Þingmennirnir Sigmundur Ernir og Tryggvi Þór beita Húnvetninga valdi

Lögð hefur verið fram á Alþingi þingsályktunartillaga sem hefur það að markmiði að taka auðlind frá einu sveitarfélagi til hagsbóta fyrir annað. Aðferðafræðin byggist einfaldlega á yfirgangi og valdbeitingu í nafni fjölmennis gegn þeim aðila sem er fámennari og hefur fátt eitt sér til varnar nema tilvist sína.

Þeir sem standa að hinni einstæðu þingsályktunartillögu eru Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í sama kjördæmi. Af sóma sínum og heiðri leggja þeir til að þjóðvegurinn til Akureyrar verði styttur um 14 km með því að taka hann framhjá Blönduósi. Í greinargerð með þingsályktuninni segja þeir:

Eðlilega óttast ýmsir íbúar á Blönduósi að missa spón úr aski sínum dragi að ráði úr umferð þar. Á móti kemur að á þriggja kílómetra kafla nýju norðurleiðarinnar, sem þessi þingsályktunartillaga fjallar um [...] mætti koma upp þjónustu fyrir vegfarendur sem bætti slíkan missi upp.

Ferðaþjónustu á Blönduósi meta þeir vinirnir á við eina sjoppu. Það sýnir líklega skýrast hversu vel tvímenningarnir eru að sér. Þeir vilja draga úr tekjumöguleikum Húnvetninga til allrar framtíðar og skenkja þeim eina sjoppu í sárabætur.

17.000 krónur á dag

Framkvæmdastjóri Kea-hótelanna hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru að útlendur ferðamaður sem heimsækir Akureyri eyði að jafnaði sautján þúsund krónum á dag. Þessi fjárhæð skiptir Akureyringa gríðarlegu máli. Hvað myndi nú gerast vildi svo ólíklega til að ferðamenn hefðu framvegis ekki áhuga ekki staldra við í bænum? Líklega myndi bæjarfélagið, fyrirtækin og íbúarnir finna ansi illilega fyrir samdrætti í tekjum.

Hringvegurinn er mikilvæg auðlind. Á Blönduósi er gott samfélag. Þar er ferðaþjónustan ekki eins langt á veg komin og á Akureyri en hún og fleiri fyrirtæki treysta á viðskipti við þá sem leggja leið sína um hringveginn. Gott hótel, gistihús og tjaldsvæði stuðlar að því að fólk gistir á Blönduósi. Þar er stór matvöruverslun,veitingahús, bakarí, apótek og margvísleg önnur þjónusta. Í stuttu máli sagt, þarna er flest sem þarf svo samfélagið gangi snurðulaust fyrir sig. Og samfélagið er öll Austur-Húnavatnssýsla, Blönduós er miðstöð þjónustu fyrirdreifbýlið.

Nú er ekki gott að vita af hvaða ástæðu þingmennirnir Sigmundur Ernir og Tryggvi Þór kjósa að líta framhjá þessum staðreyndum. Eitt er þó ljóst. Sá sem heldur því fram að ferðaþjónustan á Blönduósi sé aðeins ein sjoppa fer annaðhvort vísvitandi með rangt mál eða er óskaplega illa að sér. Hvort skyldi nú vera verra?

Mega viðskipti tapast?

Um 900 bílar aka ádegi hverjum í gegnum Blönduós að meðaltali allt árið. Á sumrin er meðaltalsumferðin miklu meiri eða nærri 1.500 bílar en að vetrarlagi ermeðaltalið „aðeins" um 500 bílar. Miðað er við tölur frá 2009.

Hvaða möguleikar eru áþví að ferðafólk stoppi á Blönduósi? Um það má eflaust deila. Sé gert ráð fyrir því að aðeins 10% bíla stoppi í bænum og í hverjum þeirra sé verslað fyrir um 4.000 krónur er veltan af þjóðveginum um 138 milljónir króna. Þarf samfélagið í Austur-Húnavatnssýslu ekki á þessari veltu að halda? Að þessu leyti er enginn munur á Blönduósi og Akureyri. Bæði samfélögin stóla á tekjur af ferðaþjónustunni.

Styrkur Blönduóss kemur öllum íbúum í Austur-Húnavatnssýslu við. Tökum bara eitt dæmi. Stór matvöruverslun Samkaupa Úrvals hefur tekjur af ferðamönnum af þjóðveginum. Dragi úr viðskiptum leiðir það án efa til þess að draga þarf úr starfsmannahaldi, vöruúrval minnkar, verslunin dregst saman. Gæti ekki verið að eigendur velti fyrir sér hvort reksturinn sé fyrirhafnarinnar virði?

Slysin

Því hefur verið kastað fram að mörg slys hafi orðið á hringveginum sitt hvorum megin við Blönduós og því sé nauðsynlegt að byggja nýjan veg. Þetta eru ekki haldbær rök vegna þess að gallaðan veg þarf fortakslaust að laga. Ekki dugar að byggja nýjan og skilja„slysagildrurnar" eftir á þeim gamla.

Í þessu felst auðvitaðkjarni málsins. Hringvegurinn er ekki öruggur, á honum er margir gallar. Nefna má til dæmis einbreiðu brýrnar, hann er víða alltof mjór, vegaxlir eru sjaldgæfar, ekki er skilið á milli akstursstefna, krappar beygjur hafa valdið slysum og fleira má nefna. Í stuttu máli, endurhanna þarf þjóðvegakerfið öryggisins vegna.

Þingmennirnir Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson ættu að láta af ofbeldi sínu sem þingsályktunartillaga þeirra sannarlega er. Ef einhver snefill af sóma er til í þeim félögum ættu þeir að draga tillöguna til baka. Ef ekki má alltaf vonast til þess að Alþingi felli hana.

Reynt hefur verið aðbúa til þrætu milli Akureyringa og Blönduósinga. Það hefur ekki tekist. Þeir Akureyringar sem ég þekki hafa einfaldlega mikinn skilning á varnarbaráttu sveitarfélags á landsbyggðinni. Þó stór sé er Akureyri í sömu sporum gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna skiptir meira máli að efla samtakamátt sveitarfélaga en að koma með vitlausar tillögur sem verða til að sundra þeim.

 Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 26. apríl 2011. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband