Örnefni eru vandmeðfarin

Því miður er landfræðileg þekking fólks oft svo slæm að vil vansa er. Hér á ég ekki við almenning heldur þá sem um véla, blaðamenn og aðra sem sinna skrifum. Einhvern tímann skrifað einhver um hið ágæta rútufyrirtæki sem hét Vestfjarðaleið og ritaði Vestfjarðarleið. Á þessu tvennu er mikill munur og raunar minnist ég þess ekki að neinn fjörður heiti Vestfjörður.

Landsbjörg á það til að skjöplast í landafræðinni. Sé björgunarsveit send á Esjuna til að hjálpa fólki þá er á því reginmunur hvort hún er send upp Þverfellshorn, Gunnlaugsskarð, Kerhólkamb, Lág-Esju eða Þverárkotsháls. Þetta er svona rétt eins og að segja manni til vegar og láta nægja að tala um vesturbæ Reykjavíkur en ekki t.d. tiltekið hús við Hagamel. Og þetta éta fjölmiðlar gagnrýnislaust upp eftir Landsbjörgu og notendur þeirra eru eiginlega engu nær um annað en að björgunarsveit hafi verið send eitthvað.

Svo mætti stundum halda að Ísland væri í fjölmiðlum borgríkið Reykjavík. Sé sagt frá einhverju sem gerist á Akureyri, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmi eða Ísafirði er alltaf greint frá nafni byggðarinnar. Gerist eitthvað við Barmahlíð er sjaldnast tilgreint að um sé að ræða götuna Barmahlíð í Reykjavík en ekki Barmahlíð við Berufjörð, Barmahlíð á Akureyri eða Barmahlíð á Sauðárkróki. Þeir sem nota fjölmiðilinn eru auðvitað orðnir vanir því að ráða í þessa gátu af samhenginu.

Hún er alltaf skemmtilega sagan af göngumanninum sem hafði farið í gönguferð um Goðaland. Um kvöldið hafði hann fengið sér dálítið í aðra tánna og sagðist svo frá ferðum sínum. „Ég gekk upp á Útigangshöfða, horfði á Heygarðshornið og gekk síðan on'í Glannagil.“

Auðvitað var mikið hlegið að honum því kunnugir vissu að hann hafði gengið á Útigönguhöfða og séð Heiðarhorn og gengið ofan í Hvannárgil. 

Já, örnefni eru vandmeðfarin. Því kynntist ég þegar ég skrifaði bókarkver sem kom út í fyrra um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Þá þýddi ekkert annað en að fara rétt með Skógafoss, Skóga, Skógaheiði, Skógaá, jafnvel þó á þessu landssvæði sé ekkert um skóg né tré.

Og hvað gera svo menn þegar örnefni vantar? Jú, þau eru búin til. Á Fimmvörðuhálsi er nú eldfellin Magni og Móði, Goðahraun. Þar var Brattafönn, sem næstum því er horfin. Hvað heitir þá fjallið? Hvers virði er landslag ef það heitir ekki neitt?


mbl.is Skógafoss orðinn Skógarfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Í tíð Jóns R. Hjálmarssonar, þess ágæta skólastjóra og fræðimanni, var það til siðs að nemendur á lokaári plöntuðu trjám í reit ofan við skólann. Þar er nú myndarlegur skógur sem hefði auðvitað orðið enn myndarlegri ef skólahald hefði ekki lagst af í Skógum.

En það er algegnt, eins og þú bendir á, að bæta erri inn í nöfn eins og gerst hefur á skiltinu. Þannig er samaeinaða sveitarfélagið á Austurlandi oft skrifað Fjarðarbyggð í stað Fjarðabyggð af þeim er ekki til þekkja.

Ómar Bjarki Smárason, 12.5.2013 kl. 17:01

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir þetta, Ómar Smári. og ekki mundi ég eftir flækingserrinu Fjarðabyggð en hef þó séð því bregða fyrir. En seint verður Skógaheiði öll grædd upp, hvað þá með trjám.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.5.2013 kl. 17:22

3 Smámynd: Jón Ketilsson

Það er mikið talað um "að fara um Bröttubrekku".

Mér skilst að sú brekka heiti Brattabrekka eftir fjalli sem heitir Bratti.  Ekki af því hún sé brött.

Svo það ætti að vera "að fara um Brattabrekku"

Jón Ketilsson, 12.5.2013 kl. 19:15

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einn af veðurfræðingum í sjónvarpi talar aldrei um Vestfirði eða Austfirði heldur ævinlega um Vestfirðina og Austfirðina.

Þetta er svona álíka og að tala alltaf um Reykjavíkina og Akureyrina en aldrei um Reykjavík og Akureyri.

Sami veðurfræðingur ræddi einu sinni um veðrið á "suðvestanverðu horninu". Aldrei fékkst botn í það hvaða horn þetta var.

Og ein eftirlæti setning hans er "á þeim slóðum" sem auðvitað getur þýtt hvað sem er.

Ómar Ragnarsson, 12.5.2013 kl. 19:35

5 Smámynd: Gunnar Magnússon

Í desember 2011 var ég á ferð í Kollafirði og kom að skilti þar sem heiðin yfir í Ísafjarðadjúpið var merkt. Heiðin er nefnd eftir fyrrnefndum firði en ranglega skráð Kollafjarðaheiði. Ég veit ekki til þess að heiðin sé nefnd eftir öllum Kollafjörðum landsins. Á að sjálfsögðu að vera Kollafjarðarheiði.
Einnig eru sumir sem kalla nýjustu höfn landsins "Landeyjarhöfn". Ekki veit ég hvaða Landey menn eru að vísa til. Höfnin er að sjálfsögðu nefnd eftir Landeyjunum.

Gunnar Magnússon, 12.5.2013 kl. 20:10

6 Smámynd: Olgeir Engilbertsson

Ég lendi oft í svipuðum ógöngum með Lambafitarhraunið sem flestir skrifa Lambafitjarhraun. Það var ein Lambafit sem fór undir þetta hraun 1913 og ég get ómögulega           samþykkt J í nafni hraunsins.

Olgeir Engilbertsson, 12.5.2013 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband