Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
Var samið við Hermann á bak við Magnús?
19.9.2012 | 22:08
Voru Eyjamenn búnir að hafa samband og semja við Hermann Hreiðarsson um þjálfun ÍBV áður án þess að segja Magnúsi Gylfasyni þjálfara sínum frá því?
Frétti Magnús Gylfason af þessu og óskaði eftir fundi með stjórn ÍBV? Vildi stjórnin ekki staðfesta fréttina?
Setti Magnús stjórn ÍBV þá skilyrði, annað hvort lýsti stjórnin því yfir að fullum stuðningi við sig eða hann hætti á stundinni?
Spyr sá sem ekki veit.
Hermann Hreiðars þjálfar ÍBV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Var María Magdalena eiginkona Jesú?
19.9.2012 | 21:30
Þær upplýsingar sem sagt er frá í fréttinni eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir nokkrum árum las ég bókina Blóð Krists og gralið helga. Þetta er ákaflega vel skrifuð bók sem kom út hjá bókaútgáfunni Hólum árið 2007. Höfundarnir eru Michael Bigent, nýsjálenskur, Richard Leigh, bandarískur, og Henry Lincoln, englendingur, þýðandi Jón Þ. Þór.
Í bókinni eru raktar kenningar höfunda. Meðal þeirra er eftirfarandi á bls. 351 í bókinni:
Aðeins tvö guðspjallanna, Mattheusarguðspjall og Lúkasarguðspjall, segja eitthvað um uppruna fæðingu Jesú og þeim ber afar illa saman. Þannig segir til dæmis í Mattheusarguðspjalli að Jesú hafi verið aðalsmaður, jafnvel réttborinn konungur, kominn af Davíð og Salómon. Í Lúkasarguðspjalli er því á hinn boginn haldið fram, að þótt Jesú hafi getað rakið ætt sína til Davíðs hafi fjölskylda hans ekki verið svo háttsett. Frásögn Markúsarguðspjalls var á hinn bóginn rótin að goðsögninni um fátæka trésmiðinn. Ættartölunum ber svo mikið á milli að engu er líkara en þær eigi við tvo menn.
Og svo segir á blaðsíðu 353:
Þegar litið er til alls þessa ósamræmis verður að taka guðspjöllinn sem mjög vafasamar heimildir og þau eru alls ekki endanlegur vitnisburður. Þau flytja ekki orð neins guðs og ef þau gera það hafa orð guðs verið ansi frjálslega ritskoðuð, endurskoðuð, skýr og endurskoðuð af mönnum. Við megum ekki gleyma því að biblían - og þetta á jafnt við um Gamla og Nýja testamentið - er ekki annað en úrval verka og í mörgum tilvikum réð geðþótti valinu. Í raun gæti Biblían haft að geyma mun fleiri bækur og rit en hún gerir og gækurnar sem vantar eru ekki glataðar. Þvert á móti voru þær viljandi útilokaðar.
Enn merkilegra verður umfjöllun bókarinnar þegr fjallað er um hjúskapastöðu Jesú. í bókinni segir og er vitnað til fræðimann sem nefnist Charles Davis og ritaði eftirfarandi í Observer 28. mars 1917:
Í ljósi mernningarhefðarinnar ... er afar ósennilegt að Jesú hafi ekki kvænst alllöngu áður en hann hóf að prédika. Hefði hann haldið fast við einlífi hefði það valdið óróa, viðbrögðum sem hefðu skilið eftir sig spor. Þess vegna er þögn guðspjallanna í þesu atriði ekki röskemd fyrir því að hann hafi verið ókvæntur, heldur þvert á móti. Í samfélagi Guðinga á þessum tíma hefði einlífi verið svo óvenjulegt að það hefði vakið mikla athygli og kallað á athugasemdir.
Svo víkur sögunni að Maríu Magdalenu og höfundum finnst hún hafa gengt næsta torræðu hlutverki og svo virðist sem höfundar [allra guðspjallanna] hafi viljandi reynt að lát sem minnst á henni bera. Höfundarnir færa rök fyrir því að María Magdalena hafi verið eiginkona Jesú og sagan um fátæka trésmiðinn eigi ekki við rök að styðjast.
Hér verður bókin ekki endurrituð en í lokin er tilvalið að nefna þetta:
Hann [Jesú] virðist hafa verið menntaður til að verða rabbíi og ekki er annað að sjá en að hann hafi umgengist ríkt og áhrifamikið fólk engu minna en fátæklinga, meðal annarra Jósef frá Arímaþeu og Kíkodemus. Brúðkaupið í Kana virðist ennfremur vitna um virðing og félagslega stöðu Jesú.
Brúðkaupið virðist ekki hafa verið látlaus og óhófleg veisla alþýðufólks. Það ber þvert á móti öll merki óhófs aðalsfólks, ríka og fræga fólksins, þar sem margir þjónar, sem flýta sér að hlýða bæði Maríu og Jesjú, þarna var veislustjóri sem tjórnaði athöfninni og hann hefur trúlega verið einhvers konar yfirþjónn eða jafnvel aðalsmaður. Gríðarlega mikið vín er á boðstólum og þegar Jesú breytir vatninu í vín býr hann að sögn Good News Bible til hvorki meira né minna en sex hundruð lítra, sem er meira en átta hundruð flöskur! Og þetta var aðeins ábót á það sem þegar hafði verið drukkið.
Þegar á allt er litið virðist brúðkaupið í Kana hafa verið íburðamikil veisla ríka fólks eða aðalsins. jafnvel þótt þetta hafi ekki verið brúkaups Jesú sjálfs bendir vera hans og mótur hans þar til þess að þau tilheyrðu hlýðni þjónanna við þau.
Var Jesús giftur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Guðbjartur Hannesson á að segja af sér
19.9.2012 | 18:17
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar hefur orðið ber að miklum dómgreindarskorti þegar hann ákvað að hækka laun forstjóra Landspítala. Þar gekk hann gegn launþegum öllum, þeim sömu og hann hefur sagt enga peninga til að hækka laun þeirra.
Þegar svo er komið málum að forstjóri hefur afþakkað launahækkunina vegna þrýstings frá ráðherranum er tími uppgjörs. Ábyrgð ráðherra er mikil og því ber honum að segja af sér. Þetta er svo einfalt og skýrt.
Það er ekki eins og að ráðherra hafi séð að sér eða batnandi manni er best að lifa. Sá ráðherra sem gerir líka kórvillu sem ber að segja af sér. Hækkunin er pólitísk afglöp. Ef einhvern tímann hefur ábyrgð átt að leiða til afsagnar þá er það núna.
Björn afþakkar launahækkunina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Langahlíð hefur mikið breyst á 27 árum
19.9.2012 | 16:25
Reykjavík hefur mikið breyst á síðustu þrjátíu árum eða svo. Mestu mundar um hlýnunin og í kjölfarið þann gríðarlega trjávöxt sem í borginni.
Ég hef stundum tekið myndir innan borgarinnar þó svo að mestan áhuga hafi ég á að taka myndir í náttúrunni, það er utan þéttbýlis. Árið 1985 var ég dálítið duglegur að taka myndir í borginni og ástæðan var einfaldlega sú að ég átti þá tvö ung börn og gerði mér stundum að leik að aka með þau hingað og þangað og leyfa þeim að leika sér.
En það var ekki alltaf svo, stundum var himininn svo fagur að ég stóðst ekki mátið og fór út. Þannig var það þann 5. desmber 1985. Sólin var að setjast og varpaði rauðum geilsum sínum yfir höfuðborgarsvæðið. Ég ók upp í Öskjuhlíð og þar var mikið lið í óða önn að brjóta niður gömlu tankana. Þeir höfðu verið leiksvæði okkar krakkanna sem ólust upp í Hlíðunum og var af þeim mikil eftirsjá.
Þá tók ég þessa mynd sem er hérna efst. Þarna blasir við Langahlíð, gatan sem krossar Miklubrautina. Mér fannst hún alltaf stórkostlega falleg, miklu breiðari en göturnar í nágrenninu.
Í æsku minni bjó ég með pabba og mömmu í Barmahlíð, það er efri Barmahlíð, eins og svo oft var sagt vegna þess að Langahlíð skipti henni svo rækilega. Rétt eins og Mávahlíð og Drápuhlíð.
Jæja, ég gerði mér ferð upp í Öskjuhlíð í fallega veðrinu í dag og tók þessa mynd af Lönguhlíð til að eiga fyrir samanburðinn. Klippti hana svolítið til þannig að hún væri sem líkust þeirri fyrir ofan.
Það var nú barasta ekkert auðvelt. Allt hefur breyst svo mikið og gróðurinn tafði för og hindraði góða myndatöku.
En svona hefur nú hún Langahlíð breyst. Enn er gatan svosum eins en umhverfið er allt annað. Torgið á mótum Eskihlíðar, Lönguhlíðar og Hamrahlíðar sést ekki vegnan gróskumikils trjágróðurs og þarna hefur líka verið byggt veglegt fjölbýlishús sem skyggir dálítið á.
Sjáið hversu trjágróðurinn er mikill. Begga vegna Lönguhlíðar skyggir hann á húsin svo mörg hver sjást ekki. Jafnvel með austanverðri Lönguhlíð er trjágróður sem vart var til árið 1985.
Takið líka eftir Miklatúni sem svo hét en hefur fengið aftur það nafn sem ég þekkti úr æsku minni, Klambratún. Ég man eftir því er það var skipulagt og tré gróðursett. Þarna var líka leiksvæði krakka í Hlíðunum.
Þar söfnuðum við í brennu í desember. Eitt árið komu borgarkallarnir og tóku hana yfir og báru mikið drasl í hana og hún kölluð borgarbrenna.
Á Klambratún var sett stytta af Einari Benediktssyni skáldi. Skelfing fannst mér hún einmanna og umhverfið eyðilegt með örfáar hríslur í kring. Þessar hríslur eru nú ábyggilega fimm metrar á hæð.
Langahlíð er miklu flottari gata í dag en hún hefur nokkru sinni verið. Og reykvísku tréin hafa bætt loftslagið í borginni, gert það hlýrra og þar er nú ábyggilega lygnara en fyrir 27 árum.
Alvarleg rökvilla á kjörseðli
18.9.2012 | 11:14
Setjum sem svo að ég væri í heimsókn hjá vinafólki og mér verði boðið eitthvað að drekka. Ég svara ef til vill nei takk. Þá væri það dálítið sérstakt, svo ekki sé meira sagt, ef þessir vinir mínir myndu halda áfram og spyrja hvort ég vilji ekki kaffi, te, vatn, mjólk, gosdrykk og svo framvegis.
Í vel saminni grein í Morgunblaðinu í morgun ritar Kristján Ingvarsson verkfræðingur og fyrrum frambjóðandi til stjórnlagaþings um fyrirhugaða kosningu um stjórnarskrá. Hann segir:
Það er rökvilla á kjörseðlinum sem notaður verður við þjóðaratkvæðagreiðsluna í október en fáir hafa komið auga á hana eða a.m.k. haft orð á henni. Þetta er gildra sem mun leiða til þess að nýju drögin að stjórnarskrá verða að öllum líkindum samþykkt.
Á kjörseðlinum eru sex spurningar. Fyrsta spurningin er: Viltu að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Næstu spurningarnar eru um einstök atriði í framtíðarstjórnarskrá. Þeim sem svarar fyrstu spurningu neitandi ber vitaskuld ekki að svara hinum, en í leiðbeiningunum á kjörseðlinum stendur einungis: Kjósandi getur sleppt því að svara einstökum spurningum. En hvort sem kjósandinn segir já eða nei við seinni spurningunum, verður litið svo á að hann hafi samþykkt drögin.
Og svo segir Kristján að þessari rökvillu hefði verið hægt að kippa í lag með því að bæta við eftirfarandi setningu á eftir fyrstu spurningunni.
Svarir þú Já við fyrstu spurningu, máttu svara hinum fimm. En þessa setningu vantar á kjörseðilinn. Það verður því á valdi stjórnvalda að túlka kjörseðilinn að eigin vild.
Nú er líklega of seint að breyta kjörseðlinum en Kristján kemur með lausn sem allir ættu að geta samþykkt. Hann segir í grein sinni:
Niðurstaðan er þessi: Ef þú vilt að drögin að nýrri stjórnarskrá verði notuð af Alþingi, svararðu fyrstu spurningu játandi og einnig hinum, að vild. Ef þú ert hins vegar andvígur tillögunum, þá svararðu fyrstu spurningu neitandi en sleppir algerlega að svara hinum. Með því móti geturðu forðast gildruna.
Svo er það líka kostur að mæta ekki á kjörstað. Í því er fólgin afstaða sem kom svo skýrt fram við kosningar um stjórnlagaþing. Þá var kjörsóknin aðeins 36%.
Hins vegar mun ég mæta á kjörstað og segja nei við spurningunni á kjörseðlinum vegna þess að ég er ósammála mörgu því sem fram kemur í tillögum stjórnlagaráðs. Þar af leiðandi mun ég fara að ráðum Krisjáns og láta öðrum spurningum á kjörseðlinum ósvarað.
Steingrímur staðinn að því að fara rangt með
18.9.2012 | 10:53
Hann var elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann. Þetta var sagt um mann nokkurn fyrir mörgum, mörgum árum og þótti vel mælt.
Atli Gíslason þingmaður ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hann gerir að umtalsefni stefnubreytingu Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna og atvinnumálaráðherra. Sá segist í orði vera á móti krosseignatengslum í sjávarútvegi. En Atli færir rök fyrir því að það sé meira í orði en á borði.
Í frumvarpi Jóns Bjarnasonar fyrrum sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnun var tekið á krosseignatengslum á nákvæman hátt eftir því sem Atli segir. Þegar Steingrímur tók við embætti sjávarútvegsráðherra um síðustu áramót kom í hans hlut að leggja fyrir Alþingi nýtt frumvarp til laga um fiskveiðistjórn. Og Atli segir:
Þegar það var loks lagt fram vorið 2012 brá svo við að fyrrnefnd frumvarpsgrein Jóns Bjarnasonar um krosseignatengsl var horfin. Sömuleiðis ákvæði um hámarksaflahlutdeild í einstökum tegundum.
Og Atli segir í lok greinarinnar:
Það er ámælisvert að atvinnuvegaráðherra sé hvað eftir annað staðinn að því að fara rangt með. Dapurlegt en satt. Í þessu tilviki eru allar staðreyndir skjalfestar og borðleggjandi. Steingrímur J. segir blákalt í orði að brýnt sé að login verði skýrð og skerpt svo þau virki sem skyldi, en breytir þveröfugt við það.
Skýrslan komin og spuninn hefst
17.9.2012 | 17:35
Nú er líklega best að lesa skýrslu Seðlabanka Íslands um kosti i gjaldmiðils- og gengismálum eða úrdrátt úr henni áður en maður tjáir sig. Þá sá ég að blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar hafði stokkið fram á ritvöllinn og þó hann hafi ekki lesið skýrsluna er hann fullur tilhlökkunar. Þá fattar maður stöðuna.
Spuninn er kominn í gang. Nú eigum við eftir að heyra af fjölmörgum besserwisserum sem grípa skýrslu Seðlabankans fegins hendi. Líklega verða það einkum pólitískir samherjar blaðafulltrúans og þeir sem hafa átt um svo sárt að binda vegna afstöðu þjóðarinnar í skoðanakönnunum um aðildina að ESB.
Dálítið skrýtið þetta mál allt saman. Líklegast hefur Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir sér þegar hann ritaði í grein í Mogganum 5. september og sagði um þessa skýrslu sem núna er komin út:
Er ekki fyrirfram ólíklegt að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi aðra sýn á þessi mál en Már Guðmundsson, formaður samningahópsins [hópur ríkisstjórnarinnar sem nýlega mótaði samningsafstöðu hennar á sviði peningamála]? Er ekki hætt við að það liti afstöðu bankans að bankastjórinn hefur þegar, á öðrum vettvangi, tekið jafn skýra afstöðu og hér hefur verið rakið? Og má ekki að lokum spyrja, hvað er orðið um sjálfstæði Seðlabankans gagnvart ríkisstjórninni þegar bankastjórinn stýrir stefnumótunarvinnu fyrir stjórnina í einu viðkvæmasta og umdeildasta álitamáli íslenskra stjórnmála?
Segja evruna besta kostinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaftbrúk, dýfur og leiðindi leikmanna
17.9.2012 | 13:45
Kjaftbrúk leikmanna við dómara fer að vera ansi leiðigjarnt, sérstaklega fyrir okkur áhorfendur. Þó maður heyri ekki oft hvað þeir segja þarna úti á leikvellinum fer ekki á milli mála að sjaldnast eru það neinar gælur ef líkamstjáningin er lögð til grundvallar.
Auðvitað gengur ekki að hreyta einhverjum ónotum í dómara og reyna síðan að afsaka sig með því að það hafi verið sagt í hita leiksins. Þetta er eins og að afsaka umferðarslys með því að hafa verið drukkinn undir stýri.
Menn eiga að hafa stjórn á sér, það er grundvallaratriði. Hitt er síðan til opinberrar umræðu að knattspyrnumenn stunda þann undarlega leik að senda dómurum tóninn til þess eins að halda þeim við efnið, sýna hvar valdið liggur. Þegar bæði lið gera þetta spinnst allt smám saman upp í einn allsherjar kjafthátt sem engan enda tekur.
Ósiðir fótboltamanna eru margir. Flestir kannast við þann sið að leikmaður fleygir sér niður í vítateig andstæðinganna til að fá víti. Þetta eru kallaðar dýfur og þeir sem slíkt stunda dýfingameistarar. Stundum takast dýfurnar, dómarar eru auðvitað mannlegir.
Svo fellur einhver, hefur verið tæklaður, brugðið eða hrynur niður af sjálfsdáðum. Þá bregst það sjaldnast að viðkomandi kútveltist, grípur um legginn og hrín hástöfum. Í flestum tilfellum lagast bágtið fljótast ef viðkomandi fær aukaspyrnu út á veltuna. Hrikalegustu slysin á leikvellinum lagast undrafljótt og eru ábyggilega tilefni til mikilla læknisfræðilegra rannsókna. Væri ráð að Íslensk erfðagreinin tæki þetta til athugunar.
Boltinn á það til að fara útaf leikvellinum og mér skilst að þá eigi það lið að kasta inná sem ekki olli því að hann skrapp yfir hvítu línuna. Langt er síðan leikmenn fóru að taka upp þann sið að hjálpa dómaranum með því að lyfta upp hendi er boltinn fer útaf. Með slíkri tjáningu segjast þeir eiga innkastið. Ekki veit ég til þess að dómarar fari almennt eftir þessum markvissu tilkynningum leikmanna enda vandast málið þegar menn úr báðum liðum veifa fálmurunum og þykjast eiga innkastið. Líklegast ættu dómarar þá að kalla á fund og ræða málið og komast þannig að niðurstöðu, nú eða kasta uppá'ða.
Nei, dómar á leikvelli eru ekki til umræðu. Þeir eru endanlegir. Dómi verður ekki kollvarpað með lýðræðislegri handauppréttingu né heldur á þann veg að sá sem hæst hrópar um meint óréttlæti fái að ráða.
Er ekki best, strákar og stelpur, að halda einfaldlega kjafti og snúa sér frá dómaranum eftir að hann hefur dæmt. Það er svosem í lagi að tauta einhvern andskotann ofan í bringuna á sér eða kasta sér niður og berja á grasinu. Nú, og svo má alltaf fara að gráta. Dómarar eru yfirleitt aumingjagóðir og væru áreiðanlega til í að dæma þeim í haga sem fellir flest tárin og grætur sárast.
Best af öllu væri þó að leikurinn fengi að ganga snuðrulaust fyrir sig, án leiksýningar. Já, ég veit, nú fullyrða margir að án leikrænna tilþrifa væri fótboltinn hundleiðinlegur. Eitthvað kann að vera til í því ...
Ertu þroskaheftur? spurði Jón og fékk rautt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mogginn klikkar á netáskrifendum
17.9.2012 | 10:18
Man ekki hverstu lengi ég hef verið netáskrifandi að Morgunblaðinu en það eru að nálgast tíu ár. Mun líklega aldrei hverfa til hefðbundinnar áskriftar, þvílík eru þægindin. Hins vegar virðast netáskrifendur Morgunblaðsins alla tíð hafa verið hornrekur hjá blaðinu.
Fyrstu árin þurfti ég að millifæra sérstaklega fyrir netáskriftina, hún var ekki til í kerfinu.
Með Moggaklúbbnum er áskrifendum ætluð sérstök umbun með afsláttum og kjarakaupum hér og þar í viðskiptum en þar er ekki gert ráð fyrir netáskrifendum
Og núna hefur Mogginn milligöngu um kjarakaup á iPad enda eru slík tæki það sem koma skal. Ég forvitnaðist um kaup og kjör en fæ þau svör hjá mbl.is að ég sé ekki netáskrifandi, sjá meðfylgjandi mynd. Engu að síður er ég innskráður eins og sjá má efst í vinstra horninu.
Ég kvartaði auðvitað með tölvupósti. Góður maður á skrifstofu Morgunblaðsins hringdi svo til umsvifalaust og lofaði að láta forritarana laga þetta. Það hefur greinilega ekki enn tekist því meðfylgjandi mynd er frá því í morgun. Ekki kemst ég inn í tilboðið frekar en fyrir helgi.
Eftir stendur að Morgunblaðið ætlar að hasla sér völl með því að bjóða netáskriftir en klikkar á grundvallaratriðinu, gleymir núverandi netáskrifendum. Þversagnakennt og ekki góður bissness það fyrir frábært dagblað.
Gekk berfættur í mosanum á tindinn
16.9.2012 | 11:22
Ég lýsti því fyrir hlustendum þegar ég gekk berfættur á efsta tind fjallsins Löðmundar. fór ég úr skónum og gekk berfættur til að skemma ekki viðkvæman gróður tindsins.
Þannig ritar Reynir Traustason, ritstjóri DV, í blogg sitt er hann nefnir Baráttuna við holdið. Þetta kann að virðast dálítið sérstök lýsing svo ekki sé talað um samhengið. Hið síðarnefnda skiptir mig engu máli.
Þarna er land andstæðna. Gróður á sér erfitt uppdráttar, samfelld gróðursvæði eru lítil, jarðvegur er vikrar eða aska, afskaplega laus í sér. Gras vex einkum nálægt ám og vötnum og gamburmosinn klífur fjöllin. Þannig er þetta við Löðmundarvatn og Löðmund.
Sá sem gengur fjöllin, lærir á gróðurfarið. Víða á það í gríðarlegum erfiðleikum. Gróðurþekjan rofnar auðveldlega. Þetta sést svo ákaflega vel víða á Fjallabaki nyrðra og syðra þar sem fjöll eru sum hver gróðursnauð neðst. Þar rýkur sandurinn og hreinsar gróðurinn í burtu en ofsinn nær ekki ofar.
Á fjöllum verður allt svo undarlega öðru vísi og rökhugsunin jafnvel sterkari en endranær, ef til vill barnsleg. Þegar komið er að grænum dýjamosanum reyna flestir að krækja fyrir hann ef mögulegt er. Óraunverulegi litur mosans og oft eyðilegt umhverfið fær göngumanninn til að endurskoða hug sinn. Virðingin fyrir náttúrunni vex eftir því sem maður á fleiri stundir á fjöllum.
Ég er ekki hissa þó Reynir Traustason hafi tekið af sér skóna og gengið berfættur síðasta hluta leiðarinnar á Löðmund. Þó fæstir hafi gert það sama er það einhvern veginn svo rökrétt. Göngufólk skilur manninn enda reyna flestir að hlífa gróðri eins mikið og þeir geta. Ekki er ólíklegt að maður verði léttari við það eitt að halda niðri í sér andanum meðan gengið er yfir viðkvæm, mosavaxin svæði.
Efsta myndin er tekin í sumar örskammt frá Löðmundarvatni. Þarna gægist grárleitur Löðmundur fyrir ónefnda fjallið við Helliskvísl.
Önnur myndin er af Mælifelli á Mælifellssandi.
Og þriðja myndin er af dýjamosa sem fundið hefur sér stað skammt frá Strúti í Strútslandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)