Í þágu hverra eru umræður á Alþingi?

Það er ekki þörf á að breyta þingsköpum til þess að landinu megi stjórna af sanngirni, fyrirhyggju og framsýni. Spyrja mætti þá sem telja að veg og virðingu Alþingis og alþingismanna megi auka með því að breyta gildandi leikreglunum: Í þágu hverra eru umræður á Alþingi? Eru þær í þágu vandaðrar lagasetningar og í þágu þjóðarinnar eða í þágu þeirra sem vilja koma fram breytingum á lögum með illu fremur en góðu og hvað sem þær kosta?

Þetta segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Þetta eru eiginlega orð í tíma töluð og hann spyr ágengra spurninga. Í allt vor héldu stjórnarliðar því fram að þingmenn stjónarandstöðunnar stunduðu málþóf. Um leið var sú skoðun ríkisstjórnarinnar afar áberandi að þingið ætti að afgreiða lagafrumvörp frá henni svo að segja umræðulaust.

Sturla rekur andstöðu þingmanna vinstri grænna við breytingar á þingsköpum sem höfðu það í för með sér að ræðutími var styttur og málefnalegar umræður teknar upp. Þetta mátti Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, ekki hugsa sér. Hann vildi ótakmarkaðan ræðutíma. Sú slæma breyting hefur nú orðið á, að sá sami Steingrímur er nú í ríkisstjórninni. Þar hefur hann gleymt öllum þeim gildum sem hann trúði á og hefur frá því að vera að eigin sögn róttækur stjórnmálamaður orðið að afturhaldssömum embættismanni.

Vandi þingisins eru almannatengslin. Fréttamat margra fjölmiðla eru ágreiningsmálin á þingi, ekki löggjafarstarfið sem skilar miklum og nauðsynlegum árangri. Ríkisútvarpið vill helst láta heyrast og sjást þegar þingmenn eru á öndverðum meiði, tíminn takmarkaður og þingforseti slær í bjölluna. Þetta er síður en svo upplýsandi fréttamennska og á borð við það þegar sami fjölmiðill segir það eitt af löggjafarstarfi á Ítalíu eða Suður-Kóreu er þingmenn missa stjórn á sér og slást.

Stjórn Alþingis er eiginlega frekar meðvitundalaus um almannatengsl. Vefur þingsins er til dæmis hræðilega lélegur og í raun mjög erfitt að leita að upplýsingum, sérstaklega fyrir óvana. Enginn gegnir starfi blaðafulltrúa þingisins eins og ætti að vera.

Því er ekki furða þó um það sé einna helst rætt í saltpottinum í Laugardal hversu þingmenn rífist mikið og ástundi málþóf. Ég lagði það þó á mig að fylgjast með hinu svokallaða málþófi og gat ekki annað heyrt en að þar færu fram afar málefnalegar og yfirvegaðar umræður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það er alveg sama hvað Sturla og aðrir sjálfstæðismenn reyna að réttlæta þann skrípaleik sem þeir stunduðu á vorþinginu, að nú er öllum rétt hugsandi mönnum orðið það ljóst,  að svona  geta hlutirnir ekki gengið fyrir sig.  Það er skrumskæling á lýðræðinu ef minnihluti  Alþingis getur sett löglega kjörnum meirihluta stólinn fyrir dyrnar og í raun tekið völdin.  Þegar ég segi þetta er ég enganveginn að taka afstöðu til þeirra aðal deilumála sem þarna var tekist á um og þaðan af síður með eða móti ríkisstjórninni og meirihluta Alþingis.  Enda ekki bundinn neinum stjórnmálaflokki.  Ef reglur og þingsköp leyfa notkun þessara vinnubragða þíðir í raun ekkert að vera að kjósa til Alþingis.  Og þaðan af síður eykur það tiltrú og traust þjóðarinnar á löggjafarsamkomunni. 

Þórir Kjartansson, 26.6.2012 kl. 23:10

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið, Þórir.

Þú gagnrýnir minnihlutan fyrir að ræða vel og lengi um einstök mál. Sértu eins málefnalegur og ég held að þú viljir vera þá vantar gagnrýni þína á stjórnarmeirihlutann sem ætlast til að þingið afgreiði mál eftir pöntun, jafnvel stór og mikilvæg mál sem lögð eru fram afar seint og lítill tími gefinn fyrir umræður.

Finnst þér til dæmis réttlætanlegt að koma með frumvarp um veiðigjöld og ætlast til að það sé afgreitt á nokkrum dögum?

Persónulega finnst mér slíkt skrípaleikur sem síst af öllu auki „tiltrú og traut þjóðarinnar á löggjafarsamkomunni“, svo ég noti nú þitt orðalag. Þegar rangt er gefið verður eftileikurinn samkvæmt því. Auðvitað þarf að efla virðingu Alþingis og það gerir enginn annar en þingmenn og embættismenn sem stýra þessari ágætu stofnun.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.6.2012 kl. 00:15

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sæll Sigurður.  Eins og ég sagði er ég ekki að taka afstöðu til þessara mála sem fyrir lágu, hvorki efni þeirra  eða hvort þau komu of seint fram og /eða illa undir búin.  Málið snýst um allt annað.  Eftir þetta vorþing er það orðið ljóst að ef minnihluti Alþingis vill og nennir getur hann stillt meirihlutanum upp við vegg og stöðvað afgreiðslu þeirra mála sem honum sýnist.  Hvað gerist eftir næstu kosningar?  Þá eru miklar líkur til að valdahlutföll á Alþingi snúist við.  Mun sá minnihluti sem þá verður ástunda sömu vinnubrögð?  Ekki ólíklegt finnst mér.  Það er búið að gefa tóninn. Og þá mun kveða við annan tón úr ranni ykkar sjálfstæismanna, haldi sá flokkur um stjórnartaumana.

Þórir Kjartansson, 27.6.2012 kl. 08:13

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll aftur. Það var nú yfirleitt svo í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins að reynt var ná almennri samstöðu um grundvallarmál. Þannig var það til dæmis með síðustu breytingar á stjórnarskrá svo dæmi sé tekið. Hvað hefur eiginlega breyst? Er ætlunin sú að láta eigi sverfa til stáls í löggjafarstarfinu? Er það hið nýja Ísland?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.6.2012 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband