Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
Fellið sem hvarf við Vífilsfell
8.10.2012 | 10:30
Náman í Vífilsfelli er stórkostlegt lýti á fjallinu og umhverfi þess. Það hefur nær eyðilagt ágæta gönguleið upp á sléttuna. Útsýnið þaðan er ljótt eins og ég hef rætt um í fyrri pistlum. Lítið en snoturt fell suðaustan við Vífilsfell var hreinlega tekið eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ég hef raunar birt áður.
En það er ekki aðeins náman við Vífilsfell sem hefur angrað mig og marga aðra. Vélhjólamenn eiga aðsetur þarna skammt frá en láta sér það ekki nægja. Í mörg ár hafa þeir búið til sínar eigin leiðir, meðal annars undir vesturhlíðum Vífilsfells og Bláfjalla. Þar þykir þeim gaman að reyna sig en um leið spæna þeir upp land og eyðileggja. Til þess hafa þeir ekkert leyfi en yfirvöld láta sér þessi lögbrot í léttu rúmi liggja eins og svo mörg önnur í umhverfi og náttúru.
Á myndinni sét lítið fell. Það er nú horfið eins og má sjá á neðri myndinni. Aðeins hola er eftir þar sem það áður hafði staðið í 7.000 ár.
Eftirlit með námunni við Vífilsfell var greinilega ekkert fyrst nú hafa bæjaryfirvöld í Kópavogi vaknað og telja að fylla þurfi upp í lýti á fjallinu. Auðvitað er þetta til marks um að ekki sé rétt að málum staðið. Nú spyr maður hvort einhver lærdómur hafi verið dregin af þessum mistökum.
Fylla upp í lýti á Vífilsfelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðaskrifstofa lokar veginum upp á Fimmvörðuháls
8.10.2012 | 00:08
Í gær fór ég á Fimmvörðuháls. Skilti við Skóga vakti athygli mína. Á því stendur:
Athugið!
Akstur að fjallvegi á Fimmvörðuháls er takmarkaður
Reglur um aðgengi: Reglur þessar gilda eingöngu 15. júní - 31. október 2012.
Akstur er einföngu leyfður fyrir skipulagaðar jeppaferðir á vegum ferðaþjónustufyrirtækja.
Akstur er leyfður milli kl. 10-12 og 16-18, á öðrum tímum er lokað.
Allir jeppar sem aka upp veginn skulu vera merktir viðkomandi fyrirtæki.
Vinsamlegast sýnið tillitsemi í hlaðinu, akið ekki hraðar en 10 km/klst. og stöðvið ekki að óþörfu.
Allar upplýsinga reru veittar í síma 571-3344
Eins og sést á meðfylgjandi mynd hefur einhver ákveðið reglur um aðgang að veginum upp á Fimmvörðuháls. Hvergi kemur fram á skiltinu hver hafi sett þessar reglur né heldur á hvers ábyrgð skiltið er sett upp.
Þó er gefið upp símanúmer. Það er skráð á Trek ferðir í Reykjavík, en það er ferðaþjónustufyrirtæki. Hvers vegna þetta fyrirtæki hefur tekið sér það vald að setja upp regluskilti veit ég ekki en hitt veit ég mætavel að réttur þess er enginn.
Veginum upp á Fimmvörðuháls er lokað með keðju og lás. Aðeins útvaldi aðilar hafa lykil. Almenningur fær ekki að aka upp á Hálsinn. Hér virðist því um að ræða lögbrot sem embætti Sýslumannsins á Hvolsvelli ber skylda til að taka á.
Þess ber auðvitað að geta að vegurinn upp á Fimmvörðuháls er sýsluvegur og í umsjá sveitarfélagsins Rangárþings eystra.
Galli vegarins er að hann liggur um milli húsa bóndans að Skógum og það getur alls ekki verið forsvaranlegt að vegur liggi um hlaðið á matvælaframleiðslufyrirtæki.
Lengi hefur staðið til að færa upphaf vegarins frá Skógabænum en það hefur ekki tekist. Hagsmunaaðilar eru margir og allir með ólíkar þarfir og kröfur, bóndinn, sumarhúsabyggðin, héraðsnefndin, Vegagerðin og ábyggilega margir aðrir. Enginn virðist þó gæta hagsmuna almennings.
Það breytir því hins vegar ekki að ferðaskrifstofa hefur ekki rétt til að takmarka umferð um veginn né heldur Skógabóndinn. Það getur einungis sveitarstjórnin gert. Vandi hennar er að hún hefur ekki haft dug í sér til að taka ákvörðun eins og sést mætavel á þeim fundargerðum sem sveitarfélagið birtir á vef sínum. Hvergi hef ég hin vegar fundið neitt í samþykktum hennar sem heimilar takmörkun á akandi umferð um veginn upp á Fimmvörðuháls. Skógabóndinn getur hins vegar lokað hlaðinu hjá sér fyrir óviðkomandi umferð og það ætti hann að gera. Þá er hugsanlegt að hreyfing komist á málið.
Neðri myndin er tekin fyrir ofan Skógabæinn. Þarna komið af Fimmvörðuhálsi og framundan er fjárhús og fjós og vegurinn um hlaðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eins og köttur í kringum heitan graut
7.10.2012 | 20:48
Ekki skipti ég mér af því hver verður valinn formaður Samfylkingarinnar. Hins vegar finnst mér alltaf gaman að tjá mig um hin ólíklegustu mál, allt frá geimferðum til sagnfræði. Skylt hinu síðarnefnda er túlkun á því hvað sumir samfylkingarmenn segja.
Margir þeirra eiga það til að tala ekki hreint út heldur hringsóla eins og tunglferja sem lendir þó aldrei á tunglinu. Kremlarlógían er skyld sagnfræðinni. Hún gekk út á þá fræðigrein að geta sér til um það sem ráðamenn Sovétríkjanna sálugu voru að segja í ræðum og rit. Þeir voru svo óskaplega loðnir og langorðir að enginn vissi eiginlega hver boðskapur þeirra var.
Árni Páll Árnason, þingmaður og fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar, er eins og hinir öldruðu Sovétleiðtogar. Í mörgum og löngum greinum tjáir hann sig en þó yfirleitt bara í skilyrtum setningum, eitthvað á þessa leið; Ef þetta eða hitt væri svona þá myndi ég annað hvort gera eitt eða annað .... Sjaldnast segir hann neitt sem hægt er að henda reiður á.
Skelfing væri nú gaman ef þessi ágæti maður yrði næsti formaður Samfylkingarinnar og Dagur varaborgarstjóri yrði áfram varaformaður. Þá yrði nú aldeilis mikil umferð í kringum heita grautinn, rétt eins og var eitt sinn í kringum tunglið.
Á að refsa atvinnulausum fyrir atvinnuleysið?
5.10.2012 | 11:56
Oft hefur heyrst að þeir sem eru atvinnulausir kunni bara ágætlega við það og njóti lífsins á bótum frá ríkisvaldinu. Þetta er í langflestum tilvikum hin mesta firra. Engan hef ég hitt sem dásamar það hlutskipti sem hin norræna velferðarstjórn hefur skapað í kjölfar hrunsins
Í pressan.is í dag rita Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði, ótrúlega undarlega grein um atvinnuleysi. Hann segir meðal annars í henni:
Það er ekki svo að skilja að atvinnulausir geri ekkert. Án efa eru flestir þeirra að leita að vinnu sem borgar nægilega mikið betur en atvinnuleysisbæturnar til að það taki því að stunda hana. En á meðan slíkt millibilsástand ríkir er ekkert sem bannar að hið opinbera nýti sér vinnuafl þessa hóps. Þegar allt kemur til alls, þá borgar hið opinbera þessum hópi laun og það m.a.s. talsvert há m.v. mörg láglaunastörf.
Hagfræðingurinn Hyman Minsky viðraði eitt sinn þá hugmynd að hið opinbera borgi ekki atvinnuleysisbætur. Sparnaður sem af því hlytist væri nýttur til að setja upp atvinnuáætlanir fyrir atvinnulausa sem fælu í sér að þeir veittu samfélagslega þjónustu. Launin fyrir þá þjónustu yrðu að vera lág m.v. laun í einka- og opinbera geiranum, eins og atvinnuleysisbætur eiga almennt að vera. Þannig væri ekki markmið áætlananna að borga há laun til þeirra sem hefðu misst vinnuna heldur að flýta fyrir því að hinir atvinnulausu finndu sér aðra vinnu. Halda mætti jú að fáir vilji vinna láglaunavinnu svo áhuginn við atvinnuleitina ætti af þeim sökum að glæðast.
Þetta er eins sú heimskulegasta hugmynd sem ég hef nokkru sinni heyrt. Staðreyndin er hins vegar sú að auðvelt er að setja fram einhverja heimskulega hugmynd og styðja hana með hagfræðilegum rökum, eins og Ólafur Margeirsson rekur í greininni, en ég birti ekki hér.
Eitt er að verða atvinnulaus. Annað er að ríkisvaldið refsi viðkomandi með því að þvinga fólk í vinnu sem nefnist samfélagsleg þjónusta. Hið þriðja er að taka af atvinnulausum manni þann rétt að geta valið starfa við hæfi. Hugmyndin minnir óneitanlega á þá sem hafa orðið sekir um lögbrot, sitja inni en er leyft að komast út vegna góðrar hegðunar með því skilyrði að þeir sinni samfélagslegri þjónustu.
Vart missir maður starf sitt vegna þess að hann er óhæfur heldur er það yfirleitt vegna þess að efnahagslegt umhverfi er slíkt að atvinnutækifærum fækkar, kreppa ríkir, stjórnvöld sinna ekki uppbyggingu í atvinnulífi, fjárfestingar í fyrirtækjarekstri minnka vegna ofsköttunar og svo framvegis. Kunnuglegt ekki satt? Slæm stjórnvöld klúðra efnahag þjóðfélagsins og fá um leið að refsa þeim sem missa við það vinnuna.
Nei, þetta gengur ekki upp.
Í raun væri hægt að halda því fram að á sama hátt megi refsa öðrum. Til dæmis þeim sem misstu hús sín á uppboði vegna afleiðinga hrunsins. Þeim væri gert að búa í tjaldi þangað til eignastaða þeirra væri sannarlega orðin slík að þau gætu keypt sambærilegt hús á markaði.
Líklega er auðvelt fyrir Ólaf Margeirsson, hagfræðing eðan þennan Hyman Minsky að segjast mundu þakksamlega þiggja að vinna í samfélagslegri þjónustu þangað til þeir fengju starf við hæfi. Það þarf ekki neinn sálfræðing til að átta sig á því að báðir væru myndu ljúga þessu, þó ekki væri til annars en að standa við ómögulega hugmynd.
Svo er það tilefni í annan pistil hvað samfélagsleg þjónusta er, hvernig hún er skilgreind. Í flestum tilvikum er hún ekkert annað en skipulagt iðjuleysi þar sem sérkunnáttu er sóað í algjöran óþarf. Nefna má að setja hagfræðimg í að sópa gólf.
Guðni Ágústsson flengir Samfylkinguna
5.10.2012 | 11:00
Hvað myndi gerast í Noregi ef fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jens Stoltenbergs hefði heima og erlendis lýst því yfir að norska krónan væri skaðleg norskum hagsmunum og ónýtur gjaldmiðill?
Forsætisráðherrann hefði umsvifalaust sett viðkomandi ráðherra af fyrir sólarlag. Hvað myndi gerast í Noregi ef Stoltenberg sjálfur færi háðsorðum um norsku krónuna? Norska Stórþingið myndi setja hann af samdægurs. Hvað myndi gerast í Þýskalandi ef fjármálaráðherra í ríkisstjórn Angelu Markel segði framtíð evrunnar brostna? Sá hinn sami einnig pokann sinn.
Þetta segir Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, í afspyrnugóðri grein í Morgunblaðinu í morgun (feitletranir og greinaskil eru mín). Auðvitað er þetta hárrétt hjá Guðna. Ábyrgir stjórnmálamenn tala ekki niður gjaldmiðil sinn. Það gera hins vegar ráðherrar Samfylkingarinnar. Þeim er ekki lengur neitt heilagt og enga virðingu bera þeir fyrir krónunni.
Og Guðni segir og ég er honum fyllilega sammála:
Gjaldmiðillinn ríkir á meðan hann ríkir og æðstu menn stjórnkerfisins verja hann meðan stætt er.
Hér á Íslandi þykir ekkert athugavert við það að ráðherrar og sérstaklega samfylkingarráðherrar, bæði forsætisráðherra landsins Jóhanna Sigurðardóttir og nú fjármálaráðherrarnir Oddný Harðardóttir og Katrín Júlíusdóttir, fari í fjölmiðla og fordæmi krónuna og segi gjaldmiðilinn ónýtan.
Þetta gera þeir einnig Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Árni Páll Árnason formannsefni, það gerði einnig Björgvin Sigurðsson. Þessi ,,snilldarviðtöl« þessara ráðherra eru síðan tíunduð í sterkum fjölmiðlum um allan heim og skaða hagsmuni íslensku þjóðarinnar.
Og þannig eru vítin til að varast, í þessu tilviki eru vítin Samfylkingin, flokkurinn allur.
Góð grein hjá Guðna, miklu betri en hann er vanur að skrifa.
Þór Saari laug, flóknara er það ekki
5.10.2012 | 10:17
Þingmaður Hreyfingarinnar, Þór Saari, var um daginn dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir meiðyrði. Ummælin sem hann var dæmdur fyrir eru þessi: Ragnar Árnason hefur verið á launum hjá LÍÚ í áratugi.
Þingmaðurinn hefur nú tekið þá ákvörðun að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Í yfirlýsingu segir hann:
Undirritaður telur að stefna Ragnars hafi verið með öllu tilhæfulaus og sé tilraun til þöggunar á umræðu um málefni sem hvað heitast hefur brunnið á þjóðinni í áratugi sem eru breytingar á kvótakerfinu og úthlutun aflaheimilda.
Þetta orð, þöggun, er orðið miklu vinsælla en efni standa til. Yfirleitt er að notað af undirmálsmönnum sem láta sér sannleika og heiður í léttu rúmi skipta. Í þann flokk hefur Þór Saari fyrir löngu síðan skipað sér.
Óumdeilt er að Þór Saari lét hafa þessi orð eftir sér og í ljós hefur komið að þau eru ósönn. Ragnar Árnason stefndi þingmanninum fyrir ummæli sem eru að hans áliti röng og meiðandi. Hvað er þá vandamálið og hver er þöggunin?
Þór Saari laug. Flóknara er það ekki.
Hann má áfram malbiki sínu um fiskveiðistjórnunarkerfið, kvótann og úthlutun aflaheimilda eins og hann vill. Enginn hefur nokkra lyst á að þagga niður í manninum. En hann leikur þann leik sem margir gera, að grípa til vafasamra fullyrðinga í þeirri von að einhver leggi þá við eyrun. Umræða sem þannig þróast er ekki heiðarleg og þvert á þann lærdóm sem margir hverjir töldu að hrunið hefði haft í för með sér. Það er ekki nein þöggun þó einhverjir mótmæli lygum.
Jón Baldvin ræðst á heilaga Jóhönnu í afmælisgrein
4.10.2012 | 11:19
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra, sendiherra, ritstjóri, birtir í dag afmæliskveðju til fyrrum samherja síns, Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.
Undarlegt er að lesa greinina sem birtist í pressan.is. Allir sem muna eftir formannstíð Jóns Baldvins í Alþýðuflokknum vita að hann og Jóhanna Sigurðardóttir voru síst af öllu elsku vinir. Samvinna þeirra var engin, milli þeirra var sífelldur skætingur eða þegar best lét sögðu þau ýmsilegt meinlegt um hvort annað undir rós.
Jóhanna hafði á sínum tíma rétt fyrir sér um Jón Baldvin. Árangur hans sem þingmanns, ráðherra svo ekki sé talað um formanns Alþýðuflokksins er enginn. Og Jón Baldvin hafði rétt fyrir sér um Jóhönnu, hún er einfari, frek og miðpunktur tilveru hennar var hún sjálf.
Nú tekur Jón Baldvin upp fyrri siði, það sem honum þykir skemmtilegast, að tala illa um aðra. Og það gera hann svo einstaklega skemmtilega í afmælisgrein sinni um forsætisráðherrann sem hann baktalaði mikið hér áður fyrr og hrakti þvínæst úr Alþýðuflokknum. Sannast sagna var ekki pláss fyrir þau bæði í sama flokki enda svo lík að með ólíkindum er.
Löngum hefur verið sagt að oflof sé dulið last. Það er það fyrsta sem lesanda afmælisgreinarinnar dettur í hug. Jón Baldin uppnefnir Jóhönnu og nefnir hana þrjóska kind sem setið hafi í hrunstjórninni. Hann segir:
Þrátt fyrir setu sína í Hrunstjórninni, þótti óvéfengjanlegt að hún byggi yfir þeim eðliskostum, sem á reynir, þegar taka þarf til hendinni og allt er komið í óefni: Heiðarleika, ósérhlífni, vinnusemi, seiglu og það sem mestu máli skipti óendanlegri þrjósku. Var það ekki þrjóska sauðkindarinnar, sem gerði þessari þjóð kleift að lifa af sjö langar hunguraldir?
Ekki eru þetta vinsamlegar strokur og vart fer það batnandi er maðurinn fullyrðir að afmælisbarnið hafi verið orðið of gamalt er hún tók við starfi forsætisráðherra. Jón Baldvin orðar það svona:
Að leggja þvílíkar byrðar á herðar konu, sem þá þegar hafði áunnið sér rétt til að njóta friðsæls ævikvölds, getur vart flokkast undir annað en skort á mannúð og meðlíðan.
Og ekki batnar það þegar greinarhöfundur fullyrðir nánast að Jóhanna sé slæmur stjórnmálamaður eða hvernig má útskýra þessi orð:
Að leiðarlokum eru engir góðir pólitíkusar nema dauðir pólitíkusar.
Sýnu verra er að allt það sem Samfylkingarmenn hafa lofað forsætisráðherra sinn fyrir þakkar Jón Baldvin formanni Vinstri grænna. Hann segir um niðurskurð ríkisútgjalda og velferðarkerfið:
Það kostaði blóð, svita og tár en það bar árangur. Þann árangur á Jóhanna einkum að þakka Steingrími J. Sigfússyni, harðfylgi hans og málflutningsþrótti.
Sem sagt, Jóhanna sat verkefnalaus úti í horni meðan Steingrímur tók til hendinni.
Jóni Baldvin telur að stærstu mistök Jóhönnu hafi verið að rétta ekki hlut fórnarlamba ólöglegra gengistryggðra lána. Hann segir:
Það er ekki boðlegt fjórum árum eftir hrun, að þúsundir heimila viti ekki, hver er höfuðstóll þessara lána, hvaða vextir skuli gilda, né heldur hver greiðslubyrðin er eða verður. Svona nokkuð líðst bara í bananalýðveldum. Þessi glundroði hefur skaðað orðstír heilagrar Jóhönnu (var það ekki ég, sem á sínum tíma sæmdi hana þessari heiðursnafnbót?) meir en nokkuð annað. Hefur hún enn tíma til að reka af sér slyðruorðið? Það kemur í ljós.
Auðvitað getur Jón Baldvin ekki stillt eðli sína og minnir á uppnefnið sem hann klíndi á hana á árum þeirra í Alþýðuflokknum. Uppnefnið heilög Jóhanna var aldrei nein heiðursnafnbót. Hann notað þetta til að benda á hversu erfitt væri að vinna með konunni og ekkert mætti segja við hana án þess að hún færi í fýlu.
Í lok afmælisgreinarinnar gerist Jón Baldvin enn og aftur persónulega rætinn er hann segir:
Öllum má ljóst vera, að hún býr hvorki yfir orðkyngi né sannfæringarkrafti spámannsins, sem leiðir þjóð sína fyrir mátt orðsins út úr eyðimörkinni á vit framtíðarlandsins.
Flestir eru á því að nokkrar reglur eigi að hafa í heiðri við skriftir og ljóst má vera að Jón Baldvin brýtur að minnsta kosti tvær þeirra.
Í fyrsta lagi að skrifa ekkert undir áhrifum áfengis. Það kann einfaldlega ekki góðri lukku að stýra, ekki frekar en að halda ræðu drukkinn.
Í öðru lagi er slæmt að láta reiði og heift ráða því sem skrifað er.
Í þriðja lagi á enginn að rita afmælisgrein til svarins óvinar. Allir sjá í gegnum slík skrif eins og glögglega kemur fram í þessari samantekt.
Og nú er það spurningin: Hvernig svarar heilög Jóhanna sínum svarna óvini.
Mörður er næstbesti kosturinn ...
4.10.2012 | 09:17
Fjölmargir ráða sér nú ekki fyrir kæti og hvetja Samfylkingarfólk til að kjósa Mörð Árnason sem formann Samfylkingarinnar. Hann er tvímælalaust afbragðs frambjóðandi í embættið. Vel máli farinn og fylginn sér en ekki síst með mikla útgeislun og eldmóð.
Mörður þykir næst besti kosturinn, það er fyrir utan Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún tók við stórum flokki, aflaði honum mikils fylgis í kosningunum 2009 eða tæplega 30% og hefur síðan smám saman glutrað því niður í um 19% og er enn á niðurleið með hann.
Vonir standa til þess að verði Mörður formaður Samfylkingarinnar takist enn betur með að halda vinstri mönnum sameinuðum í einum flokki. Skiptir engu þótt hann falli af þingi við næstu kosningar eins og líkur benda til.
Mörður íhugar formannsframboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þrálátt suð í norðureyranu í Heiðmörk
3.10.2012 | 15:21
Miklir jarðskjálftar hafa orðið á undanförnum árum, eldgos brotist út, þjóðfélagið fór næstum á hliðina og ég hef ítrekað skorið mig í fingur. Aldrei nokkurn tímann, aldrei hefur mig dreymt fyrir því sem gerist mun, hvorki ómerkilegt né merkilegt. Nema því aðeins að ég sé svo slakur í draumaráðningum.
Til er fullt af fólki sem er svo merkilega berdreymið að það gæti hreinlega opnað fréttaveitu. Í frétt á dv.is í dag segist borgarfulltrúi Vinstri grænna hafa dreymt fyrir skelfilegum atburðum. Hún nefnir meðal annars eldgos í Heiðmörk.
Datt mér ekki í hug, varð mér að orði, er ég las fréttina. Að öllu jöfnu hefði ég ekki lesið svona frétt en þetta með Heiðmörk vakti athygli mína. Og nú skal ég segja frá því.
Í allt sumar hef ég iðkað hlaup. Byrjaði upp á nýtt eftir nokkra ára hlé og er í miklu stuði eftir nær fjögurra mánaða skokk. Heiðmörk er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar er gott að hlaupa, mjúkir stígar, brekkur, beygjur og allt ... Í fyrstu valdi ég fjögurra kílómetra hring og eftir að hafa náð þar góðum árangri tók ég til við að hlaupa annan sem er 7,8 km langur. Ég er nú ekki búinn að missa þráðinn í þessari frásögn minni því nú kemur að því athyglisverða.
Í hvert skipti að ég kem að bílastæðinu við fjögurra kílómetra hringinn legg ég bílnum alltaf á sama hátt á Borgarstjóraplaninu svokallaða og geng út. Alltaf er ég opna bílhurðina og stundum áður fæ ég svo ákaflega mikið suð í norðureyrað ... ekki það syðra. Ef ég sný mér, þá verður norðureyrað að suðureyra og suðureyra að norðureyra, vona að lesendur missi ekki athyglina við svona tæknileg flókna frásögn. Þá heldur suðið áfram í suðureyranu en ekkert heyrist í því nyrðra. Hið sama gerist þegar ég legg bílnum við brúna þar sem ég byrja 7,8 km hringinn. Suðið er samt miklu minna í norðureyranu en á Borgarstjóraplaninu og það hverfur síðan er ég byrja hlaupin. Hið merkilegasta við þetta er að er ég kem hlaupandi upp á Borgarstjóraplanið, þar sem ég áður lagði bílnum, byrjar suðið í norðureyranu, en hættir síðan er ég hleyp undan því (held ég)
Og hvað þýðir þetta suð. Ég er alveg pottþéttur á að það á rætur sínar að rekja til innanmeina í jarðskorpunni undir Heiðmörk, hægra hreyfinga á kviku sem bíður þess að skjótast upp þegar aðstæður verða réttar. Nú skilja lesendur mínir hvers vegna athygli mín vaknaði við lestur draumfara borgarfulltrúa Vinstri grænna. Ekki það að ég hafi alltaf tekið mikið mark af fólki í þeim flokki en líklega er meiri von til þess að eitthvað skynsamlegra komi frá þeim í meðvitundarleysi.
Nú fer ég að draga mikið úr hlaupum í Heiðmörk. Fáir eru þar á ferð nema stöku hjólreiðamenn. Hins vegar lengjast skuggarnir og það verður æ draugalegra á þessum slóðum - tja ... þangað til að jarðeldar varpa ljósi á svæðið og hraun tekur að renna.
Á kortinu sjást þessir hlaupahringir mínir. Upphaf gula hringsins er á svokölluðum Heiðarvegi sem liggur í suðaustur. Bílnum legg ég við Borgarstjóraplan. Upphaf bláa hringsins er á bílastæðinu sunnan við brúnna milli Elliðavatns og Helluvatns.
(Held að ég hafi aldrei skrifað bjálfalegri pistil)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eitt augnablik fangað
3.10.2012 | 13:10
Landið er vissulega fallegt á þessum tíma árs og víða í Reykjavík má sjá fjölbreytta liti sölnandi laufa. Gallinn er bara sá að maður er alltof sjaldan með myndavélina meðferðis.
Sérhvert augnablik er óafturkræft, kemur aldrei til baka nema maður hafi vit á því að taka mynd.
Litadýrð á haustdögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |