhjá skapandi hugsun, félagsfærni og drifkrafti.

Ég þekki fjölda manns sem hefur ekkert annað en grunnskólamenntun en reka fyrirtæki af slíkri getu að doktorar og rekstrahagfræðingar gætu ekki gert betur. Sem betur fer byggir atvinnulíf landsins ekki eingöngu á skólamenntun heldur líka menntun sem fæst aðeins í skóla lífsins. Þess vegna er fyrirsögnin á Pistli Sigurðar Boga hárrétt enda fæ ég hana hér að láni.


Skýrslunni um íbúðalánasjóð slátrað

Skýrsla nefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð hefur fengið afar slæma gagnrýni. Eins og svakalegast er í grein sem Sigurður Þórðarson, fyrrum ríkisendurskoðandi, skrifar í Morgunblaðið í morgun. Hann var hógvær embættismaður og vandi sig á að ræða málin á yfirvegaðan hátt. Þannig vinnur hann enn þann dag í dag.

Í niðurlagi greinar Sigurðar segir hann:

Eftir lestur skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð og fjölmargra athugasemda sem fram hafa komið opinberlega við trúverðugleika hennar og mat nefndarinnar á einstökum þáttum, er mér efst í huga að það hlýtur að vera tilefni fyrir Alþingi Íslendinga að hugleiða hvaða viðmið hafi verið viðhöfð við ákvörðun efnis, tíma, kostnaðar og val á nefndarmönnum í upphafi. Þá hlýtur umræðan almennt um efni skýrslunnar, bæði á þingi og í fjölmiðlum landsins, og um stofnanir hins opinbera og sjálft Alþingi að vera hinu háa Alþingi nokkurt umhugsunar- og áhyggjuefni. 

Mér er til efs að nefndin um Íbúðalánasjóð geti réttlætt sig eftir þetta.


Óþveri og leiðindi í athugasemdum

Oftar en stundum missa þeir sem skrifa athugasemdir við blogg eða pistla og fréttir á vefsíðum gjörsamlega alla sýn á efni máls. Ég leit sem snöggvast á skrif Egils Helgasonar. Hann ritar eftirfarandi í einhvers konar hálfkæringi og hefur áreiðanlega oft tekist betur upp, en látum það vera. Pistil Egils birti ég hér í heild til að sýna einfaldlega fram á hversu mikill óþveri er í athugasemdunum sem fylgja:

Páll Vilhjálmsson skrifar grein á bloggsíðu sína þar sem hann mótmælir því að Snorri Sturluson sé kallaður Evrópumaður á sýningu í Reykholti.

Páll telur að þetta sé áróður fyrir Evrópusambandið og heimtar að þetta verði leiðrétt.

Það ættu reyndar að vera hæg heimatökin, því klerkur í Reykholti er Geir Waage, mikill andstæðingur Evrópusambandsins og sá sem bar upp tillögu sem hleypti ESB-málum í loft upp á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Geir ætti ekki að verða skotaskuld að breyta þessu.

Hann mun sjálfsagt verða hvattur til þess af gömlum félaga sínum, Davíð Oddssyni, en milli þeirra eru raunar líka fjölskyldutengsl.

Davíð mun varla sleppa því að taka upp þessa brýingu Páls, eins og endranær, og skrifa harðorðan leiðara um þessa lítilmótlegu tilraun til að gera Snorra að “Evrópumanni”. 

Sem sagt, þetta eru ekki merkilegri skrif en hrökkva af okkur meðalmennunum af og til. Athyglin beinist því frekar að athugasemdunum og hversu skilmerkileg þau eru enda koma sundum fyrir skemmtilegar og fræðandi rökræður sem raunar gerast í þessu tilviki.

Því miður hafa sumir samt ekkert neitt markvert fram að leggja og þekkja ekki einu sinni hið fornkveðna að þegar maður hefur ekkert vitlegt að segja er betra að þegja. Þar sem segir „Virkur í athugasemdum“ þá bendir það oftar en ekki til þess að hlutaðeigandi eigi ekki aðra tilveru en að stunda leiðindi í athugasemdum.

Hér eru nokkur sýnishorn af pressan.is:

Víðir Ragnarsson · Vinnur hjá Margt Smátt

Hatrið og heiftin í Davíð mun eflaust stýra pennanum eins og venjulega þegar hann tekur undir sjúklegt ofsóknarbullið í Páli Vilhjamssyni. 

Skemmst er að minnast sérlega ósmekklegrar aðfarar þeirra félaga að Önnu Kristínu Pálsdóttur, fréttakonu RÚV. 

Kristján Elís Jónasson ·  Virkur í athugasemdum · Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi

þetta er alveg dásamlegt, ofstækið í þessum Páli ríður ekki við einteyming

Jón Frímann Jónsson · Fylgja ·  Virkur í athugasemdum 

Páll Vilhjámsson er ekki í lagi, og þessar öfgar frá honum eru orðnar frekar þreytt dæmi. Enda er þetta það sem keyrir Heimssýn, LÍÚ og Bændasamtökin áfram.

Hreinræktaðar öfgar sem byggja á einangrun Íslands. Það er samt kaldhæðið að Heimssýn, LÍÚ og Bændasamtökin eiga Evrópusambandinu tilveru sína að þakka. Án Evrópusambandsins og forvera þess eftir seinna stríð væru íslendingar ennþá fátækasta þjóð í Evrópu, mun fátækari en sem nemur löndum í suður Evrópu.

Á tímum Snorra Sturlusonar var Íslandi hvorki fullvalda eða sjálfstætt ríki, það tilheyrði Kalmar bandalagi norðurlandaþjóðanna og átakana sem áttu sér stað þar innanborðs.

[...]

Þorsteinn Óskarsson ·  Virkur í athugasemdum · F.v. forstöðumaður hjá Landssíma Íslands

Hugsið ykkur hvað tilefni þessarar umræðu hér á síðunni er ömurlega sjúklega ofstækisfullt. Hugsið. Landssamband íslenskra kverúlanta (LÍK) hrífst ávallt þegar Páll lætur eitthvað frá sér fara.

 Líklega er Páll Vilhjálmsson ötulasti baráttumaður þess að við göngum í Evrópusambandið - ómeðvitað.

Svona er iðulega umræðan á athugasemdadálkunum á fjölmörgum stöðum. Menn hópast þar inn með upphrópanir og leiðindi, kalla aðra öllum illum nöfnum og fá þannig útrás fyrir eitthvað einstaklega ómerkilegt sem best væri geymt í þeirra eigin haus. Eða þá að menn hafa ekki einu sinni þekkingu til að leggja eitthvað til málanna. Fyrir vikið verður málefnaleg umræða svo til engin.

Ofangreint er alveg dæmigert um athugasemdir sem hafa enga þýðingu, ekki nokkra merkingu og skila alls engu nema hvað að þeir lesendur sem leggja á sig að lesa athugasemdirnar hrista höfuðið í forundran.

 


Rakel fjögurra ára

Rakel

Ég er þeirra gæfu aðnjótandi að eiga fjögur barnabörn sem þegar nánar er að gáð aldeilis ótrúlegt fyrir ungan mann eins og mig.

Hvað sem því líður hlýnar manni um hjartarætur þegar maður sér þessar fallegu stúlkur. Að vísu býr sú yngsta með foreldrum sínum í Noregi og er aðeins rétt rúmlega mánaðargömul og hef ekki enn náð því að hitta hana.

Rakel Grétarsdóttir, sú númer tvö í röðinni, var fjögurra ára í gær. Af því tilefni tók mamma hennar þessa mynd af henni með nýja barnavagninn. Og þegar afi kom í heimsókn fékk hann stórt faðmlag og marga kossa, allt með þeirri barnsleg hlýju sem fær mann til að trúa því að þrátt fyrir alla óáran eigi mannkynið enn framtíð fyrir sér.

Og svo var sungið afmælisbarninu til heiðurs og hún varð svo feimin að hún fékk sig ekki til að blása á kertin fjögur. 

Sé núna eftir því að hafa ekki ræktað skáldagáfuna í mér en hana uppgötvaði ég eitt andartak um tvítugt og glataði henni stuttu síðar. Nú hefði ég einmitt getað ort eitthvað fallegt um hana Rakel mína en kann það ekki og geng því í smiðju Jóhannesar úr Kötlum sem orti af öðru tilefni. 

Þegar ég horfi í þessi augu þýð og fögur,
finnst mér eins og láð og lögur
leysist upp í kvæði og sögur.
 
Upp á hól þú hleypur þar og hoppar niður:
kringum þig er frelsi og friður,
fuglar, blóm og lækjarniður.
 
Þar er allt, sem illska minnar aldar smáði,
allt, sem skáldsins andi dáði,
allt, sem móðurhjartað þráði.
  
Ríktu þar á rauðum kjól, mín rós og lilja,
þar til allar þjóðir vilja
þína veröld sjá og skilja.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband