Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Tvær eyjar í Breiðafirði

820800-48

Sagt er að eyjarnar á Breiðafirði séu óteljandi. Bergsveinn Skúlason færir rök fyrr því í bók sinni Hrannarek að eyjarnar séu milli og 2850 og 3000, allt eftir því hvað skuli telja með, hærra verði þó ekki komist. Hins vegar er ekki sama við hvað er miðað enda skipta Breiðfirðingar eyjunum samkvæmt gamalli venju í nokkra flokka eftir stærð:  Eyjar, hólma, flögur, kletta og sker.

Um daginn var ég einu sinni sem oftar að skanna inn gamlar myndir, af þeim á ég aragrúa. Kom þar að myndir sem ég hafði tekið í flugferð sem ég fór í um mitt sumar 1982. Við flugum frá Reykjavík og beinustu leið til Stykkishólms, flögruðum yfir bænum og síðan um Breiðafjarðareyjar.

820800-79 b

Afskaplega skemmtileg flugferð en það skemmdi dálítið fyrir að ég hafði keypt „tungsten“ slides í stað Ektachrome eða Kodak slides. Það olli því að yfir myndunum var dálítill blámi enda var slík filma síður gerð til notkunar utan dyra þó fullkomin væri. Eftir að hafa skannað myndirnar gat ég náð réttum lit og hér eru nokkrar.

Efsta myndin er af Elliðaey. Mér finnst hún komast næst því að vera fallegust eyja á Breiðafirði. Hún er skeifulaga, horfir móti suðri. Í fjarska sér til Bjarnarhafnarfjalls.

Næsta mynd er af Fagurey sem tengist harla sterkt uppruna mínum. Hana áttu áar mínir í nokkra ættliði. Eyjan er flöt og frekar lítið skjól þar en kosturinn við hana er að þar er að finna gott vatn og því var þar um hundruði ára búskapur. Í Elliðaey var til dæmis frekar lélegur brunnur. Sturla Þórðarson, sagnaritari, bjó í Fagurey síðustu æviár sín, en hann dó 1284, nokkru fyrir mína tíð.

Skúli Skúlason á Suma#66258

Afi minn, Skúli Skúlason, byggði eitt sinn lítinn kofa við lendinguna í Fagurey og setti í hana lítinn glugga og rúðu. Kofinn var síðan nefndur glerhöllin. 

Skammt fyrir utan eyjuna er lítið sker sem heitir Pjattland. Undarlegt nafn. Ekki kann ég neina sögu um það annað en að afi minn mun hafa gefið Skúla heitnum bróður mínum það og var hann alla tíð afskaplega ánægður með fasteignina og skemmti oft sér og öðrum með sögum af henni.

Skúli afi minn var mjög gjafmildur maður. Hann gaf til dæmis Soffíu systur minni afmælisdaginn sinn. Í æsku minni gumaði hún oft af því að eiga tvo afmælisdaga. Öfundaði ég hana óskaplega mikið af þessu en ekki lengur. Nú er hefndinn sæt. Að minnsta kosti finnst henni það ekkert skemmtilegt þegar ég tvöfalda aldur hennar. Er það að minnsta kosti árviss viðburður er ég óska henni til hamingju með afmælið að ég bæti því jafnan við að hún líti út fyrir að vera miklu yngri. Í ár var tvöfaldur aldur hennar 132 ár ... (ha, ha, ha ...).

Þriðja myndin var tekin einhvern tímann um 1940 og er af Skúla Skúlasyni, afa mínum, á báti hans Sumarliða. Hann stendur í skutnum. Mér skilst að báturinn sé með breiðfirska laginu, súgbyrðingur, og er hið bogna stefni helsta einkenni þess.

 

 


Galdrar sólarljóss og lands

900704-180Ekki borgar sig að horfa mikið til himins, maður fær bara ríg í hálsinn, sagði maðurinn. Blessunarlega hef ég verið laus við ríginn en gónt hef ég mikið til himins og stundum verið svo heppinn að vera með myndavél nærri.

Sól rís og sól sest. Báðir atburðir skapa oft stórkostlega sýningu fyrir þá sem augun hafa opin, nenna að vaka.

Hér eru nokkrar eftirminnilega myndir af skýjafari teknar af stöðum sem ég hef dvalið á í lengri eða skemmri tíma og þykir afar vænt um. Óvíða hef ég séð jafn tilkomumiklar skýjamyndanir kvölds og morgna en við Húnaflóa. Bjó í nokkur ár á Blönduósi og Skagaströnd og varð því óhjákvæmilega vitni að þessum himinskautasýningum.

AAA007

Þegar ég nefndi þetta við Húnvetninga sögðu þeir jafnan lítið, þetta væri bara svona og ekkert merkilegt við það. Ekki laust við að maður væri litinn dálitlu hornauga fyrir að nenna að brydda upp á þessu við kaffiborðið, hvað þá að nenna að ösla út og taka myndir.

Fyrsta myndin er tekin í Hornvík á Hornströndum í byrjun júli 1990, líklega eftir miðnætti. Sólin var horfin undir sjóndeildarhring en vindar í háloftunum mótuðu þessa fígúru. Minnir að um þessar mundir hafi verið Evrópumót eða heimsmeistaramót í fótbolta. Þó fannst mér þetta gæti sómt sér vel sem lógó fyrir handboltakeppni. Nokkrum andartökum síðar var þetta horfið og hefur ekki sést síðan.

DSCN3994

Næsta mynd er tekin við Höfn í Hornafirði dag einn í september 2002. Þá skall á hávaðastormur, af norðaustri minnir mig. Svo virðist sem skýin bókstaflega freyði um fjöllin austan fjarðarins og þau hverfa hreinlega í einhverri rjómaleginni jafnaðarmennsku.

Þetta er þó ekki algeng sjón á þessum slóðum. Yfirleitt er veðráttan mjög góð á Höfn, miklu betri en í Reykjavík, og hvergi í veröldinni fegurri fjallasýn eins og allir vita sem þangað hafa komið. Stókostlegir jöklar og einstaklega tilkomumikil fjöll.

Víkjum næst til Ísafjarðar. Þar gekk ég einu sinni sem oftar upp í Naustahvilft, skálina sem er í fjallinu handan Skutulsfjarðar og heitir Kirkjubólsfjall, held ég. Myndin er tekin í september 2005 og sólin var að setjast bak við Breiðdalsheiði.

P0003333

Fjallið fyrir miðri mynd er Kubbur og háttar svo til að hann varpar skugga sínum til vinstri á myndina. Vegna þess að fjallið er tiltölulega slétt að ofan verður skugginn nær láréttur, myndar eiginlega strik frá sólu.

Það sem var eiginlega merkilegast kemur ekki fram á myndinni. Þegar þetta gerðist tók að rigna lítilsháttar á Kirkjubólshlíðina og örskömmu síðar hefur hitastigið lækkað því rigningin breyttist í svo undurfagra snjókomu. Þessi atburður var algjörlega ógleymanlegur

Ég á þetta á hreyfimynd og birti kannski einhvern tímann.

Þá er röðin komin að Húnaflóanum. Fjórða myndin er tekin út um glugga á þáverandi vinnustað mínum við Þverbraut og er horft í suðvestur.

P0002762

Sólin var að setjast um miðjan janúar 2001 og þá blasti við þessi undarlegi skýjasveipur sem er ekki í sjálfu sér svo ólíkur þeim á fyrstu myndinni, það er „lógóinu“ úr Hornvík. Því miður þolir myndin ekki mikla stækku. Hef líklega ekki gefið mér tíma til að festa myndavélina, myndin er örlítið úr fókus en falleg er hún.

Á fimmtu myndinni sem tekin er um 16. ágúst 2001 er eins og mikill eldur logi nyrst á Ströndum. Horft er í norðvestur frá Blönduósi til Strandafjalla. Sólin er sest og hefur nær bókstaflega kveikt í himninum. Takið eftir þessum tveimur litum, þeim gula og rauða og hvernig þeir blandast saman á óaðfinnanlegan hátt. Myndin er tekin með dálitlum aðdrætti.

P0002840

Sjötta myndin er tekin skammt sunnan við Blönduós 27. ágúst 2001 og enn er horft í norðvestur til Strandafjalla á sólarlagið. Þarna er skýjafarið með allt öðru móti. Skýjabylgjur stefna líklega frá vestri til austurs svo úr verða hallandi strik séð frá þeim stað er myndin var tekin.

Litirnir eru hinir sömu og á fyrri myndinni. Sá guli er hér dálítið fyrirferðarmeir. Sá rauði minni en nær að speglast í haffletinum. Ofar er dökkblár og svartur himinn.

Myndin er tekin með frekar litlum aðdrætti sem glögglega má sjá ef hún er borin saman við þá fyrri.

P0005609

Á sjöundu myndinni sem tekin er í byrjun október 2002 eru geislar sólarinnar ótrúlega beinir geislar, hvítir og jafnvel svartir. Enn er hún ekki sjáanleg.

Sólin er enn handan Strandafjalla og skín á milli fjalla og fjallaskarða. Fyrir vikið virðast sólstafirnir vera beinir. Geislar eru auðvitað ekki svartir, heldur skín sólin sitt hvorum megin við eitthvert fjallið og skuggi myndast á milli.

Fremst á myndinni miðri er Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi í byggingu, afar áhugavert og fræðandi safn. Hægra megin er hvítt hús, gamli kvennaskólinn. Enn tala eldri Blönduósingar um hann með glampa í augum. Þangað sótti ég konuna mína, segja karlarnir, og konurnar þurrka tár af hvörmum við tilhugsunina um þá góðu og gömlu daga.

P0005703

Síðasta myndin er tekin á Blönduósi í lok nóvember 2002 og er enn horft á sólarupprásina í norðvestri. Þvílíkt skýjafar hef ég eiginlega aldrei á æfi minni séð og samspil þess og geisla rísandi sólar er alveg stórkostlegt.

Jæja, þetta urðu nú eiginlega fleiri myndir heldur en ég ætlaði mér að sína og of mikill texti. Læt þetta nú samt fara í þeirri von að einhver geti haft gaman af. Best að taka það fram að ekkert hefur verið átt við myndirnar í Photoshop eða með öðrum forritum. 

 

 


Kristján Möller situr í stjórn Vaðlaheiðaganga

Í Vefþjóðviljanum, því ágæta málgagni, stendur:

Alþingi samþykkti í síðustu viku lög sem heimila fjármálaráðherra að „undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf. um lán til gangaframkvæmda fyrir allt að 8.700 milljónir króna, miðað við verðlag í lok árs 2011.“

Þingmaður og stjórnarmaður. Kristján Möller alþingismaður greiddi atkvæði með fjárgreiðslu til einkahlutafélags þar sem hann situr í stjórn.

Vaðlaheiðargöng ehf. eru ekki ríkisstofnun heldur einkahlutafélag, sem er í tæplega helmingseigu einkaaðila.

Meðal stjórnarmanna í einkahlutafélaginu er Kristján Möller.

Meðal þeirra þingmanna, sem greiddu atkvæði með lögunum sem heimila um níu milljarða lánsgreiðslu til einkahlutafélagsins, er Kristján Möller.

Aðeins ein regla gildir um vanhæfi alþingismanna. Hún er í 71. grein laga um þingsköp alþingis þar sem segir skýrt: „Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.“

Kristján Möller alþingismaður greiddi atkvæði með geysilegri fjárgreiðslu, í formi láns, til einkahlutafélags þar sem Kristján Möller situr í stjórn.

Það er ekki það sama og greiða atkvæði með fjárveitingu „til sjálfs sín“, en það er ekki langt frá því. Má þingmaður, sem ekki má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín, greiða atkvæði með fjárgreiðslu til einkahlutafélags þar sem hann situr í stjórn? 

Ætli íslenskir fjölmiðlar hafi áhuga á að fjalla um hvort þetta sé eðlilegt? 

Þá byrja þeir kannski á að tala við Ríkisendurskoðun. Spyrja eftir Sveini Arasyni. 

Hvað skyldi fréttastofa Ríkisútvarpsins hafa gert ef svo ólíklega hefði viljað til að þingmaður hægri stjórnar væri í sporum Kristjáns Möllers. Þá væru fréttamennirnir áreiðanlega fullir vandlætingar og allar fréttir og fréttatengdir þættir undirlagðir málinu.


Fasismi til stuðnings lýðræðinu?

Framkvæmdavaldið telur sig mega stjórna löggjafarvaldinu. Þó virðist sem að forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hafi aðrar skoðanir á því og telji þingið einfaldlega óháð ríkisstjórninni, stjórnarliðum til mikillar undrunar.

Vandinn er sá að ríkisstjórnin og margir stuðningsmenn hennar bera sáralitla virðingu fyrir þessari elstu stofnun þjóðarinnar. Halda því blákalt fram að hún sé einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir meirihlutann. Um það þurfi ekki að ræða neitt frekar, hvorki að hálfi meirihluta né minnihluta. Þessu fólki er tíðrætt um málþóf og skemmdarverk á starfi ríkisstjórnarinnar. En er það svo?

Hvað gerir sá þingmaður sem er á móti tilteknum málum? Jú, hann greiðir atkvæði og leikar geta farið svo að hann verði í minnihluta. Þannig er það og það er hið lýðræðislega form á þinginu. Þar með er ekki öll sagan sögð. Mál hafa mismikla þýðingu fyrir þjóðfélagið og sum skipta lýðræðið stundum meira máli önnur. Afgreiðsla breytinga á stjórnarskrá er önnur en almennra frumvarpa. Sum frumvörp ber ríkisstjórn að leggja fram, t.d. frumvarp til fjárlaga.

Það segir síðan sjálft að þingmenn taka með misjöfnum hætti á þingmálum. Sannfæring manna skiptir hér miklu máli. Þegar réttlætiskennd þingsmanna er ofboðið hljóta þeir að standa upp og vilja ræða málin. Við því er ekkert að gera. Veiðileyfagjaldið er umdeilt og varla nema eðlilegt að menn vilji ræða það út í hörgul enda mun það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar á atvinnulíf víðast hvar um landið, breytingar á útgerð og jafnvel gjaldþrot. Um leið verða miklar breytingar, tímabundið eða langvarandi atvinnuleysi á fjölmörgum stöðum meðan jafnvægi er að komast aftur á. Við þetta er ekki búandi og þess vegna er ástæða til að ræða veiðileyfagjaldið út í hörgul.

En svo sannfærðir eru stjórnarliðar um ágæti málsins að þeir telja sig ekki þurfa að ræða það jafnvel þó svo að þeir hafi ekki séð það fyrr en um sumarbyrjun. Mikið má vera hið barnslega traust þeirra gagnvart ríkisstjórninni. Og nú er svo komið að stjórnarliðar sem ekki nenna að vinna vinnuna sína lengur vilja skrúfa fyrir umræður um veiðileyfagjaldið á Alþingi af því að þær eru svo óþægilegar. Sumir hafa þegar komið sér í frí til útlanda og sett inn varamenn í sinn stað.

Svo mikill er Tungufossinn í rökfærslu sinni að nú telst fasismi vera til stuðnings lýðræðinu.


mbl.is Vill ekki þingfundi í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örnefni segja fátt um mikilfengleik landslags

Örnefni á hálendi Íslands eiga líklega flest uppruna sinn hjá fjárleitarmönnum, einmitt af því að fáir aðrir lögðu leið sína þangað. Það er athyglisvert hversu fá örnefni fjárleitarmenn af Jökuldal hafa skilið eftir sig eftir sínar mörgu ferðir öldum saman. Naumast hefðu þeir gert það ef þeim hefði fundist þeir mæta þar „fjölmörgum náttúruundrum, sérstöku landslagi og nafnlausum fossum í hæsta fegurðarflokki“. Slíkir fossar hefðu varla verið lengi nafnlausir hjá leitarmönnum 
Getur verið að nafnfátækt staða á virkjunarsvæði Jökulsár á Brú stafi af því að leitarmönnum hafi þótt þar færra athyglisvert en leitarmönnum annars staðar á landinu á sínum leitarsvæðum?
 
Þannig ritar Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, í Morgunblaðinu í morgun. Hann hefur verið iðinn rökfastur málsvari virkjana og hatrammur andstæðingur náttúruverndar undanfarin ár. Fyrirsögn greinar hans er : „Hafa fjárleitir ekkert með menningu að gera“.
 
Við grein Jakobs er hægt að gera fjölmargar athugasemdir. Hann hefur rétt fyrir sér að örnefni á hálendinu eiga líklega flest uppruna sinn hjá fjárleitarmönnum. Þetta er rétt svo langt sem það nær en þar með er ekki öll sagan sögð og tilgáta Jakobs varla boðleg í rökræðu um náttúruundur og fegurð í landslagi. Hún er allt of gloppótt eins og ég kem að hér á eftir.
 
Tímarnir hafa breyst og viðhorfin eru önnur. Nú fer fólk fyrst og fremst á hálendið vegna áhuga á náttúru, líkamsrækt og öðrum álíka ástæðum. Ég er hluti af þessu fólki og það hefur vakið óskipta athygli mína í flestum ferðum mínum hversu fá örnefni eru á hálendinu og raunar víðar. Fyrir vikið hefur góðu fólki dottið í hug að setja nöfn víða. Við því er ekkert að segja og ætti bara að taka með fögnuðu en það er allt annað mál.
 
Eitt af þekktri dæmum er Ýmir og Ýma í Tindfjallajökli sem mig minnir að Jón Eyþórsson, veðurfræðingur hafi átt mestan þátt í. Skyldu fjárleitarmenn fyrri tíma hafa fundist þessir tindar eitthvað ómerkilegir? Áttu fjárleitarmenn einhvern þátt í að Goðasteinn í Eyjafjallajökli fékk nafn sitt eða var hann svo tilkomumikill vegna fegurðar?
 
Á Tindfjallajökli eru Ýmir og Ýma hrikalegir tilsýndar en þeir báru ekkert nafn. Á Eyjafjallajökli virðist vera lítil þúfa sem frá örófi alda hefur borið nafn. Goðasteinn virkar ekkert merkilegur tilsýndar en fékk þó sitt nafn.
 
Allt er vænt sem vel er grænt, var sagt forðum daga. Annað skipti víst litlu máli en að geta fóðrað sauðfé. Á því byggðist tilvera manna. Lesum bókina Þórsmörk eftir Þórð Tómasson á Skógum. Hún er afskaplega merkilegt og gott rit en fyrst og fremst óður til fornra tíma fjárbænda sem fóru með sauðfé sitt á vorin í Þórsmörk og Goðaland og sótti á haustin. Þar fara saman örnefni sem tengjast atvinnustarfseminni, sauðfjárrækt, og einnig nöfn á merkilegum náttúruminjum.
 
Hver skyldi ástæðan vera? Jú, aðkoman á þessar slóðir var tiltölulega auðveld. Þórsmörk er ekki nema í kringum tvö hundruð metra hæð yfir sjávarmáli. Það er allt annað en til dæmis við Kárahnúka sem er í fimm til sex hundruð metra hæð. Það segir sig sjálft að ferðir og dvöl manna hátt á hálendinu verða færri og styttri en þar sem lægra er.
 
Berum svo saman örnefni milli einstakra svæða á landinu. Ef af handahófi við tökum svæðið suðaustan við Skjaldbreið sem er í um fjögur hundruð og fimmtíu metra hæð og hærra. Þar er landslag mikið og fjöldi örnefna, virðast vera margfalt meiri en við Kárahnúka. Líklega er að þarna hafi verið fjölfarnara en á síðar nefnda staðnum. Í því er leyndardómurinn fólginn ef svo má orða það. Fjöldi örnefna tengist helst því hversu mikil umferð hefur verið um svæðið í gegnum aldirnar. Fólk þurfti að rata og því urðu örnefni til.
 
Síðan er það allt annað mál að einstök örnefni hafa aldrei verið varanlegur þáttur í sögu þjóðarinnar. Alltaf gleymast örnefni, þeir sem gáfu þeim nafn hverfa á vit feðra sinna og aðrir koma með ný nöfn á staði sem þeir vissu engin fyrir. Jafnvel eru fjölmörg dæmi um að sami staðurinn hafi fengið tvö nöfn. Jökuldalur og Nýdalur eru dæmi um slíkt. 
 
Niðurstaða mín er því að röksemdafærsla Jakobs Björnssonar um að örnefnafátt við Kárahnúka bendi til þess að landslag þar sem á einhvern hátt tilkomuminna en margir hafa látið í veðri vaka stenst ekki. Örnefni eru geta hvorki verið rök með eða á móti málstað Jakobs. Eru eiginlega rökleysa.

Marðardýr eða mörður

mbl.is segir: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók í morgun marðardýr af fólki sem kom með það til landsins nýverið. 

Ríkisfjölmiðillinn segir: Marðardýr slapp inn í landið með farþega sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar á þriðjudag. 

Velt því fyrir mér hvers vegna þessir fjölmiðlar þurfi að hnýta orðinu „dýr“ aftan við mörður. Í samhenginu er þó frekar ljóst að ekki er verið að segja þingfréttir. 

 


mbl.is Lögregla gómaði mörðinn í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirfram eða eftirá áhyggjur ...

Ástandið á evrusvæðinu var rætt í þingsölum í gær. Það mátti ekki seinna vera. Þann sama dag bárust fréttir um að forsætisráðherra Spánar hefði kallað til neyðarfundar í ríkisstjórn sinni vegna þess að vaxtakostnaður ríkislána hafði stokkið yfir 7% eftir að tilkynnt var um 100 milljarða neyðarlán til landsins. Vonast hafði verið til að lántökukostnaðar spænska ríkisins myndi lækka við ofurlánið. Í fyrradag sagði María Fektar, fjármálaráðherra Austurríkis, hættu vera á því að Ítalía þyrfti brátt að kalla eftir neyðaraðstoð fyrir sig. Í Róm brást Marío Monti við með því að segja að óviðeigandi væri að ráðherra í einu evruríki talaði svo um annað! Um sama leyti bárust fréttir um að smásöluverslun í Hollandi hefði hrunið um 11 prósent í apríl, en slíkt fall er nánast óþekkt.
 
Það var því ekki að undra þótt alþingismaðurinn Illugi Gunnarsson leitaði eftir viðhorfum ríkisstjórnar, sem segist vera í fullri alvöru að sækjast eftir aðild að ESB og evru einmitt núna. Jóhanna Sigurðardóttir varð fyrir svörum og brást ekki fremur en fyrri daginn. Eftir henni var höfð þessi setning: »Ástæðulaust að hafa áhyggjur fyrirfram af stöðunni.«
 
Þetta er merkileg yfirlýsing ekki síst vegna þess að hingað til hefur verið talið að áhyggjur sé einvörðungu hægt að hafa fyrirfram. Orðið sjálft vísar beinlínis til framtíðarinnar. Vissulega er einnig fróðlegt að grafa mátti upp einn stjórnmálamann á öllu samlagssvæði ESB sem ekki hefur neinar áhyggjur af stöðu evrunnar. Þótt sú frétt kunni að vekja furðu er ekki (fyrirfram) líklegt að hún skapi ró í álfunni. [Morgunblaði, leiðari, 15. júní 2012]
 
Hvað segir þetta eiginlega um forsætisráðherra þjóðarinnar? Er svona svar henni boðlegt eða það sem meiru skipti, er það embættinu boðlegt?

Handvöm við tollgæslu á Seyðisfirði

Er tollskoðun á Seyðisfirði aðeins til málamynda? Sá sem ætlar að smygla einhverju til landsins á þess kost að fara aftur um borð með smyglvarninginn og labba síðan óáreittur út um bíladyr Norrænu og koma honum síðan á samferðamenn sína.

Eru stjórnvöld ekki að vinna vinnuna sína þarna fyrir austan? Má búast við því að næst verði farið með gíraffa út um bíladyr Norrænu og tollverðir og lögreglumenn sjá aðeins það sem þeir vilja sjá?

Grínlaust, lekur allt inn í landið sem fólk úr Norrænu vill flytja með sér? 


mbl.is Marðardýri smyglað til landsins með Norrænu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar vindgreipin varð að golugreip

920430-274 - Version 2

Fyrir um tuttugu árum gengum við fjórir félagar frá Goðahnúkum í norðausturhluta Vatnajökuls og suðvestur í Öræfajökul og þar niður. Þessi ferð rifjaðist upp fyrir mér um daginn er ég skannaði inn á tölvuna mína þrjú hundruð og sextíu myndir úr ferðinni.

Meðferðis höfðum við sérhannað segl sem er ákaflega líkt fallhlíf en var ætlað til þess að láta vindinn draga sig á skíðum. Í orðfátt þess tíma var seglið kallað „fjallhíf“ og skýringin var sú að með þessu segli mátti nota byr til að komast upp á fjöll. Mér þótti orðið hins vegar kauðslegt og þar sem enginn vildi kalla þetta segl kom ég með hið fagra nýyrði „vindgreip“. Náði það strax miklum vinsældum meðal okkar fjögurra og engra utan þeirra.

920430-275 - Version 2

Jæja, víkur nú sögunni að ferðinni. Við voru komnir úr skála Jöklarannsóknarfélagsins í Esjufjöllum og runnum sem leið lá sunnan undir Mávabjörgum og stefndum á Öræfajökul. Brá svo við að austlægur vindurinn tók að blása allhressilega. Við drógum því upp okkar ágætu vindgreipar upp og hugðumst nýta okkur byrinn.

Til að byrja með komumst við líklega tvo kílómetra en þá lægði og loks datt á dúnalogn. Við vildum ekki trúa því og stóðum því albúnir að grípa vindinn sem hugsanlega myndi bjóðast. Biðin var löng og einn félaga minna gleymdi sér eitt augnablik, var líklega að fá sér kaffi í rólegheitunum, er vindsveipur hirti greipina og einn skíðastaf sem hann hafði brugðið í böndin úr henni.

920430-276 - Version 2

Þó vindurinn væri ekki mikill dugði stafurinn til þess að opna hana og okkur til mikillar skelfingar sigldi þetta fyrirbrigði þannig niður Breiðamerkurjökul. Félagi minn (vil ógjarnan nefna nafn hans því enn skammast hann sín fyrir atvikið) gafst fljótlega upp á að eltast við vindgreipina. Ég hljóp auðvitað af stað og fram úr honum Óla (... jæja, þarna kom nafnið - alveg óvart!) og var nærri búinn að ná henni er aðeins bætti í vindinn, nóg til þess að ég þurfti að lúta í lægra haldi. Hvarf svo vindgreipin sjónum okkar og sáum við hana aldrei aftur.

Ég gekk nú til baka og saman réðum við ráðum okkar. Við höfðum varaskíðastaf svo engin vandræði hlutust af tapi þess sem ferðaðist með vindgreipinni.

920430-311 - Version 2

Gengum við svo upp á Öræfajökul. Um það bil tveimur klukkustundum síðar var ég orðinn gjörsamlega kraftlaus, skildi ekkert í að félagar mínir voru enn í fullu fjöri. Það var ekki fyrr en liðið var á kvöld og við búnir að tjalda að við áttuðum okkur á því að ég hafði líklega gengið fjórum kílómetrum lengra en allir hinir í eltingaleiknum við vindgreipina og eytt dýrmætri orku sem hinir áttu enn til góða.

Að lokum má geta þess að fyrst vindgreipin stóð ekki undir nafni og iðulega þurftum við að bíða eftir byr þá ákváðum við að skipta um nafn og kalla þennan andskota golugreip, og er ekki sæmdarheiti. 

Myndirnar tók ég þegar þetta gerðist. Á þeirri fyrstu er allt í blússandi gangi. Á næstu mynd virðist allt ætla að ganga vel og á þeirri þriðju standa menn eins og illa gerðir hlutir á jöklinum og bíða byrs. Í baksýn er Öræfajökull og þar ber mest á Þuríðartindi, einstaklega fallegum gígtappa (held ég).

Fjórða myndin er af sjálfum mér nálægt Þuríðartindi. Held að ég hafi gefið henni systur minni, Þuríði, myndina, svona vegna nafnsins.


Skortstíminn og þennslutíminn hækkuðu íbúðaverð

Ekki er nóg að einhver vilji selja íbúð. Annar verður að vera tilbúinn að kaupa við því verði sem báðir eru nokkurn veginn sáttir við. Þegar skortur er á íbúðum yfirbjóða kaupendur hvern annan. Þegar offramboð er af íbúðalánum hækkar einatt íbúðaverð. Markaðurinn er skrýtin og óútreiknanleg skepna.

Frá því 1. desember 1980 og til þessa árs fjölgaði fólki í Reykjavík um tæp 42%. Á öllu höfuðborgarsvæðinu var fjölgunin á sama tíma um 67%.

Gríðarleg hækkun á íbúðarverði á þrjátíu árum bendir til þess að framboð af húsnæði hafi ekki verið nægilegt til að metta markaðinn. Fólk yfirbauð í íbúðir vegna skorts.

Á þessum árum var mikill tilflutningur fólks af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Sumir segja ástæðuna hafa verið kvótakerfið. Má vera að það hafi skipti einhverju máli en mikilvægara er störf við útgerð og fiskvinnslu eru ekki allt. Fólk fluttist til vegna menntunar, unga fólkið fór í langskólanám, valdi sér verknám sem ekki var hægt að iðka á landsbyggðinn heldur þar sem fjöldinn bjó. Eldra fólk flutti með og í byggðum fækkaði af náttúrulegum ástæðum.

Í byrjun þessarar aldar að allt varð vitlaust er bankar tóku að bjóða íbúðalán. Við það urðu endaskipti á hlutunum, nóg framboð var af íbúðum og miklir lánamöguleikar. Hvort tveggja, skortstíminn og þennslutíminn, urðu þess valdandi að íbúðaverð hækkaði.

Með nokkrum sanni má segja að þjóðin kunni sér ekki hóf og það jafnvel um þessar mundir er margir fasteignasalar, fjölmiðlar og stjórnmálamenn ráði sér ekki fyrir eftirvæntingu og íbúðarverð taki nú að hækka um leið og vitnað er til fjölda kaupsamninga.

Þarf íbúðaverð einatt að hækka, er ekkert til sem heitir jafnvægi í verðlagi?


mbl.is Hækkaði úr 750 þúsund í 24,9 millj.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband