Tvær eyjar í Breiðafirði

820800-48

Sagt er að eyjarnar á Breiðafirði séu óteljandi. Bergsveinn Skúlason færir rök fyrr því í bók sinni Hrannarek að eyjarnar séu milli og 2850 og 3000, allt eftir því hvað skuli telja með, hærra verði þó ekki komist. Hins vegar er ekki sama við hvað er miðað enda skipta Breiðfirðingar eyjunum samkvæmt gamalli venju í nokkra flokka eftir stærð:  Eyjar, hólma, flögur, kletta og sker.

Um daginn var ég einu sinni sem oftar að skanna inn gamlar myndir, af þeim á ég aragrúa. Kom þar að myndir sem ég hafði tekið í flugferð sem ég fór í um mitt sumar 1982. Við flugum frá Reykjavík og beinustu leið til Stykkishólms, flögruðum yfir bænum og síðan um Breiðafjarðareyjar.

820800-79 b

Afskaplega skemmtileg flugferð en það skemmdi dálítið fyrir að ég hafði keypt „tungsten“ slides í stað Ektachrome eða Kodak slides. Það olli því að yfir myndunum var dálítill blámi enda var slík filma síður gerð til notkunar utan dyra þó fullkomin væri. Eftir að hafa skannað myndirnar gat ég náð réttum lit og hér eru nokkrar.

Efsta myndin er af Elliðaey. Mér finnst hún komast næst því að vera fallegust eyja á Breiðafirði. Hún er skeifulaga, horfir móti suðri. Í fjarska sér til Bjarnarhafnarfjalls.

Næsta mynd er af Fagurey sem tengist harla sterkt uppruna mínum. Hana áttu áar mínir í nokkra ættliði. Eyjan er flöt og frekar lítið skjól þar en kosturinn við hana er að þar er að finna gott vatn og því var þar um hundruði ára búskapur. Í Elliðaey var til dæmis frekar lélegur brunnur. Sturla Þórðarson, sagnaritari, bjó í Fagurey síðustu æviár sín, en hann dó 1284, nokkru fyrir mína tíð.

Skúli Skúlason á Suma#66258

Afi minn, Skúli Skúlason, byggði eitt sinn lítinn kofa við lendinguna í Fagurey og setti í hana lítinn glugga og rúðu. Kofinn var síðan nefndur glerhöllin. 

Skammt fyrir utan eyjuna er lítið sker sem heitir Pjattland. Undarlegt nafn. Ekki kann ég neina sögu um það annað en að afi minn mun hafa gefið Skúla heitnum bróður mínum það og var hann alla tíð afskaplega ánægður með fasteignina og skemmti oft sér og öðrum með sögum af henni.

Skúli afi minn var mjög gjafmildur maður. Hann gaf til dæmis Soffíu systur minni afmælisdaginn sinn. Í æsku minni gumaði hún oft af því að eiga tvo afmælisdaga. Öfundaði ég hana óskaplega mikið af þessu en ekki lengur. Nú er hefndinn sæt. Að minnsta kosti finnst henni það ekkert skemmtilegt þegar ég tvöfalda aldur hennar. Er það að minnsta kosti árviss viðburður er ég óska henni til hamingju með afmælið að ég bæti því jafnan við að hún líti út fyrir að vera miklu yngri. Í ár var tvöfaldur aldur hennar 132 ár ... (ha, ha, ha ...).

Þriðja myndin var tekin einhvern tímann um 1940 og er af Skúla Skúlasyni, afa mínum, á báti hans Sumarliða. Hann stendur í skutnum. Mér skilst að báturinn sé með breiðfirska laginu, súgbyrðingur, og er hið bogna stefni helsta einkenni þess.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband