Viðbrögð við framandi og andstyggilegum lífsviðhorfum

B RusselHér á landi eru margar góðar netsíður og blogg og á meðal þeirra er Lemúrinn. Á honum er oft að finna margar forvitnilegar greinar og ekki síður myndir frá gömlum tíma.

Fyrir stuttu birtist þar grein undir fyrirsögninn „Bertrand Russel neitaði að rökræða við enska fasistann Sir Oswald Mosley“ og er höfundur samantektarinnar Sveinbjörn Þórðarson.

Þegar ég las greinina varð ég hugsi ekki síst eftir að hafa lesið bréf heimspekingsins Bertrand Russels til Osvalds Mosley.

Hvernig talar nútímamaðurinn við þann sem er pólitískur andstæðingur? Hann liggur sjaldnast á skoðunum sínum og lætur venjulegast allt vaða.

Við getum litið á fjölmargar bloggsíður, innlendar og erlendar, og ekki síður athugasemdir sem birtar eru með fréttum og greinum í vefritum, bloggsíðum og fréttakerfum dagblaða. Þar veður oft uppi ókurteisi og ruddaskapur enda búa fáir yfir þeirri stillingu og gáfum að geta rökrætt og tjáð sig af hógværð um það sem þeir jafnvel fyrirlíta.

Þetta gat Bertrand Russel. Í ofangreindri grein er birt þýðing á bréfi hans til Mosleys þar sem hann hafnar því að rökræða við þann síðarnefnda. Hér er þýðing bréfsins eins og það er birt í grein Sveinbjörns Þórðarsonar og mynd af bréfinu er hér til hliðar. 

Kæri Sir Oswald,

Takk fyrir bréf þitt og með­fylgj­andi skjöl. Ég hef nú hug­leitt nýleg bréfa­skipti okkar. Það er ávallt erfitt að ákveða hvernig maður á að bregð­ast við fólki sem býr yfir lífs­skoð­unum sem eru manni fram­andi og í raun and­styggi­legar. Það er ekki það að mér sárni yfir almennum ummælum þínum, heldur hafa allir mínir kraftar farið í virka bar­áttu gegn þeim grimmi­legu for­dómum, ofbeld­is­áráttu og hrotta­legu ofsóknum sem ein­kenna fas­is­mann í orði og á borði.

Ég finn mig knú­inn til þess að segja að til­finn­inga­heim­arnir sem við þríf­umst í séu svo ræki­lega aðskildir og gjör­sam­lega and­snúnir hverjum öðrum, að ekk­ert gagn­legt eða heið­ar­legt gæti nokk­urn tím­ann komið af sam­skiptum okkar á milli.

Ég myndi vilja að þú gerðir þér grein fyrir kraft­inum að baki þess­ari sann­fær­ingu minni. Ég segi þetta ekki til þess að vera dóna­legur, heldur sökum alls sem mér er kært í mann­legri reynslu og afrekum.

Bestu kveðjur,

Bertrand Russell 

Auðvitað hefði þýðingin mátt vera betri, hún nær varla tilfinningalegum þunga bréfritarans, en það er nú aukaatriði hér. Þýðingin nær hugsuninni. Bertrand Russel ritar bréfið á afskaplega hógværan máta en lesandinn fer ekki í neinar grafgötur um skoðanir hans. Það hefur eiginlega verið hrikalegt kjaftshögg fyrir Mosley að fá svona trakteringu.

Nútímamaðurinn hefði eflaust ritað svona bréf á allt annan máta og látið stundarhitann stjórna málfari og ávarpi og „skreytt“ bréfið með einhverjum viðbjóði og ruddaskap.

Í sannleika sagt er í bréfinu fólginn lærdómur fyrir þann sem ann hógværð og kurteisi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband