Þrálátt suð í norðureyranu í Heiðmörk

Dv

Miklir jarðskjálftar hafa orðið á undanförnum árum, eldgos brotist út, þjóðfélagið fór næstum á hliðina og ég hef ítrekað skorið mig í fingur. Aldrei nokkurn tímann, aldrei hefur mig dreymt fyrir því sem gerist mun, hvorki ómerkilegt né merkilegt. Nema því aðeins að ég sé svo slakur í draumaráðningum.

Til er fullt af fólki sem er svo merkilega berdreymið að það gæti hreinlega opnað fréttaveitu. Í frétt á dv.is í dag segist borgarfulltrúi Vinstri grænna hafa dreymt fyrir skelfilegum atburðum. Hún nefnir meðal annars eldgos í Heiðmörk.

Datt mér ekki í hug, varð mér að orði, er ég las fréttina. Að öllu jöfnu hefði ég ekki lesið svona frétt en þetta með Heiðmörk vakti athygli mína. Og nú skal ég segja frá því.

Í allt sumar hef ég iðkað hlaup. Byrjaði upp á nýtt eftir nokkra ára hlé og er í miklu stuði eftir nær fjögurra mánaða skokk. Heiðmörk er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar er gott að hlaupa, mjúkir stígar, brekkur, beygjur og „allt“ ... Í fyrstu valdi ég fjögurra kílómetra hring og eftir að hafa náð þar góðum árangri tók ég til við að hlaupa annan sem er 7,8 km langur. Ég er nú ekki búinn að missa þráðinn í þessari frásögn minni því nú kemur að því athyglisverða.

Hei#134646

Í hvert skipti að ég kem að bílastæðinu við fjögurra kílómetra hringinn legg ég bílnum alltaf á sama hátt á Borgarstjóraplaninu svokallaða og geng út. Alltaf er ég opna bílhurðina og stundum áður fæ ég svo ákaflega mikið suð í norðureyrað ... ekki það syðra. Ef ég sný mér, þá verður norðureyrað að suðureyra og suðureyra að norðureyra, vona að lesendur missi ekki athyglina við svona tæknileg flókna frásögn. Þá heldur suðið áfram í suðureyranu en ekkert heyrist í því nyrðra. Hið sama gerist þegar ég legg bílnum við brúna þar sem ég byrja 7,8 km hringinn. Suðið er samt miklu minna í norðureyranu en á Borgarstjóraplaninu og það hverfur síðan er ég byrja hlaupin. Hið merkilegasta við þetta er að er ég kem hlaupandi upp á Borgarstjóraplanið, þar sem ég áður lagði bílnum, byrjar suðið í norðureyranu, en hættir síðan er ég hleyp undan því (held ég)

Og hvað þýðir þetta suð. Ég er alveg pottþéttur á að það á rætur sínar að rekja til innanmeina í jarðskorpunni undir Heiðmörk, hægra hreyfinga á kviku sem bíður þess að skjótast upp þegar aðstæður verða réttar. Nú skilja lesendur mínir hvers vegna athygli mín vaknaði við lestur draumfara borgarfulltrúa Vinstri grænna. Ekki það að ég hafi alltaf tekið mikið mark af fólki í þeim flokki en líklega er meiri von til þess að eitthvað skynsamlegra komi frá þeim í meðvitundarleysi. 

Nú fer ég að draga mikið úr hlaupum í Heiðmörk. Fáir eru þar á ferð nema stöku hjólreiðamenn. Hins vegar lengjast skuggarnir og það verður æ draugalegra á þessum slóðum - tja ... þangað til að jarðeldar varpa ljósi á svæðið og hraun tekur að renna.

Á kortinu sjást þessir hlaupahringir mínir. Upphaf gula hringsins er á svokölluðum Heiðarvegi sem liggur í suðaustur. Bílnum legg ég við Borgarstjóraplan. Upphaf bláa hringsins er á bílastæðinu sunnan við brúnna milli Elliðavatns og Helluvatns.

(Held að ég hafi aldrei skrifað bjálfalegri pistil) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Alls ekkert bjálfalegt, Sigurður! Hvort tveggja er áhugavert. Þetta minnir mig á Véfréttina í Delfi, en þar streymdi líkast til gas upp um sprungu til Hofmeyjanna. Suðið er þá kannski gasstreymið. Ertu kannski orðinn jafn spengilegur og hofmeyja?

En mér þykir þú góður að villast ekki í stígunum í Heiðmörk þegar húma tekur að. Oft gleymir maður sér þarna, hleypur vitlaust og þá verður 8 km túr 12km langur.

Ívar Pálsson, 3.10.2012 kl. 20:53

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, minn kæri, fyrir vinsamleg orð. Nei, ég get orðið hlaupið arna blindandi. En nú er maður svo góðu vanur að maður sættir sig ekki við hvaða hlaupaleið sem er innan borgarinnar. Ef til vill er Fossvogsdalurinn bestur, frá Víkingi og vestur í Skerjafjörð.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.10.2012 kl. 21:11

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Sæll Sigurður. Leiðin um Fossvogsdal í Skerjaförð eða öfugt er einmitt þrautgóð, sérstaklega í veðrum. En á vetrum í norðangarra er best að hafa "buff" með sér til nota fyrir neðan flugbrautina, þar getur nætt hressilega. Hlaup frá Ægisíðu við Hofsvallagötu suður og austur stíginn er 2,5 km hjá Bláa húsinu í Nauthólsvík eða 7,5 að Víkingi í Fossvogi. Þannig er hægt að hlaupa t.d. undan vindi og í skjóli í norðanveðrum ef manni er skutlað fyrst.

Ívar Pálsson, 4.10.2012 kl. 16:25

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Smávilla, afsakið. Ægisíða- Nauthólsvík er 3,5 km, en samt 7,5 km rétt áður en komið er að Víkingi.

Ívar Pálsson, 4.10.2012 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband