Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Lýðræðið tefur og samstaðan er lasin

Æ, æ. Þessi óskapnaður sem heitir lýðræði tefur og skemmir fyrir framgangi þjóðþrifamála. Afnemum bara lýðræðið og leyfum hinni norrænu velferðarstjórn að fara sínu fram. Skilningur hennar er líka heiður og tær. skattaáþján er engin á Íslandi, ríkisstjórnin ver heimilin með skjaldborg sinni og þetta allt saman.

Og þetta með samstöðuna. Ótrúlegt að þingmenn standi ekki saman ... Um hvað? Skiptir það einhverju máli. Ef í hart fer eiga menn að standa saman um stefnu ríkisstjórnarinnar.

Og menn eiga ekki að gera hróp að forsætisráðherra heldur bugta sig og beygja og taka allan þann andskota sem fram gengur af hennar munni trúanlegan.

Í því er lýðræðið fólkið eða hvað? 


mbl.is Segir stjórnarandstöðu tefja kvótaumræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónákvæmni í fjölmiðlum

Frétt Morgunblaðsins um kal í túnum er ítarleg og eftir því sem ég skil er hún góð. Í kvöldfréttum sjónvarpsins í gærkvöldi var rætt um það sama og fullyrt í inngangi að kal væri mjög mikið í túnum á Norðurlandi!

Ekki hef ég mikð vit á ræktunarmálum en hins vegar hef ég ekki séð mikið kal í túnum á ferðum mínum um Skagafjörð og Húnavatnssýslur.

Þetta leiðir hugann að landafræði fjölmargra fréttamanna. Margir þeirra eiga það til að alhæfa. Oftar en ekki er einhvað sagt vera algengt á öllu Norðurlandi þegar það er bundið við Akureyri eða Eyjafjörð. 

Ég hef búið á nokkrum stöðum á landsbyggðinni og lært nóg í landafræði til að skilja að útilokað er að alhæfa um ástand í heilum landshluta. Til þess eru aðstæður svo afar mismunandi. Landslag hefur áhrif á veður og sól og blíða á einum stað þarf ekki að þýða hið sama á öðrum þó skammt sé á milli. Kal í túnum er mikið í Eyjafirði en lítið í Skagafirði.

Jæja, þetta er nú örugglega bölvaður sparðatíningur. Engu að síður verð ég stundum fúll vegna ónákvæmni í fjölmiðlum. Hún er alltof algeng.


mbl.is 90% túna á sumum bújörðum eru kalin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silkihúfurnar í opnunarhátíð Hörpu

Stundum hefur ég verið svolítið hvass í pistlunum. Einhvern tímann kallaði ég hið virðulega tónlistarhús Hörpuna monthús. Ástæðan var einföld. Á meðan atvinnuleysi er svona mikið hér á landi og fjöldi fólks á í erfiðleikum með að ná endum saman eigum við ekki að eyða peningum í neitt nema í verðmætasköpun. Eitthvað sem skilar þjóðinni tekjum.

Hafi ég verið of hvass þá er ástæða til að biðjast velvirðingar á því ... en! Þá álpaðist ég inn á skemmtilegan vef, amx.is. Þar er fjallað um þá sem fengu boðsmiða á opnunarhátíð Hörpunnar og þá óx í mér blóðþrýstingurinn. Þarna var hver silkihúfa embættismannakerfisins og stjórnmálanna á fætur annarri en en almenningur, nei lítið um hann.

Á amx.is segir: 

Smáfuglarnir sjá að Pressan birtir þá flokka sem boðsgestir á opnunarhátíð Hörpunnar raðast í en sú flokkun kom frá forsvarsmönnum Hörpunnar. Mun það vera ansi furðulegt svar við ósk um að sjá gestalistann en vafalaust mun Katrín Jakobsdóttir birta listann sem æðsti yfirmaður Hörpunnar. En smáfuglarnir fóru yfir flokkana og niðurstaðan var einföld. Af 33 flokkum sem Harpan gefur upp snérust 28 um fólk á framfæri skattgreiðenda en aðeins 5 um þá sem stunda eða reka atvinnu á frjálsum markaði.

Á opinberu framfæri

 

  • Forseti Íslands
  • Fyrrverandi forseti Íslands 
  • Fyrrverandi menntamálaráðherrar 
  • Menningamálaráðherrar norðurlandanna 
  • Ráðherrar 
  • Þingmenn 
  • Sendiherrar 
  • Ráðuneytisstjórar 
  • Skrifstofustjórar ráðuneyta 
  • Forstöðumenn 
  • Menningarráð - fulltrúar fjórðunga 
  • Bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu og höfuðstaðs hvers fjórðungs 
  • Borgarstjórn 
  • Ráðhúsið 
  • Fyrrverandi borgarstjórar 
  • Menningar- og ferðamálaráð 
  • Sviðstjórar Reykjavíkurborgar 
  • Forstöðumenn menningarstofnanna 
  • Borgarlistamenn - tónlistartengt 
  • Íslenska óperan 
  • Sinfóníuhljómsveit Íslands 
  • Tónlistarhátíðir 
  • Tónlistarútgáfur 
  • Heiðursverðlaunahafar 
  • Listamenn kvöldsins 
  • Forsvarsmenn erlendra tónlistarhúsa 
  • Verktakar og fjölmargir af þeim aðilum sem komið hafa að verkinu 
  • Starfsmenn, stjórnir og fyrrverandi stjórnir

 

Einkaaðilar

 

  • Ferðaþjónustan 
  • Formenn tónlistarfagfélaga 
  • Innlendir fjölmiðlar 
  • Erlendir fjölmiðlar 
  • 27 fyrirtæki sem dregin voru út 

 


Vel hugsað, vel skrifað

Stundum rekst maður á góðar greinar í dagblöðum eða á vefsíðum. Oft verða þær til þess að maður áttar sig á stöðu mála og allt verður skýrara í huga manns. 

Í Mogganum í morgun rakst ég á tvær góðar greinar á sömu blaðsíðunni. Í leiðaranum ræðir höfundurinn um hræðsluáróður þeirra sem vildu að þjóðin samþykkti Icsave samninganna í vetur. Í greininni segir:

Það voru ekki aðeins sjálfskipaðir talsmenn sem fóru mikinn. Kjörnir og skipaðir fulltrúar almennings létu ekki sitt eftir liggja. Icesave var fellt afdráttarlaust, svo ekki þarf lengur að hafa „ef“ sem fyrirvara á um- ræðunni. Ekkert af því sem hótað var gerðist. Þvert á móti. Lánsfjárkostnaður hækkaði ekki eins og hótað var. Hann lækkaði. Moody’s lækkaði ekki mat á lánshæfi Íslands eins og hótað var að gerast mundi. Á Íslandi varð ekki „efnahagslegt öngþveiti“ eins og sjálfur forsætisráðherra landsins leyfði sér að fullyrða við erlenda fjölmiðla að myndi gerast félli Icesave. 

Og síðar í sömu grein segir:

Nauðsynlegt er að trúverðugir aðilar fari yfir hótanir og heimsendaspár opinberra aðila, þeirra sem bera eiga ábyrgð gagnvart almenningi og fái á þeim skýringar. Nú er ekkert „ef“. Nú er vitað að farið var með bábiljur. Voru hin kjörnu og skipuðu yfirvöld svo illa vaxin til sinna verka eða á framgangan aðra og daprari skýringu? 

Við þetta er ekkert að bæta nema taka undir það sem segir í seinni hlutanum hér að ofan.

Ívar Páll Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu segir í pistli á leiðarasíðu Morgunblaðsins í morgun. Hann er að fjalla um misskilning og ranghugmyndir stjórnmálamanna á eðli ssamfélagsins og segir:

Það er ofvaxið skilningi þess stjórnmálamanns að skattahækkanir skuli ekki skila sér að fullu í ríkiskassann. Hann lítur á kýrnar í þessu landi sem skattstofn, ekki lifandi verur. Hann reiknar sig upp í stórauknar tekjur miðað við hinar og þessar skattprósentur. Honum dettur ekki í hug að fólkið í landinu framleiði minna þegar það nýtur minni ávinnings af framleiðslunni.

Þessi stjórnmálamaður horfir á hagkerfið eins og kvikmynd sem búið er að setja á pásu. Hann heldur að hægt sé að gera verðmæti stundarinnar upptæk, án þess að það hafi áhrif á verðmæti framtíðarinnar. 

Þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst hér á landi. Ríkisstjórnin blóðmjólkar almenning og fyrirtæki í og skilur svo ekkert í því að minni peningar komi í kassann. Ástæðan er einföld. Hafi fyrirtæki og almenningur ekki ávinning af því að vinna mikið og framleiða vel þá gerist það einfaldlega ekki. Er þetta einhver ofurhagfræði sem aðeins útvaldir skilja. Nei, þetta vita allir sem á annað borð hafa heilbrigða skynsemi - þó ekki ríkisstjórnin. 

 


Seðlabankastjóri viðurkennir í raun þátt Davíðs og Geirs

Ánægjulegt er til þess að vita að nú sé viðurkennt að ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Seðlabanki Íslands undir stjórn Davíðs Oddssonar hafi staðið rétt að málum haustið 2008 er bankakerfið hrundi.

Á þessum tíma sparaði þáverandi stjórnarandstaða ekki gagnrýnina á Davíð Oddsson fyrir ummæli hans í frægum Kastljósþætti. Maðurinn sagði þar það sem reyndist vera hið rétta. Þjóðin ætti ekki að ábyrgjast vanskilaskuldir óreiðumanna. Í tvígang síðan hefur þjóðin hafnað því að hún taki á sig þessar skuldir.

Þau ríki sem samþykktu að skattleggja almenning vegna skulda bankakerfisins standa nú mjög höllum fæti og líta án efa öfundaraugum til Íslands.

Það vekur hins vegar athygli manns hversu gerilsneydd yfirlýsing Seðlabankastjórans er. Aldrei nokkurn tímann mun hann eða þeir sem að ráðningu hans stóðu víkja einu orði að því fyrri Seðlabankastjórn hafi gert rétt og síst af öllu Davíð Oddsson. Már Guðmundsson talar eins og það hafi verið hrein og skær heppni að stjórnvöld samþykktu ekki ríkisábyrgð á skuldum bankanna við hrunið. Vinstri vængur stjórnmálanna fengi fyrr andnauð og líklega hjartastopp en að hann viðurkenndi staðreyndir málsins. Nei, seint fæst hann til að viðurkenna að sú aðferðafræði sem unnið var eftir frá haustinu 2008 hefur reynst vera farsæl fyrir þjóðina.


mbl.is Stórslys að veita ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðum Fimmvörðuháls fyrir bílaumferð

Vegurinn upp á Fimmvörðuháls hefur verið afskaplega slæmur undanfarin ár. Honum hefur ekki verið viðhaldið á eins og öðrum fjallvegum. Og til hvers á að hafa veg upp á Hálsinn? Hann á einfaldlega að vera lokaður nema fyrir lögreglu og björgunarsveitum.

Þeir sem áhuga hafa á að fara á Fimmvörðuháls eiga að ganga. Gönguleiðin er frábær og einstaklega falleg. Þeir sem vilja fara hraðar yfir geta sleppt því að gagna fossaleiðina með Skógá og farið eftir veginum.

Gönguleiðin frá Básum, um Strákagil, Kattahryggi, Foldu, Morinsheiði og Bröttufönn er líka stórkostleg og hún er styttri en að vísu nokkuð erfiðari.

Fimmvörðuháls á að friða fyrir bílaumferð. Svo einfalt og ágætt er það. 


mbl.is Lokað fyrir umferð að Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prentuð símaskrá heyrir fortíðinni til

Hin prentaða símaskrá er ofmentasta „ritverk“ hér á landi. Ég þekki ekki nokkurn mann sem notar hana lengur. Allflestir nota tölvu til að afla sér upplýsinga um símanúmer og heimilisföng.

Sannast sagna er vefsíða ja.is afskaplega þægileg til notkunar. Þar er þessi ágæti kortavefur sem Samsýn og Já hafa unnið í sameiningu. Heimilisföng blasa við á korti eða loftljósmynd. 

Þeir sem eiga ekki kost á að nota tölvu eða kunna ekki á slíkt eiga að sjálfsögðu þann kost að geta hringt í 118 og fengið upplýsingar um símanúmer og jafnvel leiðbeiningar um að rata á réttan stað. Þar er starfandi afskaplega liðlegt og gott fólk. Einhver kann að benda á að símnotandinn „þurfi“ að greiða fyrir þessa þjónustu og það er rétt. Hún er ekki ókeypis en það er símaskráin ekki heldur þó við getum fengið hana án endurgreiðslu. Ástæðan er sú að aðrir borga fyrir notkun okkar á símaskránni eða öllu heldur notkunarleysið

Netið til hefur gert hinað prentuðu símaskrána svo til úrelta. Hún er fortíðin rétt eins og önnur prentuð rit, eru á sömu leið og tónlist á geisladiskum. Skýrasta dæmið um haldleysi hinnar prentuðu símaskrá er þessi vitleysa að hægt sé að nota hana til líkamsræktaræfinga ... Rök geta varla verið lélegri.


mbl.is Símaskráin nýtist sem 2 kg lóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver niðurlægði bin Landens fjölskylduna?

Fullyrða má að niðurlægingatímabil fjölskyldunnar bin Laden hafi hafist löngu fyrir þann dag er líki Osama var sökkt í sæ.

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. Svo segir í Hávamálum.

Þjóðir geta haft mismunandi álit á hinum látna, hugsjónum hans og verkum, en auður fjölskyldu hans gerði honum kleyft að lifa í vellystingum og stunda hugðarefni sín. Afleiðingarnar urðu þær að þúsundir manna létu lífið. Aðstandendur þeirra eiga alla samúð mína en fjöldskylda bin Ladens enga.


mbl.is Segja fjölskylduna niðurlægða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin stefnir í þjóðargjaldþrot

Af einfaldri skynsemi má draga þá ályktun af fáanlegum upplýsingum um hagkerfið að það eina sem getur bjargað því er aukin verðmætasköpun. Ekki þarf hagfræðing til að stafa þessa staðreynd ofan í fólk.

Norræna velferðarstjórnin hefur þvertekið fyrir þetta og af austrænum myndugleika kemur hún gjörsamlega í veg fyrir að fyrirtæki landsins geti aukið við rekstur sinn og bætt. Hún hefur líka lagt þungt lóð á vogarskálarnar með því að koma í veg fyrir innlenda sem erlenda fjárfestingu og loks er hún komin í alvarleg slagsmál við sjávarútveginn í landinu, mjólkurkúna sjálfa.

Hvernig ríkisstjórn hinna austrænu, úreltu gilda, ætlar að efla gjaldeyrisforðann er öllum hulin ráðgáta. Hún stefnir lóðbeint í þjóðargjaldþrot.


mbl.is Gæti orðið uppurinn eftir 3 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira vandamál en menn halda

Utanvegaakstur er miklu meira vandamál en menn halda og það víða um landið. Margir freistast til að aka í óspilltri náttúru. Bláfjöll eru hringekin að sumarlagi. Einhver lýður lætur sér ekki duga griðland fyrir vélhjól við Jósefsdal, heldur hefur myndað slóða í kringum Bláfjöll.

Sama er með Hengil. Þar leika vélhjólamenn sér í klettaklifri og akstri vestan undir fjallinu, allt í Marardal og út að veginum yfir Mosfellsheiði. Ekið er norðan við hengil, inn í Innstadal og raunar upp á sjálft fjallið.

Á Norðurland hef ég líka séð för eftir vélhjól og einnig fjórhjól. 

Eina ráðið gegn þessu fólki er að taka mynd af því, rétt eins og viðmælendur í þessari ágætu frétt Morgunblaðsins. Þessar myndir á svo að senda í fjölmiðla. Það er það eina sem svona fólk skilur. 


mbl.is Erfitt að eiga við akstur innan verndarsvæðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband