Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Landið bærir ekki á sér

Skjalftar

Stundum bregður manni við þegar ekkert gerist. Skyndilega fellur allt í dúnalogn, vindurinn dregur sig til hlés, sólin skín, fáir bílar á götunni og krakkinn í næstu íbúð hættir að gráta á nóttunni. Þetta veit ekki á gott, hugsar maður, og býst við hinu versta.

Þetta hljóp í gengum kollinn á mér þegar ég leit á skjálftavefinn hjá Veðurstofunni og sá að landið lá kjurrt, eða því sem næst. Smávægilegar eftirhreytur af skjálftunum við Grímsey og Eldey en annars ekkert merkilegt.

Og hvað segja jarðfræðingar við þessu. Jú, ekkert öðru vísi en vanalega.

Hinn draumspaki ráðgjafi minn er ekki sama sinnis. Hann heldur því fram að nú verði allt vitlaust og það fyrir helgi. Hann dreymdi svo magnaða drauma og hrikalega að hann hélt ekki vatni.

Passaðu þig, sagði hann. Nú er ljótt í efni. Og hann sagði mér drauminn. Ég ræð hann öðru vísi. Held að hann sé fyrir snjóavetri þegar þar að kemur. Við sjáum hvað setur. 


Örnefnapistill til íhugunar

Fyrir handvömm var ritað Skógarfoss í stað Skógafoss á skilti við Skóga og segir frá þessu á mbl.is. Ég skrifaði í fljótheitum dálítinn pistil og fékk nokkrar athyglisverðar athugasemdir frá glöggum lesendum. Þar sem ég hef dálítinn áhuga á örnefnum ætla ég að halda hér áfram. Ef til vill endurtek ég eitthvað af því sem ég hef áður skrifað um álíka efni en það er varla til skaða.

Flestir vita að örnefni tapast eftir því sem kynslóðir hverfa og þannig hefur það áreiðanlega verið frá upphafi. Menn hafa nefnt staði, kynslóðir geymt örnefnin, gleymt sumum, búið til önnur. Í ljósi þessa má spyrja sig hvort það sé mikill skaði þótt örnefni týnist.

Breytt landnotkun 

Já, ég fullyrði það. Gaman væri til dæmis að vita hvað Eyjafjallajökull var nefndur um árið 1000. Af Njálu má ráða að hann og Mýrdalsjökull hafi borið síðarnefnda nafnið. Það finnst okkur sem þekkjum dálítið til á þessum slóðum frekar ólíklegt.

Breytt landnotkun breytir mikilvægi örnefna. Land breytist nú hröðum skrefum frá því að vera nær eingöngu fyrir landbúnað og í að vera meira fyrir ferðafólk af ýmsum þjóðernum. Hin breytta landnotkun felur t.d. í sér að ferðamönnum fjölgar og þeir hafa annan skilning og aðra þörf fyrir örnefni en fjárbændur og hestamenn liðins tíma. 

Skortur á örnefnum 

Þá kemur skyndilega í ljós gríðarlegur skortur á örnefnum. Hvernig á að rata ef örnefnin eru ekki til hjálpar til að gefa umhverfinu gildi. Skipta örnefni einhverju máli nema til skrauts? Við getum ferðast um landið eftir korti á skjá þar sem ekkert annað en landslag er sýnt, aðeins punktar sem segja til um hæðir og línur sem gefa til kynna bratta.

Í stuttu máli er sú spurning æ áleitnari hvort það sé ekki öllum að skaðlausu þótt örnefni týnist. Sé svarið við spurningunni jákvætt þá nær það ekki lengra. Sé það neikvætt þarfnast það rökstuðnings. Raunar er það svo að almennt er talinn missir af týndum örnefnum og þeim þætti sem þau hafa gengt í sögu og menningu okkar.

Búa til örnefni

Um leið kviknar sú spurning hvernig örnefni verða til og hvor ekki sé í lagi að búa til örnefni þar sem þau vantar. Þarf að leita til opinberra aðila til að fá samþykki eftir öllum krókaleiðum. Ég held að örnefni eigi einmitt að fá að verða til og ná fótfestu, ekki þurfi meðalgöngu stjórnvalda til þess. Eða hver ættu viðurlögin að vera við því að til verði örnefni sem stjórnvöldum er í nöp við en almenningi þykir vænt um? Og hverjum á eiginlega að refsa? Þeim sem missti það fyrstur út úr sér eða þeim sem fyrstur setti það á blað eða kort?

Refsing? 

Svo er það hitt, að ef refsivert sé að búa til örnefndi eða segja örnefni vera til sem stjórnvöld hafi ekki samþykkt hvað á þá að gera vegna þeirra sem fara rangt með örnefni? Er það ekki jafnrefsivert? Svo dæmi sé tekið úr fyrri pistli, mætti hegna þeim sem kallar Heiðarhorn Heygarðshorn og Útigönguhöfða Útigangshöfða? 

Og nú komum við loks að því sem nokkrir ágætir menn nefndu í athugasemdum við pistilinn minn og það getum við kallað misnotkun á örnefnum. Hún er yfirleitt óviljandi og reiknast fyrst og fremst á þekkingarleysi sem er illfyrirgefanlegt hjá blaða- og fréttamönnum og leiðinleg þegar við hin eigum í hlut.

Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, og góður og íhugull vinur á blogginu nefnir í athugasemd þá áráttu að bæta erri í nöfn á stöðum, ekki aðeins er Skógafoss kallaður Skógarfoss heldur vekur hann athygli á að sveitarfélagið Fjarðabygg sé oft skrifað Fjarðarbyggð.

Jón Ketilsson segir um Bröttubrekku:

Mér skilst að sú brekka heiti Brattabrekka eftir fjalli sem heitir Bratti.  Ekki af því hún sé brött. Svo það ætti að vera "að fara um Brattabrekku". 

Ég kannast ekki við þetta fjall. Leitaði smávegis að því í bókaflokknum „Landið þitt Ísland“, sem ég glugga oft í, og einnig skoðaði ég kort í mælikvarðanum 1:100.000 en fann ekki þetta fjallsheiti.

Ómar Ragnarsson virði ég manna mest, þekking hans er drjúg. Hann nefnir þá áráttu sumra að setja ákveðinn greini við örnefni og heiti. Þetta hefur mér í mörgum tilfellum fundist afar broslegt. Minnir mig á móður eins kunningja míns sem segist iðulega hafa farið í Hagkaupið eða Bónusið og sonurinn hló.

Fólk gengur iðulega á Esjuna en enginn segist hafa farið á Þverfellshornið, Kerhólakambinn eða Mosfellið. Þaðan af síður fara menn á Akureyrina eða Reykjavíkina nema ef svo vilji til að þetta sú til dæmis nöfn á bátum eða skipum.

Ég heyri þó æ fleiri segjast hafa ferðast um Vestfirðina. Mér finnst það líka ótækt, sérstaklega ef það kemur fyrir á prenti. Vestfirðir eru nú aðeins nafn á landshluta, það er til dæmis ekki yfirnafn á Dýrafirði. 

Gunnar Magnússon nefnir stórmerkilegan hlut sem ég hef ekki tekið eftir. Hann segir að skilti í Kollafirði, þeim sem er fyrir sunnan Steingrímsfjörð, bendi vegfarendum á Kollafjarðaheiði en ekki Kollafjarðarheiði. Vonandi er búið að laga þetta enda er þarna aðeins einn Kollafjörður nema heiðin sé nefnd eftir báðum Kollafjörðum landsins, þessum og þeim í Faxaflóa.

Olgeir Engilbertsson, bóndi í Nefsholti, og gamall vinur minn, segir:

Ég lendi oft í svipuðum ógöngum með Lambafitarhraunið sem flestir skrifa Lambafitjarhraun. Það var ein Lambafit sem fór undir þetta hraun 1913 og ég get ómögulega samþykkt J í nafni hraunsins.

Þarna erum við loks komin að kjarna málsins. Olgeri segir frá mennngarsögulegri staðreynd, svipaðri þeim sem ég nefndi hér á undan. Það sem hann segir réttlætir örnefni enda hluti af menningu þjóðarinnar. (Ég tek eftir því að Olgeir notar ákveðinn greini á örnefnið enda eflaust réttlætanlegt í ljósi samhengisins.)

En það er annar kjarni máls sem vert er að vekja athygli á í þessu sambandi og það er fótakefli margra okkar, ritun tungumálsins. Á sama hátt og við ætlumst til þess að rétt sé farið með örnefni verður að gera sömu kröfu um að tungumálið sé rétt ritað, að við höfum samning um ritun íslenskunnar. Í hvort tveggja, tungumáli og örnefnum er fólginn ákveðinn skilningur sem á að vera sameiginlegur okkur öllum sem búum hér á landi.

Læt ég þessu nú lokið enda alltof mikið skrifað og stefni út í hafsauga miðað við það sem ég ætlaði mér í upphafi. 


Baldur var frábær á móti Keflvíkingum

Baldur Sigurðsson átti stórkostlegan leik fyrir KR á móti Keflavík í kvöld. Hann var einn besti maður vallarins, duglegur og ógnandi upp við mark andstæðinganna. Hefði átt að skora tvö í viðbót hefði hann náð aðeins að róa sig niður í góðum færum.

KR-liðið var afar sannfærandi á móti sprækum Keflvíkingum og hefði getað unnið með meiri mun. Hins vegar er margt sem KR-ingar geta lagað hjá þeim. Sérstaklega þurfa að halda boltanum meira innan liðsins í stað þess að lenda oft í leiðinlegum „eltibolta, láta aðra stjórna ferðinni langtímum saman og þurfa þá að verjast.

Hins vegar var sigurinn í kvöld aldrei í hættu. Áhorfendur í kaldri stúkunni veltu bara fyrir sér hversu mörg mörkin gætu orðið. 


mbl.is Baldur: Boltinn fór á góðan stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örnefni eru vandmeðfarin

Því miður er landfræðileg þekking fólks oft svo slæm að vil vansa er. Hér á ég ekki við almenning heldur þá sem um véla, blaðamenn og aðra sem sinna skrifum. Einhvern tímann skrifað einhver um hið ágæta rútufyrirtæki sem hét Vestfjarðaleið og ritaði Vestfjarðarleið. Á þessu tvennu er mikill munur og raunar minnist ég þess ekki að neinn fjörður heiti Vestfjörður.

Landsbjörg á það til að skjöplast í landafræðinni. Sé björgunarsveit send á Esjuna til að hjálpa fólki þá er á því reginmunur hvort hún er send upp Þverfellshorn, Gunnlaugsskarð, Kerhólkamb, Lág-Esju eða Þverárkotsháls. Þetta er svona rétt eins og að segja manni til vegar og láta nægja að tala um vesturbæ Reykjavíkur en ekki t.d. tiltekið hús við Hagamel. Og þetta éta fjölmiðlar gagnrýnislaust upp eftir Landsbjörgu og notendur þeirra eru eiginlega engu nær um annað en að björgunarsveit hafi verið send eitthvað.

Svo mætti stundum halda að Ísland væri í fjölmiðlum borgríkið Reykjavík. Sé sagt frá einhverju sem gerist á Akureyri, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmi eða Ísafirði er alltaf greint frá nafni byggðarinnar. Gerist eitthvað við Barmahlíð er sjaldnast tilgreint að um sé að ræða götuna Barmahlíð í Reykjavík en ekki Barmahlíð við Berufjörð, Barmahlíð á Akureyri eða Barmahlíð á Sauðárkróki. Þeir sem nota fjölmiðilinn eru auðvitað orðnir vanir því að ráða í þessa gátu af samhenginu.

Hún er alltaf skemmtilega sagan af göngumanninum sem hafði farið í gönguferð um Goðaland. Um kvöldið hafði hann fengið sér dálítið í aðra tánna og sagðist svo frá ferðum sínum. „Ég gekk upp á Útigangshöfða, horfði á Heygarðshornið og gekk síðan on'í Glannagil.“

Auðvitað var mikið hlegið að honum því kunnugir vissu að hann hafði gengið á Útigönguhöfða og séð Heiðarhorn og gengið ofan í Hvannárgil. 

Já, örnefni eru vandmeðfarin. Því kynntist ég þegar ég skrifaði bókarkver sem kom út í fyrra um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Þá þýddi ekkert annað en að fara rétt með Skógafoss, Skóga, Skógaheiði, Skógaá, jafnvel þó á þessu landssvæði sé ekkert um skóg né tré.

Og hvað gera svo menn þegar örnefni vantar? Jú, þau eru búin til. Á Fimmvörðuhálsi er nú eldfellin Magni og Móði, Goðahraun. Þar var Brattafönn, sem næstum því er horfin. Hvað heitir þá fjallið? Hvers virði er landslag ef það heitir ekki neitt?


mbl.is Skógafoss orðinn Skógarfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki að skipta um seðlabankastjóra?

Núverndi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, var settur í embættið á pólitískum forsendum og virðist hafa gengið samhliða ríkisstjórninni sem nú hefur fengið reisupassann í eftirminnilegum þingkosningum.

Seðlabankastjórinn hefur stutt ríkisstjórnina í óhæfuverkum sínum. Hann hélt því fram að nota ætti skattpeninga ríkisins til að greiða Icesave-skuldina. Vonandi man fólk eftir því að hún hafði orðið til vegna starfsemi gamla Landsbankans sem var í einkaeigu. Maðurinn taldi þá lítið tiltökumál fyrir þjóðina að greiða kröfur Breta og Hollendinga.

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, segir á mbl.is:

Af hverju skyldi þessi afneitun hafa verið. Gæti það haft eitthvað með þjónkun Seðlabankans við fráfarandi ríkisstjórn að gera? Skoðum aðrar álitsgerðir Seðlabankans, þar sem kvað við annan tón en í nýjustu stöðugleikaskýrslu (sem ætti auðvitað að heita óstöðugleikaskýrsla!). 15. júní 2009, ríflega mánuði eftir að Svavars-samningurinn vegna Icesave-málsins var undirritaður, skilaði Seðlabankinn inn álitsgerð þar sem sagði:

Ljóst er að hagstjórnarákvarðanir næstu ára munu ákvarða í hvaða mæli Icesave-skuldbindingarnar verða byrði á komandi kynslóðum. Ef áhersla verður lögð á hagvöxt þurfa efnahagsleg áföll að dynja yfir til að Icesave-skuldbindingar einar og sér leiði til þess að ríkissjóður geti ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar.

Sigurður bendir jafnframt á að í dag sé Seðlabankinn að vara við slöku greiðsluhæfi ríkissjóðs. Þá veltir maður ósjálfrátt fyrir sér hvernig bankinn gat fullyrt á sínum tíma að ríkissjóður gæti staðið undir Icesave til viðbótar við að fjármagna þann vanda sem hann varar nú við og segir:

Í sem stystu máli felst vandinn í því að miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána. Því mun íslenska þjóðarbúið ekki skapa nægan gjaldeyri að óbreyttu gengi krónunnar til að losa út krónueignir búa gömlu bankanna til erlendra kröfuhafa og það jafnvel þótt þær yrðu verðlagðar mjög lágt í erlendum gjaldmiðlum.

Leikmaður sem skoðar þetta sér að hér ganga orðin þvert á það sem áður hafði verið sagt.

Munum líka að það var Seðlabankinn sem átti þátt í að gera Árna Páls-lögin sem sett voru til að bregðast við dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán sem reyndust ólögleg. Þá fannst ríkisstjórninni og Seðlabankanum alveg ófært að fjármögnunarfyrirtækin fengu ekkert fyrir afnám gengistryggingarinnar og setti afturvirk ákvæði í lög um vexti í staðinn. Auðvitað kom annar Hæstaréttardómur sem sagði afturvirknina ólöglega.

Af þessu má sjá að Seðlabankinn undir stjórn Más Guðmundssonar er ekki sjálfstæð stofnun heldur hefur hún unnið náið með fráfarandi ríkisstjórn í óhæfuverkum hennar. Már hefði hæglega getað spyrnt við fótum og sagt að hann taki ekki við fyrirskipunum úr stjórnarráðinu. Það gerði hann ekki. Því er ástæða til að íhuga hvort ekki eigi að skipta um seðlabankastjóra.

 

 


Númer eitt að standa við kosningaloforðin

Helgi sigAlltof sjaldan vitna ég í Helga Sigurðsson, auglýsingahönnuð og skopmyndateiknara Morgunblaðsins. Hann tjáir sig með skilmerkilegri og einfaldari hætti en flestir álitsgjafar og bloggarar samanlagt.

Mynd dagsins þarfnast ekki skýringa frekar en alla aðra daga. Þeir föllnu þingmenn úr stjórnarliðinu mættu íhuga þessa mynd áður en þeir gagnrýna nýja ríkisstjórn sem þó hefur hvorki verið mynduð né tekið til starfa og enn síður að kominn sé stjórnarsáttmáli. 

Dómur kjósenda féll og einhver í bílnum segir af lítillæti sem var raunar óþekkt hjá fyrri ráðherrum og þingmönnum: 

Sko - ef við ættum að gefa næstu stjórn einhver ráð þá það númer eitt að STANDA VIÐ KOSNINGALOFORÐIN. 


Orkuveita er ekki sennileg í umhverfismálum

Nú held ég að almannatengslafulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur hafi misst sjónar af markmiðum fyrirtækisins og við tekið einhvers konar sýning á því sem ósennilegt má teljast.. 

Þeir 600 lítrar sem féllu niður á þykka mölina á bílastæðinu verða aldrei til nokkurs skaða. Olían var mokuð upp og flutt til eyðingar. Það sem hugsanlega kann að hafa farið niður í hraunið verður ekki til skaða.

Nú er hins vegar verið að setja upp einhvers konar sýningu sem á að setja Orkuveituna í jákvætt ljós. Verið sé að rannsaka og kanna í því skyni að verja vatnsból Reykjavíkur. Ég held að það sé óhætt að veðja umtalsverðum fjárhæðum á að olían sem erindi átti í Þríhnúkagíg mun aldrei finnast í neysluvatninu. Þetta vita allir sem vilja vita. 

Hins vegar væri fróðlegt að vita hvers vegna olíuslysið varð. Sleppti þyrlan tankinum með olíunni eða slitnaði strengurinn? Samþykkti umhverfissérfræðingur Orkuveitunnar flutning olíunnar í svona losaralegu íláti? Og síðast en ekki síst væri fróðlegast að vita hvert hafi verið fyrsta verk umhverfissérfræðingsins Orkuveitunnar sem var á vettvangi. Hringdi hann fyrst í fjölmiðla og tók svo til við að redda málum á staðnum?

Þegar öllu er á botninn hvolft færi best á því að Orkuveitan sinnti störfum sínum en léti leikhúsunum eftir sýningar, jafnvel þó þær eigi að vera í ætt við raunveruleikann. Saga Orkuveitunnar undanfarin ár markast af miklu mistökum, ekki síst í umhverfismálum. Orkuveitan er ekki sennileg í þeim málum.

 


mbl.is Neysluvatn borgarbúa vaktað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður eldgos við Eldeyjar?

Jarðkjálftarnir á Tjörnesbrotabeltinu fyrir norðan virðast hafa verið miklu öflugri og tíðari en þessi sem kenndir eru við Fuglasker eða Eldeyjar. Fuglasker er ekki eitt sker heldur fjöldi skerja sem Eldey og Geirfuglasker eru hluti af. Öll hafa þau orðið til í eldsumbrotum. 

Þarna hafa orðið tuttugu og níu skjálftar 3.0 og stærri frá því  klukkan tvö, á fimmtudagsmorgni. Það er dálítið mikið af svo góðu. Það vekur einnig athygli leikmannsins að allir þessir stóru skjálftar eiga upptök sín á svipuðum stað í jarðskorpunni, um 9 til 15 km dýpi. Fræðimenn munu eflaust halda því fram að ástæða þeirra sé kvikuhreyfing frekar en brotahreyfingar.

Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu. Ágæta sýn yfir neðansjávargos út af Reykjanesi má lesa á vefsíðunni Ferli, http://www.ferlir.is/?id=10393.


mbl.is Enn skelfur jörð á Reykjanesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðmörk í niðurníðslu

Heiðmörkin er einn fallegasti staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Þar er stórkostlegt að njóta útivistar, ganga, hlaupa, hjóla. Gallinn er sá að vegurinn um svæðið er ónýtur, hvort sem farið er frá Garðabæ eða Reykjavík.

Ég skil ekkert í því að vegir þarna skuli ekki hafa verið malbikaður fyrir áratugum. Orkuveitan stendur gegn því rétt eins og allri umferð fólks um Heiðmörkina. Telur hana geta  valdið mengun. Það er nokkuð skrýtið vegna þess að þau óhöpp sem orðið hafa í Heiðmörk hafa einkum stafað af umferð vegna skógræktar, vörubílar farið á hliðina.

Talsvert ofan við Heiðmörk varð óhapp fyrir tveimur dögum er flutningur á olíu með þyrlu mistókst og olían, sem var í opnu keraldi, heltist niður fyrir framan augun á fulltrúa Orkuveitunnar. Getur verið að hann hafi samþykkt að fljúga ætti með keraldið opið?

Við sem höfum stundað útivist í Heiðmörk undanfarna áratugi erum orðnir dálítið þreytt, svo ekki sé meira sagt, á aðgerðarleysi sveitarfélaga, Skógræktarinnar og Orkuveitunnar. Nauðsynlegt er að laga vegi í Heiðmörk, göngustíga og endurbæta áningarsvæðin. Fyrir löngu voru settar upp skilti með upplýsingum um tré og fugla. Þessi skilti eru orðin upplituð og nær ólæsileg. 

Heiðmörkin er eiginlega í bölvaðri niðurníðslu, einhverra hluta vegna. 


mbl.is Heiðmörk ófær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem töpuðu biðja öðrum bölbæna

Margir stjórnmálaflokkar fengu skelfilega útreið í síðustu þingkosningum. Ótrúlegur fjöldi flokka bauð sig fram og sumir fengu svo fá atkvæði að greinilegt var að ekki einu sinni nánustu vinir og  aðstandendur frambjóðenda höfðu áhug á að kjósa. 

Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, misstu mikið fylgi. Athygli vekur að strax eftir kosningarnar risu helstu fallistar þessara flokka upp á afturfæturna og tók til við að gera það sem þeir kunna best, að baktala sigurvegara kosninganna og ætlanir þeirra.

Sá ljúfi og skemmtilegi blaðamaður Morgunblaðsins, Kolbrún Bergþórsdóttir, ritar í dag skemmtilegan pistil í blaði sínu. Hún segir:

Vinstrimenn, sem yfirleitt eru sérkennilega gefnir fyrir hávaðastjórnmál, voru ekki fyrr skriðnir á lappir eftir martraðarkennda kosninganótt en þeir hófu dómsdagsspár sínar um skelfilegar afleiðingar þess að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur legðu saman krafta sína í ríkisstjórn. Maður hefði haldið að forgangsverkefni stjórnarliða eftir stórfellt kosningatap væri ekki að þylja bölbænir yfir þeim sem þeir telja pólitíska andstæðinga sína heldur að leggjast í rækilega sjálfskoðun og íhuga af hverju þjóðin sneri svo rækilega við þeim baki.

Kolbrún segir einfaldlega það sem allir velta fyrir sér. Hvers vegna í ósköpunum sleikja tapararnir ekki sár sín og gefa þeim svigrúm sem geta myndað nýja ríkisstjórn. Þeir minna mann á leiðinlega krakkann sem í gamla daga gata ekki leikið sér með öðrum, kastaði sandi í augun á leikfélögum sínum og skemmdi dótið. Þegar hinir krakkarnir fengu nóg og ráku þann leiðinlega í burtu, gerði hann það með semingi en lét á leið sinni uppnefni og svívirðingar dynja yfir hina.

Sandkassaleikurinn er alltaf eins en Kolbrún segir í pistlinum:

Stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er einfaldlega besti kosturinn fyrir landsmenn eins og staðan er í dag. Formenn þessara flokka, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, eru öfgalausir og prúðmannlegir og líklegir til að hlusta á ýmis sjónarmið. Síst af öllu sér maður svo fyrir sér að þeir geri forsvarsmenn atvinnulífsins að sérstökum óvinum sínum, eins og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna gerði og var reyndar ansi stolt af. Sú ríkisstjórn leit allan gróða illu auga. Það var eins og hún teldi æskilegast að fyrirtæki landsins væru rekin með tapi. Sem er náttúrlega sjónarmið ef maður telur að gróði sé viðbjóðsleg birtingarmynd kapítalismans. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að ný ríkisstjórn þarf að taka til starfa sem fyrst og það má hún gera þó atvinnuhælbítar og leiðindaseggir óski þess heitast að Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum mistakist ætlunarverk sitt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband