Skortstíminn og þennslutíminn hækkuðu íbúðaverð

Ekki er nóg að einhver vilji selja íbúð. Annar verður að vera tilbúinn að kaupa við því verði sem báðir eru nokkurn veginn sáttir við. Þegar skortur er á íbúðum yfirbjóða kaupendur hvern annan. Þegar offramboð er af íbúðalánum hækkar einatt íbúðaverð. Markaðurinn er skrýtin og óútreiknanleg skepna.

Frá því 1. desember 1980 og til þessa árs fjölgaði fólki í Reykjavík um tæp 42%. Á öllu höfuðborgarsvæðinu var fjölgunin á sama tíma um 67%.

Gríðarleg hækkun á íbúðarverði á þrjátíu árum bendir til þess að framboð af húsnæði hafi ekki verið nægilegt til að metta markaðinn. Fólk yfirbauð í íbúðir vegna skorts.

Á þessum árum var mikill tilflutningur fólks af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Sumir segja ástæðuna hafa verið kvótakerfið. Má vera að það hafi skipti einhverju máli en mikilvægara er störf við útgerð og fiskvinnslu eru ekki allt. Fólk fluttist til vegna menntunar, unga fólkið fór í langskólanám, valdi sér verknám sem ekki var hægt að iðka á landsbyggðinn heldur þar sem fjöldinn bjó. Eldra fólk flutti með og í byggðum fækkaði af náttúrulegum ástæðum.

Í byrjun þessarar aldar að allt varð vitlaust er bankar tóku að bjóða íbúðalán. Við það urðu endaskipti á hlutunum, nóg framboð var af íbúðum og miklir lánamöguleikar. Hvort tveggja, skortstíminn og þennslutíminn, urðu þess valdandi að íbúðaverð hækkaði.

Með nokkrum sanni má segja að þjóðin kunni sér ekki hóf og það jafnvel um þessar mundir er margir fasteignasalar, fjölmiðlar og stjórnmálamenn ráði sér ekki fyrir eftirvæntingu og íbúðarverð taki nú að hækka um leið og vitnað er til fjölda kaupsamninga.

Þarf íbúðaverð einatt að hækka, er ekkert til sem heitir jafnvægi í verðlagi?


mbl.is Hækkaði úr 750 þúsund í 24,9 millj.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Sigurður, aðalástæða þess að húsnæðisverð hækkaði svona ótrúlega mikið tölulega séð á þessum tíma er ekki vegna skorts á íbúðum eða yfirboða kaupenda á einhverjum tíma, of miklis framboðs íbúða á öðrum tíma eða allt of mikils framboðs að lánsfé nú í byrjun þessarar aldar þó auðvitað hafi þetta allt haft einhver en þó mismiklil áhrif á markaðinn á hverjum tíma.

Aðalástæða þessarar ómanneskjulegu  krónutölulegu hækkunar íbúðarverðs er auðvitað hin ótrúlega afurð sem verðtryggingingin er og merkilegt nokk þá byrjar einmitt tímatalið sem þessar hækkanir taka til þegar verðtryggingin var sett á eða 1980.

Skoðaðu frekar hækkanir verðlags á þessum tíma og þú munt sjá rétta skýringu á þessum umræddu hækkunum.

Geri mér alveg grein fyrir því að verðtryggingin er ekki sökudólgurinn í sjálfu sér heldur verðbólgan sem birtist okkur almenningi þessa lands best, eða réttara sagt verst, í verðtryggingu húsnæðislánanna okkar með víxlverkandi hækkunaráhrifum á alla þætti okkar venjulega fjölskyldulífs, þar með talið húsnæðisverði.

Ég hef löngum haldið því fram að verðtryggingin sé í raun birtingarmynd okkar almennings á óstjór í fjármálum ríkisins. Auðvitað er eitthvað bogið við það þegar ráðandi aðilar á markaði hafa beinlínis hag af því að verðbólgan sé há og hagnist í raun af því að reyna ekki að viðhalda stöðuleika á fjármálaðmarkaði þess lands sem þeir starfa og lifa í, þ.e. Íslands.

Þessu fyrir utan Sigurður er til eitthvað sem heitir jafnvægi, sem ég endurtek að er ekki hægt að koma á nema afnema verðtryggingu neytendalána. Það jafnvægi er að í eðlilegu þjóðfélagi, sem okkur dreymir held ég flest um, er söluverð eigna eitthvað örlítið hærri en byggingarkostnaður þessara sömu eigna og auðvitað líka það að venjuleg laun hinnar venjulegu fjölskyldu dugi fyrir afborgunum þeirra lána sem venjuleg fjölskylda þarf að taka til að kaupa þessa sömu eign en þessu er ekki fyrir að fara í dag.

Svo verða alltaf svæði sem seljast dýrari en byggingarkostnaður nýrrar sambærilegrar íbúðar í nýju úthverfi segir til um og má í því sambandi benda á miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur sem eitt skýrasta dæmið um það og svo verða líka alltaf önnur svæði sem seljast undir byggingarkostnaði nýrrar íbúðar í úthverfi af ninum ýmsu ástæðum.

þú talar um það í þessum pistli þínum að "fasteignasalar, fjölmiðlar og stjórnmálamenn ráði sér ekki fyrir eftirvæntingu yfir því að íbúðarverð hækki", þú ættir þá kannski að skýra út fyrir mér og þeim öðrum sem lesa þetta á hvern hátt þessir aðilar hagnast á því að íbúðaverð hækki umfram aðra íbúa þessa lands.

Ég mundi hins vegar áætla að allir íbúar þessa lands, þar á meðal fasteignasalar, fjölmiðlafólk og stjórnmálamenn, hefðu það sameigninlega markmið að jafnvægi ríki á þessum markaði sem og á öðrum sviðum þessa þjóðlífs þó þeir einu af ofantöldum sem eru í stöðu til að koma því í kring séu stjórnmálamennirnir og því sjálfsagt að gera þá kröfu til þeirra að þeir vinni hörðum höndum að koma á jafnvægi og stöðuleika. 

En til að ná þeim stöðuleika og jafnvægi þarf að afnema verðtryggingu af neytendalánum, sem eru m.a. lán til húsnæðiskaupa almennings.      Þá fyrst kemst á sá stöðuleiki og jafnvægi sem næstum því allir Íslendingar eru að kalla eftir. 

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 15.6.2012 kl. 00:54

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta er löng athugasemd og krefst yfirvegað svars sem ég hef eiginlega ekki tíma til svona næstum um miðja nótt.

Ég er þó sammála þér um verðtrygginguna, hún er gríðarleg meinsemd. Vil bara vitna til fyrri pistla um það mál. Hygg að víxlhækkun vísitölu og húsnæðis sé umtalsverð án þess að ég hafi kynnt mér það.

Vandi þjóðfélags okkar var svo lengi einhæft atvinnulíf með tilheyrandi verðbólguskotum þegar aflabrestur var. Efast um að hægt sé að stjórna efnahagsmálum almennilega undir slíkum kringumstæðum.

Ég fylgist vel með fréttum. Fer ekki hjá því að maður sjái á reglubundnum fresti viðtöl við fasteignasala sem halda því fram að nú sé markaðurinn alveg að ná sér eftir hrunið. Samt gerir hann það ekki. Fjölmiðlamenn segja frá fjölda kaupsamninga sem eru eitthvað fleiri í ár en í fyrra. Stjórnmálamenn þakka sér meintan efnahagsbata og vitna til þess að fasteignamarkaðurinn sé að lagast. Hvað merki það að hann sé að lagast? Að verðið sé að hækka aftur á þær slóðir sem það var fyrir hrun?

Nei, ég hef ekki sagt að fasteignasalar, fjölmiðlamenn eða stjórnmálamenn hagnist persónulega á hækkun fasteignaverðs. Umræða sem verður án tilgangs er í sjálfu sér hvimleið og gangslaus.

Jafnvægi á fasteignamarkaðnum er eftirsóknarvert. Til þess að koma því á þurfa margir hlutir að vera í lagi; framboð lóða, lánamál og svo ótalmargt annað.

Tek hins vegar undir með þér að verðtryggingin stuðlar alls ekki að jafnvægi á fasteignamarkaði? Hvers vegna ekki? Jú, fjármálastofnunum er í lófa lagið að auka verðbólgu, hækka vísitöluna. Þeirra eru hagsmunirnir, þær veita lánin. Við hin getum ekki annað en greitt, eigum ekki annarra kosta völ.

Hins vegar held ég að pistillinn lýsi ástandinu að öðru leyti en hvað varðar verðtrygginguna ansi vel. Bjóst þó ekki við að sú krafa yrði gerð til mín að ég þyrfti að rökstyðja mál mitt út í hörgul. Er engu að síður ánægður með að fá þessa athugasemd frá þér, Vilhjálmur. Veit að þú hefur látið þessi mál til þín taka með öðru góðu fólki í Hagsmunasamtökum heimilanna.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.6.2012 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband