Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Verkföll eru gamaldags úrræði

Þeir iða allir í skinninu, forsvarsmenn okkar launþega, þá langar svo í verkföll. Sýna úr hverju þeir eru gerðir og hversu duglegir þeir eru að bæta launin okkar. Lítið hafa þeir þó haft fyrir lífinu undanfarin ár nema röfla þungir á brún um vanda eða vandaleysi. Þegar síðan upp er staðið hefur hagvöxturinn verið nægur til að bæta launakjörin, þeir hafa ekkert lagt til undanfarinn áratug. 

Eftir hrunið hafa verkalýðsrekendurnir endurnærst og styrkst og ætla nú hvað sem það kostar í verkföll.

Persónulega afþakka ég að fara í verkfall. Ég ætla ekki að fórna hluta af launatekjum mínum til að bæta sært stolt Guðmundar Gunnarssonar, Gylfa Arnbjörnssonar og annarra álíka sem geta ekki á sér heilum tekið þess að SA hafnaði þriggja ára samningi fyrir páska.

Nú virðist SA tilbúið til að samþykkja þann sama samning en Guðmundur, Gylfi og fóstbræður þeirra eru svo sárir og segja einfaldlega að tímarnir hafi breyst, sá samningur sé ekki til umræðu.

Svona fíflaskap og sýndarmennsku hafa aðilar vinnumarkaðarins sýnt í kjarasamningum í allan vetur. Þessi vinnubrögð eru til skammar.

Verkföll eru gamaldags úrræði. Í dag eru allar forsendur til að semja, upplýsingar liggja fyrir, tengsl milli manna eru greið. Það eina sem vantar er vilja og leggja af þetta dramatíska leikrit sem kjarasamningar virðast allaf byggjast á.

Þessir menn eiga að drullast til að gera það sem launþegar krefjast. Enginn vill verkföll og engar forsendur eru til verkfalla. Sé stolt þessara manna skert þá eiga þeir að ganga til sálfræðings eða fara heim og leggja sig og láta varamenn taka stöðu þeirrra. 


mbl.is Hóta allsherjarverkfalli 25. maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vingulsháttur beggja aðila í kjaraviðræðum

Forseti ASÍ getur haft um stöðuna í kjarasamningunum eins mörg orð og hann vill. Þegar öllu er á botninn hvolft snúast þær um samning til hagsbóta fyrir launþega á vegum samtakanna. Það er slæmt hafi samningur legið á borðinu fyrir páska en SA ekki treyst sér í hann.

Hvert er vandamálið hafi SA nú snúist hugur og vilji semja til þriggja ára? Hefur ASÍ breytt um skoðun eða vilja samtökin hegna SA fyrir vingulshátt eða hafa hagað sér eins og jójó?

Óskiljanlegt er að sá samningur sem ASÍ þótti góður fyrir páska sé að mati forsetans ekki nógu góður núna. Jójó stefnan er greinilega að ná tökum á öllum aðilum vinnumarkaðarins.

Sá lærdómur sem við, almenningur, getum dregið af kjaraviðræðum SA og ASÍ er einfaldlega sá að þær eru leikrit. Sumpart fyrirfram ritað og að hluta spunni.

Ég myndi treysta mér til að búa til kjarasamning á einum degi. í honum yrðu hagsmunir launþega og atvinnurekenda eru tryggðir, ekkert vandamál eða kjaftagangur. Þarf ekki meira en þokkalega fjárveitingu, húsnæði nokkra samstarfsmenn og samningurinn mun liggja á borðinu fyrir kvöldmat.  


mbl.is Ekki hægt að hafa þetta eins og jójó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða er hættulegt orð

Nú tíðkast í hátíðarræðum að tala fjálglega um samstöðu og gagnrýni á gamaldags umræðu sem byggist á kjafthætti og sleggjudómum. Hins vegar hef ég engan hitt sem tilbúinn er að láta af skoðunum sínum til að efla samstöðu. Engann hef ég heldur hitt sem viðurkennir að hann sé með kjafthátt eða grundi illa mál sitt.

Þeir sem krefjast samstöðunnar eru yfirleitt haldnir þeirri þráhyggju að aðrir eyðileggi allt. „Ekki benda á mig ..“ söng Bubbinn og það eru orð að sönnu. Enginn viðurkennir galla sína opinberlega.

Samstaða er hættulegt orð. Skortur á samstöðu þýðir að í mörgum löndum fljúga byssukúlur og lögregla og her lemur á almenningi. Sá sem hefur aðra skoðun er þorri almennings fær að heyra það hér á landi, ekki er sama hver talar. Slík umræða er á villigötum.

Hættum einfaldlega að krefjast samstöðu. Óskum hins vegar eftir málefnalegri umræðu. Svörum á málefnalegan hátt, færum rök fyrir skoðunum okkar. Gerum ekki eins og maðurinn sem ég hitti í heita pottinum á dögunum. Hann var ósammála og lét það í ljós með því að fetta vísifingurinn framan í andlitið á þeim sem hann deildi við og gerði lítið úr skoðunum þeirra. Til hvers að sýna samstöðu með slíkum manni. Málflutningur hans féll mér illa í geð.

Sérhagsmunir eru ekki af hinu vonda. Þjóðfélagið er fullt af sérhagsmunum og það er allt í lagi. Sjúkir, fatlaðir, aldraðir, ungir, atvinnulausir, miðaldra, blankir, ríkir ... Landsbyggðarfólk kvartar hástöfum yfir eldsneytisverði, Reykvíkingar hugsanlega síður.

Fyrir alla muni ekki ætlast til þess að heil þjóð sé steypt í sama mótið. Það er hún einfaldlega ekki. 

 


mbl.is Mikilvægast að þjóðin standi saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagkerfi í öngstræti ríkisafskipta

Þrátt fyrir alla óáran sem hugsast getur er alltaf lífsmark með fólki. Efnahagskreppa er í heiminum, eldgos hafa hrjáð þjóðina, gjaldþrot, atvinnuleysi, gengistryggð lán og skatta- og gjaldastefna ríkisstjórnarinnar. Almennt ætti engum að fallast hendur en engu að síður er ástandið erfitt.

Ívar Páll Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir í viðskiptakálfi blaðsins í dag, 28. apríl 2011.

Íslenska hagkerfið er í öngstræti ríkisafskipta. Ríkissjóður er rekinn með halla og sýgur til sín mest allt sparifé í landinu, sem annars færi að hluta til í fjárfestingu í atvinnulífinu. Fjárfesting er því hverfandi og án fjárfestingar er enginn hagvöxtur.

Ríkið skuldar hundruðum milljarða meira en það á í erlendum gjaldeyri, annað hvort beint eða óbeint. Þess vegna eru gjaldeyrishöft í landinu. Gjaldeyrishöft virka letjandi á erlenda fjárfestingu eða lánveitingar til íslenskra aðila, því fjárfestar eða lánveitendur geta ekki verið vissir um að fá vexti eða arð til baka. Með þessa þröngu erlendu skuldastöðu ríkisins á hagkerfið alltaf yfir höfði sér að gjaldeyrishöftin verði hert.

Vegna þessa kverkataks ríkisins á atvinnulífinu hefur lítið sem ekkert dregið úr atvinnuleysi frá hruni. 

Þó ofangreind klausa fjalli einkum um vanmátt fyrirtækja til launahækkana lýsir hún engu að síður stöðu atvinnulífsins undanfarin tvö ár. Fyrirtækin eru mergsogin, rétt eins og allur almenningur. Því þarf enginn að vera hissa á því að enn er viðvarandi atvinnuleysi, fyrirtækin þori ekki að ráða til sín fólk, þjóðin heldur aftur af sér í neyslu og fjárfestingum. Allt gerist þetta vegna þess að ríkið tekur með valdi allt fjármagn til sín.

Skynsöm stjórnvöld reyna að efla atvinnulífi, hvetja fyrirtæki og almenning til fjárfestinga g neyslu og auka þannig veltuna í þjóðfélaginu.

Í stað skynsamlegrar aðferðafræði beitir ríkisstjórnin einfaldlega gamaldags aðferðum við vandamál nútímans. Og niðurstaðan er gjaldþrot fyrirtækja, atvinnuleysi, þrengingar og erfiðleikar hjá heimilunum.

Svo segja sumir að við þurfum að styrkja þessa ríkisstjórn í stað þess að fara í þingkosningar. ... þjóðin hafi ekki efni á pólitískru upplausnarástandi. Halló ... þannig hefur ástandið verið undanfarin tvö ár. Er ekki kominn tími til að almenningur fái að segja hug sinn eða er það eitthvað sem ekki má spyrja þjóðina álits á? Forsætisráðherra hefur látið hafa það eftir sér að rangt sé að setja skattamál í þjóðaratkvæðagreiðslu og þess vegna hafi verið rangt að setja Icesave undir dóm þjóðarinnar. Svona fólki er ekki viðbjargandi. Stundum er lýðræðið gott og stundum ekki.


mbl.is 208 fyrirtæki gjaldþrota í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugi fyrir kóngafólki tengist greind ...

Ef ég mætti gefa Bretum eitt gott ráð þá væri það að leggja niður konungdæmið. Fjöldi fólks sem hefur ekkert til brunns að bera nema það eitt að hafa fæðst inn í ákveðna ætt og þarf ekkert að hafa fyrir framfærslu sinni, fær verulega rúm fjárráð frá ríkissjóði fyrir iðjuleysi sitt.

Og nú ætlar einn úr klaninu að gifta sig. Sá atburður mun án efa skyggja á alla aðra sambærilega atburði klansins. Hef þann grun að áhugi fyrir heljarheitunum sé í beinu sambandi við greindarvísitölu, þ.a. ástæðan fyrir áhugaleysi er vitsmunaskortur. Viðurkenni hér með að ég fæ kjánahroll þegar fjölmiðlar segja frá aðskiljanlegum konungdæmum evrópskum. Held þó áfram að lifa með heimsku minni.


mbl.is Tjaldað við Westminster Abbey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarar ráðherrann eða saltar

Las með athygli bréf Samtaka lánþega til Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Bréfið er vel orðað og hnitmiðað. Í því eru engar málalengingar, ekkert málskrúð heldur beinar spurningar. Gott og heiðarlegt bréf.

Nú reynir á ráðherrann. Er hann maður til að svara bréfinu ítarleg eða lætur hann sér nægja að svara með almennri umfjöllun. Geri varla ráð fyrir að hann salti það í þeirri von að það gleymist.

Það sem mestu máli skiptir er að stjórnvöld svari almenningi. Eitt af því mikilvægasta er hver ber ábyrgð á því tjóni sem lánþegar hafa orðið fyrir vegna ólögmætra innheimtuaðgerða.  


mbl.is Sendir Árna Páli opið bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmennirnir Sigmundur Ernir og Tryggvi Þór beita Húnvetninga valdi

Lögð hefur verið fram á Alþingi þingsályktunartillaga sem hefur það að markmiði að taka auðlind frá einu sveitarfélagi til hagsbóta fyrir annað. Aðferðafræðin byggist einfaldlega á yfirgangi og valdbeitingu í nafni fjölmennis gegn þeim aðila sem er fámennari og hefur fátt eitt sér til varnar nema tilvist sína.

Þeir sem standa að hinni einstæðu þingsályktunartillögu eru Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í sama kjördæmi. Af sóma sínum og heiðri leggja þeir til að þjóðvegurinn til Akureyrar verði styttur um 14 km með því að taka hann framhjá Blönduósi. Í greinargerð með þingsályktuninni segja þeir:

Eðlilega óttast ýmsir íbúar á Blönduósi að missa spón úr aski sínum dragi að ráði úr umferð þar. Á móti kemur að á þriggja kílómetra kafla nýju norðurleiðarinnar, sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um [...] mætti koma upp þjónustu fyrir vegfarendur sem bætti slíkan missi upp.

Ferðaþjónustu á Blönduósi meta þeir vinirnir á við eina sjoppu. Það sýnir líklega skýrast hversu vel tvímenningarnir eru að sér. Þeir vilja draga úr tekjumöguleikum Húnvetninga til allrar framtíðar og skenkja þeim eina sjoppu í sárabætur.

17.000 krónur á dag

Framkvæmdastjóri Kea-hótelanna hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru að útlendur ferðamaður sem heimsækir Akureyri eyði að jafnaði sautján þúsund krónum á dag. Þessi fjárhæð skiptir Akureyringa gríðarlegu máli. Hvað myndi nú gerast vildi svo ólíklega til að ferðamenn hefðu framvegis ekki áhuga ekki staldra við í bænum? Líklega myndi bæjarfélagið, fyrirtækin og íbúarnir finna ansi illilega fyrir samdrætti í tekjum.

Hringvegurinn er mikilvæg auðlind. Á Blönduósi er gott samfélag. Þar er ferðaþjónustan ekki eins langt á veg komin og á Akureyri en hún og fleiri fyrirtæki treysta á viðskipti við þá sem leggja leið sína um hringveginn. Gott hótel, gistihús og tjaldsvæði stuðlar að því að fólk gistir á Blönduósi. Þar er stór matvöruverslun,veitingahús, bakarí, apótek og margvísleg önnur þjónusta. Í stuttu máli sagt, þarna er flest sem þarf svo samfélagið gangi snurðulaust fyrir sig. Og samfélagið er öll Austur-Húnavatnssýsla, Blönduós er miðstöð þjónustu fyrirdreifbýlið.

Nú er ekki gott að vita af hvaða ástæðu þingmennirnir Sigmundur Ernir og Tryggvi Þór kjósa að líta framhjá þessum staðreyndum. Eitt er þó ljóst. Sá sem heldur því fram að ferðaþjónustan á Blönduósi sé aðeins ein sjoppa fer annaðhvort vísvitandi með rangt mál eða er óskaplega illa að sér. Hvort skyldi nú vera verra?

Mega viðskipti tapast?

Um 900 bílar aka ádegi hverjum í gegnum Blönduós að meðaltali allt árið. Á sumrin er meðaltalsumferðin miklu meiri eða nærri 1.500 bílar en að vetrarlagi ermeðaltalið „aðeins" um 500 bílar. Miðað er við tölur frá 2009.

Hvaða möguleikar eru áþví að ferðafólk stoppi á Blönduósi? Um það má eflaust deila. Sé gert ráð fyrir því að aðeins 10% bíla stoppi í bænum og í hverjum þeirra sé verslað fyrir um 4.000 krónur er veltan af þjóðveginum um 138 milljónir króna. Þarf samfélagið í Austur-Húnavatnssýslu ekki á þessari veltu að halda? Að þessu leyti er enginn munur á Blönduósi og Akureyri. Bæði samfélögin stóla á tekjur af ferðaþjónustunni.

Styrkur Blönduóss kemur öllum íbúum í Austur-Húnavatnssýslu við. Tökum bara eitt dæmi. Stór matvöruverslun Samkaupa Úrvals hefur tekjur af ferðamönnum af þjóðveginum. Dragi úr viðskiptum leiðir það án efa til þess að draga þarf úr starfsmannahaldi, vöruúrval minnkar, verslunin dregst saman. Gæti ekki verið að eigendur velti fyrir sér hvort reksturinn sé fyrirhafnarinnar virði?

Slysin

Því hefur verið kastað fram að mörg slys hafi orðið á hringveginum sitt hvorum megin við Blönduós og því sé nauðsynlegt að byggja nýjan veg. Þetta eru ekki haldbær rök vegna þess að gallaðan veg þarf fortakslaust að laga. Ekki dugar að byggja nýjan og skilja„slysagildrurnar" eftir á þeim gamla.

Í þessu felst auðvitaðkjarni málsins. Hringvegurinn er ekki öruggur, á honum er margir gallar. Nefna má til dæmis einbreiðu brýrnar, hann er víða alltof mjór, vegaxlir eru sjaldgæfar, ekki er skilið á milli akstursstefna, krappar beygjur hafa valdið slysum og fleira má nefna. Í stuttu máli, endurhanna þarf þjóðvegakerfið öryggisins vegna.

Þingmennirnir Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson ættu að láta af ofbeldi sínu sem þingsályktunartillaga þeirra sannarlega er. Ef einhver snefill af sóma er til í þeim félögum ættu þeir að draga tillöguna til baka. Ef ekki má alltaf vonast til þess að Alþingi felli hana.

Reynt hefur verið aðbúa til þrætu milli Akureyringa og Blönduósinga. Það hefur ekki tekist. Þeir Akureyringar sem ég þekki hafa einfaldlega mikinn skilning á varnarbaráttu sveitarfélags á landsbyggðinni. Þó stór sé er Akureyri í sömu sporum gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna skiptir meira máli að efla samtakamátt sveitarfélaga en að koma með vitlausar tillögur sem verða til að sundra þeim.

 Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 26. apríl 2011. 


Apple er með 85% markaðarins

Afar auðvelt er fyrir Sony að ná takmarki sínu og verða næst stærsti framleiðandi „spjaldtölva“ í heiminum. Sá stærsti er Apple og markaðshlutdeild fyrirtækisins er 85%.

Næst stærsta fyrirtækið í þessum geira er Samsung með 8% markaðsins. Í þriðja sæti er Arcos sem er með 2%. 

Sony ætlar sem sagt að segja Samsung stríð á hendur. Það verður hins vegar að segjast eins og er að Apple er enn andstæðingur sem Sony mun eiga erfitt með að leggja af velli.


mbl.is Sony segir iPad stríð á hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn þorir ekki að gagnrýna ríkisstjórnina

Innflutningur hefur að sjálfsögðu mikla sérstöðu. Erlend fyrirtæki í útflutningi búa ekki við sömu vandamál og innlend fyrirtæki sem eru í vandræðum með fjármögnun rekstrarins, íslensku bankarnir eru hálflokaðir. Innflutningsaðilar eru margir komnir á framfæri bankanna, skuldirnar afskrifaðar og möguleikar til markaðsóknar allt aðrir en þeirra fyrirtækja sem enn dröslast með gengistryggðar skuldir.

Til viðbótar þessu eru innlendir aðilar í gríðarlegum vanda vegna skattlagningar. Markaðurinn er ábyggilega miklu erfiðari en áður, fólk heldur að sér höndum, verslun dregst saman sem og öll neysla. Böndin berast auðvitað að ríkisstjórninni sem gerir lítið til þess að örva neyslu. Hún kann ekkert nema gamaldags bannaðferðir. Þetta veit Seðlabankinn en ósjálfstæði hans er slíkt að hann ræðir ekkert aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar né heldur vogar hann sér að gagnrýna hana.

Vandamál þjóðarinnar er ríkisstjórnin, hún kemur í veg fyrir eðlilegan hagvöxt.


mbl.is Bakslagið kom fyrr en Seðlabankinn bjóst við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama gamla leikritið ...

Þetta leikrit sem kallast kjaraviðræður fer nú að verða ansi leiðigjarnt og ekki síst eru leikararnir orðnir afar þreytulegir. Textinn er ávallt hinn sami, allt er svo fyrirsjáanlegt og samkvæmt ævafornu ritúali.

Atvinnurekendur koma með hugmyndir, launþegar (stundum nefndir verkalýðssamtök) segja tilboðið gangi alltof skammt. Þeir koma svo með tillögur að móti sem atvinnurekendur ná vart andanum yfir og vísa út af borðinu. Og svo koll af kolli, nærri því út í það óendanlega.

Svo koma einhverjir hurðaskellir, einhverjir eru beðnir um að taka stöðuna sem persónulega árás og ráfa út með grátinn í kverkunum og kvarta utan í fjölmiðla sem skrásetja samviskusamlega leikinn og halda að leikritið sé raunveruleikinn.

Hvernig stendur á því að þjóðin þurfu að horfa upp á þessa sýningu ár eftir ár? Kunna þessir leikendur ekki neitt annað en að gera það sem þeir hafa gert undanfarna áratugi?

Upplýst fólk hlýtur að geta unnið kjarasamninga á fljótlegri og skynsamlegri hátt en á þennan forneskjulega sem greinilega er ekkert annað en tímaeyðsla fyrir alla aðila.


mbl.is Getur haft varanleg áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband