Þeir sem töpuðu biðja öðrum bölbæna

Margir stjórnmálaflokkar fengu skelfilega útreið í síðustu þingkosningum. Ótrúlegur fjöldi flokka bauð sig fram og sumir fengu svo fá atkvæði að greinilegt var að ekki einu sinni nánustu vinir og  aðstandendur frambjóðenda höfðu áhug á að kjósa. 

Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, misstu mikið fylgi. Athygli vekur að strax eftir kosningarnar risu helstu fallistar þessara flokka upp á afturfæturna og tók til við að gera það sem þeir kunna best, að baktala sigurvegara kosninganna og ætlanir þeirra.

Sá ljúfi og skemmtilegi blaðamaður Morgunblaðsins, Kolbrún Bergþórsdóttir, ritar í dag skemmtilegan pistil í blaði sínu. Hún segir:

Vinstrimenn, sem yfirleitt eru sérkennilega gefnir fyrir hávaðastjórnmál, voru ekki fyrr skriðnir á lappir eftir martraðarkennda kosninganótt en þeir hófu dómsdagsspár sínar um skelfilegar afleiðingar þess að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur legðu saman krafta sína í ríkisstjórn. Maður hefði haldið að forgangsverkefni stjórnarliða eftir stórfellt kosningatap væri ekki að þylja bölbænir yfir þeim sem þeir telja pólitíska andstæðinga sína heldur að leggjast í rækilega sjálfskoðun og íhuga af hverju þjóðin sneri svo rækilega við þeim baki.

Kolbrún segir einfaldlega það sem allir velta fyrir sér. Hvers vegna í ósköpunum sleikja tapararnir ekki sár sín og gefa þeim svigrúm sem geta myndað nýja ríkisstjórn. Þeir minna mann á leiðinlega krakkann sem í gamla daga gata ekki leikið sér með öðrum, kastaði sandi í augun á leikfélögum sínum og skemmdi dótið. Þegar hinir krakkarnir fengu nóg og ráku þann leiðinlega í burtu, gerði hann það með semingi en lét á leið sinni uppnefni og svívirðingar dynja yfir hina.

Sandkassaleikurinn er alltaf eins en Kolbrún segir í pistlinum:

Stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er einfaldlega besti kosturinn fyrir landsmenn eins og staðan er í dag. Formenn þessara flokka, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, eru öfgalausir og prúðmannlegir og líklegir til að hlusta á ýmis sjónarmið. Síst af öllu sér maður svo fyrir sér að þeir geri forsvarsmenn atvinnulífsins að sérstökum óvinum sínum, eins og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna gerði og var reyndar ansi stolt af. Sú ríkisstjórn leit allan gróða illu auga. Það var eins og hún teldi æskilegast að fyrirtæki landsins væru rekin með tapi. Sem er náttúrlega sjónarmið ef maður telur að gróði sé viðbjóðsleg birtingarmynd kapítalismans. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að ný ríkisstjórn þarf að taka til starfa sem fyrst og það má hún gera þó atvinnuhælbítar og leiðindaseggir óski þess heitast að Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum mistakist ætlunarverk sitt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Margir flokkar eru ekki á vísun á lýðræði.  Ástæða þess að svo margir  flokkar buðu fram í kosningunum, er að of margir höfðu verið kosnir á þing, sem ekki geta unnið með öðrum.  Þetta vesalings fólk komst að þessu snemma á kjörtímabilinu en gerði lítið með, firr en í restina og fór þá til að stofna flokk um sína eigin sérvisku.  Við vorum heppin að hafa þennan fimmprósent þröskuld og það þarf að hækka hann frekar en að lækka.         

Hrólfur Þ Hraundal, 9.5.2013 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband