Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
Hvað er eiginlega að gerast í Mýrdalsjökli?
3.10.2012 | 11:05
Ég hef hvergi rekist á neinar aðgengilegar upplýsingar jarðfræðinga um það sem er að gerast í Mýrdalsjökli. Þeir tala eins og véfréttir eða segja aðeins það sem liggur okkur leikmönnum í augum uppi.
Í Mýrdalsjökli eru þrír staðir sem eru upptök jarðskjálfta. Í fyrsta lagi er það Kötluaskjan, þar eru þeir flestir. Í öðru lagi er það við upptök Tungnakvíslajökuls. Þar er alltaf stöðug hreyfing jafnvel þó ekkert gerist í öskjunni. Í þriðja og síðasta lagi er það í sunnanverðum jöklinum og suður frá honum.
Upplýsingar vantar frá jarðfræðingum um þessar þrjár staðsetningar, hvað valdi jarðskjálftum. Ljóst er að víða inni í öskjunni er kvika mjög nálægt yfirborðinu en er það líka svo á hinum tveimur stöðunum?
3,2 stiga skjálfti í Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Björn Valur gerði ekkert í þrjú ár
3.10.2012 | 10:32
Ríkisendurskoðun hefur árum saman trassað að skila þinginu niðurstöðu úttektar á stóru máli, þrátt fyrir eftirgangssemi. Í vinnuferlinu kemst Ríkisendurskoðun að því að um mikla misbresti er að ræða varðandi málið og margt er við það að athuga jafnt hvað kostnað, gæði, öryggi og fagmennsku varðar. Samt vekur stofnunin aldrei athygli Alþingis á málinu, hefur þó haft greiða leið að þinginu allan þann tíma. Alþingi fær því ekki nauðsynlegar upplýsingar um alvarlegt mál í rekstri ríkisins og getur þ.a.l. ekki brugðist við. Á þessu hefur stofnunin ekki gefa neinar viðhlítandi skýringar. Þetta er megin ástæðan fyrir því trúnaðarrofi sem orðið hefur á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar.
Meira að segja Björn Valur Gíslason, sem lengst hefur gengið í árásunum á Ríkisendurskoðun vegna skýrslumálsins, vissi vel að skýrslan var ekki tilbúin og hafði vitað það frá því hann spurðist fyrir um hana fyrir þremur árum. Skýringarnar sem hann gefur á því að hafa ekkert aðhafst er að hann hafi haft svo mikið að gera. Skýrslan vék þess vegna fyrir öðrum brýnni málum hjá Birni Vali. Ætli hið sama kunni ef til vill að eiga við um Ríkisendurskoðun fyrst þingið hafði engan áhuga á skýrslunni?
Björn Valur Gíslason á heimasíðu sinni 3. október:
Upplýsingar sem lekið hafa út úr stofnuninni eru þess eðlis að óumflýjanlegt er að rannsaka málið allt, bæði það sem snýr að Ríkisendurskoðun og sömuleiðis og ekki síður hlut Fjársýslu ríkisins. Trúðverðugleiki okkar bæði inn á við og gagnvart öðrum þjóðum er í húfi. Það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér í samskiptum okkar við aðrar þjóðir ef ekki ríkir trú á svo mikilvægum stofnun og hér um ræðir og mun á endanum koma niður á okkur öllum eins og dæmin sýna.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í grein í Morgunblaðinu í morgun:
Um það verður ekki deilt að vinnubrögð Ríkisendurskoðunar við skýrslugerðina eru ámælisverð. Undir það hefur ríkisendurskoðandi tekið. Það getur aldrei talist ásættanlegt að eftirlitsstofnun taki átta ár að ganga frá skýrslu sem Alþingi hefur óskað eftir. En í þrjú ár hefur formaður fjárlaganefndar vitað að drög að skýrslunni væru tilbúin en gerði ekkert til að fylgja málinu eftir fyrr en nú þegar stutt er til kosninga og ganga þarf frá fjáraukalögum ársins og fjárlögum komandi árs.
Leiðari Morgunblaðsins í morgun:
Það eina sem er ólíðandi í þessu skýrslumáli er hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa blásið það upp úr öllu hófi og notað sem átyllu til að klekkja á Ríkisendurskoðun og að losna við ríkisendurskoðanda. Skýringin á aðförinni virðist vera einhver ógeðfelld blanda af forvarnarstarfsemi á kosningavetri og hefndaraðgerð gagnvart stofnun sem ekki hefur í einu og öllu gert það sem stjórnvöld ætluðust til.
Loks er ekki úr vegi að vísa til umfjöllunar hér á þessari síðu en ég skrifaði fyrir nokkrum dögum eftirfarandi:
Á næstu dögum eða vikum verður tekin fyrir tillaga til þingsályktunar um að stofnuð verði rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á einkavæðingu bankanna. Í þeim umræðum munu koma fram mótrök þess efnis að Ríkisendurskoðun hafi fyrir mörgum árum framkvæmt slíka rannsókn og ekkert sérstakar ávirðingar fundið. Hvers vegna að rannsaka það mál aftur, mun stjórnarandstaðan spyrja? ...
Og hverju heldur þú, lesandi góður, að þeir sem standa að tillöguflutningnum muni svara?
Jú, þeir munu segja eftirfarandi: Það er ekkert að marka það sem Ríkisendurskoðun gerir. Sjáið bara hvernig stofnunin sinnti rannsókninni á bókhaldskerfinu. Dettur einhverjum í hug að rannsókn stofnunarinnar á einkavæðingu bankanna hafi verið eitthvað skárri?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta gerir engan að þjóðarleiðtoga
3.10.2012 | 10:07
Það er engan veginn sjálfgefið að hér hafi allt verið að hrynja í ársbyrjun 2009. Við urðum fyrir alvarlegu áfalli haustið 2008 er bankarnir féllu. Allir vinstrisinnuðu fjölmiðlarnir fóru hamförum, og Samfylkingin og Vinstri grænir skipulögðu fjölmenn mótmæli sinna manna á Austurvelli með dyggri aðstoð RÚV. Það merkir alls ekki að allt hafi verið að hrynja. Í Seðlabankanum var tilbúin áætlun við bankahruni af þessu tagi og ríkisstjórn Geirs H. Haarde setti neyðarlög sem síðar hafa verið rómuð víða um Evrópu.En það sem Guðni [Jóhannesson, sagnfræðingur] telur ekki sjálfsagt eru nánast sjálfsögð sannindi: Að sjálfsögðu hættu ólæti vinstrimanna á Austurvelli þegar þeir komust til valda. Til þess var leikurinn gerður. Þeir höfðu náð sínu markmiði, gátu rölt heim og ríkisútvarpið gat hætt að hræða líftóruna úr landsmönnum og snúið sér að hefðbundnari fréttum. Það þurfti enga sérstaka Jóhönnu til þess. Hina fullyrðinguna um að enginn nema Jóhanna hefði getað stillt til friðar, byggir Guðni á því hver hún er, ekki hinu, hvað hún gerir.Jóhanna var réttur maður á réttum stað, ekki fyrir það sem hún gerir heldur hitt, hver hún er: Samfylkingarmaður, fyrrv. félagsmálaráðherra oftar en nokkur annar, frábitin fjármálastússi, kona og samkynhneigð. Þetta er allt gott og blessað en gerir engan að þjóðarleiðtoga. Því það er tvennt ólíkt að gera og að vera.
Og þegar ég hafði lesið þetta hló ég inni í mér og kinkað kolli til samþykkis.
Stjórnarformaður OR segir ósatt
3.10.2012 | 09:50
Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur segir ósatt samkvæmt frétt Morgunblaðsins í morgun. Hann valdi persónulega fjármálafyrirtækið HF Verðbréf til að hafa umsjón með sölu Gagnaveitunnar sem er í eigu OR.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, situr í stjórn Orkuveitunnar gerði athugasemd við þessa ákvörðun á stjórnarfundi þar sem ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um söluna.
Stjórnarformaðurinn telur samkvæmt frétt Moggans að Orkuveitunni sé heimilt að gera þetta án úboðs. Svo segir í fréttinni:
[...] auk þess sem forstjóri Orkuveitunnar hafi brugðist við athugasemd Kjartans með því að framkvæma verðkönnun.
Mogginn lætur ekki plata sig og blaðamaðurinn Hörður Ægisson segir ennfremur í fréttinni (feitletranir eru mínar):
Einhver áhöld virðast hins vegar vera um hversu ítarleg sú verðkönnun hafi verið. Þegar Morgunblaðið leitaði eftir svörum frá öðrum fjármálafyrirtækjum MP Banka, Straumi, Virðingu, Auði Capital og Arctica Finance þá kannaðist ekkert þeirra við að Orkuveitan hefði óskað eftir tilboðum frá þeim til að hafa umsjón með fyrirhugaðri sölu á eignarhlut í Gagnaveitu Reykjavíkur. Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst var aðeins leitað til stóru viðskiptabankanna eftir verðtilboðum.
Nógu slæmt er það nú að Orkuveitan sé í miklum fjárhagslegum erfiðleikum en það bætir ekki úr skák að stjórnarformaðurinn sé nú orðinn ber að ósannindum. Auðvitað er krafan sú að hann segi af sér. Annað er ósamboðið þeirri pólitík sem Samfylkingin og Besti flokkurinn hafa í orði boðað. Á móti kemur að þessi boðorð eru eins og siðareglur borgarfulltrúa aðeins til notkunar milli klukkan níu og fimm.
Framtíðin er ekki í ESB
2.10.2012 | 23:46
Fjöldi mætra manna vill breyta framtíðarsýn íslensks þjóðfélags. Þetta fólk vill að Ísland gangi í ESB. Í fréttinni segir meðal annars:
Hópurinn segir framtíð með lægri launum, dýrara lánsfé og minna athafnafrelsi blasa við ungu fólki á Íslandi og þessu þurfi að breyta.
Auðvitað er þetta rétt en að mínu mati er ekki lausnin sú að ganga í Evrópusambandið. Þjóðin er of fámenn til að eiga þarna heima, þar munu einkenni hennar hverfa. Þess í stað eigum við að standa fast á hugsjón þeirra sem börðust fyrir því að gera Ísland að frjálsu og fullvalda ríki.
Hafi einhver áhyggjur af stöðu mála má benda á þá einföldu staðreynd að hingað höfum við þó komist þrátt fyrir allt. Á eigin spýtur höfum við byggt upp þjóðfélag sem í megindráttum er gott og gerir vel fyrir þjóðina. Sé eitthvað að þá ættum við að geta gert betur. Við eigum að bera höfuðið hátt og gera þær kröfur til stjórnmálamanna og atvinnulífs að Ísland verði ávallt meðal þeirra fremstu í heimi og lífsgæðin með þeim mestu.
Hvað er það í þjóðfélaginu sem við getum bætt? Þjóð sem er aðeins rúmlega þrjúhundruð þúsund manns ætti að vita það. Við erum ekki svo mörg að einn einstaklingur eigi að geta týnst í mannhafi. Þjóðin er ekki þrjár milljónir manna, ekki þrjátíu og ekki þrjúhundruð milljónir. Við eigum að sníða okkur stakk eftir vexti, samkvæmt okkar eigin forsendum.
Páll Vilhjálmsson orðar þetta á athyglisverðan hátt í pistli á heimasíðu sinni.
Við-getum-ekki-fólkið hefur gefist upp á verkefni lýðveldiskynslóðarinnar að fullvalda Ísland bjóði börnum sínum velferð og velmegun á eigin forsendum. Ísland mun greiða með sér inn í Evrópusambandið vegna þess að lífskjör á Íslandi eru langt yfir meðallífskjörum í ESB-ríkjunum 27. Við-getum-ekki-fólkið vill senda milljarða til ESB til að geta sótt hluta peninganna tilbaka í verkefni hér á landi sem embættismenn í Brussel ákveða hver skuli verða.
Vilja breyta framtíðarsýninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sáttmáli allrar þjóðarinnar eða ...
2.10.2012 | 11:22
Mörgum þykir undarlegt að nú sé verið að þröngva nýrri stjórnarskrá upp á þjóðina. Ljóst er að hún hefur klofnað um tillögur stjórnlagaráðs en ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis neitar að vinna með stjórnarandstöðunni um málið. Það er hvorki vott um félagslyndi eða samvinnu.
Óðinn Sigþórsson, bóndi á Einarsnesi í Borgarfirði, hefur oft lagt gott til málanna í ræðu og riti og ekki síst með greinaskrifum í Morgunblaðinu. Hann ritar í morgun grein um stjórnarskrármálið og segir (greinaskil eru mín sem og feitletranir):
Öll meðferð meirihluta Alþingis á stjórnarskrármálinu er lítilsvirðing við Alþingi Íslendinga. Þeir sem hafast þannig að eru viljandi, eða án vits, að grafa undan þingræðinu og því stjórnskipulagi sem við byggjum á.
Fall banka og framferði eigenda þeirra og stjórnenda getur ekki orðið afsökun skammsýnna stjórnmálamanna fyrir sleifarlaginu við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hins vegar virðast þessir sömu stjórnmálamenn leitast við að nýta sér réttmæta reiði þjóðarinnar til verksins. Nú er kominn tími til að staldra við.
Það er því mikilvægt að kjósendur nýti atkvæðisrétt sinn í kosningunum hinn 20. október nk. Þá gefst einstakt tækifæri til að skera úr um það hvort stjórnarskrá lýðveldisins á að vera sáttmáli allrar þjóðarinnar áfram, eða bara eitt af stóru málunum hennar Jóhönnu sem hún þarf að klára á kjörtímabilinu, svo vitnað sé í hennar eigin orð.
Nauðsynlegt er að þjóðin sendi Jóhönnu og Alþingi skýr skilaboð og hafni þessari hraklegu meðferð á sáttmála okkar allra og sendi málið til vandaðara og efnislegrar meðferðar þar sem það á heima með réttu, hjá Alþingi sjálfu.
Ofangreint er meðal annars ástæðan fyrir því að ég ætla að merkja við NEI á kjörseðlinum og láta öðrum spurningum ósvarað.
Votta skal náttúrlega baðstaði, drykkjarvatn og andrúmsloft
2.10.2012 | 10:15
Athygli hefur verið vakin á því að nú vilji ESB setja reglugerðir um náttúrulega baðstaði. Segir frá því líka í Morgunblaðinu í morgun. neðangreint er þó ekki fengið úr fréttinni heldur frá heimildarmanni pistilshöfundar í Brössels.
Ekki er ólíklegt að hið alsjáandi, alltumvefjandi og óskaplegavæntumþyjandi Evrópusamband krefjist þess að Íslendingar taki upp vottun á náttúrulegu drykkjarvatni. Þetta þýðir einfaldlega það að göngufólk á ferð um landið má ekki fá sér að drekka úr:
- fljótum
- ám
- lækjum
- sprænum
- seytlum
- uppsprettum
Né heldur mega ferðamenn taka snjó sér í munn né heldur bræða á þartilgerðum hiturum til þess að afla sér neysluvatns. Sama er um náttúrulegan ís sem finnst í jöklum landsins.
Gert er ráð fyrir að votta þurfi 1.234.345 vatnsföll af ýmsum stærðum og gerðum. Meðan á undirbúningi vottunarinnar stendur verður alveg örugglega látið nægja að setja skilti við hvert ofangreindra vatnsfalla þar sem varað er við því að drekka vatnið án þess að eftirlitsmaður ESB hafi horft á það og persónulega bragðað á því - og lifað það af. Ekki hefur verið útfært hvernig eigi að votta snjó sem fallið getur og notaður til drykkjar.
Síðan er í undirbúningi vottun náttúrlegra gönguleiða því ótækt er talið að fólk gangi utan malbiks eða steinsteypu án þess að eftirlitsmaður hafi prófað það fyrst - og komist heill frá því.
Áætlað er að vottunarkerfi ESB munu veita 11.23 manns vinnu. Vegna bágs atvinnuástands í Grikklandi, Ítalíu og Spáni mun aðeins fólk frá þessum löndum fá starf við vottunina. Kostnaðinn mun ríkissjóður Íslands hins vega alfarið bera - skiptir engu þó hann lifið það ekki af.
Svo má að lokum geta þess að Evrópusambandinu þykir ástæða til að hugleiða hvort ekki þyki ástæða til að krefjast vottunar á íslensku andrúmslofti ... og telst hér eðlilegt að lesandinn grípi andann á lofti (það verður hins vegar bannað innan skamms nema með leyfi).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gögnum haldið vísvitandi frá borgarfulltrúa
1.10.2012 | 11:26
Oft er það þannig að margir eru örlátastir á annarra manna peninga og vilja svo baða sig í fræðgarljósi gjafa. Þegar kemur að skuldadögum hverfa hinir sömu og láta ekki sjá sig.
Þannig er það með Hörpu. Borgarstjórinn í Reykjavík sinnir ekki starfi sínu og staðgengill hans skilst ekki. Saman reyna þeir að fela upplýsingar.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Í henni kemur fram að hann hefur óskað eftir því að fá í hendur úttekt á rekstri Hörpu, en Reykjavíkurborg á 46% í húsinu. Úttektin var gerð af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG. Stjórn Austurhafnar neitaði að afhenda Kjartani þessa skýrslu. Eftir að skýrslan hafði verið afhent fjölmiðlum neitaði stjórnin honum samt um skýrsluna.
Jón Kristinsson, borgarstjóri, og meirihluti hans í borgarstjórn, hefur viljandi haldið nauðsynlegum upplýsingum frá borgarfulltrúa.
Þessu trúir auðvitað enginn enda alkunna að Jón sinnir ekki skyldum borgarstjóra og skilur þær ekki. Hann er skemmtikraftur með takmarkaða sýn og skilning á stjórnmálum og rekstri. Þetta sannast best á því að Kjartan Magnússon spurði Jón þennan Kristinsson um álit hans á því að hann fengi ekki skýrslun.
Kjartan segir í lok greinar sinnar í Morgunblaðinu:
Þrátt fyrir að spurningarnar væru afar skýrar, treysti borgarstjóri sér ekki til að svara þeim fyrr en hann hefði skoðað málið betur. Tæpur mánuður er nú síðan spurningarnar voru lagðar fram og enn hefur borgarstjóri ekki svarað. Rétt er að minna á að borgarstjóri er sjálfur embættismaður, sem ber að svara slíkum spurningum og veita öllum borgarfulltrúum upplýsingar óháð flokkslínum.
Þetta mál er aðeins eitt dæmi um gersamlega óviðunandi vinnubrögð, sem nú viðgangast í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ef til vill er ekki hægt að búast við miklu af borgarstjóra, sem sjálfur hefur lýst yfir að hann sé trúður. En mikil er ábyrgð Samfylkingarinnar, sem er í meirihlutasamstarfi með ,,trúðnum« og leggur blessun sína yfir slík vinnubrögð.
Ég er gjörsamlega ósammála Kjartani. Sá sem telur sig trúð myndi hafa svarað umsvifalaust. Sá sem skilur ekki frestar svörum og gleymir svo. Auðvitað er Kjartan fyrir löngu búinn að fá skýrsluna eftir öðrum leiðum. Það breytir þó ekki staðreynd mála. Í prinsippinu er verið að halda gögnum frá borgarfulltrúa og það er ámælisvert.