Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Ekki hægt að svíkja meira ...

Ég get ekki svikið meira en ég hef lofað, þótt ég leggi mig alla fram.

Þessi orð má vissulega leggja Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í munn, rétt eins og hinn kaldhæðni höfundur leiðara Morgunblaðsins gerir í dag. Hann ræðir um „kybundinn launamun“ sem virðist lifa sjálfstæðu lífi í stjórnkerfinu þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi lofa því að leggja hann að velli frá því að hún varð félagsmálaráðherra árið 1987.

Ekkert gengur þó Jóhönnu í haginn og sá kynbundni lifir enn góðu lífi. Og loforð hennar eru löngu uppurin sem og stemmir nú bókhaldið og halli þess rekstrar er færður til skuldar við þjóðina.


Hvort er Þór Saari fasisti eða bjáni?

???#1523DC
Ferðamennskan sviptir okkur Íslendinga því umhverfi sem við búum í og höfum alist upp í. Við getum ekki lengur farið á Þingvöll og notið þess að standa á hakinu og horfa á Þingvelli. Við getum ekki lengur farið á Gullfoss og Geysi og notið þess að fara þangað því það eru þúsundir útlendinga þar sem að trufla mann í sínu eigin landi.
 
Þetta segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, í endursögn visir.is af viðtali við manninn í síðdegisútvarpi Bylgjunnar. Og þingmaðurinn segir ennfremur

Menn virðast ætla að fara sömu leið í þessu máli eins og þeir fóru með síldina á sínum tíma og með fiskistofna síðar og virkjanir. Það er allt lagt undir í einu til að græða sem mest á sem skemmstum tíma. Það er staðan sem ferðaþjónustan er í núna. [...]
 
Þetta mun ekki ganga upp. Ég vil ekki sjá Íslendinga svipta sínu landi fyrir einhver fyrirtæki í ferðaþjónustu," sagði Þór í útvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag.

Íslendingar sem fara niðrí miðbæ á sitt kaffihús sem þeir hafa kannski gert árum saman komast ekki að vegna þess að það er allt fullt af einhverjum ferðamönnum.
 
Hvernig á að rökræða við svona menn? Hef varla hugmynd um það en eitt veit ég að ef einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði látið svona út úr sér hefði hann umsvifalaust verið kallaður fasisti og jafnvel rasisti.
 
Ég held að Þór Saari sé hvorugt. Þessi málflutningur bendir einfaldlega til þess að hann sé bjáni eða rugludallur. Vona þó hans vegna að visir.is hafi haft rangt eftir honum eða hann hafi verið að gera að gamni sínu.
 
„Ísland fyrir Íslendinga“. Einhver nasistískur hljómur í þessu.
 
Svo er það spurningin mikilvæga, hvernig á að draga úr ásókn útlendinga til landsins. Getum við lokað Reykjavík fyrir útlendingum, tja til dæmis aðra hverja viku á sumrin? Eigum við að takmarka ferðir útlendinga á Þingvöll til dæmis með því að hleypa bara einum þangað inn fyrir hverja þrjá Íslendinga sem þaðan fara út? Eða eigum við að hafa þetta einfalt og loka Hressingaskálanum í miðborg Reykjavíkur fyrir útlendingum svo Þór Saari geti fengið sér íslenskan kaffisopa í friði.
 
En segið mér, þið sem skiljið hugsun Þórs, hvað er eiginlega það sem íslendingar hafa en útlendinga vantar? Svona fyrir utan þetta fallega land okkar. 

Býð mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Ég hef ákveðið að taka eitt lítið skref og sjá til hvernig mér vegnar. Ástæðan er einfaldlega sú að mér þykir nóg komið. Hingað til hef ég ekki hikað við að taka til hendinni og það geri ég ekki heldur nú. Þess vegna hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna á næsta ári. Prófkjörið fram fer laugardaginn 24. nóvember næstkomandi. 

Rautt

Mér hreinlega ofbýður hvernig núverandi ríkisstjórn hefur unnið í kjölfar hrunsins. Þessi svokallaða „norræna velferðarstjórn“ kann greinilega lítt til verka. Hún veður áfram með gamaldags aðgerðir í efnahagsmálum, hefur ekki samráð við nokkurn mann, kollvarpar stjórnkerfinu, ætlar sér að henda stjórnarskránni, ofskattar sjávarútveginn og í þokkabót ætlar hún að koma landinu inn í Evrópusambandið á móti vilja þjóðarinnar. Og er þó fátt eitt upp talið.

Er nokkur hissa á því að maður geti ekki lengur setið hjá. Ég vil taka þátt, forða okkur frá þessum ósköpum. Þess vegna leita ég til Sjálfstæðismanna í Reykjavík og óska eftir stuðning þeirra í prófkjörinu. 

Ef ég ætti að tiltaka nokkur mál sem ættu að skipta hvern mann máli þá vil ég nefna nokkur hér á eftir. 

Skuldir heimilanna og atvinnuleysið

Fjall

Framundan eru fjölmörg verkefni sem almenningur treystir að Sjálfstæðisflokkurinn taki á, verkefni sem vinstri stjórnin ekki getað leyst.  Hún hefur til dæmis klúðrað tveimur mikilvægustu verkefnum þjóðarinnar og segir í þokkabót ósatt um bæði. Hrunið olli mikilli aukningu á skuldum heimilanna og í kjölfar þess jókst atvinnuleysi meira en þjóðin hefur þekkt í tugi ára. Hvort tveggja kostar þjóðfélagið gríðarlegt fé en verst er að staðan hefur valdið eignamissi, óhamingju, óþolandi einangrun fólks, sundrað fjölskyldum og dregið úr getu þjóðfélagsins til uppbyggingar. Sjálfstæðisflokkurinn á því að setja skuldamálin og atvinnuleysið efst á forgangslista sinn. Við höfum ekki efni á öðru.

Verðtryggingin 

Rautt

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var mörkuð sú stefna að leggja af verðtryggingu lána sem hefur verið mikill skaðvaldur í þjóðfélaginu. Óréttlæti verðtryggingarinnar er fólgið í því að launatekjur eru ekki tryggðar en skuldir almennings eru það og vaxa jafnt og þétt þó launin standi í stað. Stefna Sjálfstæðisflokksins er loforð og þau ber að efna. 

Atvinnulífið 

Rautt

Efnahagslíf þjóðarinnar mun aldrei ná sér nema atvinnulífið styrkist. Mestu skiptir að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum reksturinn.

Mörg hundruð eða þúsund manna verksmiðjur eru ekki framtíðin fyrir litla þjóð. Hún byggist framar öðru á matvælaframleiðslu, sterkum sjávarútvegi og fiskvinnslu, öflugum landbúnaði, þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn, umhverfisvænum iðnfyrirtækjum og orkuvinnslu í sátt við landið. Engin sátt er um ruddalega álagningu veiðileyfagjalds og hana ber einfaldlega að afnema.

Náttúruvernd og umhverfismál 

Fjall

Gönguferðir um landið njót sívaxandi vinsælda enda skemmtilegt og ódýr tómstundagaman. Ef til vill má fullyrða að fólk sem stundar útiveru og ferðalög þekki landið mun betur en fyrri kynslóðir. Það er ánægjuleg þróun. Fyrir vikið er allur almenningur orðin mun meðvitaðri um þá staðreynd að náttúran og umhverfið er mjög viðkvæm og það hefur mikinn skilning á þessum málaflokkum. Þannig er það líka með mig. Ég mun leggja mikla áherslu á þessa málaflokka rétt eins og ég hef gert hingað til.

6. sætið 

Stóll

Flestir vita að stefna flokks markast meira eða minna af áherslum þeirra sem sitja á þingi fyrir hann. Þar af leiðandi er mikilvægt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins endurspegli eins og hægt er þann fjölmenna og breiða hóp sem stendur að framboði hans.

Í því ljósi leita ég til Sjálfstæðismanna í Reykjavík og óska eftir stuðning í sjötta sætið í prófkjörinu.

 

 

Um sjálfan mig 

070705-2

Eflaust leikur mörgum sem lesa þessar línur forvitni á að vita eitthvað um mig. Sjálfsagt er að verða við því. 

Fyrir það fyrsta er ég einstæður faðir ... raunar eru börnin mín þrjú öll uppkomin. Þau heita Heiðrún Sjöfn. Hún er 31 árs, býr og starfar með manni sínum í Noregi. Hann heitir Sigmar Ólfjörð Kárason.

Eldri sonur minn er Grétar Sigfinnur, 30 ára, og rekur auglýsingastofuna Babýlon á Laugavegi 7. Flestir þekkja hann sem KR-ing, en hann leikur með meistaraflokki KR í knattspyrnu. Sambýliskona hans er Sonja Hlín Arnarsdóttir, markaðsstjóri hjá Borgun. Þau eiga þrjár dætur, Írisi fimm ára, Rakel sex ára og Unni tæpra tveggja ára.

Yngri sonur minn heitir Bjarki Rúnar, 22 ára, og er við nám í hljóðfræði, „Sound Enginering“ í SAE-Institute í Amsterdam. Hollensk sambýliskona hans er Anna Van Der Berg. 

 

Grasrótin 

Frá sextán ára aldri hef ég verið skráður félagi í Sjálfstæðisflokknum. Ef til vill má segja að ég tilheyri svokallaðri grasrót flokksins. Þúsundir einstaklinga hafa sem sjálfboðaliðar starfað fyrir flokkinn og þeir vinna allt það sem á þarf að halda svo flokkurinn geti verið til, byggt upp stefnmál, kynnt þau, boðið fram til Alþingis og sveitarstjórna svo eitthvað sé nefnt. Í þessum hópi hef ég lengst af verið.

Ég hef setið í stjórn Heimdallar, verið varamaður í stjórn SUS, verið framkvæmdastjóri SUS og að auki setið í fjölmörgum stjórnum og málefnanefndum, sótt flesta landsfundi, starfað og stýrt kosningabaráttu í Reykjavík og víðar. 

 

Menntun

  • Námskeið, t.d. hjá Endurmenntun Háskóla Íslands; t.d. Excel fyrir viðskiptafræðinga, gerð viðskiptaáætlana, námskeið í ritlist og þýskunámskeið í Freiburg í Þýskalandi ofl.
  • Kúrsar í viðskiptafræði í Háskóla Íslands 1990 til 1992 
  • Markaðsfræðingur frá Norges Markedshögskole 1984 til 1987 
  • Kúrsar í lögfræði í Háskóla Íslands 1977 til 1979
  • Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1977

 

Starfsreynsla

  • 2012 -  Rekstrarráðgjöf, eigin rekstur
  • 2008 - 2011 Markaðs- og atvinnuráðgjafi hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd
  • 2009 - 2011 Stjórnarformaður Ness listamiðstöðvar ehf. á Skagaströnd
  • 2007 - 2008 Ráðgjafi í almannatengslum og markaðsmálum hjá Íslenskum almannatengslum ehf.
  • 2003 – 2007  Rekstrarráðgjöf, eigin rekstur
  • 2001 -  2003  Atvinnuráðgjafi hjá Atvinnuþróunarfélagi Norðurlands vestra
  • 1999 – 2001  Framkvæmdastjóri Jöklaferða á Höfn í Hornafirði
  • 1989 – 1999  Sjálfstætt starfandi við bókhald, uppgjör, skattamál og markaðsmál
  • 1980 – 1984  Stofnandi, útgefandi og ritstjóri tímaritsins Áfangar

 

Skýrslur og rannsóknir

  • Iceland 3D, viðskiptaáætlun í ferðaþjónustu, útg. í mars 2012.
  • Hótel á Skagaströnd, viðskiptaáætlun. Stofnun, bygging og rekstur hótels á Skagaströnd. Gerð fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, útg. haustið 2008. 
  • Aldursgreining í sveitarfélögum 1995 - 2005. Greining á þróun íbúafjölda í sveitarfélögum á Íslandi. Útg í maí 2002.
  • Aldursgreining í sveitarfélögum 1992 - 2002. Svipuð greining og skýrsla og hér að ofan en annað tímabil. Útg. í október 2004 fyrir Byggðastofnun.
  • Endurreisn Blönduóss. Viðskiptaáætlun um uppbyggingu á Blönduósi sem styrkt getur búsetu og atvinnulíf í bænum sem og Austur-Húnavatnssýslu. Handrit 2003.
  • Unga fólkið fór. Skýrsla um aldursgreiningu á Norðurlandi vestra gerð fyrir Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra, útgefin í júlí 2003. 
  • Jöklasýning á Höfn, viðskiptaáætlun. Útg. í júlí 2003, gerð fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð. Fjallar um stofnun fyrirtækis er sjá mun um rekstur jöklasafns á Höfn.
  • Markaðsleg staða ferðamála í Austur-Húnavatnssýslu. Könnun meðal einstaklinga og fyrirtækja í ferðaþjónustu í Austur-Húnavatnssýslu, vorið 2002.
  • Jöklaferðir, markaður og rekstur. Skýrsla um markaðslega stöðu Jöklaferða, tölulegar upplýsingar um rekstur og notkun tækja. Útg. 2001.
  • Viðhorfskönnun hjá Útivist II. Skýrsla um niðurstöður könnunar meðal farþega í öllum ferðum ferðafélagsins Útivistar í júlí 1995. 
  • Viðhorfskönnun hjá Útivist I. Skýrsla um niðurstöður könnunar sem gerð var í júlí 1990 og unnin á sama hátt og Viðhorfskönnun hjá Útivist II og frá segir í lið nr. 8 hér á undan. 
  • Annað: Athuganir á rekstri fjölmargra fyrirtækja og hugmynda um stofnun á rekstri, s.s. rekstraráætlanir, kannanir á skuldastöðu, markaðsáætlanir og fleira.  
 
Ritstörf
  • Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls, önnur útgáfa endurrituð, útg. í júlí 2012
  • Veiði á Skagaheiði, veiðilýsingar, smárit fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd,  útg. í febrúar 2012
  • Spákonufell, leiðarlýsingar, smárit gert fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, útg. í júní 2009.
  • Spákonufellshöfði, leiðarlýsingar smárit gert fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, útg. í júní 2008.
  • Gönguleiðir á Suðvesturlandi, handrit, að hluta birt á vefsíðu
  • Gönguleiðir á Goðalandi og Þórsmörk, handrit, að hluta birt á vefsíðu
  • Önnur verðlaun í smásagnasamkeppni Hins íslenska glæpafélags 2004
  • Fimmvörðuháls, bók um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls, útgefandi ferðafélagið Útivist árið 2002
  • Gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu, bók, útg. Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins 1986
  • Fjallaferðir, handbók íslenskra ferðalanga. Útgefandi Áfangar 1984
  • Pistlar; http://sigsig.blog.is, reglubundin málefnaleg bloggskrif síðan í desember 2006.
  • Önnur ritstörf; fjölmargar greinar í blöð, tímarit og vefsíður um ýmis efni
 
Sjónvarpsþættir
Framleiddi fyrir sjónvarpið tólf þætti um útiveru, mannlíf og ferðalög hér á landi undir nafninu Áfangastaðir. Markmiðið með þeim var almenn landkynning. Þessir þættir nefnast:
  • Básar á Goðalandi
  • Fagrir staðir                               
  • Gengnar götur                            
  • Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur
  • Hattver                                       
  • Náttúrulegar laugar
  • Náttúruminjar í Skaftárhreppi     
  • Öndverðarnes.
  • Óteljandi íslenskt
  • Reykjanesfólkvangur
  • Tröll í íslensku landslagi             
  • Vinsælar gönguleiðir                   
Samherji og meðframleiðandi við gerð þáttanna var Guðbergur Davíðsson, kvikmyndagerðarmaðursem sá um myndatöku og eftirvinnslu, en ég sá um val á stöðum, handritsgerð og var þulur í þeim. Þættirnir voru sýndir í sjónvarpinu á árunum 1995 til 1996. 
 
Framleiddi að auki með Guðbergi sjónvarpsþættina „Aðalvík, byggðin sem tæknin eyddi“ og „Messuferð til Aðalvíkur“, gerði handrit þeirra og las texta. Þættirnir voru sýndir í sjónvarpinu 1996. Enn er ósýndur sjónvarpsþátturinn „Jeppar á fjöllum“ sem Sjónvarpið þó keypti 1996.
 
Félagsmál
  • 2007 – 2008 Stjórn Almannatengslafélags Íslands
  • 2001 – 2002  Stjórn Ferðamálafélags Austur-Húnavatnssýslu
  • 1999 – 2001  Ritstjórn Neytendablaðsins
  • 1987 – 1998  Trúnaðarstörf fyrir ferðafélagið Útivist
  • 1984 – 1986  Formaður í Neytendafélagi Reykjavíkur og nágrennis
  • 1984 – 1986  Ritstjóri Neytendablaðsins
  • 1982 – 1986  Sat í umhverfismálaráði Reykjavíkurborgar
  • 1983 – 1986  Stjórn Reykjanesfólkvangs fyrir Reykjavíkurborg

 


mbl.is Býður sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir, aumkunarverður flokkur

Enginn flokkur verður aumkunarverðari í kosningabaráttunni í vetur og vor en VG“, segir Styrmir Gunnarsson á Evrópuvaktinni. Og hann hefur rétt fyrir sér.

Í nokkurn tíma eftir að Vinstri grænir samþykktu þingsályktun um inngöngu Ísland í ESB var mörgum andstæðingum flokksins hlátur í huga. Hvernig getur stjórnmálaflokkur svikið stefnuskrá sína og kosningaloforð? Jú, þeir ætluðu að fá að kíkja í pakkann, hvort niðurstöður viðræðnanna þýddu fyrir Íslendinga.

Það þurfti þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, til að útskýra fyrir þjóðinni að þetta væru ekki aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður. Ísland væri búið að sækja um aðild og nú færi fram aðlögun íslenskrar stjórnskipunar og laga og réttar að Evrópusambandinu.

Pakkinn er í raun og veru sá að það sem útaf stendur, það sem íslensk stjórnskipun er ekki eins og sú í ESB, ber Íslandi að breyta sinni. Það ferli er fyrir löngu hafið og hámark þess er breyting á stjórnarskránni. Í stað þess að breyta núgildandi stjórnarskrá stendur til að henda henni og önnur tekin í staðinn þar sem gert er ráð fyrir að Alþingi geti með einfaldri lagabreytingu afsalað fullveldi þjóðarinnar að hluta eða öllu leyti

Og nú er svo komið að handlangari Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna og allsherjarmálaráðherra, Björn Valur Gíslason, alþingismaður, segist einfaldlega vera sammála aðild verði aðlögunarviðræðurnar jákvæðar og þjóðin haldi yfirráðum sínum yfir fiskimiðunum. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG er sammála þessu, sem og Þráinn Bertelsson, þingmaður VG.

Gjá að myndast hjá VG, tvær fylkingar, önnur vill ljúka ESB umsókn sem fyrst hin vill samning,“ segir í fyrirsögnum Morgunblaðisins í morgun.

Flokkur sem stendur svona að málum er tvímælalaust aumkunarverður


Atvinnuleysi eða gengisfelling

Örríki á fáa möguleika aðra en ofurgóða hagstjórn og dugar þó ekki alltaf til. Á jafnvægisvoginni eru tveir meginþættir. Fari verðbólgan upp fer yfirleitt atvinnuleysið niður og öfugt. Þannig er það í ESB, þar er atvinnuleysið að drepa almenning.

Atvinnulíf á Íslandi hefur tekið miklum breytinum frá því í upphafi síðustu aldar. Mestan tímann var hún afar mikið háð fiskveiðum og vinnslu. Og svo einhæft var atvinnulífið að aflabrögð höfðu áhrif á efnahagslífið og þar með á gjaldmiðilinn. Þegar síldin hvar óx verðbólgan.

Eflaust hefði verið hægt að hafa það þannig að krónan héldi gildi sínu hvað sem á gengi. Þá hefðu áföll í sjávarútvegi orðið til þess að þúsundir manna hefðu misst atvinnuna. Er það eitthvað sem er eftirsóknarvert.

Það þýðir ekkert fyrir Guðmund Gunnarsson að vaða fram í fjölmiðlum og halda því fram að stjórnmálamenn hafi af skepnuskap sínum einum saman fellt gengi krónunnar til að koma í veg fyrir að launafólk fengi réttláttar launahækkanir.

Guðmundur sleppir því viljandi eða af þekkinarleysi að útskýra hvers vegna gengi íslensku krónunnar féll sí og æ. Það hentar hins vegar ekki vegna þess að prédikun Guðmundar miðast við að gylla Evruna enda er hann þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Þær kröfur verður þó að gera til manna að þeir fari rétt með í sagnfræði sinni.

 


mbl.is Krónan mesti óvinur launamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LSH minnkaður úr 174 þúsund ferm í 235 þúsund ...!

Venjulegt fólk eins og ég skilur ekkert í fyrirhuguðum framkvæmdum við nýjan Landspítala, háskólasjúkrahús (LSH). Skilja ekkert í því hvers vegna gríðarlegu byggingarmagni sé fleygt inn í Þingholtin í Reykjavík, rétt eins og verið sé að byggja virki innan þessa lágreista hverfis.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hún er sjúkraliði að mennt og einnig verkfræðingur, sérhæfð í sjúkrahússkipulagi. Í greininni er hún að svara Ingólfi Þórissyni sem mun vera varaformaður bygginganefndar.

Í greininni segir Guðrún að í upphafi hafi erlendir ráðgjafar metið það sem svo að 90-120 þúsund fermetra spítali gæti þjónustað landsmenn. Árið 2005 var ákveðið að hanna 174 þúsund fermetra spítala. Og svo kemur gullkorn:

Vegna breyttra aðstæðna er fengið álit norskra ráðgjafa, í framhaldinu er ákveðið að „minnka“ spítalann í 235.000 fermetra og það er sú tillaga sem er beðið er eftir að skipulagsyfirvöld höfuðborgarinnar samþykki.

Og Guðrún rekur söguna og af mikilli kaldhæðni ritar hún eftirfarandi:

Það eru liðin rúm 10 ár frá því ákveðið var að byggja háskólasjúkrahús. Í framhaldi af þeirri ákvörðun hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á heilbrigðisþjónustu landsmanna, það hefur komið ítrekað fram í fjölmiðlum, ræðu og riti að í framtíðinni verði öll sérhæfð sjúkrahúsþjónusta veitt á LSH og á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, önnur sjúkrahús landsins veiti almenna sjúkrahúsþjónustu. 

Þessi áform voru sett í lög árið 2007, afleiðingin er sú að búið er að loka flestum skurðstofum landsins og fækka fæðingarstöðum. Þessar breytingar eru kynntar á þann veg að verið sé að bæta þjónustuna með því að leggja hana af.

Guðrún segir beinlínis að markvisst sé verið að koma þeirri hugsun inn að núverandi húsakostur Landspítalans sé ónógur:

Frá því ákvörðun um NLSH árið 2002 var tekin, hefur húsnæði LSH fengið lágmarksviðhald og tækjakaupum hefur verið frestað þar til starfsemin flyst í nýtt húsnæði á þeim forsendum að núverandi húsnæði uppfylli ekki kröfur um burðarþol, lofthæð og tæknikerfi.  

Hagræðingin við nýjan spítala virðist vera lítil. Guðrún segir að hún sé reiknuð þannig að stöðugildum fjölgar ekki heldur á að fjölga sérgreinum, tækjum og skrifstofum.

Einhvern veginn æxlast það þannig að eftir lestur greinarinnar skil ég enn minna í þeirri ákvörðun að byggja eigi nýjan spítala í Reykjavík. 

 


Úrelt fóbía og landnám glæpasamtaka

Að sjálfsögðu er fleira sem sameinar íslenska þjóð en sundrar henni. Skárra væri það nú. Ástæða er þó að óska þess að þeir sem stunda þrætubókarlist stjórnmálanna með litlum árangri sjái endrum og eins ljósið. Ekki er beðið um neitt meira, bara endrum og eins.

Þroski ætti að fást með aldri. Það er þó ekki sjálfgefið. Það vekur þó athygli þegar menn eins og Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra, stendur upp og brýnir samherja sína í pólitík. Á vef hans, Vinstri vaktinni gegn ESB, sem ætti að vera skyldulesning öllum Íslendingum, segir hann:

Vinstriflokkarnir leggjast gegn heimildum lögreglun til að vinna forvarnarstarf gagnvart glæpahópum. Yfirvarp ríkisstjórnarinnar er að forvirkar rannsóknaheimildir gætu leitt til ofsókna gegn hversdagslegu fólki með vinstrihneigð í stjórnmálum.

Sögulega fóbíu vinstrimanna gegn lögreglunni má rekja til kalda stríðsins, t.d. 30. mars 1949. Deilurnar sem ristu djúpt á sínum tíma eru komnar á öskuhauga sögunnar og eingöngu áhugaverðar sem sagnfræði.

Það mun kosta vinstriflokkana stórt að standa því að efla lögreglu til að kljást við glæpasamtök. 

Er ekki óhætt að fullyrða að í litlu landi eins og okkar sé hreinlega vonlaust að stunda einhverjar ofsóknir. Fólk sættir sig ekki við slíkt vegna þess að stjórnmálaskoðanir ganga yfirleitt þvert á fjölskyldubönd, vinátta og kunningsskapur tengist oftar en ekki þrátt fyrir pólitík og enginn óskar vinum, kunningjum eða ættingjum ofsókna vegna skoðana þeirra. Við sættum okkur ekki við slíkt.

Látum ekki sögusagnir eða fóbíu vinstri manna eða einstaklingsfrelsi hægri manna verða til þess að glæpasamtök taki að stunda landnám hér.


Nýi-Fúkki er alveg eins og Gamli-Fúkki

DSC_0089

Á Fimmvörðuhálsi, við enda vegarins stendur Gamli-Fúkki. Hann er ónýtur eins og allir vita sem inn í hann hafa komið. Í hans stað er kominn nýr skáli sem Ferðafélag Íslands á.

Ég fór um síðustu helgi upp á Háls og á leiðinni til baka leyfði ég mér að skoða Nýja-Fúkka. Hann er alveg eins og sá gamli. Báðir eru A-laga. Í hvorugum er salerni og ekkert vatn. Gera má ráð fyrir að Ferðafélagið muni flytja vatn að skálanum enda ætti það að vera auðvelt. Hugsanleg er verður byggt útisalerni eða kamar. Hvort tveggja er misráðið enda krafan sú að fólk geti gengið erinda sinna innanhúss.

DSC_0679

Sá nýji er nokkrum metrum austan og neðan við þann gamla. Það er ekki góður staður. Mig minnir að þarna sé alltaf fullt af snjó að vetrarlagi og langt fram eftir vori og sumri. Gamla-Fúkka var viljandi eða óviljandi valinn staður þar sem snjór safnast lítt. Hæðarmunurinn sést vel á meðfylgjandi mynd.

Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna Nýji-Fúkki þurfti að vera alveg eins og sá gamli. Lagið á honum er ómögulegt. Gefur litla kosti á gluggum, birtan inni verður lítil.

Þegar ég gekk inn í skálann datt mér í hug að einhver sem ekkert þekkir til gönguferða hafi fengið frjálsar hendur við hönnun hans og smíði.

DSC_0074

Stærsti gallinn er hversu andyrið er lítið og þröngt. Það er óskiljanlegt. Göngufólk kemur með bakpoka inn, blautar yfirhafnir, stundum þreytt og hrakið. Þarna er útilokað er fyrir meira en fjóra að athafna sig í einu. Aðrir verða líklega að bíða úti sem er slæmt. Síðan eru fólk nauðbeygt að taka farangurinn inn fyrir anddyrið, hvernig sem ástand hans er. Það getur verið slæmt í bleytu eða snjó. Í slíkum tilfellum er betra að geta geymt hann frammi í rúmgóðu anddyri.

Hvergi er gert ráð fyrir að hægt sé að þurrka fatnað. Það er nú einu sinni eitt það mikilvægasta fyrir göngumann. Þó er lítil gashitari á norðurgafli og gaseldavél á hinum endanum. Það dugar þó varla til.

DSC_0093

Ég held að húsið fyllist fljótt af raka þegar fólk kemur inn með blautan farangur og fatnað. Ekki veit ég hvernig húsið ræstir sig. Gamli-Fúkki gerði það illa og þess vegna fúnaði hann að innan og krafðist loks uppnefnisins.

Þó ég skilji ekkert í því hvers vegna Ferðafélag Íslands er að nema landa á Fimmvörðuhálsi finnst mér ekki ósennilegt að það sé til framtíðar.

Sagt er að félagið ætli að eigna sér alla gönguleiðina frá Landmannalaugum að Skógum. Í krafti fjármagnsins er ætlunin að ryðja úr vegi litla Útivist, félaginu má segja að hafi byggt upp ferðir á Fimmvörðuháls á síðustu 22 árum. Það gerði félagið með ótrúlega mörgum ferðum, þeirra á meðal Jónsmessunæturgöngunni, sem margir hafa reynt að herma eftir en engum tekist.  

940107-7

Engu að síður er ástæða til að óska Ferðafélagi Íslands til hamingju með vistlegan skála á Fimmvörðuháls og vonandi verður hann göngufólki til góðs.

Það kemur síðan í ljós hvort skálinn muni einhvern tímann ná því að vera kallaður eitthvað annað en Nýji-Fúkki.

Myndirnar með þessum pistli skýra sig sjálfar. Ekki get ég sagt að ég sakni Gamla-Fúkka, en hann var þó þarna og ef til vill betri en enginn. 


Fræga fólkið vill henda gömlu stjórnarskránni

Fjöldi leikara og annarra sem teljast til fræga fólksins hefur tekið þátt í því að gera auglýsingu um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið. Auglýsingin er tæknilega vel unninn og hugsanlega má segja að hún sé áhrifamikil vegna þeirra sem leggja nafn sitt við hana. Þótt hún sé eftiröpun bandarískrar auglýsingar skiptir það engu máli. Íslenska útgáfan er góð.

Það breytir þó því ekki að auglýsing er ekki efnislega traust. 

Þetta er auðvelt. Fá Ladda, Pál Óskar, Arnar Jónsson, Kjartan Ragnarsson, dr. Gunna og fullt af öðru flottu og frægu fólki til að vera kaldhæðnislegt gegn stjórnarskrártillögum stjórnlagaráðs, snúa svo blaðinu við. Allt er þetta fólk heimilisvinir og við glottum út í annað þegar það segir: „Ekki kjósa“ og svo koma allir frasarnir um tjáningafrelsi, gagsæi í stjórnsýslunni, auðlindir í þjóðareign og svo framvegis.

Þetta minnir mig á herstöðvaandstæðinga. Þeir gátu sungið landinu til dýrðar vegna þess að málið var sett þannig upp að þeir sem voru með Nató og herstöðinni voru gegn landinu, voru með hernaði en gegn friði, með dauða en gegn lífi. Enginn syngur gegn landinu sínu eða móti friði.

Svona einfalt er ekki lífið. Það dugar ekki fyrir hugsandi fólk að þykjast. Hugsandi fólk sættir sig ekki við að Laddi segi því að stjórnarskrárdrögin séu góð, ekki frekar en þegar Jóhanna Sigurðardóttir eða Þorvaldur Gylfason segja það. Og kosningin sem slík er ekki skynsamlegt jafnvel þó Páll Óskar og Steingrímur J. Sigfússon segja það. Þetta er í sjálfu sér ekki þjóðaratkvæðagreiðsla eins og Icesave. Til þess eru kostirnir of skrýtnir. Þetta er skoðanakönnun og sjálfsagt að taka þátt í henni og segja NEI af því að kjósandinn má taka afstöðu. Ef það er eitthvað sem hann er óánægður með í tillögum stjórnlagaráðs þá dugar það til að segja NEI. 

Hins vegar er ekki úr vegi að snúa auglýsingunni við. Hvað er svona slæmt við þá stjórnarskrá sem við búum nú við? Af hverju þurfum við að henda henni?


Menntamálaráðherra ræðst á Hjallastefnuna

Smáfuglarnir sjá að Katrín Jakobsdóttir hefur lagt upp í enn eina herförina gegn einkareknum skólum. Katrín hefur lagt sig alla fram um að hindra aðkomu Hjallastefnunnar, fyrirtæki sem rekur nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu, að skólastarfi á Tálknafirði. Nokkrar staðreyndir liggja fyrir í málinu.
  • Hjallastefnan hefur rekið skóla með myndarbrag í mörg ár.
  • Hjallastefnan rekur skólana með mun minni tilkostnaði en ríkið.
  • Nemendur skólans koma betur út í samanburðarprófum en nemedur ríkisskólanna.
  • Mikil ánægja er meðal foreldra og starfsfólks.
  • Hjallastefnan er eftirsóttasti rekstraraðili skóla á Íslandi.
  • Foreldrar og kennarar á Tálknafirði eru hæst ánægðir með aðkomu Hjallastefnunnar.
  • Þrátt fyrir allt þetta telur Katrín Jakobsdóttir að enginn skuli reka skóla nema embættismenn íslenska ríkisins. Þeir skulu segja foreldrum einhliða hvað sé í boði og kennurum einhliða hvernig að því skuli staðið. Allt frelsi og frumkvöðlastarf í þeim efnum er ekki velkomið.
Aðför Katrínar Jakobsdóttur að Hjallastefnunni er með miklum ólíkindum og velta smáfuglarnir fyrir sér hvort rétt sé að fórna öllu fyrir gömlu kommakreddurnar um algjöran ríkisrekstur á öllum sviðum samfélagsins?
 
Ofangreint er af vefmiðlinum amx.is í dag. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband