Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011
Meirihluti Alþingis ber pólitísk ábyrgð á Landsdómi
10.5.2011 | 17:44
Landsdómur er úrelt fyrirbæri, flestir lögfræðingar eru á þeirri skoðun. Samkvæmt lögum um dómin samþykkti Alþingi að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Síðan er samin ákæra og þá er málið rannsakað fyrir dómi. í millitíðinni er lögum hagrætt til að þau falli að málarekstrinum.
Í réttaríki er mál fyrst rannsakað og á grundvelli þess tekin ákvörðun hvort sækja skuli mann til saka eða ekki. Sé hið fyrrnefnda gert er samin ákæra á grundvelli rannsóknarinnar.
Er í lagi að vinna svona? Hafa þeir sem sitja í landsdómi geð í sér til að leggja nafn sitt við svona vinnubrögð? Ég hef enga trú á að dómarar muni sakfella Geir H. Haarde. Þá mun eftir standa sú spurning, hvað með pólitíska ábyrgð þeirra sem samþykktu tillögu um að ákæra manninn fyrir Landsdómi.
Rökstuðning skortir í ákærunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Auðvelt að fækka vanskilum um tvo þriðju
10.5.2011 | 15:52
Árlega skila öll fyrirtæki skattframtali. Það er í flestum tilfellum gert rafrænt. Til viðbótar er ársreikningi skilað sem viðhengi. Þar með er Ríkisskattstjóri kominn með öll nauðsynleg gögn til álagningar.
Þessu til viðbótar þarf að skila inn til Ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra einföldum ársreikningi. Nákvæmlega þetta veldur fyrirtækjum vanda.
Sum vilja einfaldlega ekki skila, önnur vanrækja og þau eru til sem gleyma. Tveir síðustu hóparnir eru yfirleitt lítil fyrirtæki.
Ástæðan fyrir því að fyrirtæki vilja ekki skila inn er sú að ársreikningar í Ársreikningaskrá eru opinber gögn. Hver sem er getur beðið um ársreikning og fær hann sendan um hæl. Þetta telja margir hnýsni og í mörgum tilvikum er um að ræða samkeppnisaðila sem reyna með öllum ráðum að afla sér upplýsinga.
Nú er staðan einu sinni þannig að lög kveða á um skil ársreikninga til embættis Ríkisskattstjóra. En er ekki hægt að gera hlutina einfaldari? Á síðustu árum hefur orðið gjörbreyting í skilum á framtölum einstaklinga og fyrirtækja. Flestir ganga frá framtölum sínum á netinu.
Á afar einfaldan hátt er hægt að koma því þannig fyrir að skil á ársreikningum til Ársreikningaskrár verði rafræn og sé tengd við framtal viðkomandi fyrirtækis eða rekstraraðila.
Um leið og gengið er frá framtali sé viðbót sem er einfaldur ársreikningur fyrir Ársreikningaskrá. Jafnvel er hægt að koma því þannig fyrir að ekki sé hægt að skila framtali nema þessi ársreikningur sé frágenginn.
Þeir ágætu starfsmenn RSK sem sinna tövumálum fyrirtæksins og forritun hljóta að geta gengið frá þessari viðbót. Ef ekki þá skal ég sjá um það fyrir lítilsháttar þóknun.
Það sem mestu máli skiptir er að gera hlutina einfalda, auðvelda fyrirtækjum og rekstraraðilum að sinna löbundinni skyldu sinni.
Á ofangreindan hátt má minnka vanskilalistann hjá ársreikningaskrá um tvo þriðju. Þeir sem vanrækja og gleyma skila með þessu móti framvegis ársreikningi. Hinir, sem vilja ekki skila ..., tja ... eigum við bara ekki að senda sérstakan saksóknara á þá.
Skil á ársreikningum óviðunandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rekstur bankanna hærri en Landsspítalans
9.5.2011 | 09:51
Stundum verður maður hreint gapandi hissa á staðreyndum úr þjóðfélaginu.
Árið 2009 var rekstrarkostnaður stóru bankanna þriggja 24.7% hærri en Landsspítalans.
Ári seinna eða 2010 var þetta hlutfall komið upp í 51.5%. Ansi umhugsunarvert.
Á milli áranna 2009 og 2010 lækkuðu heildar rekstrargjöld Landspítalans úr 38.8 ma niður í 36.5 ma eða um 6.1%.
Á sama tíma hækkaði rekstrarkostnaður bankanna þriggja um 14.2% eða úr 48.4 ma í 55.3 ma.
Hvernig getur það gerst að rekstur þriggja banka sé dýrari en rekstur Landsspítalans, þjóðarspítalans? eða öllu heldur, hvernir stendur á því að bankakerfið þenst út á meðan rekstur langflestra annarra fyrirtækja og stofnana dregst saman?
Ofangrein tilvitnun er út bloggi Andra Geirs Arinbjarnarsonar, http://blog.eyjan.is/andrigeir.
Heiðurslistamaður og þingmaður tapar á geðillsku sinni
9.5.2011 | 08:30
Árangur í nefndarstarfi byggist á tvennu, málefnanlegri umræða og sæmilegu trausti á milli fólks. Hið síðarnefnda þarf ekki endilega að þýða annað en að fólk vinni þokkalega saman til þeirra verka sem því er trúað fyrir.
Greinilegt er að Þráinn Bertilsson getur ekki í Þingvallanefnd unnið með fólki sem hann kallar fasistapakk. Þar með á hann að víkja úr nefndinni.
Hvað heldur fólk eiginlega að Þingvallanefnd sé að gera? Fjalla um ríkisleyndarmál eða byggja leynilega geimrannsóknarstöð ...?
Nei, Þingvallanefnd sér um nokkra fermetra sem kallaðir eru þjóðgarður. Hversu flókið er það starf? Svar: Afskaplega einfalt nema einhver reyni að flækja það.
Síðan Þráinn Bertelsson kom á þing hafa óstjórnleg leiðindi umlukið hann og þá flokka sem hann hefur kosið að starfa með. Hann hefur orðið vís að því að tómu bulli eins og þegar hann hélt því fram að ríkisstjórnin ætti að segja af sér myndi meirihluti þjóðarinnar vera á móti Icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta sagði hann að vísu þegar hann hélt að stefna ríkisstjórnarinnar ætti einhvern hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Á daginn koma að svo var ekki í þessu máli frekar en öðrum.
Í ljósi þessa er kominn tími til að heiðurslistamaður Alþingis og þingmaður Alþingis brúki til góðra verka þann kraft sem áreiðanlega í honum býr en rífi ekki kjaft. Hann tapar alltaf á eigin geðillsku.
Óstarfhæf nefnd án afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Engin verðmætasköpun, enginn hagvöxtur
6.5.2011 | 15:55
Þetta er nákvæmlega það sem flestir hafa verið að segja undanfarin misseri, allir nema ríkisstjórnin. Hún telur okkur trú um að það sé allt í góðu hér á landi svo fremi sem ríkissjóður fái sitt. Skattar eru hækkaðir, og fólk dregur úr akstri, gjöld eru hækkuð og fólk sparar við sig. Minna kemur í kassann. Samdráttur verður vegna þess að fólk hugsar meir um sig og sína en stöðu ríkissjóðs.
Sú hagfræðikenning gengur ekki upp að hægt sé að reka ríkissjóð án þess að verðmætaaukning verði í landinu.
Verðmætasköpun skipti öllu en ríkisstjórnin veit ekki af því.
Horfur einna dekkstar á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sérfræðingar í að fela staðreyndir og villa um fyrir þjóðinni
6.5.2011 | 08:42
Lof sé aðilum vinnumarkaðarins eins og þeir eru kallaðir, þetta fólk sem setur reglulega upp leikrit með og án þátttöku sáttasemjara ríkisins. Nú eru þeir búnir að semja. Og allur almenningur heldur að lélegt leikrit sé heilagur sannleikur, tilveran sjálf.
Svo meðvirkir eru fjölmiðlar að í þeirra munni heitir húsnæði sáttasemjarans Karphúsið. Ekki nóg með það. Fátt segir af niðurstöðum kjarasamninga en enn meira af vöflum, sultu og rjóma. ekki er spurt um ágreiningsefnin, aldrei er farið ofan í saumana á kjarasamningunum.
Aðilar vinnumarkaðarins eru útspekúleraðir. Þeir kunna að láta líta svo út fyrir að þeir sem lægst hafa launin beri mest úr býtum. Þannig hefur það verið frá því elstu menn muna. Og alltaf virðist vera til fólk á horrimininni þrátt fyrir alla þessa umhyggju aðila vinnumarkaðarins. Guðmundur Jaki heimtaði að lægstu laun skyldu vera 100.000 krónur á mánuði og atvinnurekendur tóku andköf. Nú eiga lægstu laun að vera 200.000 krónur á mánuði og atvinnurekendur skrifa undir.
Aðilar vinnumarkaðarins vita upp á hár hverjar eru tekjur landsmanna. Þeir geta meira að segja sett nöfn og kennitölur við fjárhæðirnar. Þar af leiðandi er hvorki mikill vandi að finna þá sem þurfa leiðréttingar við eða semja um það.
Vandinn eru hins vegar sérhagsmunirnir. Aðilar vinnumarkaðarins eru orðnir sérfræðingar í að búa til samninga sem fela staðreyndir mála, bæði fyrir samkeppnisaðilum á kjaramarkaði sem og fjölmiðlum og almenningi.
Mér dettur ekki í hug að aðilar vinnumarkaðarins séu að vinna fyrir þá sem lægst hafa launin. Þeir eru að vinna fyrir þá sem hafa meðallaun og eftir því hærri laun. Sá stóri fjöldi, og hann er visslulega mjög stór miðað við þá fáu sem hafa lægst launin, sættir sig einfaldlega ekki við skerðingar á launum. Hann vill launahækkun. Flugmenn og flugumferðastjórar vilja sínar launahækkanir og ekki eru þeir beinlínis á neinni horrim eða hvað?
Og auðvitað er þetta allt leikrit til að fela staðreyndir mála. Þetta er ekki kjarabarátta heldur grímulaus hagsmunabarátta jafnt verkalýðs- sem atvinnurekenda. Gömlu slagorðin eru aðeins leiktjöldin og mestu skiptir að PR málin séu í réttum gír og fjölmiðlar haldi að allir séu að vinna baki brotnu að kjarasamningum
Ég vil spyrja þá sem dettur í huga að efast um orð mín, hvort ekki séu einfaldari og skilvirkari aðferðir til að semja um kaup og kjör en með aðferðum sem tíðkast hafa í tugi ára, hófust löngu fyrir tölvuöld?
Meðfylgjandi mynd er úr Morgunblaðinu í dag, hana tók Ómar. Stjórnlaus fögnuður, Vilhjálmur og Grímur Sæmundsen eru orðnir rjóðir af vöffluáti og formaður SA fer í limbó.
Kaupmáttur talinn vaxa um 3-4% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þvílík leikrit, þvílíkur vitleysisgangur ...
4.5.2011 | 15:27
Þetta var þá sama gamla leikritið. Öll lætin, allir gömlu frasarnir og allar hótanirnar. Ekkert að marka þetta. Menn móðgast sitt á hvað, vísa kröfum til sáttasemjara, heimta eitthvað frá ríkisstjórninni, lenda í þrasi.
Og ríkisstjórnin stendur eins og trélíkneski í miðju spilinu, veit ekkert hvað hún á að gera, skilur ekki hamaganginn, segir eitthvað sem er hent á lofti, misskilið, vanskilið og óskilið.
Ó hve létt er þitt skóhljóð, kyrjar verkalýðsrekendur og skella hurðum. Við viljum loforð frá ríkisstjórninni, hrópa atvinnurekendur og neita að skrifa undir þriggja ára samning sem þeir að lokum skrifa undir.
Sært stolt forseta ASÍ var nú ekki merkilegra en svo að þrátt fyrir öll stóru orðin og fyrsta maí í millitíðinni, að nú á að skrifa undir páskasamninginn.
Gengur þetta lengur? Er ekki skynsamlegri og árangursríkari leið til að vinna kjarasamninga en að haga sér eins og vinsælast þótti fyrir fimmtíu árum?
Það er eiginlega ótrúlegt á upplýsingaöld að ekki skuli vera hægt að klára samninga á hljóðlátari og skynsamlegri hátt. Vita aðilar vinnumarkaðarins ekki betur, kunna þeir ekkert annað, eru þeir gjörsneiddir almennri skynsami?
Stefnir í undirritun í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Segjum upp Schengen-samningnum
4.5.2011 | 14:39
Alþingi á að taka Schengen-samningin segja honum upp. Gallar hans virðast vera miklu meiri en kostirnir. Það gengur auðvitað ekki að annars ágæt hugmynd um opin landamæri verði til þess að skipulögð glæpastarfsemi vaxi eins og raunin hefur orðið hér á landi.
Segjum þessum samningi upp og látum hvern og einn sem kemur hingað til lands framvísa tölvulesanlegu vegabréfi og vísum vonda liðinu aftur til síns heima. Við eigum nógu erfitt með íslenska glæpamenn.
Við eigum að hafa strangt eftirlit með þeim sem koma hingað til lands rétt eins og Bandaríkjamenn gera. Í því eru landvarnir okkar fólgnar að verja þjóðina fyrir glæpalýðnum sem veður uppi í Evrópu.
Vilja endurskoða Schengen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hreppamörk í Pakistan og alls kyns vígamenn
3.5.2011 | 09:05
Víg athafna- og auðmannsins Osama bin Ladens er talið vera þarft verk og gott, sérstaklega virðast Bandaríkjamenn fagna. Sama þjóð virðist sameinast í kristilegri bæn og trúarhita þegar þess er þörf en á milli þarf að vega mann og annan og fagna því.
Látum það nú liggja á milli hluta. Hins vegar vekur ýmsilegt varðandi víg mannsins athygli.
Pakistan gumar að því að vera lýðræðisríki með trausta stjórnskipan en engu að síður eru landamærin við Afganistan eins og íslensk hreppamörk - óljós á yfirborðinu og skipta ekki meginmáli.
Pakistan opið
Vígamenn Bandaríkjamanna virðast mega athafna sig að vild innan Pakistans, fljúga herþyrlum, ráðast á hvaðeina sem þeir telja ógn við sig án þess að bera það undir stjórnvöld innanlands. Þetta sama frelsi virðast alls kyns hryðjuverkahópar hafa og nýta sér það út í ystu æsar.
Pakistanir vita líklega ekki frekar en Bandaríkjamenn hverjir eru þegnar landsins. Engin almenn skráning er á íbúum né búsetu þeirra. Hver sem er virðist geta byggt sér þriggja hæða einbýishús (án bílskúrs) fyrir meira en 100 milljónir dollara eins og fjölmiðlar halda fram að athafna- og auðmaðurinn Osama bin Laden hafi gert. Hann virðist ekki einu sinni hafa þurft að skráð sig í símaskrá Landsíma Pakistans og komist upp með það.
Stafrófsröð
Vita menn hve dýrt það er að halda úti sérsveitum Bandaríkjahers. Njósna í tíu ár eftir bin Landen, rekja slóðir hans frá hellum í auðmannahverfi, hafa ekkert annað að byggja á en gaddavír ofana á rammbyggðum veggjum einbýlishússins. Hversu mörg slík hús eru til í Pakistan, hús sem kosta margföld laun alþýðumanns? Eða fara Bandaríkjamenn bara eftir stafrófsröð og byrja á víggirtum húsum í Abbottabad? Ekki er mér kunnugt um heiti sveitarfélaga og hreppa í Pakistan en varla eru mörg framar í stafrófinu.
Á bakvið konu
Svo er það þetta með konuna sem athafnamaðurinn átti að hafa skýlt sér á bakvið. Ég kaupi þessa skýringu eiginlega ekki. Eru ekki meiri líkur á því að hún hafi, rétt eins og konur almennt, farið að skipta sér af því að inn í húsið hafi ruðst brímuklættir menn með alvæpni, biluð þyrla á veröndinni, annað hjólið ofan í heita pottinum og í þokkabót bankaði enginn. Mér er sem ég sæi íslenska húsfreyju gera eitthvað allt annað en að varna slíkum mönnum inngöngu. Auðvitað komust vígamennirnir hvorki áfram né afturábak svo þeir hafa eflaust skotið konuna til að geta haldið áfram með ætlunarverk sitt.
Sofandi
Og svo er það þetta með dauða athafnamannsins. Ég trúi því ekki að til skotbardaga hafi komið og maðurinn hafi skýlt sér á bakvið konuna. Sá sem skýlir sér á bakvið einhvern er vopnlaus og eflaust hræddur um líf sitt. Dettur nokkrum manni í hug að konan hafi verið að verja manninn og brúkað til þess skotvopn. Meiri líkur eru til þess að hann hafi byrgt sig undir pilsfaldi hennar. Nærtækasta skýringin er hins vegar sú að maðurinn hafi verið sofandi enda þreyttur eftir tíu ára flótta.
Erann dauður?
Dauði bin Landens, sé hann yfirleitt dauður, er sigur hryðjuverkamanna. Auðmaðurinn verður því ávallt sigurvegari, jafnt dauður sem lifandi. Hvers vegna þá að drepa manninn? Samkvæmt heimildum mínum innan bandaríkjahers, Pentagon og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna er Osama bin Laden lifandi. Meintur dauði hans var sviðsettur og Bandaríkjamenn tapa áróðursstríðinu hvort sem hann er lifandi og frjáls eða dauður, brenndur og í votri gröf.
Það er síðan allt annað mál sé hann lifandi í haldi á ókunnum stað. það léttir sálrænni pressu af stjórnvöldum í Bandaríkjunum. Nú geta þau kreist hann og snúið upp á hans stóra nef í langan, langan tíma. Fengið allt upp úr honum um alþjóðlegu samvinnuhreyfinguna Alkaída.
Við efasemdamenn vil ég segja þetta: Allir vita að John F. Kennedy var ekki drepinn í Dallas. Hann lifði lengi á eftir í Þýskalandi með konu sem hét Marlyn Monroe. Það hafa meiraðsegja verið gerða bíómyndir sem sanna þetta. Bróðir hans, Róbert, var ekki heldur myrtur, býr hins vegar í elli sinni í norðarlega í Svíþjóð með ástvini sínum. Nixon var hins vegar drepinn en tvífara hans auðnaðist að klúðra málum í Vietnam. Geimverur eru í haldi í Bandaríkjunum og ætla sér heimsyfirráð, það sannar sjónvarpsmyndin Event, ef enginn trúir mér.
Hins vegar býst enginn við því að athafn- og auðmaðurinn Osama bin Laden fái að njóta efri áranna. Allar nauðsynlegar upplýsingar verða tottaðar uppúr honum og manninum síðan komið fyrir í sama fangelsi og geimverurnar eru geymdar. Sagt er að þar sé hryllileg vist.
Leitin að bin Laden | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ísbirnir hlaupa 100 m á innan við 5 sekúndum
2.5.2011 | 13:25
Gaman var að heyra í Reimari Vilmundarsyni, skipstjóra á Snædísi, í útvarpinu í hádeginu. Honum þótti verst að geta ekki komist nær birninum en 30 m á bátnum. Helst vildi Reimar komast upp í fjöru til að klappa bangsa ... Auðvitað var þetta bara í gríni sagt.
Flestir vita að ísbirnir eru afar sprettharðir, hlaupa 100 m á um fimm sekúndum. Sprettharðasti íþróttamaður heims myndi ekki bjarga sér á hlaupum undan ísbirni. Kosturinn er hins vegar sá að björninn hleypur ekki lengi. Hann er búinn að vera eftir þessa metra.
Til hvaða ráða á þá að grípa verði maður á vegi ísbjörns. Jú, einhver sagði að best væri að ferðast með öðrum og sá væri slakari hlaupari en maður sjálfur ...
Annar bætti því við að ísbirnir væru afar forvitnir. Væri maður einn á ferð og tæki á rás til að bjarga lífi sínu væri gott að vera með vettling, helst úhverfan fingravettling, henda honum frá sér á hlaupunum. Forvitni ísbjarnarins væri þá vakin og hann myndi staðnæmast til að skoða vettlinginn og snúa honum á réttuna. Á meðan gæti maður hlaupið nægilega langt til að hann gæti ekki náð manni á sprettinum.
Þetta síðasta er hins vegar tilgáta. Veit ekki hvort hún virkar í raunveruleikanum ...
Ísbirnir eru hræðilega grimm dýr. Best er að skjóta þá nálgist þeir mannabústaði. Urða þá síðan og láta ekki nokkurn mann vita.
Hressilegur hvítabjörn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)