Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Freysi

940906-36_b

Ef þú kemst ekki þangað á jeppa þá er líklegast ekkert varið í staðinn“, sagði hann hátt og snjallt yfir hópinn í litla kofanum í Goðahnúkum og glotti um leið og hann leit til mín. Hann vissi sem var að ég, göngukallinn, myndi nú æsa mig yfir þessum orðum. Og auðvitað féll ég í gryfjuna og fór að tuða eitthvað um gildi gönguferða, skíðaferða, fjallgangna og allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Þá hló Freysi og allir vinir hans með honum, tilganginum var náð.

Ég man alltaf eftir þessum orðum Freysa og lengi á eftir „hefndi“ ég mín með því að fullyrða að þetta væri markmið jeppakalla, að fara akandi alla um allar trissur og skemma um leið landið. Ég vissi þó betur enda var síst af öllu hægt að segja það um Freysa að hann færi illa með landið sem hann unni svo heitt.

En nú er hann dáinn, þessi ágæti drengur sem í raun og sann var allra vinur. Fullu nafni hét hann Vilhjálmur Freyr Jónsson. Hann lést í vélhjólaslysi langt fyrir aldur fram, aðeins 47 ára gamall. Hann var véltæknifræðingur, geysilega fær með jeppa, enda vann hann hjá Toyota umboðinu, síðar Arctic Trucs og loks hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Hann breytti bílum og fann upp betri aðferðir við það, átti þátt í einkaleyfum hjá Össuri. Hann ók á jeppa á Suðurskautinu og var með þeim fyrstu sem óku yfir Grænlandsjökul.

940906-123

Ég þekkti hann ekki mikið, en við þáttum sameiginlega vini og kunningja þó leiðir okkar lægju ekki oft saman. 

Í eina skiptið sem ég fór í ferð með Freysa var það 1994 ég og vinur minn, Guðbergur Davíð Davíðsson, kvikmyndagerðarmaður, vorum að búa til sjónvarpsþátt sem nefndist Jeppar á fjöllum. Við fengum Arnar Jónsson, kunningja minn til að fara með okkur á Vatnajökul og hann dró Freysa með. Þetta var í byrjun september og á fjórum bílum ókum við sem leið lá upp Skálafellsjökul og í Goðahnúka. Þetta var gríðarlega eftirminnileg ferð.

í Goðahnúkum vildi svo einkennilega til að Toyota bíllinn minn bilaði, fór ekki í gang. Freysi vissi hvað var að en hafði skiljanlega ekki tök á því að gera við hann. Bíllinn var einfaldlega úrbræddur. Þrátt fyrir þetta áfall, skiluðum við bílnum niður að Jöklaseli þaðan sem hann var sendur til Hafnar og síðan með skipi til Reykjavíkur.

940906-126

Ferðin hélt hins vegar áfram. Ég fékk að vera með Freysa í bíl og þá skildi ég hversu mikill töframaður hann var í akstri og skemmtilegur ferðafélagi. Á Grímsfjalli varð Arnari það á að brjóta framdrif. Freysi skreið aftur í skott á bílnum sínum og fann framdrif og réttar olíur til að setja með því. Hugsið ykkur, kæru lesendur. Hvers konar maður á framdrif fyrir Toyota bíl á lager?

Við ókum yfir endilangan Vatnajökul, að hluta til eftir gps punktum. Komum niður í Gæsavötn, héldum þar í Laugafell við Sprengisand, ókum norður fyrir Hofsjökul, að Hveravöllum og á Langjökul.

940906-171

Bílnum sínum sem var lengdur Toyota Hilux hafði Freysi breytt mikið. Ég sá hann aka yfir hrikalega grýttan veg á um sjötíu kílómetra hraða án þess að bíllinn haggaðist að neinu ráði. Svo góð var fjöðrunin. Ökumenn hinna bílanna siluðust þennan vegarspotta á um tuttugu kílómetra hraða. Freysi var ekkert sérstaklega gefið fyrir hraða eða hættur. Hann vildi bara sýna okkur hvernig væri hægt að breyta bílum til öryggis fyrir ökumann og farþega.  

Við Þursaborg á Langjökli sýndi hann okkur ferðafélögum sínum aftur hversu góð fjöðrunin var í bílnum. Hann fann góðan stað og lét bílinn stökkva sem nam mannhæð ... Þetta hafði ég aldrei séð, að minnsta kosti ekki til götubíls. 

940906-129

Eftir þessa ferð hitti ég Freysa af og til. Þótti alltaf meira og meira til hans koma. Einhver sagði mér að hann hefði byrjað að ferðast gangandi. Og svo frétti ég af því í gegnum Ingu Jónu Halldórsdóttur, vinkonu mína, að hann hefði kynnst Kristjönu Harðardóttur og þau gifst og eignast tvö börn. 

Í Morgunblaðinu í dag er fjöldi minningargreina um Freysa. Hér er tilvitnun í eina þeirra:

Síðasta daginn sem hann lifði bakaði hann pönnukökur með Steinunni dóttur sinni, fór í flugtúr með Jóni syni sínum og saman fóru þeir feðgar ásamt frændum á mótorhjól. Þeir léku sér, Freyr grillaði pylsur og síðan tóku þeir síðasta hringinn. Freyr leiddi hópinn með þrjá unga menn en þá kom höggið sem aldrei verður bætt. Ungu mennirnir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að koma til hjálpar. 

Minnistæður maður er horfinn á braut. Hér var ekki ætlunin að rita formlega minningargrein heldur langaði mig til að rifja upp nokkrar minningar um Freysa og birta á mínum vettvangi. Harmur eiginkonu, barna og annarra ættingja er mikill. Ég votta þeim samúð mína.


Forysta VG svara ekki grasrót flokksins

Eldmóður Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, er meiri en flestra annara þingmanna hans og eiginlega skömm að því að hann skuli ekki vera þingmaður í fullu starfi.

Hann ritar grein í Morgunblaðinu í morgun og fjallar hann um væringar innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Hann er eins og fleiri eru undrandi á þeim vígum sem þar eiga sér stað. Flokkurinn er margklofinn vegna þess að í upphafi sveik hann eitt mikilvægasta stefnumál sitt, andstöðuna við ESB.

Óli Björn segir eftirfarandi í grein sinni (feitletranir eru mínar): 

Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson væru kallaðir hvolpar, hvað þá »Moggahvolpar«, af samflokksmönnum. Ekki eru mörg ár síðan öllum helstu fréttastofum - ríkisreknum sem einkareknum - hefði þótt það fréttnæmt ef aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins hefði kallað gamla forystumenn flokksins »Þjóðviljarakka«. En nú eru aðrir tímar og sjálfsagt talið að aðstoðarmenn sæki í smiðju forsætisráðherra sem lítur á þingmenn Vinstri-grænna sem »villiketti«.

Þegar andrúmsloftið í herbúðum Vinstri-grænna er með þessum hætti er ekki að undra að fáir hafi séð ástæðu til að koma heim að Hólum, sem er gamalt vígi Jóns Bjarnasonar, til að afgreiða ályktun um að fagna »þeirri umræðu sem nú fer fram um samskipti Íslands og ESB« og um leið hvetja »til að henni verði haldið áfram«. Á flokksráðsfundinum var því endanlegan látið undan hótunum Samfylkingarinnar um stjórnarslit.

Í stað andstöðu við aðild að Evrópusambandinu var framganga rússneskra stjórnvalda »gagnvart aðgerðasinnunum Pussy Riot sem hlotið hafa tveggja ára dóm fyrir friðsamleg mótmæli« fordæmd. Þá var talið nauðsynlegt að lýsa yfir andstöðu við hugmyndir »um lagningu rafmagnssæstrengs milli Íslands og Skotlands«. Í stað þess að berjast gegn ESB-aðild var talið rétt að Vinstri-grænir beiti sér fyrir því að hafin verði endurskoðun hegningarlaga og þá sérstaklega á grein »sem bannar svokallaða smánun á erlendu ríki« sem og grein er bannar guðlast.

Til að sýna þann alvöruþunga sem einkennir allt starf og stefnu Vinstri-grænna var samþykkt ályktun þar sem áréttað er »að jafnan skuli auglýsa stöður hjá hinu opinbera, í samræmi við opna stjórnsýsluhætti og lög«.

Með þessu var ekki verið að gera kaldhæðnislegt grín að formanni flokksins eða forsætisráðherra. Aðeins var verið að gefa þeim kjósendum langt nef, sem trúðu loforðum um opna og gegnsæja stjórnsýslu. 

Já, það er þungi í ályktunum Vinstri grænna. Eflaust mun þó formaðurinn standa upp og segja rámri röddu að þetta sé ekkert að marka því Óli Björn Kárason sé ekki góð heimild um starfsemi flokksins. Að minnsta kosti gerði hann slíkt er Morgunblaðið birti tilvitnun í Vinstrivaktina gegn ESB sem Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins ritstýrir. Ragnar hélt því fram að ályktanir flokksráðsfundar VG á Hólum hafi verið ólöglegar vegna þess hve fáir voru á fundinum. Þetta vakti Mogginn athygli á og fékk þá gusuna frá formanni VG í fréttatímum Ríkisútvarpsins.

Steingrímur J. Sigfússon hefur þann stjórnunarstíl að svara engu gagnrýni á ESB stefnu forystunnar eins og þessi upptalning er gott dæmi um: 

  • Hann víkur ekki einu aukateknu orðið að gagnrýni Ragnars Arnalds, og sýnist þó ærin ástæða til.
  • Hann svarar ekki Hjörleifi Guttormssyni, sem ritað á sama hátt og Ragnar um ESB þjónkun VG.
  • Ekki heldur hefur Steingrímur svarað formanni VG í Skagafirði sem hótar úrsögn úr flokknum verði ekki hætt við aðlögunarviðræðurnar við ESB.
  • Steingrímur virðir að vettugi alla gagnrýni á forystu flokksins og beinast þær þó eingöngu að ESB stefnu forystunnar

Þess í stað sendir hann varaformanninn í ræðustól og fer sá með svívirðingar um samflokksmenn. Hann sendir Björn Val Gíslason, formann þingflokksins, sem skrökvar um gagnrýnendur innan flokksins og loks kaupir hann hlaupastráka sem uppnefna þá sem voga sér að vitna í stefnu flokksins gegn stefnu forystunnar.

Er von nema Vinstri hreyfingin grænt framboð (marxistarnir-lenínistarnir (eða eru það maóistarnir)) sé margklofið. 


Þar Assange ekki að standa fyrir máli sínu?

Um daginn ritaði ég lítinn pistil um Júlíus Assange, forstöðumann Wikileaks, sem hrökklast nú úr einu víginu í annað vegna þess að saksóknari í Svíþjóð vill yfirheyra hann vegna nauðgunarákæru. Lengi vel var Júlíus í Englandi, vildi ekki fara til Svíþjóðar, því hann heldur að þar sé borgurum lakari réttur búinn en í Englandi. Ennfremur trúir hann því að Svíar muni áreiðanlega framselja hann til Bandaríkjanna þar sem hann sætir ákærum vegna njósna.

Ég hafði í pisli mínum áhyggjur af því hversu litla athygli nauðgunarákæran fær í fjölmiðlum og meðal þeirra sem skipuleggja alls kyns uppákomur í þágu fjölbreytilegs málstaðar. Réttur sænsku kvennana er þó ekki talinn merkilegur

Í Morgunblaðinu í morgun ritar sá ágæti blaðamaður Árni Matthíasson enn betri pistil en mér lukkaðist um þetta mál. Árni segir í pistli sínum, og þarf engu hér við að bæta:

Því er þetta rifjað upp hér að það virðist hafa gleymst í fréttum af Assange að hann er sakaður um þvingun, kynferðislegt áreiti, kynferðislega misbeitingu og nauðgun. Víst er hann saklaus þar til sekt hans er sönnuð, en í ljós hefur komið að það er ekki svo langt á milli vinstri- og hægrimanna þegar kynfrelsi kvenna ber á góma. Þannig hafa þekktir vinstrimenn og baráttumenn fyrir málfrelsi og mannréttindum gert lítið úr konunum sem ásökuðu Assange, gefið í skyn að þær hafi verið í vinnu fyrir bandarísku leyniþjónustuna, afbrýði og heift reki þær áfram eða fégræðgi. Svo langt hafa menn gengið í subbuskapnum að vinstrisinnaður breskur þingmaður lét þau orð falla að það væri ekki nauðgun að eiga mök við sofandi konu: ef hún hafi áður verið viljug til ásta þá sé hún búin að gefa aðgang að líkama sínum til frambúðar. Þetta rímar nokkuð vel við orð annars vinstrisinnaðs manns, aðstoðarmanns vinstrimannsins Rafaels Correa sem nú er forseti Ekvador: Það sem Assange er sakaður um er nánast eins og ástarsaga.

Varla þarf að benda á hversu Assange hefur gert starfsemi WikiLeaks mikið ógagn með því að tvinna sína persónu svo saman við WikiLeaks að ekki verður á milli skilið: Ef mér finnst að Assange eigi að standa fyrir máli sínu fyrir rétti í Svíþjóð er ég óvinur WikiLeaks, málfrelsis og lýðréttinda og gott ef ég er ekki á móti öllu því sem gott er og fallegt í heiminum, kornabörn, vorið og sætir hvolpar og kettlingar þar meðtalið. Það er þó skömminni skárra en að vera í stríði við konur.

 


Snæfellsjökull rýrnar og rýrnar

930612-14

Myndin sem Haraldur Sigurðsson, eldjallafræðingur, tók af hæstu þúfunni á Snæfellsjökli er stórkostleg. Ég hef aldrei séð hana svona „nakta“, hef þó margoft gengið á Jökullinn.

Hér er mynd sem raunar er af pistilhöfundi og er tekin um miðjan júní 1993. Þarna má sjá „glugga“ á Þúfunni. Vísbending þess sem koma skyldi.

Í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar var ég oft fararstjóri hjá Útivist í ferðum undir Jökul og við gengum oft upp. Í fyrstu ferðunum gat maður sett á sig gönguskíðin við þjóðveginn og gengið upp. Stundum fékk maður Tryggva Konráðsson, sem þá rak ferðir upp á Jökul undir nafninu Snjófell, til að koma með svigskíðin upp í ferðum sínum á snjótroðaranum. Þá fékk maður dúndurrennsli upp á nærri því tíu kílómetra.

Smám saman styttist þó rennslið. Tryggvi setti upp skíðalyftu undir Þríhyrningi. Lyfturnar komu úr Hveradölum við Hellisheiði. Skíðasvæðið entist ekki lengi því sífellt dró úr ákömu á jökulinn og alltaf hitnaði meira í veðri.

Núna er jökullinn krosssprunginn og erfitt að fara upp á hann nema um miðjan vetur.

Þessi saga af Snæfellsjökli minnir mig á eitt skiptið er ég kom á Grímsfjall í júlí 1991 eftir göngu frá Kverkfjöllum og var ferðinni heitið í Skaftafell. Held að annað hvort hafi verið lítil ákoma á jökulinn eða sumarið einstaklega heitt. Þá var enginn snjór í kringum skála Jöklarannsóknarfélgsins og fundum við ýmsar „minjar“ um leiðangra á fjallið undanfarna áratugi. Jafnvel flöskur undan gosdrykknum Miranda sem ekki hafði verið framleitt í tuttug eða þrjátíu ár og gamlar Pepsíflöskur. Ógetið skal um mannlegan úrgang sem eigendur héldu ábyggilega að væri vel geymdur í jöklinum næstu mannsaldra.  

Ætlaði hér að birta nokkrar myndir af Snæfellsjökli sem ég hef tekið undafarna áratugi en kom bara einni inn, af hverju, veit ég ekki. 


mbl.is Þúfan í jöklinum er íslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðareglur borgarinnar brotnar

Ég er í vinnunni frá 9 til 5 og þegar ég kem heim þá er ég ekki kjörinn fulltrúi.“
 
Þetta sagði Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar í viðtali við Morgunblaðið í byrjun júní á þessu ári. Kenndi nokkurn þótta í þessum orðum hans. Honum þótti fjölmiðlar óþarflega hnýsnir eftir að hann þáði ferð til Parísar á vegum WOW air.
 
Auðvitað gleymdi Einar Örn, viljandi eða óviljandi, þeirri einföldu staðreynd að til eru siðareglur fyrir borgarfulltrúa. Hann tók meira að segja sjálfur þátt í að samþykkja þær. Borgarstjórinn, Jón Kristinsson, sá ekkert að því að Einar léki þarna tveimur skjöldum af því að þeir eru vinir ...
 
Ef til vill hefðum við Reykvíkingar talið að málinu væri þar með lokið. Fjölmiðlar nenntu ekki að eltast við Einar eða Jón. Þó er ég viss um að hefði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins orðið á sömu „mistök“ hefði verið pönkast í honum út yfir gröf og dauða og málið aldrei gleymt.
 
Svo gerist það núna fyrir stuttu, skv. dv.is, að Sverrir Bollason, varamaður Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar, samþykkti í þessari nefnd að láta kanna þörf á gistirými í borginni fram til ársins 2030. Verkfræðistofan VSÓ-ráðgjöf var valin til þessa verks en Sverrir þessi er starfsmaður hennar.
 
Þetta heitir að sitja beggja vegna borðsins. Sverrir nánast pantaði að fá að vinna verkefnið, fékk það samþykkt í nefndinni og fékk síðan óbeint laun fyrir að vinna skýrsluna frá borginni. 
 
Nú geri ég fastlega ráð fyrir að stjórnendur VSÓ viti af pólitískum störfum Sverris Bollasonar. Með því að hleypa honum að skýrslugerð um gistirými er fyrirtækið komið á bólakaf í meinta pólitíska misbeitingum valds. Það gengur alls ekki og bendir eindregið til að þessu virðulega fyrirtæki hafi orðið á gríðarleg mistök. 
 
Um leið sýndi Sverrir Bollason af sér mikla pólitíska heimsku að halda það að hann gæti komist upp með að standa beggja vegna borðsins. Þegar hann hafði samþykkt verkefnið hefði hann átt að tilkynna yfirmönnum sínum að hann gæti ekki komið að verkefninu. Það gerði hann ekki. Né heldur höfðu yfirmenn hans skilning á stöðu fyrirtækisins gagnvart borginni og Samfylkingunni. Sá dómgreindarbrestur er yfirgengilegur.
 
Heimskuleg viðbrögð Einars Arnar Benediktssonar og skynsemisskortur Sverris Bollasonar sýna svo ekki verður um villtst að þeir eru ekki hæfir sem fulltrúar almennings í borgarstjórn og nefndum. Þeir eiga báðir að segja af sér. Svo má í góðu tómi kanna hvort að samflokksmenn þessara tveggja hafi ekki vitað af brotum þeirra á siðareglum borgarinnar en látið sér það í léttu rúmi liggja. 
 
Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Reykjavíkurborgar. [úr 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg]
 
Kjörnir fulltrúar nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir
Reykjavíkurborg lýkur. [úr 4. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg]

Harpan styrkt um 3 millur á dag

Ástæða er til að vekja athygli á stuttorðum pistli Vefþjóðviljans um þann undarlegan rekstur sem er í húsi því sem nefnist Harpan.

Í morgun var því slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins að helmingur tekna útrásarhallarinnar fari í gjöld til Reykjavíkurborgar. 

Harpan fær um 3 milljónir á dag í styrk frá skattgreiðendum. Það virðist hafa farið framhjá stjórnarformanninum og einnig Fréttablaðinu.

Pétur J. Eiríksson stjórnarformaður eignarhaldsfélags Hörpunnar segir:

Við ráðum ekki við þetta. Við erum með tvær milljónir króna í tekjur á dag og borgum eina milljón í fasteignagjöld á dag. Enginn rekstur á Íslandi ræður við þetta.

Er það virkilega?

Hvað með þessar þrjár milljónir sem Harpan fær daglega í styrk frá skattgreiðendum?

Hvernig getur dagblað látið nota sig svona?

Hvernig er hægt vera fjölmiðilll og vita ekki að auk annarra rekstrartekna fær útrásarhöllin þúsund milljónir á ári frá ríki og borg? 

Á meðan vantar fjármagn til að kaupa tæki í sjúkrastofnanir svo aðeins eitt dæmi sé tekið.

Ég spái því að niðurstaða viðræðna Jón Kristinssonar og Katrína Jakobsdóttur, menningarmálaráðherra, verði sú að leiga Symfóníuhljómsveitarinnar verði hækkuð sem nemur fasteignagjöldunum og allir una eftir það glaðir við sitt. Nema kannski starfsfólk Landspítalans-háskólasjúkrahúss ...

 


Enn er sumar, langt í haustið

Í fyrirsögn fréttarinnar felst dálítil alhæfing. Norðurland er stórt og eiginlega ekki sama hvar borið er niður hvað veðurlag varðar, svo ólíkir eru staðirnir. Og jafnvel þó snjói í fjöll, þýðir það ekki að haustið sé komið.

Raunar leiðist mér afskaplega haustáróðurinn í fjölmiðlum þegar komið er fram í ágúst. Vissulega er haustið á næsta leyti, það vita allir og engin þörf á áminningum. Hitt gera færri og færri sér grein fyrir að veðurlag á landinu er óvíst, allan ársins hring. Á miðju sumri getur snjóað eins og dæmin sanna. Þá er vissulega „haustlegt“ um að litast.

Svo rammt hvað nú að haustáróðrinum í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum að almennum lesendum blöskraði og töluðu um að nú haustaði snemma það vorið. Eða ef til vill var þetta orðalag um eitthvað allt annað.

Ég ólst nú upp við að september tilheyrði sumrinu og þannig er það enn í huga mínum. Fyrir þá sem unna gönguferðum og ferðalögum er margt hægt að gera, raunar fram eftir öllu hausti. Kíkið bara á ferðaáætlanir ferðafélaganna. 


mbl.is Haustlegt um að litast norðanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver að kúka ...

Nei, nei, nei. Gunnar og Fannar „minn“ mega ekki hætta. Það er ósanngjarnt. Fimm leikir eftir í Pepsí deildinni og þessir prúðu drengir hættir. Hvernig á maður að átta sig á stöðunni þegar þeir eru farnir. Og hvað verður um sixpensarann ...?

Véfrétt, einhver að kúka ... þetta verður aldrei toppað. 


mbl.is Gunnar kveður völlinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er VG margklofinn flokkur?

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hélt tvo flokksráðsfundi um helgina. Annar þeirra var haldin á Hólum í Hjaltadal.  Þann fund sat ég. [...]
Ég veit ekki hvar hinn fundurinn var haldinn en af honum eru sagðar þær fréttir að þar hafi komið fram stigvaxandi óánægja með flokksmanna sem gæti jafnvel leitt til stjórnarslita. Engar slíkar ályktanir hafa enn birst frá þessum fundi mér vitanlega.
 
Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vinstri grænna  ritar ofangreint á bloggið sitt og skilur ekkert í að fylgið við flokk hans skuli minnka og fyrrum flokkmenn og núverandi gagnrýni hann og aðra í forystumenn flokksins. Á Hólum samþykkti flokksráðið allt með sovéskri fyrirmynd. allir klöppuðu fyrir forystunni. Flokkurinn ítrekaði meira segja andstöðu sína við stefnu ríkistjórnarinnar í ESB málinu.
 
Í síðustu þingkosningum fékk VG 14 þingmenn. Af þeim mættu þessir ekki á flokksráðsfundinn á Hólum. 
  • Jón Bjarnason, þingmaður VG.
  • Atli Gíslason ... úbbs hann er farinn úr flokknum
  • Lilja Mósesdóttir ... úbbs, hún er farin úr flokknum
  • Ásmundur Daðason ... úbbs, hann er farinn úr flokknum
  • Þráinn Bertelsson, nei hvað gerðist, hann er kominn í flokkinn en var ekki í skapi til að mæta á flokksráðsfundinn
Þingstyrkur Vinstri grænna er nú 11 þingmenn, væri 10 ef Þráinn hefði einhverja samstarfshæfileika í stjórnmálum, þá væri hann enn í Borgarahreyfingunni.
 
Hvernig skyldi nú standa á klofningi í Vinstri grænum? 
 
Þrír þingmenn eru farnir úr VG og að minnsta kosti einn er kominn á hliðarlínuna. Þetta ber auðvitað því glöggt vitni hvernig samstarfið er innan flokksins að þeir sem hafa hrökklast í burtu séu nærri -því jafnmargir og þingmennirnir sem flokkurinn fékk í kosningunum 2003, þeir voru fimm.
 
Nei, engar ályktanir hafa komið frá hinum fundinum sem Björn Valur segir frá. Hann gleymir þó að minnast á Vinstrivaktina gegn ESB, sem Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins heldur út af miklum dugnaði og gagnrýnir aðlögunarviðræðurnar harðlega. 
 
Björn Valur nefnir ekki einu sinni Hjörleif Guttormsson á nafn, var hann þó þingmaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið, en hann hefur gagnrýnt harðlega svik flokksforystu Vinstri grænna vegna aðlögunarviðræðnanna við ESB.
 
Allt þetta myndi mér í léttu rúmi liggja ef ekki væri vegna þess að VG og Samfylkingin hafa fyrir hönd íslensku þjóðarinnar beinlínis logið því að Brusselvaldinu að Íslendingar vilji ganga í ESB.
 

mbl.is Bjarni og Jón mættu ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskuleg ummæli Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur

Ein furðulegasta grein sem ég las um helgina fann ég í Fréttablaðinu. Þar ritar Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, háskólalektor.

Forsaga málsins skiptir eiginlega litlu, en þó má geta þess að Sigurbjörg þessi telur sig vera að svara gagnrýni Ólafs Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, sem vísar í fyrri orð Sigurbjargar um fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

Í lok greinar sinnar verður Sigurbjörgu þetta að orði:

Að því tilefni tel ég rétt að gera grein fyrir því að störf háskólakennarans sem hér skrifar eru fjármögnuð af almannafé, úr ríkissjóði. Í máli hans felst gagnrýni á stjórnvöld úr hvers sjóðum hann þiggur sín laun. Störf ritstjórans sem tekur til varnar fyrir fulltrúa stjórnvalda eru fjármögnuð af aðilum á markaði. Það út af fyrir sig er umhugsunarvert.

Þetta eru dálítið ruglingsleg samsetning og að auki illa skrifuð. Hins vegar kemst maður ekki hjá því að reyna að grísa á merkinguna og hvað það er sem sé „umhugsunarvert“.

Ég skil ofangreint á þann hátt að Sigurbjörg telji að nafn launagreiðanda skipti öllu máli um trúverðugleika málflytjanda. Þiggi hann laun frá ríkinu ætti allt að vera í lagi. Hins vegar þurfi að skoða vandlega hver sé launagreiðandinn áður en hægt er að skera úr um hversu vel er hægt að trúa þeim sem orðið hefur.

Þessi orð konunnar eru heimskuleg. Tómt bull. Munum að hlusta á röksemdafærslu fólks. Látum rökin tala, ekki útlit, starf eða fyrri störf.

Pólitísk umræða í dag hefur verið gengisfelld af fólki eins og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, sem hlustar ekki heldur tekur afstöðu vegna útlits, starfs eða annara hluta sem engu skipir. Þetta er þvílík fjarstæða að ekki tekur nokkru tali.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband