Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
Stjórnmálafræðingar sem ekkert hafa fram að færa
23.9.2012 | 14:01
Margir stjórnmálafræðingar hafa tekið þátt í stjórnmálum. Meðal þeirra er Birgir Guðmundsson sem er Samfylkingarmaður. Í því ljósi má spyrja hversu trúverðugt álit hans á viðburðum innan Framsóknarflokksins sé? Er nú ekki kominn tími til að leita álits þeirra sem eru hlutlausir? Þeir hljóta að vera til.
Staðan er einfaldlega sú að mörg eftirlæti fjölmiðla í stjórnmálafræðum lifa fyrir það að búa til upphrópanir og efni í fyrirsagnir svo þóknast megi fjölmiðlum. Fyrir vikið sækja þeir aftur og aftur í þessa stjórnmálafræðinga og hringrásin verðu óendanleg.
Efnislega er hins vegar oft ekkert varið í niðurstöður þessara manna, ekki frekar en okkar hinna sem rífumst um pólitík í kaffítímum á vinnustöðum eða í heitapottinum í laugunum.
Í fréttinni segir Birgir að sumir formenn Framsóknarflokksins hafa flutt sig til höfuðborgarsvæðisins, þó ekki allir. Nú fer einn af höfuðborgarsvæðinu og út á land. Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvaða skilaboð felast í því, segir Birgir og er afar djúpúðgur.
Honum dettur þó ekki í hug að vera kunni að hreinlega séu engin skilaboð í þessu fólgin og þá er hann bara að fabúlera um ekki neitt. Nema auðvitað að hann sé að byggja upp samsæriskenningar um klofning eða óeiningu innan Framsóknarflokksins. Gæti kannski Samfylkingin hagnast á slíku eða hvað?
Orðið að opnum átökum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gerðist ekkert, Guðbjartur?
23.9.2012 | 13:45
Best væri nú að Guðbjartur Hannesson sinnti skyldum sínum og segði af sér og axlaði þar með ábyrgð á pólitísku axarskafti sínu vegna launahækkunarinnar til forstjóra Landspítalans. Það var ekki fyrr en að allt ætlaði um koll að keyra innan Landspítalans að Guðbjartur áttaði sig á heimskulegri launahækkuninni.
Datt honum virkilega í hug að svona launahækkun hefði engin eftirköst? Sé svo ber honum að segja af sér.
Vissi hann fyrir að launahækkunin myndi draga dilk á eftir sér? Sé svo ber honum að segja af sér.
Getur skylda ráðherra vegna ábyrgðar sinnar verið einfaldari og skýrari?
Svo stendur þessi maður upp og hreytir því í starfsfólk í heilbrigðiskerfinu að það sinni áfram störfum sínum rétt eins og ekkert hafi í skorist. Nei, fólkið sættir sig ekki við svona trakteringar.
Sinna skyldum sínum áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Virðingarvandi þingsins ...
23.9.2012 | 10:50
Forsætisráðherrann virtist telja að virðingarvandi þingsins fælist helst í því að stjórnarandstaðan sýndi málum stjórnarinnar, og þá ekki síst helstu furðumálum hennar nægilegan stuðning. Og þingmenn (og þá meinti ráðherrann stjórnarandstöðuna) virtust að hennar mati hafa of rík tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós. Og það væri helst af þessum ástæðum, sem virðing þingsins hefði fokið út í veður og vind. Úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 22. september 2012
Engu þarf við þetta að bæta. Lýsir í hnotskurn viðhorfum ríkisstjórnarinnar.
Reykjavíkurbréfið í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Formið stillir kjósendum upp við vegg
22.9.2012 | 15:24
Það er hreinlega útlokað að Alþingi afsali stjórnarskrárbundnum rétti sínum til að fjalla um, breyta og laga tillögur til stjórnarskrár. Eitt er að fara með hugmyndir um stjórnarskrár fyrir þjóðaratkvæði en annað að krefjast þess að Alþingi taki niðurstöðurnar sem úrslitakost, hvernig sem þær verða. Slíkt er einfaldlega ólýðræðislegt og ekki í anda stjórnarskrárinnar.
Margt er ágætt í tillögum stjórnarskrárráðs en margar þeirra er ég ekki tilbúinn til að samþykkja. Þar sem form þjóðaratkvæðagreiðslunnar stillir mér upp við vegg mun ég segja NEI og ekki greiða aukaspurningunum atkvæði mitt, enda óþarft.
Ég mun einnig hvetja alla sem ég þekkir sem og þá sem heyra mál mitt að mæta á kjörstað og greiða ekki atkvæði með stjórnarskrártillögunum.
Mun hafna tillögu stjórnlagaráðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jóhanna ver vitleysuna í Guðbjarti
22.9.2012 | 13:51
... meiri maður í kjölfarið.
Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Guðbjartur var gerður afturreka með launahækkunina. Hann gerðist sekur um stóralvarleg mistök og er bara meiri maður í kjölfarið af því að hann neyddist til að draga kauphækkunina til baka.
Hvenær er pólitík ábyrgð slík að ráðherra telji sig knúinn að segja af sér? Og hvað þarf ráðherra að gera af sér til að forsætisráðherra gefi þeim sparkið?
Launahækkunin mistök að mati Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hroki forsætisráðherra
22.9.2012 | 11:48
Jóhanna segir að ákvörðun Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um að hækka laun Björns Zoëga, forstjóra Landspítalans, hafi ekki brotið í bága við lög um að enginn embættismaður skuli hafa hærri laun en forsætisráðherra. Um hafi verið að ræða hækkun á læknishluta starfa hans.
Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í viðtali við Fréttablaðið í dag. Hún reynir, líkt og velferðarráðherra, að snúa sig út úr alvarlegum pólitískum vanda með kjaftagangi. Sama ruglið og í borgarfulltrúa Besta flokksins sem taldi sig aðeins vera borgarfulltrúi frá 9-5.
Hver í ósköpunum trúir því að hækkunin sé fyrir læknishluta starfa forstjórans? Hvenær er forstjórinn læknir og hvenær forstjóri? Er til nákvæm skilgreining á því. Hættir hann að vera forstjóri þegar hann tekur upp skurðhnífinn ...?
Með svona röksemdafærslu er hægt að hækka laun allra silkihúfna ríkisstjórnarinnar og alla aðra sem tilheyra þeim. En, munum, ekki dugar röksemdafærslan til að hækka atvinnuleysisbætur, örorkubætur, ellilífeyri, laun lækna, hjúkrunarfólks, sjúkraliða eða þeirra sem eru launalægstir hjá ríkinu.
Annað hvort er forsætisráðherra illa gefin eða hún heldur að þjóðin sé það.
Laugarás fyrr og nú
21.9.2012 | 11:49
Þann 29. júní 1985 skrapp ég upp á Laugarás í Reykjavík. Þar var víðsýnt um bæinn, ekki síst í vestur, og ég tók nokkrar myndir.
Skammt frá átti ég heima í nokkur ár eftir að ég flutti með foreldrum mínum úr Hlíðunum.
Laugarás nefndist yfirleitt aðeins holtið milli Austur- og Vesturbrúnar en líklega hefur nafnið hér áður fyrr verið haft um alla hæðina, allt frá Laugardal og austur yfir. Kannski er það svo nú
Þarna í holtinu var lítill malarvöllur sem var mikið notaður af skara af strákum í hverfinu. Man eftir því hversu bagalegt það var að missa boltann út fyrir hliðarlínu. Þá fór hann niður á Austurbrún og jafnvel rúllaði niður Hólsveg, sem er nokkuð brattur og talsverð erfiði að eltast við hann. Skotfastir strákar áttu það til að þrusa boltanum yfir suðurmarkið og út á Vesturbrún. Man eftir að pabbi hringdi í Geir Hallgrímsson og kvartaði undan þessu. Daginn eftir komu borgarstarfsmenn og settu stóreflis grjót með hliðarlínu vallarins og mig minnir að þeir hafi lagað netin í mörkunum. Hvort tveggja var ansi mikil framför.
En nú er hún Snorrabúð stekkur eins og sagt er. Vinstri stjórn í Reykjavík var á sínum tíma svo ákaflega hlynt svokallaðir þéttingu byggðar og það leiddi til þess að Laugarásinn var eyðilagður með fjölda raðhúsa. Þau liggja svo þétt að vart er hægt að snúa meðalstórum bíl inni á milli þeirra. Og fótboltavöllurinn er farinn. Engu að síður var hæsta hluta holtsins hlíft og efsta myndin er tekin þar fyrir 27 árum.
Um daginn skrapp ég aftur upp á Laugarás og þvílík breyting sem þar er orðin. Holtið er í raun allt uppgróið og lítið útsýni að hafa vegna hávaxinna birkitrjá. Gamli stöpullinn er horfinn og nýr kominn, hvaða máli sem það nú skiptir.
Svona hefur nú Reykjavík breyst, til betri áttar vil ég segja. Mikill trjágróður sem breytt hefur verðurfarinu í borginni.
Sitthvað gott við flokk ...
20.9.2012 | 10:32
Það er ekkert undarlegt við það að vinstri grænir tali gegn fjármagni og atvinnurekendum, með því eru þeir einungis að fylgja hugmyndafræði sinni. Það er hins vegar löngu tímabært að Samfylkingin láti af snakki sem á ekkert skylt við nútímajafnaðarstefnu.
Samfylkingin ætti einnig að hætta að tala á þeim nótum að Sjálfstæðisflokkurinn sé varasamur og fylgi hættulegri hugmyndafræði. Það getur ekki annað en verið sitthvað gott við flokk sem stendur gegn forræðishyggju og trúir á einstaklingsfrelsið.
Niðurlag Pistils Kolbrúnar Bergþórsdóttur á bls. 20 í Morgunblaðinu í morgun.
Ráðherra hrekst undan í flæmingi
20.9.2012 | 10:27
Dómgreindarleysi Guðbjarts Hannessonar ríður ekki við einteyming og kemur það gleggst fram í launastefnu hans. Það er að segja að hækka laun forstjóra Landspítalans um 450.000 krónur en neita öðrum starfsmönnum spítalans um hlutfallslega sömu hækkun. Auðvitað á maðurinn að segja af sér, þetta er ekki launastefna heldur pólitískt klúður.
Guðbjartur reynir að afsaka sig með því að halda því fram að allir starfsmenn Landspítalans eigi að vera vel launaðir. Gott, en hvað ætlar hann að gera í því?
Frekari rök fyrir því að Guðbjartur segi af sér koma fram í seinni forystugrein Morgunblaðsins í morgun. Þar segir:
Björn Zoëga, forstjóri Ríkisspítalanna, hefur tilkynnt að hann hafi afþakkað þá launahækkun sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hafði boðið honum. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu þeirra. Björn segir að hann hafi afþakkað kjarabreytinguna í ljósi þeirra miklu deilna sem sprottið hafi í kjölfarið.
Þessi niðurstaða forstjórans er rétt, en dómgreindarleysi ráðherrans sem ákvörðunina tók blasir við eftir sem áður. Þegar öldur risu hátt eftir að launaákvörðuninni hafði verið lekið til fjölmiðla fullyrti Guðbjartur að hann einn hefði borið ábyrgð á henni. Það er einnig augljóslega rétt. En fráleitt er að ætla að ráðherrann hafi ekki kynnt sína ákvörðun, svo óvenjuleg sem hún var, fyrir forsætisráðherranum. Hafi hann ekki gert það er dómgreindarleysið yfirþyrmandi. Hafi hann sinnt upplýsingaskyldu sinni, sem nær öruggt má telja, væri fróðlegt að fá skýringar á hver hafi verið afstaða forsætisráðherrans.
Forsætisráðherra neitar vafalaust vitneskju um þetta og reynir að mjaka sér fjarri ráðherranum. Sé eitthvert vit í fjölmiðlum eiga þeir að pressa á forsætisráðherra og kjósendur eiga að krefjast þess að velferðaráðherra sæti ábyrgð.
Hvað þýðir svo þessi ábyrgð ráðherra. Jú, eftir pólitískt klúður á ráðherra að segja af sér, sérstaklega í ljósi þess hversu umfangsmikið það er. Afsögn er kannski eina leiðin til að róa starfsmenn Landspítalans. Að öðrum kosti blasa við kjaradeilur og verkföll.
Þegar málið er skoðað nánar verður að segjast eins og er að staða forstjórans er völt. Dómgreindarleysi hans er ekki minna en ráðherrans. Hann mun segja af sér og líklega hverfa til Svíþjóðar. Hvernig má það annars vera að þjóðin kosti offjár við að mennta fólk og það telji sig að engu skuldbundið hér á landi þrátt fyrir ofurlaun?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Seðlabankinn reynir að kjafta sig út úr vanda
20.9.2012 | 10:06
Þegar óvandaður stjórnmálamaður lendir í klípu segir hann í þröngum hóp með hrokabliki í augum, Ég sé um þetta, kjafta mig einhvern veginn út úr því. Og viti menn, honum tekst það. Oftast vegna þess að fjölmiðlar nenna ekki að elta ólar við hann.
Sjáið bara hversu mjúkum höndum menn fara um Guðbjart Hannesson, velferðarmálaráðherra, sem hefur þá einu launastefnu að hækka laun forstjóra Landspítalans. Hinum gaf hann einfaldlega fingurinn. Engin haldbær rök hafa komið frá ráðherra um gjörninginn, hann eftirlætur forstjóranum afsakanirnar sem á heldur illa tíð með þær. Fjölmiðlum finnst þetta hins vegar allt í lagi.
Seðlabankinn er stofnun sem maður hefur hingað til borið talsvert mikla virðingu fyrir. Nú gerist það að Morgunblaðið segir frá því að í frosti gjaldeyrishafta leyfi bankinn Deutche Bank og erlendu fjárfestingarfélagi að skipta 18 milljörðum íslenskra króna yfir í erlendan gjaldeyri.
Svo beið maður spenntur eftir því að heyra skýringar Seðlabankans og þær komu vissulega, ef skýringar skyldi kalla. Þær birtast á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í morgun. Ég las þær og skildi varla upp né niður. Eitthvað vantaði. Skyldi Mogginn hafa sleppt hluta þeirra fyrir mistök?
Nei, Seðlabankinn var einungis að reyna að kjafta sig út úr vanda sem hann hafði engar rökréttar skýringar á. Svo svipað eins og þegar Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra og þingmaður, bregður fyrir sig fornyrðislagi brúkar Seðlabankinn kansellímál. Hvorugur verður fyrir vikið skilnanlegur.
Best er í raun athugasemd ritstjórnar, en í henni segir hárbeitt:
Í yfirlýsinguna vantar rökstuðning við þessa fullyrðingu, útskýringar Seðlabankans eru óljósar og ófullnægjandi og bankinn neitar að veita upplýsingar um undanþágur frá gjaldeyrishöftum. [...]
[R]étt [er] að vekja athygli á því, að gengi krónunnar hefur lækkað um meira en 7% gagnvart evrunni - úr 149 krónum í 160 krónur - frá því að Peningamál Seðlabankans voru kynnt 22. ágúst síðastliðinn. Þetta er verulegt fall á tæpum mánuði.
Á fundi með blaðamönnum, þegar rit bankans var kynnt, taldi Már Guðmundsson hins vegar ástæðu til að ætla að veruleg gengisstyrking krónunnar mánuðina á undan væri ekki eingöngu tilkomin vegna árstíðarsveiflna. Því væri ekki endilega ástæða til að ætla að krónan myndi gefa eftir á komandi misserum. Í Peningamálum er gert ráð fyrir því að gengi krónunnar gagnvart evru verði að meðaltali 150 á næsta ári.
Gera má ráð fyrir því að það sem Morgunblaðið á við er að undanþágulekar í gegnum gjaldeyrishöftin valdi lækkun á gengi krónunnar. Önnur skýring er varla í sjónmáli. Seðlabankinn er því á harðaflótta rétt eins og ríkisstjórnin af því að hann er viljandi í undanþáguveitingum.