Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Endurreisn krefst réttrar forgangsröðunar

Stöðugleiki samfara góðum hagvexti næst ekki ef krónískur hallarekstur ríkissjóðs heldur áfram. Endurreisn skattstofna, samhliða róttækum uppskurði í ríkisrekstrinum og réttri forgangsröðun, er forsenda þess að jafnvægi náist í fjármálum ríkisins.

Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann bendir réttilega á að það sé ekki eftirsóknarvert að taka við efnahagsstjórn landsins við þær aðstæður sem ríkisstjórn vinstri manna skilur við. 

Óli Björn brýnir ný stjórnvöld til að forgangsraða. Hann segir:

Með þetta í huga eiga forystumenn nýrrar ríkisstjórnar að senda skýr skilaboð um að tími réttrar forgangsröðunar sé genginn í garð:

 

  • Á meðan það molnar undan heilbrigðiskerfinu og ekki er hægt að tryggja öllum landsmönnum viðunandi þjónustu höfum við ekki efni á því að ráðast í tuga milljarða króna byggingu á nýjum spítala.
  • Á meðan þjóðvegir landsins liggja undir skemmdum er rangt að byggja hús í nafni íslenskra fræða fyrir milljarða.
  • Á sama tíma og ekki er hægt að tryggja öfluga löggæslu um allt land er tómt mál að tala um að verja milljörðum króna í byggingu glæsilegs fangelsis.
  • Á meðan ekki er búið að rétta við hlut aldraðra og öryrkja er rangt að setja hundrað milljónir í að koma upp náttúruminjasýningu.
  • Á sama tíma og ekki er hægt að endurnýja úr sér gengin lækningatæki sjúkrahúsa höfum við ekki efni á að láta milljarða renna í »grænkun fyrirtækja«, »græn innkaup« eða í »grænan fjárfestingarsjóð«.
  • Á meðan Landhelgisgæslan fær ekki nauðsynlegan tækjakost til að sinna öryggishlutverki sínu til hlítar er eitthvað verulega brenglað við að byggja sérstakt menntavísindahús fyrir á annað þúsund milljónir.

 

Listinn er miklu lengri og er efni í aðra grein. 

Þetta er algjörlega rétt hjá Óla Birni og ekki síður eru niðurlagsorð hans eftirtektarverð:

Ekki skal dregið í efa að oft verður erfitt að stíga á bremsuna og hafna því að láta opinbera fjármuni renna í verkefni sem mörg hver eru ágæt þótt önnur flokkist aldrei undir annað en gæluverkefni. Þrýstihópar munu láta í sér heyra - hagsmunagæslan verður hávær. 

 

 


Formaður SUS gegn stóriðjustefnunni

Stuðningsmenn stóriðju benda gjarnan á að atvinna sé grundvöllur velferðar og spyrja hvað annað menn vilji gera til að byggja upp atvinnu. Þá er því stundum svarað til að menn vilji eitthvað annað sem kallar þá gjarnan á hlátrasköll frá stóriðjusinnum. En staðreyndin er sú að þetta eitthvað annað er alls ekki galið. Vísar það ekki einfaldlega til þess að það sé ekki stjórnmálanna að finna þetta eitthvað annað – að skapa störf? Hefur reynslan ekki kennt okkur að það sé hagkvæmast að eftirláta markaðnum að leysa úr því hvaða atvinnutækifæri sé best að byggja upp?

Hver skrifaði eftirfarandi sem er beint úr grein í Morgunblaðinu í morgun. Ekki var það nú Ómar Ragnarsson, ekki formaður Landverndar, ekki formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, ekki var það ég þó hef ég haldið fram samskonar viðhorfum. 

Höfundurinn er formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, Davíð Þorláksson. Og það gefur innihaldi greinarinnar miklu meiri vigt að hann skuli gegna þessu virðulega embætti innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta er raunar tímamótagrein sem allir sjálfstæðismenn ættu að lesa.

Ég styð fyllilega það viðhorf sem birtist í greininni og finnst tími kominn til að Sjálfstæðiflokkurinn taki upp breytta stefnu í stóriðjumálum. Hins vegar vil ég ganga lengra og leggja meiri áherslu á umhverfismál og náttúruvernd. Í raun er það undirliggjandi skoðun Davíðs í þessari grein þar sem hann nefnir sjávarútveg og ferðaþjónustu sem mikilvægustu útflutningsgreinar Íslands. Gróska í þeim atvinnugreinum verður ekki skilin frá náttúruvernd og umhverfismálum.

Grein Davíðs markar tímamót og henni fagna ég. 


Ótrúlegur málflutningur burtrekins innanríkisráðherra

Ögmundur Jónasson, fráfarandi innanríkisráðherra, talar mikið og lendir í flækju með eigin hugsanir. Hann seigr á heimasíðu sinni um úrslit þingkosninganna: 

Fólk hreifst af kosningaloforðum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Þetta er mikill misskilningur hjá ráðherranum. Fólk „hreifst“ ekki af kosningaloforðum þessara flokka. Almennt séð þá voru engar lausnir fyrir skuldsett heimili og það kaus vonina. Jóhanna og Steingrímur höfðu fyrir hönd Ögmundar og fylgdarliðs þeirra drepið alla von. Ríkisstjórnin burtrekna hafði ekkert gert fyrir heimilin nema svikið vonir.

Svo ávarpar Ögmundur Kristján Þór Júlíusson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem gerir sér grein fyrir því, rétt eins og aðrir, hvers vegna vinstri flokkarnir töpuðu fylgi. Og Ögmundur segir:

Ekki flýja loforð ykkar Kristján Þór! Ekki byrja strax að undirbúa svikin. Þið voru kosin vegna hinna miklu loforða sem þið gáfuð kjósendum.

Tvennt er við þennan málflutning hins málga fráfarandi ráðherra að athuga: Í fyrra lagi að ætla öðrum að svíkja loforð sín. Það er ekki góður málflutningur og síst af öllu málefnalegur. Í öðru lagi ætti Ögmundur ekki að kasta steinum úr glerhúsi.

Það er engin hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp þá stefnu vinstri manna að svíkja loforð sín og fullyrða að því loknu að ekkert sé að. Öll loforð hafi verið uppfyllt. Málflutningur Ögmundar er ótrúlegur og að sama skapi ótrúverðugur.

 


Ófaglegar ráðningastofur sem fáa þekkja

Vandinn við ráðningarstofur er einfaldlega sá að þær þekkja ekki þá sem eru á skrá. Starfsmennirnir vinna ekki vinnuna sína, líta einungis á skráningu en sjaldnast á þann sem að baki stendur, atvinnuleitandann. Auðveldasta aðferðin í ráðningarferlinu er að safna saman þeim nöfnum sem hafa „réttar“ skráningar í tölvunni, grisja þau og boða svo í viðtal. Síðan er gefinn út hár reikningur rétt eins og vinnan hafi verið ofboðsleg.

Aldrei, aldrei nokkurn tímann eru reynt að komast að raun um hvers konar persónur standa að baki skráninganna, lunderni, þekkingu eða annað sem að gagni má koma. Þess í stað er einungis litið á menntun. Afar sjaldgæft er sá sem er á skrá sé kallaður í viðtal og reynt að kynnast honum með djúpu viðtali. Það gerist ekki nema í tengslum við ráðningu. Þess vegna er óhætt að fullyrða að ráðningastofur séu frekar ófaglegar og einungis markaðssettar fyrir fyrirtæki og stofnanir en ekkert horft til þeirra sem eru á skrá. Þeir mæta afgangi þó endanlegt markmið sé að finna hæfan starfskraft.

Versta ráðningastofan að mínu mati er Capacent. Hún gerir ekkert, snýr fýlulega upp á sig ef reynt er að vekja athygli á göllum í ráðningaferli. Helsta ráðið er að þegja atvinnuleitandann í hel og ef hann gerir athugasemdir þá er hann einfaldlega settur í frysti. Þetta þekki ég persónulega og ekki síður af fjölmörgum umsögnum fólks sem ég tek mikið mark á. Hagvangur þarf einnig að taka sig á.

Ég myndi hugsa mig afar vel um áður en ég notfæri mér aðstoð svona fyrirtækja við að ráða starfsfólk. 


mbl.is Hausaveiðar í íslensku atvinnulífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brettið upp ermarnar og farið að vinna

Ég veit nákvæmlega hvernig landið liggur í stjórnmálum á Íslandi. Hef fylgst með stefnumörkun og kosningabaráttu flokkanna fyrir kosningarnar. Þess vegna þurfti hvorki ég né flestir aðrir landsmenn að ræða við formennina til að átta mig á því hvað gera þarf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, er án efa betur gefinn en ég og hefur því án efa haft einhverjar ástæður fyrir þessu valhoppi sínum, viðræðum við litlu flokkanna. Þær hafa þó ekki leitt til annars en stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn, rétt eins og við landsmenn vonuðust eftir að yrði reyndin þegar Sigmundur gekk út úr húsi á Bessastöðum.

Og fyrst að þessi niðurstaða er loksins komin í lífi formannsins, þá vona flestir að hann hætti að tvístíga og þeir Bjarni einhendi sér í að mynda ríkisstjórn.

Þjóðin hefur með vaxandi óhugnaði þurft að horfa upp á síðustu ríkisstjórn klúðra málum. Nú er nóg komið. Við þurfum menn sem bretta upp ermarnar og vinna vinnuna sína fyrir fólkið í landinu. Hinir mega bara eiga sig. 


mbl.is Í viðræður við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvorki ábyggilegur né glöggur fréttaskýrandi

Undarlegt fréttamat hjá mbl.is að dag eftir dag skuli það teljast til tíðinda sem maður í Vinstri grænum veltir fyrir sér. Þó svo að hann sé varaformaður VG var honum hafnað eftirminnilega í prófkjöri flokks síns og síðar var honum og nær gjörvöllum flokknum hans hafnað í síðustu alþingiskosningum.

Hann þykir því hvorki mjög ábyggilegur fréttaskýrandi né glöggur. Hitt er svo annað mál að hann grætur örlög sín sárt. Það er þýðir þó ekki að mbl.is eigi að taka upp einhverja aumingjagæsku vegna mannsins. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur að senda skilaboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt hik í stjórnarmyndun

Er þetta ekki orðin nokkuð skrýtin aðferðafræði við stjórnarmyndun. Minnir á mann sem kemur sér ekki að verki, er alltaf að kanna hlutina.

Þjóðin á það skilið að fá strax nýja ríkisstjórn og formaður Framsóknarflokksins þarf að koma sér að verki og hætta að mæna á það sem liggur í augum uppi.


mbl.is Gefur lítið upp um stöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valhoppar og híar og skrækir eins og kölski í leikritinu

devil-clip-artFlestir muna eftir leikritinu Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson. Sá það afar ungur að aldri og enn er mér minnisstæð túlkun Lárusar Pálssonar á kölska sjálfum. Auðvitað var ég, barnið, skelfingu lostinn að sjá skrattann sjálfan spígspora á leiksviðinu. Svo vel tókst Lárusi upp.

Og kölski freistaði Jóns sem kellingin ætlaði með góðu eða illu að koma í himnaríkisvistina. Kallinn var þó hin mesta plága, syndum spilltur og hafði notið lífsins svo að hann sá ekki eftir neinni synd, taldi þær allar hinar mestu dyggðir.

Undanfarið hefur Björn Valur Gíslason, fyrrum alþingismaður, spígsporað um stjórnmálasviðið rétt eins og kölski sjálfur í leikritinu. Báðir eiga þeir það sameiginlegt að vera rauðir og ekkert sérstaklega hlyntir sannleikanum. En hvað er svosem sannleikur?

Björn Valur telur sig geta freistað handhafa ríkisstjórnarmyndunarvaldsins með alls kyns kostaboðum og agnúast út í allt og alla og gerir sínar hosur rauðari en efni standa til. Hann valhoppar og híar og skrækir og nær aldrei að fela innræti sitt frekar en sá vondi sjálfur. Þess vegna var hann ekki endurráðinn sem alþingismaður.

Bjorn valur

Svo minnist maður annars leikrits og það er Karíus og Bakktus eftir Thorbjörn Egner. Og þeir kumpánar, svo litlir en skemmandi sem þeir eru, hrópa úr munni litla drengsins: „Jens, ekki gera eins og mamma þín segir!“

Björn Valur hrópar: Sigmundur, ekki gera það sem þjóðin þín segir! 

Já, þeir eru margir vondu kallarnir á leiksviðum tilverunnar, sumir rauðir, aðrir ... eitthvað annað. Sammerkt eiga þeir að reyna að snúa öllu við, kalla svart hvítt, hvítt svart. En það gerir leikritið eiginlega svo skemmtilegt að maður veit ekkert hvað gerist í næstu senu.


mbl.is Björn Valur biðlar til Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband