Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Alþjóðaflug um Akureyri

jokull_jpg_800x1200_q95.jpg

Nú þegar aska er tekin að falla í Reykjavík kann að verða erfitt fyrir ferðaþjónustuna að snúa erfiðri aðstöðu sér í hag.

Fæstir í Evrópu og Ameríku gera sér grein fyrir eðli eldgosa. Fólk gæti hæglega haldið að næst fari hraun að renna í Reykjavík eða nágrenni.

Meðfylgjandi gervihnattamynd hefur farið víða. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að hún gerir vont verra fyrir ferðaþjónustu landsins. 

Það er tvíbeint sverð að reyna að ná stöðunni aftur. Að sjálfsgögðu ber að viðurkenna staðreyndir en um leið fær ferðamaðurin það á tilfinninguna að hættulegt sé í Reykjavík.

Þetta er erfitt. Reykjavík er „flaggskip“ ferðaþjónustunnar, eiginlega má segja „því miður“. Þegar inngangurinn inn í landið er lokaður og ekki aðrir kostir í boði þá er illt í efni. Markaðsstofa Norðurlands hefur í nokur ár reynt að vinna Akureyrarflugvelli stöðu í alþjóðlegu flugi. Eðli máls vegna er það mjög erfitt en hversu mikið vildum við ekki núna að þróttmikið flug frá væri til Akureyrar. Tveir inngangar inn í landið í stað eins. Þeir sem ekki hafa áttað sig á þessu hljóta að skilja málið núna.

Ferðaþjónustan er gríðarlega mikivægur atvinnuvegur og mestu máli skiptir að opna landið meira þannig að við séum ekki í sama vanda í framtíðinni verði eitthvað að í Reykjavík eða á Keflavíkurflugvelli. 


mbl.is Öskufall byrjað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða bull er þetta um valdastétt?

Ég hef lengi haft álit á Lilju Mósesdóttur. Hún þorir og er oft skynsöm í tali. Hins vegar dettur hún oftar en ekki ofan í talsmáta vel upp alinna sósíalista og þá verða skilaboðið loðin og oft á tíðum bullkennd. í viðtalinu segir hún meðal annars:

Ég er mjög stolt af því að eiga svona róttækan forseta sem þorir að koma með greiningu sem gengur þvert á viðhorf valdastéttarinnar og það sem maður heyrir frá stofnunum valdsins.

Hver er þessi valdastétt? Í þrjú hundruð manna þjóðfélagi er engin valdastétt og væri svo hvernig á hún að geta þrifist?

Málið er það að þetta stéttartal er löngu liðin tíð. Nú eru það bankarnir sem stýra stórum hluta þjóðfélagsins og ríkisstjórnin gengur erinda þeirra rétt eins og boðskapur fjármálafyrirtækjanna sé sannleikur norrænnar velferðarstjórnar.

Í þrjú hundruð þúsund manna þjóðfélagi finnst ekki valdastétt? Ég skora á þá sem trúa þeirri fyrru að sanna mál sitt. Það getur varla verið erfitt að nefna alla meðlimi þessarar stéttar með nafni. Séu þeir fleiri en svo að það sé hægt þá er um eitthvað annað að ræða. Einnig væri gott að fá að vita hvernig þessi valdastétt beitir valdi sínu.


mbl.is Mjög stolt af forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aska fellur milli Jökulsárlóns og Mýrdals

jokulsarlon_1250.jpgÖskufall sýnist mér vera frá Jökulsárlóni í austri og allt vestur í Mýrdal. Þetta má ráða af vefmyndavélum Veðurstofu Íslands.

Efsta myndin er frá vef Mílu og sýnir Jökulsárlón. skýtur nú skökku við, ísjakarnir orðnir svartir af öskufalli.

Vefmyndavél Vegagerðarinnar við Lómagnúp sýnir bara svartnætti um miðjan dag. Líklega hefur askan klístrast á linsuna og því sést ekkert enda er þarna miðja öskufallsins.

 Á Kvískerjamyndavél Vegagerðarinn sést greinilegt öskufall, minna í suðvestur en í suðaustur. Myndin hér sýnir veginn til suðvesturs.

kvisker_sv.jpg

Í Mýrdal virðist vera nokkur umferð austur upp úr dalnum. Þarna má vel greina öskufall.

Ljóst er því að askan fellur víða um suður- og suðausturland. 

reynisfjall_sv.jpg

 


mbl.is Bændur bíða og vona það besta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungur og graður og óttaðist ekkert

810816_hekla_3.jpg

Ég hef ekki séð mörg eldgos, kannski séð tilsýndar sex eða sjö. Það er nú ekkert miðað við Ómar Ragnarsson hefur séð tuttugu og þrjú, þar af eitt áður en hann fæddist. Víða hef ég þó farið um eldvörp. 

Minningin um marga staði byggist auðvitað á skelfingunni um sprengingar og glóandi hraun.  Raunar hef ég aðeins einu sinni verið í miklu návígi við eldgos. Missti því miður að mestu leyti af gosinu á Fimmvörðuhálsi í fyrra. Þetta var Heklugosið 1981 sem hér eru birtar myndir af. Þarna var ég ungur og graður og gekk einn í tvo tíma að fjallinu.

810816_hekla_2.jpg

Ég gekk fyrir rennandi hraun og allt upp að eldstöðinni. Mjög hvöss suðaustanátt var í bakið og því komist ég afar nálægt gosinu. Ég lagðist á magann og tók myndir, lélegar myndir, en fann þar sem ég lá hvernig landið undir ólgaði. Óttaslegin tók ég á rás til baka. Enginn sá mig en mikið dj... var ég hræddur þarna.

Í annað skipti er ég hræddist svona rosalega mikið þá var ég kominn inn að lónstæðinu við Gígjökulinn í Eyjafjallajökli. Þangað stalst ég einn nokkru fyrir goslok í fyrra og gekk upp að jöklinum. Gosið var enn í gangi og hraunrennsli fyrir ofan. Svo komu þesssar rosalegu sprengingar í gígnum svo allt umhverfið nötraði. Með naumindum hélt ég vatni ... en gekk áfram og náði að skoða það sem ég vildi og fara aftur til baka. 

810816_hekla_1.jpg

Árið 1974 fór ég á þá einu þjóðhátíð í Eyjum sem ég hef lagt á mig að sækja. Það var mikið ævintýri sem gleymist seint. Þrátt fyrir miklar annir af því tagi sem ungir menn leggja á sig án þess að sofa mikið þá gat ég ekki annað en gengið á Heimaklett og á Eldfell, fór raunar ofan í gíginn, hikandi og hræddur.

Annað eldfjall sem mér þykir tilkomumikið er Stóri-Meitill við Þrengsla vegin. Ég koma á fjallið einn í köldu veðri. Kom mér mikið á óvart hversu tilkomumikið það er.

Grindarskörð eru líka ótrúleg náttúrusmíði. Lakagígar eru meiriháttar, allt í miklu stærra sniði en Grindarskörð. Sama er auðvitað með Öskju og Kverkfjöll.

910710-70_grimsvotn.jpg

Þó ég hafi víða of farið þá eru Grímsvötn þau sem mest hafa ógnað mér og á sömu stund heillað. Kemur þar margt til. Þarna hafði kunningi minn Leifur læknir Jónsson, skíðaði í blindhríð fram af þrítugum hamrinum og fallið niður um 70 metra en slasaðist ekki. Jarðfræðingurinn Bryndís Brandsdóttir ók í svipuðu veðri sömu leið framaf fjallinu og hafði það af án þess að slasast mikið. Kraftaverk bjargaði þeim og ferðafélögum þeirra.

Í fyrsta sinn er ég kom á Grímsfjall var bjart og fallegt. Náði að ganga með félögum mínum vestur eftir endilöngu fjallinu og niður á vötnin, undir því og aftur upp austast. Þetta var gríðalega löng leið en virtist í upphafi vera svo ósköp lítil og stutt.

meitill.jpg

Allt í Grímsvötnum vekur ógn. Stærðin, auðnin, víðáttan og saga eldgosa. Samt er óskaplega gaman að koma þangað en eins og oft er sagt, mjög gott að komast í burtu. Ekki er á það bætandi að ég er gríðarlega hræddur við jökulsprungur, sem er ekki gott fyrir fjallamann sem fer víða um á gönguskíðum.

Og auðvitað hef ég margoft gengið á Eyjafjallajökul. Stundum fer ég einn í ferðir en þá á enginn að gera. Vorið 2007 gekk ég yfir Eyjafjallajökul og sú minning er mér kær því nú er hann gjörbreyttur orðinn og örugglega langt þangað til hann verður „samur“.

Efstu myndirnar eru af Heklugosinu í ágúst 1981, næst neðasta myndi er úr Grímsvötnum og sú neðasta er af gígnum í Stóra-Meitlil. Undirritaður tók þær allar. 

 


mbl.is Ekkert dregur úr krafti gossins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aska getur fallið á öllu suðausturlandi

_skufall_1085698.jpg

Loksins er búið að staðsetja eldgosið. Freystenn Sigurðsson, jarðeðlisfræðingur, segir það vera í SV horni Grímsvatna, „á nokkuð hefðbundnum stað, þar sem hefði gosið áður. „Það er ljóst að þetta er miklu meira gos en gosið 2004.“

Þá vitum við það loksins, fimm tímum eftir að gosið hófst. Mér finnst þetta ekki nógu gott miðað við þá tækni sem fyrir hendi er. Ég reiknaði með því að gosið væri norðar, í NV horni Grímsvatna. Reyndist ekki sannspár.

Í fyrra var ekki ljóst hvar fyrra eldgosið væri, hvort það væri neðarlega í Eyjafjallajökli eða á Fimmvörðuhálsi. Það leið og beið. Ég var á meðan orðinn nokkuð viss um að það væri á Hálsinum, annað hvort við Fimmvörðuhrygg eða við sigdældina sem félagar mínir uppgötvuðu fyrir nokkrum árum. Gosið reyndist vera á síðarnefnda staðnum.

Miklu skiptir hvar gýs. Hefði gosið í Bárðarbungu væri allt annað uppi á tengingnum. Bárðarbunga er ógnvænleg eldstöð, eins sú stærsta á landinu. Þar er gríðarlega stór og djúp askja. Ég held að jarðfræðingar óttist mest af öllu gos þarna. Hins vegar er ljóst að eldgos í Grímsvötnum tengjast Bárðarbungu. Ef til vill losa Grímsvötn þrýsting af fyrrnefnda staðnum.

Gosin í Grímsvötnum hafa verið frekar máttlaus á undanförnum áratugum og varla er að búast við öðru en að þetta verði álíka. Það byrjar hins vegar með krafti eins og fram kemur í viðtalinu við Freystein.

Svo er það þetta með öskufallið. Eftir að hafa skoðað veðurspár fyrir næstu daga má gera ráð fyrir því að aska falli allt frá Hornafirði í austri að Vík í vestri. Spáð er norðlægum áttum, vindur slær sér nokkuð til og frá. Svo er það spurningin hvernig háloftavindar haga sér og þá hversu hátt mökkurinn nær. í kvöld og nótt hafa fréttir borist af öskufalli frá Höfn í austri og vestur fyrir Klaustur.

Samkvæmt vefmyndavélum Vegagerðarinnar er blint við Kvísker og sama við Lómagnúp. Í ljósi þessa má ætla að öskufallið verði eins og sjá má á meðfylgjandi korti.


mbl.is Gæti haft áhrif á flugumferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldgos að meðaltali á þriggja ára fresti

jar_skjalftar_landi_2303.png

Samkvæmt veðurspám má búast við að aska falli frá Höfn og vestur fyrir Kirkjubæjarklaustur næstu daga, endist gosið það lengi. 

Það er eins og austurhluti landsins hafi vaknað til lífsins þetta laugardagskvöld. Samkvæmt jarðskjálftakorti Veðurstofu Íslands er hreyfing allt frá Grímsey í norðri og í sveig suður um landið og endar í Eyjafjallajökli. Nær þó ekki út í Vestmannaeyjar.

Þetta er 38. gosið sem verður á eða við landið frá því 1902 og líklegast það tíunda sem verður á þessum tíma í Grímsvötnum, sjá meðfylgjandi upptalningu sem fengin er af hinum ágæta vef Veðurstofu Íslands.

Þetta þýðir eitt eldgos á nærri þriggja ára fresti. Það er nú dálítið mikið miðað við að undanfarna áratugi hefur að sögn jarðfræðinga verið talsvert mikil lægð í eldvirkni á landinu. 

Rétt fyrir landnám, einhvern tímann fyrir árið 900 var mikið og stórt gos einhvers staðar á landinu askan úr því féll um allt landið. Það er hið svokallaða landnámslag og miða fornleifafræðingar fundi sína frá upphafi Íslandsbyggðar við það hvort þeir séu undir eða ofan á þessu lagi.

  • 2011 Grímsvötn
  • 2010 Eyjafjallajökull
  • 2010 Fimmvörðuháls
  • 2004 Grímsvötn
  • 2000 Hekla
  • 1998 Grímsvötn
  • 1996 Gjálp
  • 1991 Hekla
  • 1984 Krafla
  • 1983 Grímsvötn
  • 1981 Krafla 2 gos.
  • 1981 Hekla
  • 1980 Hekla
  • 1980 Krafla 3 gos.
  • 1977 Krafla 2 gos.
  • 1975 Krafla
  • 1973 Neðansjávargos um 5 kílómetra undan ströndinni við Landeyjar.
  • 1973 Heimaey
  • 1970 Hekla
  • 1963-1967 Surtsey
  • 1961 Askja
  • 1947 Hekla
  • 1938 Grímsvötn
  • 1934 Grímsvötn
  • 1933 Grímsvötn
  • 1929 Askja
  • 1927 Askja
  • 1926 Norðaustan Eldeyjar.
  • 1924 Askja
  • 1923 Askja
  • 1922 Askja 2 gos.
  • 1922 Grímsvötn
  • 1921 Askja
  • 1918 Katla
  • 1913 Austan Heklu
  • 1910 Þórðarhyrna
  • 1903 Þórðarhyrna
  • 1902 Grímsvötn  

mbl.is Mikið öskufall á Klaustri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mökkurinn hærri en 2004

ve_ursja.jpgÖskumökkurinn úr gosstöðinni í Grímsvötnum er nú kominn í um 18.000 m hæð ef marka má veðurradarinn á Veðurstofu Íslands. Samkvæmt honum fellur mökkurinn til austsuðausturs og stefnir á Höfn.

Miðað við hæð makkarins virðist gosið vera mun meira en árið 2004 en þá náði hann á fyrsta sólarhing „aðeins“ upp í um 4.000 metra. 

Hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvort þetta er einhver mælikvarði á stærð gossins. 

 


mbl.is Aska farin að falla í byggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskufall í Öræfum

lomagnupur_kl_21_203.jpgAska fellur nú á þjóðveginn á Skeiðarársandi. Þetta má glögglega sjá á vefmyndavél Vegagerðarinnar við Lómagnúp. Raunar er myndavélin í miðjum öskumekkinum því sjá má að aska fellur hvort heldur horft er í átt til Öræfajökuls eða í vestur.

Gæti sem best trúað að þarna sé nokkuð hvasst. Á myndinni sem fylgir fréttinni sést að gosmekkinum hallar í suður og þar með fellur askan meðal annars á Öræfajökul þar sem fjöldi fólks var að ganga á Hvannadalshnúk í daga og síðustu daga. Líklega  verður varhugavert að ferðast á hnúkinn ef aska fellur þar í miklum mæli.

Viðbót: Greinilegt er að öskufallið hefur aukist en það má sem best sjá á meðfylgjandi mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. 

lomagnupur_kl_2146.jpg

Þarna er lögreglubíll sem hefur lokað veginum í austur. Mökkurinn er sem veggur við hann og ekki frýnilegt að halda áfram ferð í þessa átt.


mbl.is Gosið i heimsfréttunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosmökkurinn í 5,5 km hæð

Talsvert villandi er að nota fet enda ættu blaðamenn að vera snöggir að finna út að 18.000 fet eru um 5,5 km.

Gosmökkurinn er því ansi hár. Á fyrsta degi gossin 2. nóvember 2004 náði mökkurinn mest upp í 13 km hæð. Hann er því aðeins hálfdrættingur ennþá, en gosið er aðeins að byrja. 


mbl.is Náði um 20 þúsund feta hæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosstöðvarnar norðan í Grímsvötnum

fra_hellu_ur_visir_is.jpg

Einhvern tími mun líða þar til staðfesting kemur á því hvar gýs í Vatnajökli. Með því að bera saman ljósmyndir úr fjölmiðlum er ljóst að gosið er í Grímsvötnum, en líklega norðan í þeim frekar en á „hefðbundnum“ stað, rétt við Grímsfjall.

Besta myndin hingað til er eftir Hilmar Bender og er úr visir.is, tekin við Hellu eða nágrenni. Tók mér leyfi til að nota hana í tilefni atburðarins, vona að Hilmar taki það ekki illa upp.

Sé dregin lína frá Hellu, yfir endilanga Heklu, og norðaustur yfir landið gengur hún norðan við Grímsfjall. Með því að skoða aðrar myndir, sérstaklega þær sem ertu teknar í kringum Kirkjubæjarklaustur eða þar fyrir austan, má draga aðra línu norður yfir landið. Þessar tvær línur skerast norðan við Grímsfjall, einhvers staðar í Grímsvatnalægðinni.

grimsvotn_kort.jpg

Veðja í augnablikinu á að gosið sé á svipuðum slóðum og gosið 1996, Gjálpargosið, þ.e. nálægt Bárðarbungu.

Þetta er nú ekki mjög vísindaleg nálgun en verður að duga í bili.

Á vef Jarðvísindastofnunar fann ég þetta kort af Grímsvötnum. það sýnir greinilega útlínur öskjunnar. Á vefnum segir:

Grímsvatnasvæðið liggur undir nokkur hundruð metra þykkum ís víðast hvar.  Íssjármælingar og aðrar jarðeðlisfræðilegar athuganir á 9. áratug 20. aldar vörpuðu ljósi á botnlandslag á svæðinu.  
Í ljós kom að Grímsvatnaeldstöðin er um 15 km í þvermál og rís allt að 700-900 m upp af mishæðóttum bergbotni sem liggur í 800-1000 m yfir sjó.  

Í miðju Grímsvatna er samsett askja.  Hún hefur verið greind í þrjá hluta:  norðuröskju (12 km2), suður- eða meginöskju (20 km2) og austuröskju (16-18 km2).  Að meginöskjunni að sunnan liggur Grímsfjall.  Á því ná tveir tindar upp úr ísnum, Svíahnúkar, Eystri og Vestri.  Eystri Svíahnúkur er hærri (1722 m y.s.).

 Skyldi gosið vera í norðuröskjunni?


mbl.is Mjög öflug gosstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband